laugardagur, 8. ágúst 2009

Gleðigangan - samstaða um lífsfögnuðinn

Bjarni skrifar:
Nú hefst gleðigangan kl. 14:00 í dag. Margt hefur breyst frá því að fyrstu göngumenn héldu niður Laugaveginn fáliðaðir og fyrirlitnir. Í mínum huga er Gay pride einhver kristilegasti atburður sem á sér stað með þjóðinni. - Jól á miðju sumri þar sem krafan um réttlæti og lífsfögnuðurinn rennur saman í einn stóran farveg. Ég er viss um að stemmningin hefur verið eitthvað í þessa áttina þegar Jesús kom ríðandi á asnanum inn í Jerúsalem og fólkið tók að syngja og fagna og veifa pálmagreinum. Fulltrúar ríkjandi skipulags urðu vitaskuld smeykir og skipuð Jesú að þagga niður í múgnum, en hann svaraði: „Ég segi ykkur, ef þessir þegja munu steinarnir hrópa."

Snilld homma og lesbía að sigrast á fordómum og reiði með gleðilátum er í ætt við aðferð Jesú Krists. Hann hélt hneykslanlegar veislur og var kallaður átvagl og vínsvelgur af samtíð sinni, umsetinn af fólki sem margir álitu siðferðislega gjaldfallið. Og þegar hann var ásakaður fyrir þetta svaraði hann: Farið og nemið hvað þetta merkir: "Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir." og vitnaði þar til fornra spádómsorða í Gamla Testamenntinu. Það er kristin trú og kristinn siður að viðurkenna að lífið er fætt til að sigra, fagna og elska.

Ég ætla að skella mér í gleðigönguna og fara svo beint út í kirkju síðar í dag til að gefa saman tvö gagnkynhneigð pör. Núna trúi ég að þeir tímar séu komnir að Alþingi Íslendinga með Jóhönnu Sigurðardóttur í fararbroddi geti sameinað hjúskaparlögin svo að þau gildi jafnt fyrir alla. Þá er ég sannfærður um að Þjóðkirkjan muni koma til sjálfrar sín, kannast við frelsara sinn, og ekki skorast undan því að viðurkenna að hjónabandið er eitt, því ástin og trúfestin er ein, hvort sem við erum gagnelsk eða samelsk.

Engin ummæli: