mánudagur, 23. ágúst 2010

Börnin dæma kirkjuna

Þegar óviti er borinn til skírnar er sá verknaður einhliða yfirlýsing um ást og vernd. Frá félagslegu sjónarmiði eru það ástvinirnir og samfélag hinna fullorðnu sem ávarpa þá barnið í fyrsta sinn opinberlega með fullu nafni og lýsa yfir mannréttindum þess. Það er eitthvað hreint og satt, eitthvað sanngjarnt og upprétt við það að fyrsta opinbera ávarpið til hins nýfædda sé skilyrðislaus yfirlýsing um mannhelgi. Og sjálf viðvera safnaðarins og skírnarvottanna er loforð um að gera allt sem í mannlegu valdi stendur að skírnarbarnið hafi er fram líða stundir ástæðu til þess að vera upplitsdjarft og fullt tiltrúar á lífið.

Frá trúarlegu sjónarmiði er það líka frelsarinn Jesús sem ávarpar barnið í skírninni, tekur það í fang sér og heitir því nálægð sinni. Einhverjum kann að þykja það lítils virði en tökum eftir því að börn höfðu fullkomna sérstöðu í boðskap Jesú. Eina samhengið þar sem Guðspjöllin varðveita hótandi orðalag haft eftir frelsaranum er þegar hann tekur sér stöðu við hlið barna sem ekki geta borið hönd yfir höfuð sér. Þá ræðu má lesa í 18. kafla Matteusarguðspjalls en niðurlagsorð hennar eru þessi: „Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður að englar þeirra á himnum njóta jafnan návistar míns himneska föður."

Það er ekki guðsorðagjálfur þegar haft er eftir Jesú að hvert barn eigi sér engil. Skilið út frá heimsmynd Biblíunnar merkir það að þegar þú horfir í augu barns þá er Guð að horfa í augun á þér. Að kristnum skilningi eru það m.ö.o. börnin sem dæma heiminn.

Í þessari hræddu og dómsjúku veröld stendur frelsarinn Jesús og segir okkur að hætta að metast og óttast því að mátturinn liggi hjá hinum veika. Það eru börnin sem dæma heiminn, þú ert það sem þú ert í augum þeirra barna sem eiga afdrif sín og hamingju undir þér komna.

Hiklaust má segja að kjarni kristinnar trúar sé að lúta barninu. Þess vegna höldum við jól og segjum aftur og aftur sömu gömlu söguna um Guð sem fæðist blautur og blóðugur inn í heiminn og liggur grátandi með nýklipptan naflastreng í örmum ráðvilltra foreldra.

Sagan um barnið Jesú er kröfugerð réttlætisins á hendur heiminum á öllum öldum. Hún er krafan um að veröldin snúi hjarta sínu til barnsins og forsmái ekki þarfir þess því þær eru sannar. Þannig er manneskjan í varnarleysi sínu sett á dagskrá í barninu Jesú en í hinum krossfesta nídda og nakta Jesú er tjáð samlíðun með öllum þeim sem þjást um leið og sök valdsins sem þaggar og meiðir er auglýst.

Kirkjan er það sem hún er í lífi barnanna sem eiga skjól sitt undir merkjum hennar. Bregðist hún verndarhlutverki sínu munu brennandi augu sakleysisins hvíla á henni sem dómur þess efnis að hún sé ekki kirkja.

7 ummæli:

Svanur Sig sagði...

Sæl hjón
Ég ætla að dirfast til að skrifa hér þó að ég viti að Jóna Hrönn vandaði mér ekki kveðjurnar á Fésbókarsíðu Jónínu Ben.
Þú hefur staðið þig vel Bjarni í þessum hremmingum kirkjunnar þinnar og ert orðinn eins konar biskup götunnar því að yfirmaður þinn er nær alltaf skrefi á eftir þér (í siðferðislegum þroska).
Varðandi skírn/nafngjöf. Það er skiljanlegt að trúaðir foreldrar vilji fá prest til að blessa og nefna barnið sitt, en það telst til ekki til bestu iðkunar á mannréttindum að skrá barnið í trúfélag (eða veraldlegt lífsskoðunarfélag). Trúfélög rétt eins og stjórnmálaflokkar fjalla um flóknar hugmyndir sem réttast er að barnið fái sjálft að velja um þegar það er orðið 16 ára. Sama gildir um stjórnmálaflokka.
Þessi rómantík ykkar um að Guð horfi á okkur gegnum augu barnsins og það sé barnið sem dæmi, er ári ævintýraleg. Sjálfsagt má túlka þetta sem svo að barnið eigi að njóta sérstakrar verndar, en auðvitað dæma börn ekki nema að takmörkuðu leyti. Það er einmitt vegna vanþroskaðrar dómgreindar barna að þau er auðveldara að misnota en fullorðna og níðingurinn treystir á að barnið dæmi ekki nægilega til um alvarleika glæpsins. Þessi guðfræði ykkar hjálpar mér ekki að skilja nokkurn skapaðan hlut.
Þrátt fyrir þessa guðfræðiflækju ertu Bjarni ekki í praxis nærri eins flæktur og yfirmaður þinn og væri hin evangelísk-lútherska kirkja mun betur sett með þig sem biskup.

Nafnlaus sagði...

Sæl góðu hjón
Ég er ekki kirkjurækin manneskja og því er heldur snautt um samanburð hjá mér á þessum skrifum ykkar og predikunum eða málflutningi annarra presta. Því get ég ekki sett þennan pistil í samhengi við neitt nema það sem hefur með einhverjum hætti ratað til mín í gegnum árin. En ég finn mig knúna til að þakka þennan pistil af heilum hug. Ég held að ég hafi aldrei nokkurn tíma lesið (eða heyrt)jafn jafn fallega og áhrifamikla útleggingu á helgi barnsins og skilningi kristninnar á stöðu þess og þar með skyldum okkar gagnvart því. Orð ykkar: "Þegar þú horfir í augu barns þá er Guð að horfa á augun í þér" - og að börnin dæmi heiminn - er tær, sterkur og einlægur boðskapur. Það er þessi skilningur sem þarf skilyrðislaust að ríkja bæði innan kirkjunnar sem og samfélagsins alls.
Hafið heila þökk - fyrir þennan pistil, fyrir hugrekki ykkar og fyrir að vilja þjóna ykkar samfélagi.

Nafnlaus sagði...

......"segjum aftur og aftur sömu gömlu söguna um Guð sem fæðist blautur og blóðugur inn í heiminn og liggur grátandi með nýklipptan naflastreng í örmum ráðvilltra foreldra".

Aldrei nokkru sinni hef ég heyrt um Guð sem fæddist blautur og blóðugur í nokkru guðspjalli en látum það liggja á milli hluta. Hins vegar er ég ekki alveg að skilja þegar þið talið um "fæðingu" Guðs???
Eru þið ekki að meina Jesú????
Son Guðs?

Skrýtið að prestlært fólk skuli rugla saman Guð, skapara himins og jarðar og Jesú syni hans.

Nafnlaus sagði...

Yrði þakklát ef þið vilduð svara þessari athugasemd minni um rugling ykkar á Guði og Jesú.
Hef nefnilega heyrt eitthvað svipað hjá fleira fólki sem segist vera prestlært og vil gjarnan fá skýringar á þessum misskilning ykkar.

Nafnlaus sagði...

Sæl nafnlaus, það er nú sjálfsagt að reyna að svara. Það er einmitt þetta með Guð og Jesúbarnið sem gerir kristna trú svo magnaða og róttæka. Við trúum því að í Jesú hafi Guð gerst maður. Trúarbrögð sem halda því fram að guðinn hafi ekki bara tekið sér bústað í manneskju eða sent skilaboð í gegnum fólk heldur hafi hann gerst einn af okkur geta ekki komist hjá því að vera mjög eindregin þegar kemur að gæðum og gildi manneskjunnar. Þetta er einmitt sprengikraftur kristinnar trúar og í svona háguðrfræðilegu samhengi er þetta kallað kenningin um holdtekju Guðs. Svo eru notuð tengslahugtökin faðir og sonur til þess að lýsa sambandi Jesú við Guð á himnum um leið og fullyrt er að Jesús sé Guð og maður í senn. M.ö.o. er hér um leyndardóm að ræða sem ekki verður leystur upp. Ofan í kaupið er gjarnan talað um heilagan anda og þá er líka verið að tala um Guð, en bara þá birtingarmynd hans sem kemur fram í krafti hans í lífi lifandi fólks og því hvernig hinn trúaði finnur nálægð hans. Því er hefðbundið að tala um Guð sem föður, son og heilagan anda. En um leið og rætt er um þrjár persónur segjum við að Guð sé einn - þríeinn! Sem sagt óskiljanlegt en um leið óskiljanlega máttug reynsla sem að baki býr.
SVarar þetta einhverju?

Bjarni

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta - ég hef nú alltaf verið frekar trúuð en hef ekki heyrt þessa skýringu áður. Skrýtið. Hins vegar hefur mér alltaf verið kennt og les í Biblíunni að Jesú sé sonur Guðs. Guð sendi son sinn eingetinn og í Biblíunni koma fram þúsundir tilvitna þar sem Jesú talar um Guð sem "annað" en sig sjálfan.
Þetta er kannski túlkun sem sumir prestar aðhyllast en í hvergi í allri Biblíunni er talað um að Jesú SÉ Guð - einmitt ekki.

Svanur Sig sagði...

Sæl á ný
Ég vil nú biðjast afsökunar og leiðrétta sjálfan mig í því sem ég sagði í fyrstu málsgrein þess sem ég skrifaði hér að ofan. Það er ekki rétt hjá mér að þú Jóna Hrönn "hafir ekki vandað mér kveðjurnar" á Fésbókarsíðu Jónínu Ben, því að þú sagðir ekki neitt beinum orðum um mig. Ég sá það við nánari athugun. Hins vegar sagðir þú að að eins eitt fet væri á milli gagnrýni og öfundar og í annað skipti að þú stæðir með Jónínu í þræði þar sem ýjað var að því að trúleysi mitt væri ástæða gagnrýninnar. Þannig ýjar þú að því að öfund sé sá ástæðan fyrir gagnrýni minni, sem er ekki sérlega skemmtilegt að heyra. Hvað sem því líður vildi ég hafa þetta rétt.