Fréttatilkynning frá ÖBÍ og Laugarneskirkju:
Öryrkjabandalag Íslands og Laugarneskirkja bjóða til opins málfundar í safnaðarheimili Laugarneskirkju sunnudaginn 8. febrúar kl. 12:30 - 14:30. Framsögumenn verða dr. Sólveig Anna Bóasdóttir siðfræðingur og Harpa Njáls félagsfræðingur sem ræða munu um réttlæti til handa öryrkjum í landi okkar.
Yfirskriftir erindanna eru í formi yfirlýsinga: Sólveig Anna fullyrðir “Mannréttindi eru handa fólki” og Harpa bætir við og segir “Við höfnum skipulagðri fátækt.” Verður fróðlegt að heyra mál þessara háskólakvenna sem hvor um sig mun tala í um 15 mínútur.
Að loknum erindunum mun Guðrún Gunnarsdóttir söngkona gleðja fundargesti með söng sínum auk þess sem boðið verður upp á kaffiveitingar undir umræðum þar sem málshefjendur sitja fyrir svörum ásamt Aðalbjörgu Traustadóttur framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis sem þekkir vel til málefnisins.
Halldór Sævar Guðbergsson formaður ÖBÍ og prestarnir Hildur Eir Bolladóttir og Bjarni Karlsson stjórna umræðum. Boðið verður upp á sætaferðir fyrir hreyfihamlaða frá Hátúni 12. Aðgangur er ókeypis og allt fólk sem lætur sig hið nýja Ísland varða er hvatt til þátttöku.
miðvikudagur, 4. febrúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli