sunnudagur, 10. maí 2009

Ég kalla ykkur vini

Prédikun dagsins:

 

Þegar Reykjavík var ung og ómótuð skömmu fyrir þarsíðustu aldamót var ungur alskeggjaður guðfræðinemi sem tók sér það fyrir hendur að stofna kristilegt tilraunafélag með ungum drengjum sem sumir hverjir voru þekktir pörupiltar á götum bæjarins.  Fyrsti fundurinn var haldinn í svonefndu Framfarafélagshúsi við Vesturgötu 51 í janúarmánuði árið 1899 og þessi ungi guðfræðinemi var Friðrik Friðriksson. 

Í efni sem enn er óbirt en Þórarinn Björnsson guðfræðingur hefur tekið saman er þess getið að Friðrik hafði komið utan frá Danmörku að beiðni sr. Þórhalls Bjarnarsonar lektors og síðar biskups til að gera eitthvað fyrir æskulýðinn í höfuðstaðnum því hér gætti upplausnar og slæpingsháttar á götum og í húsasundum og fékk Friðrik fljótt uppnefnið vitlausi stúdentinn þar sem hann gekk um og gaf sig á tal við unga menn.  En ekki fór framhjá neinum að þessum unga stúdent fylgdi aðlaðandi andrúmsloft.  Sjálfur átti hann erfiða lífsreynslu að baki sem hafði auðmýkt hann og gefið honum innsæi í mannlegt eðli og aðstæður og honum var gefin sú náðargáfa að mæta öllu fólki af virðingu.

 „Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini” segir Jesús í Guðspjalli dagsins. 

Ég kalla ykkur vini! 

Sr. Friðrik Friðriksson átti síðar eftir að verða einhver gagnlegasta persóna aldarinnar með Íslenskri þjóð.  Ávöxturinn af starfi hans og hugsjón býr í menningu okkar, KFUM og K félögin voru stofnuð, knattspyrnufélög spruttu upp, skátastarfið átti upphaf sitt undir handarjaðri hans, kórastarf blómstraði, kvöldskólar voru settir á fót til að mennta unga og fátæka kynslóð, sumarbúðir handa börnum voru reistar úti í Íslenskum sveitum en yfir öllu því fjölþætta starfi sem óx í fótspor þessa einstaka leiðtoga var andi vináttu og virðingar. 

 „Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.” (Jóh 15.12-17)

Á þennan fyrsta fund hins kristilega unglingafélags mættu liðlega fimmtíu unglingspiltar og fór fundurinn sumpart úr böndunum þar sem ekki voru allir fundarmenn fundavanir og mátti Friðrik hafa sig allan við að halda réttum aga.  Fyrsta eiginlega fundaraðstaða félagsins varð í salarkynnum í austurenda Hegningarhússins við Skólavörðustíg sem lánað var til starfsseminnar.  Í lok mars voru meðlimir hins nýja unglingafélags orðnir 127. 

-    “Nýungin dregur þá.  Það er tilbreyting og skemmtun um leið. Bærinn er lítill og fátt er á boðstólum sem dregur þá.  Það er eitthvað frísklegt við fundina, allt einfalt og óbrotið.  Þeir finna, að velferð þeirra er borin fyrir brjósti og eru glaðir yfir því. Þeir finna að þeir eru í senn teknir sem sjálfstæðir menn og þó sem börn; þeir eru leiddir og þó er reiknað með þeim.  Þeir eru glaðir yfir því, að manngildi þeirra er viðurkennt.  Það er sem vorblær hvíli yfir hinu unga félagslífi.”  [1]  Þannig lýsti sr. Friðrik stöðu mála með eigin orðum.

 

Skiptar skoðanir voru á félagsstarfinu, sumum þótti ekki sómi að félagsmönnum þar sem þarna væru m.a. saman komin nokkur af örgustu götufíflum bæjarins auk þess sem það vakti grunsemdir að engin loforð skyldu tekin af meðlimum þessa félagsskapar við inngöngu.  En margir glöddust í hjarta sínu yfir því að sjá að verið væri að leiða unglingana á rétta braut.  Og til eru heimildir um það að kröftugur söngur sem ætíð tilheyrði á fundum hins unga félags uppörvaði fangana sem gistu Hegningarhúsið og færði birtu í sál. 

Á skírdagskvöldi þetta sama ár var haldin samkoma í Dómkirkjunni sem markaði tímamót í Íslenskri kirkjusögu. Í þá daga var ekki venja að halda altarisgöngu nema á haustin og vorin í tengslum við fermingar en Friðrik Friðriksson sá gildi þess að gefa ungum mönnum kost á því að ganga opinberlega fram til að þiggja syndaaflausn með yfirlagningu handa og meðtaka blóð og líkama Drottins.  Friðrik hafði undirbúið drengina vel og skráð þá til þátttöku sem vildu koma að altarinu.  25 til 30 piltar höfðu skráð sig en fjöldi annarra kirkjugesta kom til kirkju þetta kvöld.  Er sunginn var sálmurinn „Son Guðs ertu með sanni” spruttu drengirnir á fætur eins og einn maður og sungu við raust eins og þeir voru vanir að gera á félagsfundunum.  Friðrik lýsir viðbrögðum kirkjugesta svo:  „Söfnuðurinn horfði undrandi á og svo tóku menn smátt og smátt til að standa upp.  Og hér um bil í miðju versi voru allir staðnir upp... Sumir sögðu við mig á eftir, að þeir hefðu aldrei orðið hrifnari á ævi sinni en þá er þeir sáu drengina standa upp og hylla Drottin.” [2]

Við heyrðum lesið úr fyrra Jóhannesarbréfi þessi orð:

„Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði.” (1. Jóh. 4.10-16)

Í öllu starfi sr. Friðriks birtist sú áhersla að hver kristinn maður skyldi játa trú sína í orði og verki og ganga fram sem merkisberi sannleika og réttlætis.  Sjálfur hafði hann tekið þá skíru ákvörðun að fylgja Jesú Kristi og engin ákvörðun reis hærra og var afdrifaríkari í vitund hans og lífi.  Inn í þetta frelsi, þetta upprétta göngulag þar sem vináttan og virðingin fyrir hverri manneskju er í hávegum höfð vildi hann leiða aðra með sér.  Og hann vissi af eigin raun að besta skrefið í átt að sannri mennsku er í því fólgið að beygja kné sín fyrir almáttugum Guði.  Í stað þess að krefja ómótaðar unglingssálir um loforð eða knýja þau til að uppfylla einhver félagsskilyrði til þess að geta talist fullgild þá stóð hann sjálfur við hlið þeim og laut frelsara sínum í heilagri kvöldmáltíð. Hlið við hlið stóð þessi sundurlausi hópur og þáði gjöf frelsarans Jesú, sáttargjörðina í  líkama hans, vináttuna í nærveru hans og réttlætið sem fylgir nafni hans hvar sem það er nefnt og tignað. 

Frá þessu skírdagskvöldi fyrir 110 árum skapaðist sú venja að kirkjugestir rísi á fætur er sunginn er sálmurinn „Son Guðs ertu með sanni” og jafnframt varð sá siður útbreiddur að bjóða til altaris í kirkjum landsins kvöldið sem Jesús stofnaði heilaga kvöldmáltíð. 

„Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini...” 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er enn og verður um aldir alda.  Amen.

 

Textar:  5Mós 1.29-33, 1Jóh 4.10-16, Jóh 15.12-17

 

 [1] FF Rvik 1933, 48-49

[2] FF Rvik 1933, 51

1 ummæli:

Þórkatla Snæbjörnsdóttir sagði...

Ég var að horfa á Sjálfstætt fólk áðan þar sem að þú komst fram. Ég vil taka ofan fyrir þér. Þú sagðir hlutina skýrt og frá hjartanu.