laugardagur, 27. desember 2008

Kyrrðin eins og á fjöllunum

Hér er komin ræða okkar hjóna á aðfangadegi.
Bjarni flutti hana við aftansöng kl. 18:00 í Laugarneskirkju og Jóna Hrönn kl. 23:00 við miðnæturguðsþjónustu í Garðakirkju.



Þú gengur inn í rökkvað gripahúsið. Augun er lengi að venjast myrkrinu en þú finnur ilminn af heyi og frá dýrunum heyrist jórtur og andardrátur. Er þú hefur náð að greina útlínur kemur þú auga á þau innar. Þau hafa tekið jötuna traustataki og búið nýfæddu barni hvílu. Hún situr með barnið í fangi sínu og leggur það á brjóst. Hann stendur álútur hjá. Augu þín dragast að hvítvoðungnum sem liggur vær á brjósti. Fæðingin er að baki. Barn og foreldrar hvílast í þögn og feginleika yfir sigri lífsins. Útifyrir veggjum fjárhússins er heimurinn með öllum sínum lokuðu dyrum. En yfir vægðarlausri veröld stendur himinn opinn...
„hverfur nætursorti,
og himneskan ljóma af sjörnu ber.
..
Sjá konungur englanna fæddur er.”

Hér stendur þú í kyrrðinni og allt er heilagt.
Þegar barn er fætt og tekur sín fyrstu andartök stendur tíminn í stað.

Kyrrðin, eins og hún var.
Kyrrðin, eins og á fjöllunum.
Hingað leitar hún enn
meðan öll borgin sefur.

Litla stund
eftir að ljósin slokkna
áður en sólin rís
seytlar hún fram, streymir
litla stund
eins og lind upp úr jörðinni.
Hannes Pétursson

- Kyrrðin eins og á fjöllunum.
Varirnar sem hér nærast á móðurbrjósti eru ómálga enn. Hér teiga þær næringu sína þessar varir sem mæla munu fram þau orð sem síðar munu næra lífs- og sannleiksþorsta mannkyns.
„Sælir eru fátækir í anda, því þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir, því þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því þeir munu saddir verða.” ...„Allt sem þið gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér.” ... „ „Í heiminum hafði þér þrenging, en verið hughraust ég hef sigrað heiminn.”

Þú greinir fálmandi hreyfingar örsmárra handa sem enn kunna ekki að grípa. Þessar hendur eiga eftir að snerta hina óhreinu og þjáðu sem enginn vill snerta. Þær eiga eftir að líkna og lækna. Og þær eiga líka eftir að hrinda um borðum víxlara og stólum dúfanasala, framkvæma réttlæti. Þessar sömu hendur munu brjóta brauðið og rétta kaleikinn áður en þær verða yfirbugaðar og reknar í gegn, festar á kross, af því að það er ekki pláss í veröldinni fyrir sannleikann, réttlætið og miskunnsemina.

Frá fyrstu stundu er krossinn nálægur þessu barni sem liggur við móðurbrjóst. Þessar smáu hendur munu um ókomnar aldir framkvæma réttlæti, halda vernd yfir öllum sem ekki eiga skjól.

Hefur þú haldið nöktu nýfæddu barni upp að brjósti þér? Klætt lítinn líkama varlega í mjúkar flíkur og gætt þess að fingur og tær smjúgi létt um ermar og skálmar? Þegar þú andar að þér ilmi barnsins er eitthvað sem vaknar inni í þér. Eitthvað sem alltaf var þarna og dvelur í hverri mannlegri sál. Það er samstaðan með lífinu. Í návist barnsins verður höndin þín styrk og mjúk.

Þegar María hefur laugað fæðingarblóðið úr dökku hári drengsins síns og þerrað líkama hans vefur hún hann reifum og leggur hann í jötuna. Þeirrar stundar mun hún síðar minnast er særður líkami hans er vafinn línblæjum með ilmjurtum á Golgatahæð.

Hér er hann kominn, konungur englanna, hann sem gefa mun veröldinni von. Í kvöld mátt þú horfa í augu englanna. Á þessu kvöldi stendur tíminn í stað því eilífðin snertir andrána og himinn Guðs er opinn. Ef þú vilt máttu ganga að jötunni, krjúpa niður og lúta þessu barni. Ef þú vilt.

Hér erum við á þessu kvöldi. Hér ert þú. Útifyrir veggjum kirkjunnar er heimurinn með öllum sínum lokuðu dyrum og öllu því sem tefur og truflar og vill ekki taka við barninu. Veröldin hefur hvorki rúm né tíma fyrir þetta barn. Hún hefur aldrei pláss og tíminn er aldrei réttur. Töfin og flýtirinn ræður ríkjum í heiminum en núið finnur hvergi stað...

Hér stend ég, og allt er gengið um garð –
með gjafir í framréttum höndum, ég, sá er tafðist
gekk yfir þungfær löndin án þess að eiga
mér örugga stjörnu sem vísaði leið.
Stend hér í ókunnu fjárhúsi, fullu af myrkri.
Fagnandi söngur englanna liðinn hjá.

Ég, sá er tafðist. Einn í ókunnu hreysi
og augu græn sem maurildi djúpt í sjó
horfa frá jötunni.
Jórtrað er inni í myrkri
hjá jötunni þar sem barnið svaf.
Hannes Pétursson

Þannig orti skáldið Hannes Pétursson um töfina, en þú ert hér í kvöld. Þú ert hérna núna.

Ég þekki ekki þitt líf. Veit ekki hvaða dyr hafa lokast á þig og veit ekki út í hvaða nótt þú gengur þegar þú ferð héðan út. Hvort þar lýsi nokkur örugg stjarna sem vísi þér leið. En þú hefur valið að vera hér, staðnæmast hjá barninu þessa stund. Englar himinsins horfa í augu þín í kvöld og góður Guð sér og þekkir alla þína vegu. Sorgir þínar og gleði þekkir Guð. Barnið í jötunni er staðfesting þess að þú ert ekki einn. Sjálfur Guð veit hvað það er að vera manneskja í vægðarlausum heimi.

Guð er eilíf ást,
engu hjarta er hætt.
Ríkir eilíf ást,
sérhvert böl skal bætt.
Lofið Guð, sem gaf,
þakkið hjálp og hlíf.
Tæmt er húmsins haf,
allt er ljós og líf.
Stefán frá Hvítadal


Amen.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ótrúlega fallegt takk fyrir þetta