sunnudagur, 12. október 2008

Að kannast við mennsku sína

Prédikun Bjarna Karlssonar flutt í kvöldmessu í Laugarneskirkju 12. október 2008
Guðspjall: Jóhannes 4. 46-53.


Í Guðspjalli dagsins stendur forréttindamaður í miklum háska. Það er erfitt að vera gæðingur í vanda. Undarlegt hlutskipti að vera angistarfullur fríðindamaður. E.t.v. höfum við Íslendingar ekki ósvipaða aðstöðu í samfélagi þjóðanna og þessi konungsmaður hafði í augum íbúanna í Kapernaúm og Kana.

“Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son” segir sagan orðrétt “Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona.”

Það er drjúgur spölur frá Kana niður til Kapernaum í átt að Genesaretvatni. Þangað var hann kominn í vagninum sínum þessi gæðingur Heródesar landsstjóra. Og þung hafa þau verið sporin fyrir hann að ganga opinberlega fram og biðja um hjálp. En hvað gerir ekki maður í neyð? Barnið var dauðvona heima. Þarna stóð hann frammi fyrir Jesú, bað hann að koma og reyndi að bera sig vel þótt hann vissi gjörla að á hann störðu augu með köldu hlutleysi. Menn hafa snúið sér við til að ranghvolfa augunum og glotta án þess að á því bæri. Það er eitthvað varðandi ófarir fólks sem bæði hræðir og kætir. Þarna stóð konungsmaðurinn og engum duldist skelfing hans þar sem hann stóð líkt og í skugga dauðans, og bað Jesú að koma og gera það strax. E.t.v. hefur fólk hvískrað sín á milli og spurst á hvort þessi oflátungur tryði því virkilega að hann hefði forgang að þjónustu meistarans og gæti bara fengið hann með sér á braut í vagninum sínum og skilið alla aðra eftir. Hvernig ætlaði Jesús að bregðast við?
“Þá sagði Jesús við hann: “Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.”
Ég ímynda mér að við þessi orð hafi feginsbylgja farið um mannfjöldann. Nú var meistarinn búinn að taka af skarið. Hann hafði gefið honum fyrsta höggið. Sá ætti eftir að fá það óþvegið.
“Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.” Sagði Jesús við konungsmanninn og horfði beint í augun á honum.
Þvílík snilldar afgreiðsla! Nú gat hann snúið við og skammast sín á heimleiðinni í fína vagninum. Það hlakkaði í mannfjöldanum og reiðin, vanmáttuga reiðin í garð forréttindapakksins sem aldrei, aldrei þurfti að dýfa hendi í kalt vatn og bjó við sitt öryggi hvað sem á öllu gekk kom upp í hálsinn og þyngdi andardráttinn. Það var ljóst að þessi nýi meistari kunni tökin á hlutum.
Þá gerðist nokkuð óvænt. Í stað þess að gæðingurinn snérist á hæli og gengi með særðu stolti til vagns síns þá gekk hann nær Jesú. Guðspjöllin eru fáorð. Við vitum ekki hvort hann kraup eða stóð en það sem hann sagði var þetta: “Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.”

Konungsmaðurinn átti val. Hann gat gert eins og búist var við. Hann gat varðveitt persónulegt stolt sitt. Staðið hnarreistur í sársauka sínum. Það er hægt. Það er VÍST hægt. ...og látið líf barnsins sín fjara út. En hann gerði annað. Hann sleppti taki á stolti sínu, kvaddi stöðu sína sem konungsmaður og kom fram sem faðir barnsins síns. “Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.”

Aldrei hafði mannfjöldinn kynnst þessari hlið á konungsmanninum. Fas hans var annað. Af orðum hans og atferli öllu skein það eitt að hann elskaði barnið sitt. Það eitt skipti máli, það eitt var öllu ofar. Bitlingar og vegtyllur, forréttindi og upphefð, völd og auður, ekkert af þessu átti huga þess manns sem nú stóð frammi fyrir Jesú. Fólkið sá að nú lýsti af honum styrk sem ekkert átti skylt við það vald sem hann áður hafði lotið og beitt, þjónað og hótað. Fólkið horfði í undrun og vissi ekki hvernig það átti að túlka atburðarásina. En Jesús skipti ekki um svip. Með sama einbeitta augnaráðinu horfði hann á konungsmanninn því prófi hans var ekki lokið. Nú var hálfleikur.
“Far þú, sonur þinn lifir.” Sagði Jesús hátt svo að allir gátu heyrt. Enn sé ég fyrir mér að augnaráð hans er hið sama. Órætt, athugult.
Og enn átti konungsmaðurinn val. Hann hafði vagninn til reiðu og hafði ætlast til þess að Jesús kæmi með sér. Hann var því vanur að fá sínu framgengnt. Hér var á ferð sú tegund manna sem ekki heyra nei sem svar. Átti hann að taka þetta gilt án tryggingar? Voru þetta eitthvað annað en orð? “Far þú, sonur þinn lifir!??” Hverslags afgreiðsla var það? Orðrétt segir guðspjallið: “Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað.”
---
Hringir einhverjum bjöllum hjá þér? Sér þú hverju er verið að lýsa í þessari frásögn? Sér þú þá umbreytingu og uppstokkun gilda sem hér fer fram í örfáum línum í hinu forna guðspjalli? Það sem hér á sér stað er það sem verður að eiga sér stað í íslensku samfélagi ef börnin okkar eiga að fá að lifa. Skilaboð þessarar gömlu sögu eru svo brýn að þau varða afdrif afkomenda okkar. Hér fylgjumst við með persónu taka þá ákvörðun að kannast við mennsku sína. Það er gott að rifja það upp að þetta er annað táknið sem Jesús gerir í Jóhannesarguðspjalli. Fyrsta táknið var þegar hann breytti vatni í vín og varðveitti þannig gleði og heiður ungra brúðhjóna á sæmdardegi lífs þeirra. Hér er annað táknið þar sem Jesú aðstoðar aðframkominn hrokagikk í því að afsala sér fölsku stolti og kannast við mennsku sína. Í leiðinni var lífi barnsins hans þyrmt.
Hvað kostar upphefð í þessum heimi? Hvað kostar árangur í veröld samkeppni um auð og völd? Hann kostar nákvæmlega það sem bjargaðist í sögunni, hann kostar líf barnanna okkar. Það er ekki langt síðan ég tók eftir því í annarri fornri helgisögn sem skráð er í upphafi Lúkasarguðspjalls og fjallar um þungun Elísabetar móður Jóhannesar skírara, að í einkasamtali engils við Sakaría föður Jóhannesar farast englinum svo orð um barnið sem fæðast muni: “Hann mun ganga fyrir [Ísraelsmönnum] í anda og krafti Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar...” (Lúk. 1.17)

Þetta er það sem gerist í Guðspjalli dagsins.

Atburðir síðustu daga kalla á endurskoðun á grunngildum íslensks samfélags. Við höfum verið full af sjálfum okkur. Við höfum hallað okkur að valdinu sem safnar sjálfu sér og lifir sjálfu sér og skuldar engum skýringar á gjörðum sínum af því að það er algilt í eigin augum. Á tímum Jesú skrýddi þetta vald sig sæmdarheitinu Pax Romana, hinn rómverski friður. Í dag heitir það Markaðurinn. Konungsmaðurinn trúði því að vald rómverska keisarans væri algilt, endanlegt. Þessu valdi laut hann og þessu valdi beitti hann. Það er eðli valdsins að viljir þú eiga það verður þú fyrst að lúta því, ganga því á hönd. Við höfum gengið Markaðnum á hönd. Við höfum þróað með okkur þjóðfélag þar sem lífsskoðanir eru litnar hornauga og öll hugmyndafræði er tortryggileg og ótæk. Í stað skoðana og gilda hafa komið markaðslausnir. Markaðslausnir og viðskiptafrelsi. Páll Skúlason heimspekingur hefur bent á það í fjölmiðlum síðustu daga hvernig markaðshyggjan hefur kennt okkur að samskipti séu bara viðskipti og eigi því helst að lúta lögmálum markaðarins. Í dag blasir við að þessu er öfugt farið. Viðskipti eru ekkert annað en samskipti. Það vitum við í dag og það blasir við augum okkar þegar gamaldags misskilningur, tortryggni og reiði af munni örfárra einstaklinga kosta miljarðaskuldir ófæddra barna hér uppi á þessari eyju. Viðskipti eru bara samskipti og þau lúta einfaldlega sömu lögmálum og öll samskipti gera. Þar eru á ferð sömu gildi, sömu hættur og sama þörfin fyrir siðferði og í öllum öðrum mannlegum samskiptum.

Þegar hinn almenni launamaður hefur spurt um rökin fyrir offsagróða og ofurlaunum þá hefur gilt svar hljómað á þessa leið: “Þér kemur þetta ekki við. Þetta er nú bara Markaðurinn.” Þessum svörum kyngdum við sem þjóð og þáðum skammvinnan ágóðann af þeim samningi. Í dag vitum við að það var rangt. Nú vitum við að þetta kemur okkur sannarlega við því það er engum til að dreifa nema sjálfum okkur við að bera ábyrgðina og taka afleiðingunum. Í dag vitum við að Markaðurinn er ekki meiri en lífið heldur er lífið meira en Markaðurinn og hann þarf að lúta lögum lífsins, ekki öfugt.

Konungsmaðurinn stóð frammi fyrir vali og það gerum við líka. Við getum snúið uppá okkur með stolti á kostnað barnanna okkar eða tekið þá ákvörðun að kannast við mennsku okkar. Ef við veljum mennskuna í stað hrokans bíður okkar það verkefni að tala saman og komast að niðustöðu um það hvernig við viljum byggja upp samfélag okkar og skila landinu í hendur komandi kynslóða með sæmd.

Þar getur viska trúarinnar orðið okkur drjúgt veganesti. Þar sjáum við t.d. þann sannleika að í raun er ekki hægt að tapa neinu í þessum heimi nema einu. Eina stóra tjónið sem við getum beðið er það að tapa sjálfum okkur.
Nú mun reyna á að við ekki látum óttann ráða för og seljum gæði lands og samfélags á brunaútsölu. Við megum til að tala saman og horfa saman til langrar framtíðar. Stærsta jarðneska gæfa hvers manns og hverrar þjóðar er sú að komandi kynslóðir blessi minningu þeirra sem á undan fóru. Nú verðum við að vera sannar manneskjur, nú verðum við að kannast við mennsku okkar, kannast við ábyrgð okkar og svara þessari spurningu: Hvernig viljum við skila Íslandi í hendur ófæddra kynslóða? Hvað viljum við að kynslóð næstu aldamóta erfi?

Viljum við erfa börnin okkar að lýðfrjálsu landi? Þá verðum við að iðka samtal þar sem allir koma að borðinu. Líka konur einnig aldraðir og börn, öryrkjar, útlendingar – allt fólk.
Viljum við erfa börnin okkar að fagurri náttúru og gjöfulum auðlindum? Þá verðum við að varðveita og virða náttúru landsins og finna sjálfbært jafnvægi milli nýtingar og verndar.
Viljum við erfa börnin okkar að friði? Þá verðum við að efla með okkur friðarmenningu. Við verðum að rannsaka friðinn, kanna eðli hans og þekkja þau rök sem til hans leiða.

Guð blessi Ísland.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið eru þetta gagnleg orð. Falleg og sönn. Og sterk.
Takk fyrir.

Nafnlaus sagði...

Góð saga, en er ekki dulítið skrítið að Jesú hafi látið "forrétindamanninn" betla um lækningu fyrir son sinn?
Getið þið ímyndað ykkur föður dauðvona barns, sem biður læknin að gera eitthvað, og læknirinn neitar?

Lætur hann bíða haldandi að öll von sé úti um son sinn, meðan læknirinn kennir fjöldanum lexíu!

Ég verð minna og minna imponeraður, með móralinn hjá Jesú því meir sem ég kynnist honum.

Kv Friðrik

Nafnlaus sagði...

Friðrik.
Kærleikurinn er ekki bara góður, hann hefur líka þann eiginleika að sætta sig ekki við takmarkanir. Gæska Jesú gagnvart þessum manni var í því fólgin að hjálpa honum að stíga út úr hroka sínum og kannat við mennsku sína. Í framhaldinu var lífi barnsins hans þyrmt. Kærleikurinn lætur ekki duga að huga að ytri búningi og formi samskipta hann krefst þess að inntak tilverunnar sé verðugt.

Nú reynir mjög á þessa þætti í þeirri uppbyggingarvinnu sem framundan er í samfélagi okkar.


Bjarni

Nafnlaus sagði...

Hvar kemur framm í textanum að hann hafi verið hrokafullur?

Var þetta ekki bara venjulegur bjúrókrati?

Þetta minnir mig örlítið á söguna um Abraham, þegar guð skipaði honum að fórna syni sínum, bara til að rugla í honum.

Kv Friðrik hinn þrætugjarni.

Davíð Þór sagði...

Friðrik: Þegar Guð skipaði Abraham að fórna syni sínum? Mig minnir að Guð hafi einmitt skipað Abraham að fórna EKKI syni sínum. Þú ert líklega að vísa í þann sögulega atburð (ca. 1800 f.Kr.) þegar það gerist í fyrsta skipti í sögu menningarþjóða frjósama hálfmánans að fram stígur guð sem EKKI krefst frumburðarfórnar. Jú, sennilega hefur það ruglað Abraham dálítið í ríminu, enda áður óþekkt konsept í hans menningarheimi.

Nafnlaus sagði...

Sem sagt Davíð, að þegar guð sagði við Abraham, töltu nú upp á fjall og slátraðu guttanum þínum, Abraham leggur hann á steinin í Hebron, og guð segir "TEKINN".

Er réttlætanlegt að guð setji Abraham í gegnum það sálarstríð að halda að hann sé að fara að missa hann?

Og þaðan kemur tengingin við Jesú og bjúrókratan, þegar Jesú lætur hann finnast að öll von sé úti fyrir son sinn.

Sérð þú ekki grimdina í þessum gjörðum?

Kv Friðrik

Nafnlaus sagði...

Friðrik

Það er svo merkilegt með sögur Biblíunnar að þær lifa öld fram af öld með öllu sínum mögnuðu tilvísunum á meðan staglið í okkur gleymist og ekki einu sinni börnin okkar munu ekki nenna að velta fyrir sér því sem við erum að hugsa.

Í hverju skyldi þessi munur liggja?

Bjarni Karlsson

Nafnlaus sagði...

Nú væri gott að fá meira úr ykkar ágætu átt. Eitthvað sem lyftir andliti manns aðeins upp úr moldinni og frá fúlu ranglæti samtímans.

Kær kveðja,
Jeanie

Nafnlaus sagði...

Blessuð ágæta Jeanie og takk fyrir uppörfunina.

Við áttum helgarleyfi og sömdum enga prédikun fyrir sunnudaginn sem leið. En næsta sunnudag máttu treysta því að við setjum inn efni. Þar erum við m.a. að hugsa um að fjalla um þróun tegundarinnar, eðli mannsheilans og inntak mannlegra samskipta í ljósi efnahagskreppunnar.

b. kv.

Bjarni og Jóna Hrönn

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra. Ég fylgist með.
Takk fyrir það.
Kær kveðja,
Jeanie