laugardagur, 30. ágúst 2008

Í minningu herra Sigurbjörns Einarssonar

Eftirfarandi prédikun verður flutt í Vídalínskirkju í Garðabæ og í Laugarneskirkju í Reykjavík sunnudaginn 31. ágúst kl. 11:00.

15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Textar: Jes. 49.13-16a, 1.Pét. 5.5c-11, Matt. 6. 24-34


Þessa daga drúpir þjóð og kirkja höfði í trega og þökk við fráfall herra Sigurbjörns Einarssonar biskups. Með íslenskri þjóð búa margar sameiginlegar minningar um persónu hins aldna kirkjuföður og við vitum og finnum að með honum er lagstur til hvíldar einn mesti fyrirbiðjandi þessarar þjóðar og vökumaður kristinnar kirkju.

Við hjónin eigum margar minningar um samneyti við herra Sigurbjörn og frú Magneu sem gætt hafa líf okkar og ein sú dýrmætasta er orðn 13 ára gömul frá þeim árum er við þjónuðum í Vestmannaeyjum og börnin okkar voru ung. Þá þáði söfnuður Landakirkju heimsókn þeirra hjóna. Herra Sigurbjörn prédikaði í kirkjunni og svo var boðið til almenns borgarafundar í Eyjum þar sem fólki gafst kostur á að hlýða á og spyrja biskupinn um það sem því lá á hjarta. Jafnframt fengum við að bjóða þeim Magneu og Sigurbirni til kvöldverðar á heimili okkar sem við undirbjuggum af kostgæfni og gættum þess m.a. að gera börnum okkar grein fyrir því sem okkur hafði sjálfum verið kennt í æsku að þar færu mestu heiðurshjón þessa lands og að herra Sigurbjörn væri gáfaðasti maður á Íslandi. Þau skyldu því haga sér vel í hvívetna og vera hljóð og stillt við kvöldverðarborðið. Er gestina bar að garði fundum við að áminningar okkar höfðu verið óþarfar því húsið fylltist af hátíð þegar frú Magnea gekk inn yfir þröskuldinn í peysufötunum og þau hófu heimsókn sína á því að ávarpa börnin og færa þeim gjafir.

Miðlungurinn okkar hún Matthildur var þá 7 ára og sat uppáfærð við matborðið og datt hvorki af henni né draup frekar en drengjunum tveimur. Þá tökum við skyndilega eftir því að dóttir okkar situr tárfellandi í sæti sínu og ljóst er að eitthvað stendur fast í hálsi hennar. Var þá staðið upp frá borði og slegið á bak barninu svo að hún losnaði úr klípunni, en tárin héldu áfram að streyma því hún taldi sig hafa raskað helgi stundarinnar. Þá beygði herra Sigurbjörn sig fram yfir borðið, horfði í augu hennar með þessari sérstöku birtu sem hann ætíð átti tiltæka og mælti: Matthildur mín, veistu að þú ert líka falleg þegar þú grætur?! Við þessi orð og þetta atlæti hvarf öll skömm sem dögg fyrir sólu og barnið brosti og hló í gegnum tárin.

Boðskapur öldungsins til barnsins á þessari stundu var sá sami og greina má þegar lesnar eru prédikanir Sigurbjörns, sú frétt sem hvert mannsbarn þráir að heyra, fagnaðarboðin sem gleðja innst og dýpst: Þú ert elskað barn. Á þér hvíla ástaraugu sem gleðjast yfir þér líka þegar þú grætur. Guð elskar þig jafnt í veikleika sem styrk.

Náðarboð, fagnaðarerindi.

“Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppsekra né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?
Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.”

Herra Sigurbjörn segir í einni prédikun sinni um þennan texta: “Hvað sérðu hjá liljunni á vellinum, hvað sérðu hjá fugli himinsins? Þú sérð lífið í starfandi, skapandi auðlegð. En þú sérð meira. Þú sérð föður lífsins. Blómið veit ekki af sér. Af hverju opnar það krónuna á móti sólargeislunum? Af hverju hlúir það fræi sínu, af hverju sendir það rótarangann dýpra og dýpra, uns það finnur næringu? Það er einhver, sem veit af því, einhver, sem hefur búið það þeim eðlisviðbrögðum, sem sjá lífi þess borgið, einhver, sem sér og heyrir og skynjar fyrir þess hönd. Eða lóan, sem kemur á vori og fer að hausti. Hvað veit hún um íslenskt veðurfar? Hvað kann hún um árstíðaskipti? Hvað veit hún í landafræði? Hún veit ekki neitt. En það er einhver, sem veit um hana, veit fyrir hennar hönd, vísar henni til vegar, hefur forsjón fyrir henni. Þú sérð m.ö.o. þegar þú gefur gaum að lilju og lóu, ekki aðeins undur lífsins, þú sérð umhyggusemi, sem er jafn nærfærin eins og hún er vísdómsrík. Faðir lífsins er faðir þinn. Það er hann og ekki þú, sem hefur forsjá fyrir þér og þínum, hans umhyggja og ekki þín, hans fyrirhyggja, viska og máttur. Það sem eðlisleiðslan er dýrinu og blóminu, það er vitið þér, því að þú færð að lifa vakandi, þú ert í Guðs mynd, þú hefur hugsun, þú berð ábyrgð. En undrið mikla í tilverunni er hvorki eðlisviðbrögð náttúrunnar né vitund þín, heldur hugurinn, sem í hvoru tveggja lifir, faðirinn, sem veit um þig og hverja lífveru.” (Sigurbjörn Einarsson, 2006, Meðan þín náð, bls. 148)

Þú berð ábyrgð.
Herra Sigurbjörn boðaði ekki náðina eina, fögnuðinn. Hann lagði óhikað fram kröfuna, lögmál Guðs. Þú berð ábyrgð sagði hann í samhengi þess guðspjalls sem flutt er í kirkjum landsins í dag, þú getur ekki bæði þjónað Guði og mammón. Sá Guð sem á og elskar þig og veröld alla krefur þig til þátttöku í verki sínu, umhyggju sinni. “Faðir lífsins er faðir þinn. Það er hann og ekki þú, sem hefur forsjá fyrir þér og þínum,” sagði hann “hans umhyggja og ekki þín, hans fyrirhyggja, viska og máttur.”

Þannig átti krafa lögmálsins grundvöll í veruleika náðarinnar í allri hugsun herra Sigurbjörns, hann treysti hinum elskandi föður alls lífs og boðaði kærleika hans sem skírast birtist í Kristi Jesú, lífi hans, verki og orði. Lögmálskrafan sem hann óhikað bar fram í predikun sinni var borin uppi af þrá eftir ríki Guðs og réttlæti, ekki réttlæti manna. Náttúrunni lýsti hann af lotningu og áhuga, geta mannsandans var honum hugstæð en undrið mikla í tilverunni, viðfang tilbeiðslu hans var hvorki maður né náttúrua “heldur hugurinn, sem í hvoru tveggja lifir, faðirinn, sem veit um þig og hverja lífveru.”

Þannig mætir lögmálskrafa Guðs þeim sem á hann trúa ekki sem umvöndun eða ávítur heldur sem þrá eftir samfélagi. Guð kallar menn til afturhvarfs. Í sömu prédikun farast biskupnum svo orð: “Þessi nýja stefna heitir afturhvarf, þetta nýja líf heitir trú, vitund um Guð, samfélag við Krist.”

Á borgarafundinum sem boðað var til í Vestmannaeyjum fyrir 13 árum og á var minnst hér að framan voru lagðar fram margar spurningar fyrir hinn vitra kennimann og hann svaraði þannig að allir skildu. Er talið barst að málefnum spíritismans fundu allir að andrúmsloftið magnaðist. Kona ein í salnum spurði hann hvort ekki væri Guðs gjöf að vera skyggn. Hann tók sér sér málhvíld og það varð algjör þögn í salnum uns hann svaraði alvarlegur í bragði: “Við eigum öll að vera skyggn!” Svo þagði hann, og við ungu prestarnir gutum augum hvort á annað í undrun. Svo endurtók hann orð sín og bætti um betur: “Við eigum öll að vera skyggn - á lifandi fólk.” Svo lýsti hann fordæmi Jesú hvernig hann sá og skildi skyggnum huga það sem bærðist í vitund samferðarmanna og bar vitni ásjónu hins alskyggna elskandi föður.
Engum fundarmanni duldist að herra Sigurbirni var mikið niðrifyrir en mál sitt lagði hann fram án þess að niðurlægja spyrjandann og án þess líka að svíkja áheyrendur sína um það sem var honum helgast og í sál hans brann, fagnaðarboðin um Jesú Krist sem kallar alla menn til afturhvarfs og ábyrgðar í sköpun sinni.

Guð blessi minningu herra Sigurbjörns og frú Magneu, helgi sorg ástvina og gefi þeirri kirkju sem þau unnu og þjónuðu með lífi sínu öllu náð til að bera kærleiksboð Guðs áfram til komandi kynslóða.

föstudagur, 29. ágúst 2008

Líkaminn er góður

Nú er rætt um nektarsýningar eina ferðina.
Tryggasta leiðin til að auka kynferðislegt ranglæti er sú að grafa umræðuna niður í harðlínur þar sem takast á þau sem vilja banna alla opinbera nekt og hin sem vilja yfir höfuð ekkert banna.

Í þessari umræðu eru viss aðalatriði sem ég held að sé gott að hafa í huga. Hér ætla ég að nefna tvennt.

Í fyrsta lagi er líkaminn góður.
Þessi staðhæfing er ekki sjálfsögð í okkar vestrænu menningu þar sem líkamsandúð er rótgróin og birtist ýmist í sjúklegri upphafningu á breyttum og "bættum" líkömum eða í algerri fyrilitningu á mannslíkamanum þar sem leikið líkamsofbeldi verður m.a. afþreying fjöldans. Eins birtir tungumál okkar þá staðreynd að við fjarlægjum okkur líkamanum. T.d. segjum við auðveldlega: Ég er hugur eða ég er andi. En við segjum ekki: Ég er líkami. Þessar staðreyndir eiga sér langa tilurðarsögu í menningu okkar. Þar kemur gríska heimspekin og kristin guðfræði mjög við sögu. Við berum öll ábyrgð á þeirri sögu og erum að skrifa hana núna. En líkaminn er góður! Ég fullyrði og tel mig geta rökstutt að það sé heilbrigð skynsemi og líka kristin trú að segja það.

Önnur fullyrðing mín er þessi: Jafningjasamskipti eru forsenda góðra kyntengsla.
Þessi staðhæfing er heldur ekki sjálfsögð. Hvers vegna leita gagnkynhneigðar konur að hávaxnari, tekjuhærri, frumkvæðismeiri og almennt valdameiri karlmönnum til kyntenglsa en karlar leita að lágvaxnari, tekjulægri, hæglátari og almennt valdaminni konum til kyntengsla? Hvað er það sem gerir valdamun kynjanna aðlaðandi í samvitund menningar okkar? Ástæður þessa er unnt að rekja. Þær liggja í líka í hugmyndasögu okkar og menningu öld fram af öld. Menning okkar hefur 'erótíserað' valdamun kynjanna og sú ákvörðun kostar ótal mannslíf á hverjum einasta degi. Drengirnir okkar upplifa sig karlmannlega þegar þeir ríkja í samskiptum, dætur okkar upplifa sig kvenlegar þegar þær víkja. Hér liggur rót stórkostlegs vanda sem gerir það að verkum að stærsti heilsufarsvandi kvenna í öllum þekktum samfélögum er ekki sjúkdómur af nokkurri sort eða slys heldur ofbeldi af hendi karlmanna í nánum tengslum.

Það er ekkert að því að fólk komi saman til þess að skoða líkama hvert annars. Líkaminn er góður. Nekt er góð. En það gildir um líkamleg samskipti líkt og öll samskipti að gæði þeirra ráðast ekki af forminu heldur inntakinu. Samfarir tveggja einstaklinga geta við einar aðstæður verið staðfesting á gagnkvæmum sáttmála um ást og umhyggu sem gera báða aðila ríka og sterka en við aðrar aðstæður getur nákvæmlega sama líkamlega athöfn rænt persónurnar mennsku sinni og reisn.

Gallinn við klámið er líkamsandúðin og valdsdýrkunin sem þar er tjáð. Gallinn við þá starfssemi sem Geiri Golfinger stendur fyrir er sú sama. Á ytra borði er ekkert að því að fólk komi saman til þess að skoða líkamann á öðru fullveðja fólki, en það breytir ekki þeirri staðreynd að við vitum að inni á nektardansstöðum er fólk svipt mennsku sinni og reisn. Andrúm starfsseminnar er hatur á líkamanum og beiting valds. Við vitum sem sagt að starfssemi nektarstaða er röng og ofbeldisfull en við búum í menningu sem öldum saman hefur tamið sér að horfa á form samskipta en ekki á inntak þeirra. Þess vegna ná lögin okkar ekki yfir inntak heldur bara form. Þessu þurfum við að breyta.

Líkaminn góður og jafningjasamskipti eru forsenda góðra kyntengsla.

Bjarni Karlsson

laugardagur, 23. ágúst 2008

Vera ógeðslega þakklátur fyrir að fá að spila hérna

Gott fólk

Hér er prédikun sem við hjónin vorum að semja og ætlum að flytja í kirkjum okkar á morgun. Jóna Hrönn messar í Vídalínskirkju kl. 11:00 í fyrramálið en Bjarni í Laugarneskirkju kl. 20:00 um kvöldið.

Við sendum handboltalandsliðinu baráttukveðjur.


Biblíutextar:
Davíðssálmur 146, Galatabréfið 5. 16-24 og Lúkasarguðspjall 17. 11-19

-------
“Það eru hlutir að birtast hér sem áður voru bara hugsanir og tilfinningar. Það sem fólk getur tekið með sér eða lært af er að ef maður hugsar bara jákvætt - við gerðum það. Allt svona - neikvæðni *bíb* sem því fylgir og allt, bara, ekki leyfa því að gróa. Bara að vera ógeðslega pósitívur, sérstaklega þegar maður hugsar um hvað maður er að fara í."
„Vera ógeðslega þakklátur fyrir að fá að spila hérna og fá að vera hérna. Geðveikir leikar. Gratitúd fyrir það, að vera hérna. Njóta þess að fá að taka einn svona púls í 60 mínútur. Þó þú deyir hérna á vellinum, þá deyrðu lifandi. Það voru allir í fílingnum, ekkert að hugsa um hvort við myndum vinna eða *bíb* skiluru. Og njóta þess að vera á þessum velli."
„Svo unnum við vinnuna okkar mjög vel. Guðmundur með sideline-ið sitt og analýserandi endalaust, frábært team þar á ferð."
„Við vorum að klifra þetta fjall og það voru tvær leiðir í dag. Önnur var *bíb* og hin var upp. Bara ógeðslega gaman og þetta átti bara að gerast einhvern vegin. Mér líður eins og Morfeusi. Mér líður ógeðslega vel í þessari keppni, alveg frábært."
Svona mælti handboltahetjan Ólafur Stefánsson eftir leik landsliðsins á móti Pólverjum, þar sem íslendingar fóru með sigur að hólmi. Hér uppi á klakanum klóraði landinn sér í hausnum og reyndi að melta orð íþróttahetjunnar og ýmsir sérfróðir menn í sálar- og boltafræðum voru drengir á flot til að þýða textann fyrir almenning. Samt held ég að allir hafi skilið það sem hann var að túlka, enda þótt í orðum hans megi sjá margar hugsanir fléttast saman í eina bendu þá er eitt sem stendur upp úr; það er þakklætið. “vera ógeðslega þakklátur fyrir að fá að spila hérna og fá að vera hérna” er e.t.v. kjarnasetningin í þessu öllu. Orð Ólafs lýsa þakklæti sem er borið uppi af sterkum vilja.

Í guðspjalli dagsins mætum við þessum sama vilja þessu sama “grattitjúti” svo notað sé orðaval Ólafs Stefánssonar. Kjarni guðspjallsins er þakklæti og þar sýnir Jesús mjög einbeitta afstöðu.
Hinir tíu líkþráu menn eru gamlir kunningjar okkar úr Biblíusögunum. Við munum hvernig þeir kölluð á Jesú og báðu hann að miskunna sér og við vitum að þeir voru úrhrak þess samfélags sem þeir lifðu í, voru brottrækir vegna ástands síns og útlægir úr mannlegu félagi. “Jesús, meistari, miskunna þú okkur!” hrópuðu þeir og það var angist í rödd þeirra, þetta voru raddir hinna þjáðu og týndu. “Jesús sá þá” skrifar guðspjallamaðurinn. Hann sá þá. Það var meira en samfélagið vildi gera. Fyrir gyðingum voru þessir menn ósýnilegir, raddlausir. En Jesús sá þá og talaði við þá.

Heyrðuð þið textann úr Davíðssálmum sem lesinn var hér áðan. Þar er lýst hugarfari og atferli Guðs í sálmi sem á dögum Jesú var orðinn þúsund ára gamall hið minnsta:

“Hann ...er ævinlega trúfastur.
Hann rekur réttar kúgaðra,
gefur hungruðum brauð.
Drottinn leysir bandingja,
Drottinn opnar augu blindra,
Drottinn reisir upp niðurbeygða,
Drottinn elskar réttláta,
Drottinn verndar útlendinga,
Hann annast ekkjur og munaðarlausa...”

Í sögu dagsins mæta tíu líkþráir menn þessu auganráði, hinum trúfasta huga Guðs þegar Jesús horfir á þá og segir: “Farið og sýnið ykkur prestunum!” Og allir skildu að hann var að tala um heilbirgðisvottorð. Við búum við annað heilbrigðiskerfi í dag, en sömu vottorð og sömu mannlegu þarfir. Þessir menn þurftu á heilsu að halda rétt eins og þú og ég. Það er sárt að missa heilsu sína. Þessir tíu menn voru útlagar vegna heilsuleysis og okkur þykir hart til þess að hugsa. En sannleikurinn er samt sá að hver sem missir heilsu sína í okkar íslenska þjóðfélagi verður líka ósýnilegur og valdalaus að einhverju leiti. Margir upplifa t.d. að um þá sé talað í þriðju persónu að þeim viðstöddum að ekki sé talað um fjárhag þeirra fjölskyldna þar sem veikindi herja. Að missa heilsuna merkir enn í dag það sama. Hinn heilsulausi verður gjarnan að einhverskonar útlaga áður en varir. Heilbrigðisvottorð er ekkert smámál í dag frekar en þá. Sá sem hefur heilsu hefur aðgöngumiða að tækifærum sem annars bjóðast ekki.

“Farið og sýnið ykkur prestunum.” Sækið ykkur vottorð! Sagði Jesús við þessa menn sem hræðilegur sjúkdómur hafði afskræmt og rænt allri reisn. “Þeir héldu af stað” segir sögumaður “og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.” Ekki missa af þessu! Á þeirri stundu er þeir hlýddu Jesú og snéru af stað í átt til mannlífsins þá voru þeir ennþá sjúkir. Þeir trúðu Jesú og lögðu í hann, þá bar svo við að þeir urðu hreinir.
Þvílík gjöf! Þeir fundu á sjálfum sér að sjúkdómurinn sem dæmt hafði þá frá lífinu og mannfélaginu hafði sleppt tökum sínum og var horfinn. Líkami þeirra var heill og heilsan var endurheimt. Við getum séð þá fyrir okkur í fögnuði og sigurvímu, ekki ósvipað sigurgleði ‘strákanna okkar’ á Ólympíuleikunum. En hér lýkur sögunni ekki, því aðal atriði hennar er enn ósagt.
“Einn þeirra snéri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: ‘Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?”

- “Vera ógeðslega þakklátur fyrir að fá að spila hérna og fá að vera hérna... Þó þú deyir hérna á vellinum, þá deyrðu lifandi.” voru orð sigurvegarans Ólafs Stefánssonar. -
Ólafur Stefánsson og þakkláti Samverjinn hugsa á sömu bylgjulengd. Þessi útlendingur vissi sem var að enda þótt hann fengi heilsu sína þá væri hann ekki að taka við lífinu nema hann væri þakklátur. Það hefur þurft sterkan vilja til þess að snúa við, fresta því að sækja vottorðið til þess eins að lýsa þakklæti sínu. Hér blasir við okkur sá sterki þakklætisvilji sem einkennir þau sem kunna að lifa.

Ég efast um að við þessir venjulegu trimmarar gerum okkur grein fyrir þeim líkamlegu og andlegu þjáningum sem íslenska handboltalandsliðið þarf að þola í hita leiks. Líf handboltahetjunnar er ekki ein samfelld lega á nuddbekknum með okkar elskulegu forsetafrú að hvetja menn til dáða, eins og sjá mátti svo ógleymanlega á forsíðu Morgunblaðsins um daginn. Sigurviljinn, þakklætisviljinn heyr baráttu í lífi íþróttamannsins sem fáir vildu þurfa að taka þátt í.

“Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?” Spurning Jesú var ekki borin upp með hneykslunartóni eða sem aðfinnsla heldur áttu orð hans rætur í hreinum áhyggjum af þessum níu einstaklingum sem þarna hlupu fagnandi af stað með nýfengna heilsu án þess að þiggja alla þá gjöf sem Jesús vildi færa þeim. Þakkláti Samverjinn þáði lífið, hinir níu þáðu bara heilsu sína. Margar góðar gjafir má þiggja með þægindum og hægð. Margt fólk þarf t.d. ekkert fyrir heilsu sinni að hafa. En gjöf lífsins verður ekki móttekin nema með sterkum þakklætisvilja sem trúir og treystir og vogar að taka skrefið í átt að lífinu þótt engar sannanir séu fyrir hendi um vænlegan árangur.

föstudagur, 22. ágúst 2008

Adrenalín gegn rasisma - unglingafélag

Mig langar að segja frá því að við erum nokkur úr Laugarneshverfi sem ætlum að skokka 10 km. í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar því frábæra unglingafélagi Adrenalíni gegn rasisma.  

Í Adrenalíni gegn rasisma koma unglingar í Laugalækjarskóla og nýbúadeild Austurbæjarskóla saman til þess að efla vináttu og draga úr fordómum milli ólíkra kynþátta.  

Það er Laugarneskirkja, Laugalækjarskóli og nýbúadeild Austurbæjarskóla sem standa að verkefninu og þátttakendur eru í 9. og 10. bekk.   Við stofnuðum félagið árið 2000 og á þessum tíma hafa hundruðir unglinga tekið þátt í starfinu með frábærum árangri.  Hápunktur hverrar annar er ferðalag þar sem þátttakendur glíma saman við íslenska náttúru svo að adrenalínið flæðir og gagnkvæm þekking og vinátta verður til.

Við hvetjum líka fólk til að heita á okkur því þessi starfssemi er algerlega rekin á frjálsum framlögum og er hreinræktað grasrótarstarf.

Bjarni Karlsson