miðvikudagur, 31. desember 2008

Friðarvit

Hér er prédikun Bjarna við aftansöng á gamlárskvöldi 2008 kl. 18:00


Við sungum hér hið þekkta ættjarðarljóð „Hver á sér fegra föðurland” þar sem því er lýst hvernig þjóðin “lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf.” Og sú ósk er látin í ljósi að áfram megi hún una við „heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ,” og einkenni hennar verði þau að hún sé „grandvör, farsæl, fróð og frjáls - við ysta haf.” 

- „Ættjarðarljóð fara íslendingum illa,” skrifaði Halldór Laxness í bók sinni Grikklandsárinu „því eingin þjóð hefur svo kunnugt sé spilt Íslandi viljandi af annarri eins hörku heimsku og heiftúð og vér sjálfir, ekki einusinni danakonúngar.” (Halldór Laxness, Grikklandsárið, 17. k. 1980) Víst má telja að þessi orð sem rituð voru við upphaf 9. áratugarins hljómi með meiri alvöru í eyrum okkar nú en þá er þau fyrst voru rituð. 
- Ættjarðarljóð fara íslendingum illa.

Þess er minnst að er síðari heimstyrjöldinni lauk árið 1945 safnaðist fólk saman á Austurvelli við Alþingishúsið. Þar urðu fleyg orð eins stjórnmálaskörungs okkar er lýsti þeirri von og bæn að þeir sem unnið hefðu stríðið mættu og bera gæfu til að vinna friðinn. Var þjóðarsálin svo einhuga í friðarvilja sínum og andúð á öllu stríðsbrölti á þessum árum að við urðum ekki stofnaðilar að Sameinuðu þjónunum þetta sama ár, þar sem skilyrðin voru þau að lýsa yfir stríði á hendur Japönum og Þjóðverjum. Ísland gekk hins vegar til liðs við Sameinuðu þjóðirnar ári síðar.Er hin umdeilda ákvörðun var tekin um aðild Íslands að varnarbandalagi Nató-þjóða þremur árum síðar var það gert með fyrirvörum um að haldinn yrði sá sáttmáli sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna höfðu skuldbundið sig að virða, en samkvæmt honum er ríkjum óheimilt að beita valdi gegn öðrum ríkjum nema í brýnni sjálfsvörn (51. grein sáttmálans) eða samkvæmt skýrri heimild Öryggisráðsins (42. grein sáttmálans).

Fimmtíu árum síðar rufum við heit okkar, Íslensk þjóð, er við vorum aðilar að sprengjuárásum Nató í þeim átökum sem þá stóðu á Balkanskaganum. Í fyrsta sinn í sögu okkar litla lands rann blóð í okkar umboði árið 1999.

„Slíðra sverð þitt!” skipaði Jesús lærisveini sínum Pétri og bætti við: „Allir sem sverði bregða
munu fyrir sverði falla.” (Matt. 26.52) Hér gefur ritningin okkur glugga til að horfa út um. - Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla! Friður og farsæld ávinnst ekki með stáli og blýi. Sverðslaginu, sprengjuregninu fylgir ógæfa sjálfum þeim sem það veitir. Í dag sjáum við flest og viðurkennum að með aðild okkar að Íraksstríðinu snemma á þessum áratug var friðarhugsjón okkar ungu þjóðar loks svikin með þeim hætti sem aldrei verður afmáð. Með þögn sinni og viðbragðaleysi samþykkti þjóðin gjörðir ráðamanna sinna enda var hún þá þegar orðin fullur þátttakandi í því andrúmi græðgisvæðingar sem nú hefur leitt okkur fram til háðungar andspænis öllum þjóðum og ekki þarf að fjölyrða um.

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Nú hljómar þessi þjóðræknissálmur sem háðvísa í eyrum hvers hugsandi Íslendings. Það þurfti ekki Jesú Krist til að segja þann einfalda sannleika að hver sem sverði bregður muni fyrir sverði falla. Það þarf bara heilbrigða skynsemi til að skilja að enginn vinnur stríð. Stríð ber alltaf í sér ósigurinn því eðli þess er að stela og slátra og eyða lífinu og lífið er bara eitt og við erum hluti af því öll. Við öndum að okkur sama súrefni, búum við sama haf, erum einnar ættar.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ef við höfum enn snefil af þeirri íslensku samvitund sem við eitt sinn áttum, áður en trúin á markaðinn og hernaðinn, aflsmunina og yfirburðina hóf innreið sína í vitund okkar. Ef við eigum eitthvað eftir af sannri mennsku þá grætur hjarta okkar þegar þessi orð eru flutt, og háðungin sem þau bera rennur um hverja taug.Skáldið sér og veit að farsæld þjóðarinnar og auður hennar byggir á friðsæld. Friðsæld! “Hver á sér meðal þjóða þjóð sem þekkir hvorki sverð né blóð?” Þeirri spurningu getur íslensk þjóð ekki lengur svarað. Þennan söng getum við ekki framar sungið nema til þess að gráta horfið sakleysi. Þeir viðskiptahættir sem nú hafa fallið um sjálfa sig eiga rætur í herskárri afstöðu til lífsins og umhverfisins. Stolt og heimsk töluðum við um útrásarvíkinga, eins og víkingamenningin hefði verið eitthvað annað en bleyðuskapur. Við skulum átta okkur á því að strandhögg forfeðra okkar voru það sem í daglegu tali heitir fjöldamorð, nauðganir og rán. Í stað heiðarlegrar atvinnu var setið um vopnlausan friðsaman almenning og líf þeirra lagt í auðn. Það var öll rómantíkin. Svo báru menn gæfu til að leggja niður vopn í þessu landi. Sturlungaöld lauk, blóðþorstinn svíaði frá og menn tömdu sér frið.

Ef lausn lífsgátunnar væri fólgin í aflsmunum þá væri nú lífið einfalt. Ef fallþungi manna eða raddstyrkur, fjárstyrkur þeirra eða annar sýnileiki persónunnar réði sannleikanum og réttlætinu væri einfalt að vera maður í þessum heimi. En það er ekki svo. Hversu mörg kerfi sem við smíðum í viðleitni okkar til að hliðra okkur hjá flækjum tilverunnar þá sitjum við samt alltaf á endanum uppi með verkefni lífsins. Kommúnismi eða sósíalismi dugir ekki. Nasisminn reyndist ferlega. Kapitalisminn fer heldur ekki á leiðarenda, markaðurinn mun aldrei taka af okkur ómakið hversu mjög sem við þráum lausn frá því krefjandi og kvíðvænlega verkefni sem heitir þjóðfélag eða menning. Við búum alltaf með fólki og erum alltaf í núningi við náttúruna, hversu mjög sem við leitumst við að vera í friði fyrir öllu og öllum. Á endanum erum við alltaf þar sem Íslensk þjóð stendur í dag; andspænis kröfunni um skynsemi. Lífið krefst þess að við beitum skynsemi okkar. Vits er þörf. „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi og sá sem stjórnar geði sínu er meiri en sá sem vinnur borgir.”(Orðskv. 16. 32.) Þetta stendur skráð í hinum fornu Orðskviðum Salomons og ber því vitni að menn hafa lengi vitað hinn einfalda sannleika um heimsku hernaðarins og það að friðarvit er leiðin til auðs og farsældar. Í spádómsbók Jesaja er Messías kynntur til sögunnar, - hann sem koma skal: „Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.”

Þvílíkt snilldarráð og blessun þegar þjóð öðlast það friðarvit að hún umbreytir hernaðarmætti sínum í græðandi afl; gerir plógjárn úr sverðum og sniðla úr spjótum! Og spámaðurinn lýsir friðarmenningu framtíðarinnar og segir: „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.” (Jes. 2.4.)
Já, menn temja sér hernað og þeir temja sér frið. Þannig er það. Einfaldast er þó að láta haukana ráða hverju sinni því þeir eru svo sannfærðir. Í þeirra augum er allt annað hvort eða; menn eru ýmist vinir eða óvinir, góðir eða vondir, svartir eða hvítir, Palestínumenn eða Gyðingar. En sá sem hefur friðarvit veit og sér að veruleikinn er einn og við erum öll aðilar að honum í fjölbreytileika okkar.

Íslensk þjóð hefur tapað sakleysi sínu. Syndafallið hefur átt sér stað og hún skynjar nekt sína líkt og Adam og Eva í garðinum forðum. Út rekin úr Edensgarði hins unga lýðveldis stöndum við í blygðun okkar með blóðugar hendur og það verður ekki horfið aftur heim. „Hver á sér fegra föðurland” er ónýtt ljóð og lag, háðungarsálmur, öfugmæli.

Er syndafallið var orðið að veruleika í sögunni um Adam og Evu segir svo: “Og Drottinn Guð gerði skinnkyrtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim. [...] Og Drottinn Guð lét manninn fara úr aldingarðinum Eden til þess að yrkja jörðina sem hann var tekinn af.” (1. Mós. 3.21,23)Þannig tjáir helgisögnin þá vitneskju að Guð veiti okkur syndugum mönnum skjól ef við viljum við því taka og ljái striti okkar merkingu á jörðinni. Vörn okkar og skjól birtist í mörgu. Ekki síst í þeim háttum sem við temjum okkur er við hlýðum á visku Guðs Orðs og reynum að vera skynsöm, efla með okkur friðarvit og friðarmenningu í anda frelsarans Jesú.

Guð gefi Íslenskri þjóð að endurheimta sjálfa sig svo að strit hennar öðlist merkingu að nýju.

Amen.

Engin ummæli: