sunnudagur, 29. ágúst 2010

Verjumst ekki

Hér kemur prédikun kvöldsins frá okkur hjónum sem flutt var á sama tíma í Bessastaðakirkju og Laugarneskirkju:

„Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.” (1.Jóhannesarbréf 4.7-11)

Finnið þið hvað þessi orð eru mikilvæg þegar þið heyrið þau núna? Finnið þið hvað þau eru nærandi og hve gott er að heyra þau einmitt hér í þessari messu á sama tíma og allt kirkjunnar fólk í landinu er að takast á um það innra með sér hvort rétt sé að verja kirkjuna með mannlegu valdi eða hvíla í Drottni og treysta? Við heyrum öll að hér er staðfesting á því að Guð er kærleikur.
Í bráðum tvo áratugi hefur kirkjan verið að fálma vegna kynferðisafbrotamála sem komust svo í hámæli fyrir fjórtán árum og það er svo augljóst þegar maður heyrir þennan texta að ástæðan fyrir því að kirkjan er búin að fálma í allan þennan tíma er sú að auk þess sem hún átti ekki skýrar verklagsreglur þá missti hún sjónar af kærleiksboðskap Krists.

Og nú eftir þessa áratuga þrautagöngu þar sem fólk er búið að vera að velta fyrir sér hvers vegna þetta mál sé svona sárt og hvers vegna þetta komi upp aftur og aftur þá sjáum við að leiðtogar kirkjunnar, við prestarnir, gleymdum að hlusta með hjartanu. Við gleymdum að hlusta í Krists stað en létum duga að verja mannlegan heiður. Nú gengur margt fólk fram í samtalinu innan kirkjunnar og ekki síst innan prestastéttarinnar og biður um uppgjör, fyrirgefningu og sátt. Og það er þannig þótt ekki sé fjallað um það í fjömiðlum að nú fer fram gríðarleg vinna innan prestastéttarinnar í því að fara leið kærleikans og sannleikans. Jesús fór alltaf leið kærleikans, réttlætisins og sannleikans alveg sama hversu illa það gat komið við menn þá gafst hann ekki upp við það. Og það er bara þannig í þessu máli að tími er kominn að hætta að dæma og verja sjálfan sig en taka við lækningunni.

Jesús vissi að það yrðu alltaf til þolendur ofbeldis, þess vegna gaf hann okkur söguna um miskunnsama Samverjann sem flutt er í öllum kirkjum á þessum degi. Hann vissi að á öllum tímum yrði ofbeldi þar sem fólk yrði barið í götuna, hvort sem það væri líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt. Hann vissi að það yrðu alltaf til ræningjar, persónur sem biðu átekta og sætu fyrir fórnarlömbum sínum til þess að meiða. Og hugtakið ræningi lýsir svo vel öllum myndum ofbeldis, vegna þess að ofbeldið rænir persónur, jafnt þolendur sem gerendur, mynd sinni og reisn. Og enda þótt maðurinn lægi blóðugur í götunni þá var það ekkert öðruvísi en í hinu kynferðislega ofbeldi því þar er þolandinn rændur sjálfsmynd sinni og í staðin kemur skömm og sársauki og sorg. Jesús vissi líka að það yrði alltaf til fólk sem hefði ekki hugrekki, hann vissi að það yrði alltaf til fólk sem gengi framhjá, enda segir hann frá prestinum og Levítanum sem gengu framhjá, en hann útfærir það ekki með neinum hætti, því þeir eru fulltrúar okkar allra alveg eins og ræningjarnir í sögunni eru fulltrúar okkar allra. Hann bara segir okkur að það verður alltaf til fólk sem gengur hjá alveg sama hver tegund ofbeldisisns er. Og iðulega gerist það að fólk gerir meira en að ganga fram hjá því stundum finnum við okkur knúin til þess að tala fórnarlambið niður. Með því að hengja á hinn meidda og brotna merkimiða óhreinleika og sakar erum við að fjarlægja hann okkur. Þekkir þú þetta? Það auðveldar okkur að ganga hjá ef við byggjum upp þá ímynd að áfallið sé fórnarlambinu að kenna. Það dregur úr ótta okkar allra við hið augljósa, að einnig við, já alveg eins við gætum verið í sporum þolandans. Þess vegna verða til setningar eins og þetta fólk getur nú sjálfu sér um kennt, eða hvað var manneskjan að þvælast þarna svona klædd? O.s.frv.

En leið þöggunarinnar er alltaf ófær því að sannleikurinn hefur alltaf sigur. Hann er þannig sannleikurinn. Það býr í honum sigurinn. Á stundu ofbeldisins virðist þessu að vísu öfugt farið, þá virðist valdið og styrkurinn vera hjá gerandanum. Þess vegna eru fyrstu viðbrögð okkar gjarnan þau að standa með honum en ásaka þolandann, vegna þess að við erum hrædd. En Jesús bendir á að það er óskynsamlegt. Í Lúkasarguðspjalli talar hann m.a. um veruleika þöggunarvaldsins er hann segir: „Varist súrdeig farísea sem er hræsnin. Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert né leynt er eigi verður kunnugt. Því mun allt það sem þér hafið talað í myrkri heyrast í birtu, og það sem þér hafið hvíslað í herbergjum mun kunngjört á þökum uppi. (Lúk. 12.2-3)

Svo vissi Jesús líka, og það er auðvitað það stórkostlega, að það eru alltaf til miskunnsamir Samverjar. Í síðustu viku sendi hann okkur einn slíkan og það var Guðrún Jónsdóttir Stígamótakona sem talaði í Kastljósi Sjónvarpsins. Þar var á ferð reynslumikill og vitur Samverji sem var algerlega hafinn yfir það að dæma heldur gat með visku sinni og reisn hjálpað okkur að staldra við hjá manninnum sem lá í götunni og vita hvernig við ættum að lyfta honum upp og koma honum til gistihússins.
Sem betur fer eru á öllum tímum í samfélagi okkar til miskunnsamir Samverjar. Það sem Jesús er að gera með því að setja Samverjann inn í söguna sína er að opna augu okkar fyrir því að Samverjinn getur verið úr öllum hópum. Hann getur allt eins komið af jaðrinum. Manneskjan sem við síst reiknuðum með að vildi vera til staðar fyrir aðra getur reynst vera hann. Persónan sem við búumst ekki við neinu góðu af vegna fordóma okkar getur einmitt verið miskunnsami Samverjinn. Við vitum að í samtíma Jesú voru Samverjar álitnir óhreinir og framandi.

Við höfum séð einn þolanda kynferðisofbeldis vera í mjög merkilegri stöðu á undanförnum árum, en það er Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, því hún hefur verið bæði í stöðu þess sem í götunni liggur vegna ofbeldisins en einnig í stöðu Samverjans. Það þarf mikinn styrk til þess að fara í bæði hlutverkin í eigin lífi og lifa það af með þeirri reisn sem Sigrún Pálína gerir. Maður finnur að núna þegar fólk skráir sig umvörpum úr Þjóðkirkjunni vegna skiljanlegrar reiði sinnar, þá á hún svo mikla grundvallar umhyggju fyrir kirkjunni sem hún þráir að tilheyra að hún gefst ekki upp við að ná eyrum manna í þeirri viðleitni að gera Kirkjuna heilli og sannari, eins og hún sagði í Kastljósviðtali á fimmtudaginn var. Hutverk Samverjans í dæmisögunni er að gera kirkjuna heilli og sannari. Sigrún Pálína gengur ekki úr kirkjunni fussandi og sveijandi og dæmandi. Hún vill tilheyra sinni kirkju og hún þráir að sjá heilbrigðið ná yfirhöndinni. Hversu stórkostlegt tækifæri er það fyrir okkur hin að vera samferða henni í því?

Af hverju getur fólk fengið svona sterka þrá til þess að þjóna og umvefja kirkjuna sína? Við gætum núna bara staldrað við og horft hvert á annað sem erum hér í kirkjunni í kvöld, vegna þess að við vitum þegar við hugsum með hjartanu hvaða gæði það eru sem valda því að við finnum svona til þessa daga og við þráum að kirkjan megi vera heil og sönn og gegna hlutverki sínu; Að kirkjan sé ekki á jaðrinum í samfélaginu heldur vinni verk miskunnsama Samverjans sem lyftir upp hinum fallna og kemur honum til byggða og sleppir ekki af honum hendinni fyrr en hann hefur náð fullri heilsu og réttri mynd af sjálfum sér. Þetta vitum við með hjartanu.

Ég vil deila því með ykkur kæri söfnuður að ég er stöðugt grátandi þessa daga, og það á við um okkur bæði hjónin. Í hjarta okkar er endalaus sorg. Og þegar við vorum að setja þessi orð niður á blað vorum við sammála um að innra með okkur skynjum við að við erum sem kirkja og samfélag komin að tímamótum sem í senn eru sár og brýn.

Árið 1996 fyrir fjórtán árum síðan höfðum við tækifæri þegar öll þessi sársaukamál komust í hámæli. En þá fórum við þá leið þegar búið var að færa gerandann í burtu að loka málinu og trúa því að nú myndi allt lagast af sjálfu sér. Slíkt heitir þöggun og óuppgerðar tilfinningar. Mörg sár orð höfðu verið látin falla og vond samskipti höfðu átt sér stað í angistinni innan kirkjunnar en við ákváðum að gera ekkert með það. Og í stað þess að við prestarnir hefðum setst niður og viðurkennt að við vorum öll gerendur og þolendur og ekki síður syrgjendur í þessu máli og þyrftum að hlúa hvert að öðru og viðurkenna vanmátt okkar, þá fór bara hvert á sinn stað og hélt áfram með verk sitt og eigin hugsanir og sáru minningar. Þetta er bara satt. Og þegar leiðtogar kirkjunnar síðan hafa tekist á við mál sem valdið hafa miklu umróti í samfélaginu eins og málefni samkynhneigðra þá hefur komið í ljós að við prestarnir megnum ekki að takast tilfinningalega á af heilindum vegna þess að það er svo margt óuppgert. Það hvílir svo mikill skuggi yfir okkur ekki síst vegna þess að við pökkuðum saman öllum sársaukanum frá ’96. Við settum, jú, á stofn fagráð og verklagsreglur til að tryggja að aldrei yrði aftur farið í svona þöggun og langvarandi sársauka, en við gleymdum að hugsa með hjartanu og við gleymdum að hlúa hvert að öðru. Við bara vonuðum að þetta væri allt saman farið. Þess vegna grátum við svona mikið núna, ekki fyrst og fremst af göfugum tilfinningum og ást á kristni og kirkju. Því miður. Og m.a.s. vitneskjan hræðilega að hafa valdið öðru fólki óbærilegum skaða með getuleysi okkar skorar ekki hæst í sársaukaskalanum, - allt er þetta jú til staðar því við erum ekki vondar manneskjur, en vanmátturinn sem öll þjóðin sér og finnur hjá okkur prestunum er fyrst og síðast af því að við erum að opna gamalt sársaukamál í okkar eigin lífi og þegar maður finnur mjög mikið til getur maður bullað og tafsað og einfaldlega ekki vitað hvað gera skuli.

Kæri söfnuður. Ástæða þess að við getum lifað í von og trú er sú að við eigum ekki bara verklagsreglur fagráðs um kynferðisofbeldi innan kirkjunnar, svo mikilvægar sem þær eru, heldur eigum við líka verklag Jesú sem við sjáum í persónu hans og öllu sem hann sagði. Það verklag að yfirgefa ekki náunga sinn heldur hlusta og vera til staðar af því að Jesús er til staðar. Loforð Jesú Krists er það að hann er nálægur: Sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar, sagði hann og það breytir öllu. Það er nálægðin sem öllu breytir, persónulega viðveran sem leiðir til vonar og trúar. Vegna Jesú sem tók á sig alla skömm og einsemd, vegna hans sem aldrei vék af vegi sannleikans fyrir okkar hönd, getum við þolað eigin vanmátt og vangetu náungans og þurfum ekki framar að hengja merkimiða óhreinleika og sakar hvert á annað.

Þegar við lesum sögurnar um Jesú þá er hann alltaf að aflétta skömm. Engin persóna í veraldarsögunni hefur gert jafn skilyrðislausa kröfu um að skömminni skuli aflétt í lífi fólks. Nú erum við að fá tækifæri til þess að verða við kröfu Jesú um að aflétta skömminni sem orðið hefur til í þöggun og óuppgerðum tilfinningum og óttanum við það að tala með hjartanu innan prestastéttarinnar í kirkjunni.

Tökum við því ljósi og verjum okkur ekki.

Amen.

mánudagur, 23. ágúst 2010

Börnin dæma kirkjuna

Þegar óviti er borinn til skírnar er sá verknaður einhliða yfirlýsing um ást og vernd. Frá félagslegu sjónarmiði eru það ástvinirnir og samfélag hinna fullorðnu sem ávarpa þá barnið í fyrsta sinn opinberlega með fullu nafni og lýsa yfir mannréttindum þess. Það er eitthvað hreint og satt, eitthvað sanngjarnt og upprétt við það að fyrsta opinbera ávarpið til hins nýfædda sé skilyrðislaus yfirlýsing um mannhelgi. Og sjálf viðvera safnaðarins og skírnarvottanna er loforð um að gera allt sem í mannlegu valdi stendur að skírnarbarnið hafi er fram líða stundir ástæðu til þess að vera upplitsdjarft og fullt tiltrúar á lífið.

Frá trúarlegu sjónarmiði er það líka frelsarinn Jesús sem ávarpar barnið í skírninni, tekur það í fang sér og heitir því nálægð sinni. Einhverjum kann að þykja það lítils virði en tökum eftir því að börn höfðu fullkomna sérstöðu í boðskap Jesú. Eina samhengið þar sem Guðspjöllin varðveita hótandi orðalag haft eftir frelsaranum er þegar hann tekur sér stöðu við hlið barna sem ekki geta borið hönd yfir höfuð sér. Þá ræðu má lesa í 18. kafla Matteusarguðspjalls en niðurlagsorð hennar eru þessi: „Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður að englar þeirra á himnum njóta jafnan návistar míns himneska föður."

Það er ekki guðsorðagjálfur þegar haft er eftir Jesú að hvert barn eigi sér engil. Skilið út frá heimsmynd Biblíunnar merkir það að þegar þú horfir í augu barns þá er Guð að horfa í augun á þér. Að kristnum skilningi eru það m.ö.o. börnin sem dæma heiminn.

Í þessari hræddu og dómsjúku veröld stendur frelsarinn Jesús og segir okkur að hætta að metast og óttast því að mátturinn liggi hjá hinum veika. Það eru börnin sem dæma heiminn, þú ert það sem þú ert í augum þeirra barna sem eiga afdrif sín og hamingju undir þér komna.

Hiklaust má segja að kjarni kristinnar trúar sé að lúta barninu. Þess vegna höldum við jól og segjum aftur og aftur sömu gömlu söguna um Guð sem fæðist blautur og blóðugur inn í heiminn og liggur grátandi með nýklipptan naflastreng í örmum ráðvilltra foreldra.

Sagan um barnið Jesú er kröfugerð réttlætisins á hendur heiminum á öllum öldum. Hún er krafan um að veröldin snúi hjarta sínu til barnsins og forsmái ekki þarfir þess því þær eru sannar. Þannig er manneskjan í varnarleysi sínu sett á dagskrá í barninu Jesú en í hinum krossfesta nídda og nakta Jesú er tjáð samlíðun með öllum þeim sem þjást um leið og sök valdsins sem þaggar og meiðir er auglýst.

Kirkjan er það sem hún er í lífi barnanna sem eiga skjól sitt undir merkjum hennar. Bregðist hún verndarhlutverki sínu munu brennandi augu sakleysisins hvíla á henni sem dómur þess efnis að hún sé ekki kirkja.