mánudagur, 1. október 2012

Sænska stellingin

Prédikun sl. sunnudags: Um daginn fékk ég alveg bráðmerkilegar upplýsingar hjá manni nokkrum sem er blindur. Hann á hund sem er sérþjálfaður til að hjálpa honum að fara um götur og torg. Þetta er yndisleg skepna með mjúkan og glansandi feld og það fer vel á með þeim félögum í dagsins önn. En eitt af því sem ræður úrslitum um þeirra góða samband er sú staðreynd að hundurinn er haldinn ákveðinni skynvillu. Þessi hundur gengur fram í þeirri trú að sjálfur sé hann svona u.þ.b. tveir metrar á hæð. Skynvilla hundsins gerir það hins vegar að verkum að eigandinn má treysta því að þegar þeir eru saman á göngu muni hann ekki reka sig upp í lágar dyr, götuskilti eða slútandi trjágreinar. Vitaskuld er þessi áhugaverði misskilningur liður í þeirri þjálfun sem blessuð skepnan hefur fengið og einn af þeim eiginleikum sem gerir hund að blindrahundi. Ritningartextar dagsins gefa okkur tilefni til þess að takast á við skynvillu sem lengi hefur fylgt mannkyni en er ekki jafn meinlaus og skemmtileg og sú sem blindrahundar hafa að bera. Við manneskjur göngum í hjartans einlægni fram í þeirri vissu að við séum það sem við afrekum. Þessu treystum við eins og nýju neti, jafnvel þótt við blasi að þannig er því ekki varið. Alltaf þegar ég heyri guðspjallssögu dagsins, frásögnina af því þegar Jesús neitaði að haga sér í fína boðinu í húsi Faríseans, (Lúk. 14.1-14) þá dettur mér í hug hann Flosi Ólafsson leikari. Blessuð sé minning hans. Einhvern tímann mun Ríkisútvarpið taka til endurflutnings pistlana sem hann flutti hér á árum áður og glöddu flesta landsmenn. Eitt skiptið sagði hann frá því að loks hefði honum verið boðið innan um almennilegt fólk. Þetta var á þeim árum þegar köld borð og pinnamatur voru að ryðja sér til rúms í veislumenningu landans og taldi Flosi að það væri á allra vitorði að þegar almennilegt fólk kæmi saman þá settist það ekki heldur stæði með glös á mjóum fæti og borðaði pinnamat. Trúði hann útvarpshlustendum fyrir því að hann fengi ekki nógsamlega þakkað það lán að hafa fengið réttan undirbúning fyrir þetta fína samkvæmi, en svo hefði viljað til að hann hefði þá rétt nýlega fengið tilsögn í sænsku stellingunni, sem hann nefndi svo. Vildi hann endilega gefa áheyrendum hlutdeild í þekkingu sinni sem svo vel hefði reynst að fólk efði sópaðist að honum; Fyrst skyldu menn taka glas með mjóum fæti, finna sér svo hlutlaust svæði að standa á þar sem maður væri ekki fyrir neinum. Þá skyldi standa vel í vinstri fót en tylla hægra tábergi og hafa hælinn uppi á rist þess vinstri. Glasi skyldi haldið í hægri hönd en olnboginn hvíla á þeirri vinstri sem höfð væri í þægilegri 90° sveigju. Hvatti Flosi útvarpshlustendur til þess að prófa þessa aðferð ef þeir kæmu innan um almennilegt fólk og sanna til að sænska stellingin er svo aðlaðandi að menn gefa sig sjálkrafa á tal við þann sem þannig hefur komið sér fyrir. Lagði hann jafnfram þunga áherslu á að ekki væri sigur unninn nema maður gætti þess að segja ekkert við viðmælendur sína nema „aha” og „mmm” með innfjálga jákvæðni í raddblæ og fasi. Fullyrti Flosi af fenginni reynslu að hver sem þetta gerði yrði óskoraður hrókur fagnaðar í fínum húsum. „Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum.” segir saga dagsins. Þá er þarna allt í einu maður sem örugglega var ekki á gestalistanum því fársjúku fólki er ekki boðið í fín samkvæmi. Hann stendur þarna eins og þvara í miðjum fordrykknum afmyndaður af bjúg eða vatnssjúkur eins og guðspjalli segir. Þá tekur Jesús fyrstu snerruna af þremur í þessu boði. Það sem hann í raun gerir er bara það að hann setur þarfir þessa veika manns á vogarskálar samkvæmisins og metur þarfir hans þyngri en hneykslun boðsgesta. Og enda þótt það sé hvíldardagur og guðrækni samtímans banni að veita nokkra þjónustu á slíkum degi, - þótt sjálfsagt hafi nú verið þjónar að störfum í húsinu - þá tekur Jesús á manninum og læknar hann. Svo horfir hann á boðsgestina og spyr: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt það sé hvíldardagur?“
