mánudagur, 14. nóvember 2011

Hann mun minnast veðurbarinna andlita

Prédikun okkar frá í gær:

Fyrir nokkrum árum fórum við hjónin til Amsterdam í þeim erindum að kynna okkur aðstæður fíkla og vændiskvenna. Gestgjafar okkar meðan á leiðangrinum stóð voru samtökin Street Corner Work sem halda úti margvíslegu félagsstarfi og þjónustu við jaðarhópa í stórborginni. Þessa daga sem við dvöldum þarna uppgötvuðum við að þeldökkur maður sem við sáum iðulega bregða fyrir á götunni var leynilegur lífvörður okkar, 150 kílóa vöðvafjall sem enginn vildi abbast upp á, enda sóttum við á kvöldin og um nætur staði og borgarhluta sem ekki þóttu tryggir fyrir ferðamenn. Ég gleymi ekki þeirri ónotalegu tilfinningu fyrsta daginn er leigubílstjórinn skilaði okkur inn í hverfið þar sem við héldum mest til að hann bað okkur að vera bara snögg út þegar hann stöðvaði bílinn og vart höfðum við skellt bílhurðunum er við heyrðum samlæsinguna smella og sáum bílinn bruna hratt á braut eins og einhver væri á eftir honum. Í þessari borgarheimsókn áttum líka eftir að lenda í aðstæðum sem okkur hefði ekki órað fyrir eins og þeim að koma inn á stað þar sem við sátum í hópi meira en hundrað kannabisneytenda og loftið var þykkt af sætum reyk. Sessunautar okkar það kvöld tóku öllu sem við sögðum sem ranghugmyndum. Í fyrsta lagi lögðust þeir fram á borðið í hlátri þegar við sögðum þeim að við værum prestar ofan af Íslandi og þegar þess var getið að kvenpresturinn héti hvorki meira né minna en Jóna voru þeir vissir um að efni kvöldsins væri sérstaklega gott. „Reverant Joint!”

Við héldum út til Amsterdam með þær hugmyndir í kollinum að vændi og fíkniefnaneysla væri í betra horfi í Hollandi en annarsstaðar vegna þess að hvoru tveggja hefði verið fundnir löglegir farvegir og því auðveldara að fylgjast með þessum málaflokki. Hins vegar komumst við fljótt að því að svo er ekki, því að í Amsterdam er kerfið tvöfalt, annars vegar hinn löglegi vettvangur kannabiskaffihúsa og vændiskaupa þar sem konur standa í útstillingargluggum í Rauða hverfinu eins og hver önnur söluvara, og hins vegar öll neðanjarðarstarfssemin með hörðum efnum og götuvændi. Á brautarstöðinni og víðar var okkur sýnt hvar barnungar stúlkur seldu sig fyrir fíkniefni og okkur leitt fyrir sjónir hvernig viðleitni borgaryfirvalda í Amsterdam til að semja sátt við veruleika eiturlyfja og vændis hefur ekki minnkað glundroða og eymd.

Við hjónin áttum sterka trúarupplifun eitt kvöldið þar sem við gengum með starfsfólki Street Corner Work í Rauða hverfinu. Við höfðum gengið fram hjá hverjum glugganum á fætur öðrum baðaðan rauðu ljósi þar sem fáklæddar konur stóðu með svipbrigðalaus andlit og sorgina í augnaráðinu.

Sem við erum þarna á gangi grátandi inní okkur innan um þennan ömurlega túrisma komum við að glugga einum sem bar annað yfirbragð. Merki Hjálpræðishersins blasti við og fyrir miðjum glugga þar sem annars hefði átt að vera niðurlægð manneskja til sýnis lá opin Biblía með stóru fallegu letri þar sem undirstrikuð voru orðin sem einmitt eru guðspjall þessa sunnudags:

„Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann. Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11.25-30)

Þarna lá þessi gamla Biblía í útstillingarglugganum og hrópaði út í skarkala og skelfingu götunnar. Heróp ritningarinnar var máttugra en orð fá lýst, sannleikur Orðsins lýsti og ljómaði í hógværð og friði svo að enginn sem fram hjá gekk gat varist mætti þess og mildi. Vegfarendum var opinberuð sú staðreynd að þeir ættu val. Fólk á val og fólk skal eiga val. Hafi ég einhverntíman upplifað huggun og svölun í Guðs Orði þá var það þar sem við stóðum við þennan glugga Hjálpræðishersins í Amsterdam og skynjuðum hinar óbærilegu byrðar sem lagðar eru á lifandi fólk og þær byrðar sem við leggjum á okkur sjálf með röngu vali, röngum ákvörðunum. Þú átt val, þú mátt velja gott líf! Sagði gamla fallega Biblían og bar með sér yfirvegun, fullvissu og ást.

Við lifum raunar í menningu sem er með valfrelsi á heilanum. Tíðarandinn vill fullvissa okkur um að allir eigi val og að frelsi til að velja sé einkenni samfélags okkar. Gatan þar sem ég bý fékk tengingu við ljósleiðara í haust. Skyndilega eigum við val um margar, margar sjónvarpsrásir sem við höfum bara ekkert beðið um. Teiknimyndir og tískuþættir streyma til okkar, fréttir frá erlendum stöðvum, Discovery Channel og Guð veit hvað. Meira val, meira frelsi. Við þekkjum öll þessa tegund af vali, þessa tilfinningu fyrir auknu frelsi. Og svo þegar þú slekkur á sjónvarpinu eða gengur út úr mollinu eða hvar þú hefur valið og valið og valið, þá ertu samt einhvern veginn engu nær. Biblían í glugganum í rauða hverfinu bar vitni um öðruvísi valfrelsi. Fólk á val, segir trúin, fólk skal eiga val. Valfrelsið sem hér um ræðir er þó ekki frelsi til að velja sér varning eða þjónustu heldur byrðar. Þeir nýju lífsmöguleikar sem Jesús kynnir okkur í persónu sinni og orði eru í því fólgnir að velja sér réttar byrðar. Þú mátt ráða hvað þú berð er Jesús að segja. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér...”

Lífið er þungbært. Því fylgja sorgir sem enginn velur sér, áhyggjur og margvíslegur sársauki sem enginn biður um. Síðustu daga höfum við fylgst með leit að týndum ferðamanni á Sólheimjökli sem bar þann árangur að maðurinn fannst en var þá látinn. Nokkur hundruð björgunarsveitamenn víða að af landinu völdu að leggja á sig erfiði við hættulegar aðstæður í leit að manninum og þegar fréttamenn ræddu við leiðangursstjórana voru þeir ætíð vongóðir og gengu út frá því að maðurinn gæti verið á lífi. Og enda þótt veður væri óhagstætt og jökullin varhugaverður voru þeir hugraustir og víluðu ekki fyrir sér erfiðið sem leitinni fylgdi. Byrðarnar sem þetta duglega og góða fólk hafði valið sér voru þeim ekki þungar þótt fæst okkar gætu staðið í þeirra sporum. Hverju haldið þið að það hafi breytt fyrir bróðurinn sem kominn var frá Svíþjóð og fyrir ástvinina heima að nokkur hundruð óvandabundnir sjálfboðaliðar skyldu láta sig varða um afdrif hins týna? Hversu mikil huggun í harminum er ástríða björgunarsveitanna, umhyggjan fyrir lífinu, samlíðunin? Og þegar bróðirinn um ókomna tíð mun fara í gegnum sorg sína munu veðurbarin andlit björgunarsveitamanna, traustar hendur sem báru bróður hans látinn til byggða vera minning um virðingu fyrir lífinu. Þar verður ekki minning um svipbrigðalaus andlit eða vonleysi í augum heldur minning um sorg sem fyllt var hluttekningu.
Takið á ykkur mitt ok segir Jesús. Það er ok hluttekningarinnar, samlíðunarinnar.
Þegar við veljum að yfirgefa hvert annað, þegar firringin ræður í samskiptum, hvort sem það birtist í rauðum hverfum stórborga, klámkvöldi á Players í Kópavogi eða hvernig sem við annars setjum samferðamenn okkar út í kuldann, þá erum við gengin á vit hinnar tómlátu sorgar þar sem allir eru að tapa. Þótt heilt mannlíf færi í súginn á Sólheimajökli bar atburðarásin öll lífinu vitni. Dauði þessa unga manns var umvafinn von og huggun.

Það er þetta val sem Jesús heldur á lofti og krefur okkur um að varðveita. Það er þess vegna sem ofbeldismenning er ekki líðandi. Það er ekkert val fólgið í klámkvöldum fyrir ungmenni heldur er eðli slíkrar starfsemi höfnun á frjálsu vali.
Það er kristniboðsdagurinn í dag. Þótt fæst okkar treysti sér upp á jökla erum við öll kölluð til að vera í björgunarsveit mennskunnar. Við erum öll kölluð til þess að taka á okkur ok Krists, vera reiðubúin að bera byrðar hvers annars og standa upp í þágu þeirra sem svipt eru mennsku sinni.

Amen.

fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Af heilum hug

Jæja, vinir, nú er það sjálfur útgáfudagur bókarinnar sem við hjónin höfum unnið að ásamt Björgu Árnadóttur rithöfundi í meira en heilt ár.

Bókin ber nafnið Af heilum hug og við erum þess fullviss að þessi bók skipti máli fyrir samfélag okkar.
Þetta er hamingjubók því hún felur í sér sögur um ást og um trú. Þetta er líka vonarbók sem lýsir því hverning vonin fæðist, hvernig hún er nærð og hvernig til hennar er sáð svo að hún haldi áfram að viðhaldast. Í þessu riti er enginn meiddur eða móðgaður, en mörg erfið mál tekin til umfjöllunar með skapandi hætti og eins góðri samvisku og kostur er á. Bókin er líka hugsuð sem breytingabók, bók sem breyti hugarfari og vísi í átt að lausnum ekki síst á vettvangi kirkju og trúarlífs í okkar nútíma.

Verið velkomin í útgáfuteitið í Máli og menningu á Laugavegi í dag kl. 17 - 18:30.