miðvikudagur, 13. janúar 2010

Fötlun og heilsa

Bjarni Karlsson skrifar:

Ég ætla að leyfa mér að nota þennan vettvang til þess að segja frá því sem mér liggur helst á hjarta í tengslum við framboð mitt í 3. - 4. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna 2010.

Eitt af brýnustu verkefnum borgarinnar eru málefni fatlaðra og nú vil ég ræða það stuttlega:

Hugsun mín er ég nálgast málefni fatlaðra tengist ekki fötlun einstaklinganna heldur heilsu þeirra, krafti og tækifærum. Ég hef árum saman fylgst með körftugu starfi ÖBÍ og ýmissa aðildarfélaga þess og tek heilshugar undir það grundvallar atriði sem kemur fram í kröfunni „Ekkert um okkur án okkar.”

Nú eru þeir merkilegu tímar að fatlaðir hafa risið upp og hafnað forsjárhyggju samfélagsins og krefjast þess eins og annað fólk að hafa sjálfir með málefni sín að gera. Sannleikurinn er sá að öll erum við fötluð og öll höfum við heilsu. Við höfum m.ö.o. hvert og eitt margvíslegar takmarkanir sem við þurfum að yfirstíga í daglegu lífi og svo höfum við líka heilsu til þess að höndla.

Ég vil trúa því að dag einn verði hægt að afnema öll lög um fatlaða og setja þess í stað almenn lög um fólk og réttindi þess til að geta bjargað sér á eigin forsendum. Í sannleika er fötlun afstætt hugtak og í sjálfu sér ekkert mjög gagnlegt þar sem það lýsir skorti og takmörkunum en heilsuhugtakið tel ég mun geðþekkara og meira í ætt við veruleikann því þar er vísað til raunverulegra gæða sem allt fólk hefur yfir að ráða.

Í byrjun næsta árs munu málefni fatlaðra færast alfarið frá ríki til sveitarfélaga. Þar er mikil undirbúningsvinna þegar að baki í samvinnu milli ráðuneytis og borgar og mikið framundan. Trúi ég að fjölskyldur fatlaðra hljóti að fagna þeirri breytingu því stefnt er að því að einfalda aðkomuna fyrir notendur þjónustunnar. Er mjög brýnt að vel takist til er að þessu kemur og að við stjórnvöl velferðarmála borgarinnar sé fólk sem gengur í takti við fatlaða.

Engin ummæli: