sunnudagur, 4. september 2011

Það er til líf utan við boxhringinn

Prédikun dagsins:

Textar dagsins gefa tilefni til þess að ræða mál sem alla varðar en sjaldnast er talað um; glímuna við samviskubitið.

Einn af okkar góðu sjúkrahúsprestum sagði mér um daginn að það væri þekkt staðreynd í sálgæslufræðum að samviskubit er svo sterkt afl í manneskjum að fólk sem er þjakað af samviskubiti á mun erfiðara með að ná heilsu eftir veikindi og gengur hægar í gegnum dal sorgarinnar en aðrir.

Við heyrðum áðan lesna þrjúþúsund ára gamla lýsingu á þjakandi samviskubiti: „Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju.” Skáldið sem hér yrkir er að tala um reynslu sína af vondri samvisku sem ekki fær neina úrlausn.
Sektarkennd er líka eitthvað sem hægt er að eiga með öðrum. Stundum hitti ég fólk, heilu fjölskyldurnar, sem fyrst og síðast tengjast hvert öðru sársaukaböndum. Það er miklu algengara en nokkurn grunar að fólk lifi og elski sína nánustu árum og áratugum saman í sársauka vegna óuppgerðra atvika sem alltaf eru þarna eins og minnismerki um það að maður sé nú ekki mikils virði. Og hvað gerist? Börnin sem alast upp í fjölskyldunni læra ómeðvitað að þau séu ekki fyllilega elskuverð, og að rétta svarið við sannleikanum sé alltaf refsing. Það er til fullt af góðu, duglegu, grandvöru og vönduðu fólki sem lifir alla sína ævi í andrúmslofti ásökunar og sektarkenndar, bara vegna þess að það veit ekki að neitt betra standi til boða. Og vegna þess að fólk vill ekki vera vont eða ábyrgðarlaust þá kveður það ekki sökina. Sökin verður sannleikurinn sem alltaf fylgir því og svarið við þeim sannleika er jú refsing, ekki satt?
Símon farísei sem sagt er frá í guðspjallinu var fastur í boxhring refsingarinnar án þess að hafa hugmynd um það sjálfur. Hann var svo grandvar og flottur, trúaður og agaður og svo kom hún allt í einu þessi kona sem truflaði partýið. Bersyndug kona. Það er eitthvað við mjög syndugar konur sem við karlmenn eigum erfitt með. Það hefur alltaf verið eitthvað mjög truflandi við mjög syndugar konur, ekki bara í hugum karlmanna heldur í líf allra sem ennþá lifa inni í boxhring refsingarinnar og vita ekki að til er líf utan hans. Og svo gengur hún beint að Jesú þar sem hann liggur til borðs að hætti samtímans. Jesús er liggjandi. Konan krýpur við fætur hans og byrjar að gráta svo að tárin falla á bert hold hans. Þetta er náttúrulega mjög ögrandi fyrir alla. Og þegar hún losar um sítt hár sitt og fer að þerra fætur hans með hárinu vita karlmennirnir í boðinu sem horfa á atburðinn innan úr sínum boxhring ekki hvernig þeim á að líða. Það eina sem þeir finna eru bannaðar tilfinningar sem kalla umsvifalaust á refsingu. Þetta eru agaðir og vandaðir menn sem ekki mega vamm sitt vita. Og þegar þessi MJÖG synduga kona tekur upp rándýr ilmsmyrsl í alabasturbuðki og smyr þeim með mjúkum hreyfingum á fætur Jesú og byrjar svo að kyssa fætur hans, þá er þeim bókstaflega öllum lokið.
Hvað gerir maður þegar maður er fullur af bönnuðum tilfinningum? Maður hneykslast á öðrum, ekki satt? Hneykslun er fyrsta stig refsingar.
Og nákvæmlega þarna. Þegar hjartslátturinn í boðinu er kominn á suðupunkt og sektarkenndin er orðin ærandi í höfði Símonar og allra hinna góðborgaranna sem ekki máttu sjálfir vamm sitt vita og hvað þá annað fólk, - nákvæmlega á þessum punkti grípur sagnameistarinn Jesús andartakið og segir: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“

„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina.”

Sagan leiddi huga samkomunnar frá syndugu konunni og inn í heim viðskipta, skulda og afborgana, þar sem allir boðsgestir voru á heimavelli. Þetta voru allt saman fjárhagslegir sigurvegarar. Hér var enginn í skuld en allir í gróða. Spennan í boðinu hjaðnaði og menn slökuðu á. Sagan af skuldurunum sem lánveitandinn gaf upp skuldina var bara þægileg smásaga og það var eins og Jesús hefði opnað glugga og helypt inn fersku lofti. Í lok sögunnar spyr Jesús Símon: „Hvor skuldaranna skyldi nú elska lánveitandann meira?“Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa?”
- Úff! Ekki meira um hana. Hugsuðu allir. En Jesús hélt blákalt áfram og ég er sannfærð(ur) um að hann hefur flutt mál sitt með geislandi brosi og húmor:
„Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu.” Þarna held ég að bæði konan og allir viðstaddir hafi fengið tækifæri til þess að hlægja saman. „Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom.” Aftur var hlegið. Og konan var ekki lengur í stöðu hinnar mjög syndugu konu sem vekur mjög bannaðar tilfinningar, sem kallar á mjög ákveðna refsingu, heldur horfðist öll samkoman í augu við hana sem persónu og fólk hló saman. „Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum.” Það myndaðist þögn í salnum. Menn horfðu á konuna og sáu hana öðrum augum í fyrsta sinn. Jesús sleppti ekki augum af Símoni: „Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við konuna: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Í beinu framhaldi standa svo þessi orð og ekki reyna að segja mér að þú sjáir ekki skilaboðin um jafnstöðu kynjana í þessu:
1Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf 2og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, 3Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.”

Það eru tvær tegundir kvenna sem alltaf hafa truflað (okkur) karlmenn: syndugar konur og sterkar konur. Jesús sóttist eftir félagsskap af báðum sortum og guðspjallamaðurinn Lúkas lætur sig hafa það að segja bara um þessar vinkonur Jesú og lærisveinanna eins og ekkert sé eðlilegra: „Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.”

Það er til líf utan við boxhring refsingarinnar. Okkur stendur til boða að lifa í gefandi og þiggjandi samskiptum við fólk og við sjálf okkur líka. Við þurfum ekki að lifa í ásökun og sektarkennd. Þú mátt eiga gott líf og höndla heilsu þína og hamingju.

Það er sama hver synd okkar er, verkið sem Jesús vann er stærra.
Fíknin þín er ekki stærri en kross Jesú. Ofbeldið sem þú átt sök á er ekki meira en ást Guðs. Áföll þín á kynferðissviðinu eru ekki afdrifaríkari en sú gjöf sem Guð hefur fært í Jesú Kristi. Ekkert sem þú hefur gert rangt er stærra en réttlæti Guðs. Hver heldur þú annars að þú sért? Heldur þú í alvöru að þú hafir meiri mátt en Guð? Heldur þú að gæska þín og illska, göfugmennska þín og lágkúra, kjarkur þinn og kveifarskapur, sé máttuguri en Jesús Kristur?... ... Já, greinilega! Á meðan þú stígur ekki út úr boxhringnum og lifir í refsandi samskiptum við allt og alla þá trúir þú að þú sért meiri en Guð.

Heyrum að lokum pistil dagsin þar sem Jóhannes sem örugglega sat þessa veislu á sínum tíma tekur þetta allt saman í nokkrar setningar og segir: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd. Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.” (1Jóh 1.5-10)

Amen.