föstudagur, 29. janúar 2010

Ég er þröngsýnn

Bjarni skrifar:
Hér er 4. mín. myndband af ræðu sem ég hélt á opnum framboðsfundi mánudagskvöldið síðasta í Iðnó. Þar er fjallað um vissa þætti í menningu okkar sem valda deilum og þrætum. Með því að skyggja slóðina, klippa hana og líma upp í leitargluggann efst dettur maður inn á þennan fund og getur haft gaman af:


http://video.hjariveraldar.is/TV_Profkjor_Sa_Bjarni_F.html

Svo má allt eins lesa ræðuna hér:

I
Mig langar að biðja ykkur að sjá fyrir ykkur tré. Ímyndaðu þér fagurt, laufgað tré í björtu og hlýju veðri. - Getur verið að þér sé eins farið og mér þegar þú horfir á þetta tré í huga þínum að þú sjáir líka bara eitt stykki tré en sért alls ekki með hugann við ræturnar á því, vatnsbúskapinn í jarðveginum, fuglana og skordýrin sem eiga viðurværi sitt í greinum þess, eða fólkið sem nýtur skjólsins...?

Okkar vestrænu augu eru þjálfuð í því að horfa þröngt. Við sjáum stök en ekki heildir. Menning okkar skilyrðir hugsunina svo að við sjáum t.d. miklu frekar hús en heimili .
– Sjáum skólabyggingu frekar en menntastofnun.
– Greinum ólíka þjóðfélagshópa en ekki fjölbreytt samfélag.
– Við tökum eftir einstaklingum en ekki tengslanetinu sem umleikur þá og gerir þá að því sem þeir eru.

II
Menning sem greinir ekki samhengi en flokkar allt í hagsmunahópa er dæmd til að iðka þrætur og deilur. Þjóðfélag sem metur ekki fjölbreytileika en kann bara að stilla upp í goggunarraðir verður alltaf í vandræðum með að taka skemmtilegar og frjóar ákvarðanir vegna þess að mikilvægar upplýsingar um veruleikann ná ekki að hringborðinu.

Ég og konan mín eigum góð vinahjón sem hafa lifað í farsælu hjónabandi þar sem auðvitað hefur stundum soðið uppúr. Eitt sinn fyrir mörgum árum urðu þau mjög ósátt og eftir heiftarlega rimmu í forstofunni sagði hann við hana: „Ég tek ekki við þessu, ég er farinn!” við svo búið tók hann frakkann af snaganum og vippaði sér í hann. Þetta var á fyrri hluta 10. áratugarins þegar frakkar voru flottir ef þeir voru síðir og með herðapúða og vinur minn er hávaxinn og vörpulegur svo þetta var all tilkomumikið hjá honum. Hann tók húslykilinn upp úr vasa sínum og lagði hann ögrandi í kommóðuna í ganginum. Svo svipti hann upp útidyrum steig út á veröndina og skellti hraustlega í lás á eftir sér. En í fyrsta skrefi ryktist hann við og varð þess vís að frakkalafið hafði orðið eftir milli stafs og hurðar. Hann lykillaus og úti var frost. Eftir nokkra umhugsun heyrðist: Ding-dong!
Og þegar dyrnar opnuðust og hjónin horfðust í augu komust þau ekki hjá því að viðurkenna að málefnið sem þau höfðu rifist um hafði fleiri hliðar en þær tvær sem þau höfðu lagt áherslu á.
- Það sem gerðist í samskiptum þessara ágætu hjóna þetta kvöld var það að þau stigu út úr óttanum, stigu fram úr reiðinni og sköpuðu nýjar lausnir. Í dag muna þau ekki lengur deiluefnið, en atburðurinn markaði tímamót í samkiptasögu þeirra. Þau lærðu að stíga fram og gera átökin á milli sín uppbyggileg, fagna ólíkum sjónarmiðum og leyfa þeim að lofa góðu.

III
Það ríkir ótti og reiði í íslensku samfélagi í dag og það sem gerir stöðuna flókna er sú staðreynd að sterk öfl í veröldinni nota óttann sem stjórntæki. Það þótti gild uppeldisaðferð í gamla íslenska samfélaginu að hræða börn með allskyns draugasögum og hindurvitnum, því að hrædd börn hlýða, en á okkar tímum hefur þessi margreynda aðferð verið hagnýtt á heimsvísu með mögnuðum árangri.

Manstu þegar nafnlausar hótanir voru ekki hluti af veruleika okkar? Manstu tímana þegar hin andlitslausa ógn var enn í flokki hindurvitna og draugasagna? Svo komu stóru viðskiptasamsteypurnar og 11. september og handrukkunarmenningin hélt innreið sína jafnt í undirheima sem bakherbergi.

Undarlegt að lifa þessa breytingu sem enginn ákvað. Á einum ártug eða svo hefur það gerst að óttinn við hið óþekkta hefur verið virkjaður, angistin markaðssett og hótunin hefur verið gerð að gjaldmiðli í samskiptum einstaklinga og þjóða. Hvers vegna? Ástæðan er ekki flókin; hræddur mannfjöldi gerir það sem honum er ráðlagt.

Heyrir þú hræðsluhvíslið og váboðana í andrúmi samfélagsins okkar? Skynjar þú eins og ég hvernig kynt er undir réttlátri reiði almennings líkt og af yfirvegaðri kunnáttusemi? Sterk öfl vinna að óstöðugleika íslensks samfélags til þess eins að geta bent á heimsku og stjórnleysi almennings og haldið áfram að fara sínu fram. Hindurvitnin eru ekki dauð, draugasagan lifir góðu lífi og gegnir enn sínu hlutverki;
Vertu hrædd, litla þjóð, - vertu hlýðin.
Vertu reið litla þjóð, - vertu heimsk.

Ég býð mig fram til pólitískrar forystu hér í höfuðborginni Reykjavík vegna þess að mér er ekki sama. Ég býð fram krafta mína vegna þekkingar minnar á innviðum mannlegs samfélags og sökum þess að ég þekki leiðir að sáttinni, samstöðunni og réttlætinu sem einmitt núna er svo aðkallandi. Ég vil hafna afarkostum tíðarandans og skora á allt fólk að snúa sér við, hringja bjöllunni og sjá hvernig lausnirnar fæðast.

Engin ummæli: