mánudagur, 25. apríl 2011

Sannleikurinn rekur sig sjálfur

Páskaræðan okkar:
Verstu vonbrigði allra vonbrigða eru þau að hafa sjálfur brugðist.
Manstu þegar þú brást? Manstu hvernig það var, hvernig þér leið? Hvert og eitt okkar á slíka sögu. Sumar liggja í þagnargildi aðrar ekki. Hvernig sem sagan er og hvar sem hún er geymd þá fylgja henni margbrotnar tilfinningar. Það er svo flókið að vera manneskja.

Jenna Jensdóttir rithöfundur og kennari lifir í hárri elli og fyrir nokkrum dögum hlaut hún heiðursverðlaun samfélagsverðlauna Fréttablaðsins. Það fylgdi henni heiðríkja þegar hún tjáði sig í blaðaviðtali og greindi frá því hvernig henni hefur auðnast að varðveita hamingjuna á langri vegferð. „Ég hef alltaf vitað að andleg þjáning er meiri en líkamleg en reynt að vinna úr henni með því að finna það góða í veröldinni og gleðjast.” Segir Jenna við blaðamann og undir lok viðtalsins minnist hún gamalla vonbrigða og segir: „Ég hef ekki orðið reið þótt þjáningu hafi borið að höndum heldur hugsað að við verðum að gleðjast yfir því sem hægt er. [...] Ég man að ég skrökvaði einu sinni að ömmu minni, hún varð hrygg og sagði að þegar maður hefði skrökvað einu sinni þá væri hætta á að maður gerði það aftur. „Og það á eftir að valda þér svo miklum vandræðum, en ef þú segir sannleikann þá veldur hann þér ekki vandræðum, því hann rekur sig sjálfur.”

Þannig mælti hinn aldni fræðari og uppalandi. Sannleikurinn rekur sig sjálfur.

Saga páskanna er saga sárra vonbrigða þar sem svo margt og svo margir höfðu brugðist. Á Pálmasunnudegi hafði Jesús komið ríðandi í máttugri hógværð inn í borgina, fólkið hafði lofsungið hann og hann hafði gengið inn í musterið og tekið svo meistaralega til höndinni að enginn gat efast um réttmæti orða hans og gjörða. „Ef þessir þegja munu steinarnir hrópa!” hafði hann svarað andstæðingum sínum. En örfáum dögum hafði allt hrunið sem hrunið gat svo að ekki stóð steinn yfir steini í lífi lærisveinanna. Yfirvöld höfðu brugðist, hugmyndafræðin sem þeir treystu á hafði ekki staðist, réttvísin hafði snúist upp í andhverfu sína, viðhorf almennings hafði orðið fjandsamlegt og í fullkomnum vanmætti höfðu þeir lifað ólýsanlega martröð, fyrst í Getsemane garðinum, í hallargörðum Kaifasar og Pílatusar og svo uppi á Golgatahæð þegar krossinn var reistur og ekkert var framar sem minnti á blessun Guðs. En það sárasta af öllu sáru var vitneskja vinahópsins sem lá eins og mara á hjarta hvers og eins, þeir höfðu sjálfir brugðist.

Ástæða þess að þeir voru allir saman komnir í einu herbergi að kveldi páskadags var ekki sú að þá langaði að vera saman. Í raun langaði þá bara til að hverfa, flýja aðstæðurnar, halda áfram flóttanum sem þeir höfðu byrjað á í Getsemanegarðinum. Áður höfðu þeir verið stoltir af félagsskapnum og fundið sig vel í hlutverki sigurvegarans á fylgd með meistaranum. Nú var það óttinn sem batt þá saman, þeir voru í felum. Og Júdas... á hann var ekki minnst. Undarlegt hvernig allt getur hrunið. Hann hafði haft orð á þessum möguleika. „Mannssonurinn verður framseldur, í manna hendur, og þeir munu lífláta hann..” hafði hann sagt. Það var ekki eins og þeir hefðu ekki verið varaðir við. En þessi orð meistarans höfðu einhvern veginn aldrei náð að þeim í annríki og uppgangi daganna. Hvernig áttu þeir að taka við slíkum orðum? Þeir horfðu á nýja og nýja hópa fólks taka við boðskapnum, kraftaverk sáu þeir gerast og það var eins og sigurgangan gæti ekki endað og þeir gátu ekki varist þessari hugsun: You ‘aint seen nothing yet!
Nú batt þá óttinn. Og ekki óttinn einn heldur afkvæmi hans þrjú, reiðin, ásökunin og sektarkenndin.

„Þegar maður hefur skrökvað einu sinni þá er hætta á að maður geri það aftur. Og það á eftir að valda þér svo miklum vandræðum, en ef þú segir sannleikann þá veldur hann þér ekki vandræðum, því hann rekur sig sjálfur.”

Pétur hafði skrökvað í hallargarðinum og yfirgefið sannleikann sjálfan. Júdas hafði yfirgefið lífið. Allir höfðu þeir flúið og skilið Jesú einan eftir í höndum illgjörðarmanna. Og yfirvaldið sjálft, Pontíus Pílatus, hafði reynt að þvo hendur sínar. Sektarkenndin var lamandi og hverju hjartaslagi fylgdi ásökun, ásökun, ásökun.

Tveir úr hópnum höfðu fyrr um daginn lagt af stað áleiðis til þorpsins Emmaus. E.t.v. voru þeir bara að flýja, við vitum ekkert um það. Þá eignast þeir samferðamann sem slæst í för með þeim og spyr hvað þeir séu að ræða og þeir segja honum allt af létta, um það hvernig vonir þeirra hafi brugðist og allt snúist í höndum þeirra og hvernig leiðtogi þeirra hafi verið krossfestur og deyddur. Eftir á mundu þeir hvernig hjarta þeirra hafði brunnið, er þeir léttu á sér og hvernig orðin höfðu hitt þá er maðurinn útskýrði fyrir þeim að allt þetta hefði hlotið að gerast. -„Skilningslausu menn,” hafði hann sagt. „Skilningslausu menn svo tregir til að trúa því öllu sem spámennirnir hafa sagt fyrir um! 26Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ Og svo er þeir komu í áningarstað því það var komið kvöld og dimmt var orðið, þá tók hann brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf þeim. Það var þá sem þeir þekktu hann.
Sannleikurinn rekur sig sjálfur sagði amma hennar Jennu Jensdóttur og sú var reynsla þessara tveggja manna. Frá þeirri stundu sem þeir þekktu Jesú hvarf þeim allur ótti við myrkrið og nóttina og þeir rötuðu aftur til baka hina löngu leið inn í hóp vina sinna. Sannleikurinn rekur sig sjálfur.

Lúkas guðspjallamaður rekur söguna áfram og geinir frá því er Jesús birtist lærisveinahópnum þetta kvöld, sýnir þeim sár sín, þiggur stykki af steiktum fiski og segir loks við þau:
„Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi 47og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda.”

„Ég hef alltaf vitað að andleg þjáning er meiri en líkamleg en reynt að vinna úr henni með því að finna það góða í veröldinni og gleðjast.” Sagði Jenna í blaðaviðtalinu „Ég hef ekki orðið reið þótt þjáningu hafi borið að höndum heldur hugsað að við verðum að gleðjast yfir því sem hægt er.”

Framhald sögunnar af atburðum páskanna lýsir því hvernig lærisveinar Jesú lærðu að vinna úr þjáningunni, kveðja reiðina og þiggja fyrirgefninguna. Þau sinnaskipti byrjuðu þegar þau könnuðust við Jesú og skildu að í raun hafði ekkert gerst sem ekki hlaut að gerast. Í uppganginum höfðu þau ekki tekið sinnaskiptum heldur bara undrast og glaðst eins og við gerum öll þegar lífið leikur við okkur. Það er bara mannlegt. En lífið er líka þjáning. Þjáningin bíður allra og hefur svo margt að færa okkur. Í þjáningunni lærum við að finna það góða í veröldinni eins og Jenna bendir á. Það er alvara lífsins sem leiðir okkur að lindum fagnaðarins. „Hví eruð þið óttaslegin” spyr hinn upp risni frelsari „og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta ykkar? 39Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að.”

Þetta ákall berst íslenskri þjóð nú á páskadagsmorgni. Tími sinnaskiptanna er kominn. Tíminn til þess að þiggja fyrirgefningu er runninn upp. „það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að.” Segir frelsarinn. Það voru ekki allir jafn sekir í hópi lærisveinanna. Konurnar í hópnum höfðu t.d. engu logið, og aldrei flúið. Það höfðu ekki allir logið jafn ferlega og Pétur. Og enginn hafði svikið eins og Júdas. En lausnin var jöfn handa þeim öllum. Það er þannig með óttann, reiðina, ásökunina og sektarkenndina að hún bindur fólk saman í sársauka og slíkt getur m.a.s. bundið heila þjóð. Þegar lausnin kemur er hún líka handa öllum.

Hvernig haldið þið að það hefði farið ef lærisveinahópurinn hefði farið að vega og meta hver hefði þurft mest á fyrirgefningu að halda og hver hefði þurft að sýna mestu sinnaskiptin? Þá hefðu þau áfram verið bundin sársaukaböndum og ekki átt hlutdeild í upprisunni.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Ræðurnar ykkar fá mig til að vilja fara aftur í kirkju

Nafnlaus sagði...

Æ, þetta var fallegt. Takk.
Bjarni og Jóna Hrönn