sunnudagur, 7. júní 2009

Dalai Lama er áhættuþáttur

Bjarni prédikar:

Funduð þið hvað það var gott að fá Dalai Lama í heimsókn hér um daginn? Það fylgdi honum gott andrúmsloft inn í allt gjammið og gargið sem nú ríkir á eyjunni okkar. Ég held að við höfum öll verið mest hissa á því hvað þessi maður var afslappaður og leyfði sér að vera nánast barnslegur ekki síst þegar hann hló af minnstu tilefnum í opinberum viðtölum og lét forvitnina stjórna sér umhugsunarlaust.

Og svo spyr maður sig, hvað veldur því að í kringum þennan mann skuli skapast sú staða að allir valdamenn verði að gera það vandlega upp við samvisku sína hvort þeir vilji yfir höfuð hitta hann og taka á móti honum? Alla langar í raun að hitta Dalai Lama en það er bara áhættuatriði. Íslensk stjórnvöld urðu að taka það skírt fram að heimsókn Dalai Lama væri ekki á þeirra vegum. Þau urðu að gera það vegna þess að það mátti ekki misskiljast. Dalai Lama er áhættuþáttur. Sjálfur er hann í hópi þeirra einstaklinga sem taldir eru í mestri lífshættu. Hann gæti ekki gegnið inn hjá VÍS eða Sjóvá og keypt sér líftryggingu. Þeir myndu ekki vilja versla við hann vegna þess að hann ástundar áhættulifnað.

Ég hitti mann um daginn sem er í svipaðri stöðu og Dalai Lama hvað þetta varðar. Ég vil ekki nefna nafnið hans vegna þess að það gæti kostað mig vesen en við hittumst í sturtu niðri í Laugum, stóðum þarna andspænis hvor öðrum og enda þótt vatnið í sturtunni væri volgt og gott þá rann mér kallt vatn milli skinns og hörunds. Þessi maður er gangandi áhættuatriði, þekktur handrukkari og ofbeldismaður. Ég kinkaði til hans prestasvipnum bara til að hafa alla góða en fór í gegnum það í huganum að það yrði nú ekki mikið úr manni í höndunum á þessari gangandi vígvél.

Já, sumt fólk er bara þannig að maður verður að umgangast það fimlega. Það skal enginn halda að ég hafi mælt mér mót við þennan ónefnda mann, hann var þarna algerlega á eigin vegum og ég vil taka skýrt fram að á milli okkar eru engin tengsl. Samt lét ég son minn sem er 17 ára geta upp á því við kvöldverðarborðið með hverjum ég hefði veri í sturtu þemnnan morgun og hann náði því í þriðju atrennu!

Hvað er það sem Dalai Lama á sammerkt með ofbeldisrukkaranum? Það er persónuvald. Báðir búa yfir valdi sem hreyfir umhverfið hvar sem þeir koma. Báðir ástunda þeir áhættulíferni.
Ofbeldismaðurinn góðkunni heldur úti heimasíðu þar sem hann birtir myndir af sjálfum sér í misjöfnu ástandi og félagsskap. Á einni mynd er hann blóðugur í framan en textinn gefur í skyn að andstæðingurinn hafi verið eitthvað illa fyrir kallaður og því ekki getað verið með í myndatökunni. Á annarri mynd er hann á fundi með Geira í Goldfinger og fer þar vel á með öllum. Allt eru þetta skilaboð um vald.

Þegar maður gúgglar Dalai Lama upp í tölvunni kemur í ljós að Tíbeska útlagastjórnin kann líka vel að koma skilaboðum sínum til umheimsins. Það tekur enga stund að finna greinagóðar lýsingar á 15 daga flótta Dalai Lama frá Lhasa í Tíbet árið 1959 yfir fjallaskörð og vegleysur uns hann slapp yfir Indversku landamærin eftir að Kínverjar höfðu bælt niður mótmæli Tíbeta þar sem krafist var sjálfstjórnar og friðar. Allar eru þessar frásagnir klár og skýr skilaboð um vald. Og þegar Dalai Lama hvikar ekki frá hinni friðsamlegu aðferð enda þótt Tíbeska þjóðin sé í sífellu beitt ofríki, helgistaðir hennar jafnaðir við jörðu og menningu hennar og trú úthýst með skipulagðir hörku þá eru þar á ferðinni svo sterk skilaboð um vald að það er ekki hægt að horfa framhjá því. Upp í hugann koma orð frelsarans Jesú „Slíðra sverð þitt! Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla.” (Matt 26.52) “Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða.” (Matt. 5.5-6)
Sturtufélagi minn og Dalai Lama eru fulltrúar ólíks valds.Átakalínan í veröldinni stendur og hefur ætíð staðið á milli þess valds sem safnar sjálfu sér og þess valds sem dreifir sér út til allra. „Seg þú okkur, með hvaða valdi gerir þú þetta?” spurðu fraísear og fræðimenn Jesú. „Hver hefur gefið þér þetta vald?“ (Lúk. 20.2)

Vald hógværðarinnar, valdið sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, valdið sem óttast ekki ofbeldið og hræðist ekki hótanirnar, valdið sem hlær og grætur, valdið sem gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Þetta er valdið sem á veröldina. „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu.” Sagði Jesús. Taktu eftir orðalaginu: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóðna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lasunargjalds fyrir alla.” (Mark. 10.42-45)

Í huga Jesú er þvingunarvaldið ekki eiginlegt vald heldur sýndarvald. Hann talar um þá sem teljast ráða fyrir þjóðum og útskýrir hvernig þeir eiga yfirganginn sameiginlegann og biður fylgjendur sína að líkjast þeim ekki. „Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóðna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lasunargjalds fyrir alla.” Sumarið 2002 þegar íslensk stjórnvöld brutu af sér gegn Falun Gong og handtóku m.a. 60 manns í einni aðgerð fyrir það að raska almannaöryggi með íhugun og leikfimi þá var íslensk þjóðarsál að nálgast hámark þess valdafyllirís sem nú hefur leitt ógæfu yfir okkur. Einkenni þess valds sem jafnan er talið ráða fyrir þjóðum eru mjög auðþekkjanleg. Einkum er það einkennandi þegar mjög mikið af þessu valdi safnast saman á einn stað að heimska þess verður augljós. Og við skulum ekki gera svo lítið úr sjálfum okkar að hneykslast á reiðum Kínverskum sendifulltrúum sem koma og fara, eða horfa til þarlendra stjórnvalda með yfirlætis vanþóknun. Okkur skyldi duga að minnast þess að enda þótt ólíku sé saman að jafna, framgöngu íslenskra valdsmanna eða kínverskra er kemur að mannréttindamálum, þá erum við sem þjóð engu að síður aðilar að stríði og manndrápum fyrir tilstuðlan okkar eigin valdamanna. Þarna er ekki eðlismunur á Kínverjum og Íslendingum heldur einungis stigsmunur.

Nú óttumst við um hag lands og lýðs og þau svartsýnustu á meðal okkar telja jafnvel að þjóðin sé að glata landi sínu og sjálfstæði. Tíbeska þjóðin, menning hennar og trú, er lifandi vitnisburður um það hvernig þjóð fer að því að eiga land. Enginn maður lítur svo á að Tíbet sé eign Kína. Allir vita að það er Tíbetska þjóðin sem á landið enda þótt á annað hundrað þúsund þeirra séu landflótta og þeir hafi ekkert formlegt vald á landi sínu. Og hvað sem öllu líður er Dalai Lama óskoraður leiðtogi þessarar þjóðar.

„Sælir eru hógværir því þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstri eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.”

Heyrum nú hvernig Guðspjall dagsins talar inn í þessar hugsanir:„Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. [...] Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“” (Matt. 11.25-30)

Ef íslensk þjóð leggur ást á jöfnuð og virðingu, ef hún gleymir ekki sögu sinni en temur sér sið hógværrar trúar og staðfastrar ástar á réttlætinu þá mun hún verða farsæl og lifa í þessu landi. Að öðrum kosti hefur hún nú þegar afhent það frá sér.
Amen.