laugardagur, 4. október 2008

Samkynhneigð og kristin siðfræði

Föstudaginn 3.10. var haldið málþing í Þjóðminjasafninu í tilefni af útkomu bókar dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur lektors við Guðfræðideild HÍ sem ber heitið Ást, kynlíf og hjónaband. Hér gefur að líta erindi Bjarna sem hann flutti og gerði grein fyrir þeim kafla bókarinnar sem fjallar um samkynhneigð og kristna siðfræði:

I
Sá kafli bókarinnar sem hér um ræðir ber yfirskriftina samkynhneigð og kristin siðfræði. Það er mikill fengur fyrir íslenskt samfélag að kristinn siðfræðingur skrifi jafn gagnsæjan og hnitmiðaðan texta um þetta margþvælda málefni.

Hún hefur mál sitt á því að lýsa þeirri vissu sinni að hin kristna guðfræðihefð sé þjökuð af gagnkynhneigðarhyggu. Með þeirri yfirlýsingu tryggir hún að áhugasamir lesendur skoði greinina til enda því að annað hvort virka orð hennar móðgandi eða frelsandi.

Þá gerir hún grein fyrir umfangi verkefnisins og líkir kristinni siðfræði við breitt og mikið fljót sem rennur fram í tíma og rúmi og í það renna stöðugt nýir lækir. “Nýir straumar blandast eða blandast síður hinum þunga straumi” skrifar hún “nýir tónar heyrast, aðrir þagna.” (s. 66) Þannig vill Sólveig Anna að lesandinn skilji að kristin siðfræði er ekki klöppuð í stein heldur er hún lifandi arfleifð sem eyðileggst við geymslu en varðveitist við iðkun.

Textinn er edrú. Höfundur hyggst hvorki að sanna sjálfa sig né verja hagsmuni einhverrar hefðar heldur gengur hún erinda almannaheilla. Lýðheilsa og almenn farsæld eru þau stefnumið sem hún hefur. Þess vegna er andrúm textans heilnæmt og hressandi þar sem hún heldur á lofti kröfum gagnrýninnar hugsunar hvort heldur menn styðjast við Biblíuna eða aðrar heimildir í siðahugsun. “Kristin siðfræði sleppur aldrei undan þeirri kröfu að sýna á hvern hátt lausn Biblíunnar á siðfræðilegum vandamálum sé einnig góð lausn fyrir okkar samtíð.” segir hún (s. 71) og lýsir því jafnframt hvernig hefðbundin kristin siðfræði hafi einatt og iðulega hugað að rökum en ekki að bókstaf þegar hún notar Biblíuna sem heimild. Tekur hún dæmi af afstöðu kristinna manna til neyslu svínakjöts sem fordæmt er í Biblíutextum en viðurkennt að kristnum sið þar sem engin rök þykja hníga að því að hafna þessu ágæta kjötmeti. Og eins hefur sú þróun orðið í kristnum sið að þrælahald sem hvergi er hallmælt í Biblíunni er álitið rangt á forsendum gildra raka. “Það eru því rökin og ekki bókstafurinn sem gefa orðum Biblíunnar kraft og vald” segir Sólveig í grein sinni (s. 69) og kallar eftir einskonar samtali við texta Biblíunnar þar sem beitt sé félagssögulegri og túlkandi nálgun. (s. 68)

II
Er Sólveig Anna hefur útskýrt það göngulag sem hún telur hæfa kristinni siðfræði sem fræðigrein fer hún einnig nokkrum orðum um samkynhneigð í fræðilegu samhengi.

Hún bendir á að sögulegar og mannfræðilegar heimildir leiði í ljós að það hefur verið þekkt meðal ólíkra hópa á öllum tímum að fólk af sama kyni hafi átt í kynlífs- og ástarsamböndum. Jafnframt sé það undirstrikað og viðurkennt í nýrri rannsóknum að það sem ráði því hvernig litið sé á samkynheigð sé hið félagssögulega og menningarlega umhverfi. “Menningin setji mismunandi viðmið varðandi það hvað sé kallað eðlilegt og hvað afbrigðilegt.” (s. 73) Þar koma viðhorf félagsmótunarhyggjunnar inn í umræðuna hjá fræðimönnum, en tvær stefnur hafa verið mest áberandi í fræðilegri umræðu, félagsmótunarhyggjan annars vegar og hins vegar eðlishyggjan. Í samtali þeirra tveggja stefna er m.a. spurt að því hvort kynhneigð okkar mótist fremur af líffræðilegum eða samfélagslegum þáttum.

III
Þegar þarna er komið sögu tekur Sólveig Anna til við að skoða þá Biblíutexta sem einkum hafa verið notaðir gegn samkynhneigðu fólki í áranna rás og ekki síst í þeim átökum sem staðið hafa um málefni samkynheigðra innan kirkjunnar og standa að einhverju leiti enn. Er á vissan hátt ánægjulegt að sjá þegar þessi hluti greinarinnar er lesinn að þær spurningar sem þar er svarað brenna í raun ekki lengur á samfélagi okkar og í mínum huga stendur þessi texti sem vitnisburður um það að guðfræileg umræða skilar árangri. Sú grein sem hér um ræðir birtist fyrst í ritgerðasafni sem ber heitið Andspænis sjálfum sér og var gefið út árið 2005 á vegum Háskólaútgáfunnar og var þá hluti af mjög þungri umræðu sem nú hefur borið þann ávöxt að enginn málsmetandi guðfræðingur í landinu lifir í þeirri trú að Biblían fjalli um samkynheigð í merkingunni “ástar- og kynlífssamband tveggja sjálfráða, fullveðja einstaklina af sama kyni” svo notuð sé skilgreining Sólveigar Önnu sjálfrar. (s. 74) Útskýrir Sólveig Anna með klárum rökum að viðkomandi Biblíutextar fjalla ekki um samkynhneigð og því sé ekkert í þessum textum hjálplegt í leit að svörum við þeirri spurningu hvort sambönd homma og lesbía séu siðferðilega góð af þeirri einföldu ástæðu að þeir fjalla ekki um það sem spurt er að. (s. 75-78)

IV
Þá leggur Sólveig Anna fram spurningu sem hljóðar svo:
“Hvað hamlar því, ef eitthvað, að evangelísk-lúthersk kynlífssiðfræði geti samþykkt fjölbreytni á sviði kynlífs, í þeirri merkingu að hún samþykki kynlífs- og ástarsambönd homma og lesbía?” (s.79) Þessa spurningu skilur hún beinlínis eftir handa lesandanum vegna þess að hún er ekki bara fræðimaður heldur líka kennari. Texti hennar er “pedagógískur”, honum er ætlað að leiða til þroska. Í þeim anda gerir hún að tillögu sinni að kirkjan velti fyrir sér tvennu; Skilningi sínum á kynlífi, merkingu þess og tilgangi annars vegar og hugmyndafræði gagnkynhneigðarhyggjunnar hins vegar. Í beinu framhaldi leggur hún hentugt verkfærasett upp í hendur lesandans ef svo má að orði komast þar sem eru fimm hagnýtar skilgreiningar á ólíkum viðhorfum til samkynhneigðar innan kristinnar siðfræði, svo að lesandanum aukist yfirsýn og sjálfstæð hugsun.
Fjögur þeirra viðhorfa sem hún skilgreinir byggjast á gagnkynhneigðarhyggju en það fimmta og síðasttalda gengur gegn þeirri hugsun. Er greining hennar hjálpleg vegna þess að hún einfaldar hina flóknu mósaíkmynd sem í raun er til umfjöllunar þegar menn ræða um samkynhneigð í samfélagi okkar.

Fyrsta viðhorfið sem Sólveig Anna skilgreinir er öfgafyllst og það auðkennir hún með hugtakinu siðferðisskortur. Skilgreiningin hljóðar svo: Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni er óeðlilegt. Öll kynlífsiðkun samkynhneigðra stríðir gegn náttúrulegri, guðlegri skipan mála.

Annað viðhorfið auðkennir Sólveig Anna með hugtakinu sjúkdómur:
Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni er sjúklegt. Engin lækning er þó til við þessu og því til lítils að álasa fólki.

Þriðja viðhorfið merkir Sólveig Anna með hugtakinu blinda:
Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni ber vott um að eitthvað hafi verið úrskeiðis í sköpun Guðs. Menn fæðast með þennan ágalla og geta ekki breytt honum. Hugsanlegt er að viðurkenna ástarsambönd samkynhneigðs fólks ef þau einkennast af réttlæti og trúnaði.

Fjórða viðhorfið kennir hún við litblindu:
Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni ber vott um vissa ófullkomnun, en einungis lítils háttar ófullkomnun. Full ástæða er til að viðurkenna og samþykkja ástarsambönd samkynhneigðra sem jafnrétthá öðrum ástarsamböndum.

Fimmta viðhorfið er loks kennt við örvhendni, og er eins og fram er komið eina viðhorfið sem ekki er borið uppi af gagnkynhneigðarhyggju. Skilgreining þess hljóðar svo:
Það að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni er hvorki óeðlilegt né stríðir gegn náttúrlegri skipan. Sambönd samkynhneigðra, sem bygga á ást, trúnaði og réttlæti, eru siðferðilega góð.

Um þetta síðasttalda viðhorf segir orðrétt í grein Sólveigar: “Margbreytileiki á sviði kynlífs fólks er ekkert sem þarf að óttast svo lengi sem fullveðja sjálfráðir einstaklingar ráða för. Neikvæðni og fordómar gagnvart hommum og lesbíum byggja fyrst og gremst á misskilningi, fordómum og hroka. Svipaðir fordómar ríktu í eina tíð gagnvart örvhentu fólki en eru nú löngu horfnir í upplýstum samfélögum.” (s. 87) Fulltrúa þessa viðhorfs segir hún styðjast við eðlishyggjusjónarmið til að færa rök fyrir afstöðu sinni ásamt því sem áhersla sé lögð á að samskonar siðferðileg viðmið eigi að gilda fyrir öll náin sambönd, nefnilega trúnaður, réttlæti og ást. Þá er síður horft á form sambanda en fremur á inntak þeirra.

V
Síðasti kafli greinarinnar fjallar um nauðsyn þess að umbreyta kristinni kynlífssiðfræði. Þar undirstrikar Sólveig Anna það sem hún tók fram í upphafi að skilningur okkar á tilverunni sé þrælbundinn á klafa gagnkynhneigðarhyggju sem rekja megi til þeirrar tvíhyggju sem ríkjandi hafi verið í allri vestrænni menningu og þótt víðar væri leitað.

Í kristinni guðfræði og siðfræði leggur hún til að menn hætti að draga ályktanir í anda gagnkynheigðarhyggjunnar og þar með tvíhyggjunnar þar sem áhersla er lögð á kynin sem andstæður. Í stað hins gamla syndaskilnings hinnar kristnu kynlífshefðar þar sem allt kynlíf er skilið í ljósi syndafallsins leggur hún til að í endurskoðaðri kristinni kynlífssiðfræði sé lögð áhersla á gæði hins líkamlega sem er ekki andstæða hins andlega. Að kynverund mannsins fái uppreisn æru þar sem lögð sé áhersla á gagnkvæmni (mutuality) sem siðferðislegt gildi og hugsjón í allri umræðu um kynlíf. (!) Sólveig Anna leggur áherslu á að hugtakið gagnkvæmni í nánum tengslum fjalli ekki um það að vera af gagnstæðu kyni heldur að gefa af sér ást og kærleika og fá slíkt hið sama endurgoldið. “Gagnkvæmni byggir á jöfnuði og er góður mælikvarði á siðferðilega gott samband.” Skrifar hún. (s. 89) Hún vekur athygli á því að í hugmyndafræði gagnkynhneigðarhyggjunnar sé gjarnan lögð áhersla á gagnvkæmni undir formerkjum andstæðna. Þá er gagnkvæmni kynjanna fólgin í því að vera ólík og uppfylla hvort annað sem andstæður. Sólveig Anna varar við þessari hugsun þar sem hún sé liður í því að viðhalda ranglæti og kúgun í nánum tengslum. Gagnkvæmni í nánum tengslum er ekki fólgin í andstæðum heldur í gagnkvæmri samstöðu jafningja. Endurskoðuð kristin kynlífssiðfræði leggur áherslu á gefandi og uppbyggilegt hlutverk kynlífs. “Grundvöllur þessa starfs er sú sýn á kynverund og kynlíf að í því geti falist möguleiki manneskjunnar til að tengjast annarri manneskju djúpum tilfinningaböndum og í þeim tengslum tengist hún einnig Guði, skapara sínum.” (!) (s. 90)

Í lokaorðum undirstrikar Sólveig Anna að ekkert í grein hennar geri litið úr gagnkynhneigð eða kynlífs- og ástarsamböndum gagnkynhneigðra. Greininni lýkur með svofelldum orðum: “Sú áskorun sem kristin siðfræði stendur frammi fyrir í dag er að leggja gagnkynhneigðarrembu til hliðar.” (s. 90) Hér er ekki bara hraustlega mælt heldur viturlega, og vil ég bara segja, mæl þú manna heilust Sólveig Anna.

Engin ummæli: