þriðjudagur, 15. mars 2011

Það sem launaumslagið segir ekki

Prédikun okkar frá liðinni helgi:
Fyrir nokkru síðan tókum við hjónin okkur far með flugvél yfir til Kaupmannahafnar. Við hlið okkar sat maður á miðjum aldri sem við könnuðumst við frá árum okkar í Vestmannaeyjum, greindur og skemmtilegur karl. Við ræddum gamla tíma og gagn og gæði mannlífs í Eyjum, milli þess sem litið var í bók og borðaður einhver óskilgreindur flugvélamatur. Þegar sá til meginlandsins og farið var að styttast í ferðinni segir þessi maður við okkur eftir nokkra þögn: ‘Ég hef aldrei sagt ykkur frá atburði sem gerðist og ykkur varðar.’ Við litum hvort á annað og svo á viðmælandann. ‘Þetta var í sjálfu sér lítill atburður og helgaðist af því einu að ég var bara staddur á réttum stað á réttum tíma... En ég hef oft hugsað til þess og alltaf verið því feginn.’ ‘Hvað gerðist?’ spurðum við. ‘Þetta var daginn sem háskólasetrið í Eyjum var vígt þarna um árið og þið voruð þarna með börnum ykkar. Það eru brattar tröppur í húsinu og dóttir ykkar var bara á leikskólaaldri. Og það vildi svo til að ég kom aðvífandi einmitt þegar hún var að taka skref aftur fyrir sig en vissi ekki að hún stóð á skörinni. Ég bara greip hana í fallinu og það gerðist ekki annað en hún varð hrædd og hljóp að finna ykkur. Það hefði farið mjög illa hefði hún dottið.’
Við mundum daginn og kringumstæðurnar, einn af ótal góðum dögum með góðu fólki. Og þarna hafði legið við alvarlegu slysi sem ekki varð og lífið hélt áfram í sínum góða takti vegna þess að glöggur og snarráður maður var staddur í réttri tröppu á réttu andartaki, og enginn vissi neitt nema hann einn.
‘Ég hef alltaf litið á þennan atburð sem blessun’ bætti maðurinn við, og við skynjuðum að söguna sagði hann ekki til þess að hljóta þakkir heldur til þess að létta á sér. Við þökkuðum manninum fyrir að deila þessu með okkur og að hafa verið til staðar á ögurstundu í lífi barns okkar og svo kvöddumst við nokkuð hugsi og hurfum inn í flugstöðvar-manngrúann.

Þessi atburður rifjaðist upp fyrir mér þegar launamál bankastjórnenda komu enn til umræðu í liðinni viku og enn og aftur voru borin á borð rökin um ábyrgð og endurgjald svo að tómahljóðið glumdi í samfélaginu. Enn heyrum við talað eins og því sé í raun þannig farið að laun endurspegli það gagn sem menn vinna.
- Er það svo? Er það virkilega svo að verk okkar eigi ekki dýpri tilvísun en þá sem birtist í launaumslaginu?

Lexía dagsins er úr hinni ævafornu helgisögn um bræðurna Kain og Abel og fjallar einmitt um þetta mál. Kain var jarðyrkjumaður og Abel var hjarðmaður, báðir unnu þeir verk sín, en Guð hafði ekki þóknun á verki Kains. „Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: ‘Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.’“ (1Mós 4.3-7)

Við vitum ekkert í hverju synd Kains var fólgin. Við vitum bara að synd hans varð fullþroska og ól af sér dauða því svo fór að Kain drap Abel bróður sinn. Helgisögnin um Kain og Abel miðlar þeirri vitneskju að verk okkar hafa ekki bara yfirborðsmerkingu heldur ræðst gildi þeirra enn fremur af þeim hvötum sem til þeirra leiða. Það er m.ö.o. ekki einungis tilgangurinn sem helgar meðalið heldur liggur inntak verksins í gerandandum sjálfum. Við erum hvött til þess að spyrja okkur: ‘Hvers vegna geri ég það sem ég geri? Hvað er það sem knýr mig áfram?’

Hvernig ætti ég að meta til launa verknað mannsins sem við urðum samferða í flugvélinni? Hvað vil ég gjalda fyrir heilbrigði barnsins míns? Eða hvernig ætti að verðleggja þær óteljandi hetjudáðir sem unnar hafa verið við hörmulegar aðstæður í Japan síðustu sólarhringa? Ég segi óteljandi hetjudáðir vegna þess að þannig er fólk. Fólk vinnur hetjudáðir, hættir hiklaust eigin lífi í þágu annarra, vegna þess að það sér merkingu í lífinu sem er æðri en yfirborð hlutanna.

Maðurinn í flugvélinni hafði engu til kostað að bjarga dóttur minni frá alvarlegu slysi. En vegna þess að hann er vakandi og næmur einstaklingur og vegna þess að hann var á réttum stað á réttri stundu þurfti hann bara aðeins að haska sér til þess að koma í veg fyrir mikið áfall. Það sem upp úr stendur er að í hans huga er þessi atburður blessun. Þessi maður, - og ég get með engu móti rifjað upp nafnið hans, - þessi maður lítur á það sem blessun að hafa fengið að vera þarna. Skynjar þú lífsviðhorfið sem hér er á ferðinni? Og sérðu hversu fjarri það er þeirri kröfu að verk manns skuli endurgoldin?

Einhversstaðar þarna sjáum við afhjúpast eðli þeirrar skekkju sem um er að ræða í launamálum bankastjórnenda. Það er einhver gírug afstaða, einhver þóttafull tilætlun sem ræður og hún er ekki í takti við lífið.

Hörmungarnar sem nú ganga yfir Japan afhjúpa hve merkingarlaust það er að hlaða undir sjálfan sig. Lífið er svo stór gjöf að græðgi er það alheimskulegasta sem hægt er að taka sér fyrir hendur. Svo er hin stóra gjöf lífsins líka svo brothætt og hverful að hugmyndin um yfirráð og völd er í rauninni fjarstæða. - Yfirráð yfir hverju? Völd til að gera hvað? Við erum bara fólk, bara sprek á ströndu sem sópast undan flóðbylgjum hafsins. Til hvers eru völd?
„Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn.” Segir Jesús í guðspjalli dagsins og í orðum hans er dulið háð. „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.” (Lúk 22.24-32)

Er meistarinn ekki að birta okkur mikilvægan sannleika í þessum orðum? Er hann ekki að kenna okkur á lífið, hjálpa okkur til að leggja frá okkur gamlar hugmyndir um yfirráð og stjórnunaraðferðir sem illa hafa reynst og hvetja okkur til þess að sjá að endurgjald hvers verks liggur í því sjálfu? Það er þjónustan og hennar sjálfstæða gildi sem mestu varðar, hvort sem við þjónum bankastofnunum eða barnaheimilinum, stundum laxeldi eða rafvirkjun, sinnum öldruðum eða rekum veitingahús. Hvað sem við gerum jafnt á heimili, vinnustað eða skóla, þá er það þjónustan sem gildir, - viljinn og leiknin í því að láta gott af sér leiða.

Í hliðstæðum frásögnum Matteusar og Markúsar bætir Jesús við og segir: “Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Mark. 10.45 og Matt. 20.28)

Um leið og við hugsum til japönsku þjóðarinnar og þeirrar hræðilegu blóðtöku og eyðileggingar sem hún má nú þola skulum við sem njótum þeirrar gæfu að búa á Íslandi reyna að lifa eins og manneskjur. Við skulum t.d. ekki afhenda bankastofnanir eða aðra grunnþjónustu samfélagsins í hendur fólki sem ætlar fá raunverulegt endurgjald verka sinna í launaumslaginu sínu. Það er ekki gott að gera það. Við skulum ekki láta girndina ráða heldur skulum við taka við því sjónarhorni sem m.a. er opnað á í textum þessa fyrsta sunnudags í páskaföstu, að besta svarið við hinni stóru gjöf lífisins er það að þjóna lífinu því að endurgjald hvers verks liggur í verkinu sjálfu.
Svo skulum við biðja góðan Guð að gefa okkur daglegt brauð og vera iðin við að skima í kring um okkur til að vita hvort það hafi ekki örugglega allir það sem þeir þurfa.

Amen.