sunnudagur, 30. ágúst 2009

Hrafnfundna land

prédikun okkar 30. ágúst 2009 í Vídalíns- og Laugarneskirkju.

Höf.: Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson


I
Djúpt í vitund þessarar þjóðar býr reiði gegn landinu sem hún á. Þeir segja ekki frá þessu ferðamannabæklingarnir og þegar fulltrúar okkar ræða við erlenda fjölmiðla örlar ekki á slíku heldur, en hver Íslendingur veit með sjálfum sér að í þjóðarsálinni bærist fleira en feginleiki og aðdáun þegar hugsað er til landsins. Þegar við tölum um klakann og skerið og staðsetjum okkur norður í ballarhafi í orði kveðnu þá eiga hugtökin sem við notum viðspyrnu í þeirri reiði sem við dyljum í garð okkar kalda lands.

Volaða land
horsælu hérvistar-slóðir,
húsgangsins trúfasta móðir,
volaða land!

Þannig ávarpaði þjóðskáldið Matthías Jochumsson fósturjörðina árið 1888 í ljóði sem hann sendi vini sínum Einari H. Kvaran ritstjóra Lögbergs í Kanada er hafís og fæðuskortur hafði þjakað þjóðina. Ljóðið var aldrei var ætlað til birtingar og uppskar slíka reiði að landinn gat vart á heilum sér tekið og átti bágt með að fyrirgefa níðið.

Hraunelda land,
hrákasmíð hrynjandi skánar,
hordregið örverpi Ránar,
hraunelda land!

Hvert erindið rekur annað í ljóðinu og öll hefjast þau á hræðilegum orðaleppum sem skáldið tileinkar landinu sem ól hann: Tröllriðna land, Hafísa land, Stórslysa land, Blóðrisa land, Vandræða land, Drepandi land, Vesæla land! Og svo lýkur hann ljóðinu með ömurlegu sjónarhorni á sjálfa helgisögn landnámsins:

Hrafnfundna land,
munt þú ei hentugast hröfnum?
Héðan er bent vorum stöfnum,
hrafnfundna land!

II
Eitt af því sem ég álít að líf mitt og starf hafi kennt mér er það að taka alltaf mark á reiði. Reiði er mikilvæg tilfinning og hún er okkur af Guði gefin til þess að við missum ekki tökin á tilverunni. Neikvæðar tilfinningar eru mikilvægar. Brunatilfinning er t.d. neikvæð en hún kemur í veg fyrir slys. Þannig er reiðin líka hagnýt ef við kunnum að hlusta á hana og nýta hana skynsamlega. Við myndum aldrei kenna börnum okkar að afneita brunatilfinningu eða svengdar- og svimatilfinningu en meðvitað og ómeðvitað höfum við kennt börnum okkar að hafna reiði sinni - og svo er okkur Íslendingum heldur aldrei kalt og þurfum enga húfu.

Þjóðin varð mjög reið Matthíasi Jochumssyni fyrir níðljóð hans um landið og var síst að skilja að skáldið sem ort hafði sjálfan þjóðsönginn gæti látið slík firn um munn sér fara, en sennilega hefur reiðin sem þar snéri að Matthíasi einmitt verið reiðin gegn sjálfu landinu sem hann leisti úr læðingi af því að skáldið þekkti innviði þjóðarsálarinnar. Það er þannig með reiðina að henni er nokk sama hvert henni er beint, bara að hún fái útrás. Því í sjálfri sér er reiðin oft heimsk og skammsýn, þótt hún sé sönn og brýn.

Í guðspjalli dagsins er Jesús að hjálpa okkur til þess að meðhöndla reiði okkar þannig að við tortímumst ekki. „Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.” segir hann. Það er eitt að reiðast og hlaupa á sig með stóryrðum og annað að eyðileggja lífið, hafna öllu réttlæti og sannleika þannig að tortímingin verði alger. „Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.” segir Jesús í guðspjalli dagsins. (Matt. 12.31ff)

Við erum langreið þjóð og við vitum það vel. Við tortryggjum náttúru landsins sem okkur finnst líka alltaf hafa verið á móti okkur. Sú stórfjölskylda er ekki til sem ekki hefur misst einhvern nákomin ofan í haf eða undir snjó. Öll stórfjölskylda móðurafa míns heitins fluttist á mölina eftir suðurlandsskjálftann skömmu fyrir aldamótin 1900 og ég ólst upp við sögurnar af þeim voðaatburðum er landið gekk í bylgjum og hvernig afasystur minni var naumlega bjargað úr bæjarrústunum að Áshóli í Holtum. Hver fjölskylda á sínar sögur af hinni viðsjálu náttúru landsins.

Reiði er alltaf tjáning á vanmætti. Reiði okkar í garð landsins og náttúru þess tjáum við með margvíslegum duldum hætti, m.a. með því að klæða okkur illa og láta alltaf eins og okkur sér ekkert kalt. Margt sem tengist einhverju þjóðlegu höfum við líka gert að kjánaskap eða þvingun:
Á 17. júní syngjum við „hæ, hó jibbí jei!” og fjallkonan í múnderingu prílar upp á pall að lesa ljóð eftir löngu dauðan kall. Fánalögin okkar eru svo stíf að það er ekki hægt að fara eftir þeim. Niðurstaðan er sú að fáir nenna að eiga fánastöng við hús sitt og enginn getur í rauninni notað okkar fallega þjóðfána svo sem bæri. Þjóðsöngurinn okkar yndislegi er samt þannig að við höfum minnimáttarkennd gagnvart honum og fáir sem treysta sér til þess að syngja hann. Þjóðbúningur kvenna kostar mörg mánaðarlaun og er óþægilegur í að vera. Svo eru e.t.v. bara tíu manns á Íslandi sem kunna að tala Íslensku almennilega. Allt fólk er alið upp í vanmetakennd gagnvart móðurmálinu og menn keppast við að leiðrétta hver annan í málfari og stafsetningu.

Allt eru þetta einkenni reiðinnar sem vanmáttur okkar veldur. En reiðin sem hér um ræðir er líklega mikilvægur þáttur í þeim vanda sem þjóð okkar stendur andspænis í dag. Við höfum numið landið en við erum ekki búin að ákveða hvort við elskum það. Við höfum stofnað lýðveldi en við vitum ekki með vissu hvort okkur langar að vera þjóð. Þess vegna unum við ennþá spillingunni og öllum vinagreiðunum framhjá regluverki samfélagsins, svörtu atvinnunni sem nemur fjörutíu milljörðum á ári og öllu öðru sem við ástundum gegn kerfinu. Já, við tölum um kerfið og gjöldum varhug við helstu stofnunum samfélagsins og búmst ekki við réttlátri málsmeðferð á neinu sviði. Við svindlum vegna þess að við álítum að lífið sé svindl hvort eð er. - Við notum engar húfur, okkur er ekkert kalt og það skal ekki rigna!

III
„Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.”

Freistingar og synd eru af þrennum toga. Til er synd gegn líkamanum, efninu. Í annan stað er syndin gegn sálinni. En syndin sem snýr að andanum er verst og hún verður ekki fyrirgefin. Freistingafrásagan af Jesú fjallar um þetta. Eftir að Jesús hafði verið skírður í ánni Jódan var hann leiddur af andanum út í óbyggðir til þess að hans yrði freistað. Þar dvaldi hann í fjörutíu daga og nætur uns djöfullinn birtist honum og gerði þrjár atrennur að honum. Fyrst reyndi hann að freista hans til að syndga gegn líkamanum með því að fara ódýrar leiðir til að tryggja efnislegt öryggi sitt. „Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauði.” En Jesús svaraði með tilvísun í heilaga ritningu að líf mannsins væri meira en efnið eitt. Þá tók djöfullinn Jesú með sér upp á þakbrún musterisins að hann skyldi syndga gegn sálinni. Hann hvatti hann til þess að fara ódýrar leiðir í því skyni að afla sér frægðar og tryggja þannig félagslegt öryggi sitt. „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“
Syndin gegn líkamanum og sálinni á rætur í þeirri vantrú að Guð muni ekki gefa okkur það sem þarf til líkama og sálar. Í ótta okkar gerumst við gráðug og útsmogin að afla okkur efnislegra gæða og félagslegs öryggis, - peninga og frægðar. Við baktölum, blekkjum og svíkjum og olnbogumst áfram af því að við treystum ekki, trúum ekki að lífið sé okkur gefið af góðum hug. Við höfum t.d. enn varla lært að standa allsgáð í röð og bíða eftir afgreiðslu. Einu raðirnar sem þessi þjóð þolir eru raðir inná skemmtistaði þegar búið er að baða miðtaugakerfið upp úr alkahóli.

IV
Hrunið kom áður en við næðum að syndga gegn andanum. Við vorum búin að breyta steinum í brauð, - skuldum í eign - og höfðum þegar varpað okkur fram af þakbrún frægðarþorstans í trausti þess að hulin hönd markaðarins myndi bera okkur til dýrðar. Við vorum svo þægilega vafin í syndina gegn líkamanum og sálinni. Nú stóðum við á ofurháu fjalli valdsins og horfðum yfir öll ríki heims á dýrð þeirra: „Allt þetta skal ég gefa þér” sagði freistarinn „ef þú fellur fram og tilbiður mig.” (Matt. 4.1-11) Og vegna þess að við vorum orðin lyginni vön og þeirri notalegu hugsun að eftir allt væri græðgin bara öllum fyrir bestu, þá þótti okkur ekkert óþægilegt að heyra það haft eftir opinberum aðilum að eitt af hinum góðu þjóðareinkennum sem gerði okkur hæfari en aðrar þjóðir væri agaleysi okkar og það hversu óútreiknanleg við værum í viðskiptum. Já, syndin gegn andanum var farin að hreiðra um sig í fylgsnum þjóðarsálarinnar, gnýr einkaþotunnar var í hlustunum og lyktin af valdinu í nösunum þegar öllu var skyndilega kippt undan fótum okkar.

Við skyldum ekki vanmeta helgisögnina en íhuga hana og leyfa sannleika hennar að seytla ofan í sálarfylgsnin.

Nú eru nýir tímar. Nú höfum við, þessi langreiða þjóð, nýtt tækifæri til þess að þiggja græðslu og fyrirgefningu. Því synd okkar gegn líkamanum og sálinni, lastmæli okkar gegn landi og lýð, spillingin og heimskan verður fyrirgefin því allt var það í eðli sínu ekki annað en lastmæli gegn Kristi Jesú sem borið hefur alla veröld upp á krossinn.
Þessar syndir geta máðst, segir frelsari okkar í Guðspjalli dagsins. Þessi sár mega gróa ef þjóðin gerir iðrun og yfirbót og snýr sér til mín. Þessi synd var ekki synd til dauða. Enn höfðuð þið ekki syndgað gegn andanum og gefist hinum illa grímulaust á vald.

Nú skulum við biðja þess að Íslensk þjóð komi til sjálfrar sín, viðurkenni reiði sína og vanmátt og strengi þess heit að fara aldrei framar ódýrar leiðir í ótta sínum. Þá munu börn okkar eiga framtíð og þau munu elska þetta land og langa til þess að vera þjóð í hópi þjóða.

Amen.


Textar sunnudagsins:
Sálm 40.2-6
Jak 3.8-12
Matt 12.31-37

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ótrúlega skemmtilegar hugleiðingar, frábær ræða, orð í tíma töluð. Takk kærlega

Nafnlaus sagði...

Ég er að lesa þessa predikun í annað sinn. Hún er frábær ! svo sönn !