fimmtudagur, 28. janúar 2010

Mikilvægi samstöðunnar

Í Fréttablaðinu í dag er auglýsing þar sem nafngreindir aðilar mæla með framboði mínu vegna prófkjörs Samfylkingarinnar. Mér hefur verið bent á þá staðreynd að reglur prófkjörsins gera ráð fyrir því að auglýsa megi viðburði frambjóðenda en ekki framboð þeirra sjálfra með beinum hætti, og átta ég mig á að hér hef ég farið of geyst. Ég harma það því að ég er stoltur af samframbjóðendum mínum og ætlun mín var ekki sú að skemma þá liðsheild sem við einmitt erum að skapa. Ég hef verið feginn því að tilheyra prófkjöri þar sem ekki má verja meiru en fimm hundruð þúsund krónum til framboðsins. Ég er nýliði í pólitík og hef sinnt prófkjörsbaráttunni samhliða fullu sóknarprestsstarfi og því ekki haldið úti kosningaskrifstofu eða öðru slíku. Ákvörðunin um framboðið var tekin með skömmum fyrirvara, og enda þótt ég hafi talið mig þekkja reglurnar þá yfirsást mér þetta atriði. Ég finn mig knúinn til að biðja samframbjóðendur mína afsökunar og fullvissa þá og stuðningsmenn þeirra ásamt kjörstjórn Samfylkingarinnar um að á bak við þessa auglýsingu lá ekki viðleitni til að sveigja reglur í því mikilvæga samstarfi sem prófkjör er.

12 ummæli:

Kristín Þórunn sagði...

Takk fyrir þessa yfirlýsingu Bjarni. Hún skýrir að mínu mati það sem gerðist og bendir á hvar menn greinir á.

Tek undir þá ósk að þessi mistök verði ekki til að skemma samstöðu í prófkjörinu.

Nafnlaus sagði...

dómgreinarbrestur? Ekki góðs viti.

Nafnlaus sagði...

úbs og æææ - sorry - er heitasta setningin á Íslandi í dag.

Skorrdal sagði...

Styð þig Bjarni - en ekki þann flokk sem þú býður þig fram fyrir.

Davíð Þór sagði...

Klaufaskapur að setja ekki neðst: "... og ég býð öllum í kaffi." Þá hefði auglýsingin ekki brotið neinar reglur. Annars er algjör synd að sjá á eftir þér út í pólitík. Það liggur við að ég óski þér engrar velgengni á þeim veittvangi, því þátttaka í henni hefur sýnt sig að vera mannskemmandi. Vonandi veistu þó hvað þú ert að gera.

Réttar reglur sagði...

Í íþróttum væri þetta rautt spjald og brottrekstur.

Unknown sagði...

Ég tek undir það sem kemur fram hér að framan: Takk fyrir skýringarnar þínar. Ég vona að sama skapi að allir átti sig á því að það sem mestu máli skiptir er að standa saman og bjóða fram öflugan lista sem hefur velferð að leiðarljósi.

Nafnlaus sagði...

Gott fólk í vondum flokkum...ekki gott!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst ferillinn ef einhver verður ekki byrja glæsilega. Ég skil ekki hvernig þú gast ekki þekkt grundvallarreglur þær sem menn þurfa að fara eftir. Hálf kjánalega að orði komist "Ég finn mig knúinn til",,,,, "bak við þessa auglýsingu lá ekki viðleitni til að sveigja reglur í því mikilvæga samstarfi sem prófkjör er." Áttir þú ekki við hefðir þú ekki frekar átt að nota orðið ásetningur í staðinn fyrir viðleitni. Svo þetta að finna sig knúinn til leiðir hugann óneitanlega að því að enginn virðist biðjast afsökunnar nema að vera knúinn til þess.

Andri sagði...

Hey, nafnlaus. Þegar talað er um að einhver finni sig knúinn til að gera eitthvað þá merkir það yfirleitt að viðkomandi finnur innra með sér þörf til að gera eitthvað - ekki að hann sé þvingaður til þess af aðstæðum og gegn eigin vilja. Ég get hreinlega ekki ímyndað mér betri uppruna afsökunar en einmitt slíka innri þörf. Hún ber vott um heilbrigt sálarlíf.

Ekki að það skipti nokkru einasta máli, en þó fæ ég ekki betur séð en að orðin viðleitni og ásetningur hafi nákvæmlega sömu merkingu í þessu samhengi sem þú nefnir. Ásetningur og ætlun eru náskyld orð. Ætlun og viðleitni eru jafnskyld.

Unknown sagði...

Ég varð miður mín þegar ég sá í blöðunum að þér hafði orðið á í messunni með framboðið þitt. Ég styð þig heilshugar og af okkar stuttu kynnum tel ég víst að það sé vandaverk að finna betri mann í starfið.

Bjarni B. sagði...

"Ég er nýliði í pólitík og hef sinnt prófkjörsbaráttunni samhliða fullu sóknarprestsstarfi og því ekki haldið úti kosningaskrifstofu eða öðru slíku."

Þetta eru aumar afsakanir hjá þér. Þótt þú sért nýliði þá er þetta bísna mikilvæg leikregla sem þú braust. Það er heldur ekki eins og þú sért sá eini sem ert með vinnu samhliða prófkjörinu.