Þeir gátu engu svarað þessu, segir guðspjallið. Boðflennan gengur á braut, allir anda léttar og það er boðið til borðs. Það voru ekki merkt sæti í veislunni heldur bara svona frjálst sætaval og boðsgestir taka að stympast fast en kurteislega og keppast um hefðarsætin með fáguðu yfirbragði. -„Þegar einhver býður þér til brúðkaups...” Heyrist þróttmikil röddinn. -Kann maðurinn ekki að stoppa?! Segir einn við annan. Hverjum datt í hug að bjóða þessum manni hingað fyrir það fyrsta? -“Þegar einhver býður þér til brúðkaups þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Húmoristarnir í hópnum hafa glott, fúlistarnir gníst tönnum en gestgjafinn litið áhyggjufullur í kringum sig. Hversu vandræðalegt ætlaði þetta að verða? Fyrst sakar hann alla um hjartakulda gagnvart veikum manni og svo gefur hann beint í skyn að andrúmsloftið í salnum sé hlaðið metingi. Ég er viss um að þarna hefur skemmtiatriðum verið flýtt og einu skellt fram á meðan forréttur var borinn á borð. Veislustjórar allra alda kunna sitt fag. Andrúmsloftið léttist enn þegar aðalrétturinn kemur, vínið flæðir, snjallar tækifærisræður eru haldnar, hlátursbylgjur far um salinn og það er gaman að lifa. Menn sjá að Jesús er bæði glaður og lystugur og drekkur í sig það sem verið er að segja og það er heiðríkja í hlátri hans. Þegar hann svo stendur á fætur og biður um orðið gefur gestgjafinn veislustjóra merki um að slaka bara á, hann er sannfærður um að nú ætli Jesús að nota tækifærið til að slétta yfir það sem hann sagði og gera gott úr öllu saman. Ég trúi ekki öðru en að Jesús hafi þakkað fallega fyrir sig, hrósað gestgjafanum og ekki síður veitingafólkinu sem annaðist veisluna. En minnisverðust urðu orðin sem hann svo beindi að gestgjafanum og enduðu í guðspjalli dagsins: „Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum því að þeir bjóða þér aftur og þú færð það endurgoldið. Þegar þú gerir veislu þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða því að þeir geta ekki endurgoldið þér en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.“ Úff. Við höldum að við séum það sem við afrekum. Okkur líður þannig, ekki síst innan um þau sem við berum okkur saman við. Okkur finnst við þurfa að gera eitthvað til að vera eitthvað. Við girnumst góðar stöður og réttu tengslin. Í útvarpspistlinum sem ég minntist á var Flosi Ólafsson í rauninni að gera miklu meira en að skemmta fólki. Hann var að ráðleggja hlustendum nákvæmlega það sama og Jesús ráðlagði í veislunni forðum; - Gættu þess að gera sjálfan þig ekki breiðan, taktu ekki rými af neinum heldur hlustaðu á fólkið í kringum þig, þá farnast þér vel. M.ö.o.: Notaðu sænsku stellinguna, byrjaðu á því að vera en ekki að gera eitthvað til að vera eitthvað. Heyrum núna aftur pistilinn úr Efesusbréfinu: „Verið í hvívetna lítillát og hógvær.” Skrifar Páll “Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.” (Ef 4.1-6) Hún er skemmtileg og gagnleg skynvilla blindrahundsins góða sem hlífir eigandanum við því að ganga á skilti og slútandi greinar. En skynvilla tíðarandans fær menn á öllum öldum til að ganga á veggina þrjá sem Jesús bendir á í guðpsjalli dagsins. • Hefðu boðsgestir skynjað hið sanna, að þeir voru einn líkami með vatnssjúka manninum, þá hefðu þeir ekki beitt hann kaldlyndi. • Hefðu allir veislugestir fundið til skyldleika síns innbyrðis hefði þeim þótt kjánalegt að metast og bítast um sætin í veislunni • og hefði gestgjafinn borið skynbragð á raunverulegt samhengi sitt við annað fólk þá hefði hann ekki gert þetta heimboð að viðstkiptum undir yfirskyni vináttu og boðið bara þeim sem gátu endurgoldið. Kaldlyndi okkar, metingurinn á milli okkar og tvískinnungurinn sem við öll eigum svo mikið af á rætur í skynvillu. Við höldum að við séum það sem við afrekum á meðan við blasir sú einfalda staðreynd að allir menn, allt fólk í veröldinni er eitt. - Einn er líkaminn, einn andinn [...] Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum. Amen Textar: Okv 16.16-19 Ef 4.1-6 Lúk 14.1-14