mánudagur, 2. febrúar 2009

Hættum að segja kreppa og verum bara fjölskylda!

Prédikun okkar flutt í Garðakirkju, Vídalínskirkju og Laugarneskirkju sunnudaginn 1.febrúar 2009


I
Nú eru hlutirinir að gerast úti í heimi skal ég segja ykkur. Brotist var inn á heimili söngkonunnar Amy Winehouse í London á dögunum og stolið þaðan munum að verðmæti tveggja og hálfrar miljóna króna. Meðal þess sem hvarf var flatskjár og fimm gítarar. Sumir af gíturunum voru ómetanlegir sé miðað við tilfinningalegt gildi þeirra. Íbúðin er í slæmu ástandi. Hún hafði nýlega verið þrifin til að undirbúa heimkomu söngkonunnar. Þá er gaman að segja frá því að Idol sigurvegarinn fyrrverandi Kelly Clarkson hefur sett nýtt met með því að stökkva hæst allra á bandaríska Billboard vinsældalistanum, eða upp um 96 sæti. Lag hennar “My life would suck with out you!” fór úr 97. sæti beint á toppinn eftir að það var keypt 280 þúsund sinnum í stafrænni útgáfu sína fyrstu viku á lista.

...Hvernig líður þér undir þessum lestri? Getur verið að þér sé innanbrjósts eins og mér að svona yfirborðshjal um ekki neitt sem tekið var upp úr nýlegu Fréttablaði (Fréttablaðið 13.1. 2009, s. 44) sé ekki bara leiðinlegt heldur hreinlega móðgandi við fólk? - Það er eitthvað nýtt að gerast. Skarkalamenningin er hætt að virka, glymjandanum hefur einhvernveginn verið velt úr sessi í vitund okkar. Þetta andrúmsloft þegar allir áttu að vera svo hressir, ‘meiri músík minna mas’ var kjörorð dagsins og ef einhver hefði látið það út úr sér að hann ætlaði að vera heima hjá sér í sumarleyfinu eða skella sér bara í tjaldútilegu, þá hefði það vakið grunsemdir og umtal. Enginn gat ekki verið á leiðinni eitthvert. Enginn gat átt það sem hann vantaði. Slíkt var óábyrg hegðun, skortur á neyslu. Enginn gat sagst ekki hafa efni á einhverju og tal um sparnað og fyrirhyggju þótti lummó.

Ég hef átt samtöl við margt skólafólk og aðra sem sinna börnum í íþróttum, kirkju og öðru félagslífi síðustu daga og þau sem ég hef rætt við eru sammála um að börn og unglingar hafi almennt komið rólegri og sælli úr jólafríinu heldur en oft áður. Íþróttaþjáfari fullyrti við mig að foreldrar virðist nú hafa meiri tíma til að fylgja börnum sínum á íþróttaæfingar og í heildina tekið eru þau sem best til þekkja sammála um að börn njóti aukinnar umönnunar. Gott er til þess að hugsa því það er þekkt staðreynd að kreppa bitnar gjarnan harðast á börnum og unglingum. Við skulum leyfa okkur að fagna því að andrúmsloft hraða og streytu er á undanhaldi en samtalið blómstrar með þjóðinni sem aldrei fyrr. Það má vera heima, það má staldra við, það má fara vel með.

Hugsið ykkur ef Rauði krossinn, skátahreyfingin eða Hjálparstarf kirkjunnar hefði fengið jafn mikið pláss á síðum Fréttablaðsins og Moggans á síðustu misserum og Britney Spears! Þar hefur þjóðin samviskulega verið upplýst um hjónaband þessarar konu, barneignir, skilnað, vímuefnaneyslu, meðferðir og endurkomu hennar inn í poppbransann. Núna þegar glamúrinn hefur verið sleginn utan undir er hugur okkar ekki bundinn við þetta með sama hætti. Hverjum er ekki sama? Hinn hversdagslegi veruleiki er skyndilega orðinn áhugaverður og þegar fólk kemur saman er talað um lífsgildi og ríkisútvarpið er aftur farið að segja aflabrögðum. Heyrst hefur sú tillaga að með sumrinu skuli endurvakinn þátturinn fugl dagsins með nýju inntaki og skuli hann bera heitið dyggð dagsins. Þöggunin sem lá í loftinu er kom að lífsskoðunum fólks og tortryggnin gagnvart því að einstaklingar ættu sér hugmyndafræði er gufuð upp.

Íslensk þjóð hefur vaknað til samtals um raunveruleg lífsgildi og einhvernveginn er mannlífið geðþekkara. Við finnum það á okkur að ekki verður aftur snúið, íslensk þjóðarsál siglir hraðbyr inn í nýja tíma þar sem spurt verður að inntaki fremur en umbúðum.

Ég vil mótmæla einu sem heyrst hefur. Fullyrt hefur verið með skírstkotunum í forsíðu Séð og heyrt að hjónaskilnuðum fjölgi nú ört í kreppunni. Prestar sem við hjónin höfum rætt við eru sammála um að skilnaðir séu síst algengari nú og ástæður þeirra skilnaða sem orðið hafa eru ekki af fjárhagslegum toga. Þetta finnum við hjónin mjög vel í okkar starfi. Þróunin er öllu heldur í þá átt að fjölskyldur þjappa sér saman og meta meir en áður þau gæði sem þær eiga. Ungur átta ára spámaður í Garðabænum sat með fjölskyldu sinni núna um daginn og krepputalið var á dagskrá. Þá stynur hann og segir stundarhátt: “Hættum að segja kreppa og verum bara fjölskylda!”

II
Í guðspjalli dagsins er Jesús með þremur lærisveinum sínum uppi á fjalli. Þá ummyndast hann fyrir augum þeirra og það lýsir af honum ósegjanlegri birtu og þeir sjá hann á tali við Móse og Elía spámann. „Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina. Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan.” (Mark 9.2-9)

Ekki segja mér að þú skiljir þetta. Hér er ekki um atburð að ræða af því tagi sem maður skilur. Enda gefur Markús guðspjallamaður lesandandanum vísbendingu er hann útskýrir viðbrögð Péturs með tilvísun til uppnáms og ótta: „Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir.”

Ég held að frásögnin af ummyndun Jesú sé ekki síður saga af þeirri ummyndun sem átti sér stað í lífi og hjarta lærisveinanna. Þeir voru nýir menn eftir þá reynslu sem þeir gengu í gegnum. Þeir höfðu fengið innsýn í hinn stóra vef lífsins. Þeir höfðu vaknað til vitundar um samhengi sitt við þau lögmál sem liggja lífinu til grundvallar og hin spámannlega rödd hafði ómað í djúpi sálar þeirra. Móse stendur á fjallinu sem fulltrúi lögmálsins því hann hafði fengið það hlutverk að taka við boðorðunum tíu og bera þau niður til mannfjöldans. Elía er hins vegar fulltrúi spámannanna.

Í þessari frásögn er það tjáð að tvennt skiptir sköpum um farsæld okkar sem einstaklinga og sem þjóðar. Við þurfum þetta sem Móse og Elía standa fyrir; við þurfum að þekkja lögmálið og við þurfum að geta heyrt hina spámannlegu rödd.
Þjóð sem missir tilfinninguna fyrir hinum djúpu lögmálum lífsins glatar kjölfestu sinni og þjóð sem heyrir ekki orð spámanna sinna fyrir eigin skarkala mun rata í ógöngur. „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.”
- Þetta voru skarkalaviðbrögð. Þessi ósjálfráðu óttaviðbrögð mannssálarinnar andspænis sannleikanum, þörfin fyrir að setja allt í umbúðir en þegja um inntakið. Pétur vildi bara tjalda yfir þetta allt saman og ná þannig tökum á ástandinu. „Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“

Í táknheimi ritningarinnar birtist Guð iðulega í skýi. Það var Guð sem yfirskyggði lærisveinana með þunga nærveru sinnar og krafði þá um að flýja ekki inn í skarkalann heldur hlusta: „...rödd kom úr skýinu:„Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!””

Frá þessari stundu var sálarlíf lærisveinanna ummyndað. Þeir meðtóku veruleika lögmálsins og spámannanna og kunnu að hlusta á nýjan hátt.
Og það er ekki tilviljun að er þeir fylgdu meistara sínunum niður af fjallinu hittu þeir fyrst fyrir föður með veikan son sem bað ákaft um hjálp.

Í stað þess að tjaldað væri uppi á fjalli dýrðarinnar var hinn hversdagslegi veruleiki settur á dagskrá. Því hvað er sárara en áhyggjufullt foreldri með veikt barn? Hvað er venjulegra en brýnar mannlegar þarfir? Og það eru þessar almennu þarfir sem Jesús leiðir vini sína inn í. Hann bendir þeim á nakinn veruleikann, á lífið eins og það kemur af skepnunni umbúðalaust, og þeir ganga með honum til verka með vakandi huga. Skarkalinn var horfinn og með honum doðinn gagnvart umhverfinu. Nú fyrst voru þeir byrjaðir að lifa.


III
Nú hefur skarkalinn verið settur af dagskrá með Íslenskri þjóð. Nú spyrjum við grundvallarspurninga og krefjum okkur um að við könnumst við sjálf okkur. Samtal okkar er um lögmál lífsins og hið spámannlega orð fær hljómgrunn við eldhúsborðið þegar mælt er: “Hættum að segja kreppa og verum bara fjölskylda!”

Amen.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"hverjum er ekki sama?" Spurjið þið.

Indælu hjónabloggarar. Britney Spears er ein okkar minnstu bræðra, hún er týnd sál í undarlegri veröld.

Mér er ekki sama um Britney Spears, ekki frekar en mér er sama um hvern þann sem háir baráttu í lífinu. Hvort sem fjölmiðlar flytja af honum fréttir eða ekki.

Bestu kv. Jónína