Bjarni Karlsson skrifar:
Ég fæddur árið 1963 og man Sólheimana þar sem foreldrar mínir búa enn þegar gatan var ómalbikuð. Ég ólst upp í borginni þegar ennþá ískraði í bremsunum á strætó og sundlaugaverðir voru undanteknignarlaust harðir í horn að taka. Ég man þegar bílar voru ennþá teikaðir og þegar Hallærisplanið var og hét. Í mínum huga er borgin Reykjavík djúpur og margræður veruleiki, hún geymir mínar dýpstu minningar, hún umlykur hversdag minn og þar sé ég framtíð afkomenda minna. Ef ég segði þér að ég elskaði Reykjavík væri það yfirborðstal. Ég veit ekki hvort hægt er að elska borg. Þó er hún fóstra okkar flestra og frá blautu barnsbeini mætti hún okkur með götum sínum, görðum og húsasundum. Leikskólarnir og róló urðu hluti af veruleika okkar ásamt skólum og íþróttafélögum að ógleymdum sundlaugunum og þeirra vörðum, konunum á bókasafninu og strætóbílstjórunum – upp til hópa voru þetta starfsmenn Borgarinnar sem mótuðu okkur og gáfu okkur hugmyndir um heiminn. Og þegar kirkjuklukkurnar hrindu í hverfinu og minnti á Guð eða almannavarnaflautan blés og minnti á kjarnorkusprengjuna þá lagði barnssálin við hlustir.
Núna finn ég nokkuð til í minni Reykvísku sál. Ég blygðast mín gagnvart Borginni þegar ég horfi á hálfkláruð stórhýsi gína yfir lágreistri byggð og rústaða byggingareiti standa myrkvaða í vetrarkkuldanum. En þó er líka yfir svo mörgu að gleðjast. Það er t.d. almennt gott að vera barn í Reykjavík í dag þótt ýmsar blikur séu á lofti. Ég veit það úr Laugarneshverfi þar sem ég hef lifað og starfað sem sóknarprestur síðustu 12 árin, að börnunum og unglingunum líður betur í dag en þeim leið fyrir nokkrum misserum þegar hinn meinti uppgangur var og hét. Fólk fer sér hægar, andráin er ókunnugir horfast í augu hefur lengst og gildi þess að búa í góðu hverfi sem maður hlúir að er öllum ljósara en áður.
Framundan eru óvissutímar. Þegar erfiðleikar steðja að gerist ýmist að fólk hopar og einangrast eða stígur fram og þéttir hópinn. Stemmningin í aðdraganda hrunsins var andrúm hins staka manns. Því var trúað að þegar öllu væri á botninn hvolft væri maður alltaf einn og að hver væri sjálfum sér næstur í heim kaldra lögmála markaðarins. Ólán eins var hans eigin vandi og velgengni skyldu menn líka þakka sjálfum sér einum. Nú vitum við betur.
Uppbygging samfélags okkar mun ekki ráðast í bönkum hún ræðst í því samtali sem við eigum sem þjóð og af þeim gildum sem við hefjum til vegs á meðal okkar.
Augun sem horfa á land okkar mannauð þess og náttúru sem hugsanlega rekstrareiningu, þau köldu augu sem nú gína yfir lífi okkar og hafa vísað okkur á þann stað sem við erum munu ekki greina lausnir í almanna þágu. Nú þarf skapandi lausnir, frjálsa hugsun, óbuguð hjörtu. Nú reynir á nýjar aðferðir þekkingu og getu til að standa í fæturna í þágu hins góða lífs. Til þeirrar baráttu býð ég mig fram með þátttöku í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninganna 2010. Ég hafna því að horfa á krumlur fátæktarinnar læsa sig um líf hinna ólánsömu sjá umhverfi barna í skólum og tómstundum hraka eða aldraða lifa við vansæmd á ævikvöldi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli