mánudagur, 23. febrúar 2009

Óborganleg fyndni gamallar konu

Þessa prédikun samdi Bjarni og flutti í Laugarneskirkju 22.2. 2009 kl. 11:00:


I
Ég var að taka úr uppþvottavélinni í vikunni. Var að raða í skúffur og skápa til að rýma fyrir öllu óhreina leirtauinu og hnífapörunum sem höfðu hrannast upp í vaskinum og þurftu að komast í vélina. Handlék mislúin eldhúsáhöld, diska, spaða og bolla. Sumt af því hefur fylgt okkur hjónum þessi rúmu 20 ár síðan við rugluðum reitum. Sumt er enn eldra úr búi foreldra og ættingja, annað eitthvað nýrra. Ég hugsaði: Hér hringsólar þessi sundurleiti samtíningur af búsáhöldum hring eftir hring úr uppþvottavél í hirslur sínar þar til gripið verður til þess við næstu eldamennsku yfir á borð og eldhúsbekki og svo afur í vaskinn og í vélina áður en það enn verður tekið og sett á sinn stað. Ég var í þann mund að verða leiður í huganum þegar í hönd mér kom lítill grænn bolli sem staðið hefur af sér tímana tvenna og þrenna, ættaður úr búi Ingibjargar móðurömmu minnar. Og sem ég handlék þennan hlut rann upp fyrir mér að mér þykir vænt um gripinn. Þetta er bollinn sem ég vel umfram aðra ef hann er við höndina, úr honum bragðst morgunkaffið best. Undarlegt að geta þótt vænt um hversdagslegt áhald sem unnið er úr leir jarðar hugsaði ég. Ég man ekki lengur hvernig hann rataði á okkar fjörur svona stakur, veit bara að hann hefur fylgt okkur í ótal búferlaflutningum og aldrei fengið neina sérmeðferð. Þó er þessi eini bolli áreiðanlega elsti gripurinn sem elhússkápar mínir geyma. Á meðan brúðargjafirnar okkar hafa hægt og rólega molnað og máðst og margur gripurinn hrokkið í sundur í núningi daganna þá hefur þessi eini fagurgræni kaffibolli haldið glansandi áferð sinni og lögun líkt og væri hann hafinn yfir ágang tímans og vatnsins. Og þegar ég drekk úr honum kaffið mitt fyllist ég trúnaði við lífið. Ingibjörg amma mín var gestrisin kona og hafði einstaka unun af að metta og gleðja fólkið sitt. Hún mundi spönsku veikina og harðindaveturinn 1918, hún hafði verið ung og nýgift kona í kreppunni miklu og mundi vel þá daga er landið var numið hervaldi og allar þær breytingar til góðs og ills sem þá urðu með Íslenskri þjóð. Amma Ingibjörg átti einlæga og staðfasta trú á frelsarann Jesúm og andvarpi sínu snéri hún til föðurins á himnum þau 96 ár sem henni entist líf. Frá bernskuárum í Flóanum kunni hún svo sem líka skil á huldufólki og ýmsu fleiru sem náttúru landsins viðkom en nennti ekki að viðra það upp við nútímann og skarkalann. Á hennar heimili voru sungnir sálmar og þar var tekið slátur og útvarpið í stofunni var stór póleraður kassi sem þurfti að hitna svolitla stund áður en útsending ríkisútvarpsins tók að óma. Við gerðum stundum grín að því við gömlu konuna hve nýtin hún var á alla hluti. Þegar hún loks fékkst til að leggja gömlu kaffikönnunni með léreftspokanum og taka upp pappírsfilter með sjálfvirkri könnu var hún ófáanleg til að henda pappírnum eftir fyrstu notkunn heldur notaði hún kaffikorginn til að þrífa vaskinn eins og hún var vön, skolaði svo filterinn, þurkaði hann í gluggakistunni og nýtti hann nokkrum sinnum. Fátt fékk líka meira á gömlu konuna en að horfa á gott sápuvatn fara til spillis um niðurfallið og gat hún vart á heilli sér tekið yfir slíkri sóun á verðmætum. Er við hjónin fluttumst til Vestmannaeyja með börnin ung og eitt ófætt gaf hún okkur að skilnaði pokaskjatta þar sem hún hafði safnað snærisbútum, teygjum af ýmsum sortum og allskyns plastpokum snyrtilega samanbrotnum sem gætu komið sér vel. Sjálfsagt hefur hann þá blandast inn í húshald okkar græni bollinn. Man það ekki. Ég veit bara að viska ömmu minnar var meiri en viska sérfræðinga nútímans. Trúnað sinn gaf hún góðum Guði og snéri bænum sínum til Jesú Krists, hún bar virðingu fyrir duldum öflum náttúrunnar og vissi jafnframt að dag einn kæmi sér vel að eiga snærisbút sem ekki hefði verið kastað á glæ.

II
Í útlöndum tíðkast sá háttur sumsstaðar að valdsmenn viðurkenni mistök eftirá. Í Bandaríkjunum heitir maður Paul Volcker og er fyrrum seðlabankastjóri þar. Í fyrrakvöld mun hann hafa látið þau orð falla á ráðstefnu í New York að þróun og hraði alþjóðlegu fjármálakreppunnar hefði komið sérfræðingum í opna skjöldu og haft á orði að fjármálakerfi heimsins yrði ekki reist að nýju með sama sniði í ljósi þeirra mistaka sem nú væru orðin. Já, spekingar heimsins klóra sér í höfðinu er þeir sjá hugsmíðar sínar falla með miklum hvin og þungbærum afleiðingum. Orð pistilsins sem lesinn var frá altarinu áðan hljóma með nýjum hætti í eyrum okkar er Páll skrifar í fyrra bréfi sínu til Korintumanna: „Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera. Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?”

Ingibjörg amma var ekkert bláeyg á lífið. Hún var stálgreind og vakandi manneskja og vissi vel að mig vantaði hvorki snæri né teygjur og að samanbrotnir gamlir plastpokar væru ekki það sem okkur vanhagaði um. Pokinn góði var dæmisaga, kennslugagn, tákn. Innihald hans var skilaboð um virðingu fyrir verðmætum, hljóð hvatning til þjálfunar í lífsleikni og áminning um að ofmetnast aldrei hversu vel sem gengi og örvænta ekki hve illa sem horfði. - Hvar er vitringur? spurði pokinn. Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?

Við notuðum þennan poka aldrei, nýttum ekkert af innhaldi hans, en geymdum hann all lengi í kústaskápnum og tókum hann stöku sinnum fram til þess að sýna hann kunnugum svo þau gætu skemmt sér með okkur yfir nýtni gömlu konunnar sem í okkar huga var bara fyndið atriði, einskonar krydd í tilveruna. „Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.”

Hún er undarleg þessi sterka og ríka tilhneiging sem maður hefur til að vera heimskur. Þörfin sem grípur mann til að hlægja að viskunni þar sem hún birtist en lúta fáfengileikanum. Hvaðan kemur þessi þörf? Ég veit það ekki. En manstu hvað nýtni og aðhaldssemi var púkó fyrir stuttu síðan og hvað það var aðdáunarvert að kunna þá list að gíra upp peninga? Núna lifum við þá óvæntu tíma að viska heimsins er afhjúpuð stutta stund á meðan hún safnar vopnum sínum. Stutta stund stendur hún afhjúpuð áður en hún hjúpar sig valdinu á ný. Þannig er það og þannig verður það. Undir þeim hjúpi var sjálfsögð dyggð að safna peningum til þess að safna peningum til þess að safna peningum. Vald heimsins þekkist á því að það safnar sjálfu sér. Vald kærleikans dreifir sér hins vegar. Þannig má þekkja og gera greinarmun á valdi heimsins og valdi Guðs að valdið sem safnar sjálfu sér er frá veröldinni en valdið sem þjónar og eflir þor er frá Guði.

