föstudagur, 25. desember 2009

Brotnir geislabaugar

Prédikun okkar flutt við aftansöng á aðfangadegi í Vídalínskirkju í Garðabæ og Laugarneskirkju í Reykjavík:

Kæri söfnuður, á þessu aðfangadagskvöldi hef ég umboð til að færa ykkur sérstaka gjöf. Eins og þjóðin veit varð sá hörmungaratburður miðvikudaginn 16. desember sl. að bát hvolfdi úti fyrir mynni Fáskrúðsfjarðar. Um borð voru tveir menn, tengdafeðgar. Sá yngri komst lífs af en sá eldri lést. Eiginmaður minn, sr. Bjarni Karlsson þjónar þessari fjölskyldu í sorg þeirra og við fengum leyfi ástvinanna til að greina frá þeirri lærdómsríku atburðarás sem tengist slysinu, lífbjörg unga mannsins og lífi og dauða tengdaföðurins Guðmundar Sesars Magnússonar. Stundum er lífið sjálft stærra í sniðum en nokkurn hefði órað fyrir og mannleg örlög svo þrungin merkingu að maður gerir rétt í því að staldra við. Hér er slík saga.

Þeir höfðu stofnað útgerð Guðmundur Sesar og tengdasonurinn Ívar Smári Guðmundsson í félagi við mág Sesars sem ekki var þó með í þeirri för sem hér skal greint frá. Bátinn höfðu þeir keypt nýlega og loks var að því komið að sækja hann til Vopnafjarðar og sigla honum heim til Hafnarfjarðar þar sem fjölskyldan býr. Þetta var 15 tonna plastbátur ætlaður á handfæri og snemma morguns þennan miðvikudag var lagt úr höfn í góðu veðri og sjólagi og siglt út Reyðarfjörðinn. Við mynni Reyðarfjarðar lýsti vitinn á Vattarnesi í skammdegismyrkrinu og stefnan var tekin út fyrir eyjuna Skrúð uns stefni var snúið til hásuðurs og siglt sem leið lá við kjör aðstæður. Raunar er það þekkt að úti fyrir Austfjörðum mætast oft miklir hafstraumar og stundum hafa jafnvel stærri skip lent í vanda á þessu svæði austan við Skrúð sem sjómenn nefna Brökur. Þá leita sterkir straumar upp á yfirborðið svo að hafið ólgar og brestur allt í kring.

Þeir höfðu haft orð á því hvor við annan hve vel báturinn færi í hafi og hve stöðugur hann væri að sigla honum. Fyrirvaralaust kom stór alda bakborðsmegin á bátinn svo að Sesari og Ívari brá mjög við óvænt höggið uns önnur margfalt stærri reið að stjórnborðsmegin án minnsta fyrirvara og færði bátinn umsvifalaust á hvolf ofan í ólgandi hafið.

-

Guðmundur Sesar var lífsreyndur maður og um hann má segja að hann hafi marga fjöruna sopið í sínu lífi. Sjálfur hafði hann misst föður sinn tveggja ára að aldri er hann drukknaði í sjó og upp frá því hafði bernska hans orðið að hörmungarsögu er drykkfelldur og erfiður fósturfaðir tók völdin á æskuheimilinu. Frá sjö ára aldri hafði hann verið vistaður hjá góðu fólki norður í Bárðardal uns hann hafði kvatt sveitina 16 ára að gamall og við tekið erfiðir tímar. Árum saman hafði hann lifað í reiði og myrkri og fíkn uns hann náði tökum á tilveru sinni og eignaðist gott líf með eiginkonu sinni, Oddrúnu Kristófersdóttur.

Þá höfðu þeir atburðir orðið löngu síðar að ein dætra hans hélt á vit myrkursins og fíknarinnar rétt 14 ára að aldri og er þeim atburðum lýst í magnaðri bók sem út kom árið 2004 og ber heitið Sigur í hörðum heimi, hvernig Sesar lagði til hliðar vinnu sína og fjárhag heimilisins til þess að bjarga dóttur sinni út úr veröld ofbeldis og eiturlyfja uns rofaði til og hún náði bata og hamingju. Er sú saga átakanleg og vakti verðskuldaða athygli á sínum tíma. Nú hafa árin liðið og í marsmánuði sl. ól þessi dóttir hans son með Ívari manni sínum.

-

Er bátnum hvolfdi fossaði sjór inn í stýrishúsið og náðu þeir Sesar og Ívar að komast niður í vélarrúmið sem nú snéri upp og finna þar súrefni til að anda að sér á meðan þeir gætu náð áttum í ísköldum sjó og þreifandi myrkri. Þeir fundu hvor annan og ræddu saman í þögninni sem skollið hafði á um leið og vélin drap á sér þar sem báturinn marraði í kafi á ókyrrum haffletinum. Ítrekað skiptust þeir á að leita útgöngu með því að kafa niður í stýrishúsið og leita útleiðar í svarta myrkri og olíumenguðum sjó en allt kom fyrir ekki. Er vatnsborðið hækkaði og náði þeim undir höku héldu þeir uppgefnir hvor í annan og báðu saman Faðirvor. Sesar hafði orð á því að nú væri stund þeirra komin og þeir skyldu þá reyna að deyja eins og menn. Og enn var beðin bæn frelsarans, Faðir vor. Þá segir Ívar við tengdaföður sinn: „Og ég sem hlakkaði til að eiga fyrstu jólin með syni mínum og konunni.”

Það var þá sem það gerðist.

Þar sem þeir héldu hvor í annars hægri hönd með olíubrákað sjóvatnið undir höku en með þeirri vinstri héldu þeir við hnakkann hvor á öðrum. „Og ég sem hlakkaði til að eiga fyrstu jólin með syni mínum og konunni.” mælti Ívar. Þá horfði Sesar inn í augu hans í myrkrinu og sagði: „Þá skaltu líka lifa! Þú getur komist niður gatið, inn í stýrishúsið og út!” Við svo búið setti hann hönd ofan á hvirfil tengdasonar síns og ýtti honum af afli niður í átt að útgönguleiðinni.

Er slysið varð var klukkan 7:15 að morgni og niðamyrkur úti og öll ljós höfðu dáið í bátnum þegar honum hvolfdi. Er Ívar kom svamlandi í 4°C köldum sjónum inn í stýrishúsið þá var þar allt baðað hvítri birtu svo að ratljóst var og hann sá gluggann með lokunni stjórnborðsmegin. Á þeirri stundu fann hann hvorki fyrir kulda né súrefnisskorti, hugsun hans var einbeitt og skýr er hann tók í lokuna og opnaði gluggann sem rétt var nógu breiður svo að hann gæti rennt sér út um hann klæddur í peysu og föðurland. Er Ívar skaut höfðinu upp úr sjónum og dró að sér ferskt loftið fann hann mátt sinn aukast svo að hann hóf að klifra upp á kjöl bátsins og þótt aldan slæi hann ítrekað niður. Komst hann loks upp og gat skorðað sig. Heyrði hann þá nafn sitt hrópað innan úr bátnum og gat svarað og hvatt Sesar til að reyna sömu útgöngu.

Þar sem Ívar beið uppi á kili bátsins fáklæddur og blautur í vetrarmyrkrinu gerði hann sér grein fyrir því að staða hans var síst orðin betri því hér myndi hann krókna úr kulda. Þá hrópaði hann á Guð og spurði hann hvað hann meinti með þessu, og fyrir hvað hann væri þá að refsa sér með því að leyfa honum að komast þetta langt en deyja svo?! Er hann þá skimaði niður að glugganum til að sjá hvort tengdafaðir hans kæmi svo hann gæti tekið í hönd hans kom eitthvað skyndilega á mikill ferð út um gluggann upp úr sjónum og rakleitt í fangið á Ívari svo að honum brá við og hugðist varpa því frá sér uns hann gerði sér grein fyrir því að hann hélt á björgunargalla, sterkri og skjólgóðri flík sem nota skal við aðstæður sem þessar. Veit hann engar hefðbundnar skýringar á þeirri sendingu.

Nú tók við atburðarrás þar sem reyndi á lærð handtök er hann klæddi sig í gallann, losaði björgunarbátinn og komst þar um borð til að senda frá sér merki með blysum og neyðarbauju. Frá þeirri stundu er bátnum hvolfdi til þess tíma er kviknaði á neyðarbaujunni liðu 40 mínútur. Alls liðu svo þrír og hálfur tími uns hjálp barst og Ívari var bjargað um borð í fiskibát. Lík Sesars fannst í vélarrúmi bátsins er hann var dreginn til hafnar í Fáskrúðsfirði.

-

Nú heldur fjölskylda Guðmundar Sesars Magnússonar jól í skugga sorgar. En sorg þeirra er ekki tóm heldur er hún fyllt lífi og yl. Sjálfur hafði Sesar barnungur misst föður í sjó og orðið illa úti við þau umskipti. Síðar hafði hann lagt á sig ómælt erfiði í baráttu fyrir lífi dóttur sinnar andspænis ógnum eiturlyfjaheimsins og raunar goldið það dýru verði sem ekki skal tíundað hér.

Í úrvinda uppgjöf höfðu þeir beðið bæn Jesú, Faðir Vor, eins og Íslenskir sjómenn hafa gert í aldanna rás við sömu aðstæður. Oftar en einu sinni fóru þeir saman með bænina og fólu sig á vald góðum Guði uns orðin féllu í þögn myrkvaðs vélarrúmsins: „Og ég sem hlakkaði til að eiga fyrstu jólin með syni mínum og konunni.”

Við þessi orð hefur Sesari verið hugsað til síns eigin föðurmissis og bernskusorgar um leið og hann heyrði lífsviljann, þrána eftir konu og barni, hans eigin dóttur sem hann áður hafði lagt svo mikið af mörkum til að bjarga. Og af vörum unga mannsins heyrði hann viljann til að eiga líf með henni og syninum nýfædda.

„Verði þinn vilji” höfðu þeir ávarpað gjafara lífsins með orðum frelsarans. Verði þinn vilji. Og er Ívar mælti orðin varð Sesari ljóst hver var vilji Guðs og ætlun. „Þá skaltu líka lifa! Þú getur komist niður gatið, inn í stýrishúsið og út!” Og með endurnýjuðum styrk tók Sesar um höfuð tengdasonarins og sendi hann af stað út í lífið með skýrum leiðbeiningum og fullvissu um árangur.

-

Ef einhver fjölskylda á Íslandi veit og skynjar nú um þessi jól hve dýrmæt fórnargjöf lífið er, þá er það fjölskylda Guðmundar Sesars Magnússonar.

Í dýpsta eðli sínu er lífið fórnargjöf. Þeim sannleika lýsa jólin. Jólaguðspjallið, sagan um sendingu Guðssonarins inn í heiminn, segir okkur einmitt það. Lífið sem við eigum hér á jörð er heilagt og dýrmætt vegna þeirrar fórnar sem færð hefur verið og besta leiðin til þess að lifa er sú að vera þakklátur.

Reynsla þessarar fjölskyldu er einstök og sagan er merk en fjölskyldu Sesars er umhugað um að enginn haldi að hann hafi verið einhver dýrlingur. „Við höfum nú frekar brotna geislabauga prestur minn.” Sagði Oddrún við Bjarna er þau ræddu saman um efni þessarar ræðu.

Já, jólin eru handa okkur öllum sem höfum brotna geislabauga. Gæfa Sesars var sú að hann átti hlutdeild í hugarfari Krists, lífið hafði leitt hann að upprettu sinni, fórninni. Saman fluttu þeir orð frelsarans á ögurstundu og fólu sig á vald Guði; „...verði þinni vilji...þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.” Og er Ívar lýsti yfir lífsvilja sínum fékk frelsarinn enn að eiga orðið er Sesar mælti fram vilja Guðs og sendi hann að svo mæltu út í lífið þar sem barnið hans beið.

Í kvöld bíður þín nýfætt barn. Þín er beðið. Langar þig að lifa í þágu þess? Þá áttu gleðileg jól.

Amen.

sunnudagur, 29. nóvember 2009

Vopnuð pálmagreinum

Fyrsti sunnudagur í aðventu:

I

Ég hef átt mörg samtöl við foreldra nýfæddra skírnarbarna. Það er sérstakt andrúmsloft sem umleikur nýbakaða foreldra; þakklæti, undrun og stundum þreyta. Stundum hafa setið rauðeygir og vansvefta foreldrar inni á skrifstofunni minni og talið hefur þá gjarnan borist að óþroskuðum magaopum nýbura sem valda kveisu og gráti með tilheyrandi andvökum.

Allir sem einhverntíman hafa verið í sveit og kynnst dýralífi vita að ungviði í dýraríkinu fæðist reiðubúið. Þegar kýrin, kindin eða hryssan hefur karað afkvæmi sitt er það óðara staðið á fætur og farið að leita að spena. Ungar hænunnar, gæsarinnar og andarinnar fylgja móðurinni sjálfkrafa í halarófu um leið og þeir koma úr egginu en mannsbarnið getur ekki haldið höfði og fær enga björg sér veitt.

Hvers vegna skyldi þetta vera svona? Líkast til er það rétt sem vísindamenn hafa bent á að það er svo flókið að tilheyra menningu með tungumáli og margvíslegum siðum að mannsbörnin þurfa höfuð sem er svo stórt í hlutfalli við búkinn að eigi barn að geta fæðst af móður sinni verður fæðingin að eiga sér stað löngu áður en líkaminn er í raun tilbúinn til leiks. Og þegar barnið er fætt tekur við langur ferill við umönnun og uppeldi. Þegar mín kynslóð var sextán ára var maður kominn í fullorðinna manna tölu. Þau sem nú eru farin að reskjast voru orðin fullorðið fólk strax eftir fermingu. Í dag er það tvítugsaldurinn sem markar þessi tímamót því að samfélagið er svo flókið og það er að svo mörgu að gæta. Að eignast barn er nú orðið að tuttugu ára skudbindingu við uppeldi. Þá má rifja upp að hinn góðkunni vísindamaður og kennari Örnólfur Thorlacius hefur haldið því fram að þegar menningin kom til sögunnar hafi náttúran búið til afa og ömmur. Þetta telur hann sjást af því að eina tegundin sem hafi tíðhavörf sé maðurinn því það dugi ekki ein kynslóð til þess að miðla upplýsingum og gildum til hinna ungu. Okkur sem erum komin í afa- og ömmuhlutverkið þykir þetta ekki slæm kenning.

En hvað er menning? Hvað er svona margþætt og flókið við að vera manneskja. Það er ekki svo flókið að rækta korn og kartöflur, veiða fisk og fugl. Það er ekki endilega heldur svo flókið að koma brúklegu þaki yfir höfuð og vinna spjarir utan á kroppinn. Hið flókna í mannlífinu er það að geta gert þetta allt í sátt. Að mega vinna fyrir sér í friði, halda heimili þar sem eining ríkir og geta deilt gæðum í góðum viðskiptum við menn og náttúru. Það er flókið ferli.

II
Í dag horfum við á Jesú ríða á asnanum í átt að múrum Jerúsalemborgar. Jesús á asnanum á aðra hönd, vígmúr hersetinnar borgar á hina. Hér kemur konungurinn ríðandi fola undan áburðargrip umkringdur syngjandi fylgjendum sínum vopnuðum pálmagreinum. Álengdar sitja hermenn Rómarveldis á stríðfákum eða standa þöglir með spjót í höndum. Hér mætist hið syngjandi og hið þögla vald hinn fagnandi siður og siður stálsins.

Hefur þú gengið í sigurvímu út úr bíói eftir að hetjan sem barist hafði við ofurefli hræðilegs óvinar var búinn að sigra og allt það besta sem þú vonaðir hafði ræst? Hvað er það sem hetjan þarf alltaf að leggja í sölurnar? Hún hættir lífi sínu undantekningarlaust, líður alltaf miklar þjáningar en sparar sig þó hvergi, neyðist auk þess til þess að standa utan við lög og reglur og vinna grimmilega á andstæðingnum sem að lokum fellur. Iðulega sameinast einhverskonar fjölskylda í lokin, jafnvel er þar barn í spilinu og það besta er ef bangsinn þess finnst og barnið sameinast með bangsanum í faðmlagi karlhetjunnar og konunnar sem hann elskar áður en stafirnir renna af stað niður tjalið. Þá er staðið á fætur, poppkornið dustað af skálmunum og haldið af stað út í Reykvíska nóttina ögn sannfærðari en áður í þeirri trú að réttlætið muni alltaf að lokum sigra. Svona er trúboð stálsins. Það hefur ótvírætt skemmtanagildi, það höfðar til djúpra tilfinninga og hvata og á sér stað án þess að við séum meðvituð um að við erum þátttakendur í stærsta trúfélagi veraldar, trúfélagi stálsins.

Hetjan á asnanum er annars konar og skemmtunin er ekki meiri en svo að ábyrgir menn koma og biðja Jesú að segja fólkinu að hætta þessu og þegja. „Ég segi ykkur, ef þeir þegja munu steinarnir hrópa.“ ansar hann og brandarinn er ekki í hálfkvist við orðhnyttni Clint Eastwood. (Lúk. 19.40)

Siður stálsins er sá að stríð tryggir frið og öryggi fæst með yfirburðum. Í veröld hins þögla valds er reglan fundin með óreiðunni. Hetjan neyðist til ofbeldisverka sem leiða af sér sigur og gleði.

Hinn fagnandi siður er annar. Hetjan á asnanum, hetjan á krossinum og í jötunni nálgast verkefni lífsbaráttunnar út frá annari tilgátu. Vinnutilgáta frelsarans Jesú í glímunni við veruleikann er sú að reglan búi í eðli hlutanna. Þess vegna þarf hann ekki að hefja sig upp yfir mannlífið á nokkurn hátt og neyðist ekki til að standa utan við lög og rétt með ofbeldi, öllu heldur samsamar hann sig fólki með mjög róttækum hætti, velur sér engin sportleg farartæki en lætur asnann duga og segir bara: „Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini.” (Jóh. 15.15) Kristinn siður áætlar að lífið sé í sjálfu sér gott og að yfirráð og ofbeldi sé ómerkileg aðferð.

III
Sá sem trúir því að reglan búi í eðli hlutanna getur ekki á sama tíma treyst því sem trúboðar stálsins meina, að óreiða fæði af sér reglu. Merkir fræðimenn hafa bent á að trúin á óreiðuna og ofbeldið sem forsendu reglu og friðar eigi sér eldri sögu en trúin á hina góðu sköpun. Tólfhundruð og fimmtíu árum fyrir komu Krists stóð menning í miklum blóma í hinni fornu Mesópótamíu og til eru heimildir um guðinn Mardúk sem var guð borgarinnar Babýlóníu og hafði unnið sér það helst til frægðar að sigra formóður sína gyðjuna Tíamat gegn þeim skilmálum að hann fengi yfirráð yfir öllum öðrum guðum. Tíamat var í raun ægilegt sæskrímsli og er Mardúk hafði banað henni með miklum og hroðalegum tilþrifum þá strekkti hann út á henni skrápinn, teygði hann á alla enda og kanta, og skapaði heiminn úr líki kvenskrímslisins. Þannig varð veröldin til úr húð hinnar gjörsigruðu drekagyðju. Þessi goðsögn hefur verið nefnd Babýlónska goðsögnin og sagnfræðingar, heimspekingar og guðfræðingar hafa rakið stef þessarar sögu í þekktum helgisögnum frá mörgum löndum sem allar eiga það sameiginlegt að karlguð frá himni berst við kvenskrímsli úr sjó og er hann hefur unnið á henni með fræknum fantabrögðum er hræið notað til þess að skapa úr því heiminn. Þannig er tjáð sú trú að veröldin og öll hennar gæði eigi uppruna sinn í einum hrikalegum ofbeldissigri. Hið illa kemur þá á undan hinu góða og hið góða á hið illa að forsendu sinni.

Fræðimenn hafa keppst við að benda á þá staðreynd að Babýlónska goðsögnin lifir góðu lífi í veröldinni og á sér margfalt fleiri fylgjendur en kristnin nokkurn tíman. Þegar við göngum í gleðivímu út úr bíóhúsinu þá er það þessi trú og hin áhrifaríka skemmtilega boðun hennar sem hefur hrifið okkur. Goðsögnin var endurtekin, sagan af ofbeldishetjunni var flutt þannig að hún hrærði við helgum tilfinningum okkar og við glöddumst í okkar mannlegu sál og eignuðumst enn og aftur sameiginlega trúarreynslu með hinum þögla fjölda. Börnin okkar eru skilvíslega vígð inn í samfélag trúarinnar á Mardúk frá blautu barnsbeini í gegnum teiknimyndasögurnar sem flest allar flytja þessa sömu goðsögn í lítt breyttri mynd og kenna þeim að trúa því sem skrifað stendur að fyrst kemur vel heppnað ofbeldi og svo kemur hið góða líf.

Helgisögn Biblíunnar gengur þvert á helgisögn Babýlóníu. Þar er fyrst hið góða líf. Góður Guð skapar góðan heim með orðinu einu en illskan er lífinu óeðlileg og birtist sem furðulegt fyrirbæri, - talandi höggormur! „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. Jörðin var þá auð og tóm og myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: ‘verði ljós.’ Og það varð ljós. Guð sá að ljósið var gott...” (1. Mós. 1-4)


IV
Við menn erum stórhöfðarnir í sköpunarverkinu. Við fæðumst máttvana og varnarlaus með þetta mikla höfuð vegna þess að sáttin er flókið ferli.

Yfirburðir hins fagnandi siðar yfir sið stálsins eru fólgnir í vitneskjunni um eðli veraldarinnar. Hinn fagnandi siður, hið syngjandi vald lýtur barninu sem fæðist og horfir með því fram á veginn í von.

Frá fyrsta sunnudegi í aðventu bíðum við barnsins í jötunni sem spámaðurinn Jesaja lýsti svo: „Hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.” (Jesaja 2:4)

Við eigum lifandi nálægan Guð, upprisinn freslara, friðarhöfðingja. Þessi veröld lýtur ekki köldum lögmálum miskunnarlauss valds. Alheimurinn er öllu heldur persónulegur “því aðbarn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðheitja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.” (Jes. 9.5)

Amen.


Textar fyrsta sunnudags í aðventu eru:
Jes 62.10-12
Róm 13.11-14
Matt 21.1-9

laugardagur, 28. nóvember 2009

Stóra kossamálið

Bjarni skrifar:

Ég met starf Hvítasunnumanna mjög mikils. Ég sé það í prestsstarfi mínu að þar standa dyr opnar með öðrum hætti en annarsstaðar í samfélaginu og ef einhversstaðar er rými fyrir fjölbreytileika mannlífsins þá er það innan veggja Hvítasunnukirkjunnar.

Ég tel mig geta mótmælt mörgu sem Hvítasunnumenn segja. Sumt í guðfræði þeirra álít ég slæmt og sannanlega rangt, en ávextir starfsins ilma af guðsþekkingu. Sem kristinn maður tek ég mark á því. "Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá" sagði Jesús og það er þess vegna sem ég elska Hvítasunnukirkjuna og fullyrði að þjóð okkar þarf á henni að halda. Það breytir ekki því að Hvítasunnumenn verða að svara fyrir sína guðfræði og sinn mannskilning, og þeim er það ekki vorkunn frekar en mér sjálfum. Þess vegna þykir mér "Stóra kossamálið" einkar athyglisvert og í rauninni alveg ferlega fyndið. Það er sannarlega fyndin uppákoma að hópur fólks ætli að koma á jólatónleika í kirkju til þess að kyssast opinberlega en það verður ekkert fyndið við atburðinn ef hann verður að neikvæðri reynslu.

Hér er áskorun fyrir Hvítasunnumenn að endurskoða afstöðu sína til líkamans og hins kynferðislega. Áskorun um að skipta um skoðun á málefnum samkynhneigðra vegna þess einfaldlega að þeir sitja uppi í stöðnuðu hugmyndakerfi á þessu sviði sem ekki kemur kristinni trú hið minnsta við, og líka vegna þess að þeir bera augljósa félagslega ábyrgð og það sem sagt er af prédikunarstóli Hvítasunnukirkjunnar er ekki einkamál. Það er m.ö.o. skylda Hvítasunnumanna eins og allra annarra kirkna að vinna sífellt að því að þróa með sér heilbrigða kynlífssiðfræði í anda Jesú Krists.

Bestu viðbrögð Varðar Levísonar og annarra leiðtoga Hvítasunnukirkjunnar væru þau að fagna kossum og faðmlögum og hvetja öll pör til þess að kyssast og faðmast við upphaf jólatónleikanna og gera það að árlegri hefð að ætíð væri faðmast og kysst undir fyrsta lagi!

Guð blessi Hvítasunnumenn og efli þeirra góða starf.

sunnudagur, 15. nóvember 2009

Hin vanheilaga þrenning meðvirkninnar

Prédikun dagsins:

I

Við erum að lifa einstaka tíma í landi okkar. Nú þegar er farið að votta fyrir því. Finnum við ekki innra með okkur að eitthvað er orðið betra? Það er eitthvað sem orðið er sannara og heilla líkt og gerist þegar búið er að tala sannleikann og ekki þarf lengur að látast. Einhverju var logið, óheilindi höfðu myrkvað augu okkar en nú er sú þoka að greiðast í sundur. Það mun taka tíma að greina blekkinguna og vinna úr skaðanum en núna vitum við það sem máli skiptir; við ætlum að hafa heiðarleikann að leiðarljósi. Þjóðfundur gærdagsins hóf heiðarleikann til vegs. Markmiðin birtust mörg og leiðirnar að þeim eru ekki færri, en yfir því öllu er staðfest yfirskrift marktæks úrtaks viti borinna og velviljaðra Íslendinga: HEIÐARLEIKI. Þetta hefði ekki orðið niðurstaða úr kappræðum hagsmunahópa, hér er komin haldbær niðurstaða úr samtali alþýðu manna.

„Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.” segir Jesús í Guðpjalli dagsins. (Matt. 15.25-30) Þannig er það alltaf með sannleikann. Spekingar og hyggindamenn allra alda horfa framhjá honum vegna þess að þeir leita sinnar eigin sérstöðu en þegar sannleikurinn birtist þá er hann almenningseign. Það er það sem gerir sannleikann svo óáhugaverðan í augum þeirra sem telja sig þekkja hann best. Sannleikurinn skapar enga sérstöðu, hann er allra.

Eitt versta samfélagsböl okkar er það þegar heiðarleikinn er horfinn, þegar traustið á milli okkar gufar upp og enginn er með neinum og hver á með sjálfan sig einan að gera. Við sem störfum með börnum vitum að þeim líður heldur betur núna í miðju efnahagshruninu heldur en þeim leið í hinum meinta uppgangi. Það er af því að þau eru heilbrigð og hafa beinni aðgang að sannleikanum. Við vorum í óðaönn að byggja heim hins einangraða manns. Stærstu og sterkustu stofnanir samfélags okkar hömuðust við að byggja múra utan um einstaklinga. Séreign var herhvöt tímans, einkahagsmunir voru dagskipunin og einstaklingshyggjan yfirskyggði allt, en nú erum við aftur hægt og bítandi að endurheimta náungann og vonina um að eiga samleið með hvert öðru. Það er þess vegna sem okkur líður skár í dag þótt við eigum erfitt með að skilja það og jafnvel að viðurkenna það. Ég trúi því að þjóðfundurinn í Laugardalshöllinni í gær marki vatnaskil. Hið góða samtal er máttugt vopn í glímunni við einsemdina sem vantraustið veldur.

II
Það er mikil mótsögn að segja það en þó er það satt að algengustu meðölin sem við notum gegn einsemd eru ekki bara virðing og opið samtal heldur finnum við okkur öll knúin til þess að beita jafnframt ásökun og sektarkennd. Tölum aðeins um ásökun og sektarkennd.

Þegar Jesús segir í guðspjalli dagsins „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld” þá er hann ekki síst að tala um erfiðið og þungann sem við berum af allri þeirri ásökun og sektarkennd sem við burðumst með í gegnum lífið. Næst á eftir einsemdinni í lífinu er þyngst að bera ásökunina og sektarkenndina og þetta þrennt; einsemdin, ásökunin og sektarkenndin, kemur jafnvel á undan fjárhags- og heilsufarsáhyggjum. Og hér er komin ástæðan fyrir því sem nefnt er meðvirknisþríhyrningurinn. Það ætti að halda námskeið í öllum skólum og á öllum vinnustöðum þar sem hin einfalda uppgötvun á meðvirknisþríhyrningnum væri kynnt.

Þú ert þátttakandi í meðvirknisþríhyrningi. Allt fólk er það með einum eða öðrum hætti. Innihald hans og einkenni er ásökun og sektarkennd og honum er viðhaldið af óttanum við einsemdina því sá sem ætlar út úr þríhyrningnum getur það ekki nema einn og yfirgefinn.
Í daglegu lífi leikum við margvísleg hlutverk. Sum þeirra eru okkur meðvituð önnur ekki. Það er alltaf til fólk í umhverfi okkar sem ekki axlar ábyrgð eða valtar yfir aðra með einhverjum hætti. Og sumt af þessu fólki elskum við og viljum fyrir alla muni hafa nálægt okkur en það er bara hægara sagt en gert vegna þess að þau ofsækja umhverfi sitt með eigin stjórnleysi meðvitað eða ómeðvitað. Hvað er þá til ráða? Hefðbundið svar við þessum vanda er ásökun. Annað hvort ákveðum við að koma ásökun okkar til skila með því að reiðast eða gerast særð og aumkunarverð í von um að hinn stjórnlausi komi til sjálfs sín og verði almennilegur. Oft virkar þetta ágætlega, þannig að þessi sem alltaf er svo stjórnlaus skammast sín eða hann óttast höfnun svo að hann vandar sig betur um skeið. Þannig má segja að ásökunin sé skjótvirkt meðal og sektarkenndin sé sterkt afl sem geti varðveitt ástvinatengsl svo að þau hverfi ekki. Eða hvað?
Þegar stjórnleysið er magnað eins og búast má við að gerist í mannlegu félagi þá dugir iðulega ekki ráðlagður dagskammtur af ásökun og sektarkennd svo að næst þegar það kemur upp verður sársaukinn og vonbrigðin meiri. Þá vaknar þriðji aðlinn í sambandinu, þriðja persónan í meðvirknisþríhyrningnum; Bjargvætturinn kemur skeiðandi út á völlinn til þess að skakka leikinn. Einhver góð manneskja sem vill fyrir alla muni að allir séu vinir hefur tekið hlutverk bjargvættarins og gerir eittvað til þess að draga úr áhrifum ofsækjandans svo að fórnarlambið verði ekki of reitt eða of aumt. Við þetta líður öllum betur og allir finna þótt þeir geti ekki sett fingurinn á það, að víst virkar ásökun og sektarkennd ef hún er bara borin uppi af nægri angist sem allir vilja halda í skefjum vegna þess að við erum svo gott fólk, svo artarlegar og almennilegar manneskjur sem ekki viljum yfirgefa hver aðra.
Svona er meðvirknisþríhyrningurinn og um hann má og þarf að halda miklu lengri ræðu því að hann virkar á svo margvíslegan hátt. Munum bara að persónur þessa þríhyrings eru ofsækjandinn sem er voða vondur, fórnarlambið reiða eða aumkunarverða og bjargvætturinn sem er svo góður, og þú og ég kunnum að leika allar þessar persónur. Sannleikurinn um meðvirknisþríhyrninginn er hins vegar sá að þar er enginn einn vondur og þar er enginn bara góður en allir þátttakendur deila sameiginlegri angist sem veldur ásökun og sektarkennd og langvarandi vansæld.

III
Í guðspjalli dagsins talar Jesús við föðurinn á himnum og taktu eftir þeim upplýsingum sem hér eru gefnar milli línanna um samband föður og sonar: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.”
Hér má skilja að sá sem lærir að þekkja föðurinn gerir það í gegnum soninn. M.ö.o. að þekkja Guð er að ganga inn í samfélag föður og sonar og í því samfélagi er ekki meðvirkni. Milli Jesú og föðurins ríkir ekki ásökun og sektarkennd heldur gagnkvæm þekking og viðurkenning og mörkin á milli þeirra eru líka skýr.

Í hinni fornu Aþanasíusarjátningu er fjallað um leyndardóm þrenningarinnar og þar segir m.a.:
„En þetta er almenn trú, að vér heiðrum einn Guð í þrenningu og þrenninguna í einingu...”
- m.ö.o. það er almenn trú að í Guði er eining í fjölbreytileikanum.

Og áfram segir hin forna játning:
„...og vér hvorki ruglum saman persónunum né greinum sundur veruna.
Því að ein er persóna föðurins, önnur sonarins, önnur heilags anda.
En guðdómur föður, sonar og heilags anda er einn, jöfn er dýrð þeirra og hátignin jafneilíf.”
- m.ö.o. það er almenn trú að í Guði eru persónumörk allra varðveitt og virt og þar ríkir jöfnuður með persónum.

Sérðu þvílíkt haf er á milli meðvirknisþríhyrningsins og innar heilögu þrenningar? Áttar þú þig á því hverskonar lýðheilsu-hagsmunir eru hér á ferð?

Í hinni vanheilögu þrenningu meðvirkninnar greina menn ekki á milli sjálfs sín og annarra heldur reynir hver að hafa áhrif á gjörðir hinna en stjórnar ekki sjálfum sér. Í samfélagi heilagrar þrenningar eru persónumörkin aftur varðveitt skýr og klár og þar ríkir sjálfsstjórn og gagnkvæmt samþykki.

Í hinni vanheilögu þrenningu meðvirkninnar er samheldnin varðveitt undir þrýstingi ásökunar og sektarkenndar í stöðugum ótta við einsemdina en í heilagri þrenningu er eining í fjölbreytileikanum og hún varðveitist vegna þess að persónur þrenningarinnar velja að elska.

Hin góða frétt kristinnar trúar er sú að okkur dauðlegum mönnum er boðin hlutdeild í guðlegu eðli. Við megum þiggja það sem Jesús talar um við föðurinn er hann segir í bæninni sem nefnd hefur verið æðstaprestsbænin: "Ég bið [...] að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig.” (Jóh. 17.20-21)

Okkur býðst að tileinka okkur það samskiptamunstur sem heilög þrenning lýsir. Við þurfum ekki að styðjast við ásökun og sektarkennd sem viðheldur vansæld heldur megum við sem einstaklingar og sem þjóð ganga inn í hvíldina í Jesú Kristi, kveðja meðvirknina og iðka hið nýja samtal þar sem fjölbreytileikanum er fagnað í einingu.

Guð blessi Ísland.

Amen.

laugardagur, 14. nóvember 2009

Endurnýjuð von á þjóðfundi

Bjarni skrifar:

Ég naut þeirrar heppni að vera boðaður á þjóðfundinn í Höllinni. Maurarnir eiga heiður skilinn fyrir frammúrskarandi skipulag og frumkvæði. Hafi einhver efast um að þverskurður þjóðfélagsins yrði til staðar á fundinum var það afsannað í verki því þarna sat fólk víðsvegar að af landinu á öllum aldri með gjörólíkan bakgrunn og ræddist við þvert á alla hagsmunamúra. Í ljós kom að þjóðin á sannarlega einn sameiginlegan sið. Hún getur talað saman í fjölbreytileika sínum þannig að eining og samstaða ríki.
Þarna var ekki kappræða heldur samtal, ekki hagsmunaátök heldur hagsmunavirðing.

Íslensk þjóð! Höldum nú áfram að tala saman. Leyfum breytingunni að eiga sér stað. Yfirgefum hugarfar yfirráðanna og leiðum hugarfar hins frjálsa manns til vegs. Þjóðfundurinn kaus hugtakið HEIÐARLEIKA sem æðsta markmið í framtíð þjóðarinnar. Tökum mark á því í orði og verki.

Nú ríður á að einstaklingar, félög og stofnanir vinni úr niðurstöðum þjóðfundarins hver á sínu sviði og í sínum aðstæðum. Látum nú ekki úrtöluraddir þagga niðurstöður þessa sögulega fundar.

mánudagur, 2. nóvember 2009

Efling samskipta

Jóna Skrifar:


Nýtt fjögurra kvölda námskeið hefst í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ þriðjudaginn 3. nóvember kl. 20-22. Það er mikilvægt fyrir hverja manneskju að skoða og bæta samskipti sín við sjálfa sig og aðra. Námskeiðið efling samskipta er góður stuðningur við það verkefni. Umsjón með námskeiðinu hefur sr. Gregory Aikins ásamt sr. Jónu Hrönn Bolladóttur og sr. Friðrik J. Hjartar.



Sr. Gregory Aikins er bandarískur en hefur starfað lengi á Íslandi og kennir á íslensku. Upplýsingar og skráning er á gardasokn.is eða í síma 565 6380 (Vídalínskirkja).

Þetta er fjögurra kvölda námskeið sem hefst þann 3.nóvember og síðan 10.nóvember, 17.nóvember og 24.nóvember


Hver sem staða þín er í lífinu þá eru samskipti við fólk hluti af þínu daglegu lífi. Í öllum mannlegum samskiptum koma upp vandamál.


Á námskeiðinu er einstakt tækifæri til að taka þrjú mikilvæg skref í átt til betri samskipta:


1. DÝPRI SJÁLFSVITUND

Með því að nota vel þekkta persónuleikakönnun muntu uppgötva þann styrk og þá eiginleika sem þú býrð yfir.


2. AÐ SKILJA AÐRA

Þú munt læra að þekkja betur þína nánustu. Þú færð skýarari mynd af grundvallarskapgerðareinkennum og hvernig á að hvetja hverja manngerð fyrir sig til verka. Einnig muntu læra hvers vegna þínir nánustu bregðast við eins og þeir gera undir ákveðnum kringumstæðum.


3. AÐ EFLA PERSÓNULEG SAMBÖND

Loks muntu læra hvernig þú getur notað þann skilning sem þú öðlast á námskeiðinu til að temja þér meiri og betri aðlögunarhæfni í samskiptum við aðra.


Þátttakendur greiða aðeins kostnað af kennslugögnum sem er 2.500 krónur.


Allir velkomnir

sunnudagur, 1. nóvember 2009

Efling fjölsklydunnar - bæn og hugrekki

Bjarni skrifar:

Mig langar að vekja athygli á tveimur áhugaverðurm námskeiðum sem eru í boði inni í laugarneskirkju.

I
Þrjú næstu laugardagskvöld að loknum kvöldsöng í kirkjunni kl. 20:00 mun ég fjalla um bæn og hugrekki. Þar verður tekinn slagurinn við þær daglegu venjur sem trufla innra líf okkar og gera það að verkum að við náum hvorki sambandi við himinn né jörð heldur lifum tóman skarkala. Á fornu máli kirkjunnar heitir aðferðin bæn og fasta og er líka stundum nefnd iðrun og yfirbót þegar horft er á hana frá öðru sjónarhorni. Á námskeiðinu mun líka tala kona að nafni Besty Aikins sem er sérfræðingur í kennslu barna með námsraskanir og hefur hún margt gott til málanna að leggja.

II
Á miðvikudaginn kemur (4.11.) kl. 20:00 mun Besty og eiginmaður hennar sr. Gregory Aikins hefja fjögurra kvölda námskeið um eflingu fjölskyldunnar þar sem rætt verður um:

  • Samskiptavandamál hinna fullorðnu á heimilnu með lausnamiðuðum hætti,
  • fjallað um þrjár hagnýtar aðferðir til að sýna börnum ástúð um leið og þau hljóta heilbrigðan aga,
  • og loks er fjallað um hvernig við getum veitt börnum okkar andlagn og siðferðislegan grundvöll svo að þau verði farsælt fólk.

Námskeiðin fara fram í safnaðarheimili Laugarneskirkju og má nálgast nánari upplýsingar á heimasíðu safnaðarins, laugarneskirkja.is, eða senda mér línu á netfangið: srbjarni@ismennt.is

b. kv.

Bjarni Karlsson
820 8865

sunnudagur, 25. október 2009

Augnsamband

Bjarni prédikaði í dag:

I

Ég stóð ásamt konu minni á Kóngsins Nýjatorgi í Kaupmannahöfn á hádegi sl. mánudag og var að fá mér pylsu í morgunmat. Hún kostaði tvöfalt og við skömmuðumst okkar fyrir sjoppuskapinn en nutum trakteringanna því hvað er betra en pylsa með súrum gúrkum á konunglegu torgi? Þá heyrist einhver ónotalegur skarkali og smellur og sem við lítum við sjáum við konu sem komin var nokkuð við aldur falla á hjóli sínu með andlitið í götuna. Þetta var ljótt slys og ég rétti henni Jónu minni hálfétna pylsu en hljóp að konunni sem lá vönkuð og blóðug í götunni. Í sömu svifum kemur maður um þrítugt í hreinum og fínum jakkafötum og ég skynjaði strax að hann myndi ná betur til samlöndu sinnar þar sem hann kraup niður hjá okkur og fór að huga að henni. „Ég sæki stól og teppi!“ sagði ég við hann og ég hafði ekki gengið mörg skref þegar þjónn úr nærliggjandi kaffihúsi kom hlaupandi með teppi og þægilegan stól. En sem ég sný mér við með þetta í höndunum sé ég merkilega sjón. Ungi maðurinn hafði lagst í götuna og var kominn í fullkomið augnsamband við gömlu konuna þar sem hún lá bjargarlaus og ég fékk ekki varist tilhugsuninni um að eitthvað yrðu nú jakkafötin hans sjúskuð eftir þetta. Svo leit hann upp og bað mig að aðstoða þau því hún vildi reyna að standa á fætur. Þá kom í ljós að hún var meidd á fæti en við mismunuðum henni upp á stólinn og hagræddum teppinu utan um hana. Allan tímann kraup ungi maðurinn í jakkafötunum og gætti þess að missa aldrei augnsamband við konuna. Ég fór að huga að pylsunni minni sem var orðin köld og fylgdist með atburðarásinni því annar hjólreiðamaður stóð og var bersýnilega í sambandi við neyðarlínuna og var að lýsa ástandi konunnar. Áfram kraup ungi maðurinn og nú voru þau farin að ræðast við þar sem hún hélt með klúti við blæðandi sárið á kjálkanum og það voru ekki liðnar fimm mínútur fyrr en þau voru farin að gantast og ljóst var að skelfingin var liðin hjá enda þótt alvara málsins væri ekki orðin ljós því það er ekkert grín fyrir aldraða konu að falla af hjóli á harðann götusteininn.

II

Guðspjall dagsins er dæmisaga þar sem faðir biður syni sína að fara út og vinna í víngarði sínum. Annar tekur beiðni föðurins illa en sér sig svo um hönd, hinn segir já en fer hvergi og Jesús spyr viðmælendur sína: Hvor þeirra gerði vilja föðurins? (Matt 21.28-32)

Þær eru ófáar víngarðssögurnar og líkingarnar í Biblíunni og þær eiga það allar sameiginlegt að víngarðurinn táknar verksvið Guðs í veröldinni. Víngarðsvinnan er þátttaka í verki Guðs á jörð. En hvert er það verk? Hvaða verk vinnur Guð í heiminum? Því svarar m.a. Páll postuli í bréfi sínu til Filippímanna er hann lýsir verki Jesú: „Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig...“ (fil.2.6ff)

Það er ekki sérlega upplífgandi að liggja flatur í umferðargötu þar sem hundruðir manna fara gónandi hjá. Ég veit ekkert um þennan unga mann í og ég á víst aldrei eftir að sjá hann framar. Ég veit ekki hvað hann var að hugsa þegar hann lagðist í götuna við hlið konunnar og þekki ekki bakgrunn hans að hann skyldi velja sér það hlutverk að vera í beinu augnsambandi við hana á kostnað þessara ágætu jakkafata sem hann klæddist svo að hún væri ekki ein í lægingu sinni og skelfingu. Ég veit að hann var að vinna verk Guðs. Verk Guðs í Jesú Kristi er augnsamband við menn. Hann lægði sjálfan sig svo að við gætum horfst í augu við hann svo að við værum ekki ein í þjáningu okkar og í allri þeirri auðmýkingu sem lífinu fylgir.

„Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“

Ungi maðurinn samsamaði sig gömlu konunni í skelfingu hennar. Í stað þess að stumra yfir henni og aumka hana þá lagðist hann hjá henni og studdi hana í því að taka aftur við stjórn á eigin lífi. Hann bað mig ekki að hjálpa sér að reisa hana á fætur, hann bað mig að hjálpa þeim vegna þess að hún vildi standa á fætur. Heyrir þú muninn á þessu tvennu? Aðstoð unga mannsins var í því fólgin að konan náði aftur stjórn á eigin lífi og endurheimti þannig sjálfsvirðingu sína þótt hún væri slösuð og illa leikin.

Í lexíu dagsins heyrðum við áðan lýsingu svona viðskiptum í hinni frægu Rutarbók þar sem akureigandinn Bóas ræðir við Rut sem komin var sem útlendingur í ókunnugt land því hún vildi ekki yfirgefa aldraða tengdamóður sína er þær voru báðar orðnar allslausar í ekkjustandi:

„Taktu nú eftir, dóttir mín.“ mælti Bóas við þessa ókunnu stúlku. „Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“ (Rut 2.8-12 )

Bóas óttaðist Guð og þekkti til verka hans og enn er akurinn sviðmynd sögunnar. Orð Bóasar lýsa skilningi og virðingu fyrir þörfum Rutar og tengdamóður hennar. Þær þurftu korn og vatn og virðingu og það skyldu þær fá í akri hans.

„Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðsríki“ segir Jesús við æðstu prestana og öldunga lýðsins í guðspjalli dagsins. Það er liðinn dagur frá innreiðinni í Jerúsalem, pálmasunnudegi. Átök hans við valdsmenn Gyðinga eru að ná hápunkti sínum, hann er búinn að hreinsa út úr musterinu með svo aðlaðandi reiði að haltir og blindir safnast að honum og börnin syngja í helgidóminum. Og nú standa þeir ráðþrota og spyrja hann: „Með hvaða valdi gerir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?“ (Matt. 21.23) Það er í þessu samhengi sem dæmisaga Jesú um synina tvo er sögð og svo mælir hann fram þessi býsn: „Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðsríki.“ Gagnrýni Jesú á valdsmenn samtíma síns var í því fólgin að hann benti á hroka þeirra og yfirdrepsskap. Hann tók sér stöðu við hlið úthrópaðra föðurlandssvikara sem tollheimtumennirnir voru og setti sig í spor þolenda mansals, haltir og blindir áttu rödd í návist hans og börnin sungu. Ég veit ekki hvort ungi maðurinn sem lagðist í götuna þekkti Jesú, en ég veit þó alltént að hann hefur orðið að sækja jakkafötin sín úr hreinsun öðru hvoru megin helgarinnar og svo veit ég líka að hann notaði aðferð Krists. Aðferð Krists þekkist alltaf. Hún þekkist á sjónarhorninu. Verk Guðs í heiminum er augnsamband við menn og manna í millum.

III

Þegar syrtir í álinn kemur í ljós úr hverju við erum gerð og hvaða aðferðum við beitum. Á fimmtudaginn var heyrðist í fréttum að ný samanburðarrannsókn á íslenskum börnum leiddi í ljós að nú þegar ár er liðið frá hruninu mikla er líðan barna í landinu almennt betri en hún var fyrir tveimur árum. Kemur þetta heim og saman við upplýsingar sem nýlega komu fram á samráðsfundi undir merkjum Laugarness á ljúfum nótum þar sem forystufólk þeirra félaga og stofnanna sem ábyrgð bera á velferð barna í Laugarneshverfi bera reglulega saman bækur sínar. Það virðist vera að foreldrar og aðrir ástvinir barna gefi þeim meiri gaum nú en áður. Íþróttaþjálfarar greina aukningu í áhorfi foreldra á íþróttaæfingar og keppnir. Börn eru almennt rólegri og það virðist vera meira við þau talað. Helst greina leikskólakennarar mun í því að nú eru lopavettlingar og húfur meira að detta inn og í stað dýrra kuldaskóa og sérstakra vaðstígvéla hafa komið aftur svona loðfóðruð gúmmístígvél eins og við mörg áttum hér áður fyrr og dugðu vel.

Það er ljóst að frá sjónarhóli flestra barna er ekki kreppa en öllu heldur aukið augnsamband.

Um þessar mundir eru á milli 350 og 400 börn og unglingar þátttakendur í safnaðarstarfinu. Ég verð að viðurkenna að aldrei í mínu starfi með börnum hafa verið minni agavandamál en einmitt núna og við sr. Hildur Eir og samstarfsfólk okkar erum sammála um að á þessu hausti hafa samverustundir með unga fólkinu verið sérlega innihaldsríkar og gefandi. Við erum sannfærð um að ástæðan er sú að aðstandendur barna, samfélag hinna fullorðnu, er einbeittara en nokkru sinni í því að missa ekki augnsamband við börnin sín. Við erum öll þátttakendur í verki Guðs á jörð og það gerist í hversdeginum. Og er það ekki táknrænt að tvö ný orðatiltæki hafa orðið lýsandi fyrir líðan þjóðarinnar og eru nú máluð á spjöld í skólum og saumuð í krossaum í handavinnu eldri borgara um land allt, önnur hefur af hagkvæmnisástæðum hlotið skammstöfunina H.F.F. en hin hljóðar á þessa leið: Guð blessi Ísland!

Sú fyrri fjallar um augnsambandið við veruleikann og manna í millum sú síðari um augnsambandið við góðan Guð.

Við erum kannske ekki svo glötuð eftir allt.

Amen.

sunnudagur, 11. október 2009

Þegar fíflunum fjölgar

Prédikun dagsins:

Mikið ferlega getur fólk farið í taugarnar á manni. Það er þannig í mannfélaginu að aftur og aftur langar mann að ausa úr skálum reiði sinnar þegar manni finnst heimska og blindni annarra blasa við. Tölum um umferðarmenninguna: Fólk sem leggur stóru fínu bílunum sínum í fatlaðra stæðin. Fólk sem reykir með börnin óbundin í aftursætinu eða þá karakterarnir sem henda rusli út um gluggann á ferð. Við getum líka talað um skattsvikin, allt þetta fólk sem sendir börnin sín í skóla og nýtir sér heilbrigðis- og samgöngukerfið eins og allir en lætur okkur hin um að halda því uppi og hrósar sér jafnvel af kænsku sinni. Eða ofsatrúarfólk sem þykist yfir alla hafið en er síðan að glíma við nákvæmlega sömu bresti og við hin, o.s.frv. o.s.frv. o.s.frv. Það er auðvelt að láta dæluna ganga þegar maður er kominn í þennan ham og hugurinn er fljótur að finna ný og ný dæmi um ávirðingar samferðarmanna sinna. Það er léttur leikur að pirrast. Í dag kemur svona gremjuleg persóna og rennir sér bókstaflega fótskriðu inn í guðspjallið beint fram fyrir fætur Jesú. Orðrétt segir: „Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
 (Guðspjallið er skráð í Mark. 10.17-27)

- Ég verð að fá að bæta hérna við ergelsislistann: Hugsum um fólkið sem leyfir sér að skammast í afgreiðslufólkinu í Bónus yfir háu vöruverði í kjölfar bankahrunsins eins og þau geti einhverju ráðið! eða þá allt fólkið sem segir að allar kirkjur séu tómar af því að það mætir ekki fyrr en það er sjálft borið inn! -

Allir sem sáu unga manninn hlaupa að Jesú með tilþrifum vissu að hann var allur á yfirborðinu. Spurning hans og atferli var fyrirfram hugsað, hann ætlaði að ná hylli meistarans og taka andlegu málin hraustlegum tökum. Í hans huga var sú hugmynd að ávinna sér eilíft líf bara raunhæf, hann hafði þá reynslu af lífinu að allt væri falt þegar búið væri að finna rétta verðmiðann.

En Jesús hugsaði ekki eins og ég og þú. Lærisveinar hans og aðrir sem í kring stóðu hafa pirrast upp og langað að lesa yfir drengnum, láta hann finna til tevatnsins og segja honum hreint út hvað hann væri óþolandi sjálflægur og fyrirsjáanlegur í hroka sínum. En Jesús tók óvæntan pól í hæðina og var ekki síður að kenna áhorfendum þegar hann segir: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.” Fólkið horfði á unga ríka manninn og hugsaði með sjálfu sér „Hversu lágt er hægt að leggjast í plebbaskapnum?” En Jesús fór ekki inn í þessa stemmningu, þess í stað steig hann inn í hringinn til mannsins með spurningu sinni, vakti athygli á því að enginn gæti álitið sjálfan sig góðan og afhjúpaði um leið þann sannleika að ungi maðurinn og fólkið í kring var allt í sama vanda, hver og einn taldi sjáfan sig standa hinum framar í andlegum þroska, allir nema Jesús. „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.” Þá svaraði ungi maðurinn og ég sé hann fyrir mér hirsta hausinn í innfjálgri sjálfumgleði er hann segir: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“


Við megum bóka að með þessu svari hafi mörgum sem í kring stóðu þótt drengurinn bíta hausinn af skömminni og þau hafa beðið eftir því að Jesús setti honum stólinn fyrir dyrnar. En Jesús horfði á hann með ástúð. Já, guðspjallamaðurinn hefur fyrir því að lýsa augnaráði Jesú séraklega. Hann horfði á hann með ástúð. Hvað er betra en finna horft á sig með ástúð? Hvað gerir mann tryggari og hamingjusamari en það að vera baðaður ástúðlegu augnaráði og vinsemd? „Eins er þér vant.” Sagði Jesús. „Vá, er mig að dreyma?!” hugsaði ungi maðurinn. „Ég get hakað við boðorðin tíu, þau eru komin á þurrt, nú er bara eitthvað eitt sem ég þarf og málið er dautt.” Hann hefur staðið á fætur og ekki getað stillt sig um að líta í kringum sig á fólkið sem fylgdist með. Hér var hann kominn, sigurvegarinn, hann sem gat svo margt já næstum allt og nú var ekki nema eitt atriði eftir á verkefnalistanum. „Láttu það koma hugsaði gæðingurinn. Skjóttu! Ég kann að taka áskorunum!” Hann naut þess hvernig meistarinn horfði á hann einan með fullri athygli og augljósu samþykki og það gat ekki farið fram hjá neinum viðstöddum að þeir tveir voru algjörlega að skilja hvor annan. - „Far þú” sagði Jesús „sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ Þá segir orðrétt í frásögn Markúsar: „En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“

Þannig lýkur viðskiptum Jesú við ríka unglinginn, eins og hann jafnan er nefndur, en frásögnin er bara hálfnuð. Þarna grípur Pétur lærisveinn boltann á lofti og segir: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér.” Og svo hefur hann horft spyrjandi á meistara sinn.

Það er svo eftirtektarvert hvað Guðspjöllin eru miskunnarlaus við lærisveinana. Oft eru menn að benda á alsskyns missagnir í atburðarás þeirra, eins og þau væru hugsuð sem nákvæm ævisaga Jesú. En það er einmitt allt ósamræmið sem er svo heiðarlegt. Guðspjallamennirnir gera enga tilraun til að samræma eitt né neitt og enn síður draga þeir fjöður yfir vandræðagang postulanna. Postularnir, þessir ellefu sem eftir stóðu þegar Júdas var búinn að kveðja hópinn, og svo bættist Páll postuli við með sína dökku fortíð, - nei myndin sem guðspjöllin og postulasagan gefa af þessum forkólfum kristninnar er ekki upphafin heldur blasa vankantar þeirra og veikleikar við öllum. Og hér fáum við að fylgjast með þeim stíga ofan í einn pyttinn.

Þeir höfðu séð Jesú afgreiða unga gæðinginn og nú vildu þeir vita stöðu sína í sambanburði við hann. Þeir vildu samanburð! Og Pétur er að tala fyrir hópinn þegar hann spyr: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“

Ég sé fyrir mér að Jesús hefur kallað þá alla til sín og hann hefur lækkað röddina og verið algerlega persónulegur þegar hann svaraði þeim: „Sannlega segi ég ykkur að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komanda heimi eilíft líf.”

Það var ekki eins og þeir hefðu ekki verið búnir að ræða þetta sín á milli. Auðvitað höfðu þeir bundið vonir við eitthvað í þessa veru. En hvernig Jesús bara orðaði þetta og lýsti því enn betur en þeir hefðu sjálfir getað gert. Þeir hafa horft hver á annan og kinkað kolli; Gott, gott að fá þetta staðfest af vörum meistarans. „En” sagði Jesús og lærisveinarnir litu upp og biðu frekari útlistana: En margir hinir fyrstu verða síðastir, og hinir síðustu fyrstir.”

Veistu af hverju tólf spor AA samtakanna eru tólf en ekki eitt? Það er útaf þessu. Ungi gæðingurinn og ungu lærisveinarnir vonuðu heitt og innilega að það væri hægt að eigna sér hlunnindi hins andlega heims. Þeir óskuðu sér þess að það væri hægt að vera fyrstur og flottastur í ríki Guðs og það ríkti heiðarleg andúð og samanburður á milli þeirra. Og þar eð ríki unglingurinn ekki gat náð þessu marki með sínum langþróuðu góðborgaralegu aðferðum þá vonuðu Pétur og félagar að afrek þeirra á sviði guðrækni og sjálfsafneitunar myndu fleyta þeim yfir hjallann, en „margir hinir fyrstu verða síðastir, sagði Jesús, og hinir síðustu fyrstir.“ M.ö.o. það er ekkert Saga Class og ekkert V.I.P. í ríki Guðs. Allir fengu þeir sömu móttökur hjá Jesú. Hann mætti þeim af staðfastri virðingu, tók mark á þrá þeirra og gerði ekki lítið úr löngunum þeirra en leiddi þá að upphafsreit hins andlega lífs. Fyrsta spor AA samtakanna og fyrsta skref trúarinnar er það að játa vanmátt sinn. Annað sporið felst í því að treysta því að æðri máttur geti megnað að gera okkur andlega heilbrigð. Þriðja sporið er sú ákvörðun að fela líf sitt og vilja í hendur Guði. Í því fjórða eru gerð rækileg og óttalaus siðferðisleg reikningsskil í eigin lífi en í fimmta spori eru misgjörðir játaðar fyrir Guði og mönnum. Sjötta sporið er þegar einstaklingur verður þess albúinn að láta Guð fjarlægja skapgerðarbresti sína en það sjöunda er bæn til Guðs um að hann framkvæmi það verk í raun. Í því áttunda skráir maður niður misgjörðir sínar gagnvart náunganum og öðlast fúsleika til að bæta fyrir þær en níunda sporið er þegar maður gengur fram í verki til þess að bæta fyrir brot sín milliliðalaust svo framarlega sem það særi engan. Tíunda sporið er stöðug sjálfrannsókn og kjarkur til að viðrukenna umsvifalaust eigin yfirsjónir. Þá lok kemur ellefta sporið sem hljóðar svo: „Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.” Þetta var það sem gæðingurinn og lærisveinarnir þráðu að eiga. Það var ekki ljótt og ekki skammarlegt. Mistök þeirra lágu í því að þeir héldu að unnt væri að stytta sér leið og taka sjálfur það sem sem Guð einn gefur. Þeir urðu að fá að reka sig á, Jesús varð að meðhöndla þá í kærleika sínum og ástúð, svo að þeir gætu hætt að reyna sjálfir að höndla hin andlegu gæði en verða þess í stað höndlaðir af Kristi og heilögum anda hans. Þá loks kemur tólfta sporið: „Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum [alkóhólistum] þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi.”

Ég hóf þessa ræðu á heimskulegri upphrópun þegar ég sagði: Mikið ferlega getur fólk farið í taugarnar á manni.

Áðan heyrðum við lesið úr Jóhannesarbréfi öllu skynsamlegri orð: „Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.” (1. Jóh. 2.10) Ég hef oft heyrt reynda AA menn segja á þessa leið: Þegar fíflunum fer að fjölga í kringum mig og fleira og fleira fer í taugarnar á mér, þá veit ég að ég þarf að huga að eigin bata.

Amen.

þriðjudagur, 29. september 2009

Að bæta samskipti sín

Bjarni skrifar:

Mig langar að vekja athygli á frábæru námskeiði sem ég stend fyrir ásamt frábæru fólki í Laugarneskirkju. Þar er boðið upp á tækifæri til þess að ná nýjum árangri í mannlegum samskiptum. Hvar sem við erum í lífinu þurfum við að komast af við fólkið í kringum okkur og það getur sparað okkur mikið að skilja ólíkar manngerðir. Námskeiðið er ókeypis og stendur næstu fjögur þriðjudagskvöld. Yfirskriftin er: Efling samskipta. Sjá nánar: http://laugarneskirkja.is/

b. kv.
Bjarni Karlsson

sunnudagur, 27. september 2009

Hugarfar samsteypunnar

Prédikun dagsins:
I

„Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn!” (Davíðssálmur 130)
Þekkir þú þetta ákall? Kannast þú við þann stað sem hér er lýst? Hefur þú upplifað þig í djúpi sorgar og einsemdar og þekkir neyðina þegar ekkert er eftir nema ákallið á Guð? Enginn óskar þess að þurfa að svara þessu játandi.

Það er mikil reynsla að upplifa heilt þjóðfélag sökkva í djúp sorgarinnar. Flest höfum við áður ýmist upplifað það sjálf eða þekkt til einstaklinga sem þarna hafa verið staddir, en okkar kynslóð hefur ekki lifað það fyrr með sama hætti og nú að þjóðfélagið í heild gangi á vit sorgarinnar. Við tengjum gjarnan sorgina einkum við ástvinamissi en það eru til svo miklu fleiri sorgarefni sem jafnvel getur verið flóknara að vinna sig út úr. Þá segi ég ekki sárara heldur flóknara.

Íslenskt samfélag syrgir nú framtíð sína og sjálfsmynd. Við héldum að við værum að byggja upp glæsta efnahagslega framtíð fyrir börnin okkar og tryggja öryggi okkar og þeirra sem eftir koma. Foreldrar með börn á öllum aldri glöddust í hjarta sínu yfir því að geta afhent afkomendum sínum ríkara og tryggara samfélag en þau sjálf höfðu heilsað þar sem tækifærin væru óendanleg. Við hlógum stolt að svari stúlkubarnsins sem blaðamaðurinn spurði hvað hún ætlaði að gera þegar hún yrði stór, en hún svaraði: „Ég ætla að gera eitthvað sem ekki er búið að finna upp!” Þetta var Ísland, þetta var hin bratta og bjarta kynslóð hinna nýju tækifæra. Það eina sem truflaði okkur var undirliggjandi vitneskja um aukna stéttaskiptingu sem einkum var tengd fjárhagslegri stöðu manna. Munurinn á milli ríkra og fátækra var orðinn stjarnfræðilegur og það var sárt. En við þoldum það vegna þess að við héldum að allir væru samt að græða. Svo kom í ljós að allir voru allan tímann að tapa.

Þegar sorgin slær má búast við öllum viðbrögðum. Við erum svo ólík. Sum okkar bregðast hart við áföllum og sýna reiði, önnur leita inn á við með reiði sína og ganga í gegnum djúpa dali. Sumir verða sinnulausir og láta reka á reiðanum. Eða þá sinnuleysið og reiðin birtist í því að fólk brýtur á hagsmunum annarra með því að svíkja og stela, fyrst allt er hvort eð er orðið eitt alsherjar svindl. En blessunarlega eru viðbrögð flestra á þann veg á endanum að þau staðnæmast til þess að skoða skemmdirnar og skaðann og vega og meta í hverju hið raunverulega tap sé fólgið og hvar sé von að sjá og verðmæti sem ekki séu farin fyrir bí.

II
Í sögu dagsins (Matteusarguðspjall 11. kafli) kemur Jesús gangandi inn í ringulreið áfalls. Staðan var vonlaus í Betaníu og ásökun Mörtu á Jesú er svo óþægilega heiðarleg: „Ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn!” Sagan lýsir því hvernig Jesús fetar sig inn í ástandið, ef svo má að orði komast, og tekur inn að hjarta sínu þá neyð sem uppi er. Og við sjáum trú Mörtu skína eins og perlu í for þjáningarinnar er hún ber fram ásökun sína og trú í sama ávarpinu: „Ef þú hefði verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.”

- „Ef þú hefðir!” segir sorgin og reiðin, „En einnig nú veit ég” segir sorgin og trúin. Reiðin hugsar í þátíð, traustið er alltaf hér.
Og Jesús svarar: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Og ég heyri hana segja þetta með pirringi. Ég heyri hana segja Jesú að hlífa sér við ódýru guðsorðagjálfri, hana varði ekkert um upprisu dauðra í komandi eilífð því bróðir hennar sem hún elskar er dáinn. Þá gerist það að Jesús stígur inn í núið með vinkonu sinn, horfir í augu hennar og mælir: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“

- Ég er! Segir Guð.
Hér er komið hið helsta og fremsta einkenni þess Guðs sem Biblían kynnir; Ég er. Reynslan af Guði er alltaf hér og nú en reynsla reiði og kvíða er ætíð í fortíð eða framtíð. Þar er ekkert nú, engin andrá.

Trúir þú þessu? Spyr Jesús Mörtu þar sem þau staðnæmast í skarkala og glundroða sorgarinnar. Þarna standa þau líkt og í logninu í miðju auga stormsins og allt er á hvínandi ferð í kringum þau. „Trúir þú?” Spyr hann. Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ Og ég held að hún hafi verið hissa í röddinni; „Já, Drottinn. Ég trúi!”

III
Framhald þessarar sögu er þannig að fleiri bætast í hópinn, María systir Mörtu og Lasarusar kemur ásamt fjölda vina og vandamanna sem komnir eru til að hugga þær eftir bróðurmissinn, og þegar Jesús sér Maríu gráta og þau hin gráta sem með henni eru þá kemst hann við og spyr: Hvar hafði þið lagt hann?” Þau svara: Komdu og sjáðu. „Þá grét Jesús” segir orðrétt í guðspjallinu og er það styðsta en um leið eitt mikilvægasta versið í allri Biblíunni. „Þá grét Jesús” Guðs sonur fetaði veg samlíðunarinnar. Hann deildi kjörum með samferðafólki sínu. Sorg þeirra og missir gekk honum inn að hjarta.

Svo stendur hann úti við gröfina ásamt öllum hinum. - Gröfin bíður okkar allra, segjum við gjarnan. Gröfin eignast okkur öll á endanum. Höfum hugfast að í Jóhannesarguðspjalli er alltaf talað um kraftaverk Jesú sem tákn. Verkin sem hann vann voru tjáning þess að kraftar Guðs ríkis væru að verki í Jesú og að með honum litu nýir lífmöguleikar dagsins ljós. “Takið steininn frá!” skipar Jesús en Marta bregst við með andköfum: „Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“

Í aðdraganda sögunnar er frá því greint að Jesús hafði fengið boðin um að koma til Lasarusar meðan hann enn var á lífi, en hann hafði frestað för sinni meðvitað. Frá sjónarmiði vina hans var hann seinn, en sjálfur var hann á tíma. Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs?“ Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: „Leysið hann og látið hann fara.“

IV
Í okkar mennsku augum er enginn atburður jafn endanlegur og dauðinn. Marta og María höfðu sjálfar búið bróður sinn í gröfina og kaldur veruleiki dauðans hafði níst þær inn að beini. Lasarus var dáinn og nú var komið á fjórða dag og Marta var raunsæ er hún aðvarði Jesú: „Það er komin nálykt af honum.”

Táknið sem Jesús vann á Lasarusi er yfirlýsing þess að enginn atburður á jörðu er endanlegur. Ekkert er endanlegt á jörðu. Hér er engra niðurstaðna að vænta. „Lasarus, kom út!“ hrópaði Jesús. Og hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. - „Leysið hann og látið hann fara.“

Trúin sér það sem við getum ekki skilið, að eini endanlegi atburðurinn sem orðið hefur á jörðinni er sigur Krists yfir öllum atburðum.

Með fullu raunsæi hljótum við að hugsa eins og Marta að nú er bráðum komið ár frá hruninu mikla. Þjóðarlíkaminn liggur vafinn í gröf sinni og daunn vonleysisins hefur fyllt vit margra. Okkur þykir sem allt sé orðið um seinan, en tíminn er á Guðs valdi.

Við vitum ekki hvaða mein lagði Lasarus í gröfina en við förum nærri um hvað það er sem fellt hefur Íslenskan þjóðarlíkama og úr hverju þeir vafningar eru gerðir sem bundnir eru um hendur hans og fætur. Við trúðum á sérhagsmunina og treystum því að hver væri sjálfum sér næstur. Það er okkar mein. Við misstum sjónar á almannaheill, varðveittum ekki lýðræðið en gerðumst hugsunarlausir neytendur. Það er okkar sorg. Í raun má segja að sjúkdómur þjóðarlíkamans sé trúin á séreignina. Og nú horfum við á börnin okkar, kynslóðina sem á að erfa landið og við sjáum þau fjötruð, vafin í skuldbindingar og kvaðir sem þau muni vart fá risið undir.

Kristin trú er ein alsherjar mótmæli við þessu viðhorfi. Trúin á hinn upprisna er andóf við þrældómi í öllum sínum myndum. Kristur Jesús stendur úti fyrir gröfinni og hrópar inn í myrkur angistar og uppgjafar: “Komdu út!” Frelsari heimsins tekur ekki þeirri niðurstöðu fyrir hönd barnanna okkar að þau séu fjötruð. Hann hafnar þeirri ósvinnu að nokkur lifandi manneskja leyfi sér að líta á vaxandi kynslóð frá sjónarhóli vonleysis og uppgjafar. Komdu út! hrópar hann.

V
Við höfum með allt of lítilli gagnrýni tileinkað okkur hugarfar samsteypunnar. Sú hugsun að verðmætum skuli fyrir alla muni safna í stað þess að dreifa þeim hefur orðið að trúarjátningu heillar menningar. Séreignin hefur orðið hið helgasta vé en almannahagur lotið í lægra haldi.

Ég man þegar ég var barn heima á prestsetrinu í Laufási að foreldrar mínir töluðu um það alveg skírt við okkur að við ættum ekkert í prestsetrinu eða landinu heldur værum við bara ábúendur á jörð ríkisins. Þetta olli mér stunum öryggisleysi og ég varð býsna meðvituð sem barn um það hvað væri þó þrátt fyrir allt yfirráðasvæði okkar, þótt við ættum ekkert. Öll önnur börn í skólanum mínum bjuggu í húsum og á landi sem var í eigu foreldra þeirra. Í Laufásnum vaxa safarík ber og við systkinin vorum dugleg að fara að tína og bera björg í bú, enda var mikið sultað og soðin saft. Stundum gramdist mér er ókunnugt fólk stöðvaði bílinn sinn uppi á þjóðvegi og hélt upp í Ásinn til þess að tína ber án þess að hafa fyrir því að spyrja föður minn leyfis, og ég velti fyrir mér hvort pabbi væri slík skapluðra að þora ekki að stöðva þetta háttarlag. Einhverju sinni fylltist ég slíkri reiði er ég sá þetta að ég ætlaði að rjúka út og skamma fólk sem lagst var milli þúfna og gæddi sér á berjum. Ég gleymi aldrei þeirri lexíu sem ég fékk við það tækifæri hjá föður mínum er hann með miklum þunga gerði mér ljóst að berin í Ásnum yxu þar ekki af mínum völdum heldur Guðs og að öllum væri Guðvelkomið að njóta þeirra. Þau væru þarna bara handa fólki.

Gegn hugarfari samsteypunnar teflir trúin á Guð fram hugarfari hins frjálsa manns. “Ég er Drottinn guð þinn sem leysti þig úr ánauð, þú skalt ekki aðra guði hafa.”

Í stað þess að lúta valdi megum við hlýða kalli.
Í stað þess að safna í ótta megum við deila gæðum af rausn.
Í stað þess að tilbiðja séreignina megum við opna augun fyrir þeirri staðreynd að enginn á neitt en öllum er okkur lífið gefið.
Séreign er ekki annað en mælieining til þess hönnuð að auðvelda dreifingu gæða, því sannleikurinn er sá að gæði lands og sjávar, fegurð og ríkidæmi tilverunnar er okkur öllum gefið af góðum Guði. Því er það argasta ósvinna sem enginn má láta sér um munn fara að börnin okkar séu fædd til ánauðar. Þau eru fædd til frelsis og til ríkidæmis. Sjálf eru þau auðurinn mesti og við skulum láta þau vita að þau eiga ásamt öllum öðrum fiskinn í sjónum, hitann í jörðinni, fallvötnin í tign sinn og afl þeirra, hið bjarta víðerni landsins með fjöllum, fjörðum og jöklum, grundir og tún, vegi og skóla, vatnið og lagnakerfi landsins, rafmagnið og leiðslurnar, sjúkrahús og kirkjur, söfn og hafnir, torgin í borg og bæjum, húsin öll og hvað eina annað. - Allt þetta á þessi þjóð hvað sem formlegu eignarhaldi líður. Og forréttindi þessa alls eru þau að við skulum öll vera saman, að við skulum í raun vera samferða og eiga hvert annað að.

Nú þykir mörgum orðið seint. Þá er tíminn fyrir Íslenskan þjóðarlíkama að hlýða kalli Guðs, að hann rísi á fætur úr hinu daunilla hugarfari samsteypunnar og að við svo leysum hann og látum hann fara.

föstudagur, 11. september 2009

Borgir deyja innan frá

Bjarni skrifar

Það er sagt að borgir deyi innan frá. Í hjarta flestra stórborga er myrkur kjarni, einskonar svarthol þar sem einungis virðast þrífast fjármálastofnanir á daginn og barir á kvöldin auk hótela. Það er með miðbæinn eins og jólin, hann er sannleiksspegill. Kjarni borgarinnar segir satt. Hann lýsir því hver við erum og hvað við elskum. Hann segir frá smekk okkar og hann fjallar um þrá okkar og framtíðarsýn.

Ingólfstorg hefur þróast skemmtilega. Þar eiga mótorhjólakappar og hjólabrettagengi viðurkenndan vettvang og á þessu svæði hefur skapast mannlíf sem er uppbyggilegt. Það er eitthvað ærlegt við þetta torg, eitthvað Íslenskt og gott. Yfir því er andi samræðu og samskipta, öfugt við svo mörg önnur torg í borginni þar sem hraðinn og smekkleysið ríkir.

Nú er runninn upp nýr tími í Íslensku samfélagi. Ég trúi því að nú séu orðin þau vatnaskil að þessi unga þjóð vilji í raun huga að almannahagsmunum og treysti sér til þess að segja upp hinum fámenna Íslenska aðli sem svo lengi og með svo sjálfsögðum hætti hefur deilt og drottnað í landi okkar í gegnum margvísleg kerfi og stofnanir. Ég hygg að það ágæta fólk sem á þessar lóðir og hefur lögformlegan rétt til þess að gera þarna það sem það vill verði nú að sætta sig við orðinn hlut og víkja hagsmunum sínum til hliðar fyrir almannahag. Þjóðin mun sennilega ekki taka því að svona verði haldið áfram.

Við erum rænt og ruplað samfélag sem verður að draga lærdóm af sögu sinni. Næstu ár munu leiða í ljós hvort við nennum að vera þjóð, hvort við orkum að rísa á fætur og hafa fyrir því að tala saman og ráða ráðum okkar eða hvort svo fari að við látum veraldarvaldið svæfa okkur til hlýðni enn og aftur með sínum einföldu aðferðum sem alltaf hafa virkað og alltaf hafa leitt til fátæktar og niðurlægingar hinna mörgu.

sunnudagur, 6. september 2009

Eymd er valkostur

Bjarni prédikaði í morgun kl. 11:00....

I
Stundum vorkenni ég sjálfum mér. Besti tíminn sem ég finn ef mig langar að vorkenna mér eru morgnarnir. Þá er ég stundum voða þreyttur, eða jafnvel hálfpartinn bara eins og ég sé að verða veikur, eða ég horfi á óleyst verkefni dagsins líkt og í þoku og líst ekkert á framhaldið. Og þegar ég vorkenni mér langar mig ekki að gera neitt sem er hollt eða gott fyrir mig. Þá viljum við vinirnir, ég og sjálfsvorkunnin, bara vera tvö saman í friði því það er skást. Það hefur ekki reynst okkur vel að vera neitt að hreyfa okkur of mikið, vegna þess að bara eftir c.a. tuttug mínútna gang nennir sjálfsvorkunnin ekki að ganga lengra og skilur við mig orðalaust ef ég hætti þessu ekki. Hún vill líka bara að við borðum eitthvað auðmelt og hefur hreina andstyggð á morgunkorni eða hafragrauti. Ristað brauð er best, með osti og sultu. Mikilli sultu.

Einn gráan morgun fórum við saman í sund. Hún vildi það náttúrulega ekki, en ég lofaði henni að við myndum bara hanga saman í pottinum svo að hún lét sig hafa það að koma með í bílinn. Og sem ég sat í bílnum búinn að neyða ofan í mig hollan morgunmat þrátt fyrir allt og vorkenndi mér hvað lífið mitt væri flókið og fáir sem skilja mig eða eitthvað svoleiðis og við ókum vestur Sundlaugaveginn þá sé ég útundan mér á gangstéttinni konu sem ég kannast við. Hún er dálítið hölt, við höfum oft spjallað saman í sundlauginni og erum málkunnug eins og sagt er. Þessi kona þarf að hafa miklu meira fyrir því að ganga heldur en ég, en þarna ók ég í bílnum mínum og hún gekk. Um það hugsaði ég náttúrulega ekki því ég var í svo góðum félagsskap þennan morgun. Ég lagði bílnum og fór inn í Laugar og þegar við sjálfsvorkunnin og ég brokkuðum saman ofan í pottinn vorum við sammála um að það væri ekkert orðið eftir af þessu sumri. Sjálfsvorkunnin í mér er dimmblá á litinn og leggst hérna ofanvert á brjóstið og hún er líka heit. Og þegar hún er hrein, þ.e.a.s. þegar sjálfsvorkunnin er ekki blönduð við neina sjálfsásökun eða kvíða, þá er hún bara mjög notaleg. Það getur einmitt verið gott að liggja í heitum potti með heitri sjálfsvorkunn og bara finna til í rólegheitum. En þennan morgun var ég ekki alveg í essinu mínu, eithvað á báðum áttum hvaða pól ég ætti að taka í hæðina og eftir dálítið þref á milli okkar vinanna ákvað ég að skilja hana eftir og taka metrana mína í lauginni. Ég stóð upp heldur þyngslalegur og sjálfsvorkunnin sendi mér tóninn og minnti mig á hverju ég hefði verið búinn að lofa. Það átti ekki að vera nein hreyfing þennan morgun, ég hefði verið búinn að segja það. En ég var bara býsna ákveðinn og gekk af stað einmitt mátulega til þess að rekast á konuna sem ég hafði séð á gangstéttinni fyrir mörgum mínútum síðan, þarna var hún loksins komin gangandi og búin að koma sér í sundfötin á meðan ég hafði bara legið í pottinum og vorkennt sjálfum mér. Þegar hún sá mig heilsaði hún hressilega að vanda og bætti við: „Veistu, við megum aldrei gleyma því hvað við höfum það gott!” Ég muldraði eitthvað viðeigandi en stóð svo bara eins og þvara og horfði á eftir konunni koma sér hiklaust ofan í laugina til þess að synda.

II
Þekkir þú hvernig það er þegar Guð talar við mann og maður veit að það er hann? Spámenn Guðs ganga ekki í einkennisbúningum, stundum birtast þeir m.a.s. í baðfötum. Það er ekki lúðrablástur eða bjölluhljómur áður en þeir mæla. En orði Guðs fylgir ilmur þegar það er borið fram og því fylgir alltaf lausn. Allir sem þekkja rödd Guðs þrá að heyra hana oft og aftur og aftur. Sjálfsvorkunnin vill hins vegar enga lausn, bara óloft og móðu. Hún vill að við hugsum í hringi um okkur sjálf og teflir fram þægindum sem hinum æðstu gæðum. Þægindi! Það er lausnarorð sjálfsvorkunarinnar. Það er þægilegast að hugsa bara um sjálfan sig og gera ekkert.

Lexían í dag fjallar um þetta. Þar talar Guð fyrir munn spámannsins Jesaja og er að gagnrýna Gyðingaþjóðina fyrir það að gera sjálfa trúna að einskonar sjálfsvorkunnar-heitapotti og spyr:

„Er sú fasta sem mér líkar
sá dagur er menn þjaka sig,
láta höfuðið hanga eins og sef
og leggjast í sekk og ösku?” (Jes 58.5)

Einmitt vegna þess að þægindi eru svo villandi hafa þau sem iðka andlegt líf á öllum öldum, fastað með einum eða öðrum hætti, í því skyni að vera í tengslum við eigið viljalíf og geta óhindrað snúið sér að Guði. En hér má sjá að fastan hafði snúist upp í andhverfu sína og var orðin að sjálfsþjökun. Í stað sjálfsaga var komin eymd. Ég hef heyrt gott og reynt AA fólk segja þessa gullvægu setningu: „Eymd er valkostur! “ Það er svo satt. Svo hræðilega satt.

„Er sú fasta sem mér líkar
sá dagur er menn þjaka sig,
láta höfuðið hanga eins og sef
og leggjast í sekk og ösku?”
Kallar þú slíkt föstu
og dag sem Drottni geðjast?
Nei, sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.”

Sérðu í hvaða átt er verið að benda hérna? Guðs Orð bendir okkur burt frá okkur sjálfum og út til annara með algerlega hagnýtum hætti. Hér er talað um grunnþarfir náungans fæði, klæði og húsnæði og hér er talað um réttlæti í samskiptum manna.
Við megum aldrei gleyma því hvað við höfum það gott! sagði spámaðurinn í sundbolnum.
Sá sem gleymir ekki því góða sem hann á og kann að þakka það er fær um að heyra bæði í Guði og náunga sínum.

Taktu mark á því sem þú sérð og heyrir, segir Guðs Orð við okkur í dag.
Taktu mark á þörfum þeirra sem þú umgengst og gerðu einfaldlega það sem í þínu valdi stendur. Sættu þig ekki við ranglæti og vertu rausnarlegur við fólk.

Þegar fréttir bárust af því að til væru fjölskyldur á meðal okkar sem ekki gætu keypt bækur og ritföng fyrir börnin sín í haust þá rigndi inn tilboðum í kirkjur og inn á Hjálparstarf Kirkjunnar frá fólki sem vildi bregðast við og gefa af sínu. Eða söfnunin í þágu krabbameinsveikra barna á Skjá einum um daginn! Þar var þjóðin einfaldlega að iðka venjulegan kristindóm og það var unun að fylgjast með þessari dagskrá ekki síst fyrir það að allir gáfu af sínu og ekkert pláss var fyrir annað en þakklæti og aftur þakklæti. Sjálfsvorkunninni var vorkunn þetta kvöld.

III
Þakklætið er andstæða sjálfsvorkunnarinnar. Þú veist hvað það er gott að vera nálægt þakklátu fólki. Það er svo hvílandi að umgangast þannig fólk vegna þess að það hugsar ekki í vandamálum heldur í lausnum og maður fer ósjálfrátt að bera virðingu fyrir því. Í Lexíu dagsins er spámaðurinn að ávarpa alla þjóðina og hvatningu hans fylgja fyrirheit frá Guði og lýsing á þeim gæðum sem þjóðin mun njóta ef hún snýr sér að réttlæti:

„Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
[...]
Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.” (Jes 58.5-12)

Kanski ættum við Íslendingar ekkert að vorkenna okkur lengur. Hugsanlega myndum við gera best í því að muna hvað við eigum gott og einbeita okkur að því að gera bara það sem rétt er að gera.

