sunnudagur, 15. nóvember 2009

Hin vanheilaga þrenning meðvirkninnar

Prédikun dagsins:

I

Við erum að lifa einstaka tíma í landi okkar. Nú þegar er farið að votta fyrir því. Finnum við ekki innra með okkur að eitthvað er orðið betra? Það er eitthvað sem orðið er sannara og heilla líkt og gerist þegar búið er að tala sannleikann og ekki þarf lengur að látast. Einhverju var logið, óheilindi höfðu myrkvað augu okkar en nú er sú þoka að greiðast í sundur. Það mun taka tíma að greina blekkinguna og vinna úr skaðanum en núna vitum við það sem máli skiptir; við ætlum að hafa heiðarleikann að leiðarljósi. Þjóðfundur gærdagsins hóf heiðarleikann til vegs. Markmiðin birtust mörg og leiðirnar að þeim eru ekki færri, en yfir því öllu er staðfest yfirskrift marktæks úrtaks viti borinna og velviljaðra Íslendinga: HEIÐARLEIKI. Þetta hefði ekki orðið niðurstaða úr kappræðum hagsmunahópa, hér er komin haldbær niðurstaða úr samtali alþýðu manna.

„Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.” segir Jesús í Guðpjalli dagsins. (Matt. 15.25-30) Þannig er það alltaf með sannleikann. Spekingar og hyggindamenn allra alda horfa framhjá honum vegna þess að þeir leita sinnar eigin sérstöðu en þegar sannleikurinn birtist þá er hann almenningseign. Það er það sem gerir sannleikann svo óáhugaverðan í augum þeirra sem telja sig þekkja hann best. Sannleikurinn skapar enga sérstöðu, hann er allra.

Eitt versta samfélagsböl okkar er það þegar heiðarleikinn er horfinn, þegar traustið á milli okkar gufar upp og enginn er með neinum og hver á með sjálfan sig einan að gera. Við sem störfum með börnum vitum að þeim líður heldur betur núna í miðju efnahagshruninu heldur en þeim leið í hinum meinta uppgangi. Það er af því að þau eru heilbrigð og hafa beinni aðgang að sannleikanum. Við vorum í óðaönn að byggja heim hins einangraða manns. Stærstu og sterkustu stofnanir samfélags okkar hömuðust við að byggja múra utan um einstaklinga. Séreign var herhvöt tímans, einkahagsmunir voru dagskipunin og einstaklingshyggjan yfirskyggði allt, en nú erum við aftur hægt og bítandi að endurheimta náungann og vonina um að eiga samleið með hvert öðru. Það er þess vegna sem okkur líður skár í dag þótt við eigum erfitt með að skilja það og jafnvel að viðurkenna það. Ég trúi því að þjóðfundurinn í Laugardalshöllinni í gær marki vatnaskil. Hið góða samtal er máttugt vopn í glímunni við einsemdina sem vantraustið veldur.

II
Það er mikil mótsögn að segja það en þó er það satt að algengustu meðölin sem við notum gegn einsemd eru ekki bara virðing og opið samtal heldur finnum við okkur öll knúin til þess að beita jafnframt ásökun og sektarkennd. Tölum aðeins um ásökun og sektarkennd.

Þegar Jesús segir í guðspjalli dagsins „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld” þá er hann ekki síst að tala um erfiðið og þungann sem við berum af allri þeirri ásökun og sektarkennd sem við burðumst með í gegnum lífið. Næst á eftir einsemdinni í lífinu er þyngst að bera ásökunina og sektarkenndina og þetta þrennt; einsemdin, ásökunin og sektarkenndin, kemur jafnvel á undan fjárhags- og heilsufarsáhyggjum. Og hér er komin ástæðan fyrir því sem nefnt er meðvirknisþríhyrningurinn. Það ætti að halda námskeið í öllum skólum og á öllum vinnustöðum þar sem hin einfalda uppgötvun á meðvirknisþríhyrningnum væri kynnt.

Þú ert þátttakandi í meðvirknisþríhyrningi. Allt fólk er það með einum eða öðrum hætti. Innihald hans og einkenni er ásökun og sektarkennd og honum er viðhaldið af óttanum við einsemdina því sá sem ætlar út úr þríhyrningnum getur það ekki nema einn og yfirgefinn.
Í daglegu lífi leikum við margvísleg hlutverk. Sum þeirra eru okkur meðvituð önnur ekki. Það er alltaf til fólk í umhverfi okkar sem ekki axlar ábyrgð eða valtar yfir aðra með einhverjum hætti. Og sumt af þessu fólki elskum við og viljum fyrir alla muni hafa nálægt okkur en það er bara hægara sagt en gert vegna þess að þau ofsækja umhverfi sitt með eigin stjórnleysi meðvitað eða ómeðvitað. Hvað er þá til ráða? Hefðbundið svar við þessum vanda er ásökun. Annað hvort ákveðum við að koma ásökun okkar til skila með því að reiðast eða gerast særð og aumkunarverð í von um að hinn stjórnlausi komi til sjálfs sín og verði almennilegur. Oft virkar þetta ágætlega, þannig að þessi sem alltaf er svo stjórnlaus skammast sín eða hann óttast höfnun svo að hann vandar sig betur um skeið. Þannig má segja að ásökunin sé skjótvirkt meðal og sektarkenndin sé sterkt afl sem geti varðveitt ástvinatengsl svo að þau hverfi ekki. Eða hvað?
Þegar stjórnleysið er magnað eins og búast má við að gerist í mannlegu félagi þá dugir iðulega ekki ráðlagður dagskammtur af ásökun og sektarkennd svo að næst þegar það kemur upp verður sársaukinn og vonbrigðin meiri. Þá vaknar þriðji aðlinn í sambandinu, þriðja persónan í meðvirknisþríhyrningnum; Bjargvætturinn kemur skeiðandi út á völlinn til þess að skakka leikinn. Einhver góð manneskja sem vill fyrir alla muni að allir séu vinir hefur tekið hlutverk bjargvættarins og gerir eittvað til þess að draga úr áhrifum ofsækjandans svo að fórnarlambið verði ekki of reitt eða of aumt. Við þetta líður öllum betur og allir finna þótt þeir geti ekki sett fingurinn á það, að víst virkar ásökun og sektarkennd ef hún er bara borin uppi af nægri angist sem allir vilja halda í skefjum vegna þess að við erum svo gott fólk, svo artarlegar og almennilegar manneskjur sem ekki viljum yfirgefa hver aðra.
Svona er meðvirknisþríhyrningurinn og um hann má og þarf að halda miklu lengri ræðu því að hann virkar á svo margvíslegan hátt. Munum bara að persónur þessa þríhyrings eru ofsækjandinn sem er voða vondur, fórnarlambið reiða eða aumkunarverða og bjargvætturinn sem er svo góður, og þú og ég kunnum að leika allar þessar persónur. Sannleikurinn um meðvirknisþríhyrninginn er hins vegar sá að þar er enginn einn vondur og þar er enginn bara góður en allir þátttakendur deila sameiginlegri angist sem veldur ásökun og sektarkennd og langvarandi vansæld.

III
Í guðspjalli dagsins talar Jesús við föðurinn á himnum og taktu eftir þeim upplýsingum sem hér eru gefnar milli línanna um samband föður og sonar: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.”
Hér má skilja að sá sem lærir að þekkja föðurinn gerir það í gegnum soninn. M.ö.o. að þekkja Guð er að ganga inn í samfélag föður og sonar og í því samfélagi er ekki meðvirkni. Milli Jesú og föðurins ríkir ekki ásökun og sektarkennd heldur gagnkvæm þekking og viðurkenning og mörkin á milli þeirra eru líka skýr.

Í hinni fornu Aþanasíusarjátningu er fjallað um leyndardóm þrenningarinnar og þar segir m.a.:
„En þetta er almenn trú, að vér heiðrum einn Guð í þrenningu og þrenninguna í einingu...”
- m.ö.o. það er almenn trú að í Guði er eining í fjölbreytileikanum.

Og áfram segir hin forna játning:
„...og vér hvorki ruglum saman persónunum né greinum sundur veruna.
Því að ein er persóna föðurins, önnur sonarins, önnur heilags anda.
En guðdómur föður, sonar og heilags anda er einn, jöfn er dýrð þeirra og hátignin jafneilíf.”
- m.ö.o. það er almenn trú að í Guði eru persónumörk allra varðveitt og virt og þar ríkir jöfnuður með persónum.

Sérðu þvílíkt haf er á milli meðvirknisþríhyrningsins og innar heilögu þrenningar? Áttar þú þig á því hverskonar lýðheilsu-hagsmunir eru hér á ferð?

Í hinni vanheilögu þrenningu meðvirkninnar greina menn ekki á milli sjálfs sín og annarra heldur reynir hver að hafa áhrif á gjörðir hinna en stjórnar ekki sjálfum sér. Í samfélagi heilagrar þrenningar eru persónumörkin aftur varðveitt skýr og klár og þar ríkir sjálfsstjórn og gagnkvæmt samþykki.

Í hinni vanheilögu þrenningu meðvirkninnar er samheldnin varðveitt undir þrýstingi ásökunar og sektarkenndar í stöðugum ótta við einsemdina en í heilagri þrenningu er eining í fjölbreytileikanum og hún varðveitist vegna þess að persónur þrenningarinnar velja að elska.

Hin góða frétt kristinnar trúar er sú að okkur dauðlegum mönnum er boðin hlutdeild í guðlegu eðli. Við megum þiggja það sem Jesús talar um við föðurinn er hann segir í bæninni sem nefnd hefur verið æðstaprestsbænin: "Ég bið [...] að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig.” (Jóh. 17.20-21)

Okkur býðst að tileinka okkur það samskiptamunstur sem heilög þrenning lýsir. Við þurfum ekki að styðjast við ásökun og sektarkennd sem viðheldur vansæld heldur megum við sem einstaklingar og sem þjóð ganga inn í hvíldina í Jesú Kristi, kveðja meðvirknina og iðka hið nýja samtal þar sem fjölbreytileikanum er fagnað í einingu.

Guð blessi Ísland.

Amen.

Engin ummæli: