sunnudagur, 17. janúar 2010

Af hverju í framboð?

Bjarni skrifar:

Mér finnst undarleg tilfinning að standa núna hinumeginn við þröskuldinn hafandi tekið það skref að bjóða mig fram í 3. – 4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninganna 2010.

Ég fann það svo vel í messum dagsins bæði í Laugarneskirkju kl. 11:00 og að Hátúni 12 í eftirmiðdaginn að bókstaflega ekkert kallar á mig að yfirgefa þann vettvang sem ég nú hef þjónað í 12 ár, sóknarprestsstarfið hefur aldrei verið skemmtilegra en einmitt um þessar mundir og aðstæður ljúfari.

Ástæða þess að ég býð mig fram er sú að ég tel að ég geti unnið samfélagi mínu mikilvægt gagn við núverandi aðstæður. Árum saman hef ég starfað í mikilli samvinnu við skóla, sjúkrahús og fangelsi, íþróttafélög, ÍTR, Íþróttafélag fatlaðra, ÖBÍ, Samtökin 78 og ótal aðra aðila sem vinna að velferð og hamingju borgaranna. Í samfelld 20 ár hef ég stundað mikla sálgæslu og kynnst aðstæðum lifandi fólks á tímamótum lífsins. Og þegar ég hugsa til samstarfsfólks og þeirra sem ég hef fengið að þjóna sem prestur er ég þakklátur hverjum og einum fyrir það sem ég hef mátt af þeim læra. Maður lærir alltaf af fólki því hver einasta persóna er hafsjór af reynslu og fróðleik um lífið.

Það er ekki af stærilæti þótt ég segi að ég hafi innsýn og getu sem skiptir máli í því mikilvæga verkefni sem við blasir, að verja velferðina í borginni. Framundan eru mánuðir og ár þar sem reyna mun á sanngirni og útsjónarsemi og miklu mun skipta að við stjórn borgarmála sé fólk með þjálfuð eyru og lausnamiðaða hugsun. Á næsta ári munu málefni fatlaðra færast frá ríkinu yfir á sveitarfélögin og ári síðar er það sama fyrirhugað í málefnum aldraðra. Stór hópur ungs atvinnulauss fólks á meðal okkar vekur upp alvarlegar áhyggjur og mörg fleiri brýn verkefni eru fyrir stafni sem öll lúta að því að það megi verða reynsla okkar þegar efnahagslægðin verður að baki að enginn gleymdist, engum þjóðfélagshópi var útskúfað heldur færðumst við nær hvert öðru og uppgötvuðum á nýjan leik hvers virði það er að vera borgarar í einu þjóðfélagi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já sæll!

Plotti plotti..dísess

Nafnlaus sagði...

Vona innil. að þú komir þessum lífsviðhorfum til skila í borgarstjórn