sunnudagur, 29. nóvember 2009

Vopnuð pálmagreinum

Fyrsti sunnudagur í aðventu:

I

Ég hef átt mörg samtöl við foreldra nýfæddra skírnarbarna. Það er sérstakt andrúmsloft sem umleikur nýbakaða foreldra; þakklæti, undrun og stundum þreyta. Stundum hafa setið rauðeygir og vansvefta foreldrar inni á skrifstofunni minni og talið hefur þá gjarnan borist að óþroskuðum magaopum nýbura sem valda kveisu og gráti með tilheyrandi andvökum.

Allir sem einhverntíman hafa verið í sveit og kynnst dýralífi vita að ungviði í dýraríkinu fæðist reiðubúið. Þegar kýrin, kindin eða hryssan hefur karað afkvæmi sitt er það óðara staðið á fætur og farið að leita að spena. Ungar hænunnar, gæsarinnar og andarinnar fylgja móðurinni sjálfkrafa í halarófu um leið og þeir koma úr egginu en mannsbarnið getur ekki haldið höfði og fær enga björg sér veitt.

Hvers vegna skyldi þetta vera svona? Líkast til er það rétt sem vísindamenn hafa bent á að það er svo flókið að tilheyra menningu með tungumáli og margvíslegum siðum að mannsbörnin þurfa höfuð sem er svo stórt í hlutfalli við búkinn að eigi barn að geta fæðst af móður sinni verður fæðingin að eiga sér stað löngu áður en líkaminn er í raun tilbúinn til leiks. Og þegar barnið er fætt tekur við langur ferill við umönnun og uppeldi. Þegar mín kynslóð var sextán ára var maður kominn í fullorðinna manna tölu. Þau sem nú eru farin að reskjast voru orðin fullorðið fólk strax eftir fermingu. Í dag er það tvítugsaldurinn sem markar þessi tímamót því að samfélagið er svo flókið og það er að svo mörgu að gæta. Að eignast barn er nú orðið að tuttugu ára skudbindingu við uppeldi. Þá má rifja upp að hinn góðkunni vísindamaður og kennari Örnólfur Thorlacius hefur haldið því fram að þegar menningin kom til sögunnar hafi náttúran búið til afa og ömmur. Þetta telur hann sjást af því að eina tegundin sem hafi tíðhavörf sé maðurinn því það dugi ekki ein kynslóð til þess að miðla upplýsingum og gildum til hinna ungu. Okkur sem erum komin í afa- og ömmuhlutverkið þykir þetta ekki slæm kenning.

En hvað er menning? Hvað er svona margþætt og flókið við að vera manneskja. Það er ekki svo flókið að rækta korn og kartöflur, veiða fisk og fugl. Það er ekki endilega heldur svo flókið að koma brúklegu þaki yfir höfuð og vinna spjarir utan á kroppinn. Hið flókna í mannlífinu er það að geta gert þetta allt í sátt. Að mega vinna fyrir sér í friði, halda heimili þar sem eining ríkir og geta deilt gæðum í góðum viðskiptum við menn og náttúru. Það er flókið ferli.

II
Í dag horfum við á Jesú ríða á asnanum í átt að múrum Jerúsalemborgar. Jesús á asnanum á aðra hönd, vígmúr hersetinnar borgar á hina. Hér kemur konungurinn ríðandi fola undan áburðargrip umkringdur syngjandi fylgjendum sínum vopnuðum pálmagreinum. Álengdar sitja hermenn Rómarveldis á stríðfákum eða standa þöglir með spjót í höndum. Hér mætist hið syngjandi og hið þögla vald hinn fagnandi siður og siður stálsins.

Hefur þú gengið í sigurvímu út úr bíói eftir að hetjan sem barist hafði við ofurefli hræðilegs óvinar var búinn að sigra og allt það besta sem þú vonaðir hafði ræst? Hvað er það sem hetjan þarf alltaf að leggja í sölurnar? Hún hættir lífi sínu undantekningarlaust, líður alltaf miklar þjáningar en sparar sig þó hvergi, neyðist auk þess til þess að standa utan við lög og reglur og vinna grimmilega á andstæðingnum sem að lokum fellur. Iðulega sameinast einhverskonar fjölskylda í lokin, jafnvel er þar barn í spilinu og það besta er ef bangsinn þess finnst og barnið sameinast með bangsanum í faðmlagi karlhetjunnar og konunnar sem hann elskar áður en stafirnir renna af stað niður tjalið. Þá er staðið á fætur, poppkornið dustað af skálmunum og haldið af stað út í Reykvíska nóttina ögn sannfærðari en áður í þeirri trú að réttlætið muni alltaf að lokum sigra. Svona er trúboð stálsins. Það hefur ótvírætt skemmtanagildi, það höfðar til djúpra tilfinninga og hvata og á sér stað án þess að við séum meðvituð um að við erum þátttakendur í stærsta trúfélagi veraldar, trúfélagi stálsins.

Hetjan á asnanum er annars konar og skemmtunin er ekki meiri en svo að ábyrgir menn koma og biðja Jesú að segja fólkinu að hætta þessu og þegja. „Ég segi ykkur, ef þeir þegja munu steinarnir hrópa.“ ansar hann og brandarinn er ekki í hálfkvist við orðhnyttni Clint Eastwood. (Lúk. 19.40)

Siður stálsins er sá að stríð tryggir frið og öryggi fæst með yfirburðum. Í veröld hins þögla valds er reglan fundin með óreiðunni. Hetjan neyðist til ofbeldisverka sem leiða af sér sigur og gleði.

Hinn fagnandi siður er annar. Hetjan á asnanum, hetjan á krossinum og í jötunni nálgast verkefni lífsbaráttunnar út frá annari tilgátu. Vinnutilgáta frelsarans Jesú í glímunni við veruleikann er sú að reglan búi í eðli hlutanna. Þess vegna þarf hann ekki að hefja sig upp yfir mannlífið á nokkurn hátt og neyðist ekki til að standa utan við lög og rétt með ofbeldi, öllu heldur samsamar hann sig fólki með mjög róttækum hætti, velur sér engin sportleg farartæki en lætur asnann duga og segir bara: „Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini.” (Jóh. 15.15) Kristinn siður áætlar að lífið sé í sjálfu sér gott og að yfirráð og ofbeldi sé ómerkileg aðferð.

III
Sá sem trúir því að reglan búi í eðli hlutanna getur ekki á sama tíma treyst því sem trúboðar stálsins meina, að óreiða fæði af sér reglu. Merkir fræðimenn hafa bent á að trúin á óreiðuna og ofbeldið sem forsendu reglu og friðar eigi sér eldri sögu en trúin á hina góðu sköpun. Tólfhundruð og fimmtíu árum fyrir komu Krists stóð menning í miklum blóma í hinni fornu Mesópótamíu og til eru heimildir um guðinn Mardúk sem var guð borgarinnar Babýlóníu og hafði unnið sér það helst til frægðar að sigra formóður sína gyðjuna Tíamat gegn þeim skilmálum að hann fengi yfirráð yfir öllum öðrum guðum. Tíamat var í raun ægilegt sæskrímsli og er Mardúk hafði banað henni með miklum og hroðalegum tilþrifum þá strekkti hann út á henni skrápinn, teygði hann á alla enda og kanta, og skapaði heiminn úr líki kvenskrímslisins. Þannig varð veröldin til úr húð hinnar gjörsigruðu drekagyðju. Þessi goðsögn hefur verið nefnd Babýlónska goðsögnin og sagnfræðingar, heimspekingar og guðfræðingar hafa rakið stef þessarar sögu í þekktum helgisögnum frá mörgum löndum sem allar eiga það sameiginlegt að karlguð frá himni berst við kvenskrímsli úr sjó og er hann hefur unnið á henni með fræknum fantabrögðum er hræið notað til þess að skapa úr því heiminn. Þannig er tjáð sú trú að veröldin og öll hennar gæði eigi uppruna sinn í einum hrikalegum ofbeldissigri. Hið illa kemur þá á undan hinu góða og hið góða á hið illa að forsendu sinni.

Fræðimenn hafa keppst við að benda á þá staðreynd að Babýlónska goðsögnin lifir góðu lífi í veröldinni og á sér margfalt fleiri fylgjendur en kristnin nokkurn tíman. Þegar við göngum í gleðivímu út úr bíóhúsinu þá er það þessi trú og hin áhrifaríka skemmtilega boðun hennar sem hefur hrifið okkur. Goðsögnin var endurtekin, sagan af ofbeldishetjunni var flutt þannig að hún hrærði við helgum tilfinningum okkar og við glöddumst í okkar mannlegu sál og eignuðumst enn og aftur sameiginlega trúarreynslu með hinum þögla fjölda. Börnin okkar eru skilvíslega vígð inn í samfélag trúarinnar á Mardúk frá blautu barnsbeini í gegnum teiknimyndasögurnar sem flest allar flytja þessa sömu goðsögn í lítt breyttri mynd og kenna þeim að trúa því sem skrifað stendur að fyrst kemur vel heppnað ofbeldi og svo kemur hið góða líf.

Helgisögn Biblíunnar gengur þvert á helgisögn Babýlóníu. Þar er fyrst hið góða líf. Góður Guð skapar góðan heim með orðinu einu en illskan er lífinu óeðlileg og birtist sem furðulegt fyrirbæri, - talandi höggormur! „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. Jörðin var þá auð og tóm og myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: ‘verði ljós.’ Og það varð ljós. Guð sá að ljósið var gott...” (1. Mós. 1-4)


IV
Við menn erum stórhöfðarnir í sköpunarverkinu. Við fæðumst máttvana og varnarlaus með þetta mikla höfuð vegna þess að sáttin er flókið ferli.

Yfirburðir hins fagnandi siðar yfir sið stálsins eru fólgnir í vitneskjunni um eðli veraldarinnar. Hinn fagnandi siður, hið syngjandi vald lýtur barninu sem fæðist og horfir með því fram á veginn í von.

Frá fyrsta sunnudegi í aðventu bíðum við barnsins í jötunni sem spámaðurinn Jesaja lýsti svo: „Hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.” (Jesaja 2:4)

Við eigum lifandi nálægan Guð, upprisinn freslara, friðarhöfðingja. Þessi veröld lýtur ekki köldum lögmálum miskunnarlauss valds. Alheimurinn er öllu heldur persónulegur “því aðbarn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðheitja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.” (Jes. 9.5)

Amen.


Textar fyrsta sunnudags í aðventu eru:
Jes 62.10-12
Róm 13.11-14
Matt 21.1-9

laugardagur, 28. nóvember 2009

Stóra kossamálið

Bjarni skrifar:

Ég met starf Hvítasunnumanna mjög mikils. Ég sé það í prestsstarfi mínu að þar standa dyr opnar með öðrum hætti en annarsstaðar í samfélaginu og ef einhversstaðar er rými fyrir fjölbreytileika mannlífsins þá er það innan veggja Hvítasunnukirkjunnar.

Ég tel mig geta mótmælt mörgu sem Hvítasunnumenn segja. Sumt í guðfræði þeirra álít ég slæmt og sannanlega rangt, en ávextir starfsins ilma af guðsþekkingu. Sem kristinn maður tek ég mark á því. "Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá" sagði Jesús og það er þess vegna sem ég elska Hvítasunnukirkjuna og fullyrði að þjóð okkar þarf á henni að halda. Það breytir ekki því að Hvítasunnumenn verða að svara fyrir sína guðfræði og sinn mannskilning, og þeim er það ekki vorkunn frekar en mér sjálfum. Þess vegna þykir mér "Stóra kossamálið" einkar athyglisvert og í rauninni alveg ferlega fyndið. Það er sannarlega fyndin uppákoma að hópur fólks ætli að koma á jólatónleika í kirkju til þess að kyssast opinberlega en það verður ekkert fyndið við atburðinn ef hann verður að neikvæðri reynslu.

Hér er áskorun fyrir Hvítasunnumenn að endurskoða afstöðu sína til líkamans og hins kynferðislega. Áskorun um að skipta um skoðun á málefnum samkynhneigðra vegna þess einfaldlega að þeir sitja uppi í stöðnuðu hugmyndakerfi á þessu sviði sem ekki kemur kristinni trú hið minnsta við, og líka vegna þess að þeir bera augljósa félagslega ábyrgð og það sem sagt er af prédikunarstóli Hvítasunnukirkjunnar er ekki einkamál. Það er m.ö.o. skylda Hvítasunnumanna eins og allra annarra kirkna að vinna sífellt að því að þróa með sér heilbrigða kynlífssiðfræði í anda Jesú Krists.

Bestu viðbrögð Varðar Levísonar og annarra leiðtoga Hvítasunnukirkjunnar væru þau að fagna kossum og faðmlögum og hvetja öll pör til þess að kyssast og faðmast við upphaf jólatónleikanna og gera það að árlegri hefð að ætíð væri faðmast og kysst undir fyrsta lagi!

Guð blessi Hvítasunnumenn og efli þeirra góða starf.

sunnudagur, 15. nóvember 2009

Hin vanheilaga þrenning meðvirkninnar

Prédikun dagsins:

I

Við erum að lifa einstaka tíma í landi okkar. Nú þegar er farið að votta fyrir því. Finnum við ekki innra með okkur að eitthvað er orðið betra? Það er eitthvað sem orðið er sannara og heilla líkt og gerist þegar búið er að tala sannleikann og ekki þarf lengur að látast. Einhverju var logið, óheilindi höfðu myrkvað augu okkar en nú er sú þoka að greiðast í sundur. Það mun taka tíma að greina blekkinguna og vinna úr skaðanum en núna vitum við það sem máli skiptir; við ætlum að hafa heiðarleikann að leiðarljósi. Þjóðfundur gærdagsins hóf heiðarleikann til vegs. Markmiðin birtust mörg og leiðirnar að þeim eru ekki færri, en yfir því öllu er staðfest yfirskrift marktæks úrtaks viti borinna og velviljaðra Íslendinga: HEIÐARLEIKI. Þetta hefði ekki orðið niðurstaða úr kappræðum hagsmunahópa, hér er komin haldbær niðurstaða úr samtali alþýðu manna.

„Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.” segir Jesús í Guðpjalli dagsins. (Matt. 15.25-30) Þannig er það alltaf með sannleikann. Spekingar og hyggindamenn allra alda horfa framhjá honum vegna þess að þeir leita sinnar eigin sérstöðu en þegar sannleikurinn birtist þá er hann almenningseign. Það er það sem gerir sannleikann svo óáhugaverðan í augum þeirra sem telja sig þekkja hann best. Sannleikurinn skapar enga sérstöðu, hann er allra.

Eitt versta samfélagsböl okkar er það þegar heiðarleikinn er horfinn, þegar traustið á milli okkar gufar upp og enginn er með neinum og hver á með sjálfan sig einan að gera. Við sem störfum með börnum vitum að þeim líður heldur betur núna í miðju efnahagshruninu heldur en þeim leið í hinum meinta uppgangi. Það er af því að þau eru heilbrigð og hafa beinni aðgang að sannleikanum. Við vorum í óðaönn að byggja heim hins einangraða manns. Stærstu og sterkustu stofnanir samfélags okkar hömuðust við að byggja múra utan um einstaklinga. Séreign var herhvöt tímans, einkahagsmunir voru dagskipunin og einstaklingshyggjan yfirskyggði allt, en nú erum við aftur hægt og bítandi að endurheimta náungann og vonina um að eiga samleið með hvert öðru. Það er þess vegna sem okkur líður skár í dag þótt við eigum erfitt með að skilja það og jafnvel að viðurkenna það. Ég trúi því að þjóðfundurinn í Laugardalshöllinni í gær marki vatnaskil. Hið góða samtal er máttugt vopn í glímunni við einsemdina sem vantraustið veldur.

II
Það er mikil mótsögn að segja það en þó er það satt að algengustu meðölin sem við notum gegn einsemd eru ekki bara virðing og opið samtal heldur finnum við okkur öll knúin til þess að beita jafnframt ásökun og sektarkennd. Tölum aðeins um ásökun og sektarkennd.

Þegar Jesús segir í guðspjalli dagsins „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld” þá er hann ekki síst að tala um erfiðið og þungann sem við berum af allri þeirri ásökun og sektarkennd sem við burðumst með í gegnum lífið. Næst á eftir einsemdinni í lífinu er þyngst að bera ásökunina og sektarkenndina og þetta þrennt; einsemdin, ásökunin og sektarkenndin, kemur jafnvel á undan fjárhags- og heilsufarsáhyggjum. Og hér er komin ástæðan fyrir því sem nefnt er meðvirknisþríhyrningurinn. Það ætti að halda námskeið í öllum skólum og á öllum vinnustöðum þar sem hin einfalda uppgötvun á meðvirknisþríhyrningnum væri kynnt.

Þú ert þátttakandi í meðvirknisþríhyrningi. Allt fólk er það með einum eða öðrum hætti. Innihald hans og einkenni er ásökun og sektarkennd og honum er viðhaldið af óttanum við einsemdina því sá sem ætlar út úr þríhyrningnum getur það ekki nema einn og yfirgefinn.
Í daglegu lífi leikum við margvísleg hlutverk. Sum þeirra eru okkur meðvituð önnur ekki. Það er alltaf til fólk í umhverfi okkar sem ekki axlar ábyrgð eða valtar yfir aðra með einhverjum hætti. Og sumt af þessu fólki elskum við og viljum fyrir alla muni hafa nálægt okkur en það er bara hægara sagt en gert vegna þess að þau ofsækja umhverfi sitt með eigin stjórnleysi meðvitað eða ómeðvitað. Hvað er þá til ráða? Hefðbundið svar við þessum vanda er ásökun. Annað hvort ákveðum við að koma ásökun okkar til skila með því að reiðast eða gerast særð og aumkunarverð í von um að hinn stjórnlausi komi til sjálfs sín og verði almennilegur. Oft virkar þetta ágætlega, þannig að þessi sem alltaf er svo stjórnlaus skammast sín eða hann óttast höfnun svo að hann vandar sig betur um skeið. Þannig má segja að ásökunin sé skjótvirkt meðal og sektarkenndin sé sterkt afl sem geti varðveitt ástvinatengsl svo að þau hverfi ekki. Eða hvað?
Þegar stjórnleysið er magnað eins og búast má við að gerist í mannlegu félagi þá dugir iðulega ekki ráðlagður dagskammtur af ásökun og sektarkennd svo að næst þegar það kemur upp verður sársaukinn og vonbrigðin meiri. Þá vaknar þriðji aðlinn í sambandinu, þriðja persónan í meðvirknisþríhyrningnum; Bjargvætturinn kemur skeiðandi út á völlinn til þess að skakka leikinn. Einhver góð manneskja sem vill fyrir alla muni að allir séu vinir hefur tekið hlutverk bjargvættarins og gerir eittvað til þess að draga úr áhrifum ofsækjandans svo að fórnarlambið verði ekki of reitt eða of aumt. Við þetta líður öllum betur og allir finna þótt þeir geti ekki sett fingurinn á það, að víst virkar ásökun og sektarkennd ef hún er bara borin uppi af nægri angist sem allir vilja halda í skefjum vegna þess að við erum svo gott fólk, svo artarlegar og almennilegar manneskjur sem ekki viljum yfirgefa hver aðra.
Svona er meðvirknisþríhyrningurinn og um hann má og þarf að halda miklu lengri ræðu því að hann virkar á svo margvíslegan hátt. Munum bara að persónur þessa þríhyrings eru ofsækjandinn sem er voða vondur, fórnarlambið reiða eða aumkunarverða og bjargvætturinn sem er svo góður, og þú og ég kunnum að leika allar þessar persónur. Sannleikurinn um meðvirknisþríhyrninginn er hins vegar sá að þar er enginn einn vondur og þar er enginn bara góður en allir þátttakendur deila sameiginlegri angist sem veldur ásökun og sektarkennd og langvarandi vansæld.

III
Í guðspjalli dagsins talar Jesús við föðurinn á himnum og taktu eftir þeim upplýsingum sem hér eru gefnar milli línanna um samband föður og sonar: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.”
Hér má skilja að sá sem lærir að þekkja föðurinn gerir það í gegnum soninn. M.ö.o. að þekkja Guð er að ganga inn í samfélag föður og sonar og í því samfélagi er ekki meðvirkni. Milli Jesú og föðurins ríkir ekki ásökun og sektarkennd heldur gagnkvæm þekking og viðurkenning og mörkin á milli þeirra eru líka skýr.

Í hinni fornu Aþanasíusarjátningu er fjallað um leyndardóm þrenningarinnar og þar segir m.a.:
„En þetta er almenn trú, að vér heiðrum einn Guð í þrenningu og þrenninguna í einingu...”
- m.ö.o. það er almenn trú að í Guði er eining í fjölbreytileikanum.

Og áfram segir hin forna játning:
„...og vér hvorki ruglum saman persónunum né greinum sundur veruna.
Því að ein er persóna föðurins, önnur sonarins, önnur heilags anda.
En guðdómur föður, sonar og heilags anda er einn, jöfn er dýrð þeirra og hátignin jafneilíf.”
- m.ö.o. það er almenn trú að í Guði eru persónumörk allra varðveitt og virt og þar ríkir jöfnuður með persónum.

Sérðu þvílíkt haf er á milli meðvirknisþríhyrningsins og innar heilögu þrenningar? Áttar þú þig á því hverskonar lýðheilsu-hagsmunir eru hér á ferð?

Í hinni vanheilögu þrenningu meðvirkninnar greina menn ekki á milli sjálfs sín og annarra heldur reynir hver að hafa áhrif á gjörðir hinna en stjórnar ekki sjálfum sér. Í samfélagi heilagrar þrenningar eru persónumörkin aftur varðveitt skýr og klár og þar ríkir sjálfsstjórn og gagnkvæmt samþykki.

Í hinni vanheilögu þrenningu meðvirkninnar er samheldnin varðveitt undir þrýstingi ásökunar og sektarkenndar í stöðugum ótta við einsemdina en í heilagri þrenningu er eining í fjölbreytileikanum og hún varðveitist vegna þess að persónur þrenningarinnar velja að elska.

Hin góða frétt kristinnar trúar er sú að okkur dauðlegum mönnum er boðin hlutdeild í guðlegu eðli. Við megum þiggja það sem Jesús talar um við föðurinn er hann segir í bæninni sem nefnd hefur verið æðstaprestsbænin: "Ég bið [...] að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig.” (Jóh. 17.20-21)

Okkur býðst að tileinka okkur það samskiptamunstur sem heilög þrenning lýsir. Við þurfum ekki að styðjast við ásökun og sektarkennd sem viðheldur vansæld heldur megum við sem einstaklingar og sem þjóð ganga inn í hvíldina í Jesú Kristi, kveðja meðvirknina og iðka hið nýja samtal þar sem fjölbreytileikanum er fagnað í einingu.

Guð blessi Ísland.

Amen.

laugardagur, 14. nóvember 2009

Endurnýjuð von á þjóðfundi

Bjarni skrifar:

Ég naut þeirrar heppni að vera boðaður á þjóðfundinn í Höllinni. Maurarnir eiga heiður skilinn fyrir frammúrskarandi skipulag og frumkvæði. Hafi einhver efast um að þverskurður þjóðfélagsins yrði til staðar á fundinum var það afsannað í verki því þarna sat fólk víðsvegar að af landinu á öllum aldri með gjörólíkan bakgrunn og ræddist við þvert á alla hagsmunamúra. Í ljós kom að þjóðin á sannarlega einn sameiginlegan sið. Hún getur talað saman í fjölbreytileika sínum þannig að eining og samstaða ríki.
Þarna var ekki kappræða heldur samtal, ekki hagsmunaátök heldur hagsmunavirðing.

Íslensk þjóð! Höldum nú áfram að tala saman. Leyfum breytingunni að eiga sér stað. Yfirgefum hugarfar yfirráðanna og leiðum hugarfar hins frjálsa manns til vegs. Þjóðfundurinn kaus hugtakið HEIÐARLEIKA sem æðsta markmið í framtíð þjóðarinnar. Tökum mark á því í orði og verki.

Nú ríður á að einstaklingar, félög og stofnanir vinni úr niðurstöðum þjóðfundarins hver á sínu sviði og í sínum aðstæðum. Látum nú ekki úrtöluraddir þagga niðurstöður þessa sögulega fundar.

mánudagur, 2. nóvember 2009

Efling samskipta

Jóna Skrifar:


Nýtt fjögurra kvölda námskeið hefst í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ þriðjudaginn 3. nóvember kl. 20-22. Það er mikilvægt fyrir hverja manneskju að skoða og bæta samskipti sín við sjálfa sig og aðra. Námskeiðið efling samskipta er góður stuðningur við það verkefni. Umsjón með námskeiðinu hefur sr. Gregory Aikins ásamt sr. Jónu Hrönn Bolladóttur og sr. Friðrik J. Hjartar.



Sr. Gregory Aikins er bandarískur en hefur starfað lengi á Íslandi og kennir á íslensku. Upplýsingar og skráning er á gardasokn.is eða í síma 565 6380 (Vídalínskirkja).

Þetta er fjögurra kvölda námskeið sem hefst þann 3.nóvember og síðan 10.nóvember, 17.nóvember og 24.nóvember


Hver sem staða þín er í lífinu þá eru samskipti við fólk hluti af þínu daglegu lífi. Í öllum mannlegum samskiptum koma upp vandamál.


Á námskeiðinu er einstakt tækifæri til að taka þrjú mikilvæg skref í átt til betri samskipta:


1. DÝPRI SJÁLFSVITUND

Með því að nota vel þekkta persónuleikakönnun muntu uppgötva þann styrk og þá eiginleika sem þú býrð yfir.


2. AÐ SKILJA AÐRA

Þú munt læra að þekkja betur þína nánustu. Þú færð skýarari mynd af grundvallarskapgerðareinkennum og hvernig á að hvetja hverja manngerð fyrir sig til verka. Einnig muntu læra hvers vegna þínir nánustu bregðast við eins og þeir gera undir ákveðnum kringumstæðum.


3. AÐ EFLA PERSÓNULEG SAMBÖND

Loks muntu læra hvernig þú getur notað þann skilning sem þú öðlast á námskeiðinu til að temja þér meiri og betri aðlögunarhæfni í samskiptum við aðra.


Þátttakendur greiða aðeins kostnað af kennslugögnum sem er 2.500 krónur.


Allir velkomnir

sunnudagur, 1. nóvember 2009

Efling fjölsklydunnar - bæn og hugrekki

Bjarni skrifar:

Mig langar að vekja athygli á tveimur áhugaverðurm námskeiðum sem eru í boði inni í laugarneskirkju.

I
Þrjú næstu laugardagskvöld að loknum kvöldsöng í kirkjunni kl. 20:00 mun ég fjalla um bæn og hugrekki. Þar verður tekinn slagurinn við þær daglegu venjur sem trufla innra líf okkar og gera það að verkum að við náum hvorki sambandi við himinn né jörð heldur lifum tóman skarkala. Á fornu máli kirkjunnar heitir aðferðin bæn og fasta og er líka stundum nefnd iðrun og yfirbót þegar horft er á hana frá öðru sjónarhorni. Á námskeiðinu mun líka tala kona að nafni Besty Aikins sem er sérfræðingur í kennslu barna með námsraskanir og hefur hún margt gott til málanna að leggja.

II
Á miðvikudaginn kemur (4.11.) kl. 20:00 mun Besty og eiginmaður hennar sr. Gregory Aikins hefja fjögurra kvölda námskeið um eflingu fjölskyldunnar þar sem rætt verður um:

  • Samskiptavandamál hinna fullorðnu á heimilnu með lausnamiðuðum hætti,
  • fjallað um þrjár hagnýtar aðferðir til að sýna börnum ástúð um leið og þau hljóta heilbrigðan aga,
  • og loks er fjallað um hvernig við getum veitt börnum okkar andlagn og siðferðislegan grundvöll svo að þau verði farsælt fólk.

Námskeiðin fara fram í safnaðarheimili Laugarneskirkju og má nálgast nánari upplýsingar á heimasíðu safnaðarins, laugarneskirkja.is, eða senda mér línu á netfangið: srbjarni@ismennt.is

b. kv.

Bjarni Karlsson
820 8865