sunnudagur, 10. maí 2009

Ég kalla ykkur vini

Prédikun dagsins:

 

Þegar Reykjavík var ung og ómótuð skömmu fyrir þarsíðustu aldamót var ungur alskeggjaður guðfræðinemi sem tók sér það fyrir hendur að stofna kristilegt tilraunafélag með ungum drengjum sem sumir hverjir voru þekktir pörupiltar á götum bæjarins.  Fyrsti fundurinn var haldinn í svonefndu Framfarafélagshúsi við Vesturgötu 51 í janúarmánuði árið 1899 og þessi ungi guðfræðinemi var Friðrik Friðriksson. 

Í efni sem enn er óbirt en Þórarinn Björnsson guðfræðingur hefur tekið saman er þess getið að Friðrik hafði komið utan frá Danmörku að beiðni sr. Þórhalls Bjarnarsonar lektors og síðar biskups til að gera eitthvað fyrir æskulýðinn í höfuðstaðnum því hér gætti upplausnar og slæpingsháttar á götum og í húsasundum og fékk Friðrik fljótt uppnefnið vitlausi stúdentinn þar sem hann gekk um og gaf sig á tal við unga menn.  En ekki fór framhjá neinum að þessum unga stúdent fylgdi aðlaðandi andrúmsloft.  Sjálfur átti hann erfiða lífsreynslu að baki sem hafði auðmýkt hann og gefið honum innsæi í mannlegt eðli og aðstæður og honum var gefin sú náðargáfa að mæta öllu fólki af virðingu.

 „Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini” segir Jesús í Guðspjalli dagsins. 

Ég kalla ykkur vini! 

Sr. Friðrik Friðriksson átti síðar eftir að verða einhver gagnlegasta persóna aldarinnar með Íslenskri þjóð.  Ávöxturinn af starfi hans og hugsjón býr í menningu okkar, KFUM og K félögin voru stofnuð, knattspyrnufélög spruttu upp, skátastarfið átti upphaf sitt undir handarjaðri hans, kórastarf blómstraði, kvöldskólar voru settir á fót til að mennta unga og fátæka kynslóð, sumarbúðir handa börnum voru reistar úti í Íslenskum sveitum en yfir öllu því fjölþætta starfi sem óx í fótspor þessa einstaka leiðtoga var andi vináttu og virðingar. 

 „Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.” (Jóh 15.12-17)

Á þennan fyrsta fund hins kristilega unglingafélags mættu liðlega fimmtíu unglingspiltar og fór fundurinn sumpart úr böndunum þar sem ekki voru allir fundarmenn fundavanir og mátti Friðrik hafa sig allan við að halda réttum aga.  Fyrsta eiginlega fundaraðstaða félagsins varð í salarkynnum í austurenda Hegningarhússins við Skólavörðustíg sem lánað var til starfsseminnar.  Í lok mars voru meðlimir hins nýja unglingafélags orðnir 127. 

-    “Nýungin dregur þá.  Það er tilbreyting og skemmtun um leið. Bærinn er lítill og fátt er á boðstólum sem dregur þá.  Það er eitthvað frísklegt við fundina, allt einfalt og óbrotið.  Þeir finna, að velferð þeirra er borin fyrir brjósti og eru glaðir yfir því. Þeir finna að þeir eru í senn teknir sem sjálfstæðir menn og þó sem börn; þeir eru leiddir og þó er reiknað með þeim.  Þeir eru glaðir yfir því, að manngildi þeirra er viðurkennt.  Það er sem vorblær hvíli yfir hinu unga félagslífi.”  [1]  Þannig lýsti sr. Friðrik stöðu mála með eigin orðum.

 

Skiptar skoðanir voru á félagsstarfinu, sumum þótti ekki sómi að félagsmönnum þar sem þarna væru m.a. saman komin nokkur af örgustu götufíflum bæjarins auk þess sem það vakti grunsemdir að engin loforð skyldu tekin af meðlimum þessa félagsskapar við inngöngu.  En margir glöddust í hjarta sínu yfir því að sjá að verið væri að leiða unglingana á rétta braut.  Og til eru heimildir um það að kröftugur söngur sem ætíð tilheyrði á fundum hins unga félags uppörvaði fangana sem gistu Hegningarhúsið og færði birtu í sál. 

Á skírdagskvöldi þetta sama ár var haldin samkoma í Dómkirkjunni sem markaði tímamót í Íslenskri kirkjusögu. Í þá daga var ekki venja að halda altarisgöngu nema á haustin og vorin í tengslum við fermingar en Friðrik Friðriksson sá gildi þess að gefa ungum mönnum kost á því að ganga opinberlega fram til að þiggja syndaaflausn með yfirlagningu handa og meðtaka blóð og líkama Drottins.  Friðrik hafði undirbúið drengina vel og skráð þá til þátttöku sem vildu koma að altarinu.  25 til 30 piltar höfðu skráð sig en fjöldi annarra kirkjugesta kom til kirkju þetta kvöld.  Er sunginn var sálmurinn „Son Guðs ertu með sanni” spruttu drengirnir á fætur eins og einn maður og sungu við raust eins og þeir voru vanir að gera á félagsfundunum.  Friðrik lýsir viðbrögðum kirkjugesta svo:  „Söfnuðurinn horfði undrandi á og svo tóku menn smátt og smátt til að standa upp.  Og hér um bil í miðju versi voru allir staðnir upp... Sumir sögðu við mig á eftir, að þeir hefðu aldrei orðið hrifnari á ævi sinni en þá er þeir sáu drengina standa upp og hylla Drottin.” [2]

Við heyrðum lesið úr fyrra Jóhannesarbréfi þessi orð:

„Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði.” (1. Jóh. 4.10-16)

Í öllu starfi sr. Friðriks birtist sú áhersla að hver kristinn maður skyldi játa trú sína í orði og verki og ganga fram sem merkisberi sannleika og réttlætis.  Sjálfur hafði hann tekið þá skíru ákvörðun að fylgja Jesú Kristi og engin ákvörðun reis hærra og var afdrifaríkari í vitund hans og lífi.  Inn í þetta frelsi, þetta upprétta göngulag þar sem vináttan og virðingin fyrir hverri manneskju er í hávegum höfð vildi hann leiða aðra með sér.  Og hann vissi af eigin raun að besta skrefið í átt að sannri mennsku er í því fólgið að beygja kné sín fyrir almáttugum Guði.  Í stað þess að krefja ómótaðar unglingssálir um loforð eða knýja þau til að uppfylla einhver félagsskilyrði til þess að geta talist fullgild þá stóð hann sjálfur við hlið þeim og laut frelsara sínum í heilagri kvöldmáltíð. Hlið við hlið stóð þessi sundurlausi hópur og þáði gjöf frelsarans Jesú, sáttargjörðina í  líkama hans, vináttuna í nærveru hans og réttlætið sem fylgir nafni hans hvar sem það er nefnt og tignað. 

Frá þessu skírdagskvöldi fyrir 110 árum skapaðist sú venja að kirkjugestir rísi á fætur er sunginn er sálmurinn „Son Guðs ertu með sanni” og jafnframt varð sá siður útbreiddur að bjóða til altaris í kirkjum landsins kvöldið sem Jesús stofnaði heilaga kvöldmáltíð. 

„Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini...” 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er enn og verður um aldir alda.  Amen.

 

Textar:  5Mós 1.29-33, 1Jóh 4.10-16, Jóh 15.12-17

 

 [1] FF Rvik 1933, 48-49

[2] FF Rvik 1933, 51

sunnudagur, 3. maí 2009

Myndi ég blekkja þig?

Hér kemur prédikun dagsins:

Það er e.t.v. orðið svolítið þreytt að segja að við séum að lifa áhugaverða tíma.  Það getur virkað eins og aum tilraun til að setja plástur á svöðusár þjóðfélagsins sem við blasa.  Maður skyldi ekki gera lítið úr óvissu og erfiðleikum sem við Íslendingar og raunar heimurinn allur stendur frammi fyrir, svo laus sem veröldin virðist orðin á límingunum og óþarft er að rekja.  En um leið er mjög mikilvægt að læra og læra hratt hvernig best sé að takast á við svona viðamikinn og margslunginn vanda.  Í þeirri viðleitni trúi ég að Jesús frá Nasaret sé einhver gagnlegasta persóna og ljóst að þar stendur hann ekki við hliðina á neinum.  Engin persóna mannkynssögunnar gnæfir jafn hátt og Jesús og hefur svo klára sýn á aðalatriðin í kvíðastjórnun og kreppuviðbrögðum sem hann. 

Orð hans í guðspjalli dagsins eru skínandi dæmi um kvíðastjórnunarræður Jesú þar sem hann kemur beint að efninu og segir: „Hjarta yðar skelfist ekki.”  Ítrekað hóf Jesús ræður sínar raunar á svipuðum nótum: „Verið óhræddir”, „Hví eruð þér hræddir?”, „Óttist eigi”, „Vertu ekki hrædd litla hjörð!, „Verið ekki áhyggjufull um lífið”...  Og jafnan fylgdi hann hvatningu sinni eftir með útskýringum sem enn í dag vekja yfirvegun og kjark og hleypa fólki kapp í kinn, sem áður var skelkað og beygt.

Kreppu- og  kvíðastjórnunarræður Jesú voru af margvíslegum toga.  Stundum ræddi hann um óttann við skort á efnislegum gæðum, stundum talaði hann um óttan við náttúruöflin, eða þá um ofbeldi, drepsóttir, stríð, lögleysi og jafnvel um endi allra hluta.  Í því sambandi sagði hann: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd... Himinn og jörð munu líða undi lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.” (Lúk. 21.28,33)

Finnur þú til eins og ég þegar þú heyrir þessi orð?  Er líka í þér einhver strengur sem vildi óska þess að Jesús hefði hagað þeim á annan veg?  Hefðum við ekki viljað hafa Jesú sem fullyrti að allt færi vel að lokum í heiminum og að veröldin hefði í sjálfri sér innbyggð jafnvægisferli sem alltaf myndu grípa inn í óæskilega þróun til þess að leiðrétta og bæta.  – einskonar ónæmiskerfi alheimsins gegn áföllum og dauða.  Það hefði verið notalegt.  En hefði Jesús farið þá leið væri hann ekki annað en enn einn kenningarsmiðurinn rekinn áfram af eðlislægri sjálfsbjargarviðleitni okkar manna.  Erindi Jesú frá Nasaret var ekki það að rétta mannkyni nýjar árar til að nota við lífróðurinn. “Himinn og jörð munu líða undir lok” sagði hann.  Og „Hver sem ætlar að bjarga lífi sínu mun týna því!” 

 Yngsti sonur minn er í menntaskóla og er að lesa undir próf í jarðfræði.

Ég var að glugga í námsefnið hans.  Vissir þú að ef við ferðuðumst hundrað km. niður í jarðskorpuna tekur við glóandi bráðin hraunkvika sem nefnd er deighvel?  Þetta deighvel umlykur jarðmöttulinn og harðnar ekki fyrr en á 200 km. dýpi.  Á þessu fljótandi undirlagi leikur jarðskorpan þannig að sjálf meginlöndin færast til.  Landið okkar breikkar til austurs og vesturs um 2 cm. á ári vegna þeirra ofurkrafta sem takast á í iðustraumi jarðkúlunnar.  Allt hreyfist, ekkert stendur kyrrt.  “Panta hrei -Allt hreyfist” sögðu líka grísku frumspekingarnir, fyrirrennarar Plató, Aristótelesar og Sókratesar.  Allt hreyfist! Við vitum það. Hvort sem við skoðum náttúruvísindin, hugum að orðræðu heimspekinnar, lesum Biblíuna eða bara gluggum í fjölskyldualbúmin, þá blasir við sú staðreynd að ekkert er handfast í heiminum og fyrr eða síðar mun veröld þín og mín líða undir lok í þeirri mynd sem við þekkjum hana.  

 

Tíminn steðjar sem streymi á


strengir um kletta falla.


Undan mig rekur ofan hjá,


áralausan að kalla. 

Með hverri stundu sú stríða röst


að stóra fossinum dregur.


Flúðir mér ógna og iðuköst,


enginn til bjargar vegur. 

Þannig lýsti trúarskáldið Sigurbjörn Einarsson mannlegum kjörum og þurfti hvorki bankakreppu né svínapest til að fullyrða það sem hann sagði.

Það er inn í þessar óttafullu hugsanir þennan dauðabeyg sem býr með hverjum manni sem Jesús er að tala þegar hann mælir fram orð Guðspjalls þessa sunnudags: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
(Jóh. 14.)

Og guðspjallið er svo heiðarlegt í gerð sinni að þar er ekki dregin dul á efasemdir lærisveinanna.  Tómas spyr: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“


Heyrir þú hvert Jesús vísar?  Sér þú hvaða rök hann færir fram sem ástæðu þess að menn skuli ekki óttast?  Hann vísar beint í sjálfan sig og til þeirra tengsla sem hann á við vini sína og áheyrendur. „...Væri ekki svo hefði ég þá sagt ykkur að ég færi burt að búa ykkur stað?” 

Einhver vitlausasta setning sem hægt er að láta út úr sér í samskiptum við fólk er þessi: „Treystu mér!” Okkur hættir til að nota þessa skipun til þess að knýja fram traust þegar við e.t.v. einmitt vitum að við verðskuldum það ekki. „Treystu mér!” En það er ekki hægt að skapa traust með orðum. Traust verður bara til í verki. Traust vex af reynslu og af verðleikum en ekki með tilskipunum.  Þegar Jesús spyr lærisveina sína og vísar til sjálfs sín og eigin trúverðugleika, þá er hann að vísa í reynslu þeirra.  Það er innistæða fyrir orðum hans og hann veit það.  „...hefði ég þá sagt ykkur að ég færi burt að búa ykkur stað?”

Þarna er trúin. 

Í heilbrigðri sjálfsbjargarviðleitni hafa menn leitast við að smíða hugmyndakerfi sem sýni framþróun og sigur mannsins yfir aðstæðum sínum.  Síðasta öld var afkastamest allra alda í þeim efnum og færði okkur kommúnismann og frjálshyggjuna sem eiga sameiginlega þá trú að innri lögmál muni leiða til sigurs fyrir alla bara ef við leggjumst öll á eitt um  að leyfa því að gerast. Og ekki skyldum við gleyma nasismanum. Treystu mér! sögðu þessi kerfi.  Treystu hugsmíðinni, reiddu þig á tilraunina! sögðu þau hvert um sig.  Það verður spennandi ef maður skyldi lifa það að lesa sögubækur í menntaskólum eftir fimmtíu ár. Hvernig verður þá fjallað um öld hinna miklu þjóðfélagstilrauna, hina blóðugu öld bjartsýninnar á manninn og getu hans? Engin öld hefur falið í sér viðlíka sviptingar.  Hún hefur sannarlega opnað sýn inn í hið fegursta og besta í mannlegu fari, Því skulum við ekki gleyma, kjarkur og geta mannsandans hefur náð nýjum hæðum um leið og hið ljótasta og grimmasta sem bærist í mannshuganum hefur verið leitt fram í dagsljósið. 

Óhögguð standa orð Krists Jesú: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.”  Hér er ekki tilraun.  Hér er ekki kerfi eða aðferð heldur lifandi persóna.  Þú þekkir mig segir Jesús, þú þekkir hvernig ég elska, veist hvernig ég framkvæmi réttlætið.  Myndi ég blekkja þig?  Og andi mannsins svarar: Nei, Jesús Kristur, þú myndir aldrei blekkja.

Það var út frá þessari trúarreynslu sem Páll skrifaði þetta sem lesið var áðan: „Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.” (2. Kor. 4.14-18)

Kristin hugarhreysti í straumfalli tímans er ekki kokhreysti þess sem er viss í sinni sök.  Hún á ekkert skylt við sannfæringuna um að dæmið gangi upp að lokum, að kerfið geti ekki klikkað eða tilraunin runnið út í sandinn.  Kristin hugarhreysti er bara reynslan af Jesú. 


Með hverri stundu sú stríða röst


að stóra fossinum sogar,


en vinarins hönd er viss og föst,


vitinn á ströndu logar.(sálmabók nr. 415)

 

Amen.