sunnudagur, 11. október 2009

Þegar fíflunum fjölgar

Prédikun dagsins:

Mikið ferlega getur fólk farið í taugarnar á manni. Það er þannig í mannfélaginu að aftur og aftur langar mann að ausa úr skálum reiði sinnar þegar manni finnst heimska og blindni annarra blasa við. Tölum um umferðarmenninguna: Fólk sem leggur stóru fínu bílunum sínum í fatlaðra stæðin. Fólk sem reykir með börnin óbundin í aftursætinu eða þá karakterarnir sem henda rusli út um gluggann á ferð. Við getum líka talað um skattsvikin, allt þetta fólk sem sendir börnin sín í skóla og nýtir sér heilbrigðis- og samgöngukerfið eins og allir en lætur okkur hin um að halda því uppi og hrósar sér jafnvel af kænsku sinni. Eða ofsatrúarfólk sem þykist yfir alla hafið en er síðan að glíma við nákvæmlega sömu bresti og við hin, o.s.frv. o.s.frv. o.s.frv. Það er auðvelt að láta dæluna ganga þegar maður er kominn í þennan ham og hugurinn er fljótur að finna ný og ný dæmi um ávirðingar samferðarmanna sinna. Það er léttur leikur að pirrast. Í dag kemur svona gremjuleg persóna og rennir sér bókstaflega fótskriðu inn í guðspjallið beint fram fyrir fætur Jesú. Orðrétt segir: „Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
 (Guðspjallið er skráð í Mark. 10.17-27)

- Ég verð að fá að bæta hérna við ergelsislistann: Hugsum um fólkið sem leyfir sér að skammast í afgreiðslufólkinu í Bónus yfir háu vöruverði í kjölfar bankahrunsins eins og þau geti einhverju ráðið! eða þá allt fólkið sem segir að allar kirkjur séu tómar af því að það mætir ekki fyrr en það er sjálft borið inn! -

Allir sem sáu unga manninn hlaupa að Jesú með tilþrifum vissu að hann var allur á yfirborðinu. Spurning hans og atferli var fyrirfram hugsað, hann ætlaði að ná hylli meistarans og taka andlegu málin hraustlegum tökum. Í hans huga var sú hugmynd að ávinna sér eilíft líf bara raunhæf, hann hafði þá reynslu af lífinu að allt væri falt þegar búið væri að finna rétta verðmiðann.

En Jesús hugsaði ekki eins og ég og þú. Lærisveinar hans og aðrir sem í kring stóðu hafa pirrast upp og langað að lesa yfir drengnum, láta hann finna til tevatnsins og segja honum hreint út hvað hann væri óþolandi sjálflægur og fyrirsjáanlegur í hroka sínum. En Jesús tók óvæntan pól í hæðina og var ekki síður að kenna áhorfendum þegar hann segir: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.” Fólkið horfði á unga ríka manninn og hugsaði með sjálfu sér „Hversu lágt er hægt að leggjast í plebbaskapnum?” En Jesús fór ekki inn í þessa stemmningu, þess í stað steig hann inn í hringinn til mannsins með spurningu sinni, vakti athygli á því að enginn gæti álitið sjálfan sig góðan og afhjúpaði um leið þann sannleika að ungi maðurinn og fólkið í kring var allt í sama vanda, hver og einn taldi sjáfan sig standa hinum framar í andlegum þroska, allir nema Jesús. „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.” Þá svaraði ungi maðurinn og ég sé hann fyrir mér hirsta hausinn í innfjálgri sjálfumgleði er hann segir: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“


Við megum bóka að með þessu svari hafi mörgum sem í kring stóðu þótt drengurinn bíta hausinn af skömminni og þau hafa beðið eftir því að Jesús setti honum stólinn fyrir dyrnar. En Jesús horfði á hann með ástúð. Já, guðspjallamaðurinn hefur fyrir því að lýsa augnaráði Jesú séraklega. Hann horfði á hann með ástúð. Hvað er betra en finna horft á sig með ástúð? Hvað gerir mann tryggari og hamingjusamari en það að vera baðaður ástúðlegu augnaráði og vinsemd? „Eins er þér vant.” Sagði Jesús. „Vá, er mig að dreyma?!” hugsaði ungi maðurinn. „Ég get hakað við boðorðin tíu, þau eru komin á þurrt, nú er bara eitthvað eitt sem ég þarf og málið er dautt.” Hann hefur staðið á fætur og ekki getað stillt sig um að líta í kringum sig á fólkið sem fylgdist með. Hér var hann kominn, sigurvegarinn, hann sem gat svo margt já næstum allt og nú var ekki nema eitt atriði eftir á verkefnalistanum. „Láttu það koma hugsaði gæðingurinn. Skjóttu! Ég kann að taka áskorunum!” Hann naut þess hvernig meistarinn horfði á hann einan með fullri athygli og augljósu samþykki og það gat ekki farið fram hjá neinum viðstöddum að þeir tveir voru algjörlega að skilja hvor annan. - „Far þú” sagði Jesús „sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ Þá segir orðrétt í frásögn Markúsar: „En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“

Þannig lýkur viðskiptum Jesú við ríka unglinginn, eins og hann jafnan er nefndur, en frásögnin er bara hálfnuð. Þarna grípur Pétur lærisveinn boltann á lofti og segir: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér.” Og svo hefur hann horft spyrjandi á meistara sinn.

Það er svo eftirtektarvert hvað Guðspjöllin eru miskunnarlaus við lærisveinana. Oft eru menn að benda á alsskyns missagnir í atburðarás þeirra, eins og þau væru hugsuð sem nákvæm ævisaga Jesú. En það er einmitt allt ósamræmið sem er svo heiðarlegt. Guðspjallamennirnir gera enga tilraun til að samræma eitt né neitt og enn síður draga þeir fjöður yfir vandræðagang postulanna. Postularnir, þessir ellefu sem eftir stóðu þegar Júdas var búinn að kveðja hópinn, og svo bættist Páll postuli við með sína dökku fortíð, - nei myndin sem guðspjöllin og postulasagan gefa af þessum forkólfum kristninnar er ekki upphafin heldur blasa vankantar þeirra og veikleikar við öllum. Og hér fáum við að fylgjast með þeim stíga ofan í einn pyttinn.

Þeir höfðu séð Jesú afgreiða unga gæðinginn og nú vildu þeir vita stöðu sína í sambanburði við hann. Þeir vildu samanburð! Og Pétur er að tala fyrir hópinn þegar hann spyr: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“

Ég sé fyrir mér að Jesús hefur kallað þá alla til sín og hann hefur lækkað röddina og verið algerlega persónulegur þegar hann svaraði þeim: „Sannlega segi ég ykkur að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komanda heimi eilíft líf.”

Það var ekki eins og þeir hefðu ekki verið búnir að ræða þetta sín á milli. Auðvitað höfðu þeir bundið vonir við eitthvað í þessa veru. En hvernig Jesús bara orðaði þetta og lýsti því enn betur en þeir hefðu sjálfir getað gert. Þeir hafa horft hver á annan og kinkað kolli; Gott, gott að fá þetta staðfest af vörum meistarans. „En” sagði Jesús og lærisveinarnir litu upp og biðu frekari útlistana: En margir hinir fyrstu verða síðastir, og hinir síðustu fyrstir.”

Veistu af hverju tólf spor AA samtakanna eru tólf en ekki eitt? Það er útaf þessu. Ungi gæðingurinn og ungu lærisveinarnir vonuðu heitt og innilega að það væri hægt að eigna sér hlunnindi hins andlega heims. Þeir óskuðu sér þess að það væri hægt að vera fyrstur og flottastur í ríki Guðs og það ríkti heiðarleg andúð og samanburður á milli þeirra. Og þar eð ríki unglingurinn ekki gat náð þessu marki með sínum langþróuðu góðborgaralegu aðferðum þá vonuðu Pétur og félagar að afrek þeirra á sviði guðrækni og sjálfsafneitunar myndu fleyta þeim yfir hjallann, en „margir hinir fyrstu verða síðastir, sagði Jesús, og hinir síðustu fyrstir.“ M.ö.o. það er ekkert Saga Class og ekkert V.I.P. í ríki Guðs. Allir fengu þeir sömu móttökur hjá Jesú. Hann mætti þeim af staðfastri virðingu, tók mark á þrá þeirra og gerði ekki lítið úr löngunum þeirra en leiddi þá að upphafsreit hins andlega lífs. Fyrsta spor AA samtakanna og fyrsta skref trúarinnar er það að játa vanmátt sinn. Annað sporið felst í því að treysta því að æðri máttur geti megnað að gera okkur andlega heilbrigð. Þriðja sporið er sú ákvörðun að fela líf sitt og vilja í hendur Guði. Í því fjórða eru gerð rækileg og óttalaus siðferðisleg reikningsskil í eigin lífi en í fimmta spori eru misgjörðir játaðar fyrir Guði og mönnum. Sjötta sporið er þegar einstaklingur verður þess albúinn að láta Guð fjarlægja skapgerðarbresti sína en það sjöunda er bæn til Guðs um að hann framkvæmi það verk í raun. Í því áttunda skráir maður niður misgjörðir sínar gagnvart náunganum og öðlast fúsleika til að bæta fyrir þær en níunda sporið er þegar maður gengur fram í verki til þess að bæta fyrir brot sín milliliðalaust svo framarlega sem það særi engan. Tíunda sporið er stöðug sjálfrannsókn og kjarkur til að viðrukenna umsvifalaust eigin yfirsjónir. Þá lok kemur ellefta sporið sem hljóðar svo: „Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.” Þetta var það sem gæðingurinn og lærisveinarnir þráðu að eiga. Það var ekki ljótt og ekki skammarlegt. Mistök þeirra lágu í því að þeir héldu að unnt væri að stytta sér leið og taka sjálfur það sem sem Guð einn gefur. Þeir urðu að fá að reka sig á, Jesús varð að meðhöndla þá í kærleika sínum og ástúð, svo að þeir gætu hætt að reyna sjálfir að höndla hin andlegu gæði en verða þess í stað höndlaðir af Kristi og heilögum anda hans. Þá loks kemur tólfta sporið: „Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum [alkóhólistum] þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi.”

Ég hóf þessa ræðu á heimskulegri upphrópun þegar ég sagði: Mikið ferlega getur fólk farið í taugarnar á manni.

Áðan heyrðum við lesið úr Jóhannesarbréfi öllu skynsamlegri orð: „Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.” (1. Jóh. 2.10) Ég hef oft heyrt reynda AA menn segja á þessa leið: Þegar fíflunum fer að fjölga í kringum mig og fleira og fleira fer í taugarnar á mér, þá veit ég að ég þarf að huga að eigin bata.

Amen.

Engin ummæli: