laugardagur, 11. október 2008

Réttar áhyggjur eru góðar

Það er mikilvægt að þekkja muninn á réttum áhyggjum og röngum.

Réttar áhyggjur tengjast undantekningarlaust umhyggjunni í hjarta manns en það gera rangar áhyggjur ekki.

Að því leyti sem við þurfum fé til að sinna því sem við berum umhyggju fyrir er rétt og gott að hafa áhyggjur af peningum en annars ekki.

Réttar áhyggjur gera mann sterkan og óhræddan og reiðubúinn að takast á við veruleikann með köldu höfði og heitu hjarta.  Rangar áhygjur valda aftur reiði og vanmætti og ræna mann lífsnautninni.  

Nú er kjörtími til að temja sér réttar áhyggjur.  Verum þakklát fyrir það.


Bjarni Karlsson

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott og vel, ég hef tapað nærri þremur milljónum að minnsta kosti, í þessum hamförum. Þá er ekki talið með það tap sem ég hef orðið fyrir í lækkuðum launum (ég er ekki áskrifandi að launum) ég hef áhyggjur af afkomu minni og fjölskyldu minnar. Ég veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sínu. Ég veit ekki hvernig ég get staðið skil á fjárhagslegum skuldbindingum mínum þar sem öll mín lán hafa hækkað til mikilla muna. Eru áhyggjur mínar rangar ? Mér finnst ég nefninlega hvorki vera sterk né óhrædd þvert á móti er ég veik og vanmáttug og full af reiði. Lífsnautn hef ég enga.

Nafnlaus sagði...

Það er voða auðvelt að skirifa svona, þegar maður fær greitt vel yfir hálfa millu beint úr ríkissjóði, sama hvað á dynur.


Kv. Friðrik

Nafnlaus sagði...

Þakka ykkur fyrir viðbrögðin. Þau eru heiðarleg og þeim skal ég reyna að svara.

Við fyrri viðbrögðunum vil ég segja:
Ég lít ekki á áföll þín og áhyggjur sem smávægileg mál, og það er ekki mitt né nokkurs annars að leggja dóm á það hvort þínar áhyggur eru réttar eða rangar. Ég finn líka reiðina í orðunum sem þú skrifar og ég tel þig hafa fullan rétt á henni.

Það er gríðar margt fólk að missa mikið þessa daga. Fólk er að missa atvinnu, eignir og öryggi. Öll erum við kvíðin og áhyggjufull og eigum ástvini sem við höfum ekki síður áhyggjur af vegna þess að við óttumst um hag þeirra. Í þessum áhyggjum mínum af eigin fjölskyldu og annarra hef ég uppgötvað þetta samhengi á milli umhyggju og áhyggju sem mér sýnist að sé þess virði að skoða.

Mér virðist að það sé satt að þær áhyggjur sem eiga rót sína í umhyggju fyrir afdrifum fólks séu öðruvísi en áhyggjur okkar af öllu hinu sem við ekki berum umhyggju fyrir. Þá er ég t.d. að tala um áhyggur af áliti annarra, áhyggjur af því að missa völd, áhyggjur af minnkandi kaupgetu til að veita sér munað eða hverju öðru sem ekki tengist umhyggju heldur ágirnd.

Að því leiti sem ég er áhyggjufullur og reiður vegna allra milljónanna sem ég hef verið að tapa í óðaverðbólgunni undanfarið og yfir erlenda bílaláninu mínu sem er komið í hæstu hæðir hjá mér eins og öllum hinum, - að því leiti er ég vanmáttugur. En að því leiti sem ég huga að afkomu minni og ástvina minna af umhyggju fyrir raunverulegum afdrifum okkar er áhyggja mín borin uppi af málstað sem gerir mig ekki smáan og kjarklausan, öðru nær. Í stuttu máli: Þegar ég hugsa ekki um það sem ég hef tapað og get tapað, en huga þess í stað að þeim verðmætum sem ég vil varðveita og berjast fyrir, þá er ég sterkur. Þessi hugsun er mjög mikilvæg fyrir mig og þess vegna vil ég deila henni með öðrum.

Við seinni viðbrögðunum vil ég segja: E.t.v. hefur þú bara rétt fyrir þér.

Bjarni Karlsson

Nafnlaus sagði...

Í bili hef ég vinnuna mína örugga og fólkið mitt á vísum stað. Ég hef hinsvegar áhyggjur af því fólki sem ekki er svo lánsamt. Þá kemur upp vanmáttur minn. Fyrir þeim bið ég og vona að úr rætist.
Ég reyni samt að einbeita mér að jákvæðum hugsunum, þær eiga til að smita út frá sér.
Kær kveðja til ykkar

Nafnlaus sagði...

Kæru hjón, þið viljið að sjálfsögðu vel en svona blogg en það hefur öfug áhrif á þá sem eru að upplifa veruleikan í dag. Hef nú trú á að flestir séu trúaðir og þá skiptir ekki máli hvort þeir velja að iðka sína trú í gengum lúthers, búdda, múslima, eða gyðingatrú ofl. Það er klárlega sterkur kraftur þarna úti sem við trúum á, skiptir ekki máli hvert við beinum okkar bænum. Mikilvægara er núna að vita næstu skref. Hver og einn hefur sína trú á hreinu og er meira áhyggjufullur hvað næsti dagur ber í skauti sínu og því miður þá breytir ykkar ágæta blogg þar litlu um og gæti meira verið litið á sem að þarna sé verið að tala niður til fólks en að hjálpa. Íslendingar þurfa hrein svör, klára stefnu og ekkert bull, sú tíð er liðin að óskýr málflutningur sé samþykktur. Gangi ykkur sem best. Góða helgi. Bk, Þröstur

Nafnlaus sagði...

og hver ákveður hvað eru "réttar áhyggjur" ?
Þið kannski?
Eru það rangar áhyg?gjur að hafa áhyggjur af ástandinu eins og það er í dag

Guðana bænum bjóðið okkur upp á eitthvað annað en svona bull. Nú skiptir öllu að prestar séu með þjóðinni og styðji okkur með vitrænni umræðu.

Nafnlaus sagði...

Nú langar mig alveg ótrúlega mikið að skilja það sem þið meinið, bæði Þröstur og sá sem á síðustu viðbrögð. Ég treysti því að þið hafið líka lesið svar mitt hér að ofan.

Hvað er það nákvæmlega sem er vel meint rökleysa og bull í þessum fáu orðum? Í mínu höfði er rökrétt að halda því fram að það sé gagnleg vinnutilgáta varðandi áhyggjur sem ásækja alla menn að greina þær í tvennt. Annars vegar þær áhyggjur sem tengjast umhyggju okkar fyrir raunverulegum lífsgildum og hins vegar þær áhyggjur sem ekki tengjast raunverulegum lífsgildum og eru þ.a.l. ótengdar allri umhyggju.

Þetta er það sem ég er að meina, en ég skynja hins vegar að þið lesið meira út úr orðum mínum. Það er mitt verkefni að tala þannig að fólk skilji mig og misskilji mig ekki. Það er mitt fag, mitt verkefni sem prestur. Nú bið ég ykkur að hjálpa mér því ég finn að þið lesið yfirlæti úr orðum mínum og yfirlæti er það síðasta sem ég vil skila.

Getið þið útskýrt fyrir mér hvernig þið upplifið yfirlæti í því sem stendur í blogginu?

Í fúlustu alvöru

Bjarni Karlsson