laugardagur, 19. júlí 2008

Tilraunin

Saelt veri folkid.

Okkur datt that svona i hug i sumarleyfinu ad skella her inn predikun sem vid fluttum sl. paska. Thar er ad sumu leiti sama thema og vid fjollum um i raedunni um Samsteypuna. Samsteypan og 'tilraunin' er thad sama i okkar huga; tvo hugtok yfir hin raunverulegu truarbrogd vestraennar menningar.

Flutt á páskum 2008 í Laugarneskirkju og í Bessastaðakirkju.

Textar: Sálm. 118. 14-24, 1. Kor. 5. 7-8, Mark. 16. 1-7Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.

Skreytið hendur og eyru
með glitrandi gimsteinum.
Haldið dansleiki og veislur
undir vorbláum himni.
Hrópið afreksverk ykkar og hetjudáðir
af húsþökunum.

Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.

Byggið hallir og musteri
úr drifhvítum marmara.
Leggið götur og stræti
úr gulum og rauðum sandsteini.
Reisið turna og vígi,
sem enginn kemst yfir nema fuglar himinsins.

Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.

Á þessum páskum, er fagnaðarhátíð upprisunnar fylgir flóðbylgju sólarljóssins er það skellur á jarðarkringlunni svo að morgnar í hverju landinu af öðru, þá þykir mér þetta ljóð eftir skáldið Stein Steinarr hitta okkur Íslendinga fyrir þar sem við erum stödd.

Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.

E.t.v. hefur þjóðin sem byggir þetta land aldrei fyrr verið jafn full af sjálfri sér.

Einn ágætur prestur norður í Lofoten í Noregi sagði okkur hjónum eitt sinn merka sögu. Hann hafði farið að vitja öldungs eins á sjúkrahús sem orðið hafði fyrir slysi og legið við drukknun, og saga þessa gamla manns hefur síðan orðið mér hugstæð. Hann hafði verið stærsti útgerðarmaðurinn í sínum firði, og jafnan átt mikið undir sér. Á gamalsaldri naut hann góðrar heilsu og kunni því illa að sitja auðum höndum. Var það vani hans á góðviðrisdögum að hann reri bát sínum út á fjörðinn til að renna fyrir fisk. Þessi fjörður og hafið úti fyrir hafði gefið honum öll hans auðæfi, en þakklátastur var hann þó sjálfum sér, dugnaði sínum og útsjónarsemi. Nú var hann orðinn aldraður og eftirlét öðrum að puða þótt hann gæti ekki fengið af sér að hætta með öllu að róa. Og sem hann er róinn all langt út á fjörðinn einn góðan veðrudag, þá skynjar hann breytingu öðru megin í líkamanum. Einhver undarlegur doði og stjórnleysi virtist koma yfir hann. Þá hugsaði hann með sjálfum sér, að ef hann væri nú að fá heilablóðfall og deyja, þá væri betra að komast að landi svo ekki þyrfti að leita hans um allan fjörð. Hann snéri bátnum fimlega og lagðist á árar með sínum sterklegu hrumu höndum og sóttist róðurinn vel. Og sem kjölurinn rennur upp í fjöruborðið, leggur hann árar í bát og býr sig undir að klofa fyrir borð... en þá gerist það. Hann missir mátt og jafnvægi og þessi þungi mikli skrokkur leggst hálfur út fyrir lunninguna og hangir þar bjargarvana með höfuðið hálft á kafi í sjó.

“Og þarna lá ég” sagði gamli maðurinn við prestinn sinn. “og aldan færði höfuð mitt á kaf. Ég sem alltaf hafði haft vald á lífi mínu og öll mín skipstjórnarár aldrei misst háseta í sjóinn, lá nú fram af borðstokk þessa litla báts og var að drukkna af því að ég gat ekki reyst mig upp. Þá áttaði ég mig á því að ef ég andaði að mér á útsoginu, þegar aldan færðist frá landi, en andaði frá mér í aðfallinu þá myndi ég kannski ekki kafna. Og svo byrjaði ég að anda í takt við hafið og hrynjandi þess. Langur tími leið áður einhver sá mig og mér var bjargað, en ég hefði ekki viljað fara á mis við þann tíma. Því þarna sem ég lá máttvana á hvolfi og neyddist til að anda í takti við öldu hafsins þá uppgötvaði ég Guð. Ég hafði alltaf litið á sjálfan mig sem herra yfir hafinu, mætti þess og gæðum, en nú var því öllu bókstaflega snúið á haus. Og ég bað til Guðs í fyrsta sinn frá því ég var barn. Og ég segi þér satt, ég bað hann ekki um að bjarga mér. Ég bað hann bara að fyrigefa mér og taka við mér.”

Þakklátum huga hefði þessi gamli maður gert orðin sem lesin voru hér frá altarinu að sínum:
“Drottinn hefur hirt mig harðlega en eigi ofurselt mig dauðanum. ... Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er nú orðinn að hyrningarsteini. “

Það gildir einu hver öldin er, hvert landið er, hver maðurinn er, reynslan af Guði er alltaf söm. Þegar líf okkar opnast fyrir Guði þá flökrar ekki að okkur að biðja hann um að bjarga okkur, því frá þeirri stundu er andi mannsins þekkir Guð, þá óttast hann ekki framar örlög sín heldur Guð einan. “Ég segi þér satt, ég bað hann ekki um að bjarga mér. Ég bað hann bara að fyrigefa mér og taka við mér.”

Það hefur alltaf verið hlegið að vanmætti trúarinnar í þessum heimi. Þeir stóðu undir krossinum á Golgatahæð, skóku höfuð sín og sögðu: “Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað.” Og það var hverju orði sannara. Hér hékk hann sem sendur var af Guði veröldinni til hjálpar og gat með engu móti bjargað sjálfum sér. “Verði ekki minn vilji, heldur þinn.” hafði hann beðið og sviti hans var sem blóðdropar er féllu á jörðina. “Verði þinn vilji!” “Slíðra þú sverð þitt!” hafði hann skipað Pétri lærisveini. “hver sem sverði bregður mun fyrir sverði falla.” Hvað er hlægilegra en krossfestur konungur, hvað er aumkunarverðara en grátandi Guð, nema ef vera skyldi þau sem á hann trúa? Varla getum við reist þjóðfélag á slíkum hornsteini? Við hljótum að hafna vanmættinum en tileinka okkur styrkinn. Við hljótum að líta á sjálf okkur sem herra jarðarinnar. Frjáls og glöð hljótum við að halda áfram að nýta allar auðlindir heimsins, smíða hagkerfi sem umfaðamar veröld alla, ná tökum á genamengi mannsins og nema öll lönd önnur eftir því sem þau láta undan getu okkar. Og þetta hljótum við að gera á eigin forsendum, því við eigum þennan heim. Enginn á hann nema við....

Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.

Skreytið hendur og eyru
með glitrandi gimsteinum.
Haldið dansleiki og veislur
undir vorbláum himni.
Hrópið afreksverk ykkar og hetjudáðir
af húsþökunum.

Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.

Byggið hallir og musteri
úr drifhvítum marmara.
Leggið götur og stræti
úr gulum og rauðum sandsteini.
Reisið turna og vígi,
sem enginn kemst yfir nema fuglar himinsins.

Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.


Við erum þátttakendur í stærstu tilraun sem gerð hefur verið á jörðinni. Við erum byggingarverkamenn í hæsta Babelsturni sem reistur hefur verið. Loksins nú skal hann ná til himins eftir allt. Og það breytir engu um viðhorf okkar Íslendinga þótt við vitum að einmitt núna sé lokið mesta hagsældarskeiði í sögu þessa eylands á sama tíma og heimilin skulda meira en nokkru sinni. Það breytir engu, því staðreyndir skipta ekki máli. Við trúum á tilraunina. Það breytir engu þótt misskipting hafi aldrei verið megnari í veröldinni en nú og blóð hinna föllnu hrópi til himins. Við trúum á tilraunina. Og þótt börnin okkar og unglingarnir búi við vaxandi geðraskanir, aldrei hafi fleiri börn verið forsjárlaus á þessum hnetti og uppsöfnuð reiði meirihluta jarðarbúa snúi að okkur þessum fáu heppnu, þá trúum við enn sem fyrr á tilraunina. Og jafnvel þótt jöklarnir bráðni fyrir framan augun á okkur og yfirborð sjávarins hækki vegna hlýnunar jarðar af manna völdum, þá sjáum við bara ný tækifæri í stöðunni með nýjum siglingaleiðum kringum norðurskaut og möguleika á olíuhreinsunarstöðvum. Við trúum á tilraunina.

Þeir gerðu það líka valdsherrarnir í Júdeu. Þeir trúðu á sína tilraun. Pax Romana hét hún, hinn rómverski friður. Það var léttir að smiðurinn frá Nasaret skyldi gefa upp öndina vonum fyrr, svo hægt væri að koma honum í gröfina áður en hátíðin gengi í garð. Þá væri það mál úr sögunni. Ræningjana sem upp voru hengdir með honum þurfti að taka, lemstra þá og geyma í dýflissu. Það var þó bót í máli að vera laus við þennan “gyðingakonung”. En að kveldi páskadags. Um það bil sem ræningjarnir hafa líkast til verið búnir að taka sín síðustu andköf ... “þá stendur hann sjálfur á meðal [lærisveina sinna] og segir við þau: “Friður sé með yður!” En þau skelfdust og urðu hrædd og hugðust sjá anda. Hann sagði við þau: “Hví eruð þið óttaslegin og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta ykkar? Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þið sjáið að ég hef.” Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. Enn gátu þau ekki trúað fyrir fögnuði og undrun. Þá sagði hann við þau: “Hafið þið hér nokkuð til matar?” Þau fengu honum stykki af steiktum fiski og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim.” (Lúk. 24.36-42)

Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.

Og við þetta hundelta, auðmýkta fólk. Við þessa syrgjendur, þessa grátendur mælti Jesús: “Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð votta þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.” (Lúk. 24.46ff)

Hér er komin ástæða þess hve trú og boðun kristinnar kirkju er jafnan hlægileg. Kirkja Jesú boðar öllum þjóðum á öllum tímum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda. Ekkert er fyndnara en það í augum þess valds sem safnar sjálfu sér. Á því megum við þekkja vald heimsins, að það gengur upp í sjálfu sér hvar sem það birtist. En vald Jesú Krist megum við kannst við með því móti að það dreifir sér ókeypis til allra, líkt og grasið sem vex og sáir sér eftir því sem tíminn vinnur með því. Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.

Upp risa Jesú frá dauðum, vald Guðs í þessum heimi snýr öllu á haus. Gamli útgerðarmaðurinn fékk að þreifa á því. Svo lengi sem við viðurkennum ekki vald Guðs þá erum við ekki með í veruleikanum. “Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því..” mælti hinn upp risni frelsari við flokkinn sinn þar sem þeir stóðu á sandölunum sínum og áttu ekki neitt, voru ekki neitt. “ Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því ... Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.” (Matt. 28.18 og 20)

Á þessum páskadagsmorgni kemur kirkja Jesú saman hvarvetna í veröldinni til þess að þakka og fagna í trúarfullvissu. Atburður krossins og hin tóma gröf er ekki tilraun. Jóhannes lýsir síðustu andartökum í ævi Jesú svo: “Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: “Mig þyrstir.” Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: “Það er fullkomnað.” Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andan.” Kristin kirkja byggir ekki von sína á tilraun. Það er fullkomnað! mælti Jesús. Afdrif þín í þessari veröld eru ekki tvísýn. Með dauða sínum og upprisu hefur Jesús Kristur fullkomnað hjálpræðisverkið. Þessi veröld er löngu orðin laus á límingunum og hún hefur alltaf verið það, það eru engar nýjar fréttir. Hér er ekkert sem varir. ”En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.” Sagði Jesús við vini sína. (Lúk. 21.28) Í þessari vissu er gleði og sigurvissa trúarinnar fólgin. “Föðurland okkar er á himni” skrifar Páll í bréfi sínu til Filippímanna. “Föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.” (Fil. 3.20-21)

Kristin kirkja lifir í heiminum og hinn upprisni frelsari krefur hana um fulla ábyrgð í mannréttindum, umhverfismálum og öllu öðru er viðkemur þjónustu lífsins. En þótt við lifum í heiminum þá erum við ekki af heiminum.

Þótt himininn farist og hrynji vor storð
þótt hrapi hver stjarna, þá varir hans orð.
Þótt eygló hver slokni við aldanna hrun
hans eilífa loforð ei bregðast þó mun.

Jesús er upp risinn!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Samsteypan og góði hirðirinn

Hér kemur prédikun okkar hjóna frá umliðnum sunnudegi, 13. júlí. Við sömdum hana saman og fluttum hana hvort á sínum stað. Jóna Hrönn þjónaði í Garðakirkju en Bjarni var með guðsþjónustu á Café Flóru, svona til gamans í sumrinu.
Annars erum við að fara í sumarleyfi í fyrramálið og hlökkum mikið til. Bloggin verða því stopul ef nokkur, en svo hefjumst við handa eftir miðjan ágúst þegar við mætum aftur til leiks. Við gerum þá ráð fyrir því að birta hér reglulega prédikanir og pistla.

Gleðilegt sumar!Textar sunnuagsins voru þessir:
Jer 23.16-18, 20-21
Róm 8.12-17
Matt 7.15-23


Nýjasti meðlimur stórfjölskyldu minnar varð þriggja mánað í vikunni. Af því tilefni fékk hann sitt fyrsta gluggaumslag inn um lúguna sem merkt var einum bankanum. Foreldrarnir vissu ekki til þess að hann hefði náð að stofna til mikilla skulda, enda hefur hann þessa þrjá mánuði síðan hann kom ekki átt mörg erindi við viðskiptalífið ar sem hann hefur hann nærst á móðurbrjósti. Því var all nokkur spenningur að opna umslagið og þar kom í jós að einn bankinn var búinn að stofna reikning í nafni barnsins, og leggja inn á hann heilar 5000 kr. á ágætum vöxtum. Það má dást að þeim snöru handtökum sem viðhöfð eru í þessum banka.
Ég velti því fyrir mér ef Þjóðkirkjan tæki sig til og sendi smekk til allra þriggja mánaða barna með mynd af góða hirðinum og í bréfi til foreldra fylgdi hvatning um að láta skíra barnið. Þá er næsta víst að margir yrðu til þess að rjúka upp frá eldhúsborðinu og blogga um það hverning kirkjan reyndi að tæla til sín ómálga börn sendandi inn á heimilin hamingjuóskir með Biblíutilvitnunum. Í þeirri umræðu fengi Biskupsstofa á sig ímynd Sopranos og félaga. En algerlega athugasemdalaust er hinn ungi fjölskyldumeðlimur, Jónatan Hugi, búinn að fá fyrsta tilboð sitt frá Samsteypunni. Veröldin hefur heilsað upp á hann.

Við vitum öll að næsta vetur mun harðna á dalnum í íslensku þjóðlífi líkt og fyrirsjáanlegt var. Við vissum það í uppsveiflunni fyrir fáum misserum og árum að niðursveiflan kæmi og við tókum ákvörðun sem þjóð um að hafa þetta einmitt svona. Og þegar bankarnir buðu unga fólkinu okkar 100% lán á góðum kjörum með þeim skilmálum að eftir fimm ár myndu þeir taka sjálfstæða ákvörðun um breytta vexti, þá vissum við líka að mörg þessara lána hlytu að breytast í vandræðaskuldir þegar uppsveiflunni væri lokið. Innst inni vissum við það. Undir hvatningu fyrirtækja og fjölmiðla sköpuðum við líka andrúmsloft sem gerði það að verkum að ungt fólk taldi það vera hluta af því að eignast heimili að rífa út úr því allar innréttingar og gólfefni, taka íbúðina í nösina til þess að geta flutt inn eins og almennilegt fólk. Við létum eftir okkur að lifa í andrúmslofti offsagróðans eitt andartak, þótt við vissum að veruleikinn væri ekki þannig. Skrýtið. Svo vitum við að á næsta ári stendur unga fólkið sem tók 100% lánin sín fyrir fimm árum frammi fyrir því að bankinn mun taka nýja ákvörðun um vexti. Ofan á verðbólguna munu bætast nýir og hagstæðari vextir - fyrir bankann. Og næsta vor, þegar hundruðir heimila verða orðin að eign bankanna eins og reikna mátti með, þá munu fulltrúar þeirra standa í fjölmiðlum og útskýra hina óhjákvæmilegu hagsmuni Samsteypunnar og vísa til hinna óhagganlegu lögmála markaðarins og þar verður engu logið frekar en fyrri daginn. Það hefur nefnilega engu verið logið. Þess þarf ekki í þeirri atburðarás sem hér hefur verið hönnuð. Fimm ár, tíu ár, tuttugu ár, það er ekki langur tími í huga Samsteypunnar þótt svo sé í huga einstaklingsins, að ekki sé talað um ungt fólk sem er að byrja lífið. Þegar maður er rúmlega tvítugur eru fimm ár heil eilífð. Eftir fimm ár verður maður staddur í annarri veröld með aðrar tekjur nýja möguleika og betra líf. Og er við bætist blússandi bjartsýni sem kynt er undir af tíðarandanum þá segir sig bara sjálft að hinir ungu taka þátt í leiknum. Já, þegar maður er ungur og stendur á þröskuldi tilverunnar þá upplifir maður sjálfan sig ósigrandi og óttast ekki að taka þátt í leik samfélagsins.

Hann Jónatan Hugi á núna 5000 kr. sem hann fékk í gjöf frá bankanum auk þess sem ömmurnar og afinn hafa gefið honum svolitlar upphæðir. Fólkið sem elskar Jónatan Huga hefur fært honum gjafir og svo hefur Samsteypan bankað upp á og fært honum gjöf með góðum óskum. Þessi staðreynd er staðfesting þess að biblíusögurnar um úlfinn og lambið, um góða hirðinn og leiguliðann, eru sígildar. Enn í dag þurfum við að heyra röddina sem segir: “Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar.”

Við lifum á markaði og við viljum það. Á markaðnum gilda lögmál framboðs og eftirspurnar og það væri fásinna að ætla að horfa framhjá þeim. Markaðslögmálin eru hluti af náttúrunni. Sögur Jesú um úlfinn og sauðina, líkingar hans um leiguliðann og góða hirðinn eru ævafornir túlkunarrammar til þess gerðir að hjálpa fólki að lesa veruleikann og kunna inn á þær leikreglur sem gilda í mannlegu félagi. Við þurfum að vita hvað að okkur snýr frá öfum og ömmum annars vegar og Samsteypunni hins vegar.

Það má nota þyngdarlögmálið til þess ýmist að varpa sprengjum eða matvælum, eyða lífi eða bjarga því, en sjálft þyngdarlögmálið er utan við siðferðið. Þyngdarlögmálið er hvorki vont né gott. Þannig eru markaðslögmálin líka. Þau eru gagnleg að þekkja og nýta og fróðleg að rannsaka svo langt sem þau ná. Markaðurinn er gagnlegur fyrir fólk og þjóðir svo langt sem hann nær. Markaðurinn er hvorki vondur né góður. Lögmál hans eru það ekki heldur, þau eru ekki siðræn frekar en þyngdarlögmálið.

Vandi vestrænar menningar er sá að hún hefur misst skyn á takmörk markaðarins. Vestræn menning trúir á markaðinn og lögmál hans hefur hún tekið inn að hjarta sínu. Kringlurnar eru okkar nýju musteri og allir neyslutengdu veruleikaþættirnir eru orðnir að kvöldbænum barnanna okkar. Sú atburðarás hefur orðið í menningu okkar að við höfum fest augu á efnisheiminum einum og eignast ofurtrú á tæknilausnir og markaðslausnir en erum að gleyma helgisögnum okkar, viskunni sem gerir okkur læs á hina djúpu þætti tilverunnar. Og það sem enn eykur á vandann er sú staðreynd að trúarbrögðin eru markvisst töluð niður eins og íslenska krónan. Samsteypan á greiðan aðgang að óvitanum en Gídeonfélagið er gert tortryggilegt þegar það vill afhenda börnum Nýja testamentið. Með tilvísan til jafnræðis allra trúarbragða og lífsskoðana er skipulega unnið að því í samtíma okkar að koma öllum lífsskoðunum út úr hinu opinbera rými. Og þegar það gerist, þegar helgisögnin hverfur út úr skólunum og öðru opinberu rými, og rödd hennar má ekki lengur heyrast þá stendur fjöldinn varnarlaus gagnvart valdinu sem eðli málsins samkvæmt hlýtur alltaf að koma fram í sauðaklæðum.

Í pistli dagsins segir Páll: “Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“

Tíðarandinn er alltaf samur. Tíðarandinn kallar fram glíju í augun þegar við heyrum um starfsloka- og kaupréttarsamninga og árangurstengdar launauppbætur handa gæðingunum. Tíðarandinn vekur aðdáun gagnvart því sem virðist öfundsvert og nýjar hetjur ganga fram á markaðnum. Tökum eftir því að ofurhetjur nútímans eru ekki í þeim bransanum að bjarga einu né neinu, offurhetjur unga fólksins eru ríka og fallega fólkið sem getur leyft sér allt, já ALLT sem því dettur í hug og hægt er að kaupa fyrir peninga. Tíðarandinn skýtur fólki skelk í bringu og hneppir fjöldann í þrældóm í þeirri veiku von að öðlast hlutdeild í gróðanum, frægðinni, völdunum, fegurðinni.
“Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu.” Segir postulinn. “Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“
---
Segðu mér betri sögu. Ég skora á hvern sem er. Birtu mér sögu sem útksýrir betur stöðu mína í heiminum heldur Guðspjöllin gera. Sýndu mér einhverja persónu sem hefur staðið með klárari hætti andspænis tíðarandanum og valdinu heldur en Jesús frá Nasaret er hann stóð frammi fyrir freistaranum í eyðimörkinni og frammi fyrir Pílatusi. Kenndu mér dæmisögur sem túlka betur listina að lifa í þessum heimi heldur en sögurnar af góða hirðinum og leiguliðanum, faríseanum og tollheimtumanninum, miskunnsama samverjanum, konunni við brunninn, Sakkeusi tolheimtumanni og allar hinar sögurnar í guðspjöllunum. En ef betri sögur finnast ekki. Ef engir túlkunarrammar virðast skynsamari og raunsærri en þeir sem Jesús og trúin á hann hefur upp á að bjóða, þá ætla ég enn sem fyrr að leitast við að fylgja honum og fara að ráðum hans. Og ég ætla enn sem fyrr að kenna börnum þessar sögur og lúta þeim Guði sem hjálpar manni að standa uppréttur í hversdeginum og greina tíðarandann.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

mánudagur, 7. júlí 2008

Paul Ramses og Jesús frá Nasaret

Hér gefur að líta fyrstu bloggfærslu okkar hjóna.
Á þessum vettvangi ætlum við að birta sitt af hverju sem okkur langar að koma á framfæri saman og hvort í sínu lagi.

Hér kemur prédikun sem við sömdum í gær, 6.7.'08, og fluttum í kvöldmessum kl. 20:00 í Garðakirkju og í Laugarneskirkju.
Textar þessa sunnudags eru: Sálm. 147.1-112., Kor. 9.8-12 og Mark. 8.1-9.


Íslensk þjóð stendur frammi fyrir hversdagslegum vanda þessa dagana. Ung fjölskylda frá fjarlægu landi leitar ásjár okkar þar sem heimilisfaðirinn álítur lífi sínu ógnað í heimalandinu. Hversdagslegur vandi segi ég því flóttamannavandinn er hversdagur í veröldinni. Milljónir eru á flótta um yfirborð þessa hnattar af margvíslegum ástæðum og eftir að við hófum Íraksstríð hefur þeim fjölgað mikið. Opinberar tölur herma að fram að Íraksstríði hafði þeim fækkað nokkuð en svo hafi þróunin orðið öfug.
Ein fjölskylda af milljónum knýr nú á dyr okkar með sérstökum hætti, og við vitum að þær eru miklu fleiri. Verðum við ekki bara að vera raunsæ? Hvernig eigum við svo sem að leysa flóttamannavandann? Þótt við tækjum við þúsund flóttamönnum á ári yrði það ekki nema dropi í hafið. Þótt við tækjum alla vara- og viðlagasjóði landsins og nýttum þá handa bágstöddum flóttamönnum, þá gætum við ekki breytt ástandinu.

Í Guðspjalli dagsins standa lærisveinar Jesú andspænis viðlíka vandamáli. Hversdagslegu vandamáli. Hópur fólks er orðinn svangur. Fæði til að borða, land til að bú á, þetta eru hversdagslegustu viðfangsefni allra hversdagslegra viðfangsefna. Enda segir í Guðspjallinu: “Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar.” Þessar aðstæður voru kunnuglegar. Mikið af fólki og lítið af mat. Dæmigerð uppákoma! “Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“” 
Það var þetta sem gerði það svo fyrirhafnarsamt að vera í slagtogi við Jesú. Hann hafði samlíðan með fjöldanum. Hann setti sig í spor fólks. Matteus guðspjallamaður lýsir því m.a. svo á einum stað: “Er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa.” (Matt. 9.34.ff )

Vesen! Í sögu dagsins erum við stödd á einskonar óskipulagðri útihátíð. Fólk er saman komið í stórum hópi, hver og einn er þarna á eigin ábyrgð. Enginn hátíðararhaldari ábyrgur fyrir gæslu á svæðinu. Og þá gerist þetta sem oft gerist í mannfélagi, það bara skapast eitthvert ástand. En í stað þess að vísa vandanum til föðurhúsanna þá tekur Jesús aðstæðurnar inn á sig. Hann hefði getað fært rök fyrir heimsku og fyrirhyggjuleysis þessa fólks sem þarna var komið í sjálfheldu, matarlaust úti í óbyggð, en hann valdi aðra leið. “Ég kenni í brjósti um mannfjöldann!” Tökum líka eftir því að lærisveinarnir gagnrýna Jesú ekki fyrir þá afstöðu. Þeir gera það ekki en treysta sér þó engan veginn til að taka undir orð hans, heldur benda á vankantana, hindranirnar. „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“ spyrja þeir. Og lái þeim hver sem vill. Jesús spurði þá: “Hve mörg brauð hafið þið?”

Þetta var alveg glötuð spurning. Við erum að tala um ekki færri en 8000 manns. Þarna voru 4000 karlmenn og lágmark annar eins fjöldi kvenn og barna ef ekki miklu fleira fólk. - Ég kenni í brjósti um fólkið, segir Jesús- Hvar ætti að vera hægt að kaupa brauð fyrir allan þennan mannfjölda? Spyrja lærisveinarnir.- Hve mörg brauð hafið þið?
Spurning Jesú er absúrd, fáránleg, út frá öllum venjulegum mælikvörðum. En það er einmitt þarna sem undrið gerist. Einhverjir í lærisveinahópnum fara að telja. Eitt, tvö, þrjú... sjö! “Við erum með sjö brauð!....”
Það er ekki líklegt að sá sem taldi brauðin og gaf upp niðurstöðuna hafi verið mjög upplitsdjarfur. Sjö brauð fundust í fórum lærisveinanna. Eitt brauð fyrir meira en þúsund manns! Það er alvöru kreppa.
“Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina,” skrifar Markús guðspjallamaður, “tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir.”
Hve mörg brauð hafið þið? Spurði Jesús. Tökum eftir því að Jesús spurði lærisveina sína ekki um það sem þeir ekki höfðu. Hvað hafið þið? Og þegar einhver þeirra átti næga trú til þess að horfa burt frá hindrununum sem sannarlega voru óyfirstíganlegar og byrja bara að gramsa ofan í skjóðuna sína og kanna stöðuna, þá var lausnin í sjónmáli.
Þetta litla trúarskref var það sem þurfti til þess að fjöldin fengi nægju sína. Í stað þess að einblína á hindranir tóku fylgjendur Jesú að skoða möguleika sína, hversu litlri sem þeir voru. Hvað get ég gert? Hvað er á mínu valdi?

Þessi sem brauðin taldi var enginn bjáni. Hann vissi að sjö brauð voru jafn lítið og ekkert brauð, tæknilega séð. Tæknilega séð var vandamálið óyfirstíganlegt. Tæknilega séð er flóttamannavandinn í heiminum íka óyfirstíganlegur. Hvorki þú né ég munum breyta þeirri staðreynd, og við erum ekki krafin um það. Jesús krefur okkur hins vegar um að gera það sem við getum í þeim aðstæðum sem við lifum við. Hve mikið pláss hafið þið? Spyr hann. Hafið þið pláss fyrir Paul Ramses frá Kenýju, eiginkonu hans og nýfæddan son? Höfum við pláss fyrir þessa fjölskyldu? Getur íslenskt samfélag tekið við þeim? Ef svar okkar er játandi, þá er það krafa Jesú frá Nasaret að hann fái hæli.
Því má bæta við að samkvæmt lögum um útlendinga nr. 96 frá árinu 2002 segir í 46. gr. “ Ekki skal endursenda flóttamann til annars ríkis (skv. c-, d- og e-lið 1. Mgr). ef hann hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd.
Þessi maður mun hafa búið hér á landi fyrir nokkrum árum. Barn hans er fætt hér á landi og kona hans er hér komin. Fulltrúar ABC hjálparstarfs munu hafa upplýsingar um að lífshætta steðji að manninum í heimalandi hans þar sem hann hafi tekið þátt í pólitísku framboði gegn ríkjandi valdhöfum.
Íslandsdeild Amnesty International hefur sent dómsmálaráðherra bréf þar sem farið er fram á að íslensk yfirvöld endurskoði ákvörðun sína um að vísa manninum úr landi án þess að skoða mál hans.
 Í bréfi sínu benda samtökin á að í ár séu “sextíu ár liðin frá því að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Í fjórtándu grein hennar segir: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“ Amnesty bendir líka á að réttur flóttamanna sé tryggður í alþjóðasamningum sem við erum aðilar að m.a. með flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951. 
Í bréfinu er síðan fullyrt að Ríkisstjórnir Evrópuríkja hafa á undanförnum árum þróað með sér sameiginlega stefnu í málefnum flóttamanna sem leiði til þess að “almenn viðmið framkvæmdaráðs Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna [séu] ekki í heiðri höfð.” Þá telja samtökin það “mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld taka æ færri hælisumsóknir til efnislegrar meðferðar og senda þess í stað hælisleitendur til þriðja lands.” Loks eru íslensk stjórnvöld hvött til að “endurskoða ákvörðunina ekki síst í ljósi þess að með endursendingu Paul Ramses til ítalíu hafa íslensk yfirvöld gengið á rétt nýfædds sonar hans til að njóta umönnunar beggja foreldra."

Það er kristinn siður að gera það sem í valdi manns stendur. Jesús spurði lærisveina sína ekki að því hvernig þeir hyggðust leysa það vandamál að fólk yrði svangt. Hann bað þá ekki að finna lausn á þeirri tilhneigingu í mannlegu félagi að allskonar óæskilegt ástand skapist. Hann sagði þeim einfaldlega hvernig honum leið við það að sjá aðstæður fólksins og svo bað hann þá að kíkja í skjóðurnar sínar og gera litla vörutalningu. Það var nóg. Svona var göngulag Jesú í málefnum fjöldans og einstaklingsins. Hann greindi þarfir fólks, setti sig í spor þess og gerði skýlausa kröfu til fylgjenda sinna að þeir gerðu slíkt hið sama í eigin lífi.

Svo lýkur sögunni ósköp pent með þessum orðum “Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.”
Með þessu niðurlagi sögunnar er einfaldlega verið að segja þetta: Þegar við tökum mark á þörfum meðbræðra okkar þá höfum við nóg. Sjö körfur voru fullar af leifum brauðanna sjö. Í dýpsta eðli sínu er lífið nefnilega gjöf en ekki fengur og það streymir til þeirra sem leyfa því að streyma um sig til annarra. Þegar við óttumst tilhugsunina um að deila með öðrum þá er það vegna þess að okkur skortir skyn á veruleikann. Trúin á Jesú hjálpar okkur til að vera í slíkum raunveruleikatengslum. Amen.