laugardagur, 10. apríl 2010

Hvernig skapast sátt?

Bjarni skrifar:
Nú kemur rannsóknarskýrslan út á mánudaginn.
Hlustum nú vel á viðbrögðin innra með sjálfum okkur og úti í þjóðfélaginu. Tökum eftir því hvort við sitjum föst í farvegi ásakana og sektarkenndar eða náum að þokast í átt að sáttinni.
Sátt skapast þegar fólk axlar ábyrgð á eigin lífi og gjörðum. Það mun verða óhjákvæmilegt að kalla einstaklinga til ábyrgðar en þó verður það gagnslaust ef þjóðin kannast ekki við heimsku sína og rangt gildismat sem bjó útrásarsvikunum jarðveg sinn.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mótmæli svona umræðu harðlega! ´
Dónaskapur að bjóða almenningi upp á það að HEIMSKA hans og GILDISMAT hafi gert þjófnað, landráð og glæpi þessa fólks mögulega.
Við náum ALDREI sátt ef það á að bjóða okkur upp á svona umræðu.
Hún er ekki hvorki bjóðandi né kristileg.

Nafnlaus sagði...

Ja hérna hér. Ekki finnst mér það bjóðandi að okkur, almenning í landinu sé sagt að rangt gildismat okkar og heimska hafi stuðlað að hruninu. Segi nú eins og í innlegginu hér að ofan. Finnst þetta ekki fólki bjóðandi. Ef þið hins vegar viljið ræða kristilegan kærleika og fyrirgefninguna þá eruð þið kannski að tala eins og prestum sæmir.

Elísa sagði...

Takk fyrir að segja það sem segja þarf, og þora því.
Sannleikanum verður stundum hver sárastur og reiðastur. Íslensk þjóð verður að horfast í augu við sjálfa sig áður en haldið er áfram, öðruvísi breytist ekkert til batnaðar.

Nafnlaus sagði...

Ágætu nafnlausu athugasemdamenn. Með þessum orðum er ég einmitt að benda á þann vanda sem fólginn er í því viðhorfi sem þið tjáið. Stór hluti Íslendinga vill einfaldlega að lögbrjótum og svikurum verði refsað og svo skuli haldið áfram með sömu leikreglum og sama hugarfari. Ég undirstrkika að svik og lögbrot eru svik og lögbrot og við þeim á að bregðast með viðeigandi hætti. Ég skrifa þessi orð vegna þess að ég er einmitt að takast á við eigin reiði. Ég þarf að minna mig á að hrunið gerðist ekki í tómarúmi. Stórslys eru alltaf röð óhappa. Íslenska bankahurnið er mósaíkmynd af mistökum þar sem blandast saman heimska og rangt gildismat í banvænan koteil. Og hversu reiður sem ég get verið tilteknum einstaklingum og eftirlitskerfum vegna hrunsins þá verð ég samt að horfast í augu við að hér í okkar litla samfélagi skapaðist þessháttar jarðvegur að komist gat á það stjórnlausa ferli sem leiddi til bankahruns. Og ég fullyrði að ef við ekki sjáum hlutdeild okkar í þessu sem þjóð, þá erum við að tapa miklu. Við Íslendingar þurfum að skilgreina okkur sem sjálfstæða gerendur í eigin tilveru, við þurfum að tala okkur niður á þjóðarsátt í þess orðs breiðasta skilningi. Það mun okkur ekki auðnast á meðan við upplifum okkur fyrsta og síðast sem leiksoppa útrásarvíkinga og erlendra ráðamanna. Sterka sjálfsmynd eignast sá einn sem vogar að þekkja eigin veikleika og mistök og vera sífellt að læra.

b. kv.
Bjarni Karlsson

Nafnlaus sagði...

Sæll Bjarni,

Nú er ég búinn að gramsa svolítið í eigin hjartarótum og reyna að finna þátt minn í hruninu svo að skrúðkrimmar, þjóðníðingar og bankaræningjar þurfi ekki að bera byrðar sínar einir. Ég verð eiginlega að viðurkenna að það gengur bölvanlega. Ég hef aldei borist á, bý bara í minni litlu blokkaríbúð með minn 13 ára gamla bíl og horfi á verðbólgna lánið taka matinn út úr munni barna minna.

Og þar liggur hundurinn grafinn.

Bankinn sem olli þessum ósköpum heimtar að ég bæti honum það að hann sjálfur eyðilagði gjaldmiðilinn. Mennirnir sem tóku þessar ákvarðanir lifa í vellystingum í Lundúnaborg, mettir og með alla vasa útbólgna af þýfi. Þeir iðrast einskis og börnin þeirra munu aldrei líða skort. Af og til láta þeir birta við sig sjálfsvorkunnarviðtöl þar sem þeir kvarta yfir því að fólk heilsi þeim ekki lengur úti á götu.

Ég velti því fyrir mér hvað ég hefði getað gert öðruvísi. Hvaða samfélagslegu skyldu vanrækti ég?

Ég er sekur um að hafa ekki kallað á blóðuga byltingu. Ég er sekur af því að hafa ekki skotið þessa níðinga þegar fyrirætlanir þeirra og siðblinda lágu fyrir.

Ég hef hér með játað sekt mína og iðrast. Ég vona að næst hafi ég styrk til að gera það sem þarf að gera.

Með kærri kveðju,
Árni Kjartansson

Nafnlaus sagði...

Ágæti Árni

Mér líður einmitt svona. Kominn nær fimmtugu og veit að ég mun aldrei eiga nokkurn varasjóð og aldrei verða eigandi skuldlausrar fasteignar, og börnin mín munu vart þurfa að bítast um arfinn. Ég er einmitt maðurinn sem á túpusjónvarpið í stofunni sinni og bíllinn minn á 12 ára afmæli á þessum degi. Samt hef ég unnið mér til húðar og teflt heilsu minni ítrekað í tvísýnu vegna álags.
Ég hef gert það upp við mig að ég ætla að tilheyra Íslensku samfélagi þrátt fyrir allt og taka þátt í að byggja það upp. Ég vil gera allt sem í valdi mínu stendur til þess að barnabörnin mín fái að lifa í þjóðfélagi þar sem almenningur er ekki kerfisbundið hlunnfarinn eins og ætíð hefur tíðkast og náði sínu vitfirrta hámarki hér áratuginn í aðdraganda hrunsins. Sekt okkar, Árni, er einmitt sú að hafa látið sér á sama standa og ekki gegnið til verka eins og menn. Það hefði ekki þurft að skjóta neinn, það hefði bara þurft að standa saman um grundvallargildi réttlætis og jafnaðar og láta ekki blekkja sig og þagga. Ef við sem núna erum fullveðja í landinu eignumst ekki sameiginlega mynd af því þjóðfélagi sem við viljum byggja upp en eyðum kröftum okkar í einfalda reiði sem allir hafa nóg af, þá munu sömu öflin og komu okkur á kné halda áfram að taka landið frá afkomendum okkar. Baráttan um Ísland er bara í hálfleik. Öflin sem ætla sjálfum sér vatnsréttindini okkar, fiskinn, orkuna og mannauðinn og sjá fyrir sér rekstrareininguna Ísland sem góðan kost eru hvergi nærri af baki dottin. Reiður og æstur múgur er þeirra besta vopn. Þau hafa ágæta fjölmiðla í höndum sínum og mikið innsæi í eðli fjöldans. Þess vegna hvet ég til yfirvegaðrar andspyrnu þar sem beitt er aðferðum lýðræðislegs samtals og reglum réttarríksins og ef til átaka þarf að koma, sem ekki er óhugsandi, verða þau að vera friðsöm og byggja á innri samtöðu en ekki einfaldri reiði.

Bjarni Karlsson

Nafnlaus sagði...

Skýrslan mun segja það sem allir vita. En munurinn er sá að hún er svart á hvítu og gefin út af rannsóknarnefn Alþingis. Menn geta því vitnað í hana og haft hana sem bakbeinið í ákærum sínum. Hún mun einnig vera fyllingin upp í einkamála stefnur skilanefndanna og pískur á opinbera saksóknarann að höfða opinber sakamál.

Spurningin mín er hins vegar þessi: Af hverju er búið að bíða með það að lengja fyrningar fresti í 1,5 ár þegar allir vissu þá að mál gætu fyrnst áður en til stefnu og ákæru gæti komið?

Af hverju er ekki búið að gefa ríkisskattstjóra leyfi til þess að leggja hald á eignir útrásarvíkinga fyrr en nú, þegar ALLIR vita að þeir hafa flutt ógrynni fjár í skattaparadísir og flutt eignir á vini og skyldmenni með málamyndagerningum.

Unknown sagði...

Þakka þér fyrir þessi skrif Bjarni sem ég veit að eiga sér lítinn hljómgrunn í dag en eru nauðsynleg. Mig grunaði alltaf að óvandaðir fjárglæframenn mundu rústa bankakerfið og ég kynnti mér bakgrunn sumra þeirra og lýsti áhyggjum mínum opinberlega. Ég hefði átt að gera meira. Við hefðum öll betur verið gagnrýnni í hugsun og gjörðum. Við hefðum öll átt að vita að lausbeisluð efnahagsstefna og brjálæðisleg útrás sem engin skyldi gat ekki endað öðruvísi en illa en flestir skelltu skollaeyrum við viðvörunum úr ýmsum áttum og því kaus þjóðin yfir sig þessa stjórnarstefnu ítrekað. Réttindum fylgja alltaf ábyrgð og skyldur og það er þess vegna sem við sem lýðræðissamfélag verðum að líta alvarlega í eigin barm, hver og eitt sem einstalingar en líka sem samfélag fólks, ef við eigum að draga nauðsynlegan lærdóm af þessu. Ekki ég! ekki ég! Allir aðrir bera ábyrgð en ekki ég - er viðhorf sem skilar okkur ekki langt nú. Það eru kannski ekki ýkja margir sekir sem rétt er að dæma að lögum, nógu margir þó, en það eru mjög fáir meðal okkar alveg saklausir af því að tilheyra þessu lýðræðissamfélagi með þeim aðhaldsskyldum sem því fylgir fyrir okkur öll og sérstaklega okkr sem höfum haft kosningarétt og þegnskyldur sem þeim rétti fylgir. Gildir þá einu hvað við kusum sem einstaklingar en meirihlutinn valdi og þjóðin situr uppi með útkomuna. Rökræn umræða, siðferðiskennd og gagnrýnin hugsun held ég að hljóti að vera grunnur hins nýja og bætta þjóðfélags sem við nú þurfum að byggja upp saman.

Nafnlaus sagði...

Takk Sigursteinn. Nú verður okkur að takast að stíga sameiginlegt þroskaskref sem þjóð. Við þufum að yfirgefa hlutverk unggæðingsins í hópi þjóða og vinna fram raunhæfa sjálfsmynd á sama tíma og við komum okkur saman um megin línur í þeirri þjóðfélagsásýnd sem við viljum hafa. Þar mun heiðarleiki, ábyrgð og aukinn jöfnuður skipta miklu. Almenningur verður að að sjá og viðurkenna að ójöfnuður hefur vaxið langt út fyrir öll þolmörk í okkar litla samfélagi með mjög alvarlegum afleiðingum. En í stað þess að nota uppnámið sem nú ríkir til þess að krefjast réttlætis og lagfæra kerfisbundið ranglæti og doða þá horfir hver í sína pyngju.

Bjarni Karlsson