sunnudagur, 25. janúar 2009

Öld þóttans

Sælt veri fólkið!
Hér er prédikun okkar frá þessum degi flutt 25. 1. 2009 í Bessastaðakirkju og Laugarneskirkju kl 11:00 og loks í Vídalínskirkju kl. 20:00.

Útdráttur:
„Við Íslendingar stöndum á þröskuldi nýrrar aldar. Þóttinn er fallinn af stalli sínum, trúin á hinn staka mann er dauð og nú er okkur frjálst að hugsa upp á nýtt og sjá samhengi okkar við náttúruna og mannfélagið. Nýr sáttmáli er í smíðum og hann skal fela í sér vitund um lífríkið og sátt manna í millum þar sem hótunarvaldi er hafnað, en friðarviljinn hafinn til vegs.”
I
Taktöfst hávaðabylgja mannfjöldans náði langt upp fyrir húsþökin þangað sem reykjarmökkurinn af bálkestinum þyrlaðist í rokinu en bjarminn af eldinum baðaði Alþingishúsið birtu sem enginn hafði áður séð það í. Við erum ekki þjóð sem kveikir elda í miðbænum, erum ekki mótmælaþjóð, reið þjóð í eigin vitund, en þarna var það að gerast líkt og í martröð og eldurinn, þetta frumstæða afl bálaðist sem tákn um þá krafta sem leystir voru úr læðingi í mannfélaginu. Enginn vissi hver stefnan yrði. Mannfjöldinn stóð nærri bálinu og logar þess spegluðust í glerhjálmum lögreglumannanna sem stóðu hreyfingarlausir í beinni röð fyrir framan Alþingishúsið, húsið sem staðið hefur sem tákn þess samtals sem þjóðin á og hefur átt allt frá stofnun Alþingis við Öxará, húsið sem enn ber á framhlið sinni merki danska konungsins og minnir okkur á að sjálfstæði þjóðar er ekki sjálfsagt.

Ungur maður með klút fyrir andliti gengur ógnandi á móti lögreglunni og slær í einn plastskjöldinn. Lögreglumaðurinn stendur kyrr. Ungi maðurinn tekur þrjú skref áftur á bak og gerir sig líklegan til að hlaupa sparkandi í átt að lögreglunni. Þá gerist hið óvænta. Sá síðarnefndi lyftir snöggt upp plasthlífinni á hjálmi sínum og gefur manninum merki um að hann vilji ræða hann. Hinn gengur hikandi nær og sér andlit lögreglumannsins sem horfir á hann döprum augum og segi hátt svo að hinn heyrir í gegnum glyminn: “Ég er maður eins og þú! Ég á barn, konan mín er orðin atvinnulaus og við óttumst að missa heimili okkar. Ég er líka reiður!” Svo skellti hann niður hlífinni og tók sér stöðu sem fyrr. Við þessi orð gekk maðurinn með hulda andlitið á braut.

Þessi frásögn sem ég heyrði í vikunni rifjar upp annan atburð sem einnig gerðist í miðbæ Reykjavíkur á þeim árum er ég tók þátt í Miðborgarstarfi þjóðkirkjunnar. Þá var mikill fjöldi unglinga í miðbænum um helgar og iðulega myndaðist spennuþrungið hættuástand og eftir á sér maður að það er mikið þakkarefni að enginn af þeim mörgu sjálfboðaliðum sem þar lögðu lóð á vogarskálar skyldu meiðast alvarlega. Eitt sinn gerðist það þó að einn af okkar fólki varð að leita á neyðarmóttöku vegna sára eftir að hafa verið sleginn í andlitið af ungum manni sem var á valdi örvandi efna og hafði í brjálæði sínu hótað manninum lífláti. Helgina eftir var þessi ágæti félagi okkar mættur til starfa og þá ber að þennan sama dreng. Mér krossbrá er ég sá þennan fimmtuga karlmann rísa á fætur og ganga að drengnum sem viku fyrr hafði ögrað heilsu hans og lífi. Hann kom upp að honum og þeir skiptust á nokkrum orðum. Síðan gaf hann mér merki um að koma með þeim til að tala saman.
Við settumst inn í herbergi sem við höfðum til afnota í húsinu að Austurstræti 20 og þessi reyndi sjálfboðaliði horfði ástúðlega en með mikilli alvöru í augu unga mannsins og sagði við hann: „Mig langar til þess að segja þér, svo að hugsir um það næst þegar þú ætlar að meiða einhvern eins og þú meiddir mig, að ég er ekki bara einhvert skurn. Ef þú meiðir mig þá meiðir þú um leið margt fleira fólk. Ég er giftur og á tvö börn, ég á aldraða foreldra sem þurfa á mér að halda og mörg systkini. Ég rek líka byggingafyrirtæki og það eru margir sem verða að treysta á það að ég sé hraustur og geti mætt í vinnu. Ég hvet þig til þess að hugsa um þetta næst þegar þig langar að berja einhvern. Hugsaðu um það hver hann kynni að vera, hvort einhverjum þyki e.t.v. vænt um hann.”
Drengurinn sat þegjandi um stund, en í framhaldinu opnaðist langt og gott samtal um hans líf, hans ástvini og hans sorgir... Þessi atburður og þessi stund mun seint líða mér úr minni.

Það sem þarna gerðist var það sama og átti sér stað í samskiptum lögreglumannsins og mótmælandans, það var rifjaður upp sáttmáli. Sáttmáli sem þegar var fyrir hendi var afhjúpaður. Sáttmáli mennskunnar. „Ég er maður eins og þú!”

- Veistu að þetta er inntak kristinnar trúar? Ég er maður eins og þú, segir Guð við þig í Jesú Kristi. Ég er maður eins og þú, svo að þú getir kannast við náunga þinn. Sáttmáli krossins er sáttmáli mennskunnar. Lögreglumaðurinn og mótmælandinn rifjuðu upp sáttmála mennskunnar, miðaldra sjálfboðaliðinn og ráðvilti unglingurinn gerðu slíkt hið sama. Fagnaðarboð kristinnar kirkju er sú frétt að sáttmáli mennskunnar hafi verið unninn í eitt skipti fyrir öll í lífi, dauða og upprisu Jesú Krists. Það er ekki annað en að rifja hann upp.


II
Það er talað um sáttmála í Íslensku þjóðfélagi í dag. Við erum í óðaönn að skilgreina hvaða sáttmálar hafi brugðist og hverjir enn standi með þjóð okkar. Við tölum um nauðsyn þess að endurnýja jafnvel sjálfan sáttmála lýðveldisins með nýrri stjórnarskrá. Við tölum um nýtt Ísland.

Hósea spámaður var uppi á miklum umbrotatímum er samfélag hins svonefnda norðurríkis Ísraels var við það að liðast í sundur. E.t.v. er það þess vegna sem lexía þessa sunnudags hljómar með nýjum hætti er Guð mælir fyrir munn spámannsins:

„Ég fjarlægi nöfn Baala úr munni [þjóðarinnar]
 og þeir verða ekki nefndir á nafn framar. Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn
við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar
og eyði boga, sverði og stríði úr landinu
og læt þá búa óhulta.” (Hósea 2.19)

Þjóðin hafði yfirgefið sinn fyrri sið og framandi viðhorf höfðu tekið bólfestu í landinu. Í stað trúarinnar á gjafara lífsins og sáttmálann sem hann hafði svarið þjóðinni voru hinir mörgu guðir Baal-átrúnaðarins dýrkaðir og þeim voru færðar fórnir, stundum mannfórnir, auk þess sem konum var haldið í kynlífsánauð í hofum tengdri frjósemisdýrkun. Baal-átrúnaðurinn var þegar orðinn mörg hundruða ára gamall er Hósea var á dögum og var útbreiddur í Kanaanslandi og í Fönikýu. Um gagn og ógang þess átrúnaðar skal ég ekki fjölyrða því þar skortir mig þekkingu en um okkar menningu leyfi ég mér að tala og held því fram að e.t.v. verði sú öld sem nú er að líða undir lok í menningu okkar nefnd öld þóttans í sögubókum framtíðarinnar. Öld þóttans. Við höfum trúað því að hver sé sjálfum sér næstur. Við höfum fest trú okkar við séreignina og sjálfdæmið, boðað þann sið að eignarétturinn sé hið helgasta vé og að frelsi einstaklingsins skuli engri reglu lúta, en höfum misst sjónar á þeim gildum sem varðveita lífið og skýra samhengi þess.
„Ég fjarlægi nöfn Baala úr munni [þjóðarinnar]
og þeir verða ekki nefndir á nafn framar.” Sagði Guð við Ísraelsmenn. - Ég fjarlægi klisjur markaðshyggjunnar úr munni þjóðarinnar, segir Guð við okkur í dag. Þú ert ekki það sem þú átt. Það er ósatt að öll samskipti séu viðskipti. Lífið er meira en markaðurinn.

Áfram mælir Guð fyrir mun spámannsins:

“Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn
 við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar
og eyði boga, sverði og stríði úr landinu
og læt þá búa óhulta.” (Hósea 2.20)

- Sáttmáli Guðs er ekki bara við menn. Dýr merkurinnar, fulgar himins, skriðdýr jarðar og allt sem anda dregur er innifalið í þeirri vitundarvakningu sem skapari heimsins þráir að leiða fram meðal manna. Sáttmáli Guðs er við lífríkið allt og hann mun eyða „boga, sverði og stríði úr landinu” svo menn megi búa óhultir.


III
Við Íslendingar stöndum á þröskuldi nýrrar aldar. Þóttinn er fallinn af stalli sínum, trúin á hinn staka mann er dauð og nú er okkur frjálst að hugsa upp á nýtt og sjá samhengi okkar við náttúruna og mannfélagið. Nýr sáttmáli er í smíðum og hann skal fela í sér vitund um lífríkið og sátt manna í millum þar sem hótunarvaldi er hafnað, en friðarviljinn hafinn til vegs.

Og enn mælir Guð fyrir munn spámannsins í lexíu dagsins:

“Ég festi þig mér um alla framtíð,
 ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi,
 ég festi þig mér í tryggð,
 og þú munt þekkja Drottin.”
 (Hósea 2.21-22)

Hér eru nefnd þau gildi sem ekki hafa fyrnst þau 2700 ár sem liðin eru frá þeim tíma er Hósea var á dögum: Réttlæti, réttvísi, kærleikur, miskunnsemi og tryggð. Megi hið nýja Ísland kannast við Guð sinn, kannast við sáttmála mennskunnar og endurheimta þau grunngildi sem liggja lífinu við hjartastað.

Amen.

Nýtt lýðveldi

Bjarni skrifar:

Ég hvet allt fólk til að skoða tillögur Njarðar P. Njarðvík á heimasíðunni 'nyttlydveldi.is'

Ég skrifa undir þetta fyrir mitt leyti. Mér virðist við standa í þeim sporum sem þjóð að sá sáttmáli sem liggur samfélagi okkar til grundvallar sé búinn að riðlast. Við vitum ekki lengur hver við erum og þ.a.l. getum við ekki vitað hvert stefna skuli . Annað hvort leggjum við árar í bát eða vinnum það verk og höfum þá fyrirhöfn sem það kostar að vera þjóðfélag. Ég kýs seinni kostinn.

laugardagur, 24. janúar 2009

Kirkjuganga er meira en góður vani

Nú sitjum við hjónakornin við tölvuna og erum að undirbúa prédikun morgundagsins sem minnir okkur á það að við verðum alltaf að fara að sofa á laugardagskvöldum. Ekkert pláss fyrir þorrablót og snafsa... En við vorkennum okkur ekkert því að eitt af því skemmtilegasta sem við gerum er að hugsa og tala saman. Eitt af því sem við sjáum fyrir okkur sem þema á þessari vorönn í prédikun okkar er að fjalla um hið nýja Ísland og það hvernig kristin trú getur skapað mikilvæga vegvísa á þeirri leið.

Hósea spámaður var uppi á 7. öld fyrir Krist. Í texta sem fluttur er í kirkjum landsins á morgun talar þessi ævaforna rödd beint inn í aðstæður dagsins. Þar eru hugtökin réttlæti og réttvísi. Þar er talað um tryggð milli fólks og margt fleira sem límir saman mannfélagið. Þar er tilifinning fyrir samhengi mannsins og lífkerfisins að öðru leyti og sú vitneskja tjáð að friður og farsæld manna stendur í beinu samhengi við gildin sem menn rækta í samskiptum sínum.

Þetta ætlum við að skoða og fjalla um í messum okkar á morgun í Bessastaðakirkju og Laugarneskirkju kl. 11:00.

Kirkjuganga er meira en góður vani. Með kirkjugöngu lýsir fólk yfir samstöðu með náunga sínum, þakklæti til lífsins og vilja til að láta gott af sér leiða.

Við hvetjum fólk til að leita uppi sóknarkirkjuna sína og taka þátt í lífi safnaðarins.

mánudagur, 19. janúar 2009

12 sporin - andlegt ferðalag

Bjarni skrifar:
Það hefur verið mér stöðugt undrunarefni lengi hvílík snilld fólgin er í sporunum 12.  Ég get ekki talið þá einstaklinga sem ég hef kynnst um dagana sem náð hafa nýjum tökum á tilveru sinni með iðkun þessara spora.  AA hreyfingin hefur unnið Íslenskri þjóð mikið gagn með því að kynna þau og nýta í starfi sínu. - Já, og þá er nú starf AA samtakanna enn fremur tilefni til að tala um snilld! 

Í rúman áratug hefur þróast merkur félagsskapur innan kirkjunnar sem gengur undir heitinu Vinir í bata.  Þar er fólk sem unnið hefur 12 sporin eftir kerfi sem nefnt er 12 sproin andlegt ferðalag.  Þessi starfssemi er í mörgum kirkjum og hefur gefist einkar vel.  Þar er ekki horft á fíkn sérstaklega heldur er tekist á við óuppgerðar tilfinningar sem okkur öllum hættir til að dragnast með langleiðina í gegnum lífið með tilheyrandi þjáningum og ójafnvægi sem eltir okkur á röndum.  Þetta tilboð hefur verið í Laugarneskirkju í bráðum 10 ár og nokkur hundruð manns hafa eignast betra og heilbrigðara líf með þátttöku í starfinu.

Þriðjudaginn næsta, 20.1., verður kynningarfundur í Laugarneskirkju. Ég hvet allt fólk sem langar að ná bættum árangir í sínu innra lífi eftir þrautreyndum leiðum og í öruggu umhverfi til að mæta og sjá hvernig þeim líst á.  Þátttaka kostar ekkert og starfið er byggt á sjálfboðavinnu en boðið verður upp á hópa bæði á mánudags- og þriðjudagskvöldum.

Frekari fyrirspurnir má senda á netfang mitt:  srbjarni@ismennt.is
sunnudagur, 18. janúar 2009

Embætti og almannaheill

Þessa prédikun fluttum við sunnudaginn 18.1. 2009 kl. 11:00 í Vídalínskirkju og Laugarneskirkju.


I
Fyrir viku (11.1.) heyrðist ný rödd í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu. Þar kom sálfræðingurinn Einar Baldursson sem starfað hefur í Danmörku í 35 ár og er sérfræðingur í þjóðarsálfræði. Er hann ræddi stöðu mála í samfélagi okkar vöktu athygli mína ummæli hans um fórnina og nauðsyn hennar í þjóðlífinu. Hann tók dæmi af fyrirtæki sem mætir áföllum, felmtri slær á starfsmenn þess og spurningin vaknar hverjum sé um að kenna. Ef forysta fyrirtækisins kveðst enga ábyrgð bera þá skapast tortryggni. „Hver getur þá borið ábyrgð?” spyr fólkið og fer að draga sig til hlés í ótta við að ábyrgð og sök kunni að falla á það. Við slíkar aðstæður varar Einar við að skapandi hugsun taki að þverra innan veggja fyrirtækisins. Ræddi hann mikilvægi þess að horfast í augu við nauðsyn fórnarinnar, og talaði m.a. um fórn hins vammlausa. Þegar einhver hefur axlað ábyrgð hverfur óttinn úr starfsliðinu og hægt er að skapa umræður. Þannig vildi hann meina að þegar stjórnandi eða embættismaður taki pokann sinn þurfi það ekki endilega að vera til merkis um sök hans heldur miklu fremur skilaboð og viðurkenning á því að til sé eitthvað sem heiti almannahagsmunir sem standi ofar einstaklingshagsmunum. Þegar réttir aðilar axla ábyrgð myndast rými fyrir skapandi hugsun. Í stað þess að orkan fari í reiði, óvissu og tortryggni geta menn byrjað að huga að lausnum og beint orku sinni inn á jákvæðar og gagnlegar brautir. Í máli Einars kom fram að slík fórn væri óhjákvæmileg núna í þeim aðstæðum sem Íslensk þjóð býr við.

