þriðjudagur, 6. janúar 2009

Hvernig skyldi þetta fara?

Bjarni skrifar:

Eftir tíu ár þegar við horfum aftur til þessa vetrar og metum viðbrögð okkar og ákvarðanir, munum við þá geta glaðst yfir því að hafa ekki selt frá okkur mennskuna?  

Nú murka Ísraelsmenn lífið úr Palestínumönnum með æfðum handbrögðum á meðan við sitjum hér úti á þessari eyju með lífið í lúkunum eigandi enga óvini aðra en viljann til að láta blekkjast og letina að nenna ekki að vera þjóðfélag.  

Rekstrareiningin Ísland er ekki ófýsilegur kostur þegar horft er til yfirvofandi matvælaskorts í veröldinni, orkuskorts, skorts á landrými og hreinu vatni.  Köld augu samsteypunnar huga nú að innviðum þessa litla þjóðfélags skimandi eftir veikleikamerkjum, hvort hér megi ekki bráðum kaupa upp...?  Hvort glundroðinn sé ekki brátt orðinn nægur og þjóðin svo óttaslegin að hún láti frá sér lífið fyrir brauð.  

Valdið sem safnar sjálfu sér fer ekki að okkur Íslendingum á skriðtólum, þess þarf ekki.  Þessi þjóð hefur tamið sér að fagna blekkingum og stjórnmál hafa verið dægurmál í hennar vitund.

Hvernig skyldi þetta fara?  Þjóðin sem í upphafi tók ekki land sitt frá neinum, mun hún afhenda það frá sér í hendur samsteypunni af því að hún vill hliðra sér hjá þeirri fyrirhöfn sem fylgir því að vera þjóðfélag?

Þjóð er fyrst og síðast siðrænt fyrirbæri.  Hún er vitund.  Þjóð er sáttmáli um mennsku.  Þegar við t.d. hópumst að áramótaskaupinu öll sem eitt kl. 22:30 á gamlárskvöldi þá er það ekki vegna þess að þar megi vænta einhvers sem er fyndnara en annað afþreyingarefni.  Það er vitundin um sáttmálann sem dregur okkur að skjánum.  Þegar við heilsum löndum  okkar í útlöndum þá er það vitundin um sáttmálann. 

Nú eigum við val.  Við getum selt sáttmála okkar um mennsku og fengið að honum ágæta kaupendur svo hér verði þægilegt að dvelja.  Fyrstu tilb0ð samsteypunnar munu líkast til snúa að nauðaeinföldum hlutum eins og vatnsréttindum okkar og þau eiga eftir að verða fleiri, borin fram af geðþekku fólki og fyrirtækjum sem umfram allt vilja styðja við okkur í ljósi erfiðleika. En við getum líka ákveðið að vera áfram þjóð.  Við getum byrjað að tala saman og tekið sameiginlegar ákvarðanir án þess að lúta yfirvaldi. Við getum endurnýjað sáttmálann og komist að því hverskonar lífi okkur fýsir að lifa.  Ef við nennum getum við arfleitt börnin okkar að þjóðfélagi sem á sér land og tungumál og sögu og sið.

Hvernig skyldi þetta fara?


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kirkjan úr tengslum sínum við ríkið takk. Jesús var undir engan gefinn. Þá fyrst tökum við mark á ykkur. Þangað til verður allur ykkar málflutningur litaður þægindum.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus:

Það er vel hægt að meta hugmyndir og röksemdir þótt eigandi þeirra starfi fyrir stofnun hverrar tengsl við ríkið eru þér ekki að skapi.