sunnudagur, 25. janúar 2009

Öld þóttans

Sælt veri fólkið!
Hér er prédikun okkar frá þessum degi flutt 25. 1. 2009 í Bessastaðakirkju og Laugarneskirkju kl 11:00 og loks í Vídalínskirkju kl. 20:00.

Útdráttur:
„Við Íslendingar stöndum á þröskuldi nýrrar aldar. Þóttinn er fallinn af stalli sínum, trúin á hinn staka mann er dauð og nú er okkur frjálst að hugsa upp á nýtt og sjá samhengi okkar við náttúruna og mannfélagið. Nýr sáttmáli er í smíðum og hann skal fela í sér vitund um lífríkið og sátt manna í millum þar sem hótunarvaldi er hafnað, en friðarviljinn hafinn til vegs.”




I
Taktöfst hávaðabylgja mannfjöldans náði langt upp fyrir húsþökin þangað sem reykjarmökkurinn af bálkestinum þyrlaðist í rokinu en bjarminn af eldinum baðaði Alþingishúsið birtu sem enginn hafði áður séð það í. Við erum ekki þjóð sem kveikir elda í miðbænum, erum ekki mótmælaþjóð, reið þjóð í eigin vitund, en þarna var það að gerast líkt og í martröð og eldurinn, þetta frumstæða afl bálaðist sem tákn um þá krafta sem leystir voru úr læðingi í mannfélaginu. Enginn vissi hver stefnan yrði. Mannfjöldinn stóð nærri bálinu og logar þess spegluðust í glerhjálmum lögreglumannanna sem stóðu hreyfingarlausir í beinni röð fyrir framan Alþingishúsið, húsið sem staðið hefur sem tákn þess samtals sem þjóðin á og hefur átt allt frá stofnun Alþingis við Öxará, húsið sem enn ber á framhlið sinni merki danska konungsins og minnir okkur á að sjálfstæði þjóðar er ekki sjálfsagt.

Ungur maður með klút fyrir andliti gengur ógnandi á móti lögreglunni og slær í einn plastskjöldinn. Lögreglumaðurinn stendur kyrr. Ungi maðurinn tekur þrjú skref áftur á bak og gerir sig líklegan til að hlaupa sparkandi í átt að lögreglunni. Þá gerist hið óvænta. Sá síðarnefndi lyftir snöggt upp plasthlífinni á hjálmi sínum og gefur manninum merki um að hann vilji ræða hann. Hinn gengur hikandi nær og sér andlit lögreglumannsins sem horfir á hann döprum augum og segi hátt svo að hinn heyrir í gegnum glyminn: “Ég er maður eins og þú! Ég á barn, konan mín er orðin atvinnulaus og við óttumst að missa heimili okkar. Ég er líka reiður!” Svo skellti hann niður hlífinni og tók sér stöðu sem fyrr. Við þessi orð gekk maðurinn með hulda andlitið á braut.

Þessi frásögn sem ég heyrði í vikunni rifjar upp annan atburð sem einnig gerðist í miðbæ Reykjavíkur á þeim árum er ég tók þátt í Miðborgarstarfi þjóðkirkjunnar. Þá var mikill fjöldi unglinga í miðbænum um helgar og iðulega myndaðist spennuþrungið hættuástand og eftir á sér maður að það er mikið þakkarefni að enginn af þeim mörgu sjálfboðaliðum sem þar lögðu lóð á vogarskálar skyldu meiðast alvarlega. Eitt sinn gerðist það þó að einn af okkar fólki varð að leita á neyðarmóttöku vegna sára eftir að hafa verið sleginn í andlitið af ungum manni sem var á valdi örvandi efna og hafði í brjálæði sínu hótað manninum lífláti. Helgina eftir var þessi ágæti félagi okkar mættur til starfa og þá ber að þennan sama dreng. Mér krossbrá er ég sá þennan fimmtuga karlmann rísa á fætur og ganga að drengnum sem viku fyrr hafði ögrað heilsu hans og lífi. Hann kom upp að honum og þeir skiptust á nokkrum orðum. Síðan gaf hann mér merki um að koma með þeim til að tala saman.
Við settumst inn í herbergi sem við höfðum til afnota í húsinu að Austurstræti 20 og þessi reyndi sjálfboðaliði horfði ástúðlega en með mikilli alvöru í augu unga mannsins og sagði við hann: „Mig langar til þess að segja þér, svo að hugsir um það næst þegar þú ætlar að meiða einhvern eins og þú meiddir mig, að ég er ekki bara einhvert skurn. Ef þú meiðir mig þá meiðir þú um leið margt fleira fólk. Ég er giftur og á tvö börn, ég á aldraða foreldra sem þurfa á mér að halda og mörg systkini. Ég rek líka byggingafyrirtæki og það eru margir sem verða að treysta á það að ég sé hraustur og geti mætt í vinnu. Ég hvet þig til þess að hugsa um þetta næst þegar þig langar að berja einhvern. Hugsaðu um það hver hann kynni að vera, hvort einhverjum þyki e.t.v. vænt um hann.”
Drengurinn sat þegjandi um stund, en í framhaldinu opnaðist langt og gott samtal um hans líf, hans ástvini og hans sorgir... Þessi atburður og þessi stund mun seint líða mér úr minni.

Það sem þarna gerðist var það sama og átti sér stað í samskiptum lögreglumannsins og mótmælandans, það var rifjaður upp sáttmáli. Sáttmáli sem þegar var fyrir hendi var afhjúpaður. Sáttmáli mennskunnar. „Ég er maður eins og þú!”

- Veistu að þetta er inntak kristinnar trúar? Ég er maður eins og þú, segir Guð við þig í Jesú Kristi. Ég er maður eins og þú, svo að þú getir kannast við náunga þinn. Sáttmáli krossins er sáttmáli mennskunnar. Lögreglumaðurinn og mótmælandinn rifjuðu upp sáttmála mennskunnar, miðaldra sjálfboðaliðinn og ráðvilti unglingurinn gerðu slíkt hið sama. Fagnaðarboð kristinnar kirkju er sú frétt að sáttmáli mennskunnar hafi verið unninn í eitt skipti fyrir öll í lífi, dauða og upprisu Jesú Krists. Það er ekki annað en að rifja hann upp.


II
Það er talað um sáttmála í Íslensku þjóðfélagi í dag. Við erum í óðaönn að skilgreina hvaða sáttmálar hafi brugðist og hverjir enn standi með þjóð okkar. Við tölum um nauðsyn þess að endurnýja jafnvel sjálfan sáttmála lýðveldisins með nýrri stjórnarskrá. Við tölum um nýtt Ísland.

Hósea spámaður var uppi á miklum umbrotatímum er samfélag hins svonefnda norðurríkis Ísraels var við það að liðast í sundur. E.t.v. er það þess vegna sem lexía þessa sunnudags hljómar með nýjum hætti er Guð mælir fyrir munn spámannsins:

„Ég fjarlægi nöfn Baala úr munni [þjóðarinnar]
 og þeir verða ekki nefndir á nafn framar. Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn
við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar
og eyði boga, sverði og stríði úr landinu
og læt þá búa óhulta.” (Hósea 2.19)

Þjóðin hafði yfirgefið sinn fyrri sið og framandi viðhorf höfðu tekið bólfestu í landinu. Í stað trúarinnar á gjafara lífsins og sáttmálann sem hann hafði svarið þjóðinni voru hinir mörgu guðir Baal-átrúnaðarins dýrkaðir og þeim voru færðar fórnir, stundum mannfórnir, auk þess sem konum var haldið í kynlífsánauð í hofum tengdri frjósemisdýrkun. Baal-átrúnaðurinn var þegar orðinn mörg hundruða ára gamall er Hósea var á dögum og var útbreiddur í Kanaanslandi og í Fönikýu. Um gagn og ógang þess átrúnaðar skal ég ekki fjölyrða því þar skortir mig þekkingu en um okkar menningu leyfi ég mér að tala og held því fram að e.t.v. verði sú öld sem nú er að líða undir lok í menningu okkar nefnd öld þóttans í sögubókum framtíðarinnar. Öld þóttans. Við höfum trúað því að hver sé sjálfum sér næstur. Við höfum fest trú okkar við séreignina og sjálfdæmið, boðað þann sið að eignarétturinn sé hið helgasta vé og að frelsi einstaklingsins skuli engri reglu lúta, en höfum misst sjónar á þeim gildum sem varðveita lífið og skýra samhengi þess.
„Ég fjarlægi nöfn Baala úr munni [þjóðarinnar]
og þeir verða ekki nefndir á nafn framar.” Sagði Guð við Ísraelsmenn. - Ég fjarlægi klisjur markaðshyggjunnar úr munni þjóðarinnar, segir Guð við okkur í dag. Þú ert ekki það sem þú átt. Það er ósatt að öll samskipti séu viðskipti. Lífið er meira en markaðurinn.

Áfram mælir Guð fyrir mun spámannsins:

“Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn
 við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar
og eyði boga, sverði og stríði úr landinu
og læt þá búa óhulta.” (Hósea 2.20)

- Sáttmáli Guðs er ekki bara við menn. Dýr merkurinnar, fulgar himins, skriðdýr jarðar og allt sem anda dregur er innifalið í þeirri vitundarvakningu sem skapari heimsins þráir að leiða fram meðal manna. Sáttmáli Guðs er við lífríkið allt og hann mun eyða „boga, sverði og stríði úr landinu” svo menn megi búa óhultir.


III
Við Íslendingar stöndum á þröskuldi nýrrar aldar. Þóttinn er fallinn af stalli sínum, trúin á hinn staka mann er dauð og nú er okkur frjálst að hugsa upp á nýtt og sjá samhengi okkar við náttúruna og mannfélagið. Nýr sáttmáli er í smíðum og hann skal fela í sér vitund um lífríkið og sátt manna í millum þar sem hótunarvaldi er hafnað, en friðarviljinn hafinn til vegs.

Og enn mælir Guð fyrir munn spámannsins í lexíu dagsins:

“Ég festi þig mér um alla framtíð,
 ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi,
 ég festi þig mér í tryggð,
 og þú munt þekkja Drottin.”
 (Hósea 2.21-22)

Hér eru nefnd þau gildi sem ekki hafa fyrnst þau 2700 ár sem liðin eru frá þeim tíma er Hósea var á dögum: Réttlæti, réttvísi, kærleikur, miskunnsemi og tryggð. Megi hið nýja Ísland kannast við Guð sinn, kannast við sáttmála mennskunnar og endurheimta þau grunngildi sem liggja lífinu við hjartastað.

Amen.

Engin ummæli: