mánudagur, 26. desember 2011

Íslenska talningin

Hér er ræða okkar hjóna á aðfangadagskvöld. Flutt bæði í Vídalínskirkju og Laugarneskirkju:

Ég kynntist einu sinni fjölskyldu í Vestmannaeyjum þar sem stór barnahópur var kominn til fullorðinsára. Þau áttu þá minningu að þegar yngsti bróðirinn fæddist var plássið í húsinu orðið meira en fullnýtt og var þá brugðið á það ráð að neðsta skúffan í kommóðunni í herbergi foreldranna var dregin út og þar var hans næturstaður fyrstu mánuði ævinnar. Og þótt það skorti fermetra í þessu fjölskylduhúsi þá hafði hvorki hann né nokkurt barnanna þá tilfinningu að þeim væri ofaukið. Enda komust þessi systkini vel til manns og hefur farnast vel í lífinu.

Nú er aðfangadagskvöld og ósjálfrátt leitar hugur allra fullorðinna inn á bernskuheimilið. Við göngum um húsakynni bernskunnar, finnum ilm þess sem var, heyrum óm liðinna daga og rifjum upp bragðið af lífinu eins og það heilsaði okkur í upphafi. Og rannsóknarspurningin í þessum leiðangri sálarinnar er líklega sú sama hjá okkur öllum: Var pláss fyrir mig?

Sagan af hinum fyrstu jólum og öllu því sem gerðist í kringum meðgöngu og fæðingu Jesú fær viðspyrnu í hverri mannlegri sál, m.a. vegna þess að hún fjallar um þessa brýnu spurningu; Er pláss fyrir barnið? Þegar Jesús hefur horft um öxl sem fulltíða maður og lagt mat á eigin uppvöxt hefur hann vitað frá fólkinu sínu að hann fæddist inn í þrengsli og plássleysi í ýmsum skilningi en jafnframt bera frásögur guðspjallanna því vitni að fullorðna fólkið í lífi hans var fólk sem kunni að skapa pláss fyrir börn.

„Sjá ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orðum þínum”, hafði María ansað englinum er hann kunngerði henni áætlun Guðs í hennar lífi. María færðist ekki undan hlutverki sínu þótt þungun hennar væri ótímabær í hennar lífssögu, eins og svo margar þunganir hafa verið ótímabærar en fólk valið að taka við barni opnum örmum.

Matteus guðspjallamaður segir söguna frá sjónarhóli Jósefs og greinir frá angist hans er hann vissi um þungun Maríu og það með að hann væri ekki faðir þessa barns. „Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.” segir orðrétt hjá Matteusi. (Matt. 1.19) Og frásögnin leiðir í ljós að Jósef átti innra líf. Hann átti eyru sem heyrðu og augu sem sáu í andlegum skilningi. Skilaboð engilsins náðu að hjarta hans og hann tók ákvörðun um að verða faðir þessa ófædda barns. Jósef, eins og svo margir feður fyrr og síðar, ákvað að standa með lífinu eins og það var, þótt það væri ekki eins og hann hefði ætlað hafa það.

Þannig voru þau hvort um sig og saman, Jósef og María, manneskjur sem kunnu að skapa lífinu pláss. Ákvarðanir keisarans breyttu engu þar um. Hjartakuldi húsráðenda í Betlehem ekki heldur. Ekki einu sinni svikráð Heródesar náðu líf þessa barns, því það átti í kringum sig fólk sem stóð sína vakt í þágu lífsins.

Eitt það besta í íslenskri menningu þykir mér vera hvernig stórfjölskyldur telja börnin sín. Íslenska talningin er ekki flókin. Hún er fræg sagan af Vestmanneyska skipstjóranum sem kom heim í ljósaskiptunum eitt kvöldið og sá krakaormana alla úti að leika sér þótt kominn væri háttatími, ákvað að láta um sig muna við uppeldið og rak þau öll inn í hús og upp í ból. Þegar komin var á ró í húsinu og húsmóðirin tók hringinn að bía á börnin fyrir svefninn ráku fleiri en eitt andlit skelkuð augu undan sænginni sem áttu bara alls ekki heima í þessu húsi en höfðu ekki þorað öðru en að hlýða kallinum í brúnni. Þessi saga er ekki bara fyndin heldur er hún sönn lýsing á því rými sem börn hafa lengi átt í okkar landi. Hún fjallar um íslensku talininguna. Þegar minningarorð eru flutt um íslenskar ættmæður eða feður eru börnin og barnabörnin ekki talin í gegnum Íslendingabók heldur með hjartanu. Kinnroðalaust kannast hver fjölskylda við sín börn og telur þau öll til tekna.

Eina bernskufrásögnin sem guðspjöllin geyma af Jesú er um það þegar hann fór með foreldrum sínum í fyrsta sinn frá Nasaret til Betlehem á páskahátíðinni og týndist þar í stórborginni. Það sem villti um fyrir foreldrum hans og seinkaði leit þeirra að honum var sú staðreynd að hann átti öruggt félagslegt umhverfi: „Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja.” greinir Lúkas frá. (Lúk 2.44)
Á þriðja degi finna þau drenginn þar sem hann situr öruggur og glaður í helgidóminum og er á tali við lærifeðurna. „Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög” segir gðspjallið „og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau. Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.

Hann var þeim hlýðinn og þau hlýddu á hann. Hér er verið að lýsa samskiptum í fjölskyldu þar sem fólk hlustar hvað á annað og reiknar hvað með öðru. Enda lýkur frásögninni með þessum orðum:

„Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.”

Náð er það sama og að hafa pláss. Náð er það að mega vera maður sjálfur. Una í eigin skinni.

Nú er heilög stund. Undarlegt hvernig hann kemur þessi friður. Ár eftir ár. Við hjónin gerðum það við undirbúning þessarar ræðu að varpa fram spurningu á Fésbókinni og inntum fólk eftir því hvað væri heilagt í þeirra huga. Mörg ummæli bárust og ljóst að fólki stendur þessi spurning nærri hjarta;
- Lífið, ástin, fæðing barns, dánarstundin, börn, barnið í okkur sjálfum, náttúran, fjölskyldan, heimilið, hjónabandið, Guð, aðfangadagskvöld, trúin, ... Einn þingeyingur, Kristín Linda Jónsdóttir, skrifaði heila hugvekju sem endar með svofelldri lýsingu á hinu heilaga: „Í samverunni með fjölskyldu eða ástvinum í frelsinu, þegar við finnum að við höfum val, þegar við rennum saman við lækinn í fjallshlíðinni, eða sameinumst barni í leik. Þegar við finnum að við höfum lagt ögn af mörkum til að bæta samfélagið okkar... eða bara í góðu hláturskasti í heita pottinum... Stundir til að staldra við, upplifa til fulls og njóta.”

Barátta Jósefs og Maríu, ákvörðunin sem lá við ankeri í hjarta þeirra, var um það að varðveita hið heilaga í lífinu og gefa því vaxtarskilyrði. Um þetta eru jólin. Þau eru sú góða frétt að gjafari lífsins leggur sjálfan sig og allt sem hans er í okkar hendur. Í fullu trausti, upp á von og óvon og án þess að horfa um öxl eitt andartak gefst Guð heiminum sem grátandi barn vafið reyfum. Og þótt nú sem fyrr sé þröngt um þetta barn, og miklir hagsmunir í húfi að yfirgnæfa ákall þess, þá á það hjörtu sem veita því rými. Fólk sem hefur augu sem sjá og eyru sem heyra og ætla sér ekkert annað en að telja öll börn, hverja lifandi sál, lífinu til tekna.

Amen.

mánudagur, 14. nóvember 2011

Hann mun minnast veðurbarinna andlita

Prédikun okkar frá í gær:

Fyrir nokkrum árum fórum við hjónin til Amsterdam í þeim erindum að kynna okkur aðstæður fíkla og vændiskvenna. Gestgjafar okkar meðan á leiðangrinum stóð voru samtökin Street Corner Work sem halda úti margvíslegu félagsstarfi og þjónustu við jaðarhópa í stórborginni. Þessa daga sem við dvöldum þarna uppgötvuðum við að þeldökkur maður sem við sáum iðulega bregða fyrir á götunni var leynilegur lífvörður okkar, 150 kílóa vöðvafjall sem enginn vildi abbast upp á, enda sóttum við á kvöldin og um nætur staði og borgarhluta sem ekki þóttu tryggir fyrir ferðamenn. Ég gleymi ekki þeirri ónotalegu tilfinningu fyrsta daginn er leigubílstjórinn skilaði okkur inn í hverfið þar sem við héldum mest til að hann bað okkur að vera bara snögg út þegar hann stöðvaði bílinn og vart höfðum við skellt bílhurðunum er við heyrðum samlæsinguna smella og sáum bílinn bruna hratt á braut eins og einhver væri á eftir honum. Í þessari borgarheimsókn áttum líka eftir að lenda í aðstæðum sem okkur hefði ekki órað fyrir eins og þeim að koma inn á stað þar sem við sátum í hópi meira en hundrað kannabisneytenda og loftið var þykkt af sætum reyk. Sessunautar okkar það kvöld tóku öllu sem við sögðum sem ranghugmyndum. Í fyrsta lagi lögðust þeir fram á borðið í hlátri þegar við sögðum þeim að við værum prestar ofan af Íslandi og þegar þess var getið að kvenpresturinn héti hvorki meira né minna en Jóna voru þeir vissir um að efni kvöldsins væri sérstaklega gott. „Reverant Joint!”

Við héldum út til Amsterdam með þær hugmyndir í kollinum að vændi og fíkniefnaneysla væri í betra horfi í Hollandi en annarsstaðar vegna þess að hvoru tveggja hefði verið fundnir löglegir farvegir og því auðveldara að fylgjast með þessum málaflokki. Hins vegar komumst við fljótt að því að svo er ekki, því að í Amsterdam er kerfið tvöfalt, annars vegar hinn löglegi vettvangur kannabiskaffihúsa og vændiskaupa þar sem konur standa í útstillingargluggum í Rauða hverfinu eins og hver önnur söluvara, og hins vegar öll neðanjarðarstarfssemin með hörðum efnum og götuvændi. Á brautarstöðinni og víðar var okkur sýnt hvar barnungar stúlkur seldu sig fyrir fíkniefni og okkur leitt fyrir sjónir hvernig viðleitni borgaryfirvalda í Amsterdam til að semja sátt við veruleika eiturlyfja og vændis hefur ekki minnkað glundroða og eymd.

Við hjónin áttum sterka trúarupplifun eitt kvöldið þar sem við gengum með starfsfólki Street Corner Work í Rauða hverfinu. Við höfðum gengið fram hjá hverjum glugganum á fætur öðrum baðaðan rauðu ljósi þar sem fáklæddar konur stóðu með svipbrigðalaus andlit og sorgina í augnaráðinu.

Sem við erum þarna á gangi grátandi inní okkur innan um þennan ömurlega túrisma komum við að glugga einum sem bar annað yfirbragð. Merki Hjálpræðishersins blasti við og fyrir miðjum glugga þar sem annars hefði átt að vera niðurlægð manneskja til sýnis lá opin Biblía með stóru fallegu letri þar sem undirstrikuð voru orðin sem einmitt eru guðspjall þessa sunnudags:

„Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann. Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11.25-30)

Þarna lá þessi gamla Biblía í útstillingarglugganum og hrópaði út í skarkala og skelfingu götunnar. Heróp ritningarinnar var máttugra en orð fá lýst, sannleikur Orðsins lýsti og ljómaði í hógværð og friði svo að enginn sem fram hjá gekk gat varist mætti þess og mildi. Vegfarendum var opinberuð sú staðreynd að þeir ættu val. Fólk á val og fólk skal eiga val. Hafi ég einhverntíman upplifað huggun og svölun í Guðs Orði þá var það þar sem við stóðum við þennan glugga Hjálpræðishersins í Amsterdam og skynjuðum hinar óbærilegu byrðar sem lagðar eru á lifandi fólk og þær byrðar sem við leggjum á okkur sjálf með röngu vali, röngum ákvörðunum. Þú átt val, þú mátt velja gott líf! Sagði gamla fallega Biblían og bar með sér yfirvegun, fullvissu og ást.

Við lifum raunar í menningu sem er með valfrelsi á heilanum. Tíðarandinn vill fullvissa okkur um að allir eigi val og að frelsi til að velja sé einkenni samfélags okkar. Gatan þar sem ég bý fékk tengingu við ljósleiðara í haust. Skyndilega eigum við val um margar, margar sjónvarpsrásir sem við höfum bara ekkert beðið um. Teiknimyndir og tískuþættir streyma til okkar, fréttir frá erlendum stöðvum, Discovery Channel og Guð veit hvað. Meira val, meira frelsi. Við þekkjum öll þessa tegund af vali, þessa tilfinningu fyrir auknu frelsi. Og svo þegar þú slekkur á sjónvarpinu eða gengur út úr mollinu eða hvar þú hefur valið og valið og valið, þá ertu samt einhvern veginn engu nær. Biblían í glugganum í rauða hverfinu bar vitni um öðruvísi valfrelsi. Fólk á val, segir trúin, fólk skal eiga val. Valfrelsið sem hér um ræðir er þó ekki frelsi til að velja sér varning eða þjónustu heldur byrðar. Þeir nýju lífsmöguleikar sem Jesús kynnir okkur í persónu sinni og orði eru í því fólgnir að velja sér réttar byrðar. Þú mátt ráða hvað þú berð er Jesús að segja. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér...”

Lífið er þungbært. Því fylgja sorgir sem enginn velur sér, áhyggjur og margvíslegur sársauki sem enginn biður um. Síðustu daga höfum við fylgst með leit að týndum ferðamanni á Sólheimjökli sem bar þann árangur að maðurinn fannst en var þá látinn. Nokkur hundruð björgunarsveitamenn víða að af landinu völdu að leggja á sig erfiði við hættulegar aðstæður í leit að manninum og þegar fréttamenn ræddu við leiðangursstjórana voru þeir ætíð vongóðir og gengu út frá því að maðurinn gæti verið á lífi. Og enda þótt veður væri óhagstætt og jökullin varhugaverður voru þeir hugraustir og víluðu ekki fyrir sér erfiðið sem leitinni fylgdi. Byrðarnar sem þetta duglega og góða fólk hafði valið sér voru þeim ekki þungar þótt fæst okkar gætu staðið í þeirra sporum. Hverju haldið þið að það hafi breytt fyrir bróðurinn sem kominn var frá Svíþjóð og fyrir ástvinina heima að nokkur hundruð óvandabundnir sjálfboðaliðar skyldu láta sig varða um afdrif hins týna? Hversu mikil huggun í harminum er ástríða björgunarsveitanna, umhyggjan fyrir lífinu, samlíðunin? Og þegar bróðirinn um ókomna tíð mun fara í gegnum sorg sína munu veðurbarin andlit björgunarsveitamanna, traustar hendur sem báru bróður hans látinn til byggða vera minning um virðingu fyrir lífinu. Þar verður ekki minning um svipbrigðalaus andlit eða vonleysi í augum heldur minning um sorg sem fyllt var hluttekningu.
Takið á ykkur mitt ok segir Jesús. Það er ok hluttekningarinnar, samlíðunarinnar.
Þegar við veljum að yfirgefa hvert annað, þegar firringin ræður í samskiptum, hvort sem það birtist í rauðum hverfum stórborga, klámkvöldi á Players í Kópavogi eða hvernig sem við annars setjum samferðamenn okkar út í kuldann, þá erum við gengin á vit hinnar tómlátu sorgar þar sem allir eru að tapa. Þótt heilt mannlíf færi í súginn á Sólheimajökli bar atburðarásin öll lífinu vitni. Dauði þessa unga manns var umvafinn von og huggun.

Það er þetta val sem Jesús heldur á lofti og krefur okkur um að varðveita. Það er þess vegna sem ofbeldismenning er ekki líðandi. Það er ekkert val fólgið í klámkvöldum fyrir ungmenni heldur er eðli slíkrar starfsemi höfnun á frjálsu vali.
Það er kristniboðsdagurinn í dag. Þótt fæst okkar treysti sér upp á jökla erum við öll kölluð til að vera í björgunarsveit mennskunnar. Við erum öll kölluð til þess að taka á okkur ok Krists, vera reiðubúin að bera byrðar hvers annars og standa upp í þágu þeirra sem svipt eru mennsku sinni.

Amen.

fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Af heilum hug

Jæja, vinir, nú er það sjálfur útgáfudagur bókarinnar sem við hjónin höfum unnið að ásamt Björgu Árnadóttur rithöfundi í meira en heilt ár.

Bókin ber nafnið Af heilum hug og við erum þess fullviss að þessi bók skipti máli fyrir samfélag okkar.
Þetta er hamingjubók því hún felur í sér sögur um ást og um trú. Þetta er líka vonarbók sem lýsir því hverning vonin fæðist, hvernig hún er nærð og hvernig til hennar er sáð svo að hún haldi áfram að viðhaldast. Í þessu riti er enginn meiddur eða móðgaður, en mörg erfið mál tekin til umfjöllunar með skapandi hætti og eins góðri samvisku og kostur er á. Bókin er líka hugsuð sem breytingabók, bók sem breyti hugarfari og vísi í átt að lausnum ekki síst á vettvangi kirkju og trúarlífs í okkar nútíma.

Verið velkomin í útgáfuteitið í Máli og menningu á Laugavegi í dag kl. 17 - 18:30.

sunnudagur, 4. september 2011

Það er til líf utan við boxhringinn

Prédikun dagsins:

Textar dagsins gefa tilefni til þess að ræða mál sem alla varðar en sjaldnast er talað um; glímuna við samviskubitið.

Einn af okkar góðu sjúkrahúsprestum sagði mér um daginn að það væri þekkt staðreynd í sálgæslufræðum að samviskubit er svo sterkt afl í manneskjum að fólk sem er þjakað af samviskubiti á mun erfiðara með að ná heilsu eftir veikindi og gengur hægar í gegnum dal sorgarinnar en aðrir.

Við heyrðum áðan lesna þrjúþúsund ára gamla lýsingu á þjakandi samviskubiti: „Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju.” Skáldið sem hér yrkir er að tala um reynslu sína af vondri samvisku sem ekki fær neina úrlausn.
Sektarkennd er líka eitthvað sem hægt er að eiga með öðrum. Stundum hitti ég fólk, heilu fjölskyldurnar, sem fyrst og síðast tengjast hvert öðru sársaukaböndum. Það er miklu algengara en nokkurn grunar að fólk lifi og elski sína nánustu árum og áratugum saman í sársauka vegna óuppgerðra atvika sem alltaf eru þarna eins og minnismerki um það að maður sé nú ekki mikils virði. Og hvað gerist? Börnin sem alast upp í fjölskyldunni læra ómeðvitað að þau séu ekki fyllilega elskuverð, og að rétta svarið við sannleikanum sé alltaf refsing. Það er til fullt af góðu, duglegu, grandvöru og vönduðu fólki sem lifir alla sína ævi í andrúmslofti ásökunar og sektarkenndar, bara vegna þess að það veit ekki að neitt betra standi til boða. Og vegna þess að fólk vill ekki vera vont eða ábyrgðarlaust þá kveður það ekki sökina. Sökin verður sannleikurinn sem alltaf fylgir því og svarið við þeim sannleika er jú refsing, ekki satt?
Símon farísei sem sagt er frá í guðspjallinu var fastur í boxhring refsingarinnar án þess að hafa hugmynd um það sjálfur. Hann var svo grandvar og flottur, trúaður og agaður og svo kom hún allt í einu þessi kona sem truflaði partýið. Bersyndug kona. Það er eitthvað við mjög syndugar konur sem við karlmenn eigum erfitt með. Það hefur alltaf verið eitthvað mjög truflandi við mjög syndugar konur, ekki bara í hugum karlmanna heldur í líf allra sem ennþá lifa inni í boxhring refsingarinnar og vita ekki að til er líf utan hans. Og svo gengur hún beint að Jesú þar sem hann liggur til borðs að hætti samtímans. Jesús er liggjandi. Konan krýpur við fætur hans og byrjar að gráta svo að tárin falla á bert hold hans. Þetta er náttúrulega mjög ögrandi fyrir alla. Og þegar hún losar um sítt hár sitt og fer að þerra fætur hans með hárinu vita karlmennirnir í boðinu sem horfa á atburðinn innan úr sínum boxhring ekki hvernig þeim á að líða. Það eina sem þeir finna eru bannaðar tilfinningar sem kalla umsvifalaust á refsingu. Þetta eru agaðir og vandaðir menn sem ekki mega vamm sitt vita. Og þegar þessi MJÖG synduga kona tekur upp rándýr ilmsmyrsl í alabasturbuðki og smyr þeim með mjúkum hreyfingum á fætur Jesú og byrjar svo að kyssa fætur hans, þá er þeim bókstaflega öllum lokið.
Hvað gerir maður þegar maður er fullur af bönnuðum tilfinningum? Maður hneykslast á öðrum, ekki satt? Hneykslun er fyrsta stig refsingar.
Og nákvæmlega þarna. Þegar hjartslátturinn í boðinu er kominn á suðupunkt og sektarkenndin er orðin ærandi í höfði Símonar og allra hinna góðborgaranna sem ekki máttu sjálfir vamm sitt vita og hvað þá annað fólk, - nákvæmlega á þessum punkti grípur sagnameistarinn Jesús andartakið og segir: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“

„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina.”

Sagan leiddi huga samkomunnar frá syndugu konunni og inn í heim viðskipta, skulda og afborgana, þar sem allir boðsgestir voru á heimavelli. Þetta voru allt saman fjárhagslegir sigurvegarar. Hér var enginn í skuld en allir í gróða. Spennan í boðinu hjaðnaði og menn slökuðu á. Sagan af skuldurunum sem lánveitandinn gaf upp skuldina var bara þægileg smásaga og það var eins og Jesús hefði opnað glugga og helypt inn fersku lofti. Í lok sögunnar spyr Jesús Símon: „Hvor skuldaranna skyldi nú elska lánveitandann meira?“Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa?”
- Úff! Ekki meira um hana. Hugsuðu allir. En Jesús hélt blákalt áfram og ég er sannfærð(ur) um að hann hefur flutt mál sitt með geislandi brosi og húmor:
„Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu.” Þarna held ég að bæði konan og allir viðstaddir hafi fengið tækifæri til þess að hlægja saman. „Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom.” Aftur var hlegið. Og konan var ekki lengur í stöðu hinnar mjög syndugu konu sem vekur mjög bannaðar tilfinningar, sem kallar á mjög ákveðna refsingu, heldur horfðist öll samkoman í augu við hana sem persónu og fólk hló saman. „Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum.” Það myndaðist þögn í salnum. Menn horfðu á konuna og sáu hana öðrum augum í fyrsta sinn. Jesús sleppti ekki augum af Símoni: „Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við konuna: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Í beinu framhaldi standa svo þessi orð og ekki reyna að segja mér að þú sjáir ekki skilaboðin um jafnstöðu kynjana í þessu:
1Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf 2og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, 3Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.”

Það eru tvær tegundir kvenna sem alltaf hafa truflað (okkur) karlmenn: syndugar konur og sterkar konur. Jesús sóttist eftir félagsskap af báðum sortum og guðspjallamaðurinn Lúkas lætur sig hafa það að segja bara um þessar vinkonur Jesú og lærisveinanna eins og ekkert sé eðlilegra: „Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.”

Það er til líf utan við boxhring refsingarinnar. Okkur stendur til boða að lifa í gefandi og þiggjandi samskiptum við fólk og við sjálf okkur líka. Við þurfum ekki að lifa í ásökun og sektarkennd. Þú mátt eiga gott líf og höndla heilsu þína og hamingju.

Það er sama hver synd okkar er, verkið sem Jesús vann er stærra.
Fíknin þín er ekki stærri en kross Jesú. Ofbeldið sem þú átt sök á er ekki meira en ást Guðs. Áföll þín á kynferðissviðinu eru ekki afdrifaríkari en sú gjöf sem Guð hefur fært í Jesú Kristi. Ekkert sem þú hefur gert rangt er stærra en réttlæti Guðs. Hver heldur þú annars að þú sért? Heldur þú í alvöru að þú hafir meiri mátt en Guð? Heldur þú að gæska þín og illska, göfugmennska þín og lágkúra, kjarkur þinn og kveifarskapur, sé máttuguri en Jesús Kristur?... ... Já, greinilega! Á meðan þú stígur ekki út úr boxhringnum og lifir í refsandi samskiptum við allt og alla þá trúir þú að þú sért meiri en Guð.

Heyrum að lokum pistil dagsin þar sem Jóhannes sem örugglega sat þessa veislu á sínum tíma tekur þetta allt saman í nokkrar setningar og segir: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd. Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.” (1Jóh 1.5-10)

Amen.

þriðjudagur, 21. júní 2011

Sorgir kirkjunnar

Léttar raunir eru málgefnar en þungar sorgir eru þöglar.
Þegar rannsóknarskýrsla kirkjuþings var lögð fram á dögunum sló þögn á alla sem unna kristinni kirkju í landinu. Kirkjuþing var haldið og við þau orð sem þar féllu og það atferli sem þar var við haft hefur þögnin orðið dýpri.

Ef kirkjan væri skógræktarfélag. Ef hún væri í fiskeldi eða loðdýrarækt þá myndi vandinn horfa öðruvísi við. Vöxtur skóga og viðgangur eldisdýra truflast ekki þótt stjórn félagsins gangi í gegnum krísur. En kirkjan er í mannræktinni og mannlífið er þannig vaxið að það blómstrar ekki nema það lifi við heilindi.
Kirkjan er fjöldahreyfing sem fjallar um trúnaðinn við lífið. Hún er mannlífstorg samstöðunnar, staðurinn þar sem komið er saman jafnt í gleði og sorg til þess að endurnýja sáttmálann við Guð og menn. Hún teygir sig inn í Kolaportið og út í dreifðustu byggðir með góðu fréttirnar um frelsi og jafnstöðu allra. Enginn á hana en allir mega tilheyra henni. Hvort sem klukkurnar óma í Hallgrímskirkju eða á Kópaskeri þá er tilboðið það sama. Sögurnar sem þar eru sagðar, bænirnar, söngvarnir - allt miðlar það þekkingu á lífinu og fjallar um þau gildi sem liggja hamingjunni við hjartastað og kenna okkur göngulag gæfunnar. Þess vegna er ranglæti í kirkjunni sárara en annað ranglæti. Þar má enginn taka vald yfir öðrum, og þegar það gerist fellur á þögn.

Rannsóknarskýrslan rekur sorgarsögu þar sem þvingunarvaldi var beitt til að skapa hjarðhegðun og trúnaður var rofinn með svo margvíslegu móti til þess eins að tryggja persónur í sessi. Afleiðingin var sú að þolendur og gerendur voru svipt rétti sínum til sálgæslu og kirkjan var svipt trúverðugleika sínum sem vettvangur öryggis og heilbrigðis.
Við upphaf Kirkjuþings sem haldið var í tilefni af útgáfu skýrslunnar urðu þau tíðindi að gömul leiktjöld voru dregin upp og sama vinnulag var við haft. Forseti Kirkjuþings, Pétur Kr. Hafstein, hóf atburðarásina með ræðu sinni þar sem hann gerði persónu herra Karls Sigurbjörnssonar að aðalatriði og fjallaði af tilfinningaþunga um þau spjótalög sem að honum hafi verið rétt utan úr samfélaginu og ekki síður innan úr kirkjunni og lét þess getið að kirkjunnar fólk ætti að standa með sínum besta manni en ekki leggja til hans. Þannig dró hann upp mynd af kirkjunni sem biskupskirkju um leið og hann flokkaði kirkjulega þjóna í tvo hópa, annan vinveittan en hinn ekki. Hvort tveggja var óboðlegt. Kirkjan er ekki biskupskirkja heldur hreyfing trúaðra og þar heyrast og eiga að heyrast margar raddir. Með aðferð sinni leitaðist Pétur við að móta andrúmsloft hjarðhegðunar þar sem gagnrýninni hugsun er úthýst og hún túlkuð sem fjandskapur. Rannsóknarskýrslan ber því vitni að aðferðin er gamalreynd og að hún virkar.

Herra Karl Sigurbjörnsson ávarpaði einnig samkomuna, settist að því búnu í öndvegi og vék ekki úr sal eða í áheyrnarsæti þótt persóna hans og embættisverk væru til umræðu. Einnig það var óboðlegt.
Í vissum skilningi var þetta Kirkjuþing einkar gagnlegt því þar staðfestust fyrir allra augum niðurstöður rannsóknarskýrslunnar í verki. Með þeirri umgjörð sem forseti kirkjuþings og biskup gáfu Kirkjuþingi þennan morgun var þingið í raun óstarfhæft. Ræða forseta og seta biskups í öndvegi voru skilaboð um vantraust á kirkjuþing, trúnaðarrof. Það eina sem vantaði til þess að fullkomna myndina var að fram kæmi tillaga um stuðning kirkjuþings við Biskup sem samþykkt væri með yfirgnæfandi fjölda atkvæða. Þá hefði gamli tíminn algerlega verið endurnýjaður og Kirkjuþing lagt frá sér myndugleika sinn.

Nú stendur sterk krafa á okkur presta utan úr samfélaginu um það að afsegja biskup. Við prestar erum ekki tilsjónarmenn biskups og höfum ekkert formlegt vald í okkar höndum. Allir geta beitt hótunum, en hótanir munu ekki leysa þann djúpa félagslega og tilfinningalega vanda sem Þjóðkirkjan á við að glíma og blasir nú við með svo átakanlegum hætti. Við stöndum nú frammi fyrir því prófi hvort við veljum í raun að tileinka okkur baráttuaðferð Jesú Krists sem gerði hvorki að flýja eða höggva heldur stóð í sannleikanum. Sannleikurinn rekur sig sjálfur og það er ekki verkefni okkar að frelsa hann heldur leyfa honum að frelsa og styrkja.
Nú eru úrslitatímar í kirkjunni á Íslandi og þeir snúast ekki um persónu herra Karls eða nokkurs annars, heldur um það hvort okkur auðnist að vinda ofan af þeirri valdsmenningu sem lengi hefur verið þróuð við stjórn kirkjunnar en móta með okkur valdeflandi menningu þar sem hið góða samtal er iðkað og ólíkar raddir fá að hljóma. Óskýr skilaboð biskupsins um brotthvarf úr embætti valda því að óreiðuöflin fá enn aukið slagrými og kirkjan okkar færist enn utar á jaðar hins góða lífs í vitund almennings.

þriðjudagur, 14. júní 2011

Rannsóknarskýrslan - feginleiki og reiði

Í dag megum við vera fegin og reið. Það fylgir því jafnan feginleiki þegar sagan er sögð eins og hún er og mál eru gerð upp af einurð og heilindum. Það þekkjum við hvert og eitt úr eigin lífi. Og stundum er sannleikurinn þannig að hann vekur manni reiði.

Rannsóknarnefnd kirkjuþings hefur lokið við gerð skýrslu um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot og í dag var kirkjuþing kallað saman til viðbragða. Skýrslan er vel unnin og fáir munu efast um niðurstöður hennar. Þar er afhjúpað hvernig ráðaleysi einkenndi viðbrögð embættismanna þjóðkirkjunnar er ásakanir komu fram á hendur Ólafi Skúlasyni. Skortur og töf á viðbrögðum er áberandi þáttur gagnrýninnar. Fullyrt er að aðstoð við þolendur hafi verið ófagleg og illa ígrunduð og lítil áhersla lögð á sálgæslu fyrir þá einstaklinga sem stigu fram og fjölskyldur þeirra. Gerðar eru athugasemdir við störf stjórnar prestafélagsins og siðanefndar en einkum eru það þáverandi kirkjuráðsmenn og prófastar sem áminntir eru fyrir alvarleg mistök í embætti. Einnig er fjallað um þátt herra Karls Sigurbjörnssonar sem þá sat í kirkjuráði og átti aðild að ályktun þess gegn konunum sem ákærðu biskup en tók jafnhliða að sér hlutverk sáttamiðlara milli kvennanna og Ólafs. Rannsóknarnefndin úrksurðar að þar hafi Karl gert mistök í sálgæslu. Þessu og ýmsu fleiru þarf að taka við.

Þá skal einnig að horfa til þess sem fram kemur að strax árið eftir að málið kom upp, 1997, skipaði kirkjuráð nefnd sem var falið að móta stefnu um meðferð kynferðisbrotamála innan kirkjunnar. Í kjölfarið voru samþykktar starfsreglur á kirkjuþingi árið 1998 um meðferð kynferðisbrota innan kirkjunnar og samhliða því var stofnað fagráð sem ætlað var að tryggja að slík mál fengju viðeigandi meðferð. Þá voru á kirkjuþingi árið 2009 samþyktar siðareglur fyrir vígða þjóna og annað starfsfólk þjóðkirkjunnar sem m.a. taka til misnotkunar á aðstöðu í kynferðislegum tilgangi. Og nú síðast árið 2010 voru settar reglur um skimun við mannaráðningar Þjóðkirkjunnar þar sem leitast er við að tryggja að starfsfólk kirkjunnar hafi öruggan bakgrunn og eigi ekki sögu um ofbeldisbrot. Allt hefur þetta orðið til stórra bóta en
þó segir rannsóknarnefndin að enn sé töluverð vinna eftir hjá kirkjunni í því skyni að draga úr líkum á að kynferðisofbeldi eigi sér stað innan hennar og auka lýkur á að þolandi fái viðunandi stuðning í þessum efnum.

Af umræðum sem í dag fóru fram á kirkjuþingi má ráða að menn gera sér grein fyrir því að erindi kvennanna sem gengu fram á sínum tíma var mikilvægt og réttmætt. Í dag var hugrekki þeirra og einurð þökkuð. Sigrún Pálína Ingvarsdóttir hefur talað opinberlega um þá ósk sína að kirkjan megi verða heil og hún bíður þess dags að hún finni sig frjálsa til að skrá sig að nýju í Þjóðkirkjuna.

Þá er mjög mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu þætti Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sem gengið hefur fram í þágu kvennanna sem ásökuðu föður hennar og í þágu kirkjunnar. Hún hefur með vitnisburði sínum varpað mikilvægu ljósi á málsatvik.

Erindi hennar til kirkjuráðs var samhjóða erindi Sigrúnar Pálu er þær komu á fund þess hvor í sínu lagi. Þær hvetja þjóðkirkjuna til að taka skýra afstöðu gegn kynferðisofbeldi og standa vaktina með öllum þeim einstaklingum og samtökum sem stuðla að vitundarvakninu meðal þjóðarinnar um þessi alvarlegu mál. Því var það fullkomlega eðlilegt í ljósi atburða að æðsta valdastofnun Þjóðkirkjunnar veitti þeim áheyrn og engar forsendur til neinna undanbragða með það.

Nú er það verkefni kirkjuþings að móta opinn farveg í þessu erfiða máli svo að enginn þurfi að efast um heilindi og heilbrigði kirkjunnar. Heiður kvennanna sem ákærðu biskup hefur verið endurreistur en sæmd kirkjunnar er í sárum og verður það uns fundin er leið til opinna sátta sem fela í sér sanngirni gagnvart konunum sem hún misbauð. Kirkjan þarf að rata leiðina til baka gagnvart þeim sem persónum. Næst á forgangslistanum skyldi vera að kirkjan verði fyrirmyndarstofnun í íslensku samfélagi í því að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi og móta með sér fyrirmyndarviðbrögð og ferla þegar slík mál koma upp. Þar er sérstakur fengur í framlagi dr. Berglindar Guðmundsdótur sem fylgir skýrslunni þar sem hún gefur fræðilega greinargerð um eðli og afleiðingar kynferðisofbeldis.

Rannsóknarnefndin getur þess víða í niðurstöðum sínum að kirkjunni beri að starfa í anda mannhelgi og virðingar. Gott að þess sé getið. Þar höfum við fordæmi Jesú frá Nasaret sem ítrekað hafnaði þöggun og jaðarsetningu en efldi þor og kjark þeirra sem hann mætti og gerði ráð fyrir jafnstöðu allra manna.

Rannsóknarskýrslan segir sögu. Megin aðferð kristinnar kirkju á öllum tímum er sú að segja sögur. Kirkjan trúir því að það þurfi engu að gleyma og að sagan sýni ætíð að lokum hvernig Guð láti allt samverka til góðs. Því er þöggun kirkjunni óeðlileg. Þegar kirkjan þaggar fólk fer hún ekki að eðli sínu en þegar hún segir söguna fer hún að sínu rétta eðli svo að sannleikurinn fær að fæðast og sáttin að skapast.

Nú eru úrslitatímar í kirkjunni og ekki í boði að láta óttann ráða för. Nú þarf að fara fram alvöru sjálfsskoðun þar sem almannahagur er tekinn fram yfir persónulega hagsmuni. Kirkjan er ekki til sjálfrar sín vegna heldur er hún sett til að vera heilagt samfélag, öruggur staður fyrir fólk.

mánudagur, 25. apríl 2011

Sannleikurinn rekur sig sjálfur

Páskaræðan okkar:
Verstu vonbrigði allra vonbrigða eru þau að hafa sjálfur brugðist.
Manstu þegar þú brást? Manstu hvernig það var, hvernig þér leið? Hvert og eitt okkar á slíka sögu. Sumar liggja í þagnargildi aðrar ekki. Hvernig sem sagan er og hvar sem hún er geymd þá fylgja henni margbrotnar tilfinningar. Það er svo flókið að vera manneskja.

Jenna Jensdóttir rithöfundur og kennari lifir í hárri elli og fyrir nokkrum dögum hlaut hún heiðursverðlaun samfélagsverðlauna Fréttablaðsins. Það fylgdi henni heiðríkja þegar hún tjáði sig í blaðaviðtali og greindi frá því hvernig henni hefur auðnast að varðveita hamingjuna á langri vegferð. „Ég hef alltaf vitað að andleg þjáning er meiri en líkamleg en reynt að vinna úr henni með því að finna það góða í veröldinni og gleðjast.” Segir Jenna við blaðamann og undir lok viðtalsins minnist hún gamalla vonbrigða og segir: „Ég hef ekki orðið reið þótt þjáningu hafi borið að höndum heldur hugsað að við verðum að gleðjast yfir því sem hægt er. [...] Ég man að ég skrökvaði einu sinni að ömmu minni, hún varð hrygg og sagði að þegar maður hefði skrökvað einu sinni þá væri hætta á að maður gerði það aftur. „Og það á eftir að valda þér svo miklum vandræðum, en ef þú segir sannleikann þá veldur hann þér ekki vandræðum, því hann rekur sig sjálfur.”

Þannig mælti hinn aldni fræðari og uppalandi. Sannleikurinn rekur sig sjálfur.

Saga páskanna er saga sárra vonbrigða þar sem svo margt og svo margir höfðu brugðist. Á Pálmasunnudegi hafði Jesús komið ríðandi í máttugri hógværð inn í borgina, fólkið hafði lofsungið hann og hann hafði gengið inn í musterið og tekið svo meistaralega til höndinni að enginn gat efast um réttmæti orða hans og gjörða. „Ef þessir þegja munu steinarnir hrópa!” hafði hann svarað andstæðingum sínum. En örfáum dögum hafði allt hrunið sem hrunið gat svo að ekki stóð steinn yfir steini í lífi lærisveinanna. Yfirvöld höfðu brugðist, hugmyndafræðin sem þeir treystu á hafði ekki staðist, réttvísin hafði snúist upp í andhverfu sína, viðhorf almennings hafði orðið fjandsamlegt og í fullkomnum vanmætti höfðu þeir lifað ólýsanlega martröð, fyrst í Getsemane garðinum, í hallargörðum Kaifasar og Pílatusar og svo uppi á Golgatahæð þegar krossinn var reistur og ekkert var framar sem minnti á blessun Guðs. En það sárasta af öllu sáru var vitneskja vinahópsins sem lá eins og mara á hjarta hvers og eins, þeir höfðu sjálfir brugðist.

Ástæða þess að þeir voru allir saman komnir í einu herbergi að kveldi páskadags var ekki sú að þá langaði að vera saman. Í raun langaði þá bara til að hverfa, flýja aðstæðurnar, halda áfram flóttanum sem þeir höfðu byrjað á í Getsemanegarðinum. Áður höfðu þeir verið stoltir af félagsskapnum og fundið sig vel í hlutverki sigurvegarans á fylgd með meistaranum. Nú var það óttinn sem batt þá saman, þeir voru í felum. Og Júdas... á hann var ekki minnst. Undarlegt hvernig allt getur hrunið. Hann hafði haft orð á þessum möguleika. „Mannssonurinn verður framseldur, í manna hendur, og þeir munu lífláta hann..” hafði hann sagt. Það var ekki eins og þeir hefðu ekki verið varaðir við. En þessi orð meistarans höfðu einhvern veginn aldrei náð að þeim í annríki og uppgangi daganna. Hvernig áttu þeir að taka við slíkum orðum? Þeir horfðu á nýja og nýja hópa fólks taka við boðskapnum, kraftaverk sáu þeir gerast og það var eins og sigurgangan gæti ekki endað og þeir gátu ekki varist þessari hugsun: You ‘aint seen nothing yet!
Nú batt þá óttinn. Og ekki óttinn einn heldur afkvæmi hans þrjú, reiðin, ásökunin og sektarkenndin.

„Þegar maður hefur skrökvað einu sinni þá er hætta á að maður geri það aftur. Og það á eftir að valda þér svo miklum vandræðum, en ef þú segir sannleikann þá veldur hann þér ekki vandræðum, því hann rekur sig sjálfur.”

Pétur hafði skrökvað í hallargarðinum og yfirgefið sannleikann sjálfan. Júdas hafði yfirgefið lífið. Allir höfðu þeir flúið og skilið Jesú einan eftir í höndum illgjörðarmanna. Og yfirvaldið sjálft, Pontíus Pílatus, hafði reynt að þvo hendur sínar. Sektarkenndin var lamandi og hverju hjartaslagi fylgdi ásökun, ásökun, ásökun.

Tveir úr hópnum höfðu fyrr um daginn lagt af stað áleiðis til þorpsins Emmaus. E.t.v. voru þeir bara að flýja, við vitum ekkert um það. Þá eignast þeir samferðamann sem slæst í för með þeim og spyr hvað þeir séu að ræða og þeir segja honum allt af létta, um það hvernig vonir þeirra hafi brugðist og allt snúist í höndum þeirra og hvernig leiðtogi þeirra hafi verið krossfestur og deyddur. Eftir á mundu þeir hvernig hjarta þeirra hafði brunnið, er þeir léttu á sér og hvernig orðin höfðu hitt þá er maðurinn útskýrði fyrir þeim að allt þetta hefði hlotið að gerast. -„Skilningslausu menn,” hafði hann sagt. „Skilningslausu menn svo tregir til að trúa því öllu sem spámennirnir hafa sagt fyrir um! 26Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ Og svo er þeir komu í áningarstað því það var komið kvöld og dimmt var orðið, þá tók hann brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf þeim. Það var þá sem þeir þekktu hann.
Sannleikurinn rekur sig sjálfur sagði amma hennar Jennu Jensdóttur og sú var reynsla þessara tveggja manna. Frá þeirri stundu sem þeir þekktu Jesú hvarf þeim allur ótti við myrkrið og nóttina og þeir rötuðu aftur til baka hina löngu leið inn í hóp vina sinna. Sannleikurinn rekur sig sjálfur.

Lúkas guðspjallamaður rekur söguna áfram og geinir frá því er Jesús birtist lærisveinahópnum þetta kvöld, sýnir þeim sár sín, þiggur stykki af steiktum fiski og segir loks við þau:
„Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi 47og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda.”

„Ég hef alltaf vitað að andleg þjáning er meiri en líkamleg en reynt að vinna úr henni með því að finna það góða í veröldinni og gleðjast.” Sagði Jenna í blaðaviðtalinu „Ég hef ekki orðið reið þótt þjáningu hafi borið að höndum heldur hugsað að við verðum að gleðjast yfir því sem hægt er.”

Framhald sögunnar af atburðum páskanna lýsir því hvernig lærisveinar Jesú lærðu að vinna úr þjáningunni, kveðja reiðina og þiggja fyrirgefninguna. Þau sinnaskipti byrjuðu þegar þau könnuðust við Jesú og skildu að í raun hafði ekkert gerst sem ekki hlaut að gerast. Í uppganginum höfðu þau ekki tekið sinnaskiptum heldur bara undrast og glaðst eins og við gerum öll þegar lífið leikur við okkur. Það er bara mannlegt. En lífið er líka þjáning. Þjáningin bíður allra og hefur svo margt að færa okkur. Í þjáningunni lærum við að finna það góða í veröldinni eins og Jenna bendir á. Það er alvara lífsins sem leiðir okkur að lindum fagnaðarins. „Hví eruð þið óttaslegin” spyr hinn upp risni frelsari „og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta ykkar? 39Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að.”

Þetta ákall berst íslenskri þjóð nú á páskadagsmorgni. Tími sinnaskiptanna er kominn. Tíminn til þess að þiggja fyrirgefningu er runninn upp. „það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að.” Segir frelsarinn. Það voru ekki allir jafn sekir í hópi lærisveinanna. Konurnar í hópnum höfðu t.d. engu logið, og aldrei flúið. Það höfðu ekki allir logið jafn ferlega og Pétur. Og enginn hafði svikið eins og Júdas. En lausnin var jöfn handa þeim öllum. Það er þannig með óttann, reiðina, ásökunina og sektarkenndina að hún bindur fólk saman í sársauka og slíkt getur m.a.s. bundið heila þjóð. Þegar lausnin kemur er hún líka handa öllum.

Hvernig haldið þið að það hefði farið ef lærisveinahópurinn hefði farið að vega og meta hver hefði þurft mest á fyrirgefningu að halda og hver hefði þurft að sýna mestu sinnaskiptin? Þá hefðu þau áfram verið bundin sársaukaböndum og ekki átt hlutdeild í upprisunni.

föstudagur, 22. apríl 2011

Gamall skandall

Prédikun okkar á skírdagskvöldi
Ég sé að Jesús hellir vatni í mundlaugina - ætlar hann að fara að þvo sér um hendurnar núna? Nei, hann tekur líndúkinn, bindur hann um sig og byrjar að þvo fæturna á Jóhannesi. – Hvernig dettur honum í hug að fara að þvo þessa óhreinu karlmannsfætur? Ætlar hann kannski að þvo fæturna á okkur öllum? Það væri ljóta verkunin, 12 lærisveinar, 24 skítugir fætur eftir daginn og rykugan veginn. Nú lýkur hann við að þvo Jóhannesi og jú, jú hann heldur áfram, Tómas er næstur. Ég ætla nú ekki að leggja það á hann að þvo fæturna á mér. Það væri þá frekar ég sem ætti að þvo hans fætur! Þetta er ekki hægt. Stundum er eins og Jesús sé ónæmur fyrir því sem er vandræðalegt. Hvern langar að snerta skítuga karlmannsfætur? ... Nú er hann kominn að mér og krýpur fyrir framan mig. – ‚Jesús!‘ Segi ég og er ákveðinn í málrómnum, ‚aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.‘ Ég er ekki byrjaður að útskýra orð mín þegar hann stöðvar mig með augnaráði sínu og segir: ‚Pétur! Ef ég þvæ þér ekki þá áttu enga samleið með mér!‘ - Bíddu, samleið? Hugsa ég. Hvað eigum við annað en samleið? Ég ætla ekki að láta þennan undarlega fótaþvott koma upp á milli okkar... Gott og vel hann skal ráða, ég vil að hann ráði. ‚Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.‘ Fyrst hann vill fara að þvo mér þá má hann bara þvo mér!

Skrýtið með Jesú, hvað hann er óhræddur við snertingu. En það er einmitt það sem er svo stirt í samskiptum fólks það að snertast fallega og sýna eðlilega líkamlega umhyggju. Ég gleymi ekki þegar við vorum boðnir í hús Símonar farísea. Það var nú einhver ótrúlegasti atburður sem ég hef orðið vitni að á samleið minni með Jesú. Ég skil ekki ennþá að okkur skuli ekki bara öllum hafa verið hent út! Við vorum í miðju boði í þessu fína húsi. Ég hafði oft séð þessa villu og vissi eins og allir hver bjó þar, en hafði aldrei dreymt um að ég ætti eftir að koma þarna inn, venjulegur fiskimaður. Þá kemur kona ein úr bænum sem allir vissu að var bersyndug. Hún var með þennan fína alabastursbuðk með smyrslum. Hún nam staðar að baki Jesú til fóta hans og var grátandi. - Ætli hún sé að fara að biðja um lækningu, hugsaði maður. - Fólk lætur hann bara ekki í friði. Nei, nei, þá tók hún að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu. Svo kyssti hún fætur hans og braut buðkinn svo að ilmurinn af þessum rándýru smyrslum sem hún smurði á fætur hans var samstundis kominn út í öll horn, svo hafi einhver ekki verið búinn að taka eftir henni þá voru allir með þarna. Vá, það stóðu allir á öndinni, hvernig datt henni þetta í hug?! Þetta var óneitanlega tilkomumikið en líka í rauninni fáránlegt og mjög fallegt. Svona eins og þessi fótaþvottur. Vandræðalegt og líka fallegt. Jesús var bara rólegur. Símon faríesi fór að tauta eitthvað við sjálfan sig og svo heyrðum við hann segja: ‘Væri þetta spámaður myndi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann að hún er bersyndug!’ Jesús sagði þá við hann: ‘Símon, ég hef nokkuð að segja þér.’ Gat verið, hugsaði ég og hnippti í strákana. Það sást á svip hans að hann var búinn að finna einhverja líkingu eða dæmisögu til þess að setja fram. Símon svaraði honum svolítið hissa: ‘Segðu það, meistari. Og það stóð ekki á Jesú: ‘Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum.‘ byrjaði hann ‚Annar skuldaði fimm hundruð denar en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?’
... Þetta var náttúrulega snilld. Það var eins og hann ætti endalausar sögur til þess að stinga upp í faríseana og Símon mátti eiga það að hann var nú bara býsna einlægur og svaraði heiðarlega þótt hann vissi að hann væri að ganga í gildru: ‘Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.’ sagði hann. Og þá horfði Jesús á hann með sínu hlýlega augnaráði og sagði: ‘Þú ályktaðir rétt.’ Svo snéri hann sér að konunni. Ég gæti trúað að einhver hafi haldið að hann æltaði að fara að tala um fyrir henni og senda hana kurteislega út, enda var þetta ótrúleg bíræfið af þessari konu. Já, líka þessari konu! En þótt hann snéri sér að konunni þá ávarpaði hann allt í einu Símon. Hann hafði augljóslega ekki lokið sér af við að kenna honum. ‘Sér þú konu þessa?’ ÚÚÚ það hafði bara ekkert annað komist að í boðinu nema hún, allra augu hvíldu á henni. Auðvitað sá hann konuna. Svo fékk Símon að heyra það: ‘Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði þá með hári sínu.‘ Símon varð langleitur í framan. ‚Ekki gafstu mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína.‘ Við félagarnir bókstaflega engdumst en létum á engu bera. ‚Ekki smurðir þú höfuð mitt með olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér, hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar. Enda elskar hún mikið. En sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.’

Þarna fannst mér að hann hefði átt að setja punktinn. Andrúmsloftið var orðið mettað af spennu. En Jesús lét ekki staðar numið þarna, heldur sagði hann við konuna: ‘Syndir þínar eru fyrirgefnar.’ Gat skeð. Það var alveg ferlegt þegar hann sagði svona. Það kostaði alltaf uppnám. Það vissu allir að enginn gat fyrirgefið syndir nema Guðs jálfur. Þarna sat Jesús umkringdur óvinum sem samþykktu hann ekki en það var eins og honum væri stundum fyrirmunað að lesa í aðstæður. Enda byrjaði nöldrið líkt og sjálfkrafa ‘Hver er sá er fyrirgefur syndir?!’ og nú beið ég eftir því sem hann alltaf sagði í svona aðstæðum, og það kom. Hann sat og horfði á konuna þar sem hún stóð: ‘Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði!’ Það var bara tímaspursmál hvenær þetta fólk færi að vera gott með sjálft sig. Trú ÞÍN hefur frelsað þig! Er hægt að segja svona við fólk sem er með allt sitt líf í óreiðu?

Nei, ég gleymi aldrei þessu matarboði. Og ég gleymi aldrei ásjónu konunnar þar sem hún stóð og horfði yfir veislusalinn áður en hún gekk hnarrreist út úr húsinu. Það var eins og það væri önnur kona að ganga út í stað þeirrar sem hafði gengið inn. Ásjóna hennar var bara breytt. Þetta var ekki lengur skemmd og niðurlægð manneskja, þarna gekk hún bara sterk og einbeitt og flott. Líkt og skömmin sem hún bar hefði orðið eftir einhversstaðar. Það sama var ekki hægt að segja um Símon. Hann og vinir hans voru náttúrulega bara pirraðir og einhvernveginn áttavilltir eins og alltaf þegar Jesús tók á þeim. Ég held samt að þeir hafi alveg haft hann á heilanum. Nógu oft voru þeir að kalla á hann eða koma til hans með allskonar fyrirspurnir.

Jæja, nú er hann búinn að þvo fæturna á okkur öllum og hann er staðinn upp, við mænum allir á hann, því maður veit aldrei hvað honum dettur í hug að segja eða gera næst. Nú sest hann niður, hann horfir á okkur og segir: ‘Skiljið þið hvað ég hef gert við ykkur.’ Við sitjum allir hálf aulalegir, sumri hrista hausinn horfandi í gaupnir sér. ‘Þið kallið mig meistara og Drottin, og þið mælið rétt því það er ég.’ Þetta var nákævmlega það sem ég var að meina. Þetta var það sem ég ætlaði að segja þegar hann greip frammí fyrir mér. Við áttum auðvitað að þvo fætur hans, hér er öllu snúið á hvolf, og hann veit það. ‚Fyrst ég sem er herra og meistari hef nú þvegið ykkur um fæturna, þá ber ykkur einnig að þvo hver annars fætur. Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri en sá sem sendir hann. Þið vitið þetta og þið eruð sælir ef þið breytið eftir því.’

Merkilegt hvað Jesús er óræddur við líkama sinn og annarra. Fólk má bara snerta hann, faðma hann. Og hann er alltaf að snerta fólk og lækna það. Alls konar fólk. Betlara, fatlað fólk, Konuna með blóðlátin og jafnvel holdsveika! Já holdsveikir smitandi einstaklingar - Það er bara hans uppáhalds fólk! Og svo á hann til að gera svona skrýtna hluti sem eiginlega fara yfir strikið. Þessi fótaþvottur hérna, eða skandallinn í húsi Símonar er ekkert einsdæmi. Ég man þegar hann hitti blinda manninn við Sílóamlaugina og vildi verða við ósk hans um lækningu. Við ætluðum ekki að trúa eigin augum þegar hann fyrst hrækti í moldina þar sem þeir stóðu, gerði svo leðju úr hrákanum og strauk henni á augu mannsins! Svona gerir enginn. ‘Farðu og þvoðu þér í Sílóam!’ sagði hann við manninn. Og hann gerði það og fékk sjónina aftur.

Ég hef ekki verið verið rólegur síðustu daga, og það er ekki vegna þess að mér líði illa hérna í stórborginni. Jesús er búinn að vera að tala við okkur nánast eins og hann sé að kveðja okkur. Hann notar alls konar líkingar sem hljóma nánast eins og dylgjur: ‘Þegar kona fæðir er hún í nauð, því að stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þið nú hryggir, en ég mun sjá ykkur aftur og hjarta ykkar mun fagna, og enginn tekur fögnuð ykkar frá ykkur.“ – Þetta sagði hann um daginn. Ætli hann sé að fara heitthvert? Maður spyr sig. Svo bætti hann við. ‘Á þeim degi munuð þið ekki spyrja mig neins.’ ....Sem mér þykir að vísu nokkuð ólíklegt því við erum alltaf að spyrja hann að einhverju. Og svo sagði hann: ‘hvað sem þið biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita ykkur. Hingað til hafði þið ekki beðið neins í mínu nafni. Biðjið og þið munið öðlast svo að fögnuður ykkar verði fullkominn.’ Ég verð að segja að minn fögnuður felst nú bara fyrst og fremst í því að fá að fylgja Jesú og hafa þetta eins og það er. Ég vona að honum detti ekki í hug að fara frá okkur. Ég get ekki séð fyrir mér að ég gæti átt einnhvern fullkomnari fögnuð en ég á nú þegar. Ég þakka það á hverjum degi að fá að vera með Jesú og vinum mínum í þessu.
Nei, ég er ekki rólegur. Ég verð bara að segja það. Og alls ekki þegar ég fer núna yfir samskipti okkar undanfarið. Hvað sagði hann svo... ‘Sú stund kemur og er komin‘ sagði hann. Já, ‘Sú stund kemur og er komin að þið tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn því faðirinn er með mér.’ Það er alveg öruggt að við vinirnir munum aldrei skilja hann einan eftir. Við erum ekki þannig.

fimmtudagur, 21. apríl 2011

Frétt um von

Dagarnir breyta um nöfn. í dag er skírdagur, þá kemur föstudagurinn langi.. jú svo er bara venjulegur laugardagur en síðan kemur páskadagur.

Svona gerum við til þess að stoppa okkur af eitt augnablik. Fá okkur sjálf til þess að hugsa og endurmeta. Ætli við séum ekki öll fegin.

Daganöfnin eru tilvísanir í atburði í lífi og dauða Jesú. Saga Jesú frá Nasaret er þannig að maður á hana ekki nema með því að lifa sig inn í hana. Hún er einföld og margslungin í senn. Hún er falleg og ferleg á sama augnabliki. Þar er ást og þar er grimmd, mannleg tign og skítleg eymd og allt hitt sem gerir veruleika okkar svo sáran og sælan. Og yfir sögunni allri er ljómi eða ilmur eða hvað er það sem veldur því að sá sem lifir þessa sögu fyllist von? Sagan um Jesú er frétt um von.

Hafi þjóðfélagið okkar einhverntíman þurft á því að halda að gefa voninni séns þá er það núna. Þess vegna þarf að segja söguna um Jesú, lifa hana já taka hana inn.

Það er kjörið að fara til kirkju. Hér eru slóðir sem sýna dagskrána í kirkjunum þar sem við hjónin þjónum og svo er auðvelt fyrir alla að finna sína sóknarkirkju á netinu.

Vídalínskirkja í Garðabæ: http://kirkjan.is/gardasokn/

Laugarneskirkja í Reykjavík: http://laugarneskirkja.is/

þriðjudagur, 15. mars 2011

Það sem launaumslagið segir ekki

Prédikun okkar frá liðinni helgi:
Fyrir nokkru síðan tókum við hjónin okkur far með flugvél yfir til Kaupmannahafnar. Við hlið okkar sat maður á miðjum aldri sem við könnuðumst við frá árum okkar í Vestmannaeyjum, greindur og skemmtilegur karl. Við ræddum gamla tíma og gagn og gæði mannlífs í Eyjum, milli þess sem litið var í bók og borðaður einhver óskilgreindur flugvélamatur. Þegar sá til meginlandsins og farið var að styttast í ferðinni segir þessi maður við okkur eftir nokkra þögn: ‘Ég hef aldrei sagt ykkur frá atburði sem gerðist og ykkur varðar.’ Við litum hvort á annað og svo á viðmælandann. ‘Þetta var í sjálfu sér lítill atburður og helgaðist af því einu að ég var bara staddur á réttum stað á réttum tíma... En ég hef oft hugsað til þess og alltaf verið því feginn.’ ‘Hvað gerðist?’ spurðum við. ‘Þetta var daginn sem háskólasetrið í Eyjum var vígt þarna um árið og þið voruð þarna með börnum ykkar. Það eru brattar tröppur í húsinu og dóttir ykkar var bara á leikskólaaldri. Og það vildi svo til að ég kom aðvífandi einmitt þegar hún var að taka skref aftur fyrir sig en vissi ekki að hún stóð á skörinni. Ég bara greip hana í fallinu og það gerðist ekki annað en hún varð hrædd og hljóp að finna ykkur. Það hefði farið mjög illa hefði hún dottið.’
Við mundum daginn og kringumstæðurnar, einn af ótal góðum dögum með góðu fólki. Og þarna hafði legið við alvarlegu slysi sem ekki varð og lífið hélt áfram í sínum góða takti vegna þess að glöggur og snarráður maður var staddur í réttri tröppu á réttu andartaki, og enginn vissi neitt nema hann einn.
‘Ég hef alltaf litið á þennan atburð sem blessun’ bætti maðurinn við, og við skynjuðum að söguna sagði hann ekki til þess að hljóta þakkir heldur til þess að létta á sér. Við þökkuðum manninum fyrir að deila þessu með okkur og að hafa verið til staðar á ögurstundu í lífi barns okkar og svo kvöddumst við nokkuð hugsi og hurfum inn í flugstöðvar-manngrúann.

Þessi atburður rifjaðist upp fyrir mér þegar launamál bankastjórnenda komu enn til umræðu í liðinni viku og enn og aftur voru borin á borð rökin um ábyrgð og endurgjald svo að tómahljóðið glumdi í samfélaginu. Enn heyrum við talað eins og því sé í raun þannig farið að laun endurspegli það gagn sem menn vinna.
- Er það svo? Er það virkilega svo að verk okkar eigi ekki dýpri tilvísun en þá sem birtist í launaumslaginu?

Lexía dagsins er úr hinni ævafornu helgisögn um bræðurna Kain og Abel og fjallar einmitt um þetta mál. Kain var jarðyrkjumaður og Abel var hjarðmaður, báðir unnu þeir verk sín, en Guð hafði ekki þóknun á verki Kains. „Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: ‘Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.’“ (1Mós 4.3-7)

Við vitum ekkert í hverju synd Kains var fólgin. Við vitum bara að synd hans varð fullþroska og ól af sér dauða því svo fór að Kain drap Abel bróður sinn. Helgisögnin um Kain og Abel miðlar þeirri vitneskju að verk okkar hafa ekki bara yfirborðsmerkingu heldur ræðst gildi þeirra enn fremur af þeim hvötum sem til þeirra leiða. Það er m.ö.o. ekki einungis tilgangurinn sem helgar meðalið heldur liggur inntak verksins í gerandandum sjálfum. Við erum hvött til þess að spyrja okkur: ‘Hvers vegna geri ég það sem ég geri? Hvað er það sem knýr mig áfram?’

Hvernig ætti ég að meta til launa verknað mannsins sem við urðum samferða í flugvélinni? Hvað vil ég gjalda fyrir heilbrigði barnsins míns? Eða hvernig ætti að verðleggja þær óteljandi hetjudáðir sem unnar hafa verið við hörmulegar aðstæður í Japan síðustu sólarhringa? Ég segi óteljandi hetjudáðir vegna þess að þannig er fólk. Fólk vinnur hetjudáðir, hættir hiklaust eigin lífi í þágu annarra, vegna þess að það sér merkingu í lífinu sem er æðri en yfirborð hlutanna.

Maðurinn í flugvélinni hafði engu til kostað að bjarga dóttur minni frá alvarlegu slysi. En vegna þess að hann er vakandi og næmur einstaklingur og vegna þess að hann var á réttum stað á réttri stundu þurfti hann bara aðeins að haska sér til þess að koma í veg fyrir mikið áfall. Það sem upp úr stendur er að í hans huga er þessi atburður blessun. Þessi maður, - og ég get með engu móti rifjað upp nafnið hans, - þessi maður lítur á það sem blessun að hafa fengið að vera þarna. Skynjar þú lífsviðhorfið sem hér er á ferðinni? Og sérðu hversu fjarri það er þeirri kröfu að verk manns skuli endurgoldin?

Einhversstaðar þarna sjáum við afhjúpast eðli þeirrar skekkju sem um er að ræða í launamálum bankastjórnenda. Það er einhver gírug afstaða, einhver þóttafull tilætlun sem ræður og hún er ekki í takti við lífið.

Hörmungarnar sem nú ganga yfir Japan afhjúpa hve merkingarlaust það er að hlaða undir sjálfan sig. Lífið er svo stór gjöf að græðgi er það alheimskulegasta sem hægt er að taka sér fyrir hendur. Svo er hin stóra gjöf lífsins líka svo brothætt og hverful að hugmyndin um yfirráð og völd er í rauninni fjarstæða. - Yfirráð yfir hverju? Völd til að gera hvað? Við erum bara fólk, bara sprek á ströndu sem sópast undan flóðbylgjum hafsins. Til hvers eru völd?
„Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn.” Segir Jesús í guðspjalli dagsins og í orðum hans er dulið háð. „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.” (Lúk 22.24-32)

Er meistarinn ekki að birta okkur mikilvægan sannleika í þessum orðum? Er hann ekki að kenna okkur á lífið, hjálpa okkur til að leggja frá okkur gamlar hugmyndir um yfirráð og stjórnunaraðferðir sem illa hafa reynst og hvetja okkur til þess að sjá að endurgjald hvers verks liggur í því sjálfu? Það er þjónustan og hennar sjálfstæða gildi sem mestu varðar, hvort sem við þjónum bankastofnunum eða barnaheimilinum, stundum laxeldi eða rafvirkjun, sinnum öldruðum eða rekum veitingahús. Hvað sem við gerum jafnt á heimili, vinnustað eða skóla, þá er það þjónustan sem gildir, - viljinn og leiknin í því að láta gott af sér leiða.

Í hliðstæðum frásögnum Matteusar og Markúsar bætir Jesús við og segir: “Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Mark. 10.45 og Matt. 20.28)

Um leið og við hugsum til japönsku þjóðarinnar og þeirrar hræðilegu blóðtöku og eyðileggingar sem hún má nú þola skulum við sem njótum þeirrar gæfu að búa á Íslandi reyna að lifa eins og manneskjur. Við skulum t.d. ekki afhenda bankastofnanir eða aðra grunnþjónustu samfélagsins í hendur fólki sem ætlar fá raunverulegt endurgjald verka sinna í launaumslaginu sínu. Það er ekki gott að gera það. Við skulum ekki láta girndina ráða heldur skulum við taka við því sjónarhorni sem m.a. er opnað á í textum þessa fyrsta sunnudags í páskaföstu, að besta svarið við hinni stóru gjöf lífisins er það að þjóna lífinu því að endurgjald hvers verks liggur í verkinu sjálfu.
Svo skulum við biðja góðan Guð að gefa okkur daglegt brauð og vera iðin við að skima í kring um okkur til að vita hvort það hafi ekki örugglega allir það sem þeir þurfa.

Amen.

miðvikudagur, 16. febrúar 2011

Að rækta ástina í lífi sínu

Gott hjónaband gerist ekki óvart og hjón sem ætla ekkert sérstakt enda einmitt þar. Okkur langar til að vekja athygli á hjónanámskeiði sem við stöndum að:
• Vídalíns- og Laugarneskirkja bjóða nú upp á námskeið til að efla samvinnu í sambúð og hjónabandi. Þetta námskeið er ætlað öllum pörum sem finnst kominn tími til þess að ná nýjum árangri í samskiptum sínum.

• Námskeiðið verður haldið fjögur þriðjudagskvöld í röð kl. 20:00 – 22:00 frá 1. til 22. mars, ýmist í safnaðarheimili Vídalínskirkju eða Laugarneskirkju. Stjórnendur eru tvenn prestshjón Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson ásamt Betsy og Gregory Aikins.

Við tölum oft um heilagt hjónaband en vitum e.t.v. ekki hvað við meinum. Markmið námskeiðsins er að styðja hjón og sambúðarfólk í því að leyfa heimili sínu að vera raunverulegur griðastaður, helgidómur, þar sem börn og fullorðnir finna frelsi til að vera sjálfum sér samkvæm.

• Fyrirspurnir má senda á jonahronn@gardasokn.is og srbjarni@ismennt.is.
• Skráning fer fram þriðjudaga til föstudaga milli 9 og 12 í síma 5656380.
• Námskeiðið kostar kr. 5000.- fyrir parið og við skráningu er greitt staðfestingargjald kr. 2000.- sem dregst frá námskeiðsgjaldi.

sunnudagur, 16. janúar 2011

Útleiðsla hins grunaða er trúaratferli

Prédikun okkar flutt í Vídalílnskirkju og Laugarneskirkju í dag:

I
Ég hafði fyrir því að sjá myndskeiðið. Ég hafði heyrt það í sjö fréttum útvarpsins en eitthvað inni í mér vildi fá að sjá atburðinn, sjá manninn leiddan út í lögreglufylgd. Svo að eftir matinn á föstudagskvöldið södd/saddur og örugg(ur) í minni eigin stofu með mínu fólki stillti ég á „plúsinn” á slaginu átta til að sjá.

Af hverju? Vegna þess að í aðra röndina er ég smásmogin og smeyk manneskja. Ég get sem hægast fallið í hópinn undir mórberjatrénu í guðspjalli dagsins.(Lúk 19.1-10) Augun mín geta verið svo myrk. Þótt þau langi til að ljóma þá eiga þau líka í sér blik öfundar og reiði og gremju og það er þeim ekki á móti skapi að sjá hvað gerist þegar menn fá sín málagjöld.

Sakkeus var spilltur embættismaður. Kerfiskarl sem allir höfðu undir grun og allir elskuðu að hata en enginn þorði að ávarpa í sannleika.

Hver kynslóð á sína utangarðsmenn. Sumir eru það í nafni einhverskonar tapstöðu, aðrir eru það vegna sigra sinna, en allir eiga þeir stjórnleysið sameiginlegt. Og allir fá þeir að reyna það að samfélagið finnur sterka hvöt til að hafna þeim því þeir virða ekki almennar leikreglur.

Sakkeus vissi að hann átti ekkert inni hjá fólkinu í Jeríkó og að enginn myndi hliðra til fyrir honum í mannþrönginni þótt hann væri lágvaxinn og gæti ekki séð yfir herðar fólks. Því greip hann til sinna aðferða eins og hann jafnan hafði þurft að gera. Hann beitti útsjónarsemi sinni, hugsaði nokkra leiki fram í tímann og kom sér fyrir uppi í mórberjatré við veginn þar sem leið Jesú hlaut að liggja um. Það var einmitt þetta viðhorf, þessi hæfileiki til þess að skygnast fram í tímann, fresta ánægjunni og uppskera margfalt, sem hafði komið honum í þá aðstöðu sem hann var í; auðugur embættismaður.
Og nú beið hann yfirvegaður, áfjálgur og einn eins og hann hafði vanist að vera. Falinn í laufsrkrúði trésins horfði hann niður á mannfjöldann og sá hann nálgast. Þá gerist hið óvænta. Jesús staðnæmist og lítur í augu Sakkeusar. Þetta atriði hafði ekki verið á dagskrá hjá Sakkeusi og mannfjöldinn sem kominn var til að taka við Jesú var ekki búinn undir það sem nú átti sér stað. Athyglin hafði beinst að Jesú og Jesús hafði gefið fólkinu athygli sína en nú snéri hann henni skyndilega allri upp í tré: „Sakkeus, flýt þér ofan. Í dag ber mér að dvelja í húsi þínu.”

Flýttu þér! Sagði hann. Ég hef skyldum að gegna sem varða þig!

Uppi í trénu sat hrokinn, undir stóð gremjan.
Á greininni sat spillingin en við ræturnar hefndarþorstinn.
Hvorugt gat án hins verið.

Inn í þessa sviðsmynd gekk frelsarinn. Afrek hans var í því fólgið að tilheyra hvorugum hópnum og báðum í senn. Í hans augum voru ekki tveir andstæðir pólar heldur skakkt samhengi. Sakkeus og mannfjöldin voru ekki aðskilin í huga Jesú heldur tengd sársaukaböndum sem hann kunni að leysa. Þess vegna er sagan sögð.

Mannfjöldinn þráði að sjá myndskeiðið, vildi sjá Sakkeus handtekinn og leiddan á brott. En Jesús brást öllum slíkum væntingum. „Sakkeus, flýt þér ofan. Í dag ber mér að dvelja í húsi þínu.” Þvert á allar mannlegar þrár, varð fólkið að horfa upp á Jesú boðinn sem vin inn í höll spillingarinnar. Í máttvana gremju sáu þau meistarann hverfa inn undir þak Sakkeusar, þar sem hann hafði hreiðrað um sig í sínu stolna öryggi og illa fengnu nægtum, ósnertur af öllu því sem þjáir venjulegt dauðlegt fólk.

II
Það er eitthvað við auðæfi og frægð og völd. Það er eitthvað varðandi þessa þrenningu sem okkur grunar að muni vera eilíft. Það er þekkt staðreynd í djúpsálarfræðinni að hver vitiborin sál þráir eilífð og óttast andstæðu hennar dauðann. Og auðæfi, frægð og völd eru þrjár útgáfur af einskonar eilífð. Þegar við eignumst hluti sem okkur langar mikið í þá erum við líka undir niðri og ómeðvitað að kaupa staðfestingu á því að vera lifandi og eiga mikið af lífi. Við skynjum t.d. öll að það er einhver tegund af eilífð fólgin í gljáandi bifreiðum af réttum sortum. Það er þannig. Þegar við staðfestum bókun á flugi á netinu og vitum að innan ákveðins tíma erum við á leiðinni út í heim þá erum við ekki bara að ferðast, í aðra röndina erum við líka að kaupa tíma, kaupa atburði sem eru framundan og fela í sér líf. Mikið líf, nokkurs konar eilífð. Það geta ekki allir bókað ferðir út í heim. Sumir eru t.d. fátækir eða veikir. Það eiga ekki allir kost á aukalífi og tíma í veröld þar sem tíminn er peningar og peningar eru tími. Svo eiga sumir líka fullt af peningum en eru samt straffaðir, jafnvel handteknir. Það verða ekki allir peningasjóðir að eilífð. Það er hægt að lenda utan garðs. Sakkeus var dæmi um það, - lifandi dæmi um dauða.

III
Myndskeiðið í fréttunum á föstudagskvöldið þar sem bankamennirnir voru leiddir á brott var sannkallað kjarnfóður handa okkur hræddum sálum sem óttumst hrörnun, niðurlægingu og dauða. Í þessu myndskeiði var þjóðinni gefið vel á garðann og allir gátu rifið í sig dálítinn skammt af nokkurskonar eilífð.

Myndskeið eru mögnuð fyrirbæri sem tala skýrum rómi. Atburðurinn í kringum mórberjatréð er þekkt myndskeið, útleiðsla grunaðra bankaþrjóta úr dómsal til einangrunarvistar er það líka.
Fyrra myndskeiðið staðfestir þá vissu að eilífð megi finna utan við auð og frægð og völd. Það síðara skilur okkur eftir í óvissu hvað þetta varðar.

Og ég held því fram að á sama hátt og sagan um Sakkeus sé trúarlegs eðlis þá sé sagan um hina útleiddu bankakarla líka trúarlegs eðlis. Sagan er sögð og sett á svið vegna þess að við krefjumst hennar, þurfum hana, viljum hana. Útleiðsla þessara manna er friðþægingarganga í þágu þeirrar trúar sem færir okkur óvissuna. Við erum samfélag óvissunnar, samfélag mórberjatrésins. Við erum þeirrar trúar að líkast til sé hægt að kaupa tíma, að sennilega megi festa hönd á einhverskonar eilífð. Allt dótið sem við stillum upp í kringum okkur og allar varnirnar sem við höfum lært að setja umhverfis persónu okkar, allt eru þetta tákn um líf, upp safnað líf, nokkurs konar eilífð. Við trúum því að besta leiðin til þess að lifa sé að halda í allt sem við höfum og auka við heldur en hitt. Við trúum á gildi þess að safna lífi í algerri óvissu andspænis dauðanum. Svo kemur Jesús frá Nasaret gangandi inn á sviðið með aðra vinnutilgátu.
- Við vitum ekki hvað fram fór milli þeirra Jesú og Sakkeusar inni í höll spillingarinnar en ljóst er að Sakkeus ákvað að taka algerlega nýtt og óvænt skref. Trúarskref. Og í þakklæti sínu mælti hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“

Þannig gerðist það að spillti embættismaðurinn steig út úr óvissunni, sagði skilið við gömlu aðferðirnar og hætti að safna lífi en tók þess í stað að þiggja það með þökkum.

Við vitum ekki hvernig fólkið í Jeríkó brást við, vitum ekki hvort það þáði hina nýju lífsmöguleika sem Jesús kynnti svona eftirminnilega. En eitt er þó ljóst; Jesús stendur undir mórberjatré hins íslenska samfélags og mælir: Í dag ber mér að dvelja á Litla Hrauni.

Amen.