föstudagur, 15. janúar 2010

Fátækt

Bjarni skrifar í tilefni af framboði sínu til prófkjörs Samfylkingarinnar í 3.-4. sæti:

Það er eitthvað á milli okkar sem heitir þjóðarvitund. Þetta sem við skynjum þegar við rekumst á samlanda í útlöndum eða heyrum þjóðinni hampað og hótað í erlendum fjölmiðlum. Við skynjum það líka þegar við stöndum með ókunnugu fólki og horfum bergnumin á fagurt landslag. Það er eitthvað þarna, eitthvað fornt og máttugt sem bindur okkur saman og gerir okkur að þjóð.

Vandinn við mannleg tengsl er sá að þau geta verið háskaleg jafnvel þótt þau séu traust. Heilu fjölskyldurnar geta bundist nánum böndum í sameiginlegum sársauka þar sem allir skaðast og það á einnig við um þjóðfélög. Sterk tengsl eru ekki nauðsynlega holl.

Þegar ójöfnuður verður mikill í litlu þjóðfélagi þannig að völd og fé safnast á fáar hendur en hópar fólks standa snauðir í samanburði þá er það ávísun á óholl samskipti. Ótal rannsóknir sýna að heilsufar, menntun og almenn líðan þeirra sem bjuggu við fátækt í æsku er yfirleitt verri en þeirra sem hlutu gott atlæti. (sjá: Harpa Njáls, 2003, Fátækt á Íslandi s. 45)

Í hinu meinta góðæri heyrðist gjarnan það viðkvæði þegar spurt var að ofurlaunum fjármálamanna að menn skyldu ekkert vera að öfundast þótt sumir yrðu ríkir markaðurinn hlyti að ráða. Við lifðum í þjóðfélagi sem hafði gengið markaðnum á hönd og höfðum á fáum árum þróað með okkur andrúmsloft þar sem lífsskoðanir voru litnar hornauga og öll hugmyndafræði var álitin tortryggileg og ótæk. Í stað skoðana og gilda voru komnar markaðslausnir. Páll Skúlason heimspekingur hefur bent á það hvernig markaðshyggjan hefur kennt okkur að samskipti séu bara viðskipti og eigi því helst að lúta lögmálum markaðarins. Nú vita allir af dýrkeyptri reynslu að þessu er öfugt farið. Viðskipti eru bara samskipti og þau lúta einfaldlega sömu lögmálum og öll samskipti gera. Þar eru á ferð sömu gildi, sömu hættur og sama þörfin fyrir siðferði sem í öllum öðrum mannlegum samskiptum.

Í dag vitum við að markaðurinn er ekki meiri en lífið heldur er lífið meira en markaðurinn og hann þarf að lúta lögmálum þess, ekki öfugt.

Eitt lögmál er óbreytanlegt í mannlífinu: Allir eiga virðingu skylda.

Ef við tökum virðinguna frá fólki þá erum við að ræna það mennsku sinni. Í andrúmslofti markaðslausnanna var fátækt álitin óhjákvæmilegt hlutskipti sumra og vandamál þeirra sjálfra, en veruleikinn er ekki þannig. Sá sem lifir við fátækt í alsnægtasamfélagi er hægt og bítandi rændur mennsku sinni. Börn og unglingar sem alast upp í fátækt munu ekki bindast þjóð sinni hollum böndum heldur erfa reiði og reiði endar alltaf einhversstaðar í ógöngum.

Núna ríður á að okkur takist að gera þær breytingar á samfélagi okkar sem duga svo að jöfnuður aukist og fátækt sé útrýmt. Við þurfum að rækta þetta forna og máttuga – þjóðarvitundina – þannig að allt fólk skynji í henni gagnkvæma virðingu.

2 ummæli:

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir sagði...

"Ef við tökum virðinguna frá fólki þá erum við að ræna það mennsku sinni":segir þú. - Má ekki segja að það sé neikvæð forsjárhyggja að svipta fólk vinnu í gegnum einelti, bolun og kynferðislegt áreiti? vinnu. Ég hefði haldið að ÖBÍ ætti að ganga undir merki fána réttlætisins í hvívetna, en ekki að stuðla að því að fjölga öryrkjum. - Sjálf hafna ég forræðiðshyggju, eða á ég að segja mannvonsku þeirra sem þykjast vinna í anda góðra gilda og láta sér um munn fara orðið kærleikur, því það er merkingarlaust án sýnilegs verknaðar. Allt sem þú vilt að aðrið menn gjöri yður skulu og þér gera, er innhaldslaust ef það sýnir sig ekki í verkunum. -Ég hafna neikvæðri forsjárhyggju samfélagsins sem líður þöggun og afskiptaleysi, sefur á verðinum og hafnar dýrmætum einstaklingbundnum manngildum, skapnaði Guðs almáttugs. - Ég vona Bjarni! að þú berir gæfu, til að koma í veg fyrir að brotið sé á fólki yfir höfuð, að því sé ekki kastað á haugana, gert að ruslatunnfæði og urðað yfir. - Ég vona að þú getir eflt stjórnsýsluna að hún hætti að snúast um vendisás sjálfs síns! - Ég skora á þig að beita þér fyrir mannréttindum í hvívetna!

Nafnlaus sagði...

Hver hefur hag af ranglætinu, fátæktinni og hrokanum ???