Bjarni skrifar:
Ég var að koma af kjörstað og sagði Nei. Vil nú gera grein fyrir atkvæði mínu.
I
Ég álít rétt að koma á kjörstað þegar til þess er boðað af þeirri ástæðu að lýðræðið er kjarni þjóðskipulags okkar. Þó virðist mér nú málum svo komið við þessa fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin er í framhaldi af synjun forseta að deiluefnið sé orðið að áhaldi í höndum þeirra sömu afla sem lögðu fjármálakerfi landsins á hliðina. Og eina ferðina halda þau um taumana. Þjóðin er hvött að kjörborði í einhverskonar herhvöt gegn erlendu valdi sem koma vilji okkur á kné, þegar hinir raunverulegu andstæðingar hagsældar og velferðar íslensks almennings eru hvorki Bretar né Hollendingar.
II
Hitt hefur mér orðið ljóst að ef við ekki höfnum Icesave lögunum í þessu kjöri þá muni þau taka gildi og úr því sem komið er væri það óráð. Tapið af biðinni er orðið svo mikið að við verðum að halda áfram í þeim samningafarvegi sem við erum og vona að samningar náist svo að hægt sé að snúa sér að hinu raunverulega verkefni; að sætta þjóðina. Það er ekki flókið að brjóta niður og skapa glundroða en sáttaferli er flókið og viðkvæmt, og valdið sem í sífellu safnar sjálfu sér og skarar eld að eigin köku á enga hagsmuni tengda sátt og samtöðu almennings, nema ef vera kynni að hann sameinaðist enn og aftur í einhverskonar þjóðarhroka, eins og nú er ýtt undir.
III
Vandi íslenskrar þjóðar er ekki fyrst og síðast fjárhagslegur. Við erum fólk sem numið hefur land en veit ekki enn hvort það vill lifa í þessu landi. Við erum fólk sem stofnað hefur lýðveldi en veit ekki hvort það ætlar vera þjóð. Þegar við tölum um ríkið, þá meinum við ekki okkur sjálf. Við eru ekki ríkið. Við höldum lög og reglur ef annað er ekki í boði. Á ytra borði erum við borgarar í ríki en hið innra erum við utangarðsmenn. Það er innbyggt í þjóðarvitund okkar að frá öndverðu að blóta á laun, stela undan skatti og hygla okkar nánustu. Og þegar sigurvegaramenning hinnar öfgafullu frjálshyggju barst til landsins undir lok síðustu aldar þá lét glamur hennar ljúft í eyrum okkar vegna þess að okkur skorti bæði þroska og siðvit. Því fór sem fór.
Bjartur í Sumarhúsum er persónugervingur þessa vanda. Hans hús stóð uppsteypt og autt í auðninni eins og húsin í borginni okkar og sú skepna sem honum stóð fjærst var mjólkurkýrin vegna þess að hann hafði í raun ekki lyst á lífinu. Heiðin, vergangurinn og blint bjargarleysið voru örlög hans og þeirra sem voru dæmd til að binda trúss sitt við hann.
IV
Núna á meðan við, íslenskur almenningur, sitjum við skjáinn og spáum í niðurstöður kosninganna og veltum fyrir okkur framhaldi mála er baráttan um Ísland háð utan við sjónarsvið okkar. Við vitum ofur vel að við erum rænd og rupluð þjóð og við vitum að persónur og leikendur í því drama eru ekki stjórnvöld annarra landa heldur höfum við svikið okkur sjálf og hafið upp einstaklinga sem hlutu að leika okkur með þeim hætti sem raun er á. Við höfum gert blygðunarlausar eignatilfærslur í sjávarútvegi í nafni samkeppni vitandi að það var fákeppni. Kvótakerfinu var ætlað að tryggja skynsama nýtingu auðlinda og skapa öruggan rekstrargrundvöll sem öllum kæmi til góða. Fyrra markmiðinu hefur á vissan hátt verið náð en á kostnað þjóðarsamstöðunnar vegna þess að það brýtur á almennu réttlæti. Við höfum afhent útvöldum gæðingum fjármálakerfið að gjöf í nafni sömu samkeppni og uppgötvuðum m.a. ekki fyrr en eftir á að gjöfinni höfðu í ógáti fylgt þjóðargersemar helstu myndlistarmanna landsins. Því kyngdum við vitaskuld eins og öðru. Við höfum unað því vel að þúsundir samlanda okkar hafa lifað við sára fátækt fyrir augum okkar meðan á þessu öllu stóð og látið okkur vel líka. Á sama tíma hefur landið með mannauði sínum og náttúruauðlindum orðið að hugsanlegri hagkvæmri rekstrareiningu í augum aðhringja sem gjarnan hafa viljað horfa til framtíðar með okkur, virkjandi hverja sprænu og kreistandi úr bergrunninu hverja kílóvattstund sem þar mætti finna. Þjóð sem svona fer að ráði sínu á ekki skilið að eiga land. Þjóð sem veit ekki hvort hún elskar og virðir landið sitt getur ekki valdið slíkri gersemi sem Ísland er. Og hvernig á hún að standa saman þegar í raunirnar rekur þegar það eina sem hún trúir og treystir á er einstaklingurinn og séreignin? Þegar öll samskipti eru álitin vera viðskipti og ekkert annað, hvernig má þá búast við samtakamætti um nokkurn hlut nema þjóðarrembu?
V
Ég veit að mörgum sem mótmælt hafa Icesave-lögunum gengur gott eitt til. Ég er líka sannfærður um að forsetinn hefur farið að bestu samvisku í þessu máli. Indefence hópurinn meinar gott á heildina litið og raunar eru engar svarthvítar línur í mínum huga varðandi Icesave-málið því þar er sannast sagna ekkert gott og ekki hægt að gera neitt rétt. Stundum eru aðstæður þannig í lífinu að ekkert er rétt en nauðsyn krefst þess að eitthvað sé gert engu að síður. Stóri vandinn núna er hins vegar sá að baráttan um Ísland er háð utan við sjónarsvið almennings og þetta eina mál hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þeim efnum. Sömu hagsmunaaðilar og leiddu þjóðfélag okkar fram af brúninni eru sem óðast að taka við stofnunum og kerfum samfélagsins á ný. Spilavítinu hefur ekki verið lokað.
VI
Við íslendingar verðum að vakna af dvala okkar og gera upp við okkur hvort við ætlum að byggja þetta land. Við eigum það enn, auðlindir þess og okkur sjálf. Enn erum við lýðfrjálst land og höfum ekki selt frá okkur fjöreggið, þótt tæpt standi. Það þarf að lenda Icesave og það þarf að aflétta hremmingum fyrirtækjanna í landinu en um fram allt þarf að finna sanngirni gagnvart almenningi á meðal okkar þannig að byrðum sé deilt með jöfnuði. Það mun þurfa að færa niður skuldir og jafnvel gera eignatilfærslur svo að almenningur sjái tilgang með lífsbaráttu sinni. Sanngirni, heiðarleiki og hófemd eru lykilhugtök í þeirri báráttu.
Ég hefði ekki viljað þurfa að greiða atkvæði í dag undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja, vegna þess að ég óttast að atkvæði mitt verði notað til þess að rökstyðja frekari þjóðarrembu og þybbing sem skaðar ímynd okkar og eyðileggur meira en nokkur Icesave-samningur. Nú þurfum við að horfa í eigin barm og vinna sigurinn innan frá. Því segi ég nei við Icesave-lögunum með særðri samvisku og óttast að betur hefði verið heima setið en af stað farið.
Bjarni Karlsson
laugardagur, 6. mars 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Er ekki bara icesave málið dæmigert mál til að leysa með bæninni
Jú það er alveg hárrétt hjá þér, ágæti nafnlausi einstaklingur. Icesave-uppnámið er sannkallað fyrirbænarefni!
b.kv.
Bjarni Karlsson
Bjarni. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er glöð að þú ætlar að láta til þín taka. Ég trúi á hjarta þitt, hugrekki og getu til að vera sannur. Virðing, knús og kærleikur frá Dk. Mjöll
Frábær pistill!
Ég held einmitt að sagan eigi eftir að útskýra erfiða aðstöðu Jóhönnu og Steingríms í þessu máli.
Ég á erfitt með að trúa því að þetta fólk hafi tekið þá afstöðu, sem þau hafa staðið fyrir undanfarið ár, öðru vísi en að ríkar ástæður séu fyrir því.
Spurningin er síðan, hvort það séu nógu ríkar ástæður?
Með mjög góðri kveðju og þökk fyrir marga góða pistla!
Guðbjörn Guðbjörnsson
Skrifa ummæli