sunnudagur, 8. febrúar 2009

Til hvers er að lifa?

I
Á merku málþingi sem haldið var í Norræna húsinu í gær og fjallaði um vonina lýsti einn þjóðþekktur hagfræðingur því að á tímabilum í lífi sínu hefði hann iðulega lagt höfuðið á koddann að kveldi og óskað þess innilega að þurfa aldrei að vakna framar. Og morgunn eftir morgunn spurði hann Guð: “Hvers vegna fékk ég ekki að deyja í nótt?”

Í guðspjalli dagsins í dag er hin undirliggjandi spurning einmitt sú, til hvers er að lifa? Já, til hvers lifi ég?
Sagan um Talenturnar (Matt. 25.14) er sögð tveimur dögum fyrir dauða Jesú. Og það kemur fram að hann vissi hvað tímanum leið í þeim efnum. Þeir sátu úti á Olíufjallinu, Jesús og lærisveinarnir, þessa stund sem raunar var síðasta kennslustundin sem Jesús hélt hér á jörð. Og þá sagði hann þeim þrjár sögur. Þeir hafa setið og horft yfir musterishæðina þar sem helgidómurinn glóði í sólinni, sem tákn um dýrð Guðs og getu mannanna. Nýafstaðin var gríðarleg orðasenna þar sem Jesús hafði einmitt staðið á musterissvæðinu og hreinlega kaffært farísea, fræðimenn, presta og öldunga lýðsins í orðum. Hann hafði atyrt þá opinberlega, líkt þeim við latan son, vonda vínyrkja og dónalega brúkaupsgesti í þremur dæmisögum. Hann hafði auk þess haldið langan reiðilestur yfir þeim þar sem viðlagið var þetta: “Vei yður, fræðimenn og farisear, hræsnarar!” Og þegar þeir spurðu hann í örvæntingu: “Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?” Þá hafði hann bara hafnað því að svara þeim. Og svo segir Mattheus svo frá, að er þeir gengu út fyrir þá vildu lærisveinarnir vekja athygli Meistarans á hinum fögru byggingum musterisins en Jesús mælti: “Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini er eigi sé niður brotinn.” Og svo gekk hann á braut niður í dalinn fram hjá Getsemanegarðinum og upp á Olíufjallið. Og þá var það sem hann sagði þeim þessa sögu um talenturnar, ásamt teimur öðrum sögum. Og sú staðreynd gefur orðum hans aukinn þunga, að hann vissi að tíminn var naumur. Hér var runnin upp síðasta kennslustundin þar sem lærisveinarnir sátu við fætur meistara síns og hlýddu á hann.

II
Sögurnar, eða myndirnar sem hann birti þeim við þetta tækifæri, voru sem sagt þrjár:
Fyrst sagði hann þeim söguna um meyjarnar tíu sem biðu eftir brúðgumanum. Fimm voru hyggnar en fimm fávísar. Hinar hyggnu höfðu olíu á lömpum sínum en hinar ekki. Er brúðguminn loks kom gengu þær sem viðbúnar voru með logandi lampana til móts við brúðgumann og inn til veisluhaldanna, en hinar misstu af öllu. Og Jesús lýkur sögu sinni með þessum orðum: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.” (Matt. 25.13)
Þá sagði hann söguna um talenturnar og þjónana þrjá, sem lesin var hér áðan, þar sem tveir tóku við sínum talentum og höndluðu með þær af öryggi en einn lét óttann stjórna gjörðum sínum og uppskar höfnun.
Loks ræddi hann um dóm hins efsta dags, er Mannssonurinn mun koma í mætti og mikilli dýrð. Hann mun skipa fólki heimsins ýmist til hægri eða vinstri handar og mæla við þau á hægri hönd: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. 35Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, 36nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín... Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.” En þau til vinstri handar eru brott rekin í frásögninni með orðunum “Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. 46Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“ (25.31-46)

E.t.v. erum við betur í stakk búin að skilja þessar sögur í dag heldur en við vorum áður en kreppan kom. Við höfum lifað í andrúmslofti vissrar þöggunar þar sem allt tal um dóm Guðs hefur þótt ótilhlýðilegt. Það að ræða um hin undirliggjandi lögmál lífsins sem virða ber ef ekki eigi illa að fara hefur verið kallað svartagallsraus. En það eru til lögmál sem liggja lífinu við hjartastað. Ef við brjótum þau lögmál viljandi eða óviljandi þá erum við að baka vandræði. Með þeim þremur myndum sem Jesús dregur upp í sinni síðustu kennslustund er hann að hjálpa lærisveinum sínum að meta líf sitt með raunsæi og takast á við tilveruna eins og hún raunverulega er.

III
Lifðu vakandi er Jesús að segja með dæmisögunni um Meyjarnar tíu. Tvö orð; lifðu vakandi. Þú verður að lifa daginn í dag í ljósi þess að það kemur morgundagur og gjörðir þínar eða aðgerðaleysi hefur áhrif á framhaldið. Hyggnu meyjarnar í sögunni hugsuðu fram í tímann en þær fávísu gerðu það ekki. Þær hafa áreiðanlega verið vel til hafðar og lamparnir þeirra hafa ekki verið síðri en hinna, það sem skildi á milli þeirra var fyrirhyggjan, tilfinningin fyrir samhenginu. Það að lifa vakandi varðar afdrif okkar bæði hér á jörð og í eilífu ríki Guðs. Olían í dæmisögunni táknar heilagan anda, hið innra líf manneskjunnar sem gerir hana færa um að lifa vakandi. Þess vegna kennum við börnunum okkar að biðja, erum þeim samferða í bæn frá blautu barnsbeini svo að þau megi eiga innra líf, megi læra að þekkja rödd Guðs, þekkja sinn vitjunartíma, lifa vakandi.

Er Jesús hefur lokið við söguna um Meyjarnar tíu kemur sagan um talenturnar og inntak hennar má e.t.v. segja í fjórum orðum: Þiggðu lífið sem gjöf! Þjóninn sem gróf féð í jörðu tók bara við fénu en tók ekki við þeim huga sem að baki bjó. Lífið er gjöf, taktu við traustinu sem að baki býr! er Jesús að segja. Til hvers er að lifa? var spurt hér áðan. Hér er þeirri spurningu svarað. Þú skalt lifa vegna þess að lífið er gjöf, ástargjöf. Guð er að lána þér líf og heilsu, ástvini, fæði, klæði, hæfileika, peninga, félagstengsl og hvað eina annað sem gerir líf þitt gott. Allt eru þetta gjafir frá honum sem þú mátt ávaxta með því að miðla þeim áfram. Illi þjónninn var ekki vondur maður. Hann var bara hræddur. Hann stóð stjarfur og starði á talenturnar sínar vegna þess að hann þekkti ekki þann hug sem að baki þeim bjó og treysti ekki forsendunum.
- Til að njóta farsældar í þessum heimi þurfum við í fyrsta lagi að lifa vakandi og í öðru lagi megum við til að þiggja lífið sem gjöf en ekki gróða. Gróðaæðið, þetta að safna peningum til þess að safna peningum er það sama og að grafa talentu sína í jörð. Það gildir einu hvort þú eyðileggur lífsgæðin með því að safna þeim í hrúgur eða grafa þau í jörðu, söm er gjörðin, óttinn er sá sami. Lífsgæði eru til þess að miðla þeim af því að þau eru gjöf.

Loks leggur Jesú fram þriðju og síðustu áherslu sína sem hann tjáir með lýsingunni á endurkomu mannssonarins á efsta degi og segir “Það sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafði þér gjört mér.”

IV
Hann var að kveðja. Kennslu hans var að ljúka en tími þjáninganna var framundan. Ofan af Olíufjallinu í vestri blasti við musterið baðað geilsum sólar en handan borgarmúranna var Golgata hæðin. Og hér slær Jesús smiðshöggið á kennslu sína með svo ómisskiljanlegum hætti að við komumst ekki framhjá því að sjá að um leið og hann krefst þess af fylgjendum sínum að þeir lifi vakandi og vill að þeir þiggi lífið sem gjöf, þá bendir hann okkur samtímis á náunga okkar og segir: “Það sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafði þér gjört mér.” M.ö.o.: Taktu mark á mannlegum þörfum!

Til hvers er að lifa? var spurt. Lifðu til þess að deyja! Svarar Kristur Jesús. Deyðu sjálfum þér en lifðu náunga þínum, þá lifir þú mér. Hagfræðingurinn sem talaði um vonina og ég vitnaði til hér í upphafi komst nákvæmlega að sömu niðurstöðu. Hann hafði bragðað á vonleysinu, uppgjöfinni, dauðaþránni. “Leiðin út úr vonleysinu,” sagði hann “liggur út til annara manna og á þeirri vegferð finnur maðurinn Guð.” Já, lifðu vakandi, segir Jesús Kristur, þiggðu lífið að gjöf og taktu mark á mannlegum þörfum, þá veistu til hvers þú lifir.

Amen.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þakka ykkur fyrir kæru hjón. Þetta eru orð í tíma töluð.

Kveðja, Hólmfríður Pétursdóttir