laugardagur, 24. janúar 2009

Kirkjuganga er meira en góður vani

Nú sitjum við hjónakornin við tölvuna og erum að undirbúa prédikun morgundagsins sem minnir okkur á það að við verðum alltaf að fara að sofa á laugardagskvöldum. Ekkert pláss fyrir þorrablót og snafsa... En við vorkennum okkur ekkert því að eitt af því skemmtilegasta sem við gerum er að hugsa og tala saman. Eitt af því sem við sjáum fyrir okkur sem þema á þessari vorönn í prédikun okkar er að fjalla um hið nýja Ísland og það hvernig kristin trú getur skapað mikilvæga vegvísa á þeirri leið.

Hósea spámaður var uppi á 7. öld fyrir Krist. Í texta sem fluttur er í kirkjum landsins á morgun talar þessi ævaforna rödd beint inn í aðstæður dagsins. Þar eru hugtökin réttlæti og réttvísi. Þar er talað um tryggð milli fólks og margt fleira sem límir saman mannfélagið. Þar er tilifinning fyrir samhengi mannsins og lífkerfisins að öðru leyti og sú vitneskja tjáð að friður og farsæld manna stendur í beinu samhengi við gildin sem menn rækta í samskiptum sínum.

Þetta ætlum við að skoða og fjalla um í messum okkar á morgun í Bessastaðakirkju og Laugarneskirkju kl. 11:00.

Kirkjuganga er meira en góður vani. Með kirkjugöngu lýsir fólk yfir samstöðu með náunga sínum, þakklæti til lífsins og vilja til að láta gott af sér leiða.

Við hvetjum fólk til að leita uppi sóknarkirkjuna sína og taka þátt í lífi safnaðarins.

Engin ummæli: