laugardagur, 25. desember 2010

Ef þér leiðist, elskan mín

Prédikun okkar á aðfangadegi 2010

Mig langar að segja þér sögu af íslensku þjóðinni.

Hann Guðmundur Friðjónsson skáld frá Sandi átti merka bernskuminningu tengda gamalli vinnukonu sem verið hafði á heimili hans þegar hann var barn. Hún kenndi honum að lesa og hafði til þess guðspjöllin. Eitt kvöld sat hann hjá gömlu konunni því hún var að baka flatbrauð á hlóðum og drengurinn vonaðist eftir að fá heitt brauð. Sú gamla lét drenginn snúa fífukveik í lýsiskolu og sagði honum sögu sem festist í minni hans og fylgdi honum alla ævi. Hún var um ekkjumann og tíu ára dóttur hans sem bjuggu tvö á einum afskekktasta bæ landsins norður í Keflavík í Þönglabakkasókn skömmu eftir aldamótin 1700. Þar lagðist af byggð um miðja síðustu öld og enn standa bæjartóttirnar umkringdar háum fjöllum og ólgandi íshafið úti fyrir. Er þessir atburðir urðu geisaði stóra-bóla sem svo var nefnd og enn er minnst þótt liðin séu 300 ár því mannfellir var gríðarlegur. Og gamla konan fræðir drenginn og getur þess að veikin hafi borist með mönnum en ekki loftinu, eins og sumir haldi – „frá manni til manns með andardrættinum, og svo þegar þeir kysstust. Og veikin settist að í bænum og lagðist á bóndann” sagði vinnukonan. „Bóndinn kom að máli við barnið […], - og þá var hann í sjóklæðum sínum með sjóhatt bundinn á höfuðið. Þá sagði hann eins og ekkert væri um að vera, sagði við dóttur sína: ‘Heyrðu lambið mitt! Ég hef vakað undarfarnar nætur og þarf að sofa úr mér. Ég ætla, sagði hann, að fara fram í skála og halla mér út af í skinnfötunum svo að mér kólni síður. Þú mátt ekki vekja mig, þó að ég sofi nokkuð lengi, og ekki líta til mín, ég vil hafa næði. Ég vakna, þegar minn tími er kominn. Þú veist um fífuna og lýsið og kannt að fara með ljósfæri og eld. Eldsneytið er innanbæjar, eins og þú veist, og innangengt í fjósheyið. Svo verður þú að gefa kúnni, mjólka hana á málum og brynna henni úr læknum, sem alltaf rennur innanbæjar. Og moka fjósið í lækinn. Ef þér leiðist, elskan mín, skaltu prjóna hnykilinn sem er í rúmshorninu okkar, og rekja upp aftur og aftur, og svo skaltu lesa faðir vor og þessa vísu, sem ég hef kennt þér, […] og einkanlega er gott að hafa hana yfir, ef fennir á gluggann:

Maríusonur! mér er kalt;
mjöll af skjánum taktu;
yfir mér alltaf vaktu.
Lánið bæði og lífið er valt;
ljós og myrkur vega salt.
Í lágu koti á ljóstrýrunni haltu.

En þegar bóndinn í Keflavík var búinn að hafa yfir vísuna mælti hann við dóttur sína: ‘Þú átt að muna mig um það, að fara ekki fram til mín og ekki út, þó að fenni á gluggann. Jesús tekur ofan af honum, þegar honum þóknast og þykir tími til kominn.’”

Og svo sagði gamla konan við Guðmund: ‘Bóndinn fór fram án þess að snerta á barninu. Sá hafði nú vald yfir sjálfum sér. Hann skyldi ekki kyssa barnið? Nei, hann lét það vera, hefur hugsað sem svo, að þá gæti hann andað á elskuna litlu pestinni. Þeir voru svo djúpsæir, þessi gömlu menn […] Hugsaðu þér’ sagði hún við drenginn ‘og settu þig í spor og sæti litlu stúlkunnar. Barnið situr þarna í tíu vikur við týruna í koti, sem er hálf-fennt, bíður þarna þangað til að komið er á gluggann og tekið ofan af honum. Það atvikaðist svo fólkið á Þönglabakka furðaði sig á því, að hann Hjálmar í Keflavík skyldi ekki koma til kirkju um jólin. En hann var þaulsætinn heima, og torvelt að komast til kirkju, svo það hugði, að allt gæti þó verið með felldu. En þá fóru karlmenn frá Þönglabakka í hákarl, svo þeir sáu frá sjónum heim í Keflavík, og þótti þeim það undarlegt, að ekki sást rjúka úr kotinu. Þeir réru svo þangað, og svoleiðis komst þetta upp. Og drengurinn spurði: ‘Hvað var litla stúlkan að gera þegar þegar þeir komu?’ ‘Hún var að prjóna og hafa yfir vísuna um Maríuson, þegar þeir komu á gluggann að taka ofan af honum.’ Og svo sagði gamla vinnukonan: ‘Það er ævinlega gott að kunna eitthvað til handanna og svo til munnsins, kunna gott orð og kunna að vinna; það styttir tímann og gefur ævinlega eitthvað í aðra hönd. Litla stúlkan lifði og hélt vitinu, af því hún kunni þetta og fleira. Hún gerði vel, sú litla.

Maríusonur! mér er kalt;
mjöll af skjánum taktu;
yfir mér alltaf vaktu.
Lánið bæði og lífið er valt;
ljós og myrkur vega salt.
Í lágu koti á ljóstrýrunni haltu.

Drengurinn sat með fífukveikinn tilbúinn í höndinni sem hann hafði verið að snúa svo að unnt væri að hafa ljós í bænum og gamla konan mælti að lokum: ‘Þessi saga er í aðra röndina eða undir niðri eða undir væng sagan af þjóðinni okkar, sem lifað hefur í myrkri, hálfgrafin í fönn, og lýst sér með týru á fífukveik og haldið lífi og viti vonum framar. – Sjáðu til! Tíu vikur geta táknað tíu aldir. Keflavík þýðir veiðistöð, og það er til marks, að enn er tekið svo til orða: Mér er sama í hvorri Keflavíkinni ég ræ. Það er nú sjómannamál. Og eyjan, sem við lifum á, er í fornum fræðum nefnd veiðistöð. Það er nú svo, að margur er orðaleikurinn í málinu.

Sögu sinni lýkur skáldið og segir: ‘Þetta er sagan, sem eldabuska föður míns sagði mér í rökkrinu – meðan hún bakaði flatbrauð – konan aldurhninga, sem þjónaði mér á unga aldri og kenndi mér að lesa – á guðspjöllin.”

Gætir þú fundið sterkari frásögn um vonina?

Faðirinn gefur barni sínu von. Hann gat ekki gefið henni tíma, heldur gaf hann henni verkfæri og leiðir til þess að lifa af þjáninguna og einsemdina. Og hann gaf henni Jesú! Hann gaf henni Jesú í Faðirvorinu og í versinu og í þeirri vissu að það myndi berast hjálp og að lífið héldi áfarm. Og í eftirmálanum yfirfærir gamla konan söguna á íslensku þjóðina.
Hugsið ykkur! þetta er saga sem okkur er gefin af kynslóðinni sem er farin. Við þurfum ekki að tala eins og við höfum ekki á neinu að byggja á 21. öld. Við eigum í formæðrum okkar og forfeðrum þrautseygju og samstöðu og trú sem hefur fleytt þessari þjóð yfir svo óskiljanlega erfiðleika. Við búum í veiðistöð og við höfum alltaf mátt takast á við myrkur, rysjótta veðráttu og einangrun - og við höfum alltaf átt Jesú Krist. Við höfum haldið lífi og viti vonum framar, eins og sú gamla orðaði það.

Jólin bera okkur einmitt þetta. Þau segja frá lífinu í varnarleysinu, þegar fennir á sálargluggann og við þurfum að hafa fyrir því að halda lífi og viti eins og Jósef og María, eins og stúlkan í Keflavík og eins og svo margt fólk okkar á meðal. Jólin segja okkur að einmitt þar sem mennskan er varnarlaus og ástin sterk þar fæðist fyrirheitið. Einmitt þar megum við leggja fram von okkar. Þar sjáum við að ástin og trúin er miklu meira en tilfinning, hún er siguraflið, hún er það sem bjargar og sameinar og alltaf finnur leiðir.

- ‘Ef þér leiðist, elskan mín, skaltu prjóna hnykilinn sem er í rúmshorninu okkar, og rekja upp aftur og aftur, og svo skaltu lesa faðir vor og þessa vísu, sem ég hef kennt þér, og einkanlega er gott að hafa hana yfir, ef fennir á gluggann:

Maríusonur! mér er kalt;
mjöll af skjánum taktu;
yfir mér alltaf vaktu.
Lánið bæði og lífið er valt;
ljós og myrkur vega salt.
Í lágu koti á ljóstrýrunni haltu.

Engin ummæli: