laugardagur, 3. janúar 2009

Reiðin er eldri en kreppan

Bjarni skrifar:  
Rannsóknir á atferli forfeðra okkar í þróun tegundarinnar, prímatanna,  hafa sýnt að átök taka jafnan örfá andartök en sáttaferlið getur tekið sólarhringa.  Átök eru einföld en sáttin er flókin. 

Ástæða þess að hómó sapiens fæðist bjargarlaus áður en hann er líkamlega fær um að sinna brýnustu verkefnum sínum og er því algerlega háður umönnun foreldra er sú að höfuð hans er svo fyrirferðarmikið.  Þetta mikla höfuð er forsenda þeirra flóknu félagstengsla sem við iðkum og nefnd eru menning.  Tungumálið er veigamikill þáttur menningar, en þar eu ótal fleiri kerfi sem mannsheilinn verður að takast á við eigi einstaklingurinn að geta verið með í samfélagi manna.

Minn gamli lærifaðir úr menntaskóla, Örnólfur Thorlasíus, benti mér á það fyrir nokkrum árum að þegar tungumálið hafi verið komið til skjalanna og menning tegundarinnar var orðin flókin þá hafi náttúran búið til afa og ömmur.  Kvendýr hafa ekki tíðahvörf, bara konan.  Þannig urðu til ömmur og afar þegar félagsgerð hómo sapiens var orðin svo flókin að það þurfti tvær kynslóðir frekar en eina til þess að miðla reynslunni.  Það er ekkert áhlaupsverk að vera manneskja.

Núna þurfum við að rannsaka friðinn í samfélagi okkar og finna þær leiðir sem að honum liggja.  Átök eru einföld en sáttin er flókin.  Við þekkjum hið forna hebreska friðarhugtak Shalom.  Það hugtak á ekkert skylt við aðgerðarleysi.  Shalom er alltaf stríðandi ferli, það er ástand eða samhengi þar sem lífið á vaxtarskilyrði.  Höfuð einkenni Shalom í gömlu hebresku ritunum í Biblíunni er réttlæti.  Án réttlætis og jafnaðar er enginn friður.  

Réttlæti í lífi einstaklinga og hópa snýst um það að vera ekki jaðarsettur, ýtt til hliðar í samfélagi manna.   Í þeim langa aðdraganda sem kreppan hafði á meðal okkar, öll þensluárin, þá jókst misskipting valds og æ fjölmennari hópar voru jaðarsettir.  Auður og völd skiptust á færri hendur og þeim fjölgaði sem skynjuðu sig sem valdalaus samfélagspeð.  

Allir þurfa völd.  Okkur er nauðsyn á að finna að við höfum eitthvað um líf okkar að segja annars lifum við í ótta og ótti magnar upp reiði.  Reiðin sem núna kemur fram í samfélaginu og birtist m.a. í pústrum og rofnum sjónvarpsútsendingum er að mínu áliti eldri en kreppan.  Hún stafar af óvissunni um að tilheyra samfélagi sem maður skilur og tekur þátt í að móta.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Enn og einu sinni þakka ég ykkur fyrir gott blogg ykkar, og mér finnst ég hjá ykkur og Páli Skúlasyni fyrrum háskólarektor, finna þann samhljóm sem ég leita í dag; að vera krítískur á stöðuna, fortíðina, "allt fokking fokkið" eins og það heitir núna.........og jafnframt hafa jafnvægi hugans til að byggja upp til framtíðar....fyrir börnin mín.
Þakka ykkur fyrir að vera til.
Væruð þig ekki til í að virkja ykkur saman með Páli Skúlasyni og finna góðan vettvang til að koma skilaboðum til þjóðarinnar?
Kveðjur, Sveinn Guðmundsson 1957

Nafnlaus sagði...

Sveinn

Þakka þér góð orð. Það er e.t.v. ekki að furða að margt sé líkt í þankagangi okkar og Páls Skúlasonar. Hann var einn af þeim góðu kennurum sem mótuðu okkur á námsárunum í HÍ. Maður áttar sig ekki á því fyrr en líður á ævina hvað kennararnir hafa haft mikil áhrif á hugsun manns og löngu eftir að maður er kominn undan þeirra handarjaðri er maður að endurtaka aðferðir þeirra. Áhersla Páls á gagnrýna hugsun og krafa hans um það að íslenskir kennimenn og fræðimenn hugsi á íslensku og skýri mál sitt fyrir þeirri vitibornu þjóð sem byggir þetta land fylgir manni eins og skugginn. Við þökkum jákvæðar athugasemdir þínar og látum þær hvetja okkur til dáða.

b. kv.
Bjarni og Jóna Hrönn