sunnudagur, 26. október 2008

Reiði

Þessa prédikun sömdum við og fluttum sunnudaginn 26. október 2008 í Vídalínskirkju og Laugarneskirkju.
Textar dagsins eru: I Mós. 18.20-21, Fil 3.17.-21 og Matt. 22.15-22


I
Þegar við tökum eitthvað sem er á okkar eigin valdi og gerum það að æðstu uppsprettu allra gilda þá höfum við goldið keisaranum það sem Guðs er. Á hinu forna tungutaki Bibliunnar heitir slíkt atferli skurðgoðadýrkun en á nútímamáli er það stundum kallað að baka sjálfum sér vandræði.
Hvort heldur það eru peningar eða þjóðerni eða hæfileikar einstaklingsins eða lögmál markaðarins eða hvaða aðrir þættir tilverunnar sem vera skulu sem við setjum á þann stall að vera æðsta uppspretta allra gilda þá erum við búin að baka okkur vandræði.
Í guðspjalli dagsins er Jesús að takast á við samtíð sína og er að segja einmitt þetta: Ekki gera það sem er takmörkum háð að guði. Gjaldið keisaranum bara það sem honum ber en Guði það sem Guðs er. Gætið þess að gera ekki dauðlega hluti að æðstu uppsprettu allra gilda vegna þess að þá eruð þið að dýrka skurðgoð, baka vandræði.

II
Ein er sú hugmynd sem orðið hefur viðtekin í samvitund okkar Íslendinga sem ég hygg að nú sé rétt að kannast við og taka af stalli sínum svo að hún skapi ekki frekari vandræði. Það er trúin á hinn sterka einstakling. Við höfum trúað því að það sé einstaklingurinn sem lifi og sigri, einstaklingsframtakið sem ráði úrslitum. Jafnframt höfum við treyst því að sérhagsmunir muni leiða til hagsældar fyrir fjöldann, fái þeir að njóta óhikaðs forgangs. Þar höfum við m.a. stuðst við hugmyndir um þróun tegundanna þar sem hæfasti einstaklingurinn hefur völdin og nær að dreifa erfðaefnum sínum en horft markvisst framhjá þeirri staðreynd að það sem ræður úrslitum um viðgang og vöxt í ríki náttúrunnar er ekki fælingarmáttur einstaklinga heldur samstaða hjarðarinnar, hópsins. Það er umhyggjan fremur en getan til árása sem mestu ræður um viðgang tegunda þegar náttúruhamfarir, uppskerubrestir, drepsóttir og utanaðkomandi hótanir ögra. Hæfni hópsins til að deila gæðum, skipta verkum og sætta andstæð sjónarmið ræður því hvort eitt samfélag nái að semja sig að nýjum aðstæðum hverju sinni. Eða hvað? Bíðum við Íslendingar núna eftir einhverjum sterkum leiðtoga, auðmanni eða ofurmenni sem leysa muni efnahagskreppuna? Nei, svo heimsk erum við ekki, við vitum vel að trúin á yfirburði einstaklingsins eru bara öfgar, trúaröfgar. Sagan um sigurvegarann, ofurmennið sem hlýtur ofurlaunin, er goðsögn. Markaðurinn og hans köldu lögmál var eftir allt ekki uppspretta lífsins. Nú þegar nauðsyn ber til snúm við okkur frá ævintýrum og tökumst á við veruleikann, kveðjum skurðgoðin, þökkum þessum þrjátíu aðalleikurum sem við lyftum á stall og drögum lærdóm af atburðum.

III
Önnur hugmynd þarf líka að falla af stalli sínum svo að þjóðfélag okkar megi vaxa til heilbrigðis. Það er trúin á þjóðernið. Þar höfum við mikla lærdóma að draga sem við megum ekki fara á mis við. Þjóð sem talar um hreindýr og tæjur og notar hugtakið pólverji sem regnhlífarhugtak yfir flest sem þykir ögrandi í fari útlendinga hefur goldið keisaranum það sem Guðs er. Hún hefur gert eigið þjóðerni að uppsprettu mannréttinda á annarra kostnað. Líka þetta heitir að baka sjálfum sér vandræði, dýrka skurðgoð. Útlendingar hafa ekki komið hingað til þess að ræna okkur heldur til þess að hreinsa upp skítinn okkar, leggja fyrir okkur gangstéttir, grafa skurði, sinna öldruðum og hverju öðru sem við höfum álitið lítils virði. Við höfum gengið að því sem gefnu að vera stolt af þjóðerni okkar og talið það sjálfsögð réttindi en jafnframt neitað öðrum blákalt um þann rétt. Fyrirlitningin og háðungin sem við nú þurfum að þola er léttvæg í samanburði og hún er heimasmíðuð. Trúin á þjóðernið er ávísun á vandræði rétt eins og trúin á hinn sterka einstakling sem í okkar tilviki hefur orðið að athyglisverðum sambræðingi þar sem þjóðernis- og einstaklingshyggja hefur tvinnast saman og ekki orðið til góðs.
Hin forna hugsun Gamlatestamentisins um skurðgoðadýrkun varar við þessari gildru og bendir á þá vitneskju í sameiginlegu minni mannkyns að æðsta uppspretta gilda má undir engum kringumstæðum vera í höndum manna heldur verðum við að staðsetja hið æðsta, réttlætið sjálft, utan við getusvið okkar sjálfra. Þess vegna heldur trúararfurinn því alltaf fram að Guð einn sé réttlátur og að ekki skuli leggja nafn hans við hégóma. Gullkálfurinn í gamlatestamentinu er ímynd þess gagnstæða, hann er frummynd skurðgoðsins í sagnaminni Biblíunnar. Hér blasir við hverjum sem vill sjá og skilja að Guðsþekking er hagnýt þekking. Það að gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er, er hagnýt lífsafstaða sem leiðir til farsældar. Það að geta tekið undir með postulanum þegar hann skrifar orðin sem hér voru lesin úr Filippíbréfinu “Föðurland vort er á himni” er vitnisburður um þá visku sem þekkir lífið og þau rök sem til friðar heyra.

IV
Og nú erum við öll svo reið. Og nú erum við öll svo áhyggjufull. Reið og áhyggjufull þjóð.

Í Guðspjalli dagsins er Jesús líka reiður. “Hversvegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar!” svarar hann andstæðingum sínum áður en hann biður þá að sýna sér skattpeninginn. Jesús birtist okkur merkilega oft reiður og áhyggjufullur í frásögnum guðspjallanna. Reiði er líkt og brunatilfinning. Hún er lífsnauðsynlegur eiginleiki sem gerir okkur fær um að varðveita heilsu okkar og hag. Sá sem ekki kannast við reiði sína er líkur manni sem verður að láta lyktarskynið duga í stað tilfinningarinnar fyrir því að vera að brenna. Það er ekki gott. En reiðin er þó flóknari en almenn taugaboð. Hún er mikið afl og hún sækir sér orku á ýmsa lund. Þekktasta reiðfrásögnin af Jesú er sú er hann rak út úr musterinu í Jerúsalem alla þá sem þar guldu keisaranum það sem Guðs er, en sögurnar eru margar fleiri og allar eiga þær einn sameiginlegan tón sem hjálpar okkur til að skilja eðli reiðinnar. Sterk er myndin úr 21. kafla Matteusarguðspjalls er Jesús hefur reiðst í musterinu og orðin þungu hafa fallið: “Hús mitt á að vera bænahús, en þið gerið það að ræningjabæli!” Þá koma blindir og haltir til hans og börn syngja í gleði og áhyggjuleysi í návist hans. Augljóst er að sú reiði sem Jesús tjáir er aðlaðandi. Hér er á ferð máttug og frelsandi reiði. Reiði sem gleður. Hvernig má það vera? Svarið er einfalt, reiði Jesú Krists er borin uppi af umhyggju. Sú reiði sem á rætur í umhyggju er máttug og aðlaðandi. Hún hýrgar augun og gerir okkur glöggskyggn á aðstæður. En reiðin sem sækir kraft sinn í ótta er lamandi og fælandi og gerir menn niðurlúta og ringlaða.

V
“Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er” mælti Jesús í reiði sinni, daginn eftir að hann hafði hreinsað musterið, samkvæmt frásögn Matteusar. “Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt.” er skrifað. Reiði Jesú frá Nasaret var máttug og vitur. Ég hef hins vegar rekið mig á það iðulega þegar ég hef reiðst að þá er engu líkara en að greindarvísitala mín sé í frjálsu falli. Almenn og hversdagsleg heimska er einkenni þeirrar reiði sem á rætur í ótta. Það þekki ég vel í eigin fari. En ég þekki líka þá reiði sem gerir mig máttuga(n) og skyggna(n) á aðstæður. Ég trúi því að svipað sé ástatt um okkur öll. Mér virðist það vera regla að að því leiti sem reiði mín og áhyggjur eru bornar uppi af umhyggju sé hvorttveggja af hinu góða. En þegar óttinn er drifkraftur reiði minnar og áhyggja mín er vakin af skelfingu, þá er ekki á góðu von.

Hér er komin ein höfuðástæða þess hve mikils virði það er að eiga innra líf. Að eiga augu sem sjá út fyrir þennan heim og greina um leið hönd Guðs að verki í veröldinni. Samfélagið við Jesú Krist, lofgjörðin, þakklætið, feginleikinn sem við megum snúa að honum í öllum aðstæðum er lífgefandi og frelsandi afl. Í trúnni á þann Guð sem einn er réttlátur og einn er góður finnum við þann frið sem æðri er öllum skiningi og varðveitir hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni okkar. (Fil. 4.7)

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

sunnudagur, 12. október 2008

Að kannast við mennsku sína

Prédikun Bjarna Karlssonar flutt í kvöldmessu í Laugarneskirkju 12. október 2008
Guðspjall: Jóhannes 4. 46-53.


Í Guðspjalli dagsins stendur forréttindamaður í miklum háska. Það er erfitt að vera gæðingur í vanda. Undarlegt hlutskipti að vera angistarfullur fríðindamaður. E.t.v. höfum við Íslendingar ekki ósvipaða aðstöðu í samfélagi þjóðanna og þessi konungsmaður hafði í augum íbúanna í Kapernaúm og Kana.

“Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son” segir sagan orðrétt “Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona.”

Það er drjúgur spölur frá Kana niður til Kapernaum í átt að Genesaretvatni. Þangað var hann kominn í vagninum sínum þessi gæðingur Heródesar landsstjóra. Og þung hafa þau verið sporin fyrir hann að ganga opinberlega fram og biðja um hjálp. En hvað gerir ekki maður í neyð? Barnið var dauðvona heima. Þarna stóð hann frammi fyrir Jesú, bað hann að koma og reyndi að bera sig vel þótt hann vissi gjörla að á hann störðu augu með köldu hlutleysi. Menn hafa snúið sér við til að ranghvolfa augunum og glotta án þess að á því bæri. Það er eitthvað varðandi ófarir fólks sem bæði hræðir og kætir. Þarna stóð konungsmaðurinn og engum duldist skelfing hans þar sem hann stóð líkt og í skugga dauðans, og bað Jesú að koma og gera það strax. E.t.v. hefur fólk hvískrað sín á milli og spurst á hvort þessi oflátungur tryði því virkilega að hann hefði forgang að þjónustu meistarans og gæti bara fengið hann með sér á braut í vagninum sínum og skilið alla aðra eftir. Hvernig ætlaði Jesús að bregðast við?
“Þá sagði Jesús við hann: “Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.”
Ég ímynda mér að við þessi orð hafi feginsbylgja farið um mannfjöldann. Nú var meistarinn búinn að taka af skarið. Hann hafði gefið honum fyrsta höggið. Sá ætti eftir að fá það óþvegið.
“Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.” Sagði Jesús við konungsmanninn og horfði beint í augun á honum.
Þvílík snilldar afgreiðsla! Nú gat hann snúið við og skammast sín á heimleiðinni í fína vagninum. Það hlakkaði í mannfjöldanum og reiðin, vanmáttuga reiðin í garð forréttindapakksins sem aldrei, aldrei þurfti að dýfa hendi í kalt vatn og bjó við sitt öryggi hvað sem á öllu gekk kom upp í hálsinn og þyngdi andardráttinn. Það var ljóst að þessi nýi meistari kunni tökin á hlutum.
Þá gerðist nokkuð óvænt. Í stað þess að gæðingurinn snérist á hæli og gengi með særðu stolti til vagns síns þá gekk hann nær Jesú. Guðspjöllin eru fáorð. Við vitum ekki hvort hann kraup eða stóð en það sem hann sagði var þetta: “Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.”

Konungsmaðurinn átti val. Hann gat gert eins og búist var við. Hann gat varðveitt persónulegt stolt sitt. Staðið hnarreistur í sársauka sínum. Það er hægt. Það er VÍST hægt. ...og látið líf barnsins sín fjara út. En hann gerði annað. Hann sleppti taki á stolti sínu, kvaddi stöðu sína sem konungsmaður og kom fram sem faðir barnsins síns. “Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.”

Aldrei hafði mannfjöldinn kynnst þessari hlið á konungsmanninum. Fas hans var annað. Af orðum hans og atferli öllu skein það eitt að hann elskaði barnið sitt. Það eitt skipti máli, það eitt var öllu ofar. Bitlingar og vegtyllur, forréttindi og upphefð, völd og auður, ekkert af þessu átti huga þess manns sem nú stóð frammi fyrir Jesú. Fólkið sá að nú lýsti af honum styrk sem ekkert átti skylt við það vald sem hann áður hafði lotið og beitt, þjónað og hótað. Fólkið horfði í undrun og vissi ekki hvernig það átti að túlka atburðarásina. En Jesús skipti ekki um svip. Með sama einbeitta augnaráðinu horfði hann á konungsmanninn því prófi hans var ekki lokið. Nú var hálfleikur.
“Far þú, sonur þinn lifir.” Sagði Jesús hátt svo að allir gátu heyrt. Enn sé ég fyrir mér að augnaráð hans er hið sama. Órætt, athugult.
Og enn átti konungsmaðurinn val. Hann hafði vagninn til reiðu og hafði ætlast til þess að Jesús kæmi með sér. Hann var því vanur að fá sínu framgengnt. Hér var á ferð sú tegund manna sem ekki heyra nei sem svar. Átti hann að taka þetta gilt án tryggingar? Voru þetta eitthvað annað en orð? “Far þú, sonur þinn lifir!??” Hverslags afgreiðsla var það? Orðrétt segir guðspjallið: “Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað.”
---
Hringir einhverjum bjöllum hjá þér? Sér þú hverju er verið að lýsa í þessari frásögn? Sér þú þá umbreytingu og uppstokkun gilda sem hér fer fram í örfáum línum í hinu forna guðspjalli? Það sem hér á sér stað er það sem verður að eiga sér stað í íslensku samfélagi ef börnin okkar eiga að fá að lifa. Skilaboð þessarar gömlu sögu eru svo brýn að þau varða afdrif afkomenda okkar. Hér fylgjumst við með persónu taka þá ákvörðun að kannast við mennsku sína. Það er gott að rifja það upp að þetta er annað táknið sem Jesús gerir í Jóhannesarguðspjalli. Fyrsta táknið var þegar hann breytti vatni í vín og varðveitti þannig gleði og heiður ungra brúðhjóna á sæmdardegi lífs þeirra. Hér er annað táknið þar sem Jesú aðstoðar aðframkominn hrokagikk í því að afsala sér fölsku stolti og kannast við mennsku sína. Í leiðinni var lífi barnsins hans þyrmt.
Hvað kostar upphefð í þessum heimi? Hvað kostar árangur í veröld samkeppni um auð og völd? Hann kostar nákvæmlega það sem bjargaðist í sögunni, hann kostar líf barnanna okkar. Það er ekki langt síðan ég tók eftir því í annarri fornri helgisögn sem skráð er í upphafi Lúkasarguðspjalls og fjallar um þungun Elísabetar móður Jóhannesar skírara, að í einkasamtali engils við Sakaría föður Jóhannesar farast englinum svo orð um barnið sem fæðast muni: “Hann mun ganga fyrir [Ísraelsmönnum] í anda og krafti Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar...” (Lúk. 1.17)

Þetta er það sem gerist í Guðspjalli dagsins.

Atburðir síðustu daga kalla á endurskoðun á grunngildum íslensks samfélags. Við höfum verið full af sjálfum okkur. Við höfum hallað okkur að valdinu sem safnar sjálfu sér og lifir sjálfu sér og skuldar engum skýringar á gjörðum sínum af því að það er algilt í eigin augum. Á tímum Jesú skrýddi þetta vald sig sæmdarheitinu Pax Romana, hinn rómverski friður. Í dag heitir það Markaðurinn. Konungsmaðurinn trúði því að vald rómverska keisarans væri algilt, endanlegt. Þessu valdi laut hann og þessu valdi beitti hann. Það er eðli valdsins að viljir þú eiga það verður þú fyrst að lúta því, ganga því á hönd. Við höfum gengið Markaðnum á hönd. Við höfum þróað með okkur þjóðfélag þar sem lífsskoðanir eru litnar hornauga og öll hugmyndafræði er tortryggileg og ótæk. Í stað skoðana og gilda hafa komið markaðslausnir. Markaðslausnir og viðskiptafrelsi. Páll Skúlason heimspekingur hefur bent á það í fjölmiðlum síðustu daga hvernig markaðshyggjan hefur kennt okkur að samskipti séu bara viðskipti og eigi því helst að lúta lögmálum markaðarins. Í dag blasir við að þessu er öfugt farið. Viðskipti eru ekkert annað en samskipti. Það vitum við í dag og það blasir við augum okkar þegar gamaldags misskilningur, tortryggni og reiði af munni örfárra einstaklinga kosta miljarðaskuldir ófæddra barna hér uppi á þessari eyju. Viðskipti eru bara samskipti og þau lúta einfaldlega sömu lögmálum og öll samskipti gera. Þar eru á ferð sömu gildi, sömu hættur og sama þörfin fyrir siðferði og í öllum öðrum mannlegum samskiptum.

Þegar hinn almenni launamaður hefur spurt um rökin fyrir offsagróða og ofurlaunum þá hefur gilt svar hljómað á þessa leið: “Þér kemur þetta ekki við. Þetta er nú bara Markaðurinn.” Þessum svörum kyngdum við sem þjóð og þáðum skammvinnan ágóðann af þeim samningi. Í dag vitum við að það var rangt. Nú vitum við að þetta kemur okkur sannarlega við því það er engum til að dreifa nema sjálfum okkur við að bera ábyrgðina og taka afleiðingunum. Í dag vitum við að Markaðurinn er ekki meiri en lífið heldur er lífið meira en Markaðurinn og hann þarf að lúta lögum lífsins, ekki öfugt.

Konungsmaðurinn stóð frammi fyrir vali og það gerum við líka. Við getum snúið uppá okkur með stolti á kostnað barnanna okkar eða tekið þá ákvörðun að kannast við mennsku okkar. Ef við veljum mennskuna í stað hrokans bíður okkar það verkefni að tala saman og komast að niðustöðu um það hvernig við viljum byggja upp samfélag okkar og skila landinu í hendur komandi kynslóða með sæmd.

Þar getur viska trúarinnar orðið okkur drjúgt veganesti. Þar sjáum við t.d. þann sannleika að í raun er ekki hægt að tapa neinu í þessum heimi nema einu. Eina stóra tjónið sem við getum beðið er það að tapa sjálfum okkur.
Nú mun reyna á að við ekki látum óttann ráða för og seljum gæði lands og samfélags á brunaútsölu. Við megum til að tala saman og horfa saman til langrar framtíðar. Stærsta jarðneska gæfa hvers manns og hverrar þjóðar er sú að komandi kynslóðir blessi minningu þeirra sem á undan fóru. Nú verðum við að vera sannar manneskjur, nú verðum við að kannast við mennsku okkar, kannast við ábyrgð okkar og svara þessari spurningu: Hvernig viljum við skila Íslandi í hendur ófæddra kynslóða? Hvað viljum við að kynslóð næstu aldamóta erfi?

Viljum við erfa börnin okkar að lýðfrjálsu landi? Þá verðum við að iðka samtal þar sem allir koma að borðinu. Líka konur einnig aldraðir og börn, öryrkjar, útlendingar – allt fólk.
Viljum við erfa börnin okkar að fagurri náttúru og gjöfulum auðlindum? Þá verðum við að varðveita og virða náttúru landsins og finna sjálfbært jafnvægi milli nýtingar og verndar.
Viljum við erfa börnin okkar að friði? Þá verðum við að efla með okkur friðarmenningu. Við verðum að rannsaka friðinn, kanna eðli hans og þekkja þau rök sem til hans leiða.

Guð blessi Ísland.

laugardagur, 11. október 2008

Réttar áhyggjur eru góðar

Það er mikilvægt að þekkja muninn á réttum áhyggjum og röngum.

Réttar áhyggjur tengjast undantekningarlaust umhyggjunni í hjarta manns en það gera rangar áhyggjur ekki.

Að því leyti sem við þurfum fé til að sinna því sem við berum umhyggju fyrir er rétt og gott að hafa áhyggjur af peningum en annars ekki.

Réttar áhyggjur gera mann sterkan og óhræddan og reiðubúinn að takast á við veruleikann með köldu höfði og heitu hjarta.  Rangar áhygjur valda aftur reiði og vanmætti og ræna mann lífsnautninni.  

Nú er kjörtími til að temja sér réttar áhyggjur.  Verum þakklát fyrir það.


Bjarni Karlsson

sunnudagur, 5. október 2008

Útrásargosar og öfundarmenn

Gott fólk. Hér er komin prédikun sem við hjónin sömdum fyrir þennan sunnudag.
Flutt í Laugarneskirkju og Garðakirkju 5.10.2008
Jes 55.1-5, Ef. 5.15-21 , Matt 22.1-14


I
Munið þið hér í hitteðfyrra þegar við vorum öll á leiðinni að deyja úr fuglaflensu? Vel gefið og upplýst fólk var farið að safna sér þurrmat og sumir þorðu ekki að fara að gefa öndunum brauð á Tjörninni af ótta við fugla? Ég man raunverulegar samræður yfir eldhúsborðið heima þar sem áhættan við að fara út fyrir landssteinana var rædd. Maður gat smitast eða lokast frá landinu. Síðar kom í ljós að það sem var mest smitandi var óttinn, ekki flensan.

Ég átti erindi í blómabúð á föstudaginn. Afgreiðslukonan tók mig tali og fór að ræða yfirvofandi vöruskort í landinu og þær áhyggjur fólks að það yrði ekki einu sinni hægt að fá bensín. Það var þá sem fuglafelansan rifjaðist upp í huga mér og við fórum að ræða þetta saman og velta fyrir okkur hvort ekki væri bara ráð að draga fram allan þurrmatinn og niðursuðudósirnar sem þjóðin safnaði í fuglaflesnufárinu. Svo kvöddumst við eftir að hafa hlegið hressilega.

Ótti smitast léttilega og við þurfum að vera glögg á eðli hans og megum til að gera upp við okkur hvort við ætlum að láta hann stjórna. Það er með óttann eins og tröllin, hann er það sem við ákveðum. Óttinn hefur þau tök sem við færum honum. Því var það hárrétt hjá Landlæknisembættinu, Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitinu er þessir aðilar gáfu út sameiginlega yfirlýsingu fyrir helgi og vöruðu við bölmóði þar sem menn keppast um að taka djúpt í árinni og láta grimmilega spádóma dynja á fólki. Ágætur sálfræðingur Páll Einarsson að nafni kom líka fram og lýsti því hvernig vandinn styrkir fjöslkyldurnar. Hann hélt því fram, öfugt við það sem margur hefur sagt að ástandið í þjóðfélaginu hafi ekki orðið til þess að auka á hjónabandsörðugleika fólks. Sagðist hann telja þá örðugleika sem margar fjölskyldur standi nú frammi fyrir ekki þurfa að sundra fjölskyldum heldur þvert á móti geti það þjappað fólki saman. Við hjónin tökum undir það. Í allri okkar sálgæsluvinnu á þessu hausti hafa engin hjón leitað til okkar sem eru í hjónabandserfðileikum vegna fjárhagskreppunnar, það eru allt aðrar kreppur sem eru að leggjast á hjónaböndin. Fólk er ekki að skilja við maka sinn vegna fjármála. Íslenskur almenningur er bara stærri í sniðum en svo að það kreppi að undirstöðum þjóðfélagsins þótt harðni á dalnum. Íslensk þjóð mun halda ró sinni í gegnum þessa raun og við eigum ekki að þurfa þola það að gert sé lítið úr fólki með yfirlýsingum um glundroða sem ekki er fyrir hendi.

II
En nú skulum við tala saman um efnisleg gæði. Hvað vitum við um efnisleg gæði? Hvað veit hagfræðin eða heimspekin?

Grísku frumspekingarnir sem uppi voru meira en fimm hundruð árum fyrir Krist og voru forverar Sókratesar, Plató og Aristotelesar komust að þeirri niðurstöðu um veruleikann sem ekki hefur verið haggað að kyrrstaða sé blekking. “Panta hrei” sögðu þeir. Allt hreyfist, ekkert stendur kyrrt. Þú stígur aldrei tvisvar í sömu ána, því að í andránni er hún önnur en hún áður var. Allt er verðandi.

Hinn áhrifamikli breski hagfræðingur John Maynard Keynes sem starfaði á fyrri hluta síðustu aldar lét eina setningu vera niðurlag sinna fræða: “In the long run we will all be dead.” Á endanum erum við öll.

Heimspekin og hagfræðin vita það eitt um efnisleg gæði að þau eru á leiðinni framhjá okkur. Það er það eina sem hægt er að fullyrða með vissu. Allt er verðandi og á endanum erum við öll.

Íslensk þjóð er áhyggjufull vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar. Orðin sem lesin voru úr bók Jesaja spámanns hér áðan voru mælt fram til þjóðar sem lifði meiri vanda en við nokkru sinni. Kjarni samfélagsins hafði verið herleiddur á brott til fjarlægs lands, helgidómar þjóðarinnar höfðu verið rændir og vanhelgaðir svo að ekki stóð steinn yfir steini í efnahagslegu eða félagslegu tilliti.

“Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins og þér sem ekkert fé eigið, komið,” mælir Guð fyrir mun spámannsins., “komið, kaupið korn og etið, komið, þiggið korn án silfurs og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk. [...] Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu og endurnærist af feitmeti. Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa. (Jesaja 55.1-5)

Trúin veit það sem heimspekin og hagfræðin segir um efnisleg gæði. Hún veit að það er fátt hægt að vita um efnið vegna þess að það er alltaf á leiðinni framhjá. Allt er verðandi. Það er merkilegt til þess að hugsa að orð spámannsins voru mælt um 50 árum áður en heimspekingurinn Heraclitus fæddist. “Panta hrei” hefur verið eignað honum.

“Hlýðið á mig,” segir gjafari lífsins “þá fáið þér hina bestu fæðu
og endurnærist af feitmeti. Leggið við hlustir og komið til mín,
hlustið, þá munuð þér lifa.”

Heyrir þú hjartsláttinn á bak við þessa rödd? Skynjar þú þann hug sem að baki býr? “Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa!”

Það er eitthvað varðandi lífið sem er endurgjaldslaust. Það er eitthvað sem ekki liggur í augum uppi en er þarna og hefur verið allan tímann á öllum öldum, eitthvað sem ekki kostar en allir vildu glaðir gefa aleiguna fyrir. Það er einhver misskilningur sem liggur ósagður í loftinu og lausn hans verður ekki tjáð, bara heyrð.

Þjóðin beið eftir því að Geir H. Haarde segði eitthvað á fimmtudagskvöldið, eða bara Davíð Oddsson eða einhver annar sem getur og veit og kann að leiðrétta misskilning. Þjóðin er að spyrjast á: Hvar er einhver sterkur, vitur einstaklingur sem getur leiðrétt afstöðuna milli okkar og hinna efnislegu gæða svo að þau haldi áfram að flæða til okkar? Rétt svar er þetta: Hann er hvergi. Lausnin verður ekki tjáð, bara heyrð.

III
Í guðspjalli dagsins er allt sem við óttumst, þar er allt þetta sem Landlæknir er að biðja okkur um að vera ekki að veifa framan í börnin okkar í hugaræsingi, þar er tortíming og brenndar borgir.
„Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki.”
- Það er þensla í Guðspjallinu, athafnasemi og dugnaður með tilheyrandi skarkala og skorti á hlustun sem aftur hefur sínar afleiðingar.

Gjafari lífsins kallar: “Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.” En boðsgestirnir skeyta því ekki. “Einn fór á akur sinn,” segir orðrétt “annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.”
Þegar hér er komið sögu gæti maður ætlað að Jesús sé að skamma duglega fólkið vegna þess að því hætti til að vera hrokafullt. Er ekki merking sögunnar eitthvað sem bankakarlar og útrásargosar mega taka til sín? Já, “bankakarlar og útrásargosar” segjum við núna um persónur sem við dáðum og öfunduðum fyrir örfáum dögum. Við smjöttum á orðaleppunum sem við veljum þeim og nýyrðaíþróttin hefur blómstrað. Og enginn virðist betur til þess fallinn að gefa kaupréttarsamninga-drengjunum á baukinn heldur en Jesús frá Nasaret. En sögunni er ekki lokið. Við erum sest inn í veislusalinn í huganum með öllum almenningi. Við erum almenningur. Í dag viljum við öll vera alþýðufólk en ekki þotulið. Gott og vel.
“Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“

Þú sleppur ekki! Jesús Kristur sleppir hvorki þér né mér undan kröfu sinni. Í þeim anda skrifar Páll postuli í pistli dagsins: “Hafið [því] nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins.” (Ef. 5.15-21)

Hvað var það sem fór úrskeiðis í sögunni? Afdrif hinna skeytingarlausu boðsgesta og mannsins sem ekki var í brúðkaupsklæðum urðu þau sömu. Skortur þeirra var af sama toga. Það er eitthvað eitt sem Jesús er að segja, það er eitthvað sem brúðkaupsklæðin standa fyrir, eitthvað sem er svo brýnt og mikilvægt að án þess erum við í frjálsu falli í veruleikanum, svo notuð séu kunnugleg og kvíðaþrungin orðasambönd. Og þetta eina er svo sammannlegt að það gildir beggja vegna hælsins í harki daganna, það gildir jafnt um þá sem græða og tapa, stóra sem smáa. Samt er það svo að enginn getur sagt það öðrum, en sá sem heyrir það hættir að óttast.

Frá þeirri stundu sem sál mannsins heyrir sér hann að það er engu hægt að tapa í þessum heimi. Eina raunhæfa tjónið sem þú getur beðið er að þú týnir sjálfum þér. Frá þeirri stundu sem þú heyrir verður meðhöndlun efnislegra gæða að íþrótt sem fólgin er í því að þiggja með þökkum, meðhöndla af leikni og veita svo áfram með gleði. Sá sem heyrir vill ekki framar eiga, langar öllu heldur að þiggja til að veita. Hann er stiginn út úr óttanum við hverfulleikann, hefur “skyggnst inn í hið fullkomna lögmál frelsisins” (Jak. 1.25) og getur því með þakklæti, rausn og fögnuði nýtt sér lögmál markaðarins og öll önnur náttúruleg lögmál án þess að lúta þeim.
Hlustaðu!: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var frá upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

laugardagur, 4. október 2008

Samkynhneigð og kristin siðfræði

Föstudaginn 3.10. var haldið málþing í Þjóðminjasafninu í tilefni af útkomu bókar dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur lektors við Guðfræðideild HÍ sem ber heitið Ást, kynlíf og hjónaband. Hér gefur að líta erindi Bjarna sem hann flutti og gerði grein fyrir þeim kafla bókarinnar sem fjallar um samkynhneigð og kristna siðfræði:

I
Sá kafli bókarinnar sem hér um ræðir ber yfirskriftina samkynhneigð og kristin siðfræði. Það er mikill fengur fyrir íslenskt samfélag að kristinn siðfræðingur skrifi jafn gagnsæjan og hnitmiðaðan texta um þetta margþvælda málefni.

Hún hefur mál sitt á því að lýsa þeirri vissu sinni að hin kristna guðfræðihefð sé þjökuð af gagnkynhneigðarhyggu. Með þeirri yfirlýsingu tryggir hún að áhugasamir lesendur skoði greinina til enda því að annað hvort virka orð hennar móðgandi eða frelsandi.

Þá gerir hún grein fyrir umfangi verkefnisins og líkir kristinni siðfræði við breitt og mikið fljót sem rennur fram í tíma og rúmi og í það renna stöðugt nýir lækir. “Nýir straumar blandast eða blandast síður hinum þunga straumi” skrifar hún “nýir tónar heyrast, aðrir þagna.” (s. 66) Þannig vill Sólveig Anna að lesandinn skilji að kristin siðfræði er ekki klöppuð í stein heldur er hún lifandi arfleifð sem eyðileggst við geymslu en varðveitist við iðkun.

Textinn er edrú. Höfundur hyggst hvorki að sanna sjálfa sig né verja hagsmuni einhverrar hefðar heldur gengur hún erinda almannaheilla. Lýðheilsa og almenn farsæld eru þau stefnumið sem hún hefur. Þess vegna er andrúm textans heilnæmt og hressandi þar sem hún heldur á lofti kröfum gagnrýninnar hugsunar hvort heldur menn styðjast við Biblíuna eða aðrar heimildir í siðahugsun. “Kristin siðfræði sleppur aldrei undan þeirri kröfu að sýna á hvern hátt lausn Biblíunnar á siðfræðilegum vandamálum sé einnig góð lausn fyrir okkar samtíð.” segir hún (s. 71) og lýsir því jafnframt hvernig hefðbundin kristin siðfræði hafi einatt og iðulega hugað að rökum en ekki að bókstaf þegar hún notar Biblíuna sem heimild. Tekur hún dæmi af afstöðu kristinna manna til neyslu svínakjöts sem fordæmt er í Biblíutextum en viðurkennt að kristnum sið þar sem engin rök þykja hníga að því að hafna þessu ágæta kjötmeti. Og eins hefur sú þróun orðið í kristnum sið að þrælahald sem hvergi er hallmælt í Biblíunni er álitið rangt á forsendum gildra raka. “Það eru því rökin og ekki bókstafurinn sem gefa orðum Biblíunnar kraft og vald” segir Sólveig í grein sinni (s. 69) og kallar eftir einskonar samtali við texta Biblíunnar þar sem beitt sé félagssögulegri og túlkandi nálgun. (s. 68)

II
Er Sólveig Anna hefur útskýrt það göngulag sem hún telur hæfa kristinni siðfræði sem fræðigrein fer hún einnig nokkrum orðum um samkynhneigð í fræðilegu samhengi.

Hún bendir á að sögulegar og mannfræðilegar heimildir leiði í ljós að það hefur verið þekkt meðal ólíkra hópa á öllum tímum að fólk af sama kyni hafi átt í kynlífs- og ástarsamböndum. Jafnframt sé það undirstrikað og viðurkennt í nýrri rannsóknum að það sem ráði því hvernig litið sé á samkynheigð sé hið félagssögulega og menningarlega umhverfi. “Menningin setji mismunandi viðmið varðandi það hvað sé kallað eðlilegt og hvað afbrigðilegt.” (s. 73) Þar koma viðhorf félagsmótunarhyggjunnar inn í umræðuna hjá fræðimönnum, en tvær stefnur hafa verið mest áberandi í fræðilegri umræðu, félagsmótunarhyggjan annars vegar og hins vegar eðlishyggjan. Í samtali þeirra tveggja stefna er m.a. spurt að því hvort kynhneigð okkar mótist fremur af líffræðilegum eða samfélagslegum þáttum.

III
Þegar þarna er komið sögu tekur Sólveig Anna til við að skoða þá Biblíutexta sem einkum hafa verið notaðir gegn samkynhneigðu fólki í áranna rás og ekki síst í þeim átökum sem staðið hafa um málefni samkynheigðra innan kirkjunnar og standa að einhverju leiti enn. Er á vissan hátt ánægjulegt að sjá þegar þessi hluti greinarinnar er lesinn að þær spurningar sem þar er svarað brenna í raun ekki lengur á samfélagi okkar og í mínum huga stendur þessi texti sem vitnisburður um það að guðfræileg umræða skilar árangri. Sú grein sem hér um ræðir birtist fyrst í ritgerðasafni sem ber heitið Andspænis sjálfum sér og var gefið út árið 2005 á vegum Háskólaútgáfunnar og var þá hluti af mjög þungri umræðu sem nú hefur borið þann ávöxt að enginn málsmetandi guðfræðingur í landinu lifir í þeirri trú að Biblían fjalli um samkynheigð í merkingunni “ástar- og kynlífssamband tveggja sjálfráða, fullveðja einstaklina af sama kyni” svo notuð sé skilgreining Sólveigar Önnu sjálfrar. (s. 74) Útskýrir Sólveig Anna með klárum rökum að viðkomandi Biblíutextar fjalla ekki um samkynhneigð og því sé ekkert í þessum textum hjálplegt í leit að svörum við þeirri spurningu hvort sambönd homma og lesbía séu siðferðilega góð af þeirri einföldu ástæðu að þeir fjalla ekki um það sem spurt er að. (s. 75-78)

IV
Þá leggur Sólveig Anna fram spurningu sem hljóðar svo:
“Hvað hamlar því, ef eitthvað, að evangelísk-lúthersk kynlífssiðfræði geti samþykkt fjölbreytni á sviði kynlífs, í þeirri merkingu að hún samþykki kynlífs- og ástarsambönd homma og lesbía?” (s.79) Þessa spurningu skilur hún beinlínis eftir handa lesandanum vegna þess að hún er ekki bara fræðimaður heldur líka kennari. Texti hennar er “pedagógískur”, honum er ætlað að leiða til þroska. Í þeim anda gerir hún að tillögu sinni að kirkjan velti fyrir sér tvennu; Skilningi sínum á kynlífi, merkingu þess og tilgangi annars vegar og hugmyndafræði gagnkynhneigðarhyggjunnar hins vegar. Í beinu framhaldi leggur hún hentugt verkfærasett upp í hendur lesandans ef svo má að orði komast þar sem eru fimm hagnýtar skilgreiningar á ólíkum viðhorfum til samkynhneigðar innan kristinnar siðfræði, svo að lesandanum aukist yfirsýn og sjálfstæð hugsun.
Fjögur þeirra viðhorfa sem hún skilgreinir byggjast á gagnkynhneigðarhyggju en það fimmta og síðasttalda gengur gegn þeirri hugsun. Er greining hennar hjálpleg vegna þess að hún einfaldar hina flóknu mósaíkmynd sem í raun er til umfjöllunar þegar menn ræða um samkynhneigð í samfélagi okkar.

Fyrsta viðhorfið sem Sólveig Anna skilgreinir er öfgafyllst og það auðkennir hún með hugtakinu siðferðisskortur. Skilgreiningin hljóðar svo: Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni er óeðlilegt. Öll kynlífsiðkun samkynhneigðra stríðir gegn náttúrulegri, guðlegri skipan mála.

Annað viðhorfið auðkennir Sólveig Anna með hugtakinu sjúkdómur:
Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni er sjúklegt. Engin lækning er þó til við þessu og því til lítils að álasa fólki.

Þriðja viðhorfið merkir Sólveig Anna með hugtakinu blinda:
Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni ber vott um að eitthvað hafi verið úrskeiðis í sköpun Guðs. Menn fæðast með þennan ágalla og geta ekki breytt honum. Hugsanlegt er að viðurkenna ástarsambönd samkynhneigðs fólks ef þau einkennast af réttlæti og trúnaði.

Fjórða viðhorfið kennir hún við litblindu:
Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni ber vott um vissa ófullkomnun, en einungis lítils háttar ófullkomnun. Full ástæða er til að viðurkenna og samþykkja ástarsambönd samkynhneigðra sem jafnrétthá öðrum ástarsamböndum.

Fimmta viðhorfið er loks kennt við örvhendni, og er eins og fram er komið eina viðhorfið sem ekki er borið uppi af gagnkynhneigðarhyggju. Skilgreining þess hljóðar svo:
Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni er hvorki óeðlilegt né stríðir gegn náttúrlegri skipan. Sambönd samkynhneigðra, sem bygga á ást, trúnaði og réttlæti, eru siðferðilega góð.

Um þetta síðasttalda viðhorf segir orðrétt í grein Sólveigar: “Margbreytileiki á sviði kynlífs fólks er ekkert sem þarf að óttast svo lengi sem fullveðja sjálfráðir einstaklingar ráða för. Neikvæðni og fordómar gagnvart hommum og lesbíum byggja fyrst og gremst á misskilningi, fordómum og hroka. Svipaðir fordómar ríktu í eina tíð gagnvart örvhentu fólki en eru nú löngu horfnir í upplýstum samfélögum.” (s. 87) Fulltrúa þessa viðhorfs segir hún styðjast við eðlishyggjusjónarmið til að færa rök fyrir afstöðu sinni ásamt því sem áhersla sé lögð á að samskonar siðferðileg viðmið eigi að gilda fyrir öll náin sambönd, nefnilega trúnaður, réttlæti og ást. Þá er síður horft á form sambanda en fremur á inntak þeirra.

V
Síðasti kafli greinarinnar fjallar um nauðsyn þess að umbreyta kristinni kynlífssiðfræði. Þar undirstrikar Sólveig Anna það sem hún tók fram í upphafi að skilningur okkar á tilverunni sé þrælbundinn á klafa gagnkynhneigðarhyggju sem rekja megi til þeirrar tvíhyggju sem ríkjandi hafi verið í allri vestrænni menningu og þótt víðar væri leitað.

Í kristinni guðfræði og siðfræði leggur hún til að menn hætti að draga ályktanir í anda gagnkynheigðarhyggjunnar og þar með tvíhyggjunnar þar sem áhersla er lögð á kynin sem andstæður. Í stað hins gamla syndaskilnings hinnar kristnu kynlífshefðar þar sem allt kynlíf er skilið í ljósi syndafallsins leggur hún til að í endurskoðaðri kristinni kynlífssiðfræði sé lögð áhersla á gæði hins líkamlega sem er ekki andstæða hins andlega. Að kynverund mannsins fái uppreisn æru þar sem lögð sé áhersla á gagnkvæmni (mutuality) sem siðferðislegt gildi og hugsjón í allri umræðu um kynlíf. (!) Sólveig Anna leggur áherslu á að hugtakið gagnkvæmni í nánum tengslum fjalli ekki um það að vera af gagnstæðu kyni heldur að gefa af sér ást og kærleika og fá slíkt hið sama endurgoldið. “Gagnkvæmni byggir á jöfnuði og er góður mælikvarði á siðferðilega gott samband.” Skrifar hún. (s. 89) Hún vekur athygli á því að í hugmyndafræði gagnkynhneigðarhyggjunnar sé gjarnan lögð áhersla á gagnvkæmni undir formerkjum andstæðna. Þá er gagnkvæmni kynjanna fólgin í því að vera ólík og uppfylla hvort annað sem andstæður. Sólveig Anna varar við þessari hugsun þar sem hún sé liður í því að viðhalda ranglæti og kúgun í nánum tengslum. Gagnkvæmni í nánum tengslum er ekki fólgin í andstæðum heldur í gagnkvæmri samstöðu jafningja. Endurskoðuð kristin kynlífssiðfræði leggur áherslu á gefandi og uppbyggilegt hlutverk kynlífs. “Grundvöllur þessa starfs er sú sýn á kynverund og kynlíf að í því geti falist möguleiki manneskjunnar til að tengjast annarri manneskju djúpum tilfinningaböndum og í þeim tengslum tengist hún einnig Guði, skapara sínum.” (!) (s. 90)

Í lokaorðum undirstrikar Sólveig Anna að ekkert í grein hennar geri litið úr gagnkynhneigð eða kynlífs- og ástarsamböndum gagnkynhneigðra. Greininni lýkur með svofelldum orðum: “Sú áskorun sem kristin siðfræði stendur frammi fyrir í dag er að leggja gagnkynhneigðarrembu til hliðar.” (s. 90) Hér er ekki bara hraustlega mælt heldur viturlega, og vil ég bara segja, mæl þú manna heilust Sólveig Anna.

miðvikudagur, 1. október 2008

Ást, kynlíf og hjónaband

Málþing um kynheilsu og mannréttindi verður haldið 
í Þjóðminjasafninu föstudaginn 3. október kl. 14:00 - 16:00

 í tilefni af útkomu bókar dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur með ofangreindum titli.



Framsögur verða sem hér segir:
Guðrún D.Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands: 
"Ofbeldi og mannréttindi" 

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, kynfræðingur: 
“Réttindi kynverundar - hvað er langt í land?”

Dr. Sigríður Guðmarsdóttir, prestur: 
“Menning, kirkja og hjónaband í hinsegin ljósi”

ÞorvaldurKristinsson, bókmenntafræðingur: "Samkynhneigðin og ástin" 

sr. Bjarni Karlsson: "Samkynhneigð og kristin siðfræði"



Fundarstjóri er Helgi Hjörvar Alþingismaður



Í upphafi mun dr. Sólveig Anna ávarpa og setja málþingið 
og í lokin verður boðið upp á fyrirspurnir til hennar og framsögumanna


.

Málþingið er haldið að frumkvæði 40 menninga úr hópi presta og guðfræðinga sem láta sig baráttu fyrir mannréttindum og hjónabandi samkynhneigðra varða og í tilefni útkomu bókar dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur, nýráðins lektors í guðfræðilegri siðfræði við HÍ með ofangreindum titli.