III
Við höfum lengi hlegið að valdi þjónustunnar og trúað því blákalt að sérgæskan væri æðst dyggða. Við höfum byggt efnahagslíkön okkar á þeirri vissu að hver sé sjálfum sér næstur og hyggilegast sé að hver fari sínu fram án of mikillar umhugsunar því innbyggð lögmál markaðarins muni sjálfkrafa jafna kjör manna og náttúru. Þetta höfum við kallað markaðshyggju og staðið stolt og keik, og tíðarandinn hefur hlegið að þeim síðhippum sem reynt hafa að malda í móinn og bölsótast út í biskupinn þegar hann hefur leyft sér að tala um sóun og græðgi.

Skyldi það vera tilviljun að menn áttu bágt með sig að hlæja ekki á Golgatahæð föstudaginn langa? Þessi stemmning sem myndast hvar sem viskan og gæskan birtist í veröldinni, á henni er eiginlega bara sjálfvirkur sleppibúnaður. Guðspjöllin greina svo sem frá því að sumir hafi látið brandara gossa. “Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað!” Þetta þótti góð lína. En maðurinn sem átti staðinn var sá sem hugkvæmdist að heilsa Jesú sem konungi. - „Heill sé þér Gyðingakonungur!” Sá var fyndnastur allra.

Sérðu dýptina í frásögnum guðspjallamannanna af þjáningu Jesú? Háðunginni er haldið til haga í fáorðum lýsingum þeirra. Þessi óborganlega fyndni sem umlykur vald þjónustunnar er varðveitt. Hvað er fyndnara en grátandi Guð? Krossfestur, vanmáttugur, yfirbugaður Guð! Er eitthvað heimskulegra en slíkur Guð? Því er það af hreinu raunsæi á veröldina er Páll skrifar: „...orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera. Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs? Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa.” (1Kor 1.18-25)


Amen.

Textar þessa sunnudags eru: Jes 50.4–11, 1Kor 1.18-25, Lúk 18.31-34

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Konudagurinn í heiðri hafður

Konudagurinn er 22.febrúar af því tilefni verður mikil hátíð í Garðasókn. Messað verður í Vídalínskirkju kl.11. Þar mun dr. Arnfríður Guðmundsdóttir fyrsti kvenprófessorinn við guðfræðideild HÍ predika. Sr.Jóna Hrönn Bolladóttir þjónar fyrir altari ásamt djáknunum Nönnu Guðrúnu Zöega, Jóhönnu Guðrúnu Ólafsdóttur og Jóhönnu Kristínu Guðmundsdóttur.
Kvennakór Garðabæjar syngur undir stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur, jafnframt syngja stúlkur úr gospelkór Jóns Vídalíns undir stjórn Maríu Magnúsdóttur. Að lokinni messu munu lionsklúbbar Garðabæjar reiða fram súpu og brauð. Í messukaffinu mun Ingibjörg Guðjónsdóttir syngja. Þá verður list- og handverksmarkaður í safnaðarheimilinu, hluti af ágóðanum fer í styrktarsjóð Garðasóknar til að mæta fólki í erfileikum. Konur og karlar eru hvött til að mæta í Vídalínskirkju á konudaginn og taka þátt í efla félagsauð í samfélaginu sem er mikilvægt á öllum tímum.

Kl.20 verður kvöldvaka í Vídalínskirkju. Sr.Jóna Hrönn Bolladóttir predikar og gospelkór Jóns Vídalínskirkju syngur undir stjórn Maríu Magnúsdóttir. Jóhann Þorsteinsson og Þorgrímur Þorsteinsson flytja tvö lög en þeir luku Garðaskóla í Garðabæ fyrir tæpu ári síðan.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Til hvers er að lifa?

I
Á merku málþingi sem haldið var í Norræna húsinu í gær og fjallaði um vonina lýsti einn þjóðþekktur hagfræðingur því að á tímabilum í lífi sínu hefði hann iðulega lagt höfuðið á koddann að kveldi og óskað þess innilega að þurfa aldrei að vakna framar. Og morgunn eftir morgunn spurði hann Guð: “Hvers vegna fékk ég ekki að deyja í nótt?”

Í guðspjalli dagsins í dag er hin undirliggjandi spurning einmitt sú, til hvers er að lifa? Já, til hvers lifi ég?
Sagan um Talenturnar (Matt. 25.14) er sögð tveimur dögum fyrir dauða Jesú. Og það kemur fram að hann vissi hvað tímanum leið í þeim efnum. Þeir sátu úti á Olíufjallinu, Jesús og lærisveinarnir, þessa stund sem raunar var síðasta kennslustundin sem Jesús hélt hér á jörð. Og þá sagði hann þeim þrjár sögur. Þeir hafa setið og horft yfir musterishæðina þar sem helgidómurinn glóði í sólinni, sem tákn um dýrð Guðs og getu mannanna. Nýafstaðin var gríðarleg orðasenna þar sem Jesús hafði einmitt staðið á musterissvæðinu og hreinlega kaffært farísea, fræðimenn, presta og öldunga lýðsins í orðum. Hann hafði atyrt þá opinberlega, líkt þeim við latan son, vonda vínyrkja og dónalega brúkaupsgesti í þremur dæmisögum. Hann hafði auk þess haldið langan reiðilestur yfir þeim þar sem viðlagið var þetta: “Vei yður, fræðimenn og farisear, hræsnarar!” Og þegar þeir spurðu hann í örvæntingu: “Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?” Þá hafði hann bara hafnað því að svara þeim. Og svo segir Mattheus svo frá, að er þeir gengu út fyrir þá vildu lærisveinarnir vekja athygli Meistarans á hinum fögru byggingum musterisins en Jesús mælti: “Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini er eigi sé niður brotinn.” Og svo gekk hann á braut niður í dalinn fram hjá Getsemanegarðinum og upp á Olíufjallið. Og þá var það sem hann sagði þeim þessa sögu um talenturnar, ásamt teimur öðrum sögum. Og sú staðreynd gefur orðum hans aukinn þunga, að hann vissi að tíminn var naumur. Hér var runnin upp síðasta kennslustundin þar sem lærisveinarnir sátu við fætur meistara síns og hlýddu á hann.

II
Sögurnar, eða myndirnar sem hann birti þeim við þetta tækifæri, voru sem sagt þrjár:
Fyrst sagði hann þeim söguna um meyjarnar tíu sem biðu eftir brúðgumanum. Fimm voru hyggnar en fimm fávísar. Hinar hyggnu höfðu olíu á lömpum sínum en hinar ekki. Er brúðguminn loks kom gengu þær sem viðbúnar voru með logandi lampana til móts við brúðgumann og inn til veisluhaldanna, en hinar misstu af öllu. Og Jesús lýkur sögu sinni með þessum orðum: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.” (Matt. 25.13)
Þá sagði hann söguna um talenturnar og þjónana þrjá, sem lesin var hér áðan, þar sem tveir tóku við sínum talentum og höndluðu með þær af öryggi en einn lét óttann stjórna gjörðum sínum og uppskar höfnun.
Loks ræddi hann um dóm hins efsta dags, er Mannssonurinn mun koma í mætti og mikilli dýrð. Hann mun skipa fólki heimsins ýmist til hægri eða vinstri handar og mæla við þau á hægri hönd: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. 35Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, 36nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín... Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.” En þau til vinstri handar eru brott rekin í frásögninni með orðunum “Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. 46Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“ (25.31-46)

E.t.v. erum við betur í stakk búin að skilja þessar sögur í dag heldur en við vorum áður en kreppan kom. Við höfum lifað í andrúmslofti vissrar þöggunar þar sem allt tal um dóm Guðs hefur þótt ótilhlýðilegt. Það að ræða um hin undirliggjandi lögmál lífsins sem virða ber ef ekki eigi illa að fara hefur verið kallað svartagallsraus. En það eru til lögmál sem liggja lífinu við hjartastað. Ef við brjótum þau lögmál viljandi eða óviljandi þá erum við að baka vandræði. Með þeim þremur myndum sem Jesús dregur upp í sinni síðustu kennslustund er hann að hjálpa lærisveinum sínum að meta líf sitt með raunsæi og takast á við tilveruna eins og hún raunverulega er.

III
Lifðu vakandi er Jesús að segja með dæmisögunni um Meyjarnar tíu. Tvö orð; lifðu vakandi. Þú verður að lifa daginn í dag í ljósi þess að það kemur morgundagur og gjörðir þínar eða aðgerðaleysi hefur áhrif á framhaldið. Hyggnu meyjarnar í sögunni hugsuðu fram í tímann en þær fávísu gerðu það ekki. Þær hafa áreiðanlega verið vel til hafðar og lamparnir þeirra hafa ekki verið síðri en hinna, það sem skildi á milli þeirra var fyrirhyggjan, tilfinningin fyrir samhenginu. Það að lifa vakandi varðar afdrif okkar bæði hér á jörð og í eilífu ríki Guðs. Olían í dæmisögunni táknar heilagan anda, hið innra líf manneskjunnar sem gerir hana færa um að lifa vakandi. Þess vegna kennum við börnunum okkar að biðja, erum þeim samferða í bæn frá blautu barnsbeini svo að þau megi eiga innra líf, megi læra að þekkja rödd Guðs, þekkja sinn vitjunartíma, lifa vakandi.

Er Jesús hefur lokið við söguna um Meyjarnar tíu kemur sagan um talenturnar og inntak hennar má e.t.v. segja í fjórum orðum: Þiggðu lífið sem gjöf! Þjóninn sem gróf féð í jörðu tók bara við fénu en tók ekki við þeim huga sem að baki bjó. Lífið er gjöf, taktu við traustinu sem að baki býr! er Jesús að segja. Til hvers er að lifa? var spurt hér áðan. Hér er þeirri spurningu svarað. Þú skalt lifa vegna þess að lífið er gjöf, ástargjöf. Guð er að lána þér líf og heilsu, ástvini, fæði, klæði, hæfileika, peninga, félagstengsl og hvað eina annað sem gerir líf þitt gott. Allt eru þetta gjafir frá honum sem þú mátt ávaxta með því að miðla þeim áfram. Illi þjónninn var ekki vondur maður. Hann var bara hræddur. Hann stóð stjarfur og starði á talenturnar sínar vegna þess að hann þekkti ekki þann hug sem að baki þeim bjó og treysti ekki forsendunum.
- Til að njóta farsældar í þessum heimi þurfum við í fyrsta lagi að lifa vakandi og í öðru lagi megum við til að þiggja lífið sem gjöf en ekki gróða. Gróðaæðið, þetta að safna peningum til þess að safna peningum er það sama og að grafa talentu sína í jörð. Það gildir einu hvort þú eyðileggur lífsgæðin með því að safna þeim í hrúgur eða grafa þau í jörðu, söm er gjörðin, óttinn er sá sami. Lífsgæði eru til þess að miðla þeim af því að þau eru gjöf.

Loks leggur Jesú fram þriðju og síðustu áherslu sína sem hann tjáir með lýsingunni á endurkomu mannssonarins á efsta degi og segir “Það sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafði þér gjört mér.”

IV
Hann var að kveðja. Kennslu hans var að ljúka en tími þjáninganna var framundan. Ofan af Olíufjallinu í vestri blasti við musterið baðað geilsum sólar en handan borgarmúranna var Golgata hæðin. Og hér slær Jesús smiðshöggið á kennslu sína með svo ómisskiljanlegum hætti að við komumst ekki framhjá því að sjá að um leið og hann krefst þess af fylgjendum sínum að þeir lifi vakandi og vill að þeir þiggi lífið sem gjöf, þá bendir hann okkur samtímis á náunga okkar og segir: “Það sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafði þér gjört mér.” M.ö.o.: Taktu mark á mannlegum þörfum!

Til hvers er að lifa? var spurt. Lifðu til þess að deyja! Svarar Kristur Jesús. Deyðu sjálfum þér en lifðu náunga þínum, þá lifir þú mér. Hagfræðingurinn sem talaði um vonina og ég vitnaði til hér í upphafi komst nákvæmlega að sömu niðurstöðu. Hann hafði bragðað á vonleysinu, uppgjöfinni, dauðaþránni. “Leiðin út úr vonleysinu,” sagði hann “liggur út til annara manna og á þeirri vegferð finnur maðurinn Guð.” Já, lifðu vakandi, segir Jesús Kristur, þiggðu lífið að gjöf og taktu mark á mannlegum þörfum, þá veistu til hvers þú lifir.

Amen.

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Málfundur um réttlæti

Fréttatilkynning frá ÖBÍ og Laugarneskirkju:

Öryrkjabandalag Íslands og Laugarneskirkja bjóða til opins málfundar í safnaðarheimili Laugarneskirkju sunnudaginn 8. febrúar kl. 12:30 - 14:30. Framsögumenn verða dr. Sólveig Anna Bóasdóttir siðfræðingur og Harpa Njáls félagsfræðingur sem ræða munu um réttlæti til handa öryrkjum í landi okkar.

Yfirskriftir erindanna eru í formi yfirlýsinga: Sólveig Anna fullyrðir “Mannréttindi eru handa fólki” og Harpa bætir við og segir “Við höfnum skipulagðri fátækt.” Verður fróðlegt að heyra mál þessara háskólakvenna sem hvor um sig mun tala í um 15 mínútur.

Að loknum erindunum mun Guðrún Gunnarsdóttir söngkona gleðja fundargesti með söng sínum auk þess sem boðið verður upp á kaffiveitingar undir umræðum þar sem málshefjendur sitja fyrir svörum ásamt Aðalbjörgu Traustadóttur framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis sem þekkir vel til málefnisins.

Halldór Sævar Guðbergsson formaður ÖBÍ og prestarnir Hildur Eir Bolladóttir og Bjarni Karlsson stjórna umræðum. Boðið verður upp á sætaferðir fyrir hreyfihamlaða frá Hátúni 12. Aðgangur er ókeypis og allt fólk sem lætur sig hið nýja Ísland varða er hvatt til þátttöku.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Tólf sporin, andlegt ferðalag - þrautreynd aðferð

Bjarni skrifar:

Mig langar að vekja athygli á því að í kvöld eru síðustu forvöð að stökkva upp í lestina í 12 spora hópum Laugarneskirkju á þessu starfsári.
Komið er saman alla þriðjudaga kl. 20:00 yfir vetrartímann í mörgum smáum hópum sem fikra sig sameiginlega í átt að aukinni birtu og vaxandi lífsgæðum eftir sporunum tólf. Hér er um að ræða þrautreynda aðferð sem nú stendur opin öllum sem vilja vinna með markvissum hætti úr lífsreynslu sinni.
Það er félagsskapurinn Vinir í bata sem stendur á bak við starfssemina, en kirkjan skapar henni vettvang.

Verið velkomin að kynna ykkur málin.
Gengið er inn um aðaldyr Laugarneskirkju kl.20:00.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu 'viniribata.is'.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Hættum að segja kreppa og verum bara fjölskylda!

Prédikun okkar flutt í Garðakirkju, Vídalínskirkju og Laugarneskirkju sunnudaginn 1.febrúar 2009


I
Nú eru hlutirinir að gerast úti í heimi skal ég segja ykkur. Brotist var inn á heimili söngkonunnar Amy Winehouse í London á dögunum og stolið þaðan munum að verðmæti tveggja og hálfrar miljóna króna. Meðal þess sem hvarf var flatskjár og fimm gítarar. Sumir af gíturunum voru ómetanlegir sé miðað við tilfinningalegt gildi þeirra. Íbúðin er í slæmu ástandi. Hún hafði nýlega verið þrifin til að undirbúa heimkomu söngkonunnar. Þá er gaman að segja frá því að Idol sigurvegarinn fyrrverandi Kelly Clarkson hefur sett nýtt met með því að stökkva hæst allra á bandaríska Billboard vinsældalistanum, eða upp um 96 sæti. Lag hennar “My life would suck with out you!” fór úr 97. sæti beint á toppinn eftir að það var keypt 280 þúsund sinnum í stafrænni útgáfu sína fyrstu viku á lista.

...Hvernig líður þér undir þessum lestri? Getur verið að þér sé innanbrjósts eins og mér að svona yfirborðshjal um ekki neitt sem tekið var upp úr nýlegu Fréttablaði (Fréttablaðið 13.1. 2009, s. 44) sé ekki bara leiðinlegt heldur hreinlega móðgandi við fólk? - Það er eitthvað nýtt að gerast. Skarkalamenningin er hætt að virka, glymjandanum hefur einhvernveginn verið velt úr sessi í vitund okkar. Þetta andrúmsloft þegar allir áttu að vera svo hressir, ‘meiri músík minna mas’ var kjörorð dagsins og ef einhver hefði látið það út úr sér að hann ætlaði að vera heima hjá sér í sumarleyfinu eða skella sér bara í tjaldútilegu, þá hefði það vakið grunsemdir og umtal. Enginn gat ekki verið á leiðinni eitthvert. Enginn gat átt það sem hann vantaði. Slíkt var óábyrg hegðun, skortur á neyslu. Enginn gat sagst ekki hafa efni á einhverju og tal um sparnað og fyrirhyggju þótti lummó.

Ég hef átt samtöl við margt skólafólk og aðra sem sinna börnum í íþróttum, kirkju og öðru félagslífi síðustu daga og þau sem ég hef rætt við eru sammála um að börn og unglingar hafi almennt komið rólegri og sælli úr jólafríinu heldur en oft áður. Íþróttaþjáfari fullyrti við mig að foreldrar virðist nú hafa meiri tíma til að fylgja börnum sínum á íþróttaæfingar og í heildina tekið eru þau sem best til þekkja sammála um að börn njóti aukinnar umönnunar. Gott er til þess að hugsa því það er þekkt staðreynd að kreppa bitnar gjarnan harðast á börnum og unglingum. Við skulum leyfa okkur að fagna því að andrúmsloft hraða og streytu er á undanhaldi en samtalið blómstrar með þjóðinni sem aldrei fyrr. Það má vera heima, það má staldra við, það má fara vel með.

Hugsið ykkur ef Rauði krossinn, skátahreyfingin eða Hjálparstarf kirkjunnar hefði fengið jafn mikið pláss á síðum Fréttablaðsins og Moggans á síðustu misserum og Britney Spears! Þar hefur þjóðin samviskulega verið upplýst um hjónaband þessarar konu, barneignir, skilnað, vímuefnaneyslu, meðferðir og endurkomu hennar inn í poppbransann. Núna þegar glamúrinn hefur verið sleginn utan undir er hugur okkar ekki bundinn við þetta með sama hætti. Hverjum er ekki sama? Hinn hversdagslegi veruleiki er skyndilega orðinn áhugaverður og þegar fólk kemur saman er talað um lífsgildi og ríkisútvarpið er aftur farið að segja aflabrögðum. Heyrst hefur sú tillaga að með sumrinu skuli endurvakinn þátturinn fugl dagsins með nýju inntaki og skuli hann bera heitið dyggð dagsins. Þöggunin sem lá í loftinu er kom að lífsskoðunum fólks og tortryggnin gagnvart því að einstaklingar ættu sér hugmyndafræði er gufuð upp.

Íslensk þjóð hefur vaknað til samtals um raunveruleg lífsgildi og einhvernveginn er mannlífið geðþekkara. Við finnum það á okkur að ekki verður aftur snúið, íslensk þjóðarsál siglir hraðbyr inn í nýja tíma þar sem spurt verður að inntaki fremur en umbúðum.

Ég vil mótmæla einu sem heyrst hefur. Fullyrt hefur verið með skírstkotunum í forsíðu Séð og heyrt að hjónaskilnuðum fjölgi nú ört í kreppunni. Prestar sem við hjónin höfum rætt við eru sammála um að skilnaðir séu síst algengari nú og ástæður þeirra skilnaða sem orðið hafa eru ekki af fjárhagslegum toga. Þetta finnum við hjónin mjög vel í okkar starfi. Þróunin er öllu heldur í þá átt að fjölskyldur þjappa sér saman og meta meir en áður þau gæði sem þær eiga. Ungur átta ára spámaður í Garðabænum sat með fjölskyldu sinni núna um daginn og krepputalið var á dagskrá. Þá stynur hann og segir stundarhátt: “Hættum að segja kreppa og verum bara fjölskylda!”

II
Í guðspjalli dagsins er Jesús með þremur lærisveinum sínum uppi á fjalli. Þá ummyndast hann fyrir augum þeirra og það lýsir af honum ósegjanlegri birtu og þeir sjá hann á tali við Móse og Elía spámann. „Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina. Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan.” (Mark 9.2-9)

Ekki segja mér að þú skiljir þetta. Hér er ekki um atburð að ræða af því tagi sem maður skilur. Enda gefur Markús guðspjallamaður lesandandanum vísbendingu er hann útskýrir viðbrögð Péturs með tilvísun til uppnáms og ótta: „Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir.”

Ég held að frásögnin af ummyndun Jesú sé ekki síður saga af þeirri ummyndun sem átti sér stað í lífi og hjarta lærisveinanna. Þeir voru nýir menn eftir þá reynslu sem þeir gengu í gegnum. Þeir höfðu fengið innsýn í hinn stóra vef lífsins. Þeir höfðu vaknað til vitundar um samhengi sitt við þau lögmál sem liggja lífinu til grundvallar og hin spámannlega rödd hafði ómað í djúpi sálar þeirra. Móse stendur á fjallinu sem fulltrúi lögmálsins því hann hafði fengið það hlutverk að taka við boðorðunum tíu og bera þau niður til mannfjöldans. Elía er hins vegar fulltrúi spámannanna.

Í þessari frásögn er það tjáð að tvennt skiptir sköpum um farsæld okkar sem einstaklinga og sem þjóðar. Við þurfum þetta sem Móse og Elía standa fyrir; við þurfum að þekkja lögmálið og við þurfum að geta heyrt hina spámannlegu rödd.
Þjóð sem missir tilfinninguna fyrir hinum djúpu lögmálum lífsins glatar kjölfestu sinni og þjóð sem heyrir ekki orð spámanna sinna fyrir eigin skarkala mun rata í ógöngur. „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.”
- Þetta voru skarkalaviðbrögð. Þessi ósjálfráðu óttaviðbrögð mannssálarinnar andspænis sannleikanum, þörfin fyrir að setja allt í umbúðir en þegja um inntakið. Pétur vildi bara tjalda yfir þetta allt saman og ná þannig tökum á ástandinu. „Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“

Í táknheimi ritningarinnar birtist Guð iðulega í skýi. Það var Guð sem yfirskyggði lærisveinana með þunga nærveru sinnar og krafði þá um að flýja ekki inn í skarkalann heldur hlusta: „...rödd kom úr skýinu:„Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!””

Frá þessari stundu var sálarlíf lærisveinanna ummyndað. Þeir meðtóku veruleika lögmálsins og spámannanna og kunnu að hlusta á nýjan hátt.
Og það er ekki tilviljun að er þeir fylgdu meistara sínunum niður af fjallinu hittu þeir fyrst fyrir föður með veikan son sem bað ákaft um hjálp.

Í stað þess að tjaldað væri uppi á fjalli dýrðarinnar var hinn hversdagslegi veruleiki settur á dagskrá. Því hvað er sárara en áhyggjufullt foreldri með veikt barn? Hvað er venjulegra en brýnar mannlegar þarfir? Og það eru þessar almennu þarfir sem Jesús leiðir vini sína inn í. Hann bendir þeim á nakinn veruleikann, á lífið eins og það kemur af skepnunni umbúðalaust, og þeir ganga með honum til verka með vakandi huga. Skarkalinn var horfinn og með honum doðinn gagnvart umhverfinu. Nú fyrst voru þeir byrjaðir að lifa.


III
Nú hefur skarkalinn verið settur af dagskrá með Íslenskri þjóð. Nú spyrjum við grundvallarspurninga og krefjum okkur um að við könnumst við sjálf okkur. Samtal okkar er um lögmál lífsins og hið spámannlega orð fær hljómgrunn við eldhúsborðið þegar mælt er: “Hættum að segja kreppa og verum bara fjölskylda!”

Amen.