II
Það er ekki oft sem maður heyrir menn nota fórnarhugtakið í opinberri umræðu og ég held að það tengist þeirri sterku tilhneygingu okkar að vilja helst þagna þegar kemur að kjarna máls. Fórnin liggur lífinu við hjartastað. Sá sem kann skil á gildi hennar og eðli er lánsamur en tíðarandinn mun seint fá skilið þátt hennar í lífinu.

Í fyrradag hættu tveir slökkviliðsmenn og annar ungur karlmaður lífi sínu er upp kom eldur í húsi við Klapparstíg. Um tíma var talið var ung kona væri þar í hættu stödd sem blessunarlega reyndist ekki. Allir lögðu þeir sig í mikla hættu og mun tæpt hafa staðið með slökkviliðsmennina en fórnarlundin rak þá áfram. Þessir ungu menn eiga heiður skilinn. Fórnarlund og hetjulund eru náskyldar dyggðir og samfélag manna sem ekki býr yfir slíkum eigindum þegna sinna er illa statt. Fregnin af fórnfýsi þeirra vekur von og tjáir okkur þá samvitund að lífið sé nokkurs virði.

Ef þú hugsar um þitt eigið líf og spyrð hverjir hafi fórnað sér og sínu fyrir þig, þá vona ég að þú komir auga á fólk í sögu þinni og reynslu sem hafi fórnað til þess að þú mætir njóta lífsgæða. Var einhver sem lagði sína drauma til hliðar til þess að þú mættir ná þínum markmiðum? Gaf einhver vinnu sína, erfiði sitt, heilsu sína fyrir þig?

Um daginn áttum við hjónin nokkra daga undir jökli og nutum ægifagurrar náttúru þjóðgarðsins sem þar er nú orðinn. Við Þúfubjarg gengum við fram á fornar rústir þar sem ljóst má telja að menn hafi á fyrri öldum haft verstöð og stundað útræði. Þar sem við stóðum við löngu fallnar grjóthleðslur og skimuðum út á brimandi hafið við klettótta strönd laust niður þeirri hugsun að líkast til hefði einhver ættfaðir manns sótt þarna sjóinn við aðstæður sem í raun eru nútímamanni óskiljanlegar. Og hversu margir skyldu héðan hafa ýtt úr vör og hlotið vota gröf? hugsuðum við. Það gildir um okkur jafnt sem einstaklinga og þjóðfélag að við erum það sem við erum ekki síst vegna þeirra fórna sem færðar hafa verið. Já, m.a.s. sjálf lífkeðjan er keðja fórnar ef út í það er farið. Fórnin liggur lífinu við hjartastað.

III
En hvað kemur fórnin guðspjalli dagsins við? Er það ekki rindillinn Sakkeus sem leikur aðalhlutverkið í dag? Sá náungi var ekki beinlínis fórnandi manngerð og hefði seint verið valinn í slökkviliðið í Jeríkó því þau sem þekktu hann hefðu ekki þorað að treysta því að hagsmunir íbúa brennandi húsa væru í forgrunni hjá honum er á hólminn væri komið. En Sakkeus hafði nú samt komist í valdaaðstöðu og gerst embættismaður fyrir rómverska setuliðið. Og það fylgir sögunni óbeint að hann hafi makað krókinn í embætti. Frá því er greint að Sakkeus hafði klifrað upp í tré til þess að tryggja sér útsýni er Jesús nálgaðist borgina. Hinn gírugi embættismaður sat uppi í tré en almenningur stóð þar undir er Jesú bar að. Við skulum staðnæmast við þessa mynd. Í raun má segja að Sakkeus sé táknmynd græðgi og sérhagsmuna en fólkið undir trénu sé táknmynd öfundar og reiði. „Í dag ber mér að dvelja í húsi þínu!” mælti Jesús eins og við munum, og ef Gallup hefði gert skyndikönnun á vinsældum Jesú er hann gekk inn í hús tollheimtumannsins hefði hann skorað lágt.
Það undarlega gerist eftir samtal þeirra tveggja að yfilýsing kemur frá Sakkeusi þess efnis að hann ætli að færa fórnir í því skyni að ná trúnaði og trausti samborgara sinna. Um sekt hans er ekkert fullyrt, bara um fórnina. „Helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.” Sakkeus lýsir yfir fórn sinni. Hann leggur frá sér völd - eignir eru völd - og lýsir yfir vilja til iðrunar. (Lúk. 19.9)

IV
Sakkeus var embættismaður. Oft er við heyrum hugtakið embætti þá tengjum við það valdi, en sé hugtakið skoðað kemur í ljós að embætti er dregið af orðinu ambátt. Á það hefur og verið bent að í okkar málvenju höfum við nefnt æðstu menn ríkisins ráðherra en á enskri tungu er talað um þjóna, “ministers”, til að nefna sama hlutverk.

Af guðspjöllunum má ráða að í augum Jesú hlaut embætti ætíð að vera ambáttarþjónusta. Er vinir hans mátust á um völd sín þá mælti hann eitt sinn: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Mark 10. 43-45)Þannig undirstrikar Jesús að nýi sáttmálinn, nýja testamenntið, sé í eðli sínu ekki sáttmáli um hlýðni við lög og reglur heldur fórnarsáttmáli sem hafa skuli áhrif á breytni okkar.

Kristin hugsun veit að fórnin liggur lífinu við hjartastað og það vald sem safnar sjálfu sér í stað þess að fórna sér verður á endanum ógnarvald. Þess vegna verður embætti að vera ambáttarþjónusta. Embættismaður ber embættið ætíð á persónu sinni og það er skylda hans að láta persónulega hagsmuni víkja fyrir almannaheill.

Spilling er alvarleg hvar sem hún birtist og sínu verri eftir því sem valdið er meira, tækin stærri sem spilltir menn hafa með höndum. Verst af öllu eru þó spillt stjórnvöld, spilltir embættismenn, spilltir almannaþjónar því almannavaldið varðar sjálfan samfélagssáttmálann sem ekkert þjóðfélag getur þrifist án. Nú ríður á í samfélagi okkar Íslendinga að stjórnvöld gangi fram með þeim hætti að trúnaður þeirra við almenning verði ekki dreginn í efa og heilindi þeirra verði öllum ljós.

Sakkeus fórnaði völdum og gerðist reiðubúinn til iðrunar. Fórnin og viljinn til iðrunar liggur almannaheill við hjartastað.

Amen.

þriðjudagur, 6. janúar 2009

Hvernig skyldi þetta fara?

Bjarni skrifar:

Eftir tíu ár þegar við horfum aftur til þessa vetrar og metum viðbrögð okkar og ákvarðanir, munum við þá geta glaðst yfir því að hafa ekki selt frá okkur mennskuna?  

Nú murka Ísraelsmenn lífið úr Palestínumönnum með æfðum handbrögðum á meðan við sitjum hér úti á þessari eyju með lífið í lúkunum eigandi enga óvini aðra en viljann til að láta blekkjast og letina að nenna ekki að vera þjóðfélag.  

Rekstrareiningin Ísland er ekki ófýsilegur kostur þegar horft er til yfirvofandi matvælaskorts í veröldinni, orkuskorts, skorts á landrými og hreinu vatni.  Köld augu samsteypunnar huga nú að innviðum þessa litla þjóðfélags skimandi eftir veikleikamerkjum, hvort hér megi ekki bráðum kaupa upp...?  Hvort glundroðinn sé ekki brátt orðinn nægur og þjóðin svo óttaslegin að hún láti frá sér lífið fyrir brauð.  

Valdið sem safnar sjálfu sér fer ekki að okkur Íslendingum á skriðtólum, þess þarf ekki.  Þessi þjóð hefur tamið sér að fagna blekkingum og stjórnmál hafa verið dægurmál í hennar vitund.

Hvernig skyldi þetta fara?  Þjóðin sem í upphafi tók ekki land sitt frá neinum, mun hún afhenda það frá sér í hendur samsteypunni af því að hún vill hliðra sér hjá þeirri fyrirhöfn sem fylgir því að vera þjóðfélag?

Þjóð er fyrst og síðast siðrænt fyrirbæri.  Hún er vitund.  Þjóð er sáttmáli um mennsku.  Þegar við t.d. hópumst að áramótaskaupinu öll sem eitt kl. 22:30 á gamlárskvöldi þá er það ekki vegna þess að þar megi vænta einhvers sem er fyndnara en annað afþreyingarefni.  Það er vitundin um sáttmálann sem dregur okkur að skjánum.  Þegar við heilsum löndum  okkar í útlöndum þá er það vitundin um sáttmálann. 

Nú eigum við val.  Við getum selt sáttmála okkar um mennsku og fengið að honum ágæta kaupendur svo hér verði þægilegt að dvelja.  Fyrstu tilb0ð samsteypunnar munu líkast til snúa að nauðaeinföldum hlutum eins og vatnsréttindum okkar og þau eiga eftir að verða fleiri, borin fram af geðþekku fólki og fyrirtækjum sem umfram allt vilja styðja við okkur í ljósi erfiðleika. En við getum líka ákveðið að vera áfram þjóð.  Við getum byrjað að tala saman og tekið sameiginlegar ákvarðanir án þess að lúta yfirvaldi. Við getum endurnýjað sáttmálann og komist að því hverskonar lífi okkur fýsir að lifa.  Ef við nennum getum við arfleitt börnin okkar að þjóðfélagi sem á sér land og tungumál og sögu og sið.

Hvernig skyldi þetta fara?


laugardagur, 3. janúar 2009

Reiðin er eldri en kreppan

Bjarni skrifar:  
Rannsóknir á atferli forfeðra okkar í þróun tegundarinnar, prímatanna,  hafa sýnt að átök taka jafnan örfá andartök en sáttaferlið getur tekið sólarhringa.  Átök eru einföld en sáttin er flókin. 

Ástæða þess að hómó sapiens fæðist bjargarlaus áður en hann er líkamlega fær um að sinna brýnustu verkefnum sínum og er því algerlega háður umönnun foreldra er sú að höfuð hans er svo fyrirferðarmikið.  Þetta mikla höfuð er forsenda þeirra flóknu félagstengsla sem við iðkum og nefnd eru menning.  Tungumálið er veigamikill þáttur menningar, en þar eu ótal fleiri kerfi sem mannsheilinn verður að takast á við eigi einstaklingurinn að geta verið með í samfélagi manna.

Minn gamli lærifaðir úr menntaskóla, Örnólfur Thorlasíus, benti mér á það fyrir nokkrum árum að þegar tungumálið hafi verið komið til skjalanna og menning tegundarinnar var orðin flókin þá hafi náttúran búið til afa og ömmur.  Kvendýr hafa ekki tíðahvörf, bara konan.  Þannig urðu til ömmur og afar þegar félagsgerð hómo sapiens var orðin svo flókin að það þurfti tvær kynslóðir frekar en eina til þess að miðla reynslunni.  Það er ekkert áhlaupsverk að vera manneskja.

Núna þurfum við að rannsaka friðinn í samfélagi okkar og finna þær leiðir sem að honum liggja.  Átök eru einföld en sáttin er flókin.  Við þekkjum hið forna hebreska friðarhugtak Shalom.  Það hugtak á ekkert skylt við aðgerðarleysi.  Shalom er alltaf stríðandi ferli, það er ástand eða samhengi þar sem lífið á vaxtarskilyrði.  Höfuð einkenni Shalom í gömlu hebresku ritunum í Biblíunni er réttlæti.  Án réttlætis og jafnaðar er enginn friður.  

Réttlæti í lífi einstaklinga og hópa snýst um það að vera ekki jaðarsettur, ýtt til hliðar í samfélagi manna.   Í þeim langa aðdraganda sem kreppan hafði á meðal okkar, öll þensluárin, þá jókst misskipting valds og æ fjölmennari hópar voru jaðarsettir.  Auður og völd skiptust á færri hendur og þeim fjölgaði sem skynjuðu sig sem valdalaus samfélagspeð.  

Allir þurfa völd.  Okkur er nauðsyn á að finna að við höfum eitthvað um líf okkar að segja annars lifum við í ótta og ótti magnar upp reiði.  Reiðin sem núna kemur fram í samfélaginu og birtist m.a. í pústrum og rofnum sjónvarpsútsendingum er að mínu áliti eldri en kreppan.  Hún stafar af óvissunni um að tilheyra samfélagi sem maður skilur og tekur þátt í að móta.