þriðjudagur, 21. júní 2011

Sorgir kirkjunnar

Léttar raunir eru málgefnar en þungar sorgir eru þöglar.
Þegar rannsóknarskýrsla kirkjuþings var lögð fram á dögunum sló þögn á alla sem unna kristinni kirkju í landinu. Kirkjuþing var haldið og við þau orð sem þar féllu og það atferli sem þar var við haft hefur þögnin orðið dýpri.

Ef kirkjan væri skógræktarfélag. Ef hún væri í fiskeldi eða loðdýrarækt þá myndi vandinn horfa öðruvísi við. Vöxtur skóga og viðgangur eldisdýra truflast ekki þótt stjórn félagsins gangi í gegnum krísur. En kirkjan er í mannræktinni og mannlífið er þannig vaxið að það blómstrar ekki nema það lifi við heilindi.
Kirkjan er fjöldahreyfing sem fjallar um trúnaðinn við lífið. Hún er mannlífstorg samstöðunnar, staðurinn þar sem komið er saman jafnt í gleði og sorg til þess að endurnýja sáttmálann við Guð og menn. Hún teygir sig inn í Kolaportið og út í dreifðustu byggðir með góðu fréttirnar um frelsi og jafnstöðu allra. Enginn á hana en allir mega tilheyra henni. Hvort sem klukkurnar óma í Hallgrímskirkju eða á Kópaskeri þá er tilboðið það sama. Sögurnar sem þar eru sagðar, bænirnar, söngvarnir - allt miðlar það þekkingu á lífinu og fjallar um þau gildi sem liggja hamingjunni við hjartastað og kenna okkur göngulag gæfunnar. Þess vegna er ranglæti í kirkjunni sárara en annað ranglæti. Þar má enginn taka vald yfir öðrum, og þegar það gerist fellur á þögn.

Rannsóknarskýrslan rekur sorgarsögu þar sem þvingunarvaldi var beitt til að skapa hjarðhegðun og trúnaður var rofinn með svo margvíslegu móti til þess eins að tryggja persónur í sessi. Afleiðingin var sú að þolendur og gerendur voru svipt rétti sínum til sálgæslu og kirkjan var svipt trúverðugleika sínum sem vettvangur öryggis og heilbrigðis.
Við upphaf Kirkjuþings sem haldið var í tilefni af útgáfu skýrslunnar urðu þau tíðindi að gömul leiktjöld voru dregin upp og sama vinnulag var við haft. Forseti Kirkjuþings, Pétur Kr. Hafstein, hóf atburðarásina með ræðu sinni þar sem hann gerði persónu herra Karls Sigurbjörnssonar að aðalatriði og fjallaði af tilfinningaþunga um þau spjótalög sem að honum hafi verið rétt utan úr samfélaginu og ekki síður innan úr kirkjunni og lét þess getið að kirkjunnar fólk ætti að standa með sínum besta manni en ekki leggja til hans. Þannig dró hann upp mynd af kirkjunni sem biskupskirkju um leið og hann flokkaði kirkjulega þjóna í tvo hópa, annan vinveittan en hinn ekki. Hvort tveggja var óboðlegt. Kirkjan er ekki biskupskirkja heldur hreyfing trúaðra og þar heyrast og eiga að heyrast margar raddir. Með aðferð sinni leitaðist Pétur við að móta andrúmsloft hjarðhegðunar þar sem gagnrýninni hugsun er úthýst og hún túlkuð sem fjandskapur. Rannsóknarskýrslan ber því vitni að aðferðin er gamalreynd og að hún virkar.

Herra Karl Sigurbjörnsson ávarpaði einnig samkomuna, settist að því búnu í öndvegi og vék ekki úr sal eða í áheyrnarsæti þótt persóna hans og embættisverk væru til umræðu. Einnig það var óboðlegt.
Í vissum skilningi var þetta Kirkjuþing einkar gagnlegt því þar staðfestust fyrir allra augum niðurstöður rannsóknarskýrslunnar í verki. Með þeirri umgjörð sem forseti kirkjuþings og biskup gáfu Kirkjuþingi þennan morgun var þingið í raun óstarfhæft. Ræða forseta og seta biskups í öndvegi voru skilaboð um vantraust á kirkjuþing, trúnaðarrof. Það eina sem vantaði til þess að fullkomna myndina var að fram kæmi tillaga um stuðning kirkjuþings við Biskup sem samþykkt væri með yfirgnæfandi fjölda atkvæða. Þá hefði gamli tíminn algerlega verið endurnýjaður og Kirkjuþing lagt frá sér myndugleika sinn.

Nú stendur sterk krafa á okkur presta utan úr samfélaginu um það að afsegja biskup. Við prestar erum ekki tilsjónarmenn biskups og höfum ekkert formlegt vald í okkar höndum. Allir geta beitt hótunum, en hótanir munu ekki leysa þann djúpa félagslega og tilfinningalega vanda sem Þjóðkirkjan á við að glíma og blasir nú við með svo átakanlegum hætti. Við stöndum nú frammi fyrir því prófi hvort við veljum í raun að tileinka okkur baráttuaðferð Jesú Krists sem gerði hvorki að flýja eða höggva heldur stóð í sannleikanum. Sannleikurinn rekur sig sjálfur og það er ekki verkefni okkar að frelsa hann heldur leyfa honum að frelsa og styrkja.
Nú eru úrslitatímar í kirkjunni á Íslandi og þeir snúast ekki um persónu herra Karls eða nokkurs annars, heldur um það hvort okkur auðnist að vinda ofan af þeirri valdsmenningu sem lengi hefur verið þróuð við stjórn kirkjunnar en móta með okkur valdeflandi menningu þar sem hið góða samtal er iðkað og ólíkar raddir fá að hljóma. Óskýr skilaboð biskupsins um brotthvarf úr embætti valda því að óreiðuöflin fá enn aukið slagrými og kirkjan okkar færist enn utar á jaðar hins góða lífs í vitund almennings.

þriðjudagur, 14. júní 2011

Rannsóknarskýrslan - feginleiki og reiði

Í dag megum við vera fegin og reið. Það fylgir því jafnan feginleiki þegar sagan er sögð eins og hún er og mál eru gerð upp af einurð og heilindum. Það þekkjum við hvert og eitt úr eigin lífi. Og stundum er sannleikurinn þannig að hann vekur manni reiði.

Rannsóknarnefnd kirkjuþings hefur lokið við gerð skýrslu um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot og í dag var kirkjuþing kallað saman til viðbragða. Skýrslan er vel unnin og fáir munu efast um niðurstöður hennar. Þar er afhjúpað hvernig ráðaleysi einkenndi viðbrögð embættismanna þjóðkirkjunnar er ásakanir komu fram á hendur Ólafi Skúlasyni. Skortur og töf á viðbrögðum er áberandi þáttur gagnrýninnar. Fullyrt er að aðstoð við þolendur hafi verið ófagleg og illa ígrunduð og lítil áhersla lögð á sálgæslu fyrir þá einstaklinga sem stigu fram og fjölskyldur þeirra. Gerðar eru athugasemdir við störf stjórnar prestafélagsins og siðanefndar en einkum eru það þáverandi kirkjuráðsmenn og prófastar sem áminntir eru fyrir alvarleg mistök í embætti. Einnig er fjallað um þátt herra Karls Sigurbjörnssonar sem þá sat í kirkjuráði og átti aðild að ályktun þess gegn konunum sem ákærðu biskup en tók jafnhliða að sér hlutverk sáttamiðlara milli kvennanna og Ólafs. Rannsóknarnefndin úrksurðar að þar hafi Karl gert mistök í sálgæslu. Þessu og ýmsu fleiru þarf að taka við.

Þá skal einnig að horfa til þess sem fram kemur að strax árið eftir að málið kom upp, 1997, skipaði kirkjuráð nefnd sem var falið að móta stefnu um meðferð kynferðisbrotamála innan kirkjunnar. Í kjölfarið voru samþykktar starfsreglur á kirkjuþingi árið 1998 um meðferð kynferðisbrota innan kirkjunnar og samhliða því var stofnað fagráð sem ætlað var að tryggja að slík mál fengju viðeigandi meðferð. Þá voru á kirkjuþingi árið 2009 samþyktar siðareglur fyrir vígða þjóna og annað starfsfólk þjóðkirkjunnar sem m.a. taka til misnotkunar á aðstöðu í kynferðislegum tilgangi. Og nú síðast árið 2010 voru settar reglur um skimun við mannaráðningar Þjóðkirkjunnar þar sem leitast er við að tryggja að starfsfólk kirkjunnar hafi öruggan bakgrunn og eigi ekki sögu um ofbeldisbrot. Allt hefur þetta orðið til stórra bóta en
þó segir rannsóknarnefndin að enn sé töluverð vinna eftir hjá kirkjunni í því skyni að draga úr líkum á að kynferðisofbeldi eigi sér stað innan hennar og auka lýkur á að þolandi fái viðunandi stuðning í þessum efnum.

Af umræðum sem í dag fóru fram á kirkjuþingi má ráða að menn gera sér grein fyrir því að erindi kvennanna sem gengu fram á sínum tíma var mikilvægt og réttmætt. Í dag var hugrekki þeirra og einurð þökkuð. Sigrún Pálína Ingvarsdóttir hefur talað opinberlega um þá ósk sína að kirkjan megi verða heil og hún bíður þess dags að hún finni sig frjálsa til að skrá sig að nýju í Þjóðkirkjuna.

Þá er mjög mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu þætti Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sem gengið hefur fram í þágu kvennanna sem ásökuðu föður hennar og í þágu kirkjunnar. Hún hefur með vitnisburði sínum varpað mikilvægu ljósi á málsatvik.

Erindi hennar til kirkjuráðs var samhjóða erindi Sigrúnar Pálu er þær komu á fund þess hvor í sínu lagi. Þær hvetja þjóðkirkjuna til að taka skýra afstöðu gegn kynferðisofbeldi og standa vaktina með öllum þeim einstaklingum og samtökum sem stuðla að vitundarvakninu meðal þjóðarinnar um þessi alvarlegu mál. Því var það fullkomlega eðlilegt í ljósi atburða að æðsta valdastofnun Þjóðkirkjunnar veitti þeim áheyrn og engar forsendur til neinna undanbragða með það.

Nú er það verkefni kirkjuþings að móta opinn farveg í þessu erfiða máli svo að enginn þurfi að efast um heilindi og heilbrigði kirkjunnar. Heiður kvennanna sem ákærðu biskup hefur verið endurreistur en sæmd kirkjunnar er í sárum og verður það uns fundin er leið til opinna sátta sem fela í sér sanngirni gagnvart konunum sem hún misbauð. Kirkjan þarf að rata leiðina til baka gagnvart þeim sem persónum. Næst á forgangslistanum skyldi vera að kirkjan verði fyrirmyndarstofnun í íslensku samfélagi í því að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi og móta með sér fyrirmyndarviðbrögð og ferla þegar slík mál koma upp. Þar er sérstakur fengur í framlagi dr. Berglindar Guðmundsdótur sem fylgir skýrslunni þar sem hún gefur fræðilega greinargerð um eðli og afleiðingar kynferðisofbeldis.

Rannsóknarnefndin getur þess víða í niðurstöðum sínum að kirkjunni beri að starfa í anda mannhelgi og virðingar. Gott að þess sé getið. Þar höfum við fordæmi Jesú frá Nasaret sem ítrekað hafnaði þöggun og jaðarsetningu en efldi þor og kjark þeirra sem hann mætti og gerði ráð fyrir jafnstöðu allra manna.

Rannsóknarskýrslan segir sögu. Megin aðferð kristinnar kirkju á öllum tímum er sú að segja sögur. Kirkjan trúir því að það þurfi engu að gleyma og að sagan sýni ætíð að lokum hvernig Guð láti allt samverka til góðs. Því er þöggun kirkjunni óeðlileg. Þegar kirkjan þaggar fólk fer hún ekki að eðli sínu en þegar hún segir söguna fer hún að sínu rétta eðli svo að sannleikurinn fær að fæðast og sáttin að skapast.

Nú eru úrslitatímar í kirkjunni og ekki í boði að láta óttann ráða för. Nú þarf að fara fram alvöru sjálfsskoðun þar sem almannahagur er tekinn fram yfir persónulega hagsmuni. Kirkjan er ekki til sjálfrar sín vegna heldur er hún sett til að vera heilagt samfélag, öruggur staður fyrir fólk.