laugardagur, 25. desember 2010

Tími lausaleikskróans er liðinn

Meðhöfundur okkar hjóna að þessari jólaræðu sem flutt var í Vídalínskirkju, Laugarneskirkju og kirkju Óháða safnaðarins er Árni Heiðar Karlsson organisti síðastnefnda safnaðarins og bróðir Bjarna:

Hvernig var þegar þegar þú fæddist? Veistu vikudaginn, þyngd og stærð, klukkan hvað? Veistu hver tók á móti þér, hverjir voru viðstaddir eða hver klippti á naflastrenginn? En um fram allt, veistu hvort þú varst velkominn?

Má ég gefa þér hugmynd? Nú eru jólaboð framundan hjá mörgum. Ég hvet þig til þess að prófa að gefa þig að barni sem þér er nákomið og leiða samtalið að fæðingu þess. Sjáðu hvernig sálin opnast þegar þú segir barni hvar þú hafir verið þegar það fæddist, hvernig þú fékkst fréttirnar, hvaða áhrif það hafði á þig og hvernig þér leið þegar þú sást það fyrst. Segðu því svo ánægjulegar sögur af samsktipum við það sem óvita. Það er eitthvað í okkur öllum sem elskar svona sögur. Ef við hugsum um það þá eigum við örugglega flest einhverja mynd í huganum af eigin fæðingu og frumbernsku, einskonar helgimynd sem staðfestir það hversu merkileg tilvist okkar er. Þessu nátengt er áhuginn á stjörnumerkjum þekktur í flestum menningarheimum; Undir hvaða stjörnu ertu fæddur, í hvaða stjörnumerki ertu? – í hugum þorra jarðarbúa er þetta raunhæf spurning sem fjallar um gildi persónunnar. Það er því ekki tilviljun að inn í fæðingarsöguna af Jesú komi stjörnuspekingar til að staðfesta konungdóminn. Þeir höfðu farið langar leiðir til að fylgja stjörnunni sem vísaði þeim veginn. Hér eru á ferðinni sammannlegir þættir sem við öll þekkjum.

Við þráum öll að heyra að við höfum verið velkomin inn í þennan heim. Ef þú kæmir í dag inn í 12 ára bekk og spyrðir: Er einhver lausaleikskrói hér inni? Þá myndu þau halda að þú værir starfsmaður frá ITR kominn til að kynna nýjan íþróttaleik – hinn vinsæka lausaleik. Svona hefur þjóðfélagi okkar farið fram, það sem eitt sinn var þöggun og skömm er það ekki lengur og orðaleppar sem tjá óttann við þann möguleika að vera ekki réttilega tilkominn hverfa úr málinu.

Við þekkjum áreiðanlega öll sögur úr okkar umhverfi um það hvernig fólk hefur við erfiðar aðstæður tekið ófæddum börnum af rausn og mannlegri reisn. Hversu margir eru þeir karlarnir sem hittu ástina í lífi sínu þegar hún var barnshafandi og gengu barninu í föðurstað og ólu það upp sem sitt eigið? Eða þegar ótrúnaður hafði orðið og barn varð til utan hjónabands og makinn sem brotið var á ákvað að gefa barninu pláss í lífi sínu þrátt fyrir allt og allt. Eða afar og ömmur sem tekið hafa á sig uppeldishlutverk þegar börn ólu börn. Ótal margar myndir fleiri mætti nefna.
- Er hægt að vera meira velkominn? Er hægt að þiggja stærri gjöf en þá að einhver sem ekki hafði blóðskyldu að gegna ákvað að elska mann og gefa manni réttinn til að vera sitt barn? Svona getur líf fólks blessast.

Jósef og María voru svona fjölskylda. Í upphafi Matteusarguðspjalls er greint frá angist Jósefs þegar hann varð þess vís að María væri með barni sem ekki gat verið hans barn. Og sökum þess að hann var grandavar vildi hann ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. En Jósef fékk vitrun frá Guði að hann skyldi taka við barninu og móður þess og ala það upp sem sitt eigið. „Jósef gerði eins og engillinn hafði boðið honum” (Matt. 1.24.) segir Matteus og í Lúkasaguðspjalli bregst María eins við hlutverki sínu þegar hún segir við engilinn: „Sjá ég er ambátt Drottins verði mér eftir orðum þínum.” (Lúk. 1.38.) Hér er tjáð í formi helgisagnarinnar sú sama afstaða sem blessað hefur líf hverrar stórfjölskyldunnar af annari þegar manneskjur af holdi og blóði hafa ákveðið að þjóna lífinu með því að taka á móti ófæddum börnum af rausn og mannlegri reisn. Vitrunin um það að vera í þjónustu við lífið er hin stóra uppgötvun og það að fæðast inn í fjölskyldu sem skuldbindur sig barninu er hin stóra gæfa. Hver einasta barnsskírn felur m.a. í sér þessi brýnu félagslegu og tilfinningalegu skilaboð að barnið sé fætt inn í umhverfi sem skuldbindur sig gagnvart því. Þannig er blessun miðlað milli kynslóða.

Ungbörn á öllum tímum hafa þurft það sama til þess að vaxa úr grasi. Ungbarnið hefur ekki gerfiþarfir og segja má að flækjustigið við umönnun þess sé lágt þegar allt er í lagi. Það er aftur flækjustig tengslanetsins í kringum einstaklinginn sem getur orðið hátt og hefur verið það á öllum öldum þótt ljóst sé að með nútíma háttum og tækni hafi þetta aldrei verið snúnara og margar spurningar sem vakna.

Í byrjun næsta árs verður lagt fram frumvarp um lögleiðingu staðgöngumæðrunar á Alþingi og í síðustu vikur höfum við fylgst með heimkomu barns dragast á langinn sem fætt var á Indlandi af þarlendri staðgöngumóður en hlaut íslenskan ríkisborgararétt með ákvörðun frá Alþingi. Unnin hefur verið áfangaskýrsla hjá Heilbrigðisráðuneytinu um þessi mál þar sem varpað er fram upplýsingum og sjónarmiðum sem orðið gætu grundvöllur upplýstrar samfélagsumræðu um hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun hér á landi. Alla þessa hluti þarf að skoða út frá fjölmörgum sjónarhornum, jafnt, læknisfræðilegum, félagslegum, lögfræðilegum og ekki síst siðfræðilegum.
Lífið er flókið og flækjustig mennskrar tilveru hefur lítil takmörk. Og leið okkar að því að geta mætt lífinu af sanngirni og rausn er oft á tíðum löng líkt og för vitringanna með gjafirnar sínar yfir lönd og álfur.

Flest fólk ber í brjósti sterka þrá eftir því að ala upp afkvæmi sem sé þess eigið hold og blóð. Það vitum við og við verðum að virða það. En ef við prófum að bregða okkur snöggvast svona vegalengd eins og til Víkur í Mýrdal, nema bara upp og út fyrir gufuhvolfið þar sem gott sjónarhorn er á hnöttinn og kjörið að velta fyrir sér þörfum heimsþorpsins. Þá blasir við úr þeirri hæð að á hvert par sem hyggur á barneignir horfa þúsund augu ungbarna sem vantar foreldra og ættu enga stærri gæfu en þá að fá ástríkt uppeldi. Ef við nýtum þetta sjónarhorn og horfum í augu eins þessara þúsunda barna og berum þörf þess saman við þörf okkar til þess að eiga afkvæmi af eigin holdi og blóði þá verður samanburðurinn óþægilegur.

Mörgum þykir freistandi að taka þá einföldu afstöðu að segja öll inngrip inn í náttúruleg ferli í tengslum við þungun og barnsfæðingu séu ætíð vavasöm. En slík inngrip eru nú þegar daglegt brauð og því væri sú afstaða yfirborðsleg. Við notum getnaðarvarnir, við samþykkjum fóstureyðingar að uppfylltum skilyrðum, tæknifrjógvun tíðkast og margt fleira mætti nefna sem felur í sér beina íhlutun í ferli þungunar og fæðingar. Nú þegar eru nokkur börn hér á landi sem eru sammæðra, þ.e.a.s. þau eiga mæður sem eru hjón þar sem önnur konan hefur gefið hinni egg sem frjógvað er með gjafasæði svo að barnið sem fæðist er nátengt báðum mæðrum sínum með sérstökum hætti, en faðirinn er gjarnan óþekktur sæðisgjafi. Já, flækjustig tilverunnar er ekkert að lækka. Því er vitringum nútímans enn frekari þörf á leiðarstjörnu en nokkru sinni.

Helgisögn jólanna flytur okkur skilaboð í þessu sambandi sem okkar kynslóð hefur síst efni á að fara á mis við. Atferli vitringanna og fjárhirðanna sem líka komu var það sama. Þeir sem komu langt að og eins hinir sem bara komu utan úr haga gerðu hið sama, þeir komu til að lúta barninu. Þeir krupu niður í taðið við jötuna þar sem barnið lá og lutu lífinu í þökk og undrun. - Hér erum við stödd við kjarna mennskrar tilveru og jafnframt erum við þar sem inntak hins kristna siðar blasir við. Hversu hátt sem flækjustig mannlífsins verður og hve títt sem nýjar tæknilausnir birtast við gömlum vanda þá er þörf hins varnarlausa lífs ætíð hin sama. Grátur barnsins í jötunni berst að eyrum okkar í gegnum flækjur og skarkala rúms og tíma og krefur okkur um hlýðni við lögmál lífsins og kærleikans.

Hvert barn á rétt á sinni fæðingarsögu, sinni persónulegu helgisögn. Þar á ekkert pukur heima og þar þurfa allar persónur og leikendur að njóta sannmælis og virðingar svo að tími lausaleikskróans sé liðinn og komi aldrei aftur.

Amen.

Ef þér leiðist, elskan mín

Prédikun okkar á aðfangadegi 2010

Mig langar að segja þér sögu af íslensku þjóðinni.

Hann Guðmundur Friðjónsson skáld frá Sandi átti merka bernskuminningu tengda gamalli vinnukonu sem verið hafði á heimili hans þegar hann var barn. Hún kenndi honum að lesa og hafði til þess guðspjöllin. Eitt kvöld sat hann hjá gömlu konunni því hún var að baka flatbrauð á hlóðum og drengurinn vonaðist eftir að fá heitt brauð. Sú gamla lét drenginn snúa fífukveik í lýsiskolu og sagði honum sögu sem festist í minni hans og fylgdi honum alla ævi. Hún var um ekkjumann og tíu ára dóttur hans sem bjuggu tvö á einum afskekktasta bæ landsins norður í Keflavík í Þönglabakkasókn skömmu eftir aldamótin 1700. Þar lagðist af byggð um miðja síðustu öld og enn standa bæjartóttirnar umkringdar háum fjöllum og ólgandi íshafið úti fyrir. Er þessir atburðir urðu geisaði stóra-bóla sem svo var nefnd og enn er minnst þótt liðin séu 300 ár því mannfellir var gríðarlegur. Og gamla konan fræðir drenginn og getur þess að veikin hafi borist með mönnum en ekki loftinu, eins og sumir haldi – „frá manni til manns með andardrættinum, og svo þegar þeir kysstust. Og veikin settist að í bænum og lagðist á bóndann” sagði vinnukonan. „Bóndinn kom að máli við barnið […], - og þá var hann í sjóklæðum sínum með sjóhatt bundinn á höfuðið. Þá sagði hann eins og ekkert væri um að vera, sagði við dóttur sína: ‘Heyrðu lambið mitt! Ég hef vakað undarfarnar nætur og þarf að sofa úr mér. Ég ætla, sagði hann, að fara fram í skála og halla mér út af í skinnfötunum svo að mér kólni síður. Þú mátt ekki vekja mig, þó að ég sofi nokkuð lengi, og ekki líta til mín, ég vil hafa næði. Ég vakna, þegar minn tími er kominn. Þú veist um fífuna og lýsið og kannt að fara með ljósfæri og eld. Eldsneytið er innanbæjar, eins og þú veist, og innangengt í fjósheyið. Svo verður þú að gefa kúnni, mjólka hana á málum og brynna henni úr læknum, sem alltaf rennur innanbæjar. Og moka fjósið í lækinn. Ef þér leiðist, elskan mín, skaltu prjóna hnykilinn sem er í rúmshorninu okkar, og rekja upp aftur og aftur, og svo skaltu lesa faðir vor og þessa vísu, sem ég hef kennt þér, […] og einkanlega er gott að hafa hana yfir, ef fennir á gluggann:

Maríusonur! mér er kalt;
mjöll af skjánum taktu;
yfir mér alltaf vaktu.
Lánið bæði og lífið er valt;
ljós og myrkur vega salt.
Í lágu koti á ljóstrýrunni haltu.

En þegar bóndinn í Keflavík var búinn að hafa yfir vísuna mælti hann við dóttur sína: ‘Þú átt að muna mig um það, að fara ekki fram til mín og ekki út, þó að fenni á gluggann. Jesús tekur ofan af honum, þegar honum þóknast og þykir tími til kominn.’”

Og svo sagði gamla konan við Guðmund: ‘Bóndinn fór fram án þess að snerta á barninu. Sá hafði nú vald yfir sjálfum sér. Hann skyldi ekki kyssa barnið? Nei, hann lét það vera, hefur hugsað sem svo, að þá gæti hann andað á elskuna litlu pestinni. Þeir voru svo djúpsæir, þessi gömlu menn […] Hugsaðu þér’ sagði hún við drenginn ‘og settu þig í spor og sæti litlu stúlkunnar. Barnið situr þarna í tíu vikur við týruna í koti, sem er hálf-fennt, bíður þarna þangað til að komið er á gluggann og tekið ofan af honum. Það atvikaðist svo fólkið á Þönglabakka furðaði sig á því, að hann Hjálmar í Keflavík skyldi ekki koma til kirkju um jólin. En hann var þaulsætinn heima, og torvelt að komast til kirkju, svo það hugði, að allt gæti þó verið með felldu. En þá fóru karlmenn frá Þönglabakka í hákarl, svo þeir sáu frá sjónum heim í Keflavík, og þótti þeim það undarlegt, að ekki sást rjúka úr kotinu. Þeir réru svo þangað, og svoleiðis komst þetta upp. Og drengurinn spurði: ‘Hvað var litla stúlkan að gera þegar þegar þeir komu?’ ‘Hún var að prjóna og hafa yfir vísuna um Maríuson, þegar þeir komu á gluggann að taka ofan af honum.’ Og svo sagði gamla vinnukonan: ‘Það er ævinlega gott að kunna eitthvað til handanna og svo til munnsins, kunna gott orð og kunna að vinna; það styttir tímann og gefur ævinlega eitthvað í aðra hönd. Litla stúlkan lifði og hélt vitinu, af því hún kunni þetta og fleira. Hún gerði vel, sú litla.

Maríusonur! mér er kalt;
mjöll af skjánum taktu;
yfir mér alltaf vaktu.
Lánið bæði og lífið er valt;
ljós og myrkur vega salt.
Í lágu koti á ljóstrýrunni haltu.

Drengurinn sat með fífukveikinn tilbúinn í höndinni sem hann hafði verið að snúa svo að unnt væri að hafa ljós í bænum og gamla konan mælti að lokum: ‘Þessi saga er í aðra röndina eða undir niðri eða undir væng sagan af þjóðinni okkar, sem lifað hefur í myrkri, hálfgrafin í fönn, og lýst sér með týru á fífukveik og haldið lífi og viti vonum framar. – Sjáðu til! Tíu vikur geta táknað tíu aldir. Keflavík þýðir veiðistöð, og það er til marks, að enn er tekið svo til orða: Mér er sama í hvorri Keflavíkinni ég ræ. Það er nú sjómannamál. Og eyjan, sem við lifum á, er í fornum fræðum nefnd veiðistöð. Það er nú svo, að margur er orðaleikurinn í málinu.

Sögu sinni lýkur skáldið og segir: ‘Þetta er sagan, sem eldabuska föður míns sagði mér í rökkrinu – meðan hún bakaði flatbrauð – konan aldurhninga, sem þjónaði mér á unga aldri og kenndi mér að lesa – á guðspjöllin.”

Gætir þú fundið sterkari frásögn um vonina?

Faðirinn gefur barni sínu von. Hann gat ekki gefið henni tíma, heldur gaf hann henni verkfæri og leiðir til þess að lifa af þjáninguna og einsemdina. Og hann gaf henni Jesú! Hann gaf henni Jesú í Faðirvorinu og í versinu og í þeirri vissu að það myndi berast hjálp og að lífið héldi áfarm. Og í eftirmálanum yfirfærir gamla konan söguna á íslensku þjóðina.
Hugsið ykkur! þetta er saga sem okkur er gefin af kynslóðinni sem er farin. Við þurfum ekki að tala eins og við höfum ekki á neinu að byggja á 21. öld. Við eigum í formæðrum okkar og forfeðrum þrautseygju og samstöðu og trú sem hefur fleytt þessari þjóð yfir svo óskiljanlega erfiðleika. Við búum í veiðistöð og við höfum alltaf mátt takast á við myrkur, rysjótta veðráttu og einangrun - og við höfum alltaf átt Jesú Krist. Við höfum haldið lífi og viti vonum framar, eins og sú gamla orðaði það.

Jólin bera okkur einmitt þetta. Þau segja frá lífinu í varnarleysinu, þegar fennir á sálargluggann og við þurfum að hafa fyrir því að halda lífi og viti eins og Jósef og María, eins og stúlkan í Keflavík og eins og svo margt fólk okkar á meðal. Jólin segja okkur að einmitt þar sem mennskan er varnarlaus og ástin sterk þar fæðist fyrirheitið. Einmitt þar megum við leggja fram von okkar. Þar sjáum við að ástin og trúin er miklu meira en tilfinning, hún er siguraflið, hún er það sem bjargar og sameinar og alltaf finnur leiðir.

- ‘Ef þér leiðist, elskan mín, skaltu prjóna hnykilinn sem er í rúmshorninu okkar, og rekja upp aftur og aftur, og svo skaltu lesa faðir vor og þessa vísu, sem ég hef kennt þér, og einkanlega er gott að hafa hana yfir, ef fennir á gluggann:

Maríusonur! mér er kalt;
mjöll af skjánum taktu;
yfir mér alltaf vaktu.
Lánið bæði og lífið er valt;
ljós og myrkur vega salt.
Í lágu koti á ljóstrýrunni haltu.

miðvikudagur, 20. október 2010

Skilaboð frá Sigrúnu Pálínu og félögum

Ljósa- og kærleikshittingur

Allir sem hafa lifað af kynferðislegt ofbeldi og þeirra vinir/fjölskylda/stuðningsmenn eru velkomnir í Laugarneskirkju fimmtudaginn 21. október kl. 20.

Við ætlum að sameinast í kærleika og von. Við kveikjum á kertum og lýsum upp veginn okkar sem hefur verið grýttur og sár, hlustum á fallega tónlist og tökum á móti læknandi blessun.

Þarna gefst okkur möguleiki á að skrifa sögu okkar og heyra hana lesna upp innan veggja öryggis, þar sem okkur er trúað og við ekki dæmd. Á þann hátt getum við skilað skömminni og rofið þöggunina. Við getum horft á hvert annað og séð að við erum ekki ein.

Von mín er, að við í sameiningu getum skapað rými fyrir sorg og sársauka og fengið í staðinn von og kærleika.
Mér til aðstoðar hef ég fengið gott fólk með viðhorfið og kærleikann á réttum stað; Ástu Sigríði Knútsdóttur, Kolbrúnu Ernu Pétursdóttur og prestana Sr. Bjarna Karlsson og Sr. Jónu Hrönn Bolladóttur.

Velkomin í kaffi í Safnaðarheimili Laugarneskirkju á eftir.


Kær kveðja
Sigrún Pálína Ingvarsdóttir

sunnudagur, 10. október 2010

Séreignarnauðhyggjan

Hér er prédikun okkar frá þessu sunnudegi:

„Guð blessi Ísland” flest munum við hvar við vorum þegar þessi orð féllu. Sl. miðvikudag var þess minnst að þá voru tvö ár liðin frá Guð- blessi-Ísland deginum. Og fjölmiðlar tóku upp á því að spyrja fólk þeirra ágætu spurningar: Blessaði Guð Ísland? Það er hollt að velta því fyrir sér.

Blessun er ekki einhliða gjörningur heldur er hún alltaf fólgin í samskiptum. Maður tekur við blessun og blessar aðra sem við því vilja taka. Blessaður, blessuð segjum við og heilsum fólki og við hlustum eftir því hvort undir kveðjuna er tekið og hvernig við henni er tekið. Hér er á ferðinni eitthvað sem er almennt mannlegt. Blessun er ekki bara frá Guði, en um hana gildir alltaf að hún gerist í samskiptum. Tökum eftir því að það tíðkast um alla veröld að menn rísi á fætur þegar Drottinleg blessun er flutt. Það er eitthvað sem knýr okkur til þess að taka upprétt við blessun Guðs. Eitthvað veldur því að við viljum vera í virkri líkamsstöðu þegar blessunin er flutt og meðtekin.

Textar dagins í dag eru allir um þetta. Þeir eru um það hvernig maður tekur við blessun frá Guði og hvernig unnt er að hliðra sér hjá henni með því að lifa beygður inn í sjálfan sig.

Hjá Esekíel spámanni fáum við ævaforna þjóðfélagsrýni sem hljóðar svona: „En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? [...] Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið. (Esekíel 18.29-32)

Blessun er s.s. ekki eitthvað bleikt eða köflótt, blessun er ekki áhald eða aðferð, hún er hið góða líf. Blessun er gæðin við það að vera til. Hún er þetta sem við viljum fyrir alla muni ekki missa vegna þess að þá er ekki til einskis að lifa. Enginn getur bent á blessunina en allir geta miðlað henni eða hafnað henni og allir vita hvað hún er; að hún er það sem skilur á milli lífs og dauða. „Snúið við svo að þið lifið!” segir Guð fyrir munn spámannsins. Framar í sama kafla er komið algerlega beint að efninu og þeim skilaboðum klárlega komið áleiðis að eina aðferðin til þess að taka við blessun sé sú að iðka réttlæti:
„Sé einhver réttlátur iðkar hann rétt og réttlæti. [...] Hann beitir engan ofríki, skilar skuldunauti veði sínu, hann fremur ekki rán, hann gefur hungruðum mat sinn, hann skýlir nöktum með klæðum, hann lánar ekki gegn vöxtum, stundar ekki okur, hann heldur hendi sinni frá illum verkum, hann fellir óvilhallan úrskurð í deilum manna, hann fer að lögum mínum og breytir í öllu eftir reglum mínum og fylgir þeim. Hann er réttlátur. Þess vegna mun hann lifa, segir Drottinn Guð.” (Esek. 18.5-9)

Blessaði Guð Ísland? Er spurt. E.t.v er rétt að svara svona:
Þjóð sem ekki stendur í fæturna getur ekki tekið við blessun frá Guði.

Þjóð sem trúir því að græðgi sé góð fyrir heildina þegar upp er staðið mun ekki þrífast.
Þjóð sem viðheldur fátækt og vill ekki jöfnuð milli manna mun koðna.
Þjóð sem metur dugnað og heiðarleika minna en kunnáttu í lögmálum spilavíta mun fara halloka.
Þjóð sem skilgreinir velferð sína í ljósi einfaldra útreikninga á hagvexti en skilur ekki gildi félagsauðs og menntunar mun farast í heimsku sinni.

Þetta er ekkert flókið. Svona hefur þetta alltaf verið. Blessun er upp á líf og dauða og við henni verður ekki tekið nema standandi.

„Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir.” Segir postulinn síðan í pistli dagsins. Þar ber að sama brunni. Hér er vísað til þess félagslega innsæis að þjóðin sé líkami.
- Hættum að ljúga því að sjálfum okkur og hvert að öðru að allir séu einir er verið að segja. Við erum hvert annars limir! Ef einn limur líkamans þjáist þá þjást allir með honum, það er svo einfalt og við vitum það öll. Þótt bara lítill hluti þjóðarinnar hrekist út úr heimilum sínum vegna kreppunnar þá stöndum við öll á götunni, því við tilheyrum hvert öðru. Þótt einungis fá börn í landinu fái ekki tannlæknisþjónustu þá varðar það okkur öll vegna þess að við eigum bara eina æsku. Þótt fá börn sem sárlega þurfa á talæfingum að halda til þess að þau nái tökum á málinu fái ekki hjálpina þá finnum við að okkur verður öllum stirt um tal, því við eigum eitt móðurmál. Þótt einungis fáir afar og ömmu einangrist frá afkomendum sínum vegna þess að þau hafa ekki lengur efni á því að bera sig almennilega og kjósa að einangrast fremur en að auðmýkjast þá erum við öll að einangrast því við eigum öll okkar nánustu.
Hættum að ljúga! Segja þeir báðir, Esekíel spámaður og Páll postuli. Hættum að láta eins og allir séu einir. Við erum hér öll saman og við komum hvert öðru við.

Hver græðir á blekkingu? Hver græðir á samstöðuleysi? Hvers hagsmunir eru það að fólk vilji ekki kannast við rétt náunga síns til þess að njóta viðunandi velferðar? Hvert sem svarið er þá er það alltént ekki almenningur sem græðir. Guð vill almannahag. Fagnaðarerindið, góðu fréttirnar sem kristin kirkja ber öld fram af öld er fregnin af því að líf hins almenna manns hefur verið sett á dagskrá. Mennskan sjálf í margbreytileika sínum er hafin upp í Jesú frá Nasaret. Lífið þitt, líf mitt, svo auðsæranlegt og viðkvæmt sem það er, er lýst heilagt í Jesú Kristi. Nærðu þessu?
„Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur [...] en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt. Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir. [...] Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er. [...] Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.”

Nærðu þessu? Hér eru engin geimvísindi á ferð. Kannski gamalt orðalag, en engin geimvísindi.
- Við höfum bara hvert annað. Vitið þið það? Við lifum bara hér saman á þessari eyju úti í hafi. Við erum líka bara eitt mannkyn á einni lítilli plánetu í myrkum geimnum og það er ekkert að fara. Enginn kemst í burtu. Við neyðumst til þess að tala saman, koma okkur saman.

Prófum að vera sanngjörn og segja satt er tillaga úr Guðs orði. Hættum að stela! „Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er.”
- Að kristnum sið er það þjófnaður að miðla ekki þeim sem þurfandi er. Það er stuldur að nota það sem mann ekki vantar á meðan aðrir þurfa á því að halda. Þú átt ekki með réttu annað en það sem þig vantar. Það sem umfram er eiga þau sem skortir. Þetta er kristin afstaða til efnislegra gæða. Hættum að stela segir postulinn.

Við lifum í menningu sem blekkir og blekkir. Við ljúgum því m.a. hvert að öðru að helgastur allra dóma sé séreignin og enginn mætir skjótari viðurlögum en sá sem misvirðir séreignarréttinn. Samt vitum við sem satt er að allt sem við eigum höfum við bara að láni og séreign er einungis mæliaðferð sem gott er að nota til þess að dreifa gæðum. Það er einfalt að telja hausa, þess vegna er hagkvæmt að nota séreign sem einingu á efni, eins og við t.d. notum vött á rafmagn og Richterkvarða á titring.

Statt upp! Segir Jesús í Guðspjalli dagsins (Matt 9.1-8) við lamaðan mann sem vegna fötlunar sinnar hafði veri rændur réttinum til þess að eiga viðunandi tilveru. Statt upp! En maðurinn lá umkringdur vörgum sem vildu eymd hans og ætluðu honum ekkert nema þjáninguna eina. Á þekjunni fyrir ofan biðu hins vegar vinaraugu. Fjórir góðir vinir sem höfðu borið hann að húsinu, mismunað honum upp á þak, rofið þar vænt gat án allrar grenndarkynningar og látið hann síga niður til Jesú. Jesús sá trú þeirra segir guðspjallið. Jesús sá trú þeirra og það var nóg.

Biðjum Guð að gefa okkur trú að við fáum risið á fætur og tekið við lífinu saman.

Guð blessi Ísland

sunnudagur, 26. september 2010

Spennuþrungin veisla

Prédikun þessa sunnudags:

Í dag gefur guðspjallið okkur tilefni til að skyggnast óboðin inn í veislu þar sem aðeins útvöldum er boðið. Eitt augnablik fáum við að vera fluga á vegg, eins og maður gæti stundum óskað sér þegar reikna má með tíðindum. Og hér er það raunar frelsarinn sjálfur sem tekur að sér að innleiða óvænta atburðarás því ljóst er að hann notaði ekki alltaf viðurkennda frasa í kokteilboðunum og fór ekki hefðbundnar leiðir því hann hafði meiri áhuga á inntaki mannlegra samskipta en umbúðum þeirra.

Sagan byrjar svona: „Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum.” (Textann má finna í heild sinni í Lúkasarguðspjalli 14.1-14)

Við fáum að vita að Jesús er staddur inni á heimili, undir þaki einhvers tiltekins einstaklings, og ljóst er að loft er læviblandið, “...höfðu þeir gætur á honum” skrifar Lúkas. Maður spyr sig ósjálfrátt hvort þetta hafi þá e.t.v. ekki verið fyrsta og eina boðið þar sem Jesús þótt grunsamlegur eða óþægilegur gestur.

Og enn segir: „Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: ’Er leyfilegt að lækna á hvídardegi eða ekki?’ Þeir þögðu við.”
- Þögn og totryggni.
“Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: ‘Nú á einhver ykkar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?’ Þeir gátu engu svarað þessu.”
- Þögn og tortryggni og líka vandræðagangur því fólk vissi að hann sagði satt. “Þeir gátu engu svarað þessu.” Enginn þorði að tjá sig. Ekki var rými fyrir sjálfstæða hugsun. Hér voru vörslumenn kerfisins saman komnir. Samkvæmt trúarkerfinu átti ekki að vinna neitt verk á hvíldardegi og enginn af þeim gestum sem þarna voru saman komnir treystu sér til að horfa á þennan vatnssjúka mann, sem stóð í neyð sinni frammi fyrir Jesú. Í staðinn horfðu þeir á kerfið sitt, öryggið sitt. Þeir höfðu augun á goggunarröðinni sem þeir voru með í og höfðu haft mikið fyrir að vinna sig upp eftir henni. Þess vegna gat enginn talað heldur.
- Þögn, totryggni, vandræðagangur og líka ótti. - Þannig var ástandið undir þessu þaki, í þessu fína boði höfðingjans.

“Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin.” segir í sögunni. Já, þarna í þessum mannfagnaði var aldeilis ekki hver sótraftur á sjó dreginn. Þetta var sko almennilegt fólk. Boðskortið í þessa veislu var merki, tákn um það að vera eitthvað í samfélaginu. Og sem fólk er að leggjast að borðum, eins og tíðkaðist nú þar og þá, gerist það að menn hefja kurteislegar stimpingar um bestu sætin. Ég veit ekki nákvæmlega hver reglan var, það skiptir ekki máli hún var bara einhvern vegin og sum sætin þóttu fínni en önnur.
- “’Þegar einhver býður þér til brúðkaups...’ mælti Jesús og talaði yfir allan veislusalinn, ‘Þegar einhver býður þér til brúðkaups...’ - allir gestirnir höfðu nú lent einhversstaðar misánægðir með sætin sín, og allir sperrtu eyrun, áhugasamir að heyra hvað þessi undarlegi kennimaður sem faríseinn hafði boðið hefði fram að færa.. Upphafsorðin virkuðu spennandi, hann var að byrja að tala um brúðkaup, öllum þykir gaman að slíku. ‘Þegar einhver býður þér til brúðkaups... þá set þig ekki í hefðarsæti.’ Menn lyftu augnbrúnum, en Jesús endurgalt áhorfið með brosi. “Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ‘Þoka fyrir manni þessum.’ Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti.”

Ég býst við því að hér hafi ýmir hlegið og litið glaðhalkkalegir á næsta mann og viljað gera gott úr þessu, í þeirri von að ræðan yrði nú ekki lengri, því Jesús hafði einmitt komið beint inn á það svið þar sem ótti veislugesta var sterkastur. Hann hafði minnst berum orðum á goggunarröðina sem allir voru að pukrast með og kvelja sig yfir. En Jesús hafði ekki lokið máli sínu: “Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ‘Vinur, flyt þig hærra upp!’ Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.”

Hér hafa veislugestir klappað markvisst í þeirri von að þessari óvenjulegu tækifærisræðu væri lokið. Og ég ímynda mér að gestgjafinn hafi viljað slétta svolítið yfir þetta. ‘Hemm, hemm,... við þökkum kærlega fyrir áhugaverða ræðu, en kæru vinir hér erum við komin til að lyfta glösum! Og við skulum skála fyrir síðasta ræðumanni, þetta voru þörf orð, orð í tíma töluð....”
‘Þegar þú heldur miðdegisverð..’ heyrðist þá þróttmikil rödd meistarans segja. ‘Hamingjan góða, byrjar hann aftur!’ heyrist einhver hvísla. Menn líta til gestgjafans sem enn heldur kurteisisbrosinu, en gefur með líkamsstellingu sinni til kynna að nú sé meira en nóg komið. ‘Þegar þú heldur miðdegisverð, eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum.’

Jæja. Nú var ekki lengur hægt að fela vandræðin. Enginn með lágmarks greind gat horft framhjá því að Jesús var beinlínis að tala um þessa veislu, þessa gesti. Hann horfði áfram stíft á gestgjafa sinn: ‘Bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur og þú færð endurgjald. Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.’

Mér finnst svo gaman að lesa það að í 15. versinu segir svo í beinu framhaldi: “Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: ‘Sæll er sá, er neytir brauðs í Guðs ríki.’”
Sæll er sá, er neytir brauðs í Guðs ríki. Hvað þýðir það? Það merkir ekkert. Þetta er bara svona dæmigerð kokteilboða setning opin í báða enda. Eins og einn góður Vestmannaeyingur hafði jafnan á orði ef eitthvað var vandræðalegt og skipta þurfti um umræðuefni hið snarasta þá sagði hann: ‘Þær hafa það gott rollurnar í Hrauney!’

Hvað var Jesús eiginlega að meina með því að drepa svona í þessu partýi? Hvað gekk honum til?

Eitt af því sem hann örugglega var að gera, var það að hann vildi vekja þennan ágæta gestgjafa sinn til umhugsunar um sitt eigið húsbóndavald. Hann vildi hvetja hann til að skoða hvernig hann þróaði sitt eigið heimilislíf. Þögn, totryggni, vandræðagangur og ótti blasti við augum Jesú. ‘Þú mótar andrúmsloftið hér, húsbóndi góður,’ var hann að segja. ‘Hér undir þínu glæsta þaki er ekki pláss fyrir fólk. Hvorki fyrir gesti þína, sem troðast hver um annan, þótt fermetrafjöldinn sé yfrið nægur. Né heldur fyrir þennan vatnssjúka mann, sem ekki mátti fá bót meina sinna í friði fyrir þér og þessu fólki sem þú velur í kringum þig. Gáðu að því til hvers heimili þitt er.’ Eitthvað í þessa veru trúi ég að Jesús hafi viljað tala við þennan höfðingja í flokki farísea.

Hann heldur því fram í einu rita sinna hann Gunnar Hersveinn heimspekingur að enginn verði fullþroska manneskja fyrr en hann stígi fram og leggi öðrum lið. Það er nefnilega ekkert merkilegt að leggja sjálfum sér og sínum lið. Það þarf meira til þess að stíga út fyrir einkarammann og sjálfhverfuna. Hið kristna siðferði snýst um það að ná að stíga út fyrir einkarammann og leggja ókunnum lið. „Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það?” spyr einmitt Jesús í fjallræðunni. (Matt.5)

Heimili! Það er stundum sagt í svona hátíðarræðum sem fjalla um allt og ekkert að heimilið sé hornsteinn samfélagsins. En það eru ekki marklaus orð. Hugsaðu andartak um þeitt eigið bernskuheimili. Bernskuheimili þitt. Um leið og ég segi bernskuheimili þitt þá erum við öll horfin héðan í huganum, sum okkar komin vestur á firði önnur suður með sjó eða inní eitthvert hverfi á höfuðborgarsvæðinu, og hvað munum við? Við munum andrúmsloftið! Andrúmsloft bernskuheimilisins er okkur minnistætt. Einstaka atburðir kunna að vera í móðu, jafnvel andlitum ástvina getur verið erfitt að ná fram í vitundina, af því við þekkjum þau í svo margvíslegu samhengi, en andrúmsloftið er eitthvað eitt. Andrúmsloft bernskuheimilisins umlykur alla æskuvitund okkar. Það er tilfinningin sem fylgir þér alla ævi, vitundin um það að vera upp vaxinn út úr einhverju. Og allar minningar þínar, sjálfsmynd persónu þinnar, viðbrögð þín við öðru fólki í daglegu lífi, - allt er það í nánum tengslum við þetta andrúmsloft sem þú mótaðir ekki, bjóst ekki til og barst ekki ábyrgð á.

Eru þetta ekki raunveruleg völd? Hefur eitthvað annað í lífi þínu mótað þig meira en þín eigin bernskuveröld? Hefur nokkur önnur stofnun í samfélaginu haft afdrifaríkari áhrif á líf þitt? Ég er ekki viss um að þú munir hver var forsætisráðherra þegar þú varst átta ára, en þú manst hvar þú sast við eldhúsborðið og hvernig þér leið að sitja þar.

“Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum.” - Það er eitt að vera staddur á hlutlausum stað, kaffihúsi eða úti á torgi, og annað að vera undir þaki einhvers. Það er þessi staðsetning atburðarins sem gefur honum margfalt vægi. Það sem gerist inni á heimilum er miklu þýðingarmeira, en það sem gerist á hlutlausum svæðum. Heimili er valdastofnun. Hin raunverulegu áhrif þín og mín á mannkynssöguna liggja ekki í neinu sem við segjum eða gerum hér í þessu húsi eða í öðrum húsum úti í bæ, veistu það? Raunveruleg völd okkar allra eru inni á heimili okkar sjálfra. Það andrúmsloft sem við mótum í samskiptum við ástvini, þau gildi sem við sköpum undir okkar eigin þaki, það er það sem telur.

Sagan af tækifærisræðum Jesú í veislu höfðingjans, varpar ljósi á þetta. Hver ertu? Þú ert sá sem þú ert heima hjá þér. Þar getur þú ekki logið.

Hugsum okkur nú öll eitt augnablik heim að okkar eigin kvöldverðarborði. Hvernig andrúmsloft ríkir þar? Væri óþægilegt að fá Jesú í dinner? Þyrftum við að hafa gætur á honum eða kannski frekar á okkur sjálfum? Undir þaki höfðingjans rýkti þögn, totryggni, vandræðagangur og ótti. Þar var ekki rúmt um neinn, samt skorti ekki húsnæði. – Hvernig er það heima hjá mér og þér? Hafa allir rými? Er leyfilegt að gera mistök? Er óhætt að segja hvernig manni líður eða má e.t.v. bara segja hvernig manni gengur?

Ég hvet sjálfa(n) mig og okkur öll til þess að spyrja okkur sjálf þegar við sitjum til borðs í kvöld: hvernig andrúmsloft móta ég á heimili mínu?

Amen.

laugardagur, 25. september 2010

Fermingarfræðsla fyrir fullorðna

Það hefur sjaldan verið eins ruglandi fyrir venjulegt fólk að vera til og einmitt núna. Hvort heldur hvorft er á fjármál, dómsmál, heilbrigðismál, stjórnmál, trúmál eða önnur svið samfélagsins þá er einhvernveginn svo margt í uppnámi. En tímar breytinga og óvissu eru alltént ekki leiðinlegir. Það er þá ekki deyfðinni fyrir að fara og sýnir ekki reynslan að út úr átakatímabilum komi gjarnan frjóar og spennandi lausnir? Við erum sannfærð um að kristin trú og siður hafi t.d. ekki betra af neinu en mótlæti og kirkjan þurfi rétt eins og allar stofnanir samfélagsins að ganga í gegnum hreinsandi átök annað veifið. Trúin á Jesú Krist er ekkert letiskjól handa fólki sem vill ekki hugsa heldur skal hún vera lifandi samfélag þar sem sannleikans er leitað og aldrei sæst á ódýrar málamiðlanir. Þá fær starf kirkjunnar að vera það góða og mikilvæga mannlífstorg sem því er ætlað.

Í þessu samhengi ætlum við hjónin að bjóða upp á fermingarfræðslu fyrir fullorðna þar sem við ásamt fleirum tökum að okkur kennslu. Við erum viss um að mörgum þyki gott að rifja upp fermingarlærdóminn og reyna að móta sér sjálfstæða skoðun á því hvað þar er á ferðinni. Námskeiðin munu fara fram bæði hjá Jónu Hrönn í Vídalínskirkju og hjá Bjarna í Laugarneskirkju. Hér eru um að ræða fjögurra kvölda námskeið en fyrirkomulagið verður ögn ólíkt þótt grunnhugmyndin sé sú sama, svo að best er að vísa á heimasíður safnaðanna, gardasokn.is og laugarneskirkja.is, fyrir þau sem vilja fræðast meira um þetta.

Námskeiðið í Laugarneskirkju hefst á þriðjudagskvöldið 28.9. kl. 20:00 en námskeiðið í Vídalínskirkju í Garðabæ hefst þriðjudagskvöldið 5.10. á sama tíma. Aðgangur er ókeypis og ekki krafist neinnar fyrir fram þekkingar. Taka skal fram að þetta er í annað sinn sem fermingarfræðsla fyrir fullorðna er haldið í Vídalínskirkju og þar verður í boði framhaldsnámskeið um Lúter á sama tíma hugsað fyrir þau sem lokið hafa því fyrra.

