laugardagur, 23. ágúst 2008

Vera ógeðslega þakklátur fyrir að fá að spila hérna

Gott fólk

Hér er prédikun sem við hjónin vorum að semja og ætlum að flytja í kirkjum okkar á morgun. Jóna Hrönn messar í Vídalínskirkju kl. 11:00 í fyrramálið en Bjarni í Laugarneskirkju kl. 20:00 um kvöldið.

Við sendum handboltalandsliðinu baráttukveðjur.


Biblíutextar:
Davíðssálmur 146, Galatabréfið 5. 16-24 og Lúkasarguðspjall 17. 11-19

-------
“Það eru hlutir að birtast hér sem áður voru bara hugsanir og tilfinningar. Það sem fólk getur tekið með sér eða lært af er að ef maður hugsar bara jákvætt - við gerðum það. Allt svona - neikvæðni *bíb* sem því fylgir og allt, bara, ekki leyfa því að gróa. Bara að vera ógeðslega pósitívur, sérstaklega þegar maður hugsar um hvað maður er að fara í."
„Vera ógeðslega þakklátur fyrir að fá að spila hérna og fá að vera hérna. Geðveikir leikar. Gratitúd fyrir það, að vera hérna. Njóta þess að fá að taka einn svona púls í 60 mínútur. Þó þú deyir hérna á vellinum, þá deyrðu lifandi. Það voru allir í fílingnum, ekkert að hugsa um hvort við myndum vinna eða *bíb* skiluru. Og njóta þess að vera á þessum velli."
„Svo unnum við vinnuna okkar mjög vel. Guðmundur með sideline-ið sitt og analýserandi endalaust, frábært team þar á ferð."
„Við vorum að klifra þetta fjall og það voru tvær leiðir í dag. Önnur var *bíb* og hin var upp. Bara ógeðslega gaman og þetta átti bara að gerast einhvern vegin. Mér líður eins og Morfeusi. Mér líður ógeðslega vel í þessari keppni, alveg frábært."
Svona mælti handboltahetjan Ólafur Stefánsson eftir leik landsliðsins á móti Pólverjum, þar sem íslendingar fóru með sigur að hólmi. Hér uppi á klakanum klóraði landinn sér í hausnum og reyndi að melta orð íþróttahetjunnar og ýmsir sérfróðir menn í sálar- og boltafræðum voru drengir á flot til að þýða textann fyrir almenning. Samt held ég að allir hafi skilið það sem hann var að túlka, enda þótt í orðum hans megi sjá margar hugsanir fléttast saman í eina bendu þá er eitt sem stendur upp úr; það er þakklætið. “vera ógeðslega þakklátur fyrir að fá að spila hérna og fá að vera hérna” er e.t.v. kjarnasetningin í þessu öllu. Orð Ólafs lýsa þakklæti sem er borið uppi af sterkum vilja.

Í guðspjalli dagsins mætum við þessum sama vilja þessu sama “grattitjúti” svo notað sé orðaval Ólafs Stefánssonar. Kjarni guðspjallsins er þakklæti og þar sýnir Jesús mjög einbeitta afstöðu.
Hinir tíu líkþráu menn eru gamlir kunningjar okkar úr Biblíusögunum. Við munum hvernig þeir kölluð á Jesú og báðu hann að miskunna sér og við vitum að þeir voru úrhrak þess samfélags sem þeir lifðu í, voru brottrækir vegna ástands síns og útlægir úr mannlegu félagi. “Jesús, meistari, miskunna þú okkur!” hrópuðu þeir og það var angist í rödd þeirra, þetta voru raddir hinna þjáðu og týndu. “Jesús sá þá” skrifar guðspjallamaðurinn. Hann sá þá. Það var meira en samfélagið vildi gera. Fyrir gyðingum voru þessir menn ósýnilegir, raddlausir. En Jesús sá þá og talaði við þá.

Heyrðuð þið textann úr Davíðssálmum sem lesinn var hér áðan. Þar er lýst hugarfari og atferli Guðs í sálmi sem á dögum Jesú var orðinn þúsund ára gamall hið minnsta:

“Hann ...er ævinlega trúfastur.
Hann rekur réttar kúgaðra,
gefur hungruðum brauð.
Drottinn leysir bandingja,
Drottinn opnar augu blindra,
Drottinn reisir upp niðurbeygða,
Drottinn elskar réttláta,
Drottinn verndar útlendinga,
Hann annast ekkjur og munaðarlausa...”

Í sögu dagsins mæta tíu líkþráir menn þessu auganráði, hinum trúfasta huga Guðs þegar Jesús horfir á þá og segir: “Farið og sýnið ykkur prestunum!” Og allir skildu að hann var að tala um heilbirgðisvottorð. Við búum við annað heilbrigðiskerfi í dag, en sömu vottorð og sömu mannlegu þarfir. Þessir menn þurftu á heilsu að halda rétt eins og þú og ég. Það er sárt að missa heilsu sína. Þessir tíu menn voru útlagar vegna heilsuleysis og okkur þykir hart til þess að hugsa. En sannleikurinn er samt sá að hver sem missir heilsu sína í okkar íslenska þjóðfélagi verður líka ósýnilegur og valdalaus að einhverju leiti. Margir upplifa t.d. að um þá sé talað í þriðju persónu að þeim viðstöddum að ekki sé talað um fjárhag þeirra fjölskyldna þar sem veikindi herja. Að missa heilsuna merkir enn í dag það sama. Hinn heilsulausi verður gjarnan að einhverskonar útlaga áður en varir. Heilbrigðisvottorð er ekkert smámál í dag frekar en þá. Sá sem hefur heilsu hefur aðgöngumiða að tækifærum sem annars bjóðast ekki.

“Farið og sýnið ykkur prestunum.” Sækið ykkur vottorð! Sagði Jesús við þessa menn sem hræðilegur sjúkdómur hafði afskræmt og rænt allri reisn. “Þeir héldu af stað” segir sögumaður “og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.” Ekki missa af þessu! Á þeirri stundu er þeir hlýddu Jesú og snéru af stað í átt til mannlífsins þá voru þeir ennþá sjúkir. Þeir trúðu Jesú og lögðu í hann, þá bar svo við að þeir urðu hreinir.
Þvílík gjöf! Þeir fundu á sjálfum sér að sjúkdómurinn sem dæmt hafði þá frá lífinu og mannfélaginu hafði sleppt tökum sínum og var horfinn. Líkami þeirra var heill og heilsan var endurheimt. Við getum séð þá fyrir okkur í fögnuði og sigurvímu, ekki ósvipað sigurgleði ‘strákanna okkar’ á Ólympíuleikunum. En hér lýkur sögunni ekki, því aðal atriði hennar er enn ósagt.
“Einn þeirra snéri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: ‘Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?”

- “Vera ógeðslega þakklátur fyrir að fá að spila hérna og fá að vera hérna... Þó þú deyir hérna á vellinum, þá deyrðu lifandi.” voru orð sigurvegarans Ólafs Stefánssonar. -
Ólafur Stefánsson og þakkláti Samverjinn hugsa á sömu bylgjulengd. Þessi útlendingur vissi sem var að enda þótt hann fengi heilsu sína þá væri hann ekki að taka við lífinu nema hann væri þakklátur. Það hefur þurft sterkan vilja til þess að snúa við, fresta því að sækja vottorðið til þess eins að lýsa þakklæti sínu. Hér blasir við okkur sá sterki þakklætisvilji sem einkennir þau sem kunna að lifa.

Ég efast um að við þessir venjulegu trimmarar gerum okkur grein fyrir þeim líkamlegu og andlegu þjáningum sem íslenska handboltalandsliðið þarf að þola í hita leiks. Líf handboltahetjunnar er ekki ein samfelld lega á nuddbekknum með okkar elskulegu forsetafrú að hvetja menn til dáða, eins og sjá mátti svo ógleymanlega á forsíðu Morgunblaðsins um daginn. Sigurviljinn, þakklætisviljinn heyr baráttu í lífi íþróttamannsins sem fáir vildu þurfa að taka þátt í.

“Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?” Spurning Jesú var ekki borin upp með hneykslunartóni eða sem aðfinnsla heldur áttu orð hans rætur í hreinum áhyggjum af þessum níu einstaklingum sem þarna hlupu fagnandi af stað með nýfengna heilsu án þess að þiggja alla þá gjöf sem Jesús vildi færa þeim. Þakkláti Samverjinn þáði lífið, hinir níu þáðu bara heilsu sína. Margar góðar gjafir má þiggja með þægindum og hægð. Margt fólk þarf t.d. ekkert fyrir heilsu sinni að hafa. En gjöf lífsins verður ekki móttekin nema með sterkum þakklætisvilja sem trúir og treystir og vogar að taka skrefið í átt að lífinu þótt engar sannanir séu fyrir hendi um vænlegan árangur.

Engin ummæli: