þriðjudagur, 15. júlí 2008

Samsteypan og góði hirðirinn

Hér kemur prédikun okkar hjóna frá umliðnum sunnudegi, 13. júlí. Við sömdum hana saman og fluttum hana hvort á sínum stað. Jóna Hrönn þjónaði í Garðakirkju en Bjarni var með guðsþjónustu á Café Flóru, svona til gamans í sumrinu.
Annars erum við að fara í sumarleyfi í fyrramálið og hlökkum mikið til. Bloggin verða því stopul ef nokkur, en svo hefjumst við handa eftir miðjan ágúst þegar við mætum aftur til leiks. Við gerum þá ráð fyrir því að birta hér reglulega prédikanir og pistla.

Gleðilegt sumar!Textar sunnuagsins voru þessir:
Jer 23.16-18, 20-21
Róm 8.12-17
Matt 7.15-23


Nýjasti meðlimur stórfjölskyldu minnar varð þriggja mánað í vikunni. Af því tilefni fékk hann sitt fyrsta gluggaumslag inn um lúguna sem merkt var einum bankanum. Foreldrarnir vissu ekki til þess að hann hefði náð að stofna til mikilla skulda, enda hefur hann þessa þrjá mánuði síðan hann kom ekki átt mörg erindi við viðskiptalífið ar sem hann hefur hann nærst á móðurbrjósti. Því var all nokkur spenningur að opna umslagið og þar kom í jós að einn bankinn var búinn að stofna reikning í nafni barnsins, og leggja inn á hann heilar 5000 kr. á ágætum vöxtum. Það má dást að þeim snöru handtökum sem viðhöfð eru í þessum banka.
Ég velti því fyrir mér ef Þjóðkirkjan tæki sig til og sendi smekk til allra þriggja mánaða barna með mynd af góða hirðinum og í bréfi til foreldra fylgdi hvatning um að láta skíra barnið. Þá er næsta víst að margir yrðu til þess að rjúka upp frá eldhúsborðinu og blogga um það hverning kirkjan reyndi að tæla til sín ómálga börn sendandi inn á heimilin hamingjuóskir með Biblíutilvitnunum. Í þeirri umræðu fengi Biskupsstofa á sig ímynd Sopranos og félaga. En algerlega athugasemdalaust er hinn ungi fjölskyldumeðlimur, Jónatan Hugi, búinn að fá fyrsta tilboð sitt frá Samsteypunni. Veröldin hefur heilsað upp á hann.

Við vitum öll að næsta vetur mun harðna á dalnum í íslensku þjóðlífi líkt og fyrirsjáanlegt var. Við vissum það í uppsveiflunni fyrir fáum misserum og árum að niðursveiflan kæmi og við tókum ákvörðun sem þjóð um að hafa þetta einmitt svona. Og þegar bankarnir buðu unga fólkinu okkar 100% lán á góðum kjörum með þeim skilmálum að eftir fimm ár myndu þeir taka sjálfstæða ákvörðun um breytta vexti, þá vissum við líka að mörg þessara lána hlytu að breytast í vandræðaskuldir þegar uppsveiflunni væri lokið. Innst inni vissum við það. Undir hvatningu fyrirtækja og fjölmiðla sköpuðum við líka andrúmsloft sem gerði það að verkum að ungt fólk taldi það vera hluta af því að eignast heimili að rífa út úr því allar innréttingar og gólfefni, taka íbúðina í nösina til þess að geta flutt inn eins og almennilegt fólk. Við létum eftir okkur að lifa í andrúmslofti offsagróðans eitt andartak, þótt við vissum að veruleikinn væri ekki þannig. Skrýtið. Svo vitum við að á næsta ári stendur unga fólkið sem tók 100% lánin sín fyrir fimm árum frammi fyrir því að bankinn mun taka nýja ákvörðun um vexti. Ofan á verðbólguna munu bætast nýir og hagstæðari vextir - fyrir bankann. Og næsta vor, þegar hundruðir heimila verða orðin að eign bankanna eins og reikna mátti með, þá munu fulltrúar þeirra standa í fjölmiðlum og útskýra hina óhjákvæmilegu hagsmuni Samsteypunnar og vísa til hinna óhagganlegu lögmála markaðarins og þar verður engu logið frekar en fyrri daginn. Það hefur nefnilega engu verið logið. Þess þarf ekki í þeirri atburðarás sem hér hefur verið hönnuð. Fimm ár, tíu ár, tuttugu ár, það er ekki langur tími í huga Samsteypunnar þótt svo sé í huga einstaklingsins, að ekki sé talað um ungt fólk sem er að byrja lífið. Þegar maður er rúmlega tvítugur eru fimm ár heil eilífð. Eftir fimm ár verður maður staddur í annarri veröld með aðrar tekjur nýja möguleika og betra líf. Og er við bætist blússandi bjartsýni sem kynt er undir af tíðarandanum þá segir sig bara sjálft að hinir ungu taka þátt í leiknum. Já, þegar maður er ungur og stendur á þröskuldi tilverunnar þá upplifir maður sjálfan sig ósigrandi og óttast ekki að taka þátt í leik samfélagsins.

Hann Jónatan Hugi á núna 5000 kr. sem hann fékk í gjöf frá bankanum auk þess sem ömmurnar og afinn hafa gefið honum svolitlar upphæðir. Fólkið sem elskar Jónatan Huga hefur fært honum gjafir og svo hefur Samsteypan bankað upp á og fært honum gjöf með góðum óskum. Þessi staðreynd er staðfesting þess að biblíusögurnar um úlfinn og lambið, um góða hirðinn og leiguliðann, eru sígildar. Enn í dag þurfum við að heyra röddina sem segir: “Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar.”

Við lifum á markaði og við viljum það. Á markaðnum gilda lögmál framboðs og eftirspurnar og það væri fásinna að ætla að horfa framhjá þeim. Markaðslögmálin eru hluti af náttúrunni. Sögur Jesú um úlfinn og sauðina, líkingar hans um leiguliðann og góða hirðinn eru ævafornir túlkunarrammar til þess gerðir að hjálpa fólki að lesa veruleikann og kunna inn á þær leikreglur sem gilda í mannlegu félagi. Við þurfum að vita hvað að okkur snýr frá öfum og ömmum annars vegar og Samsteypunni hins vegar.

Það má nota þyngdarlögmálið til þess ýmist að varpa sprengjum eða matvælum, eyða lífi eða bjarga því, en sjálft þyngdarlögmálið er utan við siðferðið. Þyngdarlögmálið er hvorki vont né gott. Þannig eru markaðslögmálin líka. Þau eru gagnleg að þekkja og nýta og fróðleg að rannsaka svo langt sem þau ná. Markaðurinn er gagnlegur fyrir fólk og þjóðir svo langt sem hann nær. Markaðurinn er hvorki vondur né góður. Lögmál hans eru það ekki heldur, þau eru ekki siðræn frekar en þyngdarlögmálið.

Vandi vestrænar menningar er sá að hún hefur misst skyn á takmörk markaðarins. Vestræn menning trúir á markaðinn og lögmál hans hefur hún tekið inn að hjarta sínu. Kringlurnar eru okkar nýju musteri og allir neyslutengdu veruleikaþættirnir eru orðnir að kvöldbænum barnanna okkar. Sú atburðarás hefur orðið í menningu okkar að við höfum fest augu á efnisheiminum einum og eignast ofurtrú á tæknilausnir og markaðslausnir en erum að gleyma helgisögnum okkar, viskunni sem gerir okkur læs á hina djúpu þætti tilverunnar. Og það sem enn eykur á vandann er sú staðreynd að trúarbrögðin eru markvisst töluð niður eins og íslenska krónan. Samsteypan á greiðan aðgang að óvitanum en Gídeonfélagið er gert tortryggilegt þegar það vill afhenda börnum Nýja testamentið. Með tilvísan til jafnræðis allra trúarbragða og lífsskoðana er skipulega unnið að því í samtíma okkar að koma öllum lífsskoðunum út úr hinu opinbera rými. Og þegar það gerist, þegar helgisögnin hverfur út úr skólunum og öðru opinberu rými, og rödd hennar má ekki lengur heyrast þá stendur fjöldinn varnarlaus gagnvart valdinu sem eðli málsins samkvæmt hlýtur alltaf að koma fram í sauðaklæðum.

Í pistli dagsins segir Páll: “Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“

Tíðarandinn er alltaf samur. Tíðarandinn kallar fram glíju í augun þegar við heyrum um starfsloka- og kaupréttarsamninga og árangurstengdar launauppbætur handa gæðingunum. Tíðarandinn vekur aðdáun gagnvart því sem virðist öfundsvert og nýjar hetjur ganga fram á markaðnum. Tökum eftir því að ofurhetjur nútímans eru ekki í þeim bransanum að bjarga einu né neinu, offurhetjur unga fólksins eru ríka og fallega fólkið sem getur leyft sér allt, já ALLT sem því dettur í hug og hægt er að kaupa fyrir peninga. Tíðarandinn skýtur fólki skelk í bringu og hneppir fjöldann í þrældóm í þeirri veiku von að öðlast hlutdeild í gróðanum, frægðinni, völdunum, fegurðinni.
“Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu.” Segir postulinn. “Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“
---
Segðu mér betri sögu. Ég skora á hvern sem er. Birtu mér sögu sem útksýrir betur stöðu mína í heiminum heldur Guðspjöllin gera. Sýndu mér einhverja persónu sem hefur staðið með klárari hætti andspænis tíðarandanum og valdinu heldur en Jesús frá Nasaret er hann stóð frammi fyrir freistaranum í eyðimörkinni og frammi fyrir Pílatusi. Kenndu mér dæmisögur sem túlka betur listina að lifa í þessum heimi heldur en sögurnar af góða hirðinum og leiguliðanum, faríseanum og tollheimtumanninum, miskunnsama samverjanum, konunni við brunninn, Sakkeusi tolheimtumanni og allar hinar sögurnar í guðspjöllunum. En ef betri sögur finnast ekki. Ef engir túlkunarrammar virðast skynsamari og raunsærri en þeir sem Jesús og trúin á hann hefur upp á að bjóða, þá ætla ég enn sem fyrr að leitast við að fylgja honum og fara að ráðum hans. Og ég ætla enn sem fyrr að kenna börnum þessar sögur og lúta þeim Guði sem hjálpar manni að standa uppréttur í hversdeginum og greina tíðarandann.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það sem bankarnir gera er auðvitað að gefa börnunum eithvað sem er óneytanlega nauðsyn í lífinu peninga, á meðan skírnin er algerlega gagnslaus og kostar stórfé,
ef ég ætti völina að fá 5000 eða láta skíra mig aftur þá mundi ég taka þúsarana.

Nafnlaus sagði...

Þakka ykkur fyrir frábæra predikun. Ég er svo innilega sammála ykkur.
Hildur

Nafnlaus sagði...

Ég sé að þið sjáið ekki siðleysið í því að bankinn múti þriggjamánaða börnum með 5.000 kalli til að gerast ævilangir skuldarar hjá sér.
Þess vegna er skiljanlegt að þið sjáið ekki siðleysið í því að gera ríkiskirkjuna að áskrifanda sóknargjalda á hverju ári í framtíðinni hjá sama þriggja mánaða barni með því að skrá það ómálga og trúlaust í þá samsteypu.

kerling í koti sagði...

Það sem trúin hefur gefið mér er svo miklu meira en fimm þúsund krónu virði - ég veit ekki hve oft mætti margfalda þá tölu og samt yrði útkoman of lítil.
Takk fyrir mig.