Gæti verið að þjóð sem hafnaði eymdinni sem valkosti en kysi sjálfsaga öðlaðist virðingu? Gæti það gerst að þjóð sem ræktaði með sér þakklátt hugarfar í stað sjálfsvorkunnar fengi traust? Gæti hugsast að þjóð sem gæfi sveltandi fólki af auði sínum í stað þess að draga úr allri þátttöku í neyðar- og þróunaraðstoð eins og við höfum gert í tilefni af kreppunni, eignaðist verðmæti sem væru meiri en þau sem hún lætur af hendi rakna?

Amen.

sunnudagur, 30. ágúst 2009

Hrafnfundna land

prédikun okkar 30. ágúst 2009 í Vídalíns- og Laugarneskirkju.

Höf.: Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson


I
Djúpt í vitund þessarar þjóðar býr reiði gegn landinu sem hún á. Þeir segja ekki frá þessu ferðamannabæklingarnir og þegar fulltrúar okkar ræða við erlenda fjölmiðla örlar ekki á slíku heldur, en hver Íslendingur veit með sjálfum sér að í þjóðarsálinni bærist fleira en feginleiki og aðdáun þegar hugsað er til landsins. Þegar við tölum um klakann og skerið og staðsetjum okkur norður í ballarhafi í orði kveðnu þá eiga hugtökin sem við notum viðspyrnu í þeirri reiði sem við dyljum í garð okkar kalda lands.

Volaða land
horsælu hérvistar-slóðir,
húsgangsins trúfasta móðir,
volaða land!

Þannig ávarpaði þjóðskáldið Matthías Jochumsson fósturjörðina árið 1888 í ljóði sem hann sendi vini sínum Einari H. Kvaran ritstjóra Lögbergs í Kanada er hafís og fæðuskortur hafði þjakað þjóðina. Ljóðið var aldrei var ætlað til birtingar og uppskar slíka reiði að landinn gat vart á heilum sér tekið og átti bágt með að fyrirgefa níðið.

Hraunelda land,
hrákasmíð hrynjandi skánar,
hordregið örverpi Ránar,
hraunelda land!

Hvert erindið rekur annað í ljóðinu og öll hefjast þau á hræðilegum orðaleppum sem skáldið tileinkar landinu sem ól hann: Tröllriðna land, Hafísa land, Stórslysa land, Blóðrisa land, Vandræða land, Drepandi land, Vesæla land! Og svo lýkur hann ljóðinu með ömurlegu sjónarhorni á sjálfa helgisögn landnámsins:

Hrafnfundna land,
munt þú ei hentugast hröfnum?
Héðan er bent vorum stöfnum,
hrafnfundna land!

II
Eitt af því sem ég álít að líf mitt og starf hafi kennt mér er það að taka alltaf mark á reiði. Reiði er mikilvæg tilfinning og hún er okkur af Guði gefin til þess að við missum ekki tökin á tilverunni. Neikvæðar tilfinningar eru mikilvægar. Brunatilfinning er t.d. neikvæð en hún kemur í veg fyrir slys. Þannig er reiðin líka hagnýt ef við kunnum að hlusta á hana og nýta hana skynsamlega. Við myndum aldrei kenna börnum okkar að afneita brunatilfinningu eða svengdar- og svimatilfinningu en meðvitað og ómeðvitað höfum við kennt börnum okkar að hafna reiði sinni - og svo er okkur Íslendingum heldur aldrei kalt og þurfum enga húfu.

Þjóðin varð mjög reið Matthíasi Jochumssyni fyrir níðljóð hans um landið og var síst að skilja að skáldið sem ort hafði sjálfan þjóðsönginn gæti látið slík firn um munn sér fara, en sennilega hefur reiðin sem þar snéri að Matthíasi einmitt verið reiðin gegn sjálfu landinu sem hann leisti úr læðingi af því að skáldið þekkti innviði þjóðarsálarinnar. Það er þannig með reiðina að henni er nokk sama hvert henni er beint, bara að hún fái útrás. Því í sjálfri sér er reiðin oft heimsk og skammsýn, þótt hún sé sönn og brýn.

Í guðspjalli dagsins er Jesús að hjálpa okkur til þess að meðhöndla reiði okkar þannig að við tortímumst ekki. „Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.” segir hann. Það er eitt að reiðast og hlaupa á sig með stóryrðum og annað að eyðileggja lífið, hafna öllu réttlæti og sannleika þannig að tortímingin verði alger. „Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.” segir Jesús í guðspjalli dagsins. (Matt. 12.31ff)

Við erum langreið þjóð og við vitum það vel. Við tortryggjum náttúru landsins sem okkur finnst líka alltaf hafa verið á móti okkur. Sú stórfjölskylda er ekki til sem ekki hefur misst einhvern nákomin ofan í haf eða undir snjó. Öll stórfjölskylda móðurafa míns heitins fluttist á mölina eftir suðurlandsskjálftann skömmu fyrir aldamótin 1900 og ég ólst upp við sögurnar af þeim voðaatburðum er landið gekk í bylgjum og hvernig afasystur minni var naumlega bjargað úr bæjarrústunum að Áshóli í Holtum. Hver fjölskylda á sínar sögur af hinni viðsjálu náttúru landsins.

Reiði er alltaf tjáning á vanmætti. Reiði okkar í garð landsins og náttúru þess tjáum við með margvíslegum duldum hætti, m.a. með því að klæða okkur illa og láta alltaf eins og okkur sér ekkert kalt. Margt sem tengist einhverju þjóðlegu höfum við líka gert að kjánaskap eða þvingun:
Á 17. júní syngjum við „hæ, hó jibbí jei!” og fjallkonan í múnderingu prílar upp á pall að lesa ljóð eftir löngu dauðan kall. Fánalögin okkar eru svo stíf að það er ekki hægt að fara eftir þeim. Niðurstaðan er sú að fáir nenna að eiga fánastöng við hús sitt og enginn getur í rauninni notað okkar fallega þjóðfána svo sem bæri. Þjóðsöngurinn okkar yndislegi er samt þannig að við höfum minnimáttarkennd gagnvart honum og fáir sem treysta sér til þess að syngja hann. Þjóðbúningur kvenna kostar mörg mánaðarlaun og er óþægilegur í að vera. Svo eru e.t.v. bara tíu manns á Íslandi sem kunna að tala Íslensku almennilega. Allt fólk er alið upp í vanmetakennd gagnvart móðurmálinu og menn keppast við að leiðrétta hver annan í málfari og stafsetningu.

Allt eru þetta einkenni reiðinnar sem vanmáttur okkar veldur. En reiðin sem hér um ræðir er líklega mikilvægur þáttur í þeim vanda sem þjóð okkar stendur andspænis í dag. Við höfum numið landið en við erum ekki búin að ákveða hvort við elskum það. Við höfum stofnað lýðveldi en við vitum ekki með vissu hvort okkur langar að vera þjóð. Þess vegna unum við ennþá spillingunni og öllum vinagreiðunum framhjá regluverki samfélagsins, svörtu atvinnunni sem nemur fjörutíu milljörðum á ári og öllu öðru sem við ástundum gegn kerfinu. Já, við tölum um kerfið og gjöldum varhug við helstu stofnunum samfélagsins og búmst ekki við réttlátri málsmeðferð á neinu sviði. Við svindlum vegna þess að við álítum að lífið sé svindl hvort eð er. - Við notum engar húfur, okkur er ekkert kalt og það skal ekki rigna!

III
„Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.”

Freistingar og synd eru af þrennum toga. Til er synd gegn líkamanum, efninu. Í annan stað er syndin gegn sálinni. En syndin sem snýr að andanum er verst og hún verður ekki fyrirgefin. Freistingafrásagan af Jesú fjallar um þetta. Eftir að Jesús hafði verið skírður í ánni Jódan var hann leiddur af andanum út í óbyggðir til þess að hans yrði freistað. Þar dvaldi hann í fjörutíu daga og nætur uns djöfullinn birtist honum og gerði þrjár atrennur að honum. Fyrst reyndi hann að freista hans til að syndga gegn líkamanum með því að fara ódýrar leiðir til að tryggja efnislegt öryggi sitt. „Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauði.” En Jesús svaraði með tilvísun í heilaga ritningu að líf mannsins væri meira en efnið eitt. Þá tók djöfullinn Jesú með sér upp á þakbrún musterisins að hann skyldi syndga gegn sálinni. Hann hvatti hann til þess að fara ódýrar leiðir í því skyni að afla sér frægðar og tryggja þannig félagslegt öryggi sitt. „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“
Syndin gegn líkamanum og sálinni á rætur í þeirri vantrú að Guð muni ekki gefa okkur það sem þarf til líkama og sálar. Í ótta okkar gerumst við gráðug og útsmogin að afla okkur efnislegra gæða og félagslegs öryggis, - peninga og frægðar. Við baktölum, blekkjum og svíkjum og olnbogumst áfram af því að við treystum ekki, trúum ekki að lífið sé okkur gefið af góðum hug. Við höfum t.d. enn varla lært að standa allsgáð í röð og bíða eftir afgreiðslu. Einu raðirnar sem þessi þjóð þolir eru raðir inná skemmtistaði þegar búið er að baða miðtaugakerfið upp úr alkahóli.

IV
Hrunið kom áður en við næðum að syndga gegn andanum. Við vorum búin að breyta steinum í brauð, - skuldum í eign - og höfðum þegar varpað okkur fram af þakbrún frægðarþorstans í trausti þess að hulin hönd markaðarins myndi bera okkur til dýrðar. Við vorum svo þægilega vafin í syndina gegn líkamanum og sálinni. Nú stóðum við á ofurháu fjalli valdsins og horfðum yfir öll ríki heims á dýrð þeirra: „Allt þetta skal ég gefa þér” sagði freistarinn „ef þú fellur fram og tilbiður mig.” (Matt. 4.1-11) Og vegna þess að við vorum orðin lyginni vön og þeirri notalegu hugsun að eftir allt væri græðgin bara öllum fyrir bestu, þá þótti okkur ekkert óþægilegt að heyra það haft eftir opinberum aðilum að eitt af hinum góðu þjóðareinkennum sem gerði okkur hæfari en aðrar þjóðir væri agaleysi okkar og það hversu óútreiknanleg við værum í viðskiptum. Já, syndin gegn andanum var farin að hreiðra um sig í fylgsnum þjóðarsálarinnar, gnýr einkaþotunnar var í hlustunum og lyktin af valdinu í nösunum þegar öllu var skyndilega kippt undan fótum okkar.

Við skyldum ekki vanmeta helgisögnina en íhuga hana og leyfa sannleika hennar að seytla ofan í sálarfylgsnin.

Nú eru nýir tímar. Nú höfum við, þessi langreiða þjóð, nýtt tækifæri til þess að þiggja græðslu og fyrirgefningu. Því synd okkar gegn líkamanum og sálinni, lastmæli okkar gegn landi og lýð, spillingin og heimskan verður fyrirgefin því allt var það í eðli sínu ekki annað en lastmæli gegn Kristi Jesú sem borið hefur alla veröld upp á krossinn.
Þessar syndir geta máðst, segir frelsari okkar í Guðspjalli dagsins. Þessi sár mega gróa ef þjóðin gerir iðrun og yfirbót og snýr sér til mín. Þessi synd var ekki synd til dauða. Enn höfðuð þið ekki syndgað gegn andanum og gefist hinum illa grímulaust á vald.

Nú skulum við biðja þess að Íslensk þjóð komi til sjálfrar sín, viðurkenni reiði sína og vanmátt og strengi þess heit að fara aldrei framar ódýrar leiðir í ótta sínum. Þá munu börn okkar eiga framtíð og þau munu elska þetta land og langa til þess að vera þjóð í hópi þjóða.

Amen.


Textar sunnudagsins:
Sálm 40.2-6
Jak 3.8-12
Matt 12.31-37