mánudagur, 26. desember 2011

Íslenska talningin

Hér er ræða okkar hjóna á aðfangadagskvöld. Flutt bæði í Vídalínskirkju og Laugarneskirkju:

Ég kynntist einu sinni fjölskyldu í Vestmannaeyjum þar sem stór barnahópur var kominn til fullorðinsára. Þau áttu þá minningu að þegar yngsti bróðirinn fæddist var plássið í húsinu orðið meira en fullnýtt og var þá brugðið á það ráð að neðsta skúffan í kommóðunni í herbergi foreldranna var dregin út og þar var hans næturstaður fyrstu mánuði ævinnar. Og þótt það skorti fermetra í þessu fjölskylduhúsi þá hafði hvorki hann né nokkurt barnanna þá tilfinningu að þeim væri ofaukið. Enda komust þessi systkini vel til manns og hefur farnast vel í lífinu.

Nú er aðfangadagskvöld og ósjálfrátt leitar hugur allra fullorðinna inn á bernskuheimilið. Við göngum um húsakynni bernskunnar, finnum ilm þess sem var, heyrum óm liðinna daga og rifjum upp bragðið af lífinu eins og það heilsaði okkur í upphafi. Og rannsóknarspurningin í þessum leiðangri sálarinnar er líklega sú sama hjá okkur öllum: Var pláss fyrir mig?

Sagan af hinum fyrstu jólum og öllu því sem gerðist í kringum meðgöngu og fæðingu Jesú fær viðspyrnu í hverri mannlegri sál, m.a. vegna þess að hún fjallar um þessa brýnu spurningu; Er pláss fyrir barnið? Þegar Jesús hefur horft um öxl sem fulltíða maður og lagt mat á eigin uppvöxt hefur hann vitað frá fólkinu sínu að hann fæddist inn í þrengsli og plássleysi í ýmsum skilningi en jafnframt bera frásögur guðspjallanna því vitni að fullorðna fólkið í lífi hans var fólk sem kunni að skapa pláss fyrir börn.

„Sjá ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orðum þínum”, hafði María ansað englinum er hann kunngerði henni áætlun Guðs í hennar lífi. María færðist ekki undan hlutverki sínu þótt þungun hennar væri ótímabær í hennar lífssögu, eins og svo margar þunganir hafa verið ótímabærar en fólk valið að taka við barni opnum örmum.

Matteus guðspjallamaður segir söguna frá sjónarhóli Jósefs og greinir frá angist hans er hann vissi um þungun Maríu og það með að hann væri ekki faðir þessa barns. „Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.” segir orðrétt hjá Matteusi. (Matt. 1.19) Og frásögnin leiðir í ljós að Jósef átti innra líf. Hann átti eyru sem heyrðu og augu sem sáu í andlegum skilningi. Skilaboð engilsins náðu að hjarta hans og hann tók ákvörðun um að verða faðir þessa ófædda barns. Jósef, eins og svo margir feður fyrr og síðar, ákvað að standa með lífinu eins og það var, þótt það væri ekki eins og hann hefði ætlað hafa það.

Þannig voru þau hvort um sig og saman, Jósef og María, manneskjur sem kunnu að skapa lífinu pláss. Ákvarðanir keisarans breyttu engu þar um. Hjartakuldi húsráðenda í Betlehem ekki heldur. Ekki einu sinni svikráð Heródesar náðu líf þessa barns, því það átti í kringum sig fólk sem stóð sína vakt í þágu lífsins.

Eitt það besta í íslenskri menningu þykir mér vera hvernig stórfjölskyldur telja börnin sín. Íslenska talningin er ekki flókin. Hún er fræg sagan af Vestmanneyska skipstjóranum sem kom heim í ljósaskiptunum eitt kvöldið og sá krakaormana alla úti að leika sér þótt kominn væri háttatími, ákvað að láta um sig muna við uppeldið og rak þau öll inn í hús og upp í ból. Þegar komin var á ró í húsinu og húsmóðirin tók hringinn að bía á börnin fyrir svefninn ráku fleiri en eitt andlit skelkuð augu undan sænginni sem áttu bara alls ekki heima í þessu húsi en höfðu ekki þorað öðru en að hlýða kallinum í brúnni. Þessi saga er ekki bara fyndin heldur er hún sönn lýsing á því rými sem börn hafa lengi átt í okkar landi. Hún fjallar um íslensku talininguna. Þegar minningarorð eru flutt um íslenskar ættmæður eða feður eru börnin og barnabörnin ekki talin í gegnum Íslendingabók heldur með hjartanu. Kinnroðalaust kannast hver fjölskylda við sín börn og telur þau öll til tekna.

Eina bernskufrásögnin sem guðspjöllin geyma af Jesú er um það þegar hann fór með foreldrum sínum í fyrsta sinn frá Nasaret til Betlehem á páskahátíðinni og týndist þar í stórborginni. Það sem villti um fyrir foreldrum hans og seinkaði leit þeirra að honum var sú staðreynd að hann átti öruggt félagslegt umhverfi: „Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja.” greinir Lúkas frá. (Lúk 2.44)
Á þriðja degi finna þau drenginn þar sem hann situr öruggur og glaður í helgidóminum og er á tali við lærifeðurna. „Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög” segir gðspjallið „og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau. Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.

Hann var þeim hlýðinn og þau hlýddu á hann. Hér er verið að lýsa samskiptum í fjölskyldu þar sem fólk hlustar hvað á annað og reiknar hvað með öðru. Enda lýkur frásögninni með þessum orðum:

„Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.”

Náð er það sama og að hafa pláss. Náð er það að mega vera maður sjálfur. Una í eigin skinni.

Nú er heilög stund. Undarlegt hvernig hann kemur þessi friður. Ár eftir ár. Við hjónin gerðum það við undirbúning þessarar ræðu að varpa fram spurningu á Fésbókinni og inntum fólk eftir því hvað væri heilagt í þeirra huga. Mörg ummæli bárust og ljóst að fólki stendur þessi spurning nærri hjarta;
- Lífið, ástin, fæðing barns, dánarstundin, börn, barnið í okkur sjálfum, náttúran, fjölskyldan, heimilið, hjónabandið, Guð, aðfangadagskvöld, trúin, ... Einn þingeyingur, Kristín Linda Jónsdóttir, skrifaði heila hugvekju sem endar með svofelldri lýsingu á hinu heilaga: „Í samverunni með fjölskyldu eða ástvinum í frelsinu, þegar við finnum að við höfum val, þegar við rennum saman við lækinn í fjallshlíðinni, eða sameinumst barni í leik. Þegar við finnum að við höfum lagt ögn af mörkum til að bæta samfélagið okkar... eða bara í góðu hláturskasti í heita pottinum... Stundir til að staldra við, upplifa til fulls og njóta.”

Barátta Jósefs og Maríu, ákvörðunin sem lá við ankeri í hjarta þeirra, var um það að varðveita hið heilaga í lífinu og gefa því vaxtarskilyrði. Um þetta eru jólin. Þau eru sú góða frétt að gjafari lífsins leggur sjálfan sig og allt sem hans er í okkar hendur. Í fullu trausti, upp á von og óvon og án þess að horfa um öxl eitt andartak gefst Guð heiminum sem grátandi barn vafið reyfum. Og þótt nú sem fyrr sé þröngt um þetta barn, og miklir hagsmunir í húfi að yfirgnæfa ákall þess, þá á það hjörtu sem veita því rými. Fólk sem hefur augu sem sjá og eyru sem heyra og ætla sér ekkert annað en að telja öll börn, hverja lifandi sál, lífinu til tekna.

Amen.

Engin ummæli: