sunnudagur, 31. janúar 2010

Samstaða og lausnamiðuð hugsun

Bjarni skrifar:

Gott fólk, mig langar til að þakka öllu því hæfileikaríka og sterka fólki sem sameinaðist um að styðja framboð mitt í prófkjöri Samfylkingarinnar sem nú hefur skilað mér inn í 5. sæti. Þið voruð ótrúleg, hvert og eitt! Raunar er ég standandi bit að verða vitni að allri þeirri einbeitni og þeim félagslega áhuga sem kraumar undir í öllu því mikla sjálfboðaliðastarfi sem unnið var í kringum þetta prófkjör hjá öllum frambjóðendum. Samfélagið má vera þakklátt þessu fólki öllu sem þannig leggur krafta sína og sál fram í þágu samfélagsins.
Nú varðar miklu að framhaldið sé gott. Nú er það von mín að okkur auðnist að efla með okkur pólitíska orðræðu sem eykur samstöðu með því að horfa á raunverulegar þarfir fólks. Lausnamiðuð hugsun er hugarfar sem tekur mark á þörfum. Þannig þarf að stunda stjórnmál. Í stað átakamiðaðrar nálgunar eigum við að leyfa hagsmunum að sameina. Ólíkir hagsmunir geta sameinað fólk svo framarlega sem við viðurkennum að við erum öll á sama báti og viljum leitast við að virða hagsmuni fólks.

föstudagur, 29. janúar 2010

Ég er þröngsýnn

Bjarni skrifar:
Hér er 4. mín. myndband af ræðu sem ég hélt á opnum framboðsfundi mánudagskvöldið síðasta í Iðnó. Þar er fjallað um vissa þætti í menningu okkar sem valda deilum og þrætum. Með því að skyggja slóðina, klippa hana og líma upp í leitargluggann efst dettur maður inn á þennan fund og getur haft gaman af:


http://video.hjariveraldar.is/TV_Profkjor_Sa_Bjarni_F.html

Svo má allt eins lesa ræðuna hér:

I
Mig langar að biðja ykkur að sjá fyrir ykkur tré. Ímyndaðu þér fagurt, laufgað tré í björtu og hlýju veðri. - Getur verið að þér sé eins farið og mér þegar þú horfir á þetta tré í huga þínum að þú sjáir líka bara eitt stykki tré en sért alls ekki með hugann við ræturnar á því, vatnsbúskapinn í jarðveginum, fuglana og skordýrin sem eiga viðurværi sitt í greinum þess, eða fólkið sem nýtur skjólsins...?

Okkar vestrænu augu eru þjálfuð í því að horfa þröngt. Við sjáum stök en ekki heildir. Menning okkar skilyrðir hugsunina svo að við sjáum t.d. miklu frekar hús en heimili .
– Sjáum skólabyggingu frekar en menntastofnun.
– Greinum ólíka þjóðfélagshópa en ekki fjölbreytt samfélag.
– Við tökum eftir einstaklingum en ekki tengslanetinu sem umleikur þá og gerir þá að því sem þeir eru.

II
Menning sem greinir ekki samhengi en flokkar allt í hagsmunahópa er dæmd til að iðka þrætur og deilur. Þjóðfélag sem metur ekki fjölbreytileika en kann bara að stilla upp í goggunarraðir verður alltaf í vandræðum með að taka skemmtilegar og frjóar ákvarðanir vegna þess að mikilvægar upplýsingar um veruleikann ná ekki að hringborðinu.

Ég og konan mín eigum góð vinahjón sem hafa lifað í farsælu hjónabandi þar sem auðvitað hefur stundum soðið uppúr. Eitt sinn fyrir mörgum árum urðu þau mjög ósátt og eftir heiftarlega rimmu í forstofunni sagði hann við hana: „Ég tek ekki við þessu, ég er farinn!” við svo búið tók hann frakkann af snaganum og vippaði sér í hann. Þetta var á fyrri hluta 10. áratugarins þegar frakkar voru flottir ef þeir voru síðir og með herðapúða og vinur minn er hávaxinn og vörpulegur svo þetta var all tilkomumikið hjá honum. Hann tók húslykilinn upp úr vasa sínum og lagði hann ögrandi í kommóðuna í ganginum. Svo svipti hann upp útidyrum steig út á veröndina og skellti hraustlega í lás á eftir sér. En í fyrsta skrefi ryktist hann við og varð þess vís að frakkalafið hafði orðið eftir milli stafs og hurðar. Hann lykillaus og úti var frost. Eftir nokkra umhugsun heyrðist: Ding-dong!
Og þegar dyrnar opnuðust og hjónin horfðust í augu komust þau ekki hjá því að viðurkenna að málefnið sem þau höfðu rifist um hafði fleiri hliðar en þær tvær sem þau höfðu lagt áherslu á.
- Það sem gerðist í samskiptum þessara ágætu hjóna þetta kvöld var það að þau stigu út úr óttanum, stigu fram úr reiðinni og sköpuðu nýjar lausnir. Í dag muna þau ekki lengur deiluefnið, en atburðurinn markaði tímamót í samkiptasögu þeirra. Þau lærðu að stíga fram og gera átökin á milli sín uppbyggileg, fagna ólíkum sjónarmiðum og leyfa þeim að lofa góðu.

III
Það ríkir ótti og reiði í íslensku samfélagi í dag og það sem gerir stöðuna flókna er sú staðreynd að sterk öfl í veröldinni nota óttann sem stjórntæki. Það þótti gild uppeldisaðferð í gamla íslenska samfélaginu að hræða börn með allskyns draugasögum og hindurvitnum, því að hrædd börn hlýða, en á okkar tímum hefur þessi margreynda aðferð verið hagnýtt á heimsvísu með mögnuðum árangri.

Manstu þegar nafnlausar hótanir voru ekki hluti af veruleika okkar? Manstu tímana þegar hin andlitslausa ógn var enn í flokki hindurvitna og draugasagna? Svo komu stóru viðskiptasamsteypurnar og 11. september og handrukkunarmenningin hélt innreið sína jafnt í undirheima sem bakherbergi.

Undarlegt að lifa þessa breytingu sem enginn ákvað. Á einum ártug eða svo hefur það gerst að óttinn við hið óþekkta hefur verið virkjaður, angistin markaðssett og hótunin hefur verið gerð að gjaldmiðli í samskiptum einstaklinga og þjóða. Hvers vegna? Ástæðan er ekki flókin; hræddur mannfjöldi gerir það sem honum er ráðlagt.

Heyrir þú hræðsluhvíslið og váboðana í andrúmi samfélagsins okkar? Skynjar þú eins og ég hvernig kynt er undir réttlátri reiði almennings líkt og af yfirvegaðri kunnáttusemi? Sterk öfl vinna að óstöðugleika íslensks samfélags til þess eins að geta bent á heimsku og stjórnleysi almennings og haldið áfram að fara sínu fram. Hindurvitnin eru ekki dauð, draugasagan lifir góðu lífi og gegnir enn sínu hlutverki;
Vertu hrædd, litla þjóð, - vertu hlýðin.
Vertu reið litla þjóð, - vertu heimsk.

Ég býð mig fram til pólitískrar forystu hér í höfuðborginni Reykjavík vegna þess að mér er ekki sama. Ég býð fram krafta mína vegna þekkingar minnar á innviðum mannlegs samfélags og sökum þess að ég þekki leiðir að sáttinni, samstöðunni og réttlætinu sem einmitt núna er svo aðkallandi. Ég vil hafna afarkostum tíðarandans og skora á allt fólk að snúa sér við, hringja bjöllunni og sjá hvernig lausnirnar fæðast.

fimmtudagur, 28. janúar 2010

vald



Nú er ég að bjóða mig fram til prófkjörs í þeirri von að komast í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég er m.ö.o. að sækjast eftir völdum. Þess vegna langar mig að útskýra afstöðu mína til valda og hvað ég er að meina með því að sækjast eftir þeim.
Í grófum dráttum er til tvennskonar meðhöndlun á valdi. Það er hægt að safna valdi og það er hægt að dreifa því. Taktu eftir þessu tvennu: Að safna valdi eða dreifa því, það er sitt hvað.
Ástæða þess að ég er að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingarinnar Laugardaginn 30. janúar er sú að ég hef andúð á valdssöfnun en dáist að fólki sem kann að meðhöndla vald til þess að afhenda það út til þeirra sem á því þurfa að halda. ..Það er siðferðislega skylda stjórnmálamannsins í lýðræðisþjóðfélagi að vinna í sífellu að því að dreifa völdum, þannig að allir þegnar samfélagsins heyri sína rödd, heyri talað um sínar aðstæður og sína hagsmuni. Þá skapast traust og friður sem allir sækjast eftir.

Mikilvægi samstöðunnar

Í Fréttablaðinu í dag er auglýsing þar sem nafngreindir aðilar mæla með framboði mínu vegna prófkjörs Samfylkingarinnar. Mér hefur verið bent á þá staðreynd að reglur prófkjörsins gera ráð fyrir því að auglýsa megi viðburði frambjóðenda en ekki framboð þeirra sjálfra með beinum hætti, og átta ég mig á að hér hef ég farið of geyst. Ég harma það því að ég er stoltur af samframbjóðendum mínum og ætlun mín var ekki sú að skemma þá liðsheild sem við einmitt erum að skapa. Ég hef verið feginn því að tilheyra prófkjöri þar sem ekki má verja meiru en fimm hundruð þúsund krónum til framboðsins. Ég er nýliði í pólitík og hef sinnt prófkjörsbaráttunni samhliða fullu sóknarprestsstarfi og því ekki haldið úti kosningaskrifstofu eða öðru slíku. Ákvörðunin um framboðið var tekin með skömmum fyrirvara, og enda þótt ég hafi talið mig þekkja reglurnar þá yfirsást mér þetta atriði. Ég finn mig knúinn til að biðja samframbjóðendur mína afsökunar og fullvissa þá og stuðningsmenn þeirra ásamt kjörstjórn Samfylkingarinnar um að á bak við þessa auglýsingu lá ekki viðleitni til að sveigja reglur í því mikilvæga samstarfi sem prófkjör er.

miðvikudagur, 27. janúar 2010



Það er þannig í lífinu að sum atriði eru aðal atriði. Eitt af aðal atriðum lífsins er sanngirni.
Ég hef kynnst mörgu fólki um dagana. Alls konar fólki með fjölbreyttan lífsstíl sem hefur alls konar skoðanir á hinu og þessu. Lífsstíll og skoðanir eru út af fyrir sig mjög áhugaverðir hlutir - en það sem ræður úrslitum þegar fólk byrjar að tala saman er það hvort fólk langar að vera sanngjarnt. Ef sanngirni ríkir þá nær fólk að kynnast.

Ég held að sanngirni og forvitni séu náskyldir hæfileikar.
Sá sem er forvitinn er alltaf að læra eitthvað nýtt og vill ekki læsa hugsanir sínar niður í skúffu.
Sá sem leitast við að vera sanngjarn hlustar líka á fólk til þess að læra af því. Ég hef komist að því að hver einasta persóna sem ég hitti getur kennt mér eitthvað nýtt, ef ég bara hlusta eftir því sem hún hefur að segja.

þriðjudagur, 26. janúar 2010

Andrúm hins staka manns

Bjarni Karlsson skrifar:

Ég fæddur árið 1963 og man Sólheimana þar sem foreldrar mínir búa enn þegar gatan var ómalbikuð. Ég ólst upp í borginni þegar ennþá ískraði í bremsunum á strætó og sundlaugaverðir voru undanteknignarlaust harðir í horn að taka. Ég man þegar bílar voru ennþá teikaðir og þegar Hallærisplanið var og hét. Í mínum huga er borgin Reykjavík djúpur og margræður veruleiki, hún geymir mínar dýpstu minningar, hún umlykur hversdag minn og þar sé ég framtíð afkomenda minna. Ef ég segði þér að ég elskaði Reykjavík væri það yfirborðstal. Ég veit ekki hvort hægt er að elska borg. Þó er hún fóstra okkar flestra og frá blautu barnsbeini mætti hún okkur með götum sínum, görðum og húsasundum. Leikskólarnir og róló urðu hluti af veruleika okkar ásamt skólum og íþróttafélögum að ógleymdum sundlaugunum og þeirra vörðum, konunum á bókasafninu og strætóbílstjórunum – upp til hópa voru þetta starfsmenn Borgarinnar sem mótuðu okkur og gáfu okkur hugmyndir um heiminn. Og þegar kirkjuklukkurnar hrindu í hverfinu og minnti á Guð eða almannavarnaflautan blés og minnti á kjarnorkusprengjuna þá lagði barnssálin við hlustir.

Núna finn ég nokkuð til í minni Reykvísku sál. Ég blygðast mín gagnvart Borginni þegar ég horfi á hálfkláruð stórhýsi gína yfir lágreistri byggð og rústaða byggingareiti standa myrkvaða í vetrarkkuldanum. En þó er líka yfir svo mörgu að gleðjast. Það er t.d. almennt gott að vera barn í Reykjavík í dag þótt ýmsar blikur séu á lofti. Ég veit það úr Laugarneshverfi þar sem ég hef lifað og starfað sem sóknarprestur síðustu 12 árin, að börnunum og unglingunum líður betur í dag en þeim leið fyrir nokkrum misserum þegar hinn meinti uppgangur var og hét. Fólk fer sér hægar, andráin er ókunnugir horfast í augu hefur lengst og gildi þess að búa í góðu hverfi sem maður hlúir að er öllum ljósara en áður.

Framundan eru óvissutímar. Þegar erfiðleikar steðja að gerist ýmist að fólk hopar og einangrast eða stígur fram og þéttir hópinn. Stemmningin í aðdraganda hrunsins var andrúm hins staka manns. Því var trúað að þegar öllu væri á botninn hvolft væri maður alltaf einn og að hver væri sjálfum sér næstur í heim kaldra lögmála markaðarins. Ólán eins var hans eigin vandi og velgengni skyldu menn líka þakka sjálfum sér einum. Nú vitum við betur.

Uppbygging samfélags okkar mun ekki ráðast í bönkum hún ræðst í því samtali sem við eigum sem þjóð og af þeim gildum sem við hefjum til vegs á meðal okkar.

Augun sem horfa á land okkar mannauð þess og náttúru sem hugsanlega rekstrareiningu, þau köldu augu sem nú gína yfir lífi okkar og hafa vísað okkur á þann stað sem við erum munu ekki greina lausnir í almanna þágu. Nú þarf skapandi lausnir, frjálsa hugsun, óbuguð hjörtu. Nú reynir á nýjar aðferðir þekkingu og getu til að standa í fæturna í þágu hins góða lífs. Til þeirrar baráttu býð ég mig fram með þátttöku í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninganna 2010. Ég hafna því að horfa á krumlur fátæktarinnar læsa sig um líf hinna ólánsömu sjá umhverfi barna í skólum og tómstundum hraka eða aldraða lifa við vansæmd á ævikvöldi.

laugardagur, 23. janúar 2010

Þú átt Reykjavík

Bjarni skrifar:

Það verður prófkjörsstemmning í Kolaportinu í dag. Kl. 14:00 verður fundur í Kaffi Porti á vegum Dags B. Eggertssonar þar sem frambjóðendur til prófkjörs Samfylkingarinnar mæta til leiks í tilefni af því að ár er liðið frá þeirri ákvörðun að slá af hugmyndir um að leggja Kolaportið undir bílastæði. Þar verður tónlist og gaman að koma.

Þá er ég með opinn prófkjörs-bás á svæðinu þar sem ég vil hitta fólk að máli til að kynna áherslur mínar í tengslum við framboð mitt í 3. - 4. sæti.

Kl. 16:00 verður svo samkoman sem ég sagði hér frá í gær þar sem dr. Haukur Ingi Jónasson um svara spurningunni: Hvað er pólitík áður en Jón Gnarr gengur fram og viðrar pólitísk stefnumið Besta flokksins. Þá mun ég tala og greina frá því sem mér liggur á hjarta varðandi málefni og framtíð Reykjavíkur. Yfirskrift þess sem ég hef að segja er þessi: Þú átt Reykjavík! Verum virkir borgarar og tökum þátt í lífinu.

föstudagur, 22. janúar 2010

Jón Gnarr og Bjarni takast á

Bjarni skrifar:

Það verður frekar skemmtilegt á morgun hjá mér og öllu þessu dásamlega fólki sem er að styðja mig í prófkjörinu. Ég verð í Kolaportinu frá kl. 11:00 með fallegan bás, veitingar og stemmningu.

kl. 16:00 verður framboðsfundur þar sem Jón Gnarr mun takast á við mig þar sem við erum jú báðir í framboði hvor fyrir sinn flokkinn. En áður mun dr. Haukur Ingi Jónasson hugleiða spurningua „Hvað er pólitík?", Hildur Eir Bolladóttir mun segja eitthvað fallegt um MIG og Jóna Hrönn grínast með kallinn eins og henni er einni lagið.

Tónlist verður í höndum Árna Heiðars Karlssonar, Önnu Siggu Helgadóttur, Ernu Blöndal og Arnar Arnarsonar.

Skrifum söguna saman...


Bjarni Karlsson
(Sækist eftir 3.-4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar v. borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík 2010)

sunnudagur, 17. janúar 2010

Af hverju í framboð?

Bjarni skrifar:

Mér finnst undarleg tilfinning að standa núna hinumeginn við þröskuldinn hafandi tekið það skref að bjóða mig fram í 3. – 4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninganna 2010.

Ég fann það svo vel í messum dagsins bæði í Laugarneskirkju kl. 11:00 og að Hátúni 12 í eftirmiðdaginn að bókstaflega ekkert kallar á mig að yfirgefa þann vettvang sem ég nú hef þjónað í 12 ár, sóknarprestsstarfið hefur aldrei verið skemmtilegra en einmitt um þessar mundir og aðstæður ljúfari.

Ástæða þess að ég býð mig fram er sú að ég tel að ég geti unnið samfélagi mínu mikilvægt gagn við núverandi aðstæður. Árum saman hef ég starfað í mikilli samvinnu við skóla, sjúkrahús og fangelsi, íþróttafélög, ÍTR, Íþróttafélag fatlaðra, ÖBÍ, Samtökin 78 og ótal aðra aðila sem vinna að velferð og hamingju borgaranna. Í samfelld 20 ár hef ég stundað mikla sálgæslu og kynnst aðstæðum lifandi fólks á tímamótum lífsins. Og þegar ég hugsa til samstarfsfólks og þeirra sem ég hef fengið að þjóna sem prestur er ég þakklátur hverjum og einum fyrir það sem ég hef mátt af þeim læra. Maður lærir alltaf af fólki því hver einasta persóna er hafsjór af reynslu og fróðleik um lífið.

Það er ekki af stærilæti þótt ég segi að ég hafi innsýn og getu sem skiptir máli í því mikilvæga verkefni sem við blasir, að verja velferðina í borginni. Framundan eru mánuðir og ár þar sem reyna mun á sanngirni og útsjónarsemi og miklu mun skipta að við stjórn borgarmála sé fólk með þjálfuð eyru og lausnamiðaða hugsun. Á næsta ári munu málefni fatlaðra færast frá ríkinu yfir á sveitarfélögin og ári síðar er það sama fyrirhugað í málefnum aldraðra. Stór hópur ungs atvinnulauss fólks á meðal okkar vekur upp alvarlegar áhyggjur og mörg fleiri brýn verkefni eru fyrir stafni sem öll lúta að því að það megi verða reynsla okkar þegar efnahagslægðin verður að baki að enginn gleymdist, engum þjóðfélagshópi var útskúfað heldur færðumst við nær hvert öðru og uppgötvuðum á nýjan leik hvers virði það er að vera borgarar í einu þjóðfélagi.

föstudagur, 15. janúar 2010

Fátækt

Bjarni skrifar í tilefni af framboði sínu til prófkjörs Samfylkingarinnar í 3.-4. sæti:

Það er eitthvað á milli okkar sem heitir þjóðarvitund. Þetta sem við skynjum þegar við rekumst á samlanda í útlöndum eða heyrum þjóðinni hampað og hótað í erlendum fjölmiðlum. Við skynjum það líka þegar við stöndum með ókunnugu fólki og horfum bergnumin á fagurt landslag. Það er eitthvað þarna, eitthvað fornt og máttugt sem bindur okkur saman og gerir okkur að þjóð.

Vandinn við mannleg tengsl er sá að þau geta verið háskaleg jafnvel þótt þau séu traust. Heilu fjölskyldurnar geta bundist nánum böndum í sameiginlegum sársauka þar sem allir skaðast og það á einnig við um þjóðfélög. Sterk tengsl eru ekki nauðsynlega holl.

Þegar ójöfnuður verður mikill í litlu þjóðfélagi þannig að völd og fé safnast á fáar hendur en hópar fólks standa snauðir í samanburði þá er það ávísun á óholl samskipti. Ótal rannsóknir sýna að heilsufar, menntun og almenn líðan þeirra sem bjuggu við fátækt í æsku er yfirleitt verri en þeirra sem hlutu gott atlæti. (sjá: Harpa Njáls, 2003, Fátækt á Íslandi s. 45)

Í hinu meinta góðæri heyrðist gjarnan það viðkvæði þegar spurt var að ofurlaunum fjármálamanna að menn skyldu ekkert vera að öfundast þótt sumir yrðu ríkir markaðurinn hlyti að ráða. Við lifðum í þjóðfélagi sem hafði gengið markaðnum á hönd og höfðum á fáum árum þróað með okkur andrúmsloft þar sem lífsskoðanir voru litnar hornauga og öll hugmyndafræði var álitin tortryggileg og ótæk. Í stað skoðana og gilda voru komnar markaðslausnir. Páll Skúlason heimspekingur hefur bent á það hvernig markaðshyggjan hefur kennt okkur að samskipti séu bara viðskipti og eigi því helst að lúta lögmálum markaðarins. Nú vita allir af dýrkeyptri reynslu að þessu er öfugt farið. Viðskipti eru bara samskipti og þau lúta einfaldlega sömu lögmálum og öll samskipti gera. Þar eru á ferð sömu gildi, sömu hættur og sama þörfin fyrir siðferði sem í öllum öðrum mannlegum samskiptum.

Í dag vitum við að markaðurinn er ekki meiri en lífið heldur er lífið meira en markaðurinn og hann þarf að lúta lögmálum þess, ekki öfugt.

Eitt lögmál er óbreytanlegt í mannlífinu: Allir eiga virðingu skylda.

Ef við tökum virðinguna frá fólki þá erum við að ræna það mennsku sinni. Í andrúmslofti markaðslausnanna var fátækt álitin óhjákvæmilegt hlutskipti sumra og vandamál þeirra sjálfra, en veruleikinn er ekki þannig. Sá sem lifir við fátækt í alsnægtasamfélagi er hægt og bítandi rændur mennsku sinni. Börn og unglingar sem alast upp í fátækt munu ekki bindast þjóð sinni hollum böndum heldur erfa reiði og reiði endar alltaf einhversstaðar í ógöngum.

Núna ríður á að okkur takist að gera þær breytingar á samfélagi okkar sem duga svo að jöfnuður aukist og fátækt sé útrýmt. Við þurfum að rækta þetta forna og máttuga – þjóðarvitundina – þannig að allt fólk skynji í henni gagnkvæma virðingu.

miðvikudagur, 13. janúar 2010

Fötlun og heilsa

Bjarni Karlsson skrifar:

Ég ætla að leyfa mér að nota þennan vettvang til þess að segja frá því sem mér liggur helst á hjarta í tengslum við framboð mitt í 3. - 4. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna 2010.

Eitt af brýnustu verkefnum borgarinnar eru málefni fatlaðra og nú vil ég ræða það stuttlega:

Hugsun mín er ég nálgast málefni fatlaðra tengist ekki fötlun einstaklinganna heldur heilsu þeirra, krafti og tækifærum. Ég hef árum saman fylgst með körftugu starfi ÖBÍ og ýmissa aðildarfélaga þess og tek heilshugar undir það grundvallar atriði sem kemur fram í kröfunni „Ekkert um okkur án okkar.”

Nú eru þeir merkilegu tímar að fatlaðir hafa risið upp og hafnað forsjárhyggju samfélagsins og krefjast þess eins og annað fólk að hafa sjálfir með málefni sín að gera. Sannleikurinn er sá að öll erum við fötluð og öll höfum við heilsu. Við höfum m.ö.o. hvert og eitt margvíslegar takmarkanir sem við þurfum að yfirstíga í daglegu lífi og svo höfum við líka heilsu til þess að höndla.

Ég vil trúa því að dag einn verði hægt að afnema öll lög um fatlaða og setja þess í stað almenn lög um fólk og réttindi þess til að geta bjargað sér á eigin forsendum. Í sannleika er fötlun afstætt hugtak og í sjálfu sér ekkert mjög gagnlegt þar sem það lýsir skorti og takmörkunum en heilsuhugtakið tel ég mun geðþekkara og meira í ætt við veruleikann því þar er vísað til raunverulegra gæða sem allt fólk hefur yfir að ráða.

Í byrjun næsta árs munu málefni fatlaðra færast alfarið frá ríki til sveitarfélaga. Þar er mikil undirbúningsvinna þegar að baki í samvinnu milli ráðuneytis og borgar og mikið framundan. Trúi ég að fjölskyldur fatlaðra hljóti að fagna þeirri breytingu því stefnt er að því að einfalda aðkomuna fyrir notendur þjónustunnar. Er mjög brýnt að vel takist til er að þessu kemur og að við stjórnvöl velferðarmála borgarinnar sé fólk sem gengur í takti við fatlaða.

þriðjudagur, 12. janúar 2010

Bjarni Karlsson í prófkjöri

Ágætu borgarbúar, ég hef tekið ákvörðun um að gefa kost á mér í 3.-4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík 2010.


Í mínum huga er framboð mitt rökrétt framhald af þeim verkefnum sem tekið hafa huga minn og orku sem prestur undanfarin 20 ár. Í starfi mínu hef ég eignast dýrmæta innsýn í veruleika almennings í landinu og orðið ljóst að það er ekki sama hvernig við hugsum samfélag okkar og hvaða gildi við leggjum til grundvallar. Þá blasir líka við mér að vandi þjóðarinnar er að ýmsu leyti byggður inn í kerfi samfélagsins.

Nú göngum við til móts við nýja tíma sem reyna munu á þolrif okkar um leið og aðstæður krefjast þess að steinunum í fjörunni sé snúið og forsendur samfélagsins endurskoðaðar. Við þurfum að svara til um það hver við erum, fyrir hvað við stöndum og hvert við stefnum. Þetta vitum við öll.

Ég býðst til þess að stíga út úr öðrum verkefnum með vorinu og taka höndum saman við það góða fólk sem starfar í borginni í því skyni að standa vörð um velferð og mannréttindi í borgarkerfinu meðan á þessari óhjákvæmilegu en mikilvægu göngu stendur.

Nú varðar öllu að við hugsum tíu, tuttugu, þrjátíu ár fram í tímann og einsetjum okkur að missa ekki sjónar hvert af öðru heldur viðurkennum að við tilheyrum einum stórum samfélagsvef þar sem hver er öðrum háður. Nú gildir að sameina hina ýmsu krafta innan borgarkerfisins sem annarsstaðar í því skyni að aftengja fátæktargildrurnar af yfirvegaðri einbeitni, að við látum t.d. ekki skapast það ástand að hópur uppvaxandi barna og unglinga standi utan við hið góða líf sem áhorfendur. Tap eins þjóðfélagshóps er allra tap er fram líða stundir og þegar upp er staðið mun koma í ljós að almannaheill er fjárhagslega holl og snjöll.

Ég á þá hugsjón að allt fólk finni að það tilheyri hinu góða lífi samfélagsins. Við þurfum að temja okkur að hlusta á allar raddir, virða hinar ólíku þarfir og fagna fjölbreytileikanum í einingu. Ég trúi því að ég geti gert nokkuð gagn í þessa veru og býð því fram krafta mína með þeim hætti sem hér hefur verið tilkynnt.


Virðingarfyllst

Bjarni Karlsson
sóknarprestur í Laugarneskirkju

föstudagur, 1. janúar 2010

Nú þarf að skakka leikinn

Hér er prédikun okkar flutt á gamlársdegi 2009 kl. 17:00 að Bessastöðum og í Laugarneskirkju.

Fyrir rúmum tuttugu árum þegar við hjónin vorum sunnudagaskólakennarar í Laugarneskirkju þá hóf falleg eldri kona að sækja stundirnar reglubundið með ömmudrenginn sinn sem skar sig úr að því leyti að hann var mikið fatlaður. Hvern sunnudag eftir annan í öllum veðrum birtust þau, hann í sérútbúinni kerru því enn gat hann ekki gengið og hún, þessi smávaxna kona, prúðbúin og björt í fasi. Við dáðumst að staðfestu ömmunnar þá tvo eða þrjá vetur sem leiðir okkar lágu saman með þessum hætti og fundum að Hólmfríði, en það er nafn hennar, var kappsmál að drengurinn hennar, Gísli, fengi að njóta þeirra gæða sem barnastarfið bauð upp á með söngvum og takti, myndum, sögum og bænaversum.

Nú eru liðin meira en tuttugu ár og enn eiga þau samleið í kirkjuna af margvíslegum tilefnum, tvíeykið góða. Og á sunnudagsmorgnum er Gísli jafnan mættur sparibúinn og glæsilegur ungur maður til þess að leika á hljómborð í sunnudagaskólanum, því að honum voru gefnar góðar tónlistargáfur svo að hann getur leikið öll sunnudagaskólalögin og leitt fjöldasöng af öryggi. Þannig hefur staðfesta Hólmfríðar opnað ömmudrengnum veröld lofgjörðarinnar. Enginn nýtur tónlistarinnar í kirkjunni betur en Gísli og þarf maður ekki nema að líta til hans þar sem hann situr í kirkjubekknum til þess að læra að meta gildi tónlistar og lofsöngs. Við þá sýn verður maður svo þakklátur eljusemi Hólmfríðar ömmu. Hún er ein af þessu fólki sem geislar út frá sér og við hjónin höfum oft velt því fyrir okkur hvaða fræjum hafi verið sáð í hennar sál að hún skyldi verða sú gæfumanneskja sem hún er, friðsæl, æðrulaus og sterk.

Svo var það um daginn nánast fyrir tilviljun að Hólmfríður gaf í votta viðurvist innsýn í magnaða og erfiða lífsreynslu sem mótaði hana á ungum aldri og var auðsótt að fá leyfi til að segja sögu hennar.

Bernskuheimili Hólmfríðar var að Hofstöðum í Skagafirði og þar átti hún uppeldi sitt í hópi 7 systkina. Þá var það árið 1927 er Hólmfríður var 8 ára að aldri að skarlatsóttin stakk sér niður í sveitinni og varð Hólmfríður fyrir því að smitast og liggja fárveik. Í þá daga var skarlatssótt lífshættulegur sjúkdómur og engin ráð önnur til en þau að einangra sjúklinga eftir bestu getu. Var Hólmfríði komið fyrir í litlu herbergi undir súð þar sem hún var höfð í sóttkví í samfleytt 7 vikur. - Manstu hvað tíminn var oft lengi að líða þegar þú varst barn? Í heilar sjö vikur varð Hólmfríður að þola einangrun átta ára gömul liggjandi veik í herbergi uppi undir súð í gamla sveitabænum vitandi ekki nema að brátt yrðu dagar hennar taldir. Móðir hennar kom einu sinni á dag vafin í einhver klæði til að hindra smit og rétti að henni matarbakka, að öðru leiti var hún ein daga sem nætur. Tvær bækur hafði hún mátt taka með sér í prísundina sem voru brenndar þegar vistinni lauk, en engin leikföng hafði hún. „Og þarna lá ég” sagði Hólmfríður „og horfði upp í kvistana í skarsúðinni og hafði ekkert nema þessar tvær bækur sem ég var marg búin að lesa, kvistana í loftinu og Guð.” Í einverunni lifði hún sálarkvalir í einsemd og óvissu. „Þetta eru verstu dagar sem ég fyrr eða síðar átti eftir að lifa en ég segi ykkur satt, ég hefði ekki viljað fara á mis við þessa raun því þar sem ég lá í einverunni kynntist ég Guði og lærði að tala við hann.

Skyldi það vera hliðstæð reynsla sem býr að baki orðum skáldsins í Harmljóðunum sem flutt voru hér áðan: „Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín. Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vona ég á hann. Góður er Drottinn þeim er á hann vona og þeim manni er til hans leitar. Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. Gott er fyrir manninn að bera ok í æsku. Hann sitji einn og hljóður þegar Drottinn hefur lagt það á hann.” (Harmljóðin 3. 22-28)

Já, hvaða raunir skyldu það vera sem lífið lagði á unga sál fyrir rúmum 2500 árum sem urðu upptaktur þeirra orða sem birtast í þessu ljóði? Það munum við aldrei vita en við getum leitt að því líkur að skáldið sem hér yrkir hafi átt sér velgjörðarmenn.

- Hvers vegna segi ég það? Ég segi það vegna þess að það verður ekki allt böl til blessunar. Það er ekki svo einfalt að hollt sé ungu fólki að bera hvaða ok sem vera skuli með hvaða hætti sem er.

Þessi ævaforni texti úr Harmljóðunum talar um náð, miskunn og trúfesti sem forsendu þess að böl verði til blessunar. Hefði Hólmfríður ekki vitað þetta með náðina og miskunnina sem ekki þrýtur. Hefði henni ekki verið það runnið í merg og bein frá barnsaldri að til er trúfesti, þá hefði okið sem á hana lagðist að líkindum brotið niður sál hennar. Í einverunni fann hún Guð og þau byrjuðu samtalið góða, bænina, vegna þess að henni hafði verið kennt að biðja. Eitthvert gott fólk, einhverjar sanngjarnar aðstæður höfðu mætt Hólmfríði sem barni og þegar móðir hennar birtist þótt hún væri vafin klæðum fyrir vit sér, þá var hún boðberi vonar og áminning um að lífið væri gott þrátt fyrir allt. Þess vegna gat góður Guð orðið hlutdeild Hólmfríðar svo að þótt hún hefði bara hann og kvistina í súðinni þá varð lífið bærilegt í sóttkvínni.

Náð, miskunn og trúfesti! Hvað er það á Íslensku?

- Náð er að samþykkja fólk eins og það er, miskunn að að greina þarfir annarra og taka þær gildar og trúfesti er að yfirgefa fólk ekki í neyð.

Síðar átti Hólmfríður heftir að halda uppi merkjum náðarinnar, miskunnarinnar og trúfestinnar í lífi dóttursonarins og verða til þess að einnig honum opnuðust nýjar víddir og hið góða samtal lofsöngsins er hlutdeild hans í dag.

Það verður ekki allt böl til blessunar og blessun kemur oftast ekki óvart. Blessun Guðs er ekki síst iðkun, iðkun hins góða.

Það er þungt ok að bera alvarlega fötlun frá æsku og það er ekki sama hvernig það er borið og það varðar miklu hverjir styðja mann. Allir sem þekkja Gísla sjá að hann er sigurvegari. Allt hans fas er yfirlýsing um sigur, staðfesting á því að lífið er sigurganga. Það er vegna þess að þau sem í kringum hann standa þekkja þetta með náðina og miskunnina sem ekki þrýtur og kunna skil á trúfestinni. Aðal atriði lífsins eru ekki flókin.

-

Það er kristin trú að fólk sé fætt í Guðs mynd. Líkt og fræið ber í sér mynd þess sem því er ætlað að verða þannig er það kristin trú að hvert barn sem fæðist beri í sér mynd Krists og sé ætlað að líkjast honum. Guðs mynd náungans er í höndum mínum og þínum. Ég get stuðlað að því að þú náir Guðsmynd þinni og ég get eins lagt stein í götu þína.

Í guðspjalli dagsins segir víngarðsmaður við eiganda víngarðsins þegar hann vill höggva upp tré sem ekki hefur borið ávöxt í þrjú ár: „Herra lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan.” (Lúk. 13.8-9) Hér sjáum við þetta með náðina, miskunnina og trúfestina í verki. Svona er blessun iðkuð. Eins og víngarðsmaðurinn biður trénu miskunnar og býðst til að grafa um, bera að áburð og hlúa að viðgangi þess, þannig er það kristinn siður að sætta sig ekki við takmarkanir og hindranir í lífi annarra heldur ganga til verka í þeirra þágu. Þannig verður lífið gott og blessað.

-

Um síðustu helgi var rætt við Vilborgu Oddsdóttur félagsráðgjafa Hjálparstarfs kirkjunnar sem gaf það upp að tæplega 4000 fjölskyldur hefðu fengið hjálp frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Rauðakrossinum nú fyrir jólin. Þetta er mikil aukning frá því sem verið hefur og kemur fram að 900 fjölskyldur sem aldrei fyrr hafi leitað til hjálparstofnana hafi gert það nú fyrir jólin. „Þetta er fólk í eigin húsnæði með vinnu”, segir Vilborg, „sem stendur í skilum með skuldir sínar.” Hún segir skýringanna að leita í því að laun dugi ekki fyrir framfærslu og það eigi ekki bara við nú fyrir jólin. Fólk borgi skuldirnar sínar og eigi svo ekki fyrir mat.

Hér erum við með áreiðanlegar upplýsingar frá fagmanni sem stendur í eldlínu hjálparstarfa í landi okkar. Um orð Vilborgar þarf ekki að efast. Það verður ekki allt böl til blessunar. Það er engin rómantík tengd fátækt og skorti.

Nú þarf að skakka leikinn. Það verkefni bíður okkar Íslendinga að gera þær skulda- og eignatilfærslur sem nauðsynlegar munu reynast svo að okið sem á okkur hefur lagst í efnalegu tilliti verði ekki til þess að brjóta niður þjóðarsálina heldur styrkja hana. Við þurfum að stokka spilin og gefa upp á nýtt vegna þess að það hefur verið svindlað í leiknum. Fjölskyldurnar sem núna bíða í sóttkví þagnarinnar og þolinmæðinnar verða að skynja að þær búi í samfélagi sem viti þetta með náðina og miskunnina og kunni skil á trúfestini, annars mun illa fara.

Blessun er oftast ekki óvart það þarf að iðka hið góða, það þarf að iðka réttlæti. Nú þarf að grafa um í kringum þessar fjölskyldur, bera að áburð og gera þær ráðstafanir sem tiltækar eru svo að jöfnuður skapist. Það þarf að færa til fé og gefa upp sumar skuldir og jafna stöðu manna með sanngirni.

Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, og við þurfum að taka þátt. Við þurfum að reynast trúföst þannig að við yfirgefum ekki hvert annað.

Þegar almenningur í landi okkar finnur að byrðum er deilt af sanngirni þá verður okið indælt. Þegar við skynjum að réttlætið ráði verða byrðarnar ljúfar.

Móðir Hólmfríðar átti ekki mörg ráð handa dóttur sinni í sóttkvínni, vafin í dulur og klæði færði hún barni sínu skammtinn án orðaskipta. En þótt Hólmfríður yrði að matast og lifa í einrúmi þessar sjö erfiðu vikur vissi hún hvað að henni snéri því hún átti fjölskyldu sem iðkaði hið góða. Þannig gat bölið breyst í blessun svo að hún fær aldrei fullþakkað þá erfiðu reynslu sem tók frá henni allan ótta fram í háa elli. Nú eigum við Íslendingar kost á því að kveðja óttann og ganga til móts við áður óþekkt frelsi. Við getum leyft reynslunni sem á okkur hefur verið lögð að samverka til góðs svo að við eignumst meiri hlutdeild í guðsmynd okkar, verðum gæfuþjóð, friðsæl, æðrulaus og sterk.

Amen.