Við hvetjum fólk til að nýta sér þetta tilboð og lofum góðri dagskrá.

mánudagur, 6. september 2010

Vinir í bata - 12 spora vinna

Öll höfum við margvíslegar tilfinningar sem við vitum ekki alveg hvað á að gera við. Margt fólk lifir hálfa æfina með íþyngjandi reynslu og tilfinningar sem gera vart við sig þegar minnst varir og valda depurð eða kvíða en hjá öðrum eru óuppgerðar hugsanir eins og kunningjar sem annað slagið líta í heimsókn en valda ekki beinum vandræðum þótt ekki séu heimsóknirnar skemmtilegar. Samtökin Vinir í bata gefa fólki kjörið og öruggt tækifæri til þess að vinna úr óuppgerðum tilfinningum og raða þeim í réttar hillur ef svo má að orði komast. Vinir í bata koma m.a. saman bæði í Laugarnessókn og Garðaprestakalli auk þess sem all margar fleiri kirkjur skapa rými fyrir þessa frábæru starfssemi.(sjá viniribata.is)

Laugarneskirkja býður upp á fyrsta kynningarfund strax á morgun, þriðjudag, kl. 20:00. Þá er gengið beint inn um aðaldyr kirkjunnar.

Fyrsti kynningarfundur í Garðaprestakalli verður haldinn í Brekkuskógum 1 á Álftanesi miðvikudaginn 29. sept. kl. 20:00. Brekkuskógar eru fallegt einbýlishús sem hýsir safnaðarstarf kirkjunnar og þar er notalegt og heimilislegt að vera.

Ekkert þátttökugjald er greitt en kaupa þarf bókina Tólf sporin - andlegt ferðalag sem fæst í Kirkjuhúsinu og ýmsum bókaverslunum. Skipt er í hópa eftir kynjum og unnið eftir þrautreyndu kerfi sem byggir á sporunum tólf, enda þótt hér sé ekki unnið sérstaklega með fíkn.

Reynslan af þessu starfi sl. 12 ár er hreint frábær og með því að koma á notalegan kynningarfund finnur fólk fljótlega hvort þessi nálgun eigi við það eða ekki.

Við hvetjum fólk til þess að koma og kynna sér málin og njóta um leið góðs félagsskapar.

sunnudagur, 29. ágúst 2010

Verjumst ekki

Hér kemur prédikun kvöldsins frá okkur hjónum sem flutt var á sama tíma í Bessastaðakirkju og Laugarneskirkju:

„Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.” (1.Jóhannesarbréf 4.7-11)

Finnið þið hvað þessi orð eru mikilvæg þegar þið heyrið þau núna? Finnið þið hvað þau eru nærandi og hve gott er að heyra þau einmitt hér í þessari messu á sama tíma og allt kirkjunnar fólk í landinu er að takast á um það innra með sér hvort rétt sé að verja kirkjuna með mannlegu valdi eða hvíla í Drottni og treysta? Við heyrum öll að hér er staðfesting á því að Guð er kærleikur.
Í bráðum tvo áratugi hefur kirkjan verið að fálma vegna kynferðisafbrotamála sem komust svo í hámæli fyrir fjórtán árum og það er svo augljóst þegar maður heyrir þennan texta að ástæðan fyrir því að kirkjan er búin að fálma í allan þennan tíma er sú að auk þess sem hún átti ekki skýrar verklagsreglur þá missti hún sjónar af kærleiksboðskap Krists.

Og nú eftir þessa áratuga þrautagöngu þar sem fólk er búið að vera að velta fyrir sér hvers vegna þetta mál sé svona sárt og hvers vegna þetta komi upp aftur og aftur þá sjáum við að leiðtogar kirkjunnar, við prestarnir, gleymdum að hlusta með hjartanu. Við gleymdum að hlusta í Krists stað en létum duga að verja mannlegan heiður. Nú gengur margt fólk fram í samtalinu innan kirkjunnar og ekki síst innan prestastéttarinnar og biður um uppgjör, fyrirgefningu og sátt. Og það er þannig þótt ekki sé fjallað um það í fjömiðlum að nú fer fram gríðarleg vinna innan prestastéttarinnar í því að fara leið kærleikans og sannleikans. Jesús fór alltaf leið kærleikans, réttlætisins og sannleikans alveg sama hversu illa það gat komið við menn þá gafst hann ekki upp við það. Og það er bara þannig í þessu máli að tími er kominn að hætta að dæma og verja sjálfan sig en taka við lækningunni.

Jesús vissi að það yrðu alltaf til þolendur ofbeldis, þess vegna gaf hann okkur söguna um miskunnsama Samverjann sem flutt er í öllum kirkjum á þessum degi. Hann vissi að á öllum tímum yrði ofbeldi þar sem fólk yrði barið í götuna, hvort sem það væri líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt. Hann vissi að það yrðu alltaf til ræningjar, persónur sem biðu átekta og sætu fyrir fórnarlömbum sínum til þess að meiða. Og hugtakið ræningi lýsir svo vel öllum myndum ofbeldis, vegna þess að ofbeldið rænir persónur, jafnt þolendur sem gerendur, mynd sinni og reisn. Og enda þótt maðurinn lægi blóðugur í götunni þá var það ekkert öðruvísi en í hinu kynferðislega ofbeldi því þar er þolandinn rændur sjálfsmynd sinni og í staðin kemur skömm og sársauki og sorg. Jesús vissi líka að það yrði alltaf til fólk sem hefði ekki hugrekki, hann vissi að það yrði alltaf til fólk sem gengi framhjá, enda segir hann frá prestinum og Levítanum sem gengu framhjá, en hann útfærir það ekki með neinum hætti, því þeir eru fulltrúar okkar allra alveg eins og ræningjarnir í sögunni eru fulltrúar okkar allra. Hann bara segir okkur að það verður alltaf til fólk sem gengur hjá alveg sama hver tegund ofbeldisisns er. Og iðulega gerist það að fólk gerir meira en að ganga fram hjá því stundum finnum við okkur knúin til þess að tala fórnarlambið niður. Með því að hengja á hinn meidda og brotna merkimiða óhreinleika og sakar erum við að fjarlægja hann okkur. Þekkir þú þetta? Það auðveldar okkur að ganga hjá ef við byggjum upp þá ímynd að áfallið sé fórnarlambinu að kenna. Það dregur úr ótta okkar allra við hið augljósa, að einnig við, já alveg eins við gætum verið í sporum þolandans. Þess vegna verða til setningar eins og þetta fólk getur nú sjálfu sér um kennt, eða hvað var manneskjan að þvælast þarna svona klædd? O.s.frv.

En leið þöggunarinnar er alltaf ófær því að sannleikurinn hefur alltaf sigur. Hann er þannig sannleikurinn. Það býr í honum sigurinn. Á stundu ofbeldisins virðist þessu að vísu öfugt farið, þá virðist valdið og styrkurinn vera hjá gerandanum. Þess vegna eru fyrstu viðbrögð okkar gjarnan þau að standa með honum en ásaka þolandann, vegna þess að við erum hrædd. En Jesús bendir á að það er óskynsamlegt. Í Lúkasarguðspjalli talar hann m.a. um veruleika þöggunarvaldsins er hann segir: „Varist súrdeig farísea sem er hræsnin. Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert né leynt er eigi verður kunnugt. Því mun allt það sem þér hafið talað í myrkri heyrast í birtu, og það sem þér hafið hvíslað í herbergjum mun kunngjört á þökum uppi. (Lúk. 12.2-3)

Svo vissi Jesús líka, og það er auðvitað það stórkostlega, að það eru alltaf til miskunnsamir Samverjar. Í síðustu viku sendi hann okkur einn slíkan og það var Guðrún Jónsdóttir Stígamótakona sem talaði í Kastljósi Sjónvarpsins. Þar var á ferð reynslumikill og vitur Samverji sem var algerlega hafinn yfir það að dæma heldur gat með visku sinni og reisn hjálpað okkur að staldra við hjá manninnum sem lá í götunni og vita hvernig við ættum að lyfta honum upp og koma honum til gistihússins.
Sem betur fer eru á öllum tímum í samfélagi okkar til miskunnsamir Samverjar. Það sem Jesús er að gera með því að setja Samverjann inn í söguna sína er að opna augu okkar fyrir því að Samverjinn getur verið úr öllum hópum. Hann getur allt eins komið af jaðrinum. Manneskjan sem við síst reiknuðum með að vildi vera til staðar fyrir aðra getur reynst vera hann. Persónan sem við búumst ekki við neinu góðu af vegna fordóma okkar getur einmitt verið miskunnsami Samverjinn. Við vitum að í samtíma Jesú voru Samverjar álitnir óhreinir og framandi.

Við höfum séð einn þolanda kynferðisofbeldis vera í mjög merkilegri stöðu á undanförnum árum, en það er Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, því hún hefur verið bæði í stöðu þess sem í götunni liggur vegna ofbeldisins en einnig í stöðu Samverjans. Það þarf mikinn styrk til þess að fara í bæði hlutverkin í eigin lífi og lifa það af með þeirri reisn sem Sigrún Pálína gerir. Maður finnur að núna þegar fólk skráir sig umvörpum úr Þjóðkirkjunni vegna skiljanlegrar reiði sinnar, þá á hún svo mikla grundvallar umhyggju fyrir kirkjunni sem hún þráir að tilheyra að hún gefst ekki upp við að ná eyrum manna í þeirri viðleitni að gera Kirkjuna heilli og sannari, eins og hún sagði í Kastljósviðtali á fimmtudaginn var. Hutverk Samverjans í dæmisögunni er að gera kirkjuna heilli og sannari. Sigrún Pálína gengur ekki úr kirkjunni fussandi og sveijandi og dæmandi. Hún vill tilheyra sinni kirkju og hún þráir að sjá heilbrigðið ná yfirhöndinni. Hversu stórkostlegt tækifæri er það fyrir okkur hin að vera samferða henni í því?

Af hverju getur fólk fengið svona sterka þrá til þess að þjóna og umvefja kirkjuna sína? Við gætum núna bara staldrað við og horft hvert á annað sem erum hér í kirkjunni í kvöld, vegna þess að við vitum þegar við hugsum með hjartanu hvaða gæði það eru sem valda því að við finnum svona til þessa daga og við þráum að kirkjan megi vera heil og sönn og gegna hlutverki sínu; Að kirkjan sé ekki á jaðrinum í samfélaginu heldur vinni verk miskunnsama Samverjans sem lyftir upp hinum fallna og kemur honum til byggða og sleppir ekki af honum hendinni fyrr en hann hefur náð fullri heilsu og réttri mynd af sjálfum sér. Þetta vitum við með hjartanu.

Ég vil deila því með ykkur kæri söfnuður að ég er stöðugt grátandi þessa daga, og það á við um okkur bæði hjónin. Í hjarta okkar er endalaus sorg. Og þegar við vorum að setja þessi orð niður á blað vorum við sammála um að innra með okkur skynjum við að við erum sem kirkja og samfélag komin að tímamótum sem í senn eru sár og brýn.

Árið 1996 fyrir fjórtán árum síðan höfðum við tækifæri þegar öll þessi sársaukamál komust í hámæli. En þá fórum við þá leið þegar búið var að færa gerandann í burtu að loka málinu og trúa því að nú myndi allt lagast af sjálfu sér. Slíkt heitir þöggun og óuppgerðar tilfinningar. Mörg sár orð höfðu verið látin falla og vond samskipti höfðu átt sér stað í angistinni innan kirkjunnar en við ákváðum að gera ekkert með það. Og í stað þess að við prestarnir hefðum setst niður og viðurkennt að við vorum öll gerendur og þolendur og ekki síður syrgjendur í þessu máli og þyrftum að hlúa hvert að öðru og viðurkenna vanmátt okkar, þá fór bara hvert á sinn stað og hélt áfram með verk sitt og eigin hugsanir og sáru minningar. Þetta er bara satt. Og þegar leiðtogar kirkjunnar síðan hafa tekist á við mál sem valdið hafa miklu umróti í samfélaginu eins og málefni samkynhneigðra þá hefur komið í ljós að við prestarnir megnum ekki að takast tilfinningalega á af heilindum vegna þess að það er svo margt óuppgert. Það hvílir svo mikill skuggi yfir okkur ekki síst vegna þess að við pökkuðum saman öllum sársaukanum frá ’96. Við settum, jú, á stofn fagráð og verklagsreglur til að tryggja að aldrei yrði aftur farið í svona þöggun og langvarandi sársauka, en við gleymdum að hugsa með hjartanu og við gleymdum að hlúa hvert að öðru. Við bara vonuðum að þetta væri allt saman farið. Þess vegna grátum við svona mikið núna, ekki fyrst og fremst af göfugum tilfinningum og ást á kristni og kirkju. Því miður. Og m.a.s. vitneskjan hræðilega að hafa valdið öðru fólki óbærilegum skaða með getuleysi okkar skorar ekki hæst í sársaukaskalanum, - allt er þetta jú til staðar því við erum ekki vondar manneskjur, en vanmátturinn sem öll þjóðin sér og finnur hjá okkur prestunum er fyrst og síðast af því að við erum að opna gamalt sársaukamál í okkar eigin lífi og þegar maður finnur mjög mikið til getur maður bullað og tafsað og einfaldlega ekki vitað hvað gera skuli.

Kæri söfnuður. Ástæða þess að við getum lifað í von og trú er sú að við eigum ekki bara verklagsreglur fagráðs um kynferðisofbeldi innan kirkjunnar, svo mikilvægar sem þær eru, heldur eigum við líka verklag Jesú sem við sjáum í persónu hans og öllu sem hann sagði. Það verklag að yfirgefa ekki náunga sinn heldur hlusta og vera til staðar af því að Jesús er til staðar. Loforð Jesú Krists er það að hann er nálægur: Sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar, sagði hann og það breytir öllu. Það er nálægðin sem öllu breytir, persónulega viðveran sem leiðir til vonar og trúar. Vegna Jesú sem tók á sig alla skömm og einsemd, vegna hans sem aldrei vék af vegi sannleikans fyrir okkar hönd, getum við þolað eigin vanmátt og vangetu náungans og þurfum ekki framar að hengja merkimiða óhreinleika og sakar hvert á annað.

Þegar við lesum sögurnar um Jesú þá er hann alltaf að aflétta skömm. Engin persóna í veraldarsögunni hefur gert jafn skilyrðislausa kröfu um að skömminni skuli aflétt í lífi fólks. Nú erum við að fá tækifæri til þess að verða við kröfu Jesú um að aflétta skömminni sem orðið hefur til í þöggun og óuppgerðum tilfinningum og óttanum við það að tala með hjartanu innan prestastéttarinnar í kirkjunni.

Tökum við því ljósi og verjum okkur ekki.

Amen.

mánudagur, 23. ágúst 2010

Börnin dæma kirkjuna

Þegar óviti er borinn til skírnar er sá verknaður einhliða yfirlýsing um ást og vernd. Frá félagslegu sjónarmiði eru það ástvinirnir og samfélag hinna fullorðnu sem ávarpa þá barnið í fyrsta sinn opinberlega með fullu nafni og lýsa yfir mannréttindum þess. Það er eitthvað hreint og satt, eitthvað sanngjarnt og upprétt við það að fyrsta opinbera ávarpið til hins nýfædda sé skilyrðislaus yfirlýsing um mannhelgi. Og sjálf viðvera safnaðarins og skírnarvottanna er loforð um að gera allt sem í mannlegu valdi stendur að skírnarbarnið hafi er fram líða stundir ástæðu til þess að vera upplitsdjarft og fullt tiltrúar á lífið.

Frá trúarlegu sjónarmiði er það líka frelsarinn Jesús sem ávarpar barnið í skírninni, tekur það í fang sér og heitir því nálægð sinni. Einhverjum kann að þykja það lítils virði en tökum eftir því að börn höfðu fullkomna sérstöðu í boðskap Jesú. Eina samhengið þar sem Guðspjöllin varðveita hótandi orðalag haft eftir frelsaranum er þegar hann tekur sér stöðu við hlið barna sem ekki geta borið hönd yfir höfuð sér. Þá ræðu má lesa í 18. kafla Matteusarguðspjalls en niðurlagsorð hennar eru þessi: „Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður að englar þeirra á himnum njóta jafnan návistar míns himneska föður."

Það er ekki guðsorðagjálfur þegar haft er eftir Jesú að hvert barn eigi sér engil. Skilið út frá heimsmynd Biblíunnar merkir það að þegar þú horfir í augu barns þá er Guð að horfa í augun á þér. Að kristnum skilningi eru það m.ö.o. börnin sem dæma heiminn.

Í þessari hræddu og dómsjúku veröld stendur frelsarinn Jesús og segir okkur að hætta að metast og óttast því að mátturinn liggi hjá hinum veika. Það eru börnin sem dæma heiminn, þú ert það sem þú ert í augum þeirra barna sem eiga afdrif sín og hamingju undir þér komna.

Hiklaust má segja að kjarni kristinnar trúar sé að lúta barninu. Þess vegna höldum við jól og segjum aftur og aftur sömu gömlu söguna um Guð sem fæðist blautur og blóðugur inn í heiminn og liggur grátandi með nýklipptan naflastreng í örmum ráðvilltra foreldra.

Sagan um barnið Jesú er kröfugerð réttlætisins á hendur heiminum á öllum öldum. Hún er krafan um að veröldin snúi hjarta sínu til barnsins og forsmái ekki þarfir þess því þær eru sannar. Þannig er manneskjan í varnarleysi sínu sett á dagskrá í barninu Jesú en í hinum krossfesta nídda og nakta Jesú er tjáð samlíðun með öllum þeim sem þjást um leið og sök valdsins sem þaggar og meiðir er auglýst.

Kirkjan er það sem hún er í lífi barnanna sem eiga skjól sitt undir merkjum hennar. Bregðist hún verndarhlutverki sínu munu brennandi augu sakleysisins hvíla á henni sem dómur þess efnis að hún sé ekki kirkja.

laugardagur, 10. apríl 2010

Hvernig skapast sátt?

Bjarni skrifar:
Nú kemur rannsóknarskýrslan út á mánudaginn.
Hlustum nú vel á viðbrögðin innra með sjálfum okkur og úti í þjóðfélaginu. Tökum eftir því hvort við sitjum föst í farvegi ásakana og sektarkenndar eða náum að þokast í átt að sáttinni.
Sátt skapast þegar fólk axlar ábyrgð á eigin lífi og gjörðum. Það mun verða óhjákvæmilegt að kalla einstaklinga til ábyrgðar en þó verður það gagnslaust ef þjóðin kannast ekki við heimsku sína og rangt gildismat sem bjó útrásarsvikunum jarðveg sinn.

þriðjudagur, 6. apríl 2010

Hernaður er hugleysi

Bjarni skrifar:

Hún hefur ólgað í mér reiðin síðan ég sá upptökuna af ódæði bandarísku hermannanna í Bagdad frá árinu 2007. Flestum er okkur eins innanbrjósts. Þarna urðum við vitni að þeirri þjálfuðu afmennskun sem er hluti af hernaðarmenningunni. Samskipti hermannanna voru ekki með öllu samviskulaus, þau báru með sér mönun og fálmkennda réttlætingu samfara einhverskonar fró. Ástandið í samskiptum þessarra firrtu manna var svona stutt innlit í helvíti.

Þá rifjast upp sök okkar Íslendinga sem viljugrar þjóðar. Sú sök hvílir á samvisku íslensks almennings og er sameign okkar.

Getum við séð fyrir okkur þjóðmenningu þar sem friður væri ræktaður? Getur ímyndunarafl okkar dregið upp mynd af íslensku samfélagi þar sem hernaðarmenningu væri hafnað með opnum hætti? Þar sem skólakerfið okkar, framleiðslan í landinu og verslun og þjónusta miðuðu að virðingu fyrir öllu lífi. Hver sá sem heimsækti landið yrði þess áskynja að hér væri þjóð sem dreifði valdi í stað þess að safna því. Að hér væri ræktað samtal og sóst eftir nýjum sjónarmiðum við ákvarðanatökur vegna þess að Íslendingar sæu gildi þess að safna upplýsingum og tengslum fremur en fjármunum. Menn myndu finna virðing okkar fyrir náttúru landsins og gleðina yfir gæðum þess. Að hér byggi þjóð sem væri þakklát og væri í sífellu að þróa mér sér færni í friði.

Friður er ekki átakaleysi. Friður er stríðandi ferli í átökum hversdagsins. Friður krefst meira hugrekkis en nokkurt stríð. Enginn myndi halda því fram að þessir ógæfusömu hermenn sem frömdu fjöldamorðin í Bagdad hefðu sýnt hugrekki. Bleyðuskapur er einkenni nútíma hernaðar. Þeir sem gefa skipanirnar voga engu, eru víðs fjarri. Og nú hefur tekist með nýrri tækni að einangra þolendur árása með þeim hætti sem við urðum vitni að svo að eymdin verði alger. Óvinurinn andlitslaus og vanvirða eyðileggingarinnar svívirðilegri fyrir vikið.

En er þess að vænta af þjóð sem ekki hefur kjark til að horfast í augu við þátt sinn í eigin gjaldþroti. Þjóð sem vill ekki kannast við að hafa skapað andrúm græðgi og spillingar sem leiddi hana í þrot en bíður þess í ofvæni að aðal gerendurnir verði leiddir út í bödnum svo að hún geti snúið sér að sömu iðju með sama veiklaða hugarfarinu. Er von til þess að slík þjóð hreki af sér slíðruorðið og líti á frið sem valkost? Friður er ekki valkostur hins huglausa. Hann verður að fara í stríð og bindast hernaðarbandalögum. Hinn huglausi er alltaf að bíða eftir einhverri einfaldri lausn sem leysi hann undan núningi veruleikans. Því stærri sem lausnin er því betri finnst honum að hún muni vera. Hvort sem það er stóriðja eða herþotuleiga eða hvað annað sem er nógu frekt og orkudrifið, þá hljóti það að vera gott.

Við Íslendingar stöndum á meiri krossgötum en við gerum okkur grein fyrir. Eftir hundrað ár verða rýndar og ræddar þær ákvarðanir og það andrúmsloft sem við erum í þann mund að móta. Við eigum stórkostlega leiki á borði. E.t.v. hefur engin þjóð nokkru sinni haft jafn mögnuð tækifæri til að læra af reynslu sinni og breyta háttum sínum til góðs. Til þess höfum við allar forsendur vegna menntunarstigs okkar, gagnsæis samfélagsins og margra annarra þátta. En það sem stendur gegn okkur er hið huglausa hugarfar „hinna viljugu" sem hrjáir okkur meir en nokkurt auraleysi.

sunnudagur, 28. mars 2010

Biðröð er skilaboð

Svona prédikaði Bjarni í dag:

Veistu hvert var fyrsta verk Jesú Krists þegar hann hóf starf sitt? Hann stóð í röð. Ég fór að hugleiða þetta í samhengi við umræður síðustu viku um raðir sem fólki er boðið upp á að standa í til þess að þiggja mataraðstoð.
Guðspjöllin greina frá því að margir komu til Jóhannesar að fá iðrunarskírn í ánni Jórdan. Menn hafa staðið í röð og beðið eftir að kæmi að þeim. Svo stendur Jesús þarna dag einn og það er komin að honum í röðin. Það er hálf kindugt að sjá Jesú fyrir sér standandi í röð, bíðandi. Ekki beint Jesúlegt finnst manni við fyrstu tilhugsun. En hann hefur staðið þarna og beðið eftir að kæmi að honum, og það rímar við síðari ritningarlestur dagsins: “Hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.” (Fil. 2.6-7) Matteus segir svo frá viðbrögðum Jóhannesar er hann sér Jesú: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!” Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.” Og Jóhannes lét það eftir honum.” segir guðspjallamaðurinn. (Matt. 3. 13-15)

Þannig hófst starfsferill frelsarans á því að hann beið í röð. En það er því merkilegra að aldrei virðist Jesús hafa búið til neinar raðir í sínu starfi. Hans nálgun var einhvernvegin alltaf þannig að hann ýmist var á ferðinni, gangandi langar vegalengdir, komandi inn í nýjar og nýjar aðstæður. Eða þá hann sat umhverfis borð og það var verið að matast og ræða saman. Iðulega talaði hann við marga í einu, greip atugasemdir sem komu fljúgandi og gerði þær að umtalsefni handa öllum sem voru með. Hann heimsótti fólk, hafði frumkvæði að því að ræða við sjúka einstaklinga, heyrði bælt hróp af vegarkanti eða kom auga á mann uppi í tré og bað um samskipti. Og þegar hann gaf mat þá fengu allir í einu og urðu mettir! Það er engin röð í mettundarfrásögunni en tekið fram að þar var mikið gras til að sitja í. (Jóh. 6.10) Sagan um það þegar Jesús er kallaður í hús forstöðumannsins vegna andláts er dæmigerð. Hann er beðinn um að koma og hann leggur samstundis af stað. Þá kemur kona ein aftan að honum í mannfjöldanum og snertir hann til þess að þiggja lækningu, en hún hafði haft blóðlát í 12 ár. Hún hlýtur sína bót og áfram skundar Jesús áleiðis í næsta verkefni þar sem hann gefur barninu lífið að nýju. (Matt.9.18-26)
Ekkert er fjær starfsaðferðum Jesú frá Nasaret en biðröðin. Hans aðferð var öll í hreyfingunni, engar raðir, ekkert hik eða bið.
Öll höfum við staðið í biðröðum. Það er eitthvað við biðröðina sem óvirkjar mann. Maður er verikfæralaus og valdaður á meðan staðið er í röð. Þess vegna eru raðir t.d. mjög mikilvægar í allri hernaðarmenningu. Þar standa menn helst endilega í röðum og ganga líka í röðum milli staða. Það er vitanlega gert vegna þeirra sálrænu áhrifa sem raðir hafa á fólk. Raðir ræna mann einstaklingseðlinu og búa til númer.
- „Þú ert númer 7 í röðinni” segir röddin í símanum. Og þá veistu það. Allt í einu ertu kominn í röð og þig langar að bíta í símtólið. - Stundum höfum við auðvitað enga lausn aðra en biðröðina, en það er samt staðreynd sem ekki verður móti mælt að því þunglamalegra sem manlífið er, því lengri verða raðirnar. Það þekkjum við úr mannkynssögunni. Langar raðir eru jafnan skilaboð um máttleysi og skort, þær draga bitið úr fólki og bera vitni um skort á hugmyndaauðgi. Raðir verða til vegna óskilvirkni. Biðröð er stífla, hún er skortur á streymi. Og svo er líka mjög gott að nota biðraðir til að tjá vald. Biðraðir inn á læknastofur eru dæmi um svona vitleysu. Það geta allir skipulagt tíma sinn, líka læknar. Biðröðin vinnur gegn tilgangi læknisins því hún dregur heilsuna úr sjúklingnum með því að hún eykur á vanmátt hans. Sá sem ætlar að ná heilsu verður fyrst að vera viss um að hann vilji og geti verið við stjórnvölinn í eigin lífi og það er ekki gott að byrja heilsuáhlaupið með því að hanga í röð. Því hygg ég að Jesús hafi jafnan verið á ferð og lagt upp úr því að hitta á fólk með þeim hætti að hann efldi það til valda í eigin lífi. Flestar lækningasögurnar enda á því að Jesús segir eitthvað á þessa leið: „Trú þín hefur læknað þig, farðu í friði!” M.ö.o. Þú ákvaðst að þiggja heilsu þína og þess vegna fékkstu hana. Haltu nú sterkur áfram!

Guðspjall dagsins (Jóh. 12.1-6) greinir frá Jesú við kjöraðstæður. Hann er í mat heima hjá vinum sínum í Betaníu á laugardagskvöldi, daginn fyrir pálmasunnudag. Enginn að bíða, allir að njóta samveru og matar. Þá gerist þessi óvenjulegi atburður að María vinkona hans tekur pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smyr fætur Jesú og þerrar þá með hári sínu. „En húsið fylltist af ilmi smyrslanna.” Segir orðrétt. Svona smyrsl kostuðu formúgu.
Við vitum að Jesús vissi að brátt yrðu dagar hans taldir. Það vissu ekki þau sem með honum voru, þótt hann hafi ítrekað verið búinn að reyna að segja þeim það. E.t.v. var María sú eina sem skynjaði stöðuna rétt. Það er þannig með ástina að hún er hugmyndarík og lausnamiðuð. Ef þú elskar þá finnur þú leiðir til þess að segja það, jafnvel þótt þú vitir ekki hvernig á að fara að því. Ástin sættir sig ekki við hindranir og takmarkanir. Það er falleg mynd sem dregin er upp í guðspjallinu þegar María smyr fætur Jesú með ilmandi smyrslum og þerrar svo með hári sínu. Falleg og einhvernvegin svo brilljant aðferð til þess að segja eitthvað sem öllu skiptir, segja allt án þess að mæla orð af vörum. Og þá gerist það sem alltaf gerist þegar mikið er gefið. Einhver hneykslast. “Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjúhundruð denara og gefin fátækum?” Þá vitum við það, smyrslin kostuðu þrjúhundruð dagsverk. Hér hafði María s.s. hellt heilum árslaunum verkamanns yfir fætur Jesú og þerrað með hári sínu! Og það er tekið fram að það var Júdas Ískaríot sá sem síðar sveik Jesú sem sagði þetta og að hann hafi í raun ekki sagt þetta vegna umhyggju sinnar fyrir fátækum heldur vegna eigin ágirndar á fé.
„Láttu hana í friði.” svaraði Jesús „Láttu hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“

Þetta andsvar Jesú hefur verið notað gegn fátæku fólki í aldanna rás með því að segja að Jesús hafi fullyrt að það yrði alltaf til fátækt fólk. „Fátæka hafið þið ávallt hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.”
Getur verið að Jesús hafi með orðum sínum einmitt verið að ávarpa þetta viðhorf til lífsins sem tryggir að fátækt muni alltaf blómstra hvernig sem árar? Viðhorf stífninnar og hugmyndaleysisins sem býr til endalausar biðraðir, viðhorf nægjuseminnar sem snúið er að öðru fólki á meðan lifað er í óhófi. – ‘Aðrir skulu spara og erfða á meðan ég get lifað í ofneyslu.’ Getur verið að Jesús hafi verið að segja við Júdas og okkur hina svikarana alla saman að á meðan við höfnum réttlætinu og jöfnuðinum muni fátækir ætíð vera á meðal okkar með allri þeirri eyðileggingu sem fátæktinni fylgja? Ég skil þessi orð þeim skilningi.

María var sú eina sem var með á nótunum ríki Guðs þetta laugardagskvöld í Betaníu og gat lifað í takti við það. Hún skildi eðli hinnar guðlegu sóunar ef svo má að orði komast. Guð er alltaf að sóa gæsku sinni og ríkdómi á okkur en við gerum ekkert nema að nurla og safna og metast. Lífið streymir til okkar úr öllum áttum og tækifærin blasa við, en við viljum ekki sjá og ekki heyra. Þess vegna kreppir að á öllum sviðum.

Við Íslendingar erum t.d. alveg óvart einhver ríkasta þjóð í heimi. Við lifum í stórkostlegu landi sem býr yfir slíku aðdráttarafli og orku og auðlindum að því verður ekki með orðum lýst en við bara höfum ekki smekk fyrir því. Okkur var gefið meira en nokkurri annari þjóð, og núna þegar skortur er fyrirsjáanlegur á landrými, vatni og fæðu í veröldinni og ekkert land á hnattkúlunni hefur viðlíka stöðu og Ísland, þá erum við bara að rífast og bölsótast og erum ferlega óánægð. Við höfum fengið að mennta okkur og ferðast um allan heim og eiga tengsl og samskipti við allar þjóðir og menningarheima, en við erum fyrst og síðast alveg ferlega skúffuð. Já, við erum bara svo ægilega niður dregin af því að það er búið að fara svo illa með okkur að við getum bara ekki á heilum okkur tekið.

Hér á eftir mun hún Friðlín Björt Ellertsdóttir ganga upp að altarinu til þess að fermast. Hún ætlar að svara sjálfri spurningu lífsins, hvort hún vilji hafa Jesú Krist sem leiðtoga sinn. Það er ekkert leyndarmál að hún og hennar fjölskylda gekk í gegnum þá erfiðu reynslu í vetur að Friðlín varð fyrir bíl hér á Sundlaugaveginum og það er mikil Guðs mildi að hún skuli vera heil hér á meðal okkar. Friðlín! Ég veit að það er horft á þig með miklu þakklæti í dag. Þakklæti fyrir líf þitt og heilsu, að þú skyldir varðveitast og það að þú skulir vera sú yndislega manneskja sem þú ert. Hvað veldur því að fjölskylda sem verður fyrir öðru eins áfalli og þið urðuð fyrir í vetur skuli samt sitja hér í hjartans þakklæti og gleði? Ástæðan er sú að í gegnum raunirnar komust þið að því hvað lífið er dýrmætt. Þið leyfðuð atburðarás lífsins að sýna ykkur hve mikið ykkur hefur verið gefið. Þið tókuð við lífinu, þáðuð batann og sigurinn úr Guðs góðu hendi. Skelfingin snérist í von og angistin í sigur. Svona starfar Guð. Og einmitt svona vill hann líka starfa meðal Íslenskrar þjóðar að við hleypum voninni að og komum auga á allt það sem við eigum og höfum og kunnum að meta það og deila því hvert með öðru.

Amen.

sunnudagur, 14. mars 2010

Hugarafl og lögmál rausnarinnar

Svona prédikaði Bjarni í dag:


Ég er heiðarlega stoltur af unglingunum okkar hér í kirkjunni og hverfinu og bara á landinu öllu. Á fimmtudagskvöldið síðasta var t.d. haldin góugleði með góðum mat, skemmtiatriðum, söng og dansi í félagsmiðstöðinni að Dalbraut þar sem margt eldra fólk býr. Þar komu m.a. ungir sveinar úr 10. bekk Laugalækjarskóla til að syngja og leika fyrir fólkið. Þeir kalla sig Lækjarbræður og eru alveg endalaust fyndnir og flottir og þeim fylgdi svo mikil hlýja og gleði að ein góð kona sem komin er yfir hundrað árin sagði mér að hún vildi endilega kynna langömmustelpurnar sínar fyrir þessum ungu mönnum. Sama dag var glæsilegur hópur unglinga á okkar vegum í félaginu Adrenalíni gegn rasimsa á kayakæfingu í Laugardalslauginni á um það bil sem samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru tilkynnt í Þjóðmenningarhúsinu og var Adrenalínfélagði í hópi fimm aðila sem tilnefndir voru í flokkinum til atlögu gegn fordómum. Formaður sóknarnefndar mætti fyrir okkar hönd og tók við tilnefningunni. Í Adrenalínstarfinu eru nú um 40 unglingar af margvíslegu bergi brotnir sem eiga það sameiginlegt að vilja bæta heiminn með vináttu og gagnkvæmum skilningi.

Ég var líka sérlega sáttur þegar ég vissi að samstarfshópurinn Hugarafl fengi aðal viðurkenninguna í okkar flokki því ég hef lengi fylgst með hugsjónastarfi Auðar Axelsdóttur og samherja hennar þar sem gengið er út frá þeirri hugmyndafræði í þjónustu við geðsjúka að notendur þjónustunnar séu í beinni samvinnu við fagfólk á jafnréttisgrunni. Þar er forsjárhyggju í samskiptum hafnað en gengið út frá því að hver og einn sé ábyrgur í eigin lífi og þekki sjálfur sínar þarfir. Í stað þess að horfa á sjúkleika fólks er horft til styrkleika þess. Í stað þess að mæna á hindranir er hugað að lausnum í samvinnu allra sem í kringum einstaklinginn standa.
Hjá Hugarafli er spurt eins og Jesús spyr Filippus þegar hann lítur upp í guðspjalli dagsins og sér mannfjölda koma til sín: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?” (Jóh. 6.5)
Hvar eigum við að kaupa brauð? Í huga Jesú var setningin: „Þetta er bara þitt vandamál!” ekki til. Eða getur þú séð Jesú fyrir þér halda ræðu yfir fólkinu og segja: „Þið eruð nú meiru kjánarnir. Æðandi út í óbyggðir í fyrirhyggjuleysi! Sannlega, sannlega segi ég ykkur, þetta er ykkar vandamál!”? Nei, einhvernvegin er þessi sena mjög úr dúr við anda guðspjallanna. Enda gefur Jóhannes lesandanum þær upplýsingar að Jesús sagði þetta til þess að reyna lærisveininn Filippus, en sjálfur vissi hann hvað hann ætlaði að gera. Filippus svaraði eins og ég hefði sennilega líka gert. Hann fór að leggja saman í huganum hvað kostaði að gefa nokkur þúsund manns að borða, fór svo yfir eignastöðuna og svaraði með mjög ábyrgum hætti: „Brauð fyrir tvöhundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.” (v.7)

Hjá Hugarafli er ekki hugsað svona. Þar á bæ er ekki litið svo á að 2+2 séu nauðsynlega 4. Þess vegna fengu þau viðurkenningu Fréttablaðsins undir liðnum til atlögu gegn fordómum. Það er ekki hægt að reikna sig út úr vítahring fyrirfram gefinna hugmynda, fordóma. Það er ekki hægt að feta sig tæknilega og faglega frá óttanum við skort og einsemd, sem er rót allra fordóma. Ég heyrði forstöðukonuna Auði Axelsdóttur eitt sinn lýsa því á stórum fundi er hún hafði undirbúið komu hjúkrunarfólks inn á heimili þar sem þörf var á þjónustu en langvarandi vanlíðan hafði einangrað viðkomandi frá umheiminum svo að það tók tíma að ávinna traust og persónulegan trúnað til þess eins að heimilisfólk gæti þegið þá þjónustu sem þörf var á. Nú var dagurinn kominn þegar hjúkrunarfólk skyldi heimsækja og búið var að baka og færa heimilið í stand til að taka höfðinglega á móti gestum. Dyrabjallan hringdi um það bil sem kveikt hafði verið á kerti á elhúsborðinu, dyrnar opnuðust og inn gengu tveir fulltrúar heilbrigðiskerfisins. Þeir staðnæmdust í fordyrinu. Tóku upp úr pússi sínu eiturbláar skóhlífar sem smellt var undir áður en gengið var með nokkru fasi inn í íbúðina, þegið sæti, tekin upp mappa og spurt: “Hvert er ykkar vandamál?”

Þar með var með afgerandi hætti búið að koma því á hreint að hér mættust tvær tegundir fólks, skjólstæðingar og fagfólk, sem ekki væru hluti af veruleika hvert annars. - Hvert er ykkar vandamál?!

Spurning Jesú var aldrei þessi. Hann spurði öllu heldur: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?” (Mark. 10.51) Þjónusta Jesú frá Nasaret var notendastýrð en ekki hlaðin forsjárhyggju.

Þegar Filippus hafði lokið sínum útreikningum og túlkað niðurstöðurnar öllum í óhag kom annar lærisveinn, Andrés og segir við Jesú: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska.” (v.9)

Sérðu fáránleikann í þessu? Þarna voru fleiri þúsundir manna saman komnar. - „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska.” -
Og ég sé fyrir mér barnið rétta fram pokaskjattann sinn með brauðinu sem mamma hafði bakað og fiskunum sem frændi hafði veitt og hann vissi eins og öll börn að nestið að heiman er besta nesti í heimi. Andrés stendur þarna við hlið drengsins en kemur svo til sjálfs sín og bætir við: „En hvað er það handa svo mörgum?” (v.9) Orðrétt stendur: “Jesús sagði: ‘Látið fólkið setjast niður.’ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.”

Á þessm árum var látið duga að telja karlana eina, við virðum löngu liðnu fólki það til vorkunnar. En þarna hafa sjálfsagt verið konur ekki síður og jafnvel börn. En missum nú ekki af aðal atriðum málsins...
Tvennt skiptir hér mestu.
Jesús tekur matvælin og gerir þakkir og fólk fær svo mikið sem það vill.

Hér birtist annars vegar þakklát afstaða til gæða lífsins, og hins vegar valdeflandi nálgun við fólk.

Þakklæti og valdefling!

Svona gera þau alla daga í Hugarafli. Líka í Gauraflokknum í Vatnaskógi sem vann samfélagsverðlaun Fráttablaðsins í flokki sem nefndur er frá kynslóð til kynslóðar. Og um hvað snýst starf Slysavarnarfélagsins Landsbjargar annað en þakklæti og virðingu fyrir lífi fólks og stuðning við fólk í neyð til þess að ná aftur valdi á lífi sínu? Landsbjörg hlaut einmitt aðal verðlaunin þetta árið fyrir sitt frábæra starf. Eða hefur þú hitt hann André Bachmann sem var útnefndur hvunndagshetjan í þessari sömu afhendingu? Það er þess virði að taka strætó bara til þess að sitja í hjá honum þegar hann er að keyra að ekki sé talað um að koma þegar hann er að skemmta. Frá honum streymir þakklæti til lífsins og allir skynja að hann ætlar ekki að taka völdin af neinum heldur vill hann fólki einfaldlega vel, og einmitt þess vegna skapar hann gleði og bjartsýni í kringum sig.

Í pistli dagsins segir Páll: „Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. [...] Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu ávallt hafði allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka.” (2. Kor. 9. 6 og 8)

Nei, 2+2 eru ekki nauðsynlega 4. Enn dýpra í veruleikann heldur en lögmál stærðfræðinnar er grópað lögmál rausnarinnar. Æðsta tákn rausnarinnar er fórnargjöf Jesú Krists er hann gaf líf sitt á krossinum svo að við mættum lifa. Það er fórnargjöfin, það er rausnin sem liggur lífinu við hjartastað. Barnið í sögu þessa sunnudags var með á nótunum. Við skulum gefa gaum að börnunum okkar og unglingunum. Drengurinn í Guðspjalli dagsins er fulltrúi hinnar himnesku rausnar sem er raunsærri á eðli veruleikans heldur en nokkurt exelskjal. Því segi ég við okkur öll í Jesú nafni: Líttu upp og sjáðu, það er engin kreppa!

Amen.

sunnudagur, 7. mars 2010

Sjöundá er frábær sýning!

Bjarni skrifar:

Ég var að koma af sýningu Halaleikhópsins á verkinu Sjöundá og get ekki orða bundist að hvetja fólk til leikhúsferðar. Það voru fermingarbörn Laugarneskirkju sem venju samkvæmt fengu sérstaka sýningu á Æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar og þau sátu nelgd undir þessum tæplega tveggja tíma flutningi því efnistökin höfða til allra. Sjöundá er leikgerð á Svartfugli Gunnars Gunnarssonar sem árið 1929 var metsölubók er verkið fyrst kom út í Danmörku. Ágústu Skúladóttur og Þorgeiri Tryggvasyni hefur tekist vel upp ásamt leikhópnum sjálfum að vinna fram þetta verk og enn bætist fjöður í hatt Halaleikhópsins sem á heiður skilinn fyrir frammi stöðu sína.

laugardagur, 6. mars 2010

Nei með særðri samvisku

Bjarni skrifar:
Ég var að koma af kjörstað og sagði Nei. Vil nú gera grein fyrir atkvæði mínu.

I
Ég álít rétt að koma á kjörstað þegar til þess er boðað af þeirri ástæðu að lýðræðið er kjarni þjóðskipulags okkar. Þó virðist mér nú málum svo komið við þessa fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin er í framhaldi af synjun forseta að deiluefnið sé orðið að áhaldi í höndum þeirra sömu afla sem lögðu fjármálakerfi landsins á hliðina. Og eina ferðina halda þau um taumana. Þjóðin er hvött að kjörborði í einhverskonar herhvöt gegn erlendu valdi sem koma vilji okkur á kné, þegar hinir raunverulegu andstæðingar hagsældar og velferðar íslensks almennings eru hvorki Bretar né Hollendingar.

II
Hitt hefur mér orðið ljóst að ef við ekki höfnum Icesave lögunum í þessu kjöri þá muni þau taka gildi og úr því sem komið er væri það óráð. Tapið af biðinni er orðið svo mikið að við verðum að halda áfram í þeim samningafarvegi sem við erum og vona að samningar náist svo að hægt sé að snúa sér að hinu raunverulega verkefni; að sætta þjóðina. Það er ekki flókið að brjóta niður og skapa glundroða en sáttaferli er flókið og viðkvæmt, og valdið sem í sífellu safnar sjálfu sér og skarar eld að eigin köku á enga hagsmuni tengda sátt og samtöðu almennings, nema ef vera kynni að hann sameinaðist enn og aftur í einhverskonar þjóðarhroka, eins og nú er ýtt undir.

III
Vandi íslenskrar þjóðar er ekki fyrst og síðast fjárhagslegur. Við erum fólk sem numið hefur land en veit ekki enn hvort það vill lifa í þessu landi. Við erum fólk sem stofnað hefur lýðveldi en veit ekki hvort það ætlar vera þjóð. Þegar við tölum um ríkið, þá meinum við ekki okkur sjálf. Við eru ekki ríkið. Við höldum lög og reglur ef annað er ekki í boði. Á ytra borði erum við borgarar í ríki en hið innra erum við utangarðsmenn. Það er innbyggt í þjóðarvitund okkar að frá öndverðu að blóta á laun, stela undan skatti og hygla okkar nánustu. Og þegar sigurvegaramenning hinnar öfgafullu frjálshyggju barst til landsins undir lok síðustu aldar þá lét glamur hennar ljúft í eyrum okkar vegna þess að okkur skorti bæði þroska og siðvit. Því fór sem fór.

Bjartur í Sumarhúsum er persónugervingur þessa vanda. Hans hús stóð uppsteypt og autt í auðninni eins og húsin í borginni okkar og sú skepna sem honum stóð fjærst var mjólkurkýrin vegna þess að hann hafði í raun ekki lyst á lífinu. Heiðin, vergangurinn og blint bjargarleysið voru örlög hans og þeirra sem voru dæmd til að binda trúss sitt við hann.

IV
Núna á meðan við, íslenskur almenningur, sitjum við skjáinn og spáum í niðurstöður kosninganna og veltum fyrir okkur framhaldi mála er baráttan um Ísland háð utan við sjónarsvið okkar. Við vitum ofur vel að við erum rænd og rupluð þjóð og við vitum að persónur og leikendur í því drama eru ekki stjórnvöld annarra landa heldur höfum við svikið okkur sjálf og hafið upp einstaklinga sem hlutu að leika okkur með þeim hætti sem raun er á. Við höfum gert blygðunarlausar eignatilfærslur í sjávarútvegi í nafni samkeppni vitandi að það var fákeppni. Kvótakerfinu var ætlað að tryggja skynsama nýtingu auðlinda og skapa öruggan rekstrargrundvöll sem öllum kæmi til góða. Fyrra markmiðinu hefur á vissan hátt verið náð en á kostnað þjóðarsamstöðunnar vegna þess að það brýtur á almennu réttlæti. Við höfum afhent útvöldum gæðingum fjármálakerfið að gjöf í nafni sömu samkeppni og uppgötvuðum m.a. ekki fyrr en eftir á að gjöfinni höfðu í ógáti fylgt þjóðargersemar helstu myndlistarmanna landsins. Því kyngdum við vitaskuld eins og öðru. Við höfum unað því vel að þúsundir samlanda okkar hafa lifað við sára fátækt fyrir augum okkar meðan á þessu öllu stóð og látið okkur vel líka. Á sama tíma hefur landið með mannauði sínum og náttúruauðlindum orðið að hugsanlegri hagkvæmri rekstrareiningu í augum aðhringja sem gjarnan hafa viljað horfa til framtíðar með okkur, virkjandi hverja sprænu og kreistandi úr bergrunninu hverja kílóvattstund sem þar mætti finna. Þjóð sem svona fer að ráði sínu á ekki skilið að eiga land. Þjóð sem veit ekki hvort hún elskar og virðir landið sitt getur ekki valdið slíkri gersemi sem Ísland er. Og hvernig á hún að standa saman þegar í raunirnar rekur þegar það eina sem hún trúir og treystir á er einstaklingurinn og séreignin? Þegar öll samskipti eru álitin vera viðskipti og ekkert annað, hvernig má þá búast við samtakamætti um nokkurn hlut nema þjóðarrembu?

V
Ég veit að mörgum sem mótmælt hafa Icesave-lögunum gengur gott eitt til. Ég er líka sannfærður um að forsetinn hefur farið að bestu samvisku í þessu máli. Indefence hópurinn meinar gott á heildina litið og raunar eru engar svarthvítar línur í mínum huga varðandi Icesave-málið því þar er sannast sagna ekkert gott og ekki hægt að gera neitt rétt. Stundum eru aðstæður þannig í lífinu að ekkert er rétt en nauðsyn krefst þess að eitthvað sé gert engu að síður. Stóri vandinn núna er hins vegar sá að baráttan um Ísland er háð utan við sjónarsvið almennings og þetta eina mál hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þeim efnum. Sömu hagsmunaaðilar og leiddu þjóðfélag okkar fram af brúninni eru sem óðast að taka við stofnunum og kerfum samfélagsins á ný. Spilavítinu hefur ekki verið lokað.

VI
Við íslendingar verðum að vakna af dvala okkar og gera upp við okkur hvort við ætlum að byggja þetta land. Við eigum það enn, auðlindir þess og okkur sjálf. Enn erum við lýðfrjálst land og höfum ekki selt frá okkur fjöreggið, þótt tæpt standi. Það þarf að lenda Icesave og það þarf að aflétta hremmingum fyrirtækjanna í landinu en um fram allt þarf að finna sanngirni gagnvart almenningi á meðal okkar þannig að byrðum sé deilt með jöfnuði. Það mun þurfa að færa niður skuldir og jafnvel gera eignatilfærslur svo að almenningur sjái tilgang með lífsbaráttu sinni. Sanngirni, heiðarleiki og hófemd eru lykilhugtök í þeirri báráttu.

Ég hefði ekki viljað þurfa að greiða atkvæði í dag undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja, vegna þess að ég óttast að atkvæði mitt verði notað til þess að rökstyðja frekari þjóðarrembu og þybbing sem skaðar ímynd okkar og eyðileggur meira en nokkur Icesave-samningur. Nú þurfum við að horfa í eigin barm og vinna sigurinn innan frá. Því segi ég nei við Icesave-lögunum með særðri samvisku og óttast að betur hefði verið heima setið en af stað farið.

Bjarni Karlsson

sunnudagur, 28. febrúar 2010

Dónavald

Prédikun dagsins:
Dónaskapur hefur alltaf virkað. Það er ákveðin aðferð í mannlegum samskiptum að beita dónaskap til þess að ná sínu fram. Þessi aðferð hefur margar hliðar en er samt í rauninni einföld. Jesús var snillingur í að afhjúpa dónahátt. Í dag fáum við að fylgjast með einstaklingi þola þrautreyndar dónaaðferðir í mannlegum samskiptum, og sagan er merkileg fyrir þær sakir að það er Jesús sjálfur sem beitir aðferðinni en niðurstaða samskiptanna verður sú að hann tapar en fórnalambið sigrar.

Sagan er skráð í 15. kafla Matteusarguðspjalls og aðdragandinn er sá að Jesús á í höggi við valdsmenn samtíma síns, farísea og fræðimenn. Þeir eru að argast í honum fyrir það að fylgja ekki tiltenknum hreinsunarsiðum Gyðinga út í hörgul sem vörðuðu handþvotta í tengslum við máltíðir, en Jesús svarar þeim og segir: “Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn sem út fer af munni.”(v.11)
Og þegar lærisveinarnir koma til hans eftir á og biðja hann að útskýra hvað hann átti við þá svarar hann: “Skiljið þið ekki að allt, sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? En það sem út fer af munni kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanum koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, lúgvitni, lasmælti. Þetta er það sem saurgar manninn. En það að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.”(v.20)
Þannig vildi hann að lærisveinarnir skildu að það eru ekki ytri reglur og aðferðir sem gera mann að góðum manni heldur er það afstaða hjartans sem úrslitum ræður. - Þú ert það sem þú hugsar og það sem þú vilt. Heilindi þín ráðast af ástæðum verka þinna. Hugsaðu út í hvers vegna þú gerir það sem þú gerir. Spurðu sjálfan þig hvað það raunverulega er sem knýr þig áfram. Græðgi, ótti? Eða umhyggja og virðing?

Nú, jæja.
Lærisveinarnir héldu að kennslunni væri lokið og vissu ekki að það voru bara frímínútur þegar þeir gengu af stað til byggða Týrusar og Sídonar eins og sagt er frá í Guðspjallinu. “Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: ‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” (v.22)

Það er þrennskonar dónaskapur sem virkar best. Þar er þöggunin efst á lista og hér gefur Jesús lærisveinum sínum sýnishorn af þessháttar hegðun:
‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” Hrópaði konan “En Jesús svaraði henni engu orði.” stendur í textanum. Og nú fáum við líkt og í falinni myndavél að fylgjast með siðferðislegum hrakförum lærisveinanna þar sem þeir óðara koma til Jesú, ganga hressir inn í andrúmsloft þöggunarinnar og segja: “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” (v.23)
Það er eitthvað notalegt við þöggun. Þetta að vera samtaka með mörgum um að sjá hvorki né heyra einhvern sem hrópar og gargar. Það er viss stemmning sem skapast. Einhvers konar samheldni, tegund af málfrelsi þótt bannað sé að tala. Tilfinning fyrir því að allt sé fína lagi. “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” Þeir voru búnir að sjá Jesú tala við allskonar lið. Nýlega höfðu þeir setið uppi með fleiri þúsund manns sem þurfti að gefa að borða af því það var orðið ósjálfbjarga útí í óbyggðum, og lærisveinarnir hafa vísast verið fegnir að sjá að Jesús gæti einhversstaðar dregið línu í sandinn gagnvart aðgangshörðum þiggjendum. Auk þess vissu allir að það var ókurteisi af konu að ávarpa karlmenn að fyrra bragði, og svo var ekki eins og hún væri Gyðingur. Þetta var kanverks kona. Útlendingur.

Nú var komið að annari aðferð dónaháttarins sem er sú að jaðarsetja fólk með því að tala um það þannig að það heyri. Jesús horfir á lærisveinana og segir þannig að ekki fer fram hjá neinum: “Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.” (v.24) Þvílíkur meistari! Í einni setningu var hann búinn að teikna upp yfirburði sína og þeirra allra gagnvart þessari konu. Þeir voru í sendiför, þeir voru á Guðs vegum, og erindi þeirra varðaði bara Ísraelsþjóðina en ekki þessa útlensku konu. Það þarf sanna meistara til þess að segja óþægilega hluti með snyrtilegum hætti. Nú hlaut konan að átta sig á stöðu sinni og hætta þessari þrákelkni. Ekki að furða að barnið hennar væri illa haldið eigandi svona stjórnlausa móður.

Þá segir: “Konan kom, laut honum og sagði: ‘Drottinn, hjálpa þú mér!’” (v.25)

Það er eitthvað varðandi samband foreldris og barns sem er heilagt. Foreldri sem biður fyrir barni sínu hefur allan rétt frammi fyrir Guði. Það er þannig. Bæn foreldris fyrir barni sínu er eitt af náttúruöflunum. “Drottinn, hjálpa þú mér!” mælti konan af stillingu en orðum hennar fylgdi undiralda réttlætisins, krafa lífsins. Konan lét aðferð tvö, jaðarsetninguna, ekki á sér hrína heldur bað fyrir barni sínu, stóð á rétti sínum og í hlutverki sínu, enda þótt hún skildi ekki hvað Jesús var að fara.

En kennslustundinni var ekki lokið og þar með ekki hlutverki kanversku konunnar sem fræðara. Enn urðu lærisveinarnir að sjá hvernig þriðja aðferð dónaháttarins er óvirkjuð og aftengd með hreinu hjartalagi, en sú aðferð er fólgin í þungbærum merkimiðum. Jesús svaraði: “Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.” (v.26)
Nú ætluðu lærisveinarnir vart að trúa sínum eigin eyrum. Þetta gat meistarinn. Hann gat verið harður við frekt fólk sem ekki kunni að haga sér! Hélt þessi kona virkilega að hún væri jafningi þeirra? Nei varla. Og hafi svo verið þá mátti henni vera ljóst að hún var... já, hann hafði sagt það sjálfur, svo þeir gátu bara notað orðið, það vissu svo sem allir hvað þessir útlendingar voru kallaðir, hún var bara....hundur! Já stundum þarf bara að segja hlutina eins og þeir eru! Svona gaggandi kellingar þurfa bara að fá það óþvegið! Gott hjá honum!

Þá talaði konan af sömu stillingu og áður, og það hefur vottað fyrir húmor og reiði er hún horfði beint í augu frelsarans og mælti: “Satt er það Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”(v.27)

Nei, nú kastar tólfunum! Hugsuðu lærisveinarnir. Nú verður Jesús að senda þessa konu öfuga frá sér. Hér er þetta endanlega farið yfir öll strik, hún hagar sér eins og það sé hún sem setji reglurnar hér en ekki meistarinn!

“Þá mælti Jesús við hana: ‘Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.’ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.” (v.28)
---
Lærisveinarnir höfðu haldið að Jesús væri í þeirra liði og víst var hann það en bara ekki með þeim hætti sem þeir höfðu búist við og vonað. Þeir vissu ekki að kanverska konan hafði komið inn á sviðið sem stundakennari svo að þeir fengju að verða vitni að samskiptum sem þeir þurftu að læra að tileinka sér. Því sjálfir áttu þeir eftir að kynnast þöggun, jaðrasetningu og orðaleppum valdsins í veröldinni. Þeirra beið margvíslegt mótlæti sem allir kynnast sem í raun ganga erinda réttlætis í heiminum. Höfum í huga að bara einn þessarra ungu manna átti t.d. eftir að ná gamals aldri. Einn af hópnum tók líf sitt í uppgjöf, tíu urðu píslarvottar trúarinnar, einungis Jóhannes lærisveinn varð aldraður maður eftir því sem sagnir herma. Hver var svo kennslan?

• Kanveska konan tók ekki við þögguninni því hún elskaði barnið sitt og tók ekki við fálæti sem svari því það var henni algerlega framandi.
• Þegar Jesús setti hana út á jaðar samfélagsins með þeim orðum að hann væri ekki sendur nema til samlanda sinna, þá kom hún bara nær. Jaðarsetning með ummælum í 3. persónu hreif ekki á hana því hún vissi að dóttir hennar sem var veik var engin afgangsstærð, barnið hennar var engin aukapersóna á leiksviði veruleikans.
• Og svo þegar Jesús greip þetta alþekkta hugtak sem Gyðingar notuðu um útlendinga og kallaði hana hund, þá gekk hún enn nær, laut honum og talaði á þann máta að ljóst var að ekki einu sinni freklegur dónaskapur með merkimiðum og orðaleppum gat hrakið hana af þeim grundvelli sem hún stóð á. Mennsku hennar varð ekki rænt með því að kalla hana nöfnum, reisn hennar sem persónu var ekki fengi að láni utan frá heldur bjó hún í hjartanu. Þess vegna varðveitti hún húmorinn og einbeitnina og mælti: “Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”

Og þegar lærisveinarnir héldu að nú væri hún endanlega búin að glata stöðu sinni, þá hafði hún einmitt staðfest kröfu sína og rétt sinn. “Kona, mikil er trú þín.” Mælti Jesús “Verði þér sem þú vilt.”
---
• Manstu þá tíð fyrir ekki löngu síðan að það tíðkaðist í þjóðfélagi okkar að hafa þögn um laun og um hlunninndi og um ferli í ákvörðunum? Þöggun var álitin mikilvægur liður í skilvirkni samfélagsins.

• Manstu þegar spurt var t.d. að óskiljanlegum ofurlaunum stjórnenda á þessum nýliðnu tímum þá var svarið þetta: „Almenningi kemur það ekkert við. Þetta er markaðurinn.” Þannig var allur almenningur settur á jaðar aðal veruleikans. Aðal veruleikinn var einungis ætlaður fáum og við kyngdum því ögn ringluð en skilningsrík.

• Manstu hvað menn voru svo kallaðir sem mótmæltu?

Þöggun, jaðarsetning og merkimiðar eru á öllum tímum aðferð valdsins sem safnar sjálfu sér. Og manstu hvað allur almenningur var í raun andaktugur í ótta sínum við þetta vald? Þetta vald sem í dag hefur sannast að var ekkert nema sýndarvald, dónavald.

Og nú erum við enn farin að heyra valdið tjá sig og segja að almenning varði ekki um þetta og komi ekki hitt við því þetta sé nú markaðurinn. Okkur varðar víst t.d. ekkert um laun manna í skilanefndum bankanna. Þetta er bara markaðurinn.

Kristin hugsun hafnar þessu hugarfari og krefst þess núna eins og á öllum tímum að tekið sé mark á mannlegum þörfum og almennu réttlæti.
• Kristin hugsun hafnar ósýnileika, ógagnsæi og leynd af því að það er dónalegt.
• Kristin kirkja krefst þess að enginn sé jaðarsettur því hún veit að veruleikinn er einn og við erum öll aðilar að honum.
• Kristinn siður hafnar líka útskúfuninni sem fólgin er í merkimiðum og orðaleppum vegna þess að Jesús setti líf og þarfir venjulegs fólks á dagskrá en afhjúpaði dónavaldið sem á öllum öldum er svo nægjusamt fyrir annarra hönd að því liggur við að tárast.

Amen.

sunnudagur, 21. febrúar 2010

Ekki þjónustupía heldur frelsari

Prédikun Bjarna í dag:

Það hittist skemmtilega á að konudaginn hér á Íslandi ber upp á fyrsta sunnudag í föstu þegar kristnir menn um allan heim hefja undirbúning páska með því að ganga í sjálfa sig og huga að eigin breytni. Tvær stórar og áhrifaríkar helgisagnir eru dregnar fram og fluttar í kirkjum; sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan af freistingunum í eyðimörkinni. Hinn gamli maður, Adam og Eva, kljást við veruleika óttans og illskunnar í fyrri sögunni, en í þeirri síðari sjáum við Jesú Krist birta hinn nýja mann, og þá nýju lífsmöguleika sem mannkyni bjóðast í glímunni við óttann í ljósi fagnaðarerindisins.

Freistingin er sú sama í báðum sögum. Í fyrri frásögninni eru þessi tvö tré, tré skilningsins og tré lífsins, og þau standa fyrir þessa merkilegu sammannlegu þrá eftir því að eiga heiminn með því að kunna skil á öllu milli himins og jarðar og geta svo líka lifað að eilífu. Já, það er hálf brjálæðingslegt en um leið fyndin staðreynd að í hverri einustu mannlegri sál skuli dyljast sú blákalda löngun að eiga helst allan heiminn! „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.” Segir freistarinn við Jesú í eyðimörkinni. Og hvert mannlegt eyra skynjar freistinguna, löngunina til þess að gera einmitt þetta lítilræði, falla sem snöggvast fram og tilbiðja freistarann til þess að eignast allan heiminn.

Það er magnað að tala um syndafallsfrásögnina á konudegi sökum þess að í þeirri syndahrunsfrásögn sem okkur er nærtækust í íslensku samfélagi í dag er ekki ein einasta kona í aðalhlutverki en í sögunni sem skráð er í 3. kafla 1. Mósebókar er það konan sem tekur frumkvæðið og karlinn fylgir.

Skyldi það vera tilviljun að þegar sköpunarsögurnar tvær sem mynda upphaf Gamla testamentisins eru lesnar þá er karlinum og konunni lýst sem jafningjum? Og ef eithvað er þá hallar heldur á karlinn Adam. Í fyrsta kafla segir Guð við sjálfan sig: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. [...] Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.” (1.Mós. 1.26-27) Maðurinn er þá karl og kona samkvæmt fyrri sköpunarsögunni. Karl og kona í jafningjasamskiptum, það er maðurinn.

Í síðari sköpunarsögunni sem skráð er í öðrum kafla Mósebókar er Adam einn á rangli þar til Drottinn Guð tekur hann og setur hann í aldingarðinn Eden „til þess að yrkja hann og gæta hans” segir orðrétt. (2.15) Og er hér komin fyrsta og æðsta starfslýsing í atvinnusögu mannkyns; yrkja og gæta. „Og Drottinn sagði: ‘Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.’” (2.18) Bent hefur verið á að hebreska hugtakið ‚ezer‘ sem býr á bak við orðasamhengið ‘meðhjálp við hans hæfi’ er á annað hundrað stöðum í GT notað um það þegar Guð grípur inn í aðstæður þjóðar sinnar. ‚Ezer‘ táknar þannig guðlegt inngrip eða hjálp að ofan en á ekkert skylt við þjónkun eða það að vera undir annan settur. Guð lætur djúpan svefn falla á Adam, tekur úr honum rif og fyllir aftur með holdi. „Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu sem hann hafði tekið úr manninum og leiddi hana til mannsins.” (2.22) Eva kemur þannig sem „ezer” eða frelsari inn í söguna en ekki sem þjónustupía svo að ekki er hægt að halda fram einhverri meintri kristilegri stigveldishyggju innan hjónabandsins á grundvelli síðari sköpunarsögunnar svo mjög sem hún þó hefur verið til þess notuð um aldirnar. Auk þess vekur athygli að sagan endar á því að lýsa búferlaflutningi karlsins til konunnar en ekki öfugt þegar til hjúskapar er stofnað þegar segir: „Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.” (2.24)

Á ég að segja ykkur hvers vegna ég endursagði syndafallsfrásögnina hér áðan í stað þess að hún væri flutt beint af Biblíunni? Ástæðan er sú að fólk misskilur hana almennt vegna þess að í gegnum aldirnar hefur rangtúlkunum verið haldið á lofti og þessi saga notuð til þess að auðmýkja konur, og ég gat ekki hugsað mér að láta alla foreldra sunnudagaskólabarnanna ganga hér yfir í safnaðarheimilið með söguna í höfðinu og allar þær fyrirframgefnu rangtúlkanir í hjartanu sem gera það eitt að eitra mannlífið. Það er ekki hægt að lesa syndafallsfrásögnina hráa af þeirri einföldu ástæðu að áróðursmaskína karlaveldisins er fyrir löngu búin að eyðileggja hana í hugum fólks. Við höfum lært að sjá fyrir okkur konuna sem framhleypna og heimska og Adam sem fórnarlamb aðgæsluleysis hennar. Og hlustaðu nú á orðaskipti Guðs við Evu og segðu sjálfum þér hvað þú heyrir:

„Mikla mun ég gjöra þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér.” (2.16)

Hvað heyrir þú? Heyrir þú ekki Guð lýsa yfir refsingu vegna óhlýðni konunnar og að sú refsing sé fólgin í líkamlegum þjáningum og yfirdrottnun karlsins? Og dregur þú ekki þá ályktun að Guð hafi ákveðið að karlar skuli ríkja yfir konum og líkama þeirra enda sé það það sem þær sjálfar vilji: „Samt skaltu hafa löngun til manns þíns” segir Guð „en hann skal drottna yfir þér.”

„Við Adam sagði [Guð]: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.” (2.17-19)

- Mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa segir Guð.
Við hverja einustu útför eru þessi orð endurtekin. „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” og nú spyr ég þig: lýkur þar því sem sagt er? „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” Eru þetta síðustu orin sem flutt eru yfir kistu látins ástvinar að kristnum sið? Nei, klárlega ekki. Moldinni er ekki ausið tvisvar, heldur er henni ausið þrisvar sinnum eins og vatninu yfir höfuð skírnarbarnsins. Þrisvar er vatninu ausið til lífs og þrisvar er moldinni ausið til lífs, vegna þess að heilög kirkja geymir í brunni visku sinnar vitneskjuna um það að Guð vill líf og frelsi og jöfnuð og fegurð og réttlæti og sannleika. Sannleikurinn um konuna og karlinn, veruleiki mennskrar tilveru er ekki fólginn í áhrínisorðum Guðs í syndafallssögunni, enda erum við stödd í fyrstu þremur köflunum á því mikla bókasafni sem nefnt er Biblía. Lífið er ekki fætt til að þjást heldur til þess að sigra. Líkaminn er ekki gerður til þess að auðmýkjast og meiðast heldur til þess að fagna og njóta. Hin sanna verklýsing mannsins á jörðinni er ekki erfiði og dauði heldur sú sem Adam var fengin í upphafi; að yrkja og gæta. Því er mælt yfir hverri einustu gröf og kistu: Af jörðu skaltu aftur upp rísa!

Frá því er sagt í helgisögninni um syndafallið að Guð neyðist til þess að reka Adam og Evu burt úr Paradís því að hann getur ekki treyst því að þau seilist ekki í ávöxt lífsins trés og lifi þannig að eilífu í ástandi syndarinnar. En áður en að brottrekstrinum kemur segir svo: „Og Drottinn Guð gerði skinnkirtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim.”
- Þetta er fyrsta merkið. Skinnkirtlarnir sem konunni og karlinum eru fengnir eru tákn um það að Guð hyggst leysa mannkyn undan valdi syndarinnar. Guð vill ekki andrúmsloft ásökunar og sektarkenndar, ástand þjáningar, undirokunar og erfiðis. Undirokun karla á konum er andstyggð í augum hans. Þjáning þín og mín er ekki það sem Guð óskar okkur. Allt heimsins ólán með sínum uppskeru- og aflabrestum, sjúkdómum, náttúruhamförum, hernaði, svikum og grimmd er ekki Guðs vilji. „Af jörðu skaltu aftur upp rísa!” segir Guð við sært og sundrað mannkyn.

En þær eiga það sameiginlegt helgisagnirnar báðar, sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan freistingunum í eyðimörkinni, að það er eitthvað varðandi vilja mannsins sem úrslitum ræður.
Freistarinn ávarpar og maður svarar.
Eva leit á tréð og Adam horfði á ávöxtinn en augu Jesú voru fest á Orði Guðs. Hvert og eitt brást við í ljósi þess hvar augu þeirra hvíldu.

Þú ræður augum þínum. Þú ræður hvert þú horfir. Hver sá sem iðkar bæn og lestur Guðs orðs og gerir það að daglegri iðju sinni er að taka ákvörðun um sín eigin augu. Og þegar augu okkar mæta augum frelsarans í reglulegri bæn og Orð Guðs stendur lifandi fyrir hugskotssjónum okkar af því að við höfum fest ást á því þá eignumst við meiri og meiri hlutdeild í hugarfari Krists, verðum frjálsari karlar og konur, upréttara fólk.

Amen.