laugardagur, 25. september 2010

Fermingarfræðsla fyrir fullorðna

Það hefur sjaldan verið eins ruglandi fyrir venjulegt fólk að vera til og einmitt núna. Hvort heldur hvorft er á fjármál, dómsmál, heilbrigðismál, stjórnmál, trúmál eða önnur svið samfélagsins þá er einhvernveginn svo margt í uppnámi. En tímar breytinga og óvissu eru alltént ekki leiðinlegir. Það er þá ekki deyfðinni fyrir að fara og sýnir ekki reynslan að út úr átakatímabilum komi gjarnan frjóar og spennandi lausnir? Við erum sannfærð um að kristin trú og siður hafi t.d. ekki betra af neinu en mótlæti og kirkjan þurfi rétt eins og allar stofnanir samfélagsins að ganga í gegnum hreinsandi átök annað veifið. Trúin á Jesú Krist er ekkert letiskjól handa fólki sem vill ekki hugsa heldur skal hún vera lifandi samfélag þar sem sannleikans er leitað og aldrei sæst á ódýrar málamiðlanir. Þá fær starf kirkjunnar að vera það góða og mikilvæga mannlífstorg sem því er ætlað.

Í þessu samhengi ætlum við hjónin að bjóða upp á fermingarfræðslu fyrir fullorðna þar sem við ásamt fleirum tökum að okkur kennslu. Við erum viss um að mörgum þyki gott að rifja upp fermingarlærdóminn og reyna að móta sér sjálfstæða skoðun á því hvað þar er á ferðinni. Námskeiðin munu fara fram bæði hjá Jónu Hrönn í Vídalínskirkju og hjá Bjarna í Laugarneskirkju. Hér eru um að ræða fjögurra kvölda námskeið en fyrirkomulagið verður ögn ólíkt þótt grunnhugmyndin sé sú sama, svo að best er að vísa á heimasíður safnaðanna, gardasokn.is og laugarneskirkja.is, fyrir þau sem vilja fræðast meira um þetta.

Námskeiðið í Laugarneskirkju hefst á þriðjudagskvöldið 28.9. kl. 20:00 en námskeiðið í Vídalínskirkju í Garðabæ hefst þriðjudagskvöldið 5.10. á sama tíma. Aðgangur er ókeypis og ekki krafist neinnar fyrir fram þekkingar. Taka skal fram að þetta er í annað sinn sem fermingarfræðsla fyrir fullorðna er haldið í Vídalínskirkju og þar verður í boði framhaldsnámskeið um Lúter á sama tíma hugsað fyrir þau sem lokið hafa því fyrra.

Við hvetjum fólk til að nýta sér þetta tilboð og lofum góðri dagskrá.

Engin